Reykjavík - frávísunarkrafa, lögmæti ráðninga í stöður aðstoðarskólastjóra: Mál nr. 65/2008
Ár 2009, 5. maí er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í stjórnsýslumáli nr. 65/2008
A
gegn
Reykjavíkurborg
I. Aðild kærumáls og kröfugerð
Þann 16. september 2008 barst ráðuneytinu kæra A (hér eftir nefndur kærandi), dags. 12. september 2008, vegna Menntasviðs Reykjavíkurborgar (hér eftir nefnt Reykjavíkurborg) þar sem þess er farið á leit að ráðuneytið úrskurði um réttmæti nánar tilgreindra stöðuveitinga.
Samkvæmt kærunni er óskað úrskurðar ráðuneytisins um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að ráða kæranda ekki í neina þeirra fjögurra aðstoðaskólastjórastaða í grunnskólum Reykjavíkur sem hann sótti um. Einnig er kærð ákvörðun um ráðningu í tímabundna stöðu aðstoðarskólastjóra án auglýsingar.
Af kröfugerð kæranda og atvikum máls má ráða að kærandi krefjist þess að umræddar stöðuveitingar verði lýstar ólögmætar og/eða ógildar.
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
nr. |
1. |
Stjórnsýslukæra dags. 12. september 2008, ásamt eftirfarandi fylgigögnum:
|
||||||||
nr. |
2. |
Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 19. september 2008. |
||||||||
Nr. |
3. |
Bréf ráðuneytisins til Reykjavíkurborgar dags. 1. október 2008. |
||||||||
Nr. |
4. |
Bréf ráðuneytisins til Reykjavíkurborgar dags. 4. nóvember 2008. |
||||||||
Nr. |
5. |
Tölvupóstsamskipti milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar dags. 19. nóvember 2008 og dags. 28. nóvember 2008 vegna viðbótarfrests. |
||||||||
Nr. |
6. |
Umsögn Reykjavíkurborgar dags. 2. desember 2008 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:
|
||||||||
Nr. |
7. |
Bréf ráðuneytisins til kæranda vegna andmælaréttar dags. 10. desember 2008. |
||||||||
Nr. |
8. |
Andmæli kæranda til ráðuneytisins dags. 5. janúar 2009. |
||||||||
Nr. |
9. |
Bréf ráðuneytisins til kæranda og Reykjavíkurborgar dags. 9. janúar 2009 vegna tafa á afgreiðslu. |
||||||||
Nr. |
10. |
Bréf ráðuneytisins til kæranda og Reykjavíkurborgar dags. 4. mars 2009 vegna tafa á afgreiðslu. |
||||||||
Nr. |
11. |
Bréf ráðuneytisins til kæranda og Reykjavíkurborgar dags. 8. apríl 2009 vegna tafa á afgreiðslu. |
II. Kærufrestur og kæruheimild
Kæruheimildar er ekki getið í kæru að öðru leyti en því að vinnubrögð Reykjavíkurborgar eru talin brjóta í bága við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Í 26. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um heimild aðila máls til að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds og á það skipulag rætur í þeirri skipan sem kveðið er á um í 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar um að forseti láti ráðherrum eftir að framkvæma vald sitt og ráðherrar beri ábyrgð á allri stjórnarframkvæmd.
Í því sambandi skal vakin athygli á því að samgönguráðuneytið telst ekki vera æðra stjórnvald gagnvart sveitarfélögum í skilningi stjórnsýslulaganna, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3055/2000. Byggist það á 78. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Leiðir af þessu ákvæði sú undantekning frá 14. gr. stjórnarskrárinnar að ráðherrar beri ekki ábyrgð á þeirri stjórnarframkvæmd sem löggjafinn hefur falið sveitarfélögum enda lúta þær framkvæmdir ekki yfirstjórn hans. Heimild til að kæra ákvörðun sveitarstjórnar til ráðherra verður því ekki leidd af 26. gr. stjórnsýslulaga.
Í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 er mælt fyrir um í 103. gr. að ráðuneytið úrskurði um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Hin almenna kæruheimild vegna ákvarðana sveitarstjórna á sviði sveitarstjórnarmálefna byggist því á 103. gr. sveitarstjórnarlaga.
Ráðuneytið lítur svo á að skilyrðum þess að mál þetta sé tekið til meðferðar á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga sé fullnægt. Ekki skipti máli þó að ekki sé vísað til réttrar kæruheimildar í kæru enda telur ráðuneytið að því beri skylda til að kveða upp úrskurði í málum sem því berast vegna ákvarðana sveitarstjórna á sviði sveitarstjórnarmálefna, sbr. nefnda 103. gr.
Í 103. gr. sveitarstjórnarlaga er ekki kveðið á um sérstakan kærufrest heldur gilda ákvæði stjórnsýslulaga um það, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3055/2000 en þar segir m.a. að þótt ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga sé ekki grundvöllur kærusambands frá sveitarfélagi til ráðuneytis þá leiði það ekki til þess að önnur ákvæði stjórnsýslulaga um stjórnsýslukærur eigi ekki við um málskot á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga.
Samkvæmt framangreindu fer um kærufrest eftir ákvæðum 27. gr. stjórnsýslulaga og er þar í 1. mgr. kveðið á um hinn almenna 3ja mánaða kærufrest frá því aðila máls er tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Þá segir í 3. mgr. að þegar aðili fer fram á rökstuðning hefjist nýr kærufrestur þegar honum hefur verið tilkynntur rökstuðningur.
Af hálfu kæranda var óskað rökstuðnings fyrir ráðningum og bárust kæranda eftirfarandi bréf vegna þess, vegna Rimaskóla, rökstuðningur veittur með bréfi dags. 13. júní 2008, vegna Árbæjarskóla, rökstuðningur veittur með bréfi dags. 12. júní 2008, vegna Hlíðaskóla, rökstuðningur veittur með bréfi dags. 20. júní 2008 og vegna Vesturbæjarskóla, rökstuðningur veittur með bréfi dags. 27. ágúst 2008.
Upphaf kærufrests miðast við að bréf sem hefur að geyma kæru sé komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 5. mgr. 27. gr. Kæra í máli þessu er dags. föstudaginn 12. september 2008 og barst ráðuneytinu þriðjudaginn 16. september 2008. Ekki liggur fyrir hvaða dag kæran var afhent pósti en gera má ráð fyrir að það hafi verið annað hvort 12. eða 15. september.
Samkvæmt þessu má leiða að því líkum að kærufrestur í tilvikum ráðningar Rima- og Árbæjarskóla hafi verið liðinn þegar kæran barst ráðuneytinu en kært sé innan kærufrests hvað varðar Hlíðaskóla og Vesturbæjarskóla.
Ráðuneytið hefur þó ákveðið að taka málið í heild til úrskurðar enda er litið svo á að hagsmunir kæranda af því að fá úrlausn í málinu í heild mæli með því að allur vafi um kærufrest sé túlkaður honum í hag, sbr. og heimild 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaganna.
Óumdeilt er að kærandi er aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga.
III. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins eru málsatvik með eftirfarandi hætti.
Af hálfu Reykjavíkurborgar voru auglýstar eftirfarandi stöður aðstoðarskólastjóra.
1. Árbæjarskóli, tvær stöður aðstoðarskólastjóra skólaárið 2008 – 2009, annars vegar á yngra stigi og hinsvegar á unglingastigi. Auglýsingin var birt 27. apríl 2008 og var umsóknarfrestur til 24. maí 2008.
Leitað var að einstaklingum með:
Ø Leiðtogahæfileika
Ø Stjórnunarreynslu í skólastarfi eða framhaldsmenntun á sviði stjórnunar
Ø Yfirgripsmikla þekkingu á skólastarfi
Ø Metnað við að veita faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi
Ø Kennaramenntun
Þá kom fram að mikilvægt væri að umsækjendur hefðu skipulagshæfileika, samstarfsvilja, jákvætt viðmót og ríka þjónustulund. Einnig að forsenda væri að umsækjendur hefðu áhuga á að vinna með börnum og fjölbreyttum hópi starfsmanna auk þess sem frumkvæði og metnaður væru nauðsynleg.
2. Hlíðaskóli, staða aðstoðarskólastjóra. Auglýsingin birtist 27. apríl 2008 og var umsóknarfrestur til 13. maí 2008.
Gerðar voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:
Ø Kennaramenntun
Ø Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi
Ø Reynsla af þróunarstarfi í skólum
Ø Lipurð og færni í mannlegum samskiptum
Ø Stjórnunarhæfileikar
Ø Metnaður í starfi
3. Rimaskóli, aðstoðarskólastjóri. Auglýsingin birtist 27. apríl 2008 og var umsóknarfrestur til 13. maí 2008.
Gerðar voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:
Ø Kennaramenntun
Ø Stjórnunarhæfileikar
Ø Metnaður í starfi og áhugi á skólaþróun
Ø Lipurð og færni í mannlegum samskiptum
Ø Reynsla af kennslu og stjórnun
4. Vesturbæjarskóli, aðstoðarskólastjóri. Auglýsingin birtist 29. júní 2008 og var umsóknarfrestur til 28. júlí 2008.
Leitað var að umsækjendum sem hafa:
Ø Kennaramenntun
Ø Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar æskileg
Ø Stjórnunarhæfileikar og reynsla af stjórnun í grunnskóla
Ø Reynslu af kennslu á barnastigi
Ø Lipurð í mannlegum samskiptum
Ø Metnað í starfi og áhuga á skólaþróun
Í öllum tilvikum var farið fram á að umsóknum fylgdi yfirlit um nám og störf auk annarra gagna sem málið varðar. Þá var í þeim öllum vakin athygli á stefnu Reykjavíkurborgar um jafnan hlut kynja í störfum hjá borginni.
Með umsókn dags. 13. maí 2008 sótti kærandi um stöðu aðstoðarskólastjóra eldra stigs í Árbæjarskóla. Með umsóknum þann sama dag sótti kærandi einnig um aðstoðarskólastjórastöður hjá Hlíðaskóla, Rimaskóla og Vesturbæjarskóla.
Umsóknir kæranda um störf í Árbæjar-, Hlíða- og Rimaskóla eru að mestu leyti samhljóða. Þar er rakin menntun kæranda, starfsréttindi hans og starfsferill. Kærandi tekur fram að hann sæki um stöðuna vegna áhuga á skólamálum, metnaðar og vilja til að takast á við krefjandi starf. Hann hafi víðtæka menntun og mikla reynslu á sviði kennslu, uppeldis- og skólamála, auk tónlistastarfa. Þá útlistar hann helstu áherslur í framhaldsnámi sínu við Kennaraháskóla Íslands, s.s. þætti sem lúta að skólaþróun og stjórnun menntastofnana, námskrárfræði og mannauðsþróun. Þá hafi hann lagt áherslu á að kynna sér nýjar og gamlar stefnur í uppeldis- og menntunarfræðum í tengslum við námskrárfræði og námsefnisgerð.
Umsókn kæranda um starf í Vesturbæjarskóla er nokkuð ítarlegri hvað varðar starfsferil. Þá tekur kærandi fram að stefna skólans á sviði náms, kennslu og námsmats höfði sterkt til hans og sérstaklega sá þáttur er lýtur að vægi list- og verkgreina í skólastarfi enda hafi hann yfirgripsmikla þekkingu á því sviði. Stjórnunarstörf, störf að skólaþróun, námskrárgerð, ritstörf og tölvu- og upplýsingamennt eru ítarlegar tilgreind auk tónlistarstarfa. Auk þess eru tilgreindir meðmælendur sem geti gefið upplýsingar um nám hans og störf.
Afgreiðsla umsókna kæranda um störfin var með eftirfarandi hætti.
1. Umsókn um starf í Árbæjarskóla
Kæranda barst bréf frá skólanum þann 28. maí 2008 þar sem honum er þakkaður áhugi á starfi og upplýst um hver var ráðinn. Þá er honum leiðbeint um rétt til rökstuðnings. Með bréfi dags. 6. júní 2008 óskaði kærandi eftir upplýsingum og ítarlegum rökstuðningi fyrir ráðningunni auk samanburðar á menntun, hæfi, starfsreynslu og öðru sem tekið var tillit til við ráðninguna milli sín og þess sem ráðinn var. Kærandi vísar sérstaklega til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.
Rökstuðningur skólans barst kæranda með bréfi 12. júní sl. Þar er upplýst hver var ráðinn og á hverju sú ákvörðun byggðist með hliðsjón af því sem kom fram í auglýsingu um starfið. Ákveðið hafi verið að kalla fjóra umsækjendur í viðtal. Hafi sá sem ráðinn var verið talinn uppfylla best þau skilyrði sem gerð var krafa um í auglýsingu og þar með metinn hæfasti umsækjandinn.
2. Umsókn um starf í Hlíðaskóla
Kæranda barst bréf skólans dags. 27. maí 2008 þar sem honum var þakkaður áhugi á starfinu og tilkynnt að ráðið hafi verið í stöðuna. Þann 5. júní 2008 óskaði kærandi eftir upplýsingum og ítarlegum rökstuðningi fyrir stöðuveitingunni auk upplýsinga um fjölda umsækjenda og nafn þess sem ráðinn var. Einnig óskaði kærandi eftir samanburði á sinni menntun, hæfi, starfsreynslu og öðru því sem tekið var tillit til við ráðningu og þess sem ráðinn var. Vísaði kærandi sérstaklega til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.
Rökstuðningur barst kæranda með bréfi dags. 20. júní 2008. Þar er upplýst að alls hafi 14 umsóknir borist. Auk þess eru upplýsingar um hver var ráðinn og á hverju sú ákvörðun byggðist með hliðsjón af kröfum sem gerðar voru í auglýsingu. Margir hæfir hafi sótt um stöðuna og eftir athugun á öllum gögnum og viðtölum við þá meðmælendur sem umsækjendur bentu á hafi verið ákveðið að taka 13 í viðtal. Hafi sá sem ráðinn var verið talinn best uppfylla skilyrðin og þar með verið hæfasti umsækjandinn.
3. Umsókn um starf í Rimaskóla
Kæranda var með bréfi skólans dags. 28. maí 2008 þakkaður áhugi á starfinu. Tilkynnt var að 14 umsóknir hefðu borist og ákveðið hefði verið að ráða tiltekinn umsækjanda í stöðuna en hann hafi gegnt henni skólaárið 2007-2008. Þá var kærandi upplýstur um rétt til rökstuðnings.
Kærandi óskaði rökstuðnings með bréfi dags. 6. júní 2008 Þar vísar hann til viðtals sem hann mætti í vegna umsóknarinnar þar sem honum var tjáð að til stæði að ráða tvo aðstoðarskólastjóra. Honum hafi því komið á óvart að einungis var minnst á eina ráðningu í bréfi skólans. Kærandi óskar frekari upplýsinga og ítarlegs rökstuðnings fyrir stöðuveitingunni auk upplýsinga og útskýringa varðandi þann aðila sem ekki var minnst á. Þá óskar kærandi upplýsinga og samanburðar á sinni menntun, hæfi, starfsreynslu og öðru sem tekið var tillit til við ráðninguna og þess huldumanns sem ráðinn var í stöðuna. Kærandi vísar sérstaklega til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.
Kæranda barst rökstuðningur skólans með bréfi dags. 13. júní 2008. Þar er upplýst að 14 umsóknir hafi borist og hver var ráðinn. Færð eru rök fyrir ráðningunni með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingunni. Þá segir að fjöldi hæfra umsækjenda hafi sótt um stöðuna. Eftir athugun á öllum gögnum og viðtölum við umsagnaraðila sem umsækjendur bentu á hafi verið ákveðið að taka 5 í viðtal. Hafi sá sem ráðinn var verið talinn best uppfylla skilyrðin og þar með verið hæfasti umsækjandinn.
Í bréfi kæranda til skólans dags. 20. júní 2008 var lýst óánægju með innihald rökstuðningsins enda ekki öllu svarað sem um var beðið. Ítrekaðar voru óskir um rökstuðning og annað sem lá að baki ráðningunni. Áréttar kærandi nánar í fimm liðum hvers óskað er svara við, þ.á.m. hvers vegna ekki hafi verið minnst á ráðningu þess umsækjanda í bréfinu frá 28. maí 2008 þar sem kæranda var þakkaður áhugi á stöðunni og honum tjáð að annar hefði verið ráðinn í stöðuna. Einnig óskar kærandi upplýsinga um hvort leitað hafi verið umsagnar um hann og hafi svo verið gert er óskað upplýsinga um umsagnir og umsagnaraðila. Hafi hins vegar ekki verið leitað umsagna er óskað skýringa á hvers vegna slík mismunum var viðhöfð í ráðningarferlinu.
Svar skólans er dags. 5. ágúst 2008. Þar er upplýst hver var ráðinn í þá stöðu sem auglýst var 27. apríl 2008. Eftir þá ráðningu hafi verið ákveðið að setja á fót aðra stöðu aðstoðarskólastjóra til eins árs. Um væri að ræða tímabundna stöðu sem þyrfti ekki að auglýsa og því ekki ráðið í hana á forsendum fyrri auglýsingarinnar eða umsóknir um hana lagðar til grundvallar. Því sé ekki ástæða til að rökstyðja frekar ráðningu í þessa tímabundnu stöðu.
Þessu svaraði kærandi með bréfi dags. 7. ágúst sl. Þar kemur fram að í viðtali sem kærandi fór í vegna stöðunnar hafi honum verið tjáð að ráða ætti í tvær stöður aðstoðarskólastjóra og hafi þær upplýsingar komið fram vegna efasemda kæranda um tilgang viðtalsins þar sem starfandi aðstoðarskólastjóri hafi verið meðal umsækjenda. Telur kærandi skýringar skólans á skjön við lög og reglur og ótrúverðugt að hin tímabundna staða sé seinni tíma ákvörðun og óháð auglýsingunni um stöðuna. Þá vísar kærandi til starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar sem kveður á um að auglýsa skuli öll störf innan borgarkefisins. Með ráðningunni án auglýsingar sé brotið gegn þeim reglum auk þess sem farið er á svig við stjórnsýslulög, einkum 15., 21. og 22. gr. Ítrekaðar eru óskir um upplýsingar sem settar voru fram í fimm liðum í fyrra bréfi. Þá óskar kærandi einnig eftir að fá upplýsingar um alla 14 umsækjendurna.
4. Umsókn um starf í Vesturbæjarskóla
Með bréfi dags. 30. júlí 2008 var kæranda þakkaður áhugi á stöðunni og tilkynnt um ráðningu í stöðuna auk þess sem tilgreindur er fjöldi umsókna. Þá er leiðbeint um rétt til rökstuðnings.
Kærandi óskaði rökstuðnings með bréfi dags. 6. ágúst 2008. Er einkum óskað eftir að fram komi samanburður og mat á menntun hans og starfsreynslu við þann sem fékk stöðuna. Þá óskar kærandi upplýsinga um hvort haft hafi verið samband við umsagnaraðila og þá hverja. Tekur kærandi fram að hann þurfi ekki upptalningu á menntun þess sem ráðinn var heldur samanburð og rökstuðning fyrir því á hvern hátt það muni reynast heppilegast fyrir skólastarfið, einkum hvað varðar þá eiginleika sem koma skýrast fram í auglýsingu og starfsviðtali, þ.e. þekking á skólaþróun, skipulaginu og þátttöku í þróunarverkefnum, kunnátta og reynsla á námskrárfræðum og námsefnagerð auk þekkingar á list- og verkgreinum í samþættu skólastarfi. Auk þess óskast upplýst af hverju ekki var reynt að stuðla að breyttu kynjahlutfalli innan skólans í samræmi við jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar. Einnig óskar kærandi upplýsinga um aðra umsækjendur.
Svar skólans er dags. 27. ágúst 2008. Þar eru færð rök fyrir ráðningu í starfið með hliðsjón af þeim menntunar- og hæfniskröfum sem fram koma í auglýsingunni. Þá er upplýst að 6 umsækjendur hafi sótt um stöðuna. Eftir mat á umsóknum og framlögðum gögnum hafi verið ákveðið að boða 4 í viðtal og hafi sá sem ráðinn var þótt uppfylla best skilyrðin og þar með verið metinn hæfasti umsækjandinn.
Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna rökstuðnings og spurðist umboðsmaður fyrir um það með bréfi dags. 11. september 2008 hvað liði afgreiðslu á erindi kæranda. Umboðsmaður var upplýstur um það með bréfi skólans dags. 12. september sl. að rökstuðningur hafi verið sendur kæranda með bréfi dags. 27. ágúst 2008. Umboðsmaður lauk þar með málinu sbr. bréf dags. 19. september 2008.
Ráðuneytinu barst þann 16. september 2008 kæra, dags. 12. september 2008, þar sem kvartað er vegna framgöngu Menntasviðs Reykjavíkur og skólastjóra Hlíðaskóla, Rimaskóla, Árbæjarskóla og Vesturbæjarskóla við ráðningar í stöður aðstoðarskólastjóra.
Með bréfi dags. 19. september sl. staðfesti ráðuneytið móttöku kærunnar. Þá er upplýst að litið sé á að í erindinu felist stjórnsýslukæra samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga og að kærð sé sú ákvörðun Menntasviðs Reykjavíkurborgar að ráða kæranda ekki í neina af þeim fjórum aðstoðarskólastjórastöðum sem hann sótti um þar sem hann telji sig hafa verið hæfari en þeir sem ráðnir voru. Einnig að hann telji að skort hafi á rökstuðning skólastjóranna fyrir ráðningunum auk þess sem í eina stöðu hafi verið ráðið án auglýsingar. Jafnframt að álitaefni sé hvort skólastjóri sé hæfur til að ráða undirmann sinn. Kom fram í bréfinu að hafi kærandi athugasemdir við þennan skilning ráðuneytisins skuli hann láta þær uppi innan viku en að öðrum kosti sé litið svo á að hann sé sammála skilningi ráðuneytisins. Engar athugasemdir bárust frá kæranda við þennan skilning ráðuneytisins á kæruefni.
Ráðuneytið óskaði umsagnar Reykjavíkurborgar við framkomna kæru með bréfi 1. október 2008. Var sérstaklega óskað upplýsinga um hver hafi ráðið í auglýstar stöður, með hliðsjón af 2. mgr. 23. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995. Hafi ráðning farið fram á grundvelli ákvæðisins var óskað skýringa á því af hverju rökstuðningur kom frá skólastjórum viðkomandi skóla.
Beiðni um umsögn var ítrekuð með bréfi dags. 4. nóvember sl. Reykjavíkurborg óskaði þess í tvígang, með tölvupóstum dags. 19. nóvember og 28. nóvember, að fá frekari frest til skila umsagna og var orðið við því. Umsögn dags. 2. desember 2008 barst síðan ráðuneytinu þann 3. desember. Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar með bréfi dags. 10. desember sl. og bárust andmæli hans ráðuneytinu þann 7. janúar 2009.
Með bréfi dags. 9. janúar 2009 var bæði kæranda og Reykjavíkurborg tilkynnt að uppkvaðning úrskurðarins myndi dragast en hans væri að vænta í lok febrúar n.k. Aftur var aðilum tilkynnt um frekari drátt á afgreiðslu, með bréfi dags. 4. mars. sl. og með bréfi dags. 4. apríl sl.
Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að hann telur sig hafa uppfyllt öll skilyrði sem sett voru fram í nefndum fjórum auglýsingum um störf aðstoðarskólastjóra og vel það. Ekki hafi hins vegar verið tekið tillit til ýmissa veigamikilla þátta varðandi menntun, hæfi og starfsreynslu heldur hafi störfin verið veitt fólki með minni menntun og styttri starfsreynslu en kærandi. Þá hafi upplýsinga ekki verið aflað um kæranda og störf hans þótt það hafi verið gert í tilvikum þeirra sem ráðnir voru.
Þá telur kærandi að sér hafi ekki verið veittar fullnægjandi skýringar á af hverju honum var hafnað enda ekki settur fram samanburður á honum og þeim sem ráðnir voru varðandi alla þá þætti sem lagðir voru til grundvallar. Kemur fram hjá kæranda að það líti út sem ákveðið hafi verið fyrirfram hverjir hlytu viðkomandi stöður og auglýsingar því einungis til málamynda.
Allt þetta telur kærandi koma glögglega fram í rökstuðningi skólastjórnenda. Í þremur tilvikum hafi verið ráðinn starfsmaður skóla sem í öllum tilfellum hafi minni menntun og starfsreynslu og uppfylli tæplega skilyrði auglýsinga. Í hinu fjórða hafi engar skýringar verið gefnar. Þá hafi verið ráðið í eina stöðu án auglýsingar.
Kærandi telur stjórnsýslulög með þessu gróflega brotin auk þess sem virðist sem jafnréttislög hafi einnig verið brotin sem og starfsmannastefna borgarinnar. Er þar vísað til ráðningar í Vesturbæjarskóla en þar er einn karlmaður í starfsmannahópi og allir stjórnendur konur. Samt sé litið framhjá karli sem hafi áberandi meiri reynslu og menntun heldur en sú starfskona skólans sem valin var.
Þá hafi skólastjóri Árbæjarskóla ekki haft fyrir því að boða sig til viðtals og líti út fyrir að búið hafi verið að ákveða hver skyldi fá starfið.
Kærandi kveður þetta allt brot á starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar en þrátt fyrir það hafi það farið fram með fullu samþykki og vitneskju Menntasviðs borgarinnar. Kærandi telur vinnuaðferðir sem þessar stangast á við stjórnsýslulög, lög um jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 og almennt velsæmi opinberra aðila við veitingu í stöður og embætti.
Kærandi kveður einnig að færa megi rök fyrir því að skólastjóri sé í raun vanhæfur til að ráða undirmann sinn í auglýstar stöður enda hafi sá alltaf forskot á aðra umsækjendur. Óskar kærandi eftir að þetta verði skoðað í umfjöllun ráðuneytisins um kæruna.
Þá tekur kærandi fram að með kærunni sé ekki á neinn hátt vegið að þeim einstaklingum sem sóttu um stöðurnar heldur einungis kvartað undan vinnubrögðum stjórnvalda. Sanngjarnar leikreglur séu ekki í huga þeirra sem sjái um þessi mál enda fari ekki heiðarlegur og sanngjarn samanburður fram. Full þörf sé á að taka slík vinnubrögð sem viðhöfð séu af Menntasviði borgarinnar til athugunar og eigi það sama við um mörg önnur sveitarfélög. Kærunni sé beint að samgönguráðuneytinu sem fer með sveitarstjórnarmálefni og þess farið á leit að felldur verði úrskurður um réttmæti þeirra stöðuveitinga sem lýst hefur verið.
Í andmælum sínum lýsir kærandi óánægju með hversu seint Reykjavíkurborg skilaði greinargerð í málinu.
Hvað frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar varðar, sem fram kemur í umsögn borgarinnar, vísar kærandi til eftirlitsskyldu ráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem skýrt er kveðið á um að ráðuneytið hafi eftirlit með að sveitarstjórnir fari eftir lögum og reglum. Ekki verði annað af því séð en ráðuneytinu beri að sinna eftirlitsskyldu sinni og úrskurða um hvort og þá hvaða lög hafi verið brotin. Þá bendir kærandi á að starfsmannahald sé stór hluti af starfsemi sveitarfélaga og því verði ekki betur séð en slík mál séu sveitarstjórnarmálefni.
Um ráðningarheimildir og meint vanhæfi skólastjóra kveður kæranda sig bresta þekkingu til að fjalla um framsalsheimildir til skólastjóra, það sé ráðuneytisins að kveða á um það. Tekur kærandi fram að hann sé ekki að bera fram kvörtun vegna vinskapar eða annarra tengsla enda þekki hann ekki til slíks og erfitt kunni að vera að leggja fram sönnun um náin tengsl milli umsækjenda og skólastjóra. Hins vegar sé almenn skynsemi, siðgæðisvitund og innsæi í mannlegt eðli mælikvarði sem vert er að gefa gaum. Það kunni að orka tvímælis að skólastjóri standi að ráðningu aðstoðarskólastjóra þegar samstarfsmaður hans er meðal umsækjenda sem þá hljóti alltaf að hafa sterkari stöðu en aðrir umsækjendur. Kveðst kærandi þekkja það vel til innan skólakerfisins, eftir áratuga starf þar, að hann viti vel að mikil og góð vinátta skapast iðulega milli fólks sem þar vinnur enda sé það einn af grunnþáttum góðrar skólamenningar að svo sé og ekkert við það að athuga. Skólastjóri ætti hins vegar að gera sér grein fyrir þessu og víkja úr sæti þegar svo stendur á að samstarfsmaður sækir um til að tryggja að ákvarðanir séu hafnar yfir allan vafa um að allir umsækjendur njóti jafnræðis og sannmælis.
Um mat á umsóknum tekur kærandi fram að hann bresti þekkingu til að meta hvort sömu reglur gildi á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum stofnunum varðandi skilgreiningu á hæfnis- og menntunarkröfum. Lítið sé annað um þetta að segja en að meta verði alla á jafnréttisgrundvelli og í samræmi við gefnar forsendur í atvinnuauglýsingu og viðtali. Á því sýnist hafa orðið misbrestur í þessum tilvikum.
Matið geti ekki verið málefnalegt þegar ekki sé aflað sambærilegra gagna í öllum tilvikum og umsækjendur jafnvel ekki boðnir í viðtal þótt þeir uppfylli allar hæfniskröfur og ríflega það, sbr. Árbæjarskóli. Þá sé ámælisvert að ráða í stöðu án auglýsingar, sbr. Rimaskóli. Einnig að sniðganga jafnréttisáherslur sveitarfélags með jafn grófum hætti og gert var, sbr. Vesturbæjarskóli. Auk þess séu það heldur ekki góð vinnubrögð að svara ekki umbeðnum rökstuðningi fyrr en kvartað hefur verið, sbr. Hlíðaskóli.
Kærandi kveðst hafa sótt um umrædd störf með þeim hætti að telja það helsta upp í umsókn sem gefið gat þokkalega mynd af menntun, þekkingu á skólamálum, starfsmetnaði og fyrri störfum. Þeim sem um umsóknir fjölluðu hafi verið frjálst að afla frekari upplýsinga og hafi hann tekið það fram í viðtölum. Í engu tilviki hafi hins vegar verið haft fyrir því að kanna þetta nánar þótt það komi fram í rökstuðningi fyrir ráðningum sumra að það hafi verið gert í tilviki þess sem ráðinn var. Með þessu telur kærandi að jafnræðisregla hafi verið brotin. Vísar kærandi sérstaklega til þess að ekki var haft samband við meðmælendur sem hann benti á.
Þá fjallar kærandi um samanburð á sínu hæfi og annarra í greinargerð Reykjavíkurborgar og telur þar lítið gert úr störfum sínum og menntun. Kærandi telur ljóst að menntun hans og reynsla í skólastarfi sé mun dýpri og umfangsmeiri en annarra sem málið varðar og nefnir kærandi sérstaklega lokaprófgráðu sína sem er masterspróf í menntunarfræðum með áherslu á stjórnun. Þá ætti þriggja áratuga reynsla af fjölbreyttu skólastarfi að hafa eitthvert vægi.
Um þá fullyrðingu að kærandi hafi ekki reynslu af því að hafa mannaforráð og þar með staðið þeim sem ráðnir voru að baki vísar kærandi til þess að aðstoðarskólastjórar hafi ekki raunveruleg mannaforráð í grunnskólum. Slík forráð séu hjá skólastjóra nema hann hafi framselt það undirmanni sínum, væntanlega með formlegum og skjalfestum hætti. Engum upplýsingum um slíkt sé til að dreifa í málinu. Þá rekur kærandi nokkur þau verk þar sem hann hefur haft verkstjórn með höndum.
Þá vísar kærandi því á bug að hann hafi ekki reynslu af kennslu yngri barna eða sem umsjónarkennari og þar með ekki reynslu af foreldrasamstarfi. Hann hafi starfað sem umsjónarkennari faggreinar innan grunnskóla og komið að öllum bekkjarstigum með tilheyrandi samstarfi og samvinnu við foreldra. Þá bendir kærandi á að hann var leiðandi í starfi grunnskóla við að koma á kennslu yngstu nemenda í list- og verkgreinum og hefur þróað list- og verkgreinakennslu þessara aldurshópa frá fyrstu tíð. Í því sambandi bendir kærandi á að lokaverkefni sitt til kennaraprófs á sínum tíma fjallaði einmitt um kennslu í fyrstu bekkjum grunnskólans. Telur kærandi því allt tal um vanþekkingu og reynsluleysi á þessu sviði villandi, marklaust og sett fram gegn betri vitund.
Hvað varðar metnað í starfi og aðkomu að þróunarstarfi þá séu verk hans á því sviði aðgengileg öllum sem sé annað en hjá þeim umsækjendum sem ráðnir voru. Um þau rök fyrir ráðningu að sá sem ráðinn var aðstoðarskólastjóri Hlíðaskóla hafi sett fram skýrar hugmyndir um þróun starfs á táknmálssviði bendir kærandi á að ekkert komi fram í starfsauglýsingu að þróunarstarf á þessu sviði væri lykilatriði. Auk þess bendir kærandi á að í tilfelli Hlíðaskóla hafi verið leitað til umsagnaraðila vegna þess sem ráðinn var en ekki í tilviki kæranda þó hann hafi bent á slíka í viðtalinu. Jafnræðis hafi því ekki verið gætt.
Kærandi bendir jafnframt á að svo virðist sem ýmsum faglegum staðreyndum varðandi hann sé ýtt til hliðar, s.s vinnu við gerð Aðalnámskrár tónlistarskóla og Aðalnámskrár grunnskóla, störf fyrir menntamálaráðuneytið og Námsgagnastofnun. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að hann hafi einhverja þá skapgerðar- eða persónugalla til að bera sem gætu verið fyrirstaða ráðningar.
Kærandi kveðst enn ekki hafa fengið svar við þeirri spurningu hvort sá sem ráðinn var aðstoðarskólastjóri Rimaskóla til eins árs hafi verið meðal umsækjenda um stöðuna sem var auglýst.
Kærandi telur ekki ástæðu til að fjalla frekar um þennan þátt greinargerðar Reykjavíkurborgar og tekur fram að hann vænti þess að ráðuneytið taki hlutlægt á þessum málum og gæti við það lögmætis, réttlætis, siðgæðis og fagmennsku.
Kærandi kveðst ekkert hafa að athuga við þá fullyrðingu Reykjavíkurborgar að túlka beri menntun og hæfniskröfur rúmt. En hafa verið í huga að alla umsækjendur verði að mæla á sömu mælistikunni og á málefnalegum grundvelli. Allar kröfur sem gerðar eru komi þá fram í auglýsingu og viðtölum. Athugun á þeim ferilskrám sem liggja til grundvallar umræddum ráðningum leiði hins vegar í ljós að ekki virðist sem menntun, reynsla og hæfi sé í samræmi við auglýsingar og það sem rætt var í viðtölum.
Í starfsviðtölum hafi verið rætt um almenna hluti og spurt fyrirfram ákveðinna staðlaðra spurninga. Í rökstuðningi fyrir ráðningum sé hins vegar fjallað um allt aðra hluti og virðast kröfur um hæfi, reynslu og menntun sniðnar að þeim einstaklingum sem stöðurnar hlutu. Vísar kærandi sérstaklega í rökstuðning fyrir ráðningu Árbæjarskóla þar sem virðist hafa ráðið úrslitum þekking í náttúrufræði án þess að á það sé minnst í auglýsingu.
Telur kærandi grundvallaratriði að hann hafi ekki notið jafnræðis og Reykjavíkurborg og skólastjórar viðkomandi skóla hafi á engan hátt getað réttlætt gerðir sínar enda ekki staðið að stöðuveitingum með faglegum hætti.
V. Málsástæður og rök Reykjavíkurborgar
Af hálfu Reykjavíkurborgar er í fyrsta lagi gerð sú krafa að kærunni verði vísað frá ráðuneytinu. Byggist frávísunin á þeim grundvelli að ákvarðanir er lúta að innra skipulagi sveitarstjórnar eins og starfsmannamál falli ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 enda séu slík mál ekki þáttur í framkvæmd sveitarstjórnarmálefna.
Vísar Reykjavíkurborg til þess að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 ráði sveitarfélög sjálf málefnum sínum. Eftirlit stjórnvalda ríkisins með stjórnsýslu sveitarfélaga verði því að byggjast á lagaheimild. Telur Reykjavíkurborg að sú breyting sem gerð var á nefndu stjórnarskrárákvæði með lögum 97/1995 feli í sér að eftirlit með sveitarfélögum sé ekki lengur stjórnarskrárskylt og hafi verið dregið úr mikilvægi þess með breytingunni.
Ákvæði 103. gr. sveitarstjórnarlaga sé mjög almenn lagaheimild og af orðalagi þess leiði að eftirlitið sé skyldubundið sem felst í því að kanna hvort sveitarstjórn gegni skyldum sínum í samræmi við lög og framfylgi lögbundnum verkefnum sínum. Markmið eftirlitsins sé því að tryggja að sveitarstjórn fylgi lögum við úrlausn lögbundinna verkefna sinna.
Þá telur Reykjavíkurborg að skoða verði hvað falli undir „framkvæmd sveitarstjórnarmálefna“ til að unnt sé að ákveða umfang eftirlitsins. Er lýst þeirri skoðun borgarinnar að ekki sé hægt að álykta svo að ákvarðanir sveitarstjórnar eða yfirmanna sveitarstjórna í starfsmannamálum sem teljast til innri málefna sveitarfélaga sé þáttur í framkvæmd sveitarstjórnarmálefna og falli undir eftirlit samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Málefni er lúti að því skipulagi sem sveitarfélag notar til að framkvæma lögbundin verkefni teljist ekki sveitarstjórnarmálefni í skilningi 1. mgr. 103. gr. heldur sé þáttur í stjórnarskrárbundnum sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga. Þau málefni sem falla undir úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. séu þau málefni sem löggjafinn hefur falið sveitarfélögum að annast.
Verði ekki á fallist á frávísun byggir Reykjavíkurborg á því að við allar hinar kærðu ráðningar hafi verið gætt faglegra og málefnalegra sjónarmiða og sá umsækjandi sem ráðinn var öðrum hæfari til að gegna starfi aðstoðarskólastjóra í viðkomandi grunnskóla þegar allar hæfiskröfur eru vegnar.
Eru málsástæður Reykjavíkurborgar nánar eftirfarandi.
Ráðningarheimildir skólastjóra
Í 10. gr. sveitarstjórnarlaga er mælt fyrir um skyldu sveitarfélaga til að gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Reykjavíkurborg hefur fullnægt þeirri lagaskyldu og er gildandi samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. Samþykktin hlaut staðfestingu félagsmálaráðuneytisins 7. desember 2007 og var birt í B-deild stjórnartíðinda 19. desember 2007.
Þá vísar Reykjavíkurborg til 2. og 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga sem endurspegli meginregluna um að sveitarstjórn móti sjálf stjórnsýslu sveitarfélagsins. Í tilvitnuðum greinum sé sveitarstjórnum veitt heimild til að framselja vald til fullnaðarafgreiðslu mála til nefndar, ráðs, stjórnar eða annars aðila innan stjórnsýslunnar og er þetta almennt heimilt ef ekki er um að ræða mál er varðar fjárhag sveitarfélagsins verulega. Þessi regla hafi verið staðfest í úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 9. september 2003.
Sérstaklega sé í 56. gr. sveitarstjórnarlaga mælt fyrir um heimildir sveitarstjórnar til að haga framkvæmdum ráðninga í sveitarfélaginu eftir ákvæðum í samþykkt. Af því ákvæði leiði að sveitarstjórn er heimilt með formlegum hætti að fela öðrum aðila innan stjórnkerfisins að annast ráðningar tiltekinna starfsmanna.
Ráðningarvald skólastjóra yfir aðstoðarskólastjórum sé tilgreint með skýrum hætti í samþykkt nr. 1200/2007 með viðauka 2.4. en þar segi orðrétt í 3. gr. „Skólastjóri grunnskóla ræður aðstoðarskólastjóra, sbr. 2. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 að höfðu samráði við sviðsstjóra Menntasviðs.“
Á grundvelli heimildar í 2. og 3. mgr. 44. gr. og 2. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga hefur borgarstjóri þannig framselt fullnaðarákvörðun um ráðningu aðstoðarskólastjóra til skólastjóra með 3. gr. viðauka 2.4. við samþykkt nr. 1200/2007. Ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 mæli ekki sérstaklega gegn þessari ráðstöfun og hún því heimil að öllu leyti.
Vísað er til 1. mgr. 11. gr nýrra grunnskólalaga sem tóku gildi 1. júlí 2008 þar sem þessi aðferð er lögfest með berum orðum en þar segir: „Um ráðningu skólastjóra og starfsfólks grunnskóla fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélags eftir því sem við á.“ Þetta ákvæði gildi um ráðningu aðstoðarskólastjóra Vesturbæjarskóla en ekki hinar þrjár sem eru til umfjöllunar.
Í athugasemdum við 11. gr. með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 91/2008 segi m.a. að orðalag ákvæðisins taki mið af 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga en í mörgum sveitarfélögum séu skólastjórar meðal æðstu stjórnenda. Lagt sé til að við hvern grunnskóla skuli vera skólastjóri sem er forstöðumaður hans og beri ábyrgð á starfinu gagnvart sveitarfélaginu. Gert sé ráð fyrir að hann hafi með höndum ráðningu kennara og annars starfsliðs og að um það sé fjallað í samþykktum sveitarstjórnar sbr. 2. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga.
Ljóst sé að fullnaðarákvörðun skólastjóra um ráðningu aðstoðarskólastjóra byggist á fullnægjandi heimildum. Þar sem ráðningarvaldið hafi með lögmætum hætti verið framselt til skólastjóra sé jafnframt ljóst að ákvarðanirnar sem eru til skoðunar í máli þessu hafi verið teknar af þar til bærum aðilum og leiðir jafnframt af því að skólastjóra bar að rökstyðja ákvörðun sína skriflega þegar eftir því var óskað.
Meint vanhæfi skólastjóra
Þeirri staðhæfingu kæranda um vanhæfi skólastjóra til að taka ákvörðun um ráðningu þar sem hann sé yfirmaður umsækjanda er hafnað af Reykjavíkurborg. Um starfsmenn borgarinnar gildi reglur sem samþykktar voru í borgarráði í mars 2001 og fari um vanhæfi starfsmanna eftir þeim reglum sem gilda um vanhæfi hjá borginni. Vanhæfisreglur skv. 26. gr. samþykkta nr. 1200/2007 gildi um fulltrúa í nefndum og ráðum, svo og starfsmenn borgarinnar eftir því sem við á. Með þessu séu settar strangari vanhæfisreglur til meðferðar mála innan stjórnsýslu borgarinnar en sveitarstjórnarlög kveða á um.
Bent er á þá meginreglu stjórnsýsluréttar að starfsmaður er ekki vanhæfur til undirbúnings, meðferðar eða úrlausnar máls þótt hann sé samstarfsmaður eða yfirmaður eins af umsækjendum um starf nema milli þeirra sé sýnilega náin vinátta eða óvinátta.
Um þessa meginreglu er vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1391/1995 auk álita í málum 1310/1994 og 1508/1995. Þar komi fram að starfsmaður verði almennt ekki vanhæfur til meðferðar máls skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga þótt á meðal umsækjenda sé samstarfsmaður hans eða undirmaður nema ótvíræðar upplýsingar liggi fyrir um að náin vinátta hafi tekist með þeim. Megi af niðurstöðum draga þá ályktun að einhver sönnunargögn verði að liggja fyrir í málinu sem sanni slíka vináttu en svo sé ekki enda ekki um slíka nána vináttu að ræða.
Almennt um mat á umsóknum um stöðu aðstoðarskólastjóra
Reykjavíkurborg telur að í öllum tilvikum sem fjallað er um í máli þessu hafi verið gætt faglegra og málefnalegra sjónarmiða og sá umsækjandi valinn í hverja stöðu sem til þess var hæfastur. Bent er á að sú meginregla gildi í stjórnsýslurétti að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum ákvörðun er byggð ef annað leiðir ekki af lögum og stjórnvaldsfyrirmælum en málefnalegar forsendur verði þó alltaf að liggja til grundvallar. Ljóst sé að mat á hæfni byggist á mörgum þáttum og að mismunandi sjónarmið geti leitt til ólíkrar niðurstöðu. Í slíkum tilvikum sé innbyrðis mat nauðsynlegt og er það þá á valdi stjórnvaldsins að ákveða hvaða sjónarmið það leggur áherslu á, sbr. SUA 2000:101. Þá verði að hafa í huga meginreglu 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga en af henni megi leiða þá skýringarreglu að túlka beri svigrúm sveitarfélaga til slíkrar ákvarðanatöku rúmt.
Einnig er vísað til þess að umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum staðfest rúmar heimildir atvinnurekenda til að skilgreina menntunar- og hæfniskröfur og ákveða hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar ráðningu, svo framarlega sem þau teljast málefnaleg með hliðsjón af því starfi sem um er að ræða. Vísað er til álita í málum nr. 2202/1997, nr. 3680/2002 og nr. 4469/2005 og þau reifuð nánar.
Samanburður á hæfni kæranda og þess sem starfið hlaut
Reykjavíkurborg telur nauðsynlegt að skoða ráðningarferli og niðurstöðu í hverjum skóla fyrir sig enda hinar kærðu ákvarðanir teknar á grundvelli mismunandi auglýsinga og sjónarmiða.
Vesturbæjarskóli
Reykjavíkurborg rekur nánar starfslýsingu starfsins og hvaða menntunar- og hæfnikröfur voru gerðar. Kemur fram að alls hafi borist sex umsóknir og að skólastjóri Vesturbæjarskóla, starfsmannastjóri Menntasviðs og mannauðsráðgjafi Menntasviðs hafi annast úrvinnslu umsókna. Fjórir af umsækjendum hafi verið boðaðir í viðtöl, þ.á.m. kærandi. Skólastjóri og mannauðsráðgjafi hafi annast viðtölin og spurt fyrirfram ákveðinna spurninga. Að loknum samanburði umsókna, upplýsingum sem fram komu í viðtölum og frammistöðu þar hafi það verið samdóma álit skólastjóra, starfsmannastjóra og mannauðsráðgjafa Menntasviðs, þegar stuðst var við heildarmat, að sá sem ráðinn var væri hæfastur í starfið.
Þá er nánar lýst samanburði á hæfni kæranda og þess sem ráðinn var í samræmi við þau sjónarmið sem sett voru fram í auglýsingu en þau voru nánar eftirfarandi:
§ Kennaramenntun.
§ Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar æskileg.
§ Stjórnunarhæfileikar og reynsla af stjórnun í grunnskóla.
§ Reynsla af kennslu á barnastigi.
§ Lipurð í mannlegum samskiptum.
§ Metnað í starfi og áhuga á skólaþróun.
Menntun aðila er borin saman. Vegna kröfu um stjórnunarhæfileika og reynslu af stjórnun er rakið sérstaklega að hvaða leyti aðilar hafa haft mannaforráð og í hverju störf þeirra hafa falist. Einnig er rakin reynsla aðila af kennslu á barnastigi og þeim störfum sem slíkri kennslu fylgja. Að auki er tekið fram að sá sem ráðinn var hafi þurft að hafa mikil samskipti við nemendur, foreldra og aðra sérfræðinga þar sem reynt hafi á samskiptahæfileika og annað tengt og sé það mat skólastjóra að með störfum sínum hafi viðkomandi sýnt framúrskarandi lipurð í starfi. Til samanburðar hafi kærandi bent á að árangur hans í skólastarfi byggðist ekki síst á hæfileikum hans til góðra og árangursríkra samskipta. Hvað varðar kröfu um metnað í starfi og áhuga á skólaþróun eru rakin ýmis námskeið og störf sem aðilar hafa tekið þátt í sem og verkefni sem þeir hafa unnið að.
Þá segir að við mat á hæfni umsækjanda hafi auk þeirra sjónarmiða sem sett voru fram í auglýsingu verið lagt til grundvallar að skólinn er skóli barna á yngra barnastigi. Hafi það verið samdóma álit allra sem að ráðningunni komu að hæfni þess sem ráðinn var umfram aðra umsækjendur hafi helst falist í þeirri staðreynd að hann hafi unnið farsællega sem deildarstjóri frá árinu 2002. Í því starfi hafi hann haft mannaforráð auk þess sem hafa yfirgripsmikla reynslu af kennslu, námsmati, ráðgjöf til kennara og samstarf við foreldra á barnastigi. Kærandi hafi hins vegar ekki búið yfir sambærilegri reynslu af mannaforráðum eða starfi á barnastigi.
Ákveðið hafi verið að bjóða þeim sem var ráðinn starfið þar sem hann þótti hæfasti umsækjandinn til að gegna því á grundvelli heildarmats.
Hlíðaskóli
Fram kemur að skólinn er heildstæður grunnskóli þar sem starfrækt er táknmálssvið. Þá er nánar rakin starfslýsing aðstoðarskólastjórans og hvaða menntunar- og hæfnikröfur voru gerðar í auglýsingu. Kemur fram að alls hafi borist 14 umsóknir og að skólastjóri Hlíðarskóla, starfsmannastjóri Menntasviðs og mannauðsráðgjafi Menntasviðs hafi annast úrvinnslu umsókna. Hafi þrettán af umsækjendum verið boðaðir í viðtöl sem skólastjóri og mannauðsráðgjafi hafi annast og spurt fyrirfram ákveðinna spurninga. Að loknum samanburði umsókna, upplýsingum sem fram komu í viðtölum og frammistöðu þar hafi það verið samdóma álit skólastjóra, starfsmannastjóra og mannauðsráðgjafa Menntasviðs, þegar stuðst var við heildarmat, að sá sem ráðinn var væri hæfastur í starfið.
Þá er nánar lýst samanburði á hæfni kæranda og þess sem ráðinn var í samræmi við þau sjónarmið sem sett voru fram í auglýsingu en þau voru nánar eftirfarandi:
§ Kennaramenntun.
§ Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
§ Reynsla af þróunarstarfi í skólum.
§ Lipurð og færni í mannlegum samskiptum.
§ Stjórnunarhæfileikar.
§ Metnaður í starfi.
Menntun umsækjenda er borin saman. Varðandi kröfu um reynslu af þróunarstarfi í skólum er rakið að hvaða leyti aðilar hafa komið að slíku og hvaða verkefnum þeir hafa tekið þátt í. Þá er tekið fram að umsagnaraðilar þess sem ráðinn var hafi staðfest lipurð hans og færni í mannlegum samskiptum. Kærandi hafi bent á að árangur hans í skólastarfi byggðist ekki síst á hæfileikum hans til góðra og árangursríkra samskipta. Um stjórnunarhæfileika hafi sá sem var ráðinn nefnt þátttöku í starfi sem reyndi á slíka hæfileika auk þess sem skólastjórnendur sem starfað höfðu með honum gáfu hin bestu meðmæli. Auk þess hafi umsagnaraðilar staðfest mikinn metnað í starfi. Kærandi hafi ekki gefið upp umsagnaraðila.
Þá segir að það hafi verið samdóma álit þeirra sem að ráðningunni komu þegar stuðst var við heildarmat að sá sem ráðinn var væri hæfastur til að gegna starfinu. Við mat á hæfni hafi, auk þeirra sjónarmiða sem sett voru fram í auglýsingu, verið lagt til grundvallar að skólinn er heildstæður grunnskóli þar sem starfrækt er táknmálssvið sem þjónar heyrnarskertum og heyrnarlausum nemendum. Í ráðningarviðtölum hafi sá sem ráðinn var skarað fram úr öðrum umsækjendum með því að setja fram skýrar hugmyndir um æskilega þróun starfa á því sviði og undirbúning nemenda undir framhaldsskóla og þátttöku á vinnumarkaði. Þá hafi viðkomandi yfirgripsmikla þekkingu á starfi á báðum skólastigum auk þess sem sú breidd sem fólgin sé í framhaldsmenntun hans og starfsreynslu hafi gert hann hæfastan til að sinna starfinu. Kærandi hafi hins vegar ekki sýnt fram á reynslu í stefnumótun og stjórnun í skólastarfi sem snýr að nemendum með sérþarfir.
Ákveðið hafi verið að bjóða þeim sem var ráðinn starfið þar sem hann þótti hæfasti umsækjandinn til að gegna því á grundvelli heildarmats.
Árbæjarskóli
Fram kemur að skólinn sé einn stærsti grunnskóli landsins með bæði skólastig. Þá er nánar rakin starfslýsing aðstoðarskólastjórans og hvaða menntunar- og hæfnikröfur voru gerðar í auglýsingu. Kemur fram að alls hafi borist tíu umsóknir og að skólastjóri Árbæjarskóla, starfsmannastjóri Menntasviðs og mannauðsráðgjafi Menntasviðs hafi annast úrvinnslu umsókna. Eftir skoðun á öllum umsóknum og fylgigögnum auk viðtala við umsagnaraðila sem umsækjendur bentu á hafi fjórir umsækjendur verið boðaðir í viðtöl en kærandi hafi ekki verið þar á meðal. Skólastjóri og mannauðsráðgjafi hafi annast viðtölin og spurt fyrirfram ákveðinna spurninga. Að loknum samanburði umsókna, upplýsingum sem fram komu í viðtölum og frammistöðu þar hafi það verið samdóma álit skólastjóra, starfsmannastjóra og mannauðsráðgjafa Menntasviðs, þegar stuðst var við heildarmat, að sá sem ráðinn var væri hæfastur í starfið.
Þá er nánar lýst samanburði á hæfni kæranda og þess sem ráðinn var í samræmi við þau sjónarmið sem sett voru fram í auglýsingu en þau voru nánar eftirfarandi:
§ Leiðtogahæfileikar.
§ Stjórnunarreynsla í skólastarfi eða framhaldsmenntun á sviði stjórnunar.
§ Yfirgripsmikil þekking á skólastarfi.
§ Metnaður til að veita faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi.
§ Kennaramenntun.
Varðandi leiðtogahæfileika sé það mat skólastjóra að sá sem ráðinn var hafi sýnt sterk stjórnunarleg viðhorf og áberandi stjórnunarhæfileika. Hann hafi skýra sýn á skipulag vinnu og hafi mikla skipulagshæfileika. Einnig hafi hann sýnt mikla færni í að stýra verkefnum sem ýmsir hópar koma að. Í umsögn kæranda komi fram að hann hafi á kennaraferli sínum leitt tiltekin verkefni innan skólanna.
Hvað varðar stjórnunarreynslu í skólastarfi eða framhaldsmenntun á sviði stjórnunar þá hafi sá sem ráðinn var í nokkur ár verið fagstjóri í grunnskóla, setið í kennararáði og stýrt farhópum í tengslum við skólaþróun. Kærandi hafi setið í kennararáði, verið fagstjóri list- og verkgreina og sinnt og stýrt ýmsum þróunarverkefnum og verið verkefnastjóri auk þátttöku í fagtengdum félagsstörfum.
Um kröfu um þekkingu á skólastarfi þá hafi sá sem ráðinn var, vegna fyrri starfa sinna sem lýst hefur verið, mikla reynslu af samstarfi við foreldra og nemendur. Einnig hafi hann unnið að þróun og innleiðingu á áherslu á einstaklingsmiðað nám og samvinnu kennara. Í viðtali hafi hann lagt fram framtíðarsýn um heildstæða skólaþróun og þróun kennsluhátta. Kærandi hafi sinnt m.a. fagstjórn list- og verkgreina, setið í kennararáði og stýrt þróunarverkefnum auk þess gerð skólanámskrár og mótun og skipulag kennsluhátta í hönnun í smíði. Ekki komi fram í umsókn að hann hafi reynslu af samskiptum við foreldra.
Þá er lýst aðkomu aðila að faglegri forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi og að hvaða leyti þeir hafa komið að slíku og þátttöku í verkefnum sem því tengjast. Að auki er borin saman menntun aðila.
Eftir skoðun og samanburð umsókna hafi það verið ákvörðun þeirra sem að ráðningunni komu að boða þá fjóra umsækjendur í viðtöl sem taldir voru hafa lengsta stjórnunarreynsluna og best þóttu uppfylla kröfur sem gerðar voru til starfsins. Niðurstaða þeirra, eftir mat á viðtölum og umsóknum, hafi verið að sá sem ráðinn var hafi borið af umsækjendum. Því hafi verið ákveðið að bjóða honum starfið þar sem hann þótti hæfasti umsækjandinn til að gegna því á grundvelli heildarmats.
Reykjavíkurborg telur ástæðu til að fjalla nánar um rök kæranda fyrir því að vera hæfari til starfans en sá sem ráðinn var m.a. vegna kennara- og framhaldsmenntunar sinnar. Tekið er fram að borgin telur þessa menntun mikilvæga og þekkingu kæranda á þessu sviði góða og standi kærandi eflaust framar mörgum sem kennari. Það dugi þó ekki til að teljast hæfari til að gegna starfinu enda var ekki af hálfu Reykjavíkurborgar talin ástæða til að gera meistarapróf í menntunarfræðum að skilyrði fyrir ráðningu. Því hafi umsækjendur með slíka menntun ekki mátt ætla að vægi þeirrar menntunar teldist þeim sérstaklega til tekna umfram aðra umsækjendur. Er um þetta sjónarmið vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4469/2005. Reykjavíkurborg hafi því haft svigrúm til að meta hvað menntun og starfsreynsla myndi nýtast best í starfinu.
Rimaskóli
Fram kemur að skólinn sé heildstæður grunnskóli. Þá er nánar rakin starfslýsing aðstoðarskólastjóra eldri deildar og hvaða menntunar og hæfnikröfur voru gerðar í auglýsingu. Kemur fram að alls hafi borist fjórtán umsóknir og að skólastjóri Rimaskóla, starfsmannastjóri Menntasviðs og mannauðsráðgjafi Menntasviðs hafi annast úrvinnslu umsókna og ákveðið að bjóða fimm umsækjendum, þ.á.m. kæranda í viðtöl. Skólastjóri og mannauðsráðgjafi hafi annast viðtölin og spurt fyrirfram ákveðinna spurninga. Að loknum samanburði umsókna, upplýsingum sem fram komu í viðtölum og frammistöðu þar hafi það verið samdóma álit skólastjóra, starfsmannastjóra og mannauðsráðgjafa Menntasviðs, þegar stuðst var við heildarmat, að sá sem ráðinn var væri hæfastur í starfið.
Þá er nánar lýst samanburði á hæfni kæranda og þess sem ráðinn var í samræmi við þau sjónarmið sem sett voru fram í auglýsingu en þau voru nánar eftirfarandi:
§ Kennaramenntun.
§ Stjórnunarhæfileikar.
§ Metnaður í starfi og áhugi á skólaþróun.
§ Lipurð og færni í mannlegum samskiptum.
§ Reynsla af kennslu og stjórnun.
Borin er saman menntun kæranda og þess sem ráðinn var. Hvað varði kröfu um stjórnunarhæfileika þá liggi fyrir að sá sem ráðinn var hafi víðtæka reynslu af stjórnun í grunnskóla þar sem hann hafi starfað sem fagstjóri, deildarstjóri og aðstoðarskólastjóri skólans. Hann hafi unnið að skipulagsmálum og stefnumótun skólans allt frá upphafi og hafi langa reynslu af ráðgjöf við kennara og úrvinnslu nemendamála í samstarfi við foreldra. Til samanburðar hafi kærandi verið fagstjóri í list- og verkgreinum, setið í kennararáði og stýrt ýmsum þróunarverkefnum og verið verkefnastjóri. Þá hafi hann tekið þátt í fagtengdum sem og öðrum félagsstörfum.
Varðandi kröfu um metnað í starfi og áhuga á skólaþróun er lýst ýmsum námskeiðum aðila, störfum og þátttöku í verkefnum er þessu tengjast.
Um kröfu um lipurð og færni í mannlegum samskiptum sé það mat skólastjóra að á stjórnunarferli sínum við skólann hafi sá sem ráðinn var sýnt lipurð og færni í samskiptum. Kærandi hafi í viðtali sagst hafa átt farsæl samskipti við samstarfsfólk, foreldra og nemendur auk þess sem honum reyndist auðvelt að fá fólk í verkefni og virkja nemendur í starfi. Þá er borin saman reynsla aðila af kennslu og stjórnun.
Það hafi verið samdóma álit þeirra sem að ráðningunni komu þegar stuðst var við heildarmat að sá sem ráðinn var hafi verið hæfastur til að gegna starfinu og honum því boðið starfið.
Reykjavíkurborg þykir rétt að fjalla um ráðningu í tímabundið starf skólastjóra við Rimaskóla. Það hafi verið minnst á það við kæranda í viðtali að hugsanlega þyrfti að ráða annan aðstoðarskólastjóra án þess að það væri ljóst á þeirri stundu. Einungis hafi ein staða verið auglýst laus til umsóknar. Eftir að gengið var frá ráðningu í þá stöðu hafi komið í ljós að vegna breytinga á kennaraliði skólans skapaðist tímabundin þörf fyrir annan aðstoðarskólastjóra. Hafi skólastjórinn ákveðið að ráða tiltekinn aðila til að gegna því starfi í eitt ár. Ekki hafi þurft að auglýsa þá stöðu þar sem um tímabundna ráðningu var að ræða. Viðkomandi hafi því ekki verið ráðinn á forsendum auglýsingarinnar sem birtist þann 27. apríl 2008.
Vísað er til 1. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla um skyldur sveitarstjórnar til að halda skóla og 10. gr. þar sem kveðið er á um að rekstur sé á ábyrgð og kostnað sveitarstjórnar. Fjármagn til skóla sé ákveðið á hverju ári og skólastjóri ákveði hvernig því sé varið og hafi til þess ákveðið svigrúm sem sé nauðsynlegt t.d. vegna breytilegs nemendafjölda sem og samsetningar kennara og þekkingar þeirra. Heimildir skólastjóra til að ráða skólastarfi séu ótvíræðar sbr. 14. gr. þágildandi laga um grunnskóla nr. 66/1995 en þar segi orðrétt í 1. mgr.: „Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir honum faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.“ Sambærilegt ákvæði er nú í 7. gr. nýrra grunnskólalaga nr. 91/2008.
Sú ráðstöfun að ráða aðstoðarskólastjóra tímabundið til eins árs falli undir tímabundna ráðstöfun í þágu skólans og sé liður í skipulagningu starfs kennara sem skólastjóra beri að annast. Af því leiðir að ekki var skylt að auglýsa stöðuna og hafi sú niðurstaða verið staðfest m.a. í héraðsdómi uppkveðnum 10. nóvember sl. í máli nr. E-5905/2007.
Samantekt
Reykjavíkurborg áréttar að lokum að á grundvelli heildarmats þótti kærandi í engu tilvika sem mál þetta fjallar um jafn hæfur og þeir sem þóttu hæfastir til að gegna störfunum. Ákvarðanir um allar ráðningarnar hafi verið teknar á réttan lögformlegan hátt og á grundvelli málefnalegra forsendna. Í engu var í ráðningarferlinu brotið gegn meginreglum sveitarstjórnarréttar, stjórnsýsluréttar, grunnskólalögum eða lögum um jafna stöðu karla og kvenna nr. 10/2008.
Er það afstaða borgarinnar að það sé hafið yfir allan vafa að þeir hæfustu hafi verið ráðnir til starfanna, þegar litið sé til hins augljósa munar á milli kæranda og þeirra sem ráðnir voru hvað varðar þekkingu og reynslu þegar kemur að stjórnun, mannaforráðum og stefnumótunarvinnu. Tiltekin prófgráða kæranda veiti honum ekki slíkt forskot umfram þetta að eyði þeim mun.
VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins
1. Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar
Sveitarfélögum er með 78. gr. stjórnarskrárinnarinnar nr. 33/1994 falin sjálfsstjórn málefna sinna eftir því sem lög ákveða, sbr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Í þessu felst svokallaður sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga sem setur úrskurðarvaldi ráðuneytisins um málefni sveitarfélaga nokkrar skorður.
Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga hefur ráðuneytið það lögbundna hlutverk að úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna á grundvelli kæru frá þeim sem nægjanlegra hagsmuna eiga að gæta nema annað verði leitt af lögum. Úrskurðarvald ráðuneytisins nær almennt yfir hina formlegu hlið máls, þ.e. hvort lögfestar sem ólögfestar reglur hafi verið virtar við afgreiðslu mála en ekki efnisinnihaldið, þ.e. atriði sem byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnar. Ráðuneytið hefur því á grundvelli 103. gr. heimild til að staðfesta eða ógilda ákvarðanir sveitarstjórnar.
Úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. nær yfir ákvarðanir sveitarstjórnar sem teljast stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir stjórnvalda sem kveða einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.
Ákvarðanir sveitarfélaga í starfsmannamálum teljast stjórnvaldsákvarðanir enda er með þeim kveðið á um rétt og/eða skyldu aðila. Gilda um slíkar ákvarðanir almennar reglur stjórnsýsluréttarins sem og stjórnsýslulög. Ráðuneytið fellst ekki á það með Reykjavíkurborg að ákvarðanir í starfsmannamálum, s.s. ráðningar starfsmanna borgarinnar, séu ákvarðanir um innri málefni sem falli utan úrskurðarvalds ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga.
Skal í því sambandi bent á að hjá félagsmálaráðuneytinu, sem fór með sveitarstjórnarmálefni fram til 31. desember 2007 þegar málaflokkurinn fluttist til samgönguráðuneytisins, hafa verið kveðnir upp úrskurðir um ákvarðanir sveitarfélaga á sviði starfsmannamála, sbr. t.d. úrskurð frá 12. mars 2007 í máli nr. FEL06120040.
Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið sér skylt að taka mál þetta til úrskurðar á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga og er kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun hafnað.
2. Ágreiningsefnið
Eins og fram hefur komið lítur ráðuneytið svo á að óskað sé úrskurðar um eftirfarandi atriði.
Ø ráðningarheimildir skólastjóra,
Ø hæfi skólastjóra til að ráða í stöðu aðstoðarskólastjóra,
Ø heimild til að ráða í stöðu án auglýsingar,
Ø hvort rökstuðningur fyrir ráðningum var fullnægjandi,
Ø hvort málefnaleg sjónarmið hafi ráðið við mat á umsækjendum.
Verður hér á eftir fjallað um einstaka kröfuliði og málsástæður kæranda og lýst afstöðu ráðuneytisins til þeirra hvers fyrir sig.
3. Ráðningarheimildir og meint vanhæfi skólastjóra til að ráða í stöðu
Í kæru kemur fram að kærandi telur að skólastjóri sé vanhæfur til að ráða undirmann sinn í auglýstar stöður þar sem slíkur aðili muni alltaf hafa forskot á aðra umsækjendur vegna kunnings- eða vinskapar við skólastjórann.
Þessi málsástæða kæranda verður ekki skilin á annan veg en að kærandi telji skólastjóra almennt ekki vanhæfa til að ráða í stöðu aðstoðarskólastjóra heldur einungis í því tilviki þegar starfsmaður viðkomandi skóla er meðal umsækjenda. Álitaefnið snúi því ekki að heimild skólastjóra til að ráða í stöðuna og ekki sé dregið í efa að þetta sé almennt hlutverk skólastjórans. Það sé einungis í þeim tilvikum að starfsmenn sækja um stöðu aðstoðarskólastjóra að skólastjóri viðkomandi skóla verði vanhæfur til að taka ákvörðun um ráðningu.
Þótt ekki sé í máli þessu ágreiningur um ráðningarheimildir skólastjóra almennt, nema þegar starfsmenn skólans eru meðal umsækjenda, telur ráðuneytið rétt að fjalla stuttlega um þetta efni.
Á þeim tíma sem stöðurnar sem mál þetta fjallar um voru auglýstar giltu grunnskólalög nr. 66/1995. Þau voru leyst af hólmi þann 1. júlí 2008 með lögum nr. 91/2008 um grunnskóla. Þá giltu á þessum tíma lög nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og lög nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Bæði þessi lög voru felld úr gildi með lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla þann 1. júlí 2008.
Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 66/1995 sagði að í grunnskóla þar sem starfa 12 starfsmenn eða fleiri í fullu starfi, auk skólastjóra, skuli sveitarstjórn ráða aðstoðarskólastjóra að fengnum tillögum skólastjóra.
Í lögum nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla sagði í 2. gr. að um ráðningu og skipun skólastjórnenda og kennara við grunnskóla fari eftir ákvæðum grunnskólalaga og ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og stafsréttindum grunnskólakennara, framhaldskólakennara og skólastjóra nr. 86/1998. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1998 er kveðið á um að sveitarstjórn ráði og skipi kennara, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra við grunnskóla.
Í 2. og 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er að finna heimild sveitarstjórnar til að framselja vald til fullnaðarafgreiðslu mála. Þetta er þó einungis heimilt ef um er að ræða mál sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins og verður framsal valdsins að vera til að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð hjá sveitarfélaginu. Þá er það skilyrði að kveða verður á um slíkt framsal í samþykkt samkvæmt 10. gr. sveitarstjórnarlaga.
Reykjavíkurborg hefur sett sér slíka samþykkt og er hún nr. 1200/2007. Í viðauka 2.4. við samþykkt Reykjavíkurborgar nr. 1200/2007 er fjallað um embættisafgreiðslur fræðslustjóra og skólastjóra og er þar í 3. gr. kveðið á um að skólastjóri grunnskóla ráði aðstoðarskólastjóra. Slíkt framsal valds til fullnaðarafgreiðslu mála er heimilt á grundvelli 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga. Ráðuneytið lítur því svo á að í samþykkt Reykjavíkurborgar sé með lögmætum hætti kveðið á um hver annist ráðningu aðstoðarskólastjóra grunnskóla borgarinnar.
4. Hæfisreglur
Kærandi telur skólastjóra vera vanhæfa til að ráða í stöðu aðstoðarskólastjóra þegar starfsmaður viðkomandi skóla er meðal umsækjenda. Í málatilbúnaði kæranda er tekið fram að áhersla sé lögð á að starfsmaður skólans hljóti að hafa sterkari stöðu en aðrir umsækjendur. Þá sé þekkt að innan skólastarfs skapist vinátta milli samstarfsfólks sem vinni náið saman enda sé það einn af grunnþáttum góðrar skólamenningar að svo sé.
Ákvarðanir um ráðningu í starf hjá hinu opinbera teljast stjórnvaldsákvarðanir og gilda því hæfisreglur II. kafla stjórnsýslulaganna um slíkar ráðningar, sbr. t.d. álit umboðsmanns í máli nr. 1508/1995.
Í 3. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um þær ástæður sem geta leitt til vanhæfis starfsmanns eða nefndarmanns til meðferðar máls og eru þær ástæður nánar taldar í 6. tölulið.
Ráðuneytið telur einsýnt að atriði 1. – 5. tölul. eigi ekki við í máli þessu. Sé vanhæfi fyrir hendi komi eingöngu til greina að það grundvallist á 6. tölul. en þar segir að aðili sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti þær aðstæður eru fyrir hendi sem eru fallnar til að draga óhlutdrægni hans í efa. Hér er því um matskennda hæfisreglu að ræða.
Í skýringarriti við stjórnsýslulögin eftir Pál Hreinsson hæstaréttardómara er fjallað um þessa matskenndu hæfisreglu á bls. 72 - 78. Þar kemur fram að til að starfsmaður teljist vanhæfur á grundvelli reglunnar verður að gera þá kröfu að hann eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, svo sem ágóða, taps eða óhagræðis. Þá verði að skoða hversu náin tengsl aðila séu og að eðli og vægi hagsmunanna sé með þeim hætti að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun. Það verði því að meta í hverju tilviki hvort hagsmunirnir séu einstaklegir og/eða verulegir og hvernig þeir tengjast starfsmanninum og úrlausn málsins, þegar metið er hvort vanhæfi sé fyrir hendi.
Þá segir ennfremur að náin vinátta eða fjandskapur við aðila máls geti valdið vanhæfi. Hér er áherslan á að vinátta sé sannarlega náin og nægir kunningsskapur ekki til að valda vanhæfi. Að sama skapi þurfa einhverjar verulegar hlutlægar ástæður að vera fyrir óvináttu til að leiði til vanhæfis og dugir ekki að koma með órökstuddar staðhæfingar um það.
Í andmælum kæranda við umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram varðandi meint vanhæfi að þekkt sé að náin vinátta skapist iðulega milli fólks sem vinnur saman í skólum enda sé það einn af grunnþáttum góðrar skólamenningar að skapa andrúmsloft vináttu m.a. milli starfsfólks. Málatilbúnaður kæranda hvað þetta verðar verður því ekki skilinn á annan veg en hann telji vanhæfið grundvallast á tengslum aðila og vináttu sem myndast af því að vinna náið saman á sama stað.
Umboðsmaður Alþingis hefur í álitum sínum fjallað um hugsanlegt vanhæfi þegar um er að ræða samstarfsmenn og lýst þeirri meginreglu að starfsmaður verði ekki vanhæfur samkvæmt 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga af þeirri ástæðu einni að hann vinnur með aðila máls. Enda segir í skýringum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að vináttan ein og sér leiði ekki sjálfkrafa til vanhæfis heldur þurfi önnur atriði til að koma.
Má vísa til álits umboðsmanns í máli nr. 1310/1994 þar sem umboðsmaður segir að starfsmaður verði almennt ekki talinn vanhæfur til meðferðar máls nema hann hafi sjálfur nokkurra hagsmuna að gæta eða tengist sjálfur málinu eða aðilum þess með þeim hætti að almennt yrði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á úrlausn málsins. Starfsmaður yrði þannig almennt ekki vanhæfur þótt hann kynnist aðila máls í starfi sínu.
Einnig má benda á mál nr. 1391/1995 þar sem umboðsmaður segir að starfsmaður verði almennt ekki vanhæfur til meðferðar máls samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga þótt á meðal umsækjenda sé samstarfsmaður hans eða undirmaður nema ótvíræðar upplýsingar liggi fyrir um að náin vinátta hafi tekist með þeim.
Sama kemur fram í áliti í máli nr. 1508/1995 en þar segir umboðsmaður að starfsmaður verði almennt ekki vanhæfur samkvæmt 6. tölul. þótt hann hefði kynnst aðila máls í starfi sínu nema náin vinátta hafi skapast á slíkum grundvelli.
Samkvæmt öllu framangreindu er ljóst að það að einn af starfsliði skólans sæki um starf aðstoðarskólastjóra veldur ekki eitt og sér vanhæfi skólastjóra viðkomandi skóla til að taka ákvörðun um ráðningu í stöðuna heldur verða, eins og að framan er rakið, önnur atriði sannanlega að vera til staðar til að um vanhæfi sé að ræða.
Ráðuneytið telur ekkert komið fram í málinu sem sýnir að skólastjórar hafi haft einhverra þeirra hagsmuna að gæta, af því að ráða umsækjanda úr hópi starfsliðs skólans í stöðu aðstoðarskólastjóra, að valdið geti vanhæfi á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Þá hafa af hálfu kæranda engin gögn verið lögð fram í málinu um að viðkomandi skólastjóri hafi haft einstaklega og verulega hagsmuni af því að ráða viðkomandi eða að tengsl milli þeirra hafi verið slík að ákvæðið eigi við.
Ráðuneytið telur því ekki unnt að fallast á þá málsástæðu kæranda að skólastjórar viðkomandi skóla hafi verið vanhæfir til að taka ákvörðun um ráðningu í starfið.
5. Heimild til ráðningar án auglýsingar
5.1 Kærandi kærir ráðningu í tímabundna stöðu aðstoðarskólastjóra Rimaskóla þar sem starfið var ekki auglýst laust til umsóknar.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er því hins vegar haldið fram að auglýsing hafi ekki verið nauðsynleg þar sem um tímabundna ráðningu til eins árs hafi verið að ræða sem falli undir heimildir skólastjóra samkvæmt þágildandi grunnskólalögum nr. 66/1995 til að ráða skólastarfi og sjá um skipulagningu þess.
Reykjavíkurborg vísar m.a. til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. nóvember 2008 í máli nr. E-5905/2007 þessu til stuðnings. Í þeim dómi var litið svo á að starf deildarstjóra sem skólastjóri fól kennara að annast falli undir tímabundið starf í þágu skólans og verði að líta á það sem lið í skipulagningu starfs kennara sem skólastjóra ber að annast. Af því leiði að skólastjóra hafi ekki verið skylt að auglýsa starfið. Taldi dómurinn að ákvæði 5. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla um skyldu til að auglýsa allar lausar kennara og skólastjórnendastöður við grunnskóla ætti ekki við né 2. mgr. 8. gr. laga nr. 86/1998 sem kvað á um það sama.
Mál þetta var að því leyti frábrugðið því sem hér er til umfjöllunar að í dómsmálinu var ekki um að ræða nýja stöðu í skólanum sem var ráðið í án auglýsingar. Ráðuneytið telur að því leyti mál þessi ekki það sambærileg að niðurstaða héraðsdómsins sé afgerandi um þessa málsástæðu kæranda.
5.2 Það sem kemur til athugunar hér eru þau lög og reglur sem giltu um ráðningar hjá grunnskólum og þá einkum um auglýsingar á lausum störfum, á þeim tíma sem ráðið var í stöðuna.
Ekki er í sveitarstjórnarlögum að finna ákvæði sem beinlínis leggja þá skyldu á sveitarfélög að auglýsa almennt laus störf eins og er um laus störf hjá ríkinu sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Reykjavíkurborg hefur sett sér samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, nr. 1200/2007, sbr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem m.a. er kveðið á um ráðningu starfsmanna borgarinnar. Þar er m.a. að finna kafla um ráðningu starfsmanna borgarinnar í stjórnunarstöður og segir þar í 70. gr. að lausar stöður skuli auglýstar til umsóknar í samræmi við reglur um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Í viðaukum við samþykktina er síðan fjallað nánar um ráðningar á tilteknum sviðum, s.s. ráðningu skólastjóra grunnskóla, skólastjóra leikskóla, ráðningu borgarminjavarðar og ráðningu aðstoðarskólastjóra grunnskóla.
Ekki er í samþykktinni að finna önnur ákvæði um auglýsingu starfa og verður því að líta svo á, með hliðsjón af almennum reglum um góða stjórnsýsluhætti, að ákvæði 70. gr. gildi almennt um ráðningar hjá Reykjavíkurborg. Það fær jafnframt stoð í starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar en þar segir í kafla um ráðningarréttindi starfsmanna að stofnanir og fyrirtæki borgarinnar skuli auglýsa laus störf. Nefnda starfsmannastefnu er að finna á vef borgarinnar, http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-390/,
5.3 Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær hin umdeilda ráðning fór fram en samkvæmt gögnum málsins var þeirri ráðningu lokið a.m.k. 13. júní 2008, sbr. bréf skólastjóra Rimaskóla til kæranda dagsett þann sama dag þar sem ráðningin er rökstudd.
Af þessu leiðir að um ráðninguna sem hér er til umfjöllunar giltu lög sem felld voru úr gildi þann 1. júlí 2008, sbr. það sem að framan er rakið og er nánar um að ræða eftirfarandi.
Í 5. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla segir að auglýsa skuli laus störf í Lögbirtingablaði. Ekki er þar kveðið á um undanþágu frá auglýsingarskyldunni vegna tímabundinna starfa innan grunnskóla. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldskólakennara og skólastjóra segir að auglýsa skuli öll kennslu- og stjórnunarstörf í grunnskólum.
Þessi ákvæði eru fortakslaus um auglýsingaskylduna hvað þessi störf varðar og er ekki í lögunum að finna ákvæði um undanþágu frá þeirri skyldu þegar t.d. um er að ræða ráðningu í forföllum eða í tímabundið starf.
Má til samanburðar nefna að ekki er nauðsynlegt að auglýsa tímabundin störf hjá ríkinu laus til umsóknar í ákveðnum tilvikum sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 þegar nauðsynlegt er að ráða tímabundið í starf sem þegar er til staðar, sbr. einnig til hliðsjónar álit umboðsmanns í máli nr. 5519/2008 um setningu skrifstofustjóra í nýtt embætti sem umboðsmaður taldi að hefði þurft að auglýsa.
Eins og fram hefur komið var um að ræða nýja stöðu aðstoðarskólastjóra sem ráðið var í án auglýsingar. Í ljósi þess sem að framan er rakið telur ráðuneytið að auglýsa hefði átt stöðuna lausa til umsóknar og því hafi verið óheimilt að ráða í hana án auglýsingar. Ráðningin hafi því verið ólögmæt. Ráðuneytið telur hins vegar ekki efni til að láta þennan ágalla á ráðningunni leiða til ógildingar ákvörðunarinnar um ráðningu og er þá einkum tekið mið af hagsmunum þess sem ráðinn var í stöðuna.
6. Rökstuðningur
Af hálfu kæranda eru gerðar athugasemdir við rökstuðning sem honum barst vegna umræddra ráðninga og telur hann ekki nægilega hafa verið vandað til hans. Má af málatilbúnaði kæranda ráða að einkum sé átt við að ekki sé þar nægilega skýrt gerð grein fyrir samanburði milli hans og þess sem ráðinn var og á hverju var byggt við töku ákvarðana um ráðningar.
Samkvæmt gögnum málsins barst kæranda rökstuðningur frá viðkomandi skólastjórum í öllum tilvikum. Við skoðun ráðuneytisins á bréfum sem innihéldu rökstuðning er ekki annað að sjá en í öllum tilvikum sé rakið á hvaða sjónarmiðum var byggt við mat á því af hverju viðkomandi sem var ráðinn taldist hæfastur til að gegna starfinu. Er í öllum tilvikum rakið til hvaða eiginleika var einkum horft og að hvaða leyti viðkomandi uppfyllti hæfisskilyrði auglýsingar. Ráðuneytið telur því ekki unnt að fallast á með kæranda að rökstuðningi hafi verið áfátt. Tekið skal fram að í þessu felst ekki afstaða til sjónarmiða sem byggt var á við ráðningu heldur verður um það fjallað í lið nr. 7 hér á eftir.
Þá er rétt að gera athugasemdir við að í bréfi Hlíðaskóla til kæranda þar sem tilkynnt var um ráðningu er ekki að finna leiðbeiningar um rétt til rökstuðnings. Þá var um misskilning að ræða varðandi rökstuðning Rimaskóla en úr því var bætt og því ekki ástæða til að fjalla nánar um það.
7. Mat á umsóknum, samanburður og sjónarmið til grundvallar
7.1 Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að hann telur ráðningarnar vera brot á jafnréttislögum. Úrlausn um slíkt á ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins heldur Kærunefnd jafnréttismála samkvæmt lögum nr. 10/2008. Verður því ekki fjallað um þann þátt málsins í úrskurði þessum.
7.2 Það sem kemur til skoðunar undir lið þessum er hvort þau sjónarmið og þær kröfur sem gerðar voru til umsækjenda í auglýsingum hafi verið málefnalegar og í samræmi við lög. Einnig hvort við ráðningu í stöður fór fram málefnalegur samanburður á umsækjendum þannig að sá hæfasti hafi verið ráðinn hverju sinni.
Rétt er að skoða fyrst hvort lög setji einhver sérstök skilyrði um hæfni þeirra sem til greina koma í stöðu aðstoðarskólastjóra sem koma þurfa fram í auglýsingum um störfin.
Engin slík ákvæði eru í sveitarstjórnarlögum og er slíkt heldur ekki að finna í samþykkt Reykjavíkurborgar nr. 1200/2007.
Þegar öll störfin voru auglýst giltu um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskólalög nr. 72/1996. Í 2. gr. laganna segir að um ráðningu og skipun skólastjórnenda og kennara við grunnskóla fari eftir ákvæðum grunnskólalaga og ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Í 3. gr. laganna er kveðið á um almenn skilyrði til þess að fá skipun eða ráðningu í kennara- eða skólastjórnendastöðu við grunnskóla og er þar á meðal í 5. tölul. að viðkomandi hafi leyfisbréf menntamálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla samkvæmt ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
Í grunnskólalögum sem giltu á þessum tíma nr. 66/1995 sagði í 4. mgr. 23. gr. að við ráðningu kennara og skólastjóra skuli gæta ákvæða gildandi laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara og skólastjóra.
Lög nr. 86/1998 giltu um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Þar var í 1. mgr. 7. gr. kveðið á um að til að verða ráðinn skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skuli umsækjandi hafa kennsluréttindi og kennslureynslu á grunnskólastigi. Í 3. mgr. 7. gr. sagði síðan að við ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra skuli tekið tillit til menntunar, kennsluferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.
Þá sagði í 8. gr. laga 86/1998 að um ráðningu og skipun kennara og skólastjórnenda grunnskóla fari eftir ákvæðum laga þessara og laga nr. 66/1995 um grunnskóla, sbr. 2. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Þá var kveðið á um í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 86/1998 að auglýsa skuli öll laus kennslu- og stjórnunarstörf og skuli þar m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugreinar, og aldursstig nemenda.
Í 1. og 2. gr. laganna var kveðið á um hverjir hafi kennsluréttindi til að starfa sem grunnskólakennarar hér á landi en það eru m.a. þeir sem lokið hafa eftirfarandi prófum, sbr. 2. gr., próf frá Kennaraskóla Íslands, B.Ed-prófi eða hærri prófgráðu frá Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri, BA-prófi, BS-prófi eða hærri prófgráðu frá Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri í kennslugrein sinni/kennslugreinum sínum ásamt fullgildu námi í kennslu- og uppeldisfræði til kennsluréttinda.
Af öllu framangreindu er ljóst að í lögum sem gilti á þeim tíma þegar störfin voru auglýst voru sett ákveðin hæfnisskilyrði fyrir ráðningu aðstoðarskólastjóra grunnskóla, þ.e. kennaramenntun og reynsla á grunnskólastigi. Í auglýsingu um slíkt starf bar því að geta um slíka lögbundna kröfu og bar veitingarvaldshafanum að fara eftir því við ákvörðun um ráðningu. Að öðru leyti, svo framarlega sem það stangast ekki á við hin lögbundnu hæfnisskilyrði, verður að telja að það stjórnvald sem ræður í starfið hafi haft frjálsar hendur um hvaða eiginleika og hæfileika það taldi umsækjendur verða að hafa til viðbótar, við mat á því hver telst hæfastur til að gegna starfinu, svo framarlega sem það telst málefnalegt.
Fyrr í úrskurði þessum er rakið hvaða hæfniskröfur voru gerðar til umsækjenda um þær fjórar stöður aðstoðarskólastjóra sem kærandi sótti um. Í þeim öllum er gerð krafa um kennaramenntun en telja verður að það skilyrði hafi verið lögmælt, sbr. það sem að framan er rakið. Að öðru leyti má gera ráð fyrir að í hverjum skóla fyrir sig hafi verið sett fram þau sjónarmið um hæfni sem þóttu nauðsynleg í hverju tilviki og því áherslur á mismunandi atriði á eftir því sem henta þótti á hverjum stað. Hæfniskröfur snúa að miklu leyti að því að leggja áherslu á stjórnunarreynslu eða menntun á því sviði sem og stjórnunar- og leiðtogahæfileika enda verður að telja að skylt hafi verið að líta til þessara þátta við mat á hæfni umsækjenda, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 86/1998
Að virtu öllu framangreindu telur ráðuneytið ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þær hæfniskröfur sem gerðar voru í hverri auglýsingu fyrir sig enda er þar uppfyllt lagaskilyrði um að kennaramenntunar er krafist hverju sinni auk þess sem virtar voru leiðbeiningar 3. mgr. 7. gr. laga nr. 86/1998. Að öðru leyti telur ráðuneytið viðkomandi stjórnvald hafa haft sjálfræði um það á hvaða hæfni og eiginleika var lögð áhersla enda ekki annað að sjá en skilyrði í auglýsingum séu málefnaleg með hliðsjón af því að auglýstar voru stjórnunarstöður, þó ekki sé um æðsta yfirmann skólans að ræða, og er þá einnig til þess að líta að viðkomandi er staðgengill skólastjóra.
7.3 Þá grundvallar kærandi þessa málsástæðu sína á því að hæfasti einstaklingurinn hafi ekki verið ráðinn í neina af þeim fjórum aðstoðarskólastjórastöðum sem mál þetta fjallar um. Kærandi telur sig hafa staðið framar öllum þeim sem störfin hlutu, bæði hvað varðar menntun og starfsreynslu. Þá hafi hann ekki notið jafnræðis þar sem upplýsinga var ekki aflað um hann frá umsækjendum til jafns við aðra umsækjendur.
Það hver telst hæfastur til að gegna starfi sem auglýst er laust til umsóknar hlýtur eðli málsins samkvæmt alltaf að byggjast á mati á hverjum umsækjanda fyrir sig. Við það mat er þá tekið mið af þeim hæfniskröfum sem með málefnalegum hætti voru settar í auglýsingu um starfið. Enda hefur löggjafinn ekki sett sérstakar reglur um hvernig slíkt mat skuli fara fram, þegar sleppir lögbundnum hæfniskröfum séu þær fyrir hendi.
Umboðsmaður hefur í mörgum álitum sínum fjallað um ýmis álitaefni sem snúa að ráðningum hjá opinberum aðilum og þá einkum hvað varðar málefnaleg sjónarmið við mat á umsækjendum og hvaða almennu reglur gilda í því sambandi.
Þar má fyrst nefna að stjórnvaldi ber skylda til að ráða hæfasta einstaklinginn í starfið, sbr. álit umboðsmanns í máli nr. 382/1991 en umboðsmaður leggur áherslu á að stjórnvald sem veitir stöðu hafi ekki frjálsar hendur um val á milli umsækjenda, þegar svo stendur á að fleiri en einn hæfur umsækjandi sækir um. Stjórnvaldinu beri að velja þann sem hæfastur er á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og aðra persónulega eiginleika sem máli skipta. Má um það einnig vísa til álits umboðsmanns í máli nr. 4279/2004
Þá segir umboðsmaður í áliti í máli nr. 4270/2004 að þegar sleppir lögmæltum hæfisskilyrðum eða sjónarmiðum sem skylt er að byggja á við skipun eða ráðningu í starf hjá ríkinu þá komi það í hlut þess sem með ráðningarvaldið fer að ákveða hvaða sjónarmiðum skuli byggja á við val milli hæfra umsækjenda, svo framarlega sem þau séu málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf. Hafi stjórnvaldið, áður en auglýsing var birt, mótað sér afstöðu um þessi sjónarmið sem ljá ætti sérstakt vægi yrði að telja það í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að láta það koma fram í auglýsingunni um starfið.
Umboðsmaður bendir á í áliti sínu í máli nr. 4108/2004 að í íslenskum rétti hafi ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Þá segir umboðsmaður að stjórnvöld ákveði hverju sinni hvaða sjónarmiðum skuli byggt á en þau verði að vera málefnaleg eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum persónulegum eiginleikum sem talið væri að skiptu máli við rækslu starfsins.
Í áliti í máli nr. 2701/1999 segir umboðsmaður að handhafi veitingarvaldsins sé bundinn af þeirri óskráðu meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að byggja niðurstöðu sína á málefnalegum sjónarmiðum og velja þann sem hæfastur yrði talinn til að gegna starfinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum.
Í máli nr. 2630/1998 segir að í þeirri óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar, að leitast skuli við að velja hæfasta umsækjandann um laust starf, felist m.a. að ákvörðunin verði ávallt að byggjast a.m.k. að verulegu leyti á mati á atriðum sem til þess væru fallin að varpa ljósi á frammistöðu í viðkomandi starfi. Það að byggja á einu sjónarmiði sem teldist málefnalegt án þess að líta til annarra þýðingarmikilla sjónarmiða gæti talist annmarki á málsmeðferð. Það kæmi þó ekki í veg fyrir að handhafi veitingarvaldsins legði áherslu á eitt málefnalegt sjónarmið, leiddu þau sjónarmið sem tekið var mið af ekki til sömu niðurstöðu.
Af öllu framangreindu er ljóst að þegar fleiri en einn umsækjandi er hæfur til að gegna starfi er óhjákvæmilegt að fram fari samanburður á umsækjendum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem byggt er á. Við mat á hæfni umsækjenda í því skyni að finna hæfasta einstaklinginn til að gegna starfinu verður það stjórnvald sem starfið veitir að meta hverja umsókn fyrir sig og bera saman umsækjendur. Við það mat ber stjórnvaldinu að hafa hliðsjón af þeim hæfnisskilyrðum sem sett hafa verið með lögmætum hætti í auglýsingu, persónulegum eiginleikum umsækjenda sem og öðrum atriðum sem stjórnvaldið telur skipta máli til að viðkomandi geti sinnt starfinu sem best.
Í kafla úrskurðarins um málsástæður Reykjavíkurborgar er því nánar lýst hvernig samanburður milli kæranda og þeirra sem störfin hlutu var háttað. Kemur fram að það hafi verið samdóma álit þeirra sem að ráðningum stóðu að sá sem ráðinn var í hverju tilviki hafi talist hæfastur til að gegna viðkomandi starfi á grundvelli heildarmats. Er nánar rakið í hverju tilviki hvaða sjónarmið voru helst höfð til hliðsjónar og voru þau eðlilega mismunandi eftir skólum. Nánar var um að ræða eftirfarandi.
Í tilviki Vesturbæjarskóla kom fram að auk þeirra sjónarmiða sem sett voru fram í auglýsingu var lögð áhersla á að skólinn er skóli á yngra barnastigi. Þá hafi sá sem ráðinn var verið umsjónarkennari yngri barna frá 1996 til 2002 og sinnt stöðu deildarstjóra sérkennslu frá þeim tíma. Hæfni hans hafi einkum falist að hann hafði yfirgripsmikla reynslu af kennslu, námsmati, ráðgjöf til kennara og samstarfi við foreldra á barnastigi.
Í tilviki Hlíðaskóla hafi, auk þeirra sjónarmiða sem sett voru fram í auglýsingu, verið lagt til grundvallar að í skólanum er starfrækt táknmálssvið og hafi sá sem ráðinn var sett fram í starfsviðtali skýrar hugmyndir um ýmsa þróun á því sviði. Þá hafi hann í ráðningarviðtölum skarað fram úr öðrum umsækjendum með því að setja fram skýrar hugmyndir um æskilega þróun starfa á táknmálssviði og undirbúning nemenda undir framhaldsnám og þátttöku á vinnumarkaði. Auk þessi hafi hann haft yfirgripsmikla þekkingu á starfi beggja skólastiga og mikilvæga reynslu af samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla. Framhaldsmenntun hans hafi auk þess mikla breidd og það ásamt starfsreynslu hafi átt þátt í að gera hann hæfastan til að sinna starfinu.
Kærandi gerir sérstaklega athugasemdir við að hann hafi ekki notið jafnræðis á við aðra umsækjendur þar sem ekki var leitað umsagnar um hann eins og var með þann sem ráðinn var í stöðuna. Um þetta vísar Reykjavíkurborg til þess að kærandi hafi ekki gefið upp umsagnaraðila í umsókn sinni og má skilja málatilbúnað borgarinnar á þann veg að þess vegna hafi ekki verið leitað umsagnar um kæranda.
Ráðuneytið telur rétt í því sambandi að benda á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sem leggur þá skyldu á hendur stjórnvaldi að gæta þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Því verður að telja að Reykjavíkurborg geti ekki borið fyrir sig að umsagnaraðila hafi ekki verið getið í umsókn þar sem hægur vandi hafi verið fyrir borgina að afla slíkra upplýsinga frá kæranda enda kemur fram í gögnum að kærandi gaf upp umsagnaraðila í starfsviðtali og er þeirri staðhæfingu ómótmælt af hálfu borgarinnar. Ráðuneytið telur þó þennan annmarka ekki slíkan að hafi áhrif á niðurstöðu um ráðninguna.
Í tilviki Árbæjarskóla er vísað til þess að sá sem ráðinn var hafi yfirgripsmikla reynslu af skólastarfi, skýra framtíðarsýn og víðtæka reynslu af samstarfi við foreldra og nemendur. Þá hafi hann sýnt í starfi sínu mikla skipulagshæfileika sem og mikla færni í að stýra verkefnum. Þá hafi viðkomandi í nokkur ár verið fagstjóri í grunnskóla og unnið að þróun og innleiðingu á áherslu á einstaklingsmiðað nám og samvinnu kennara. Auk þess hafi hann í viðtali lagt fram framtíðarsýn um heildstæða skólaþróun og þróun kennsluhátta.
Þá telur kærandi sig heldur ekki hafa notið jafnræðis þar sem hann var ekki boðaður í viðtal vegna starfsins þrátt fyrir að hafa uppfyllt hæfniskröfur. Eins og fram hefur komið voru valdir þeir úr hópi umsækjenda um starfið sem taldir voru hafa lengstu stjórnunarreynsluna en slík reynsla var meðal hæfniskrafna í auglýsingu. Með vísan til þess sem að framan er rakið um heimildir veitingarvaldshafans til að ákveða þau sjónarmið sem helst er lögð áhersla á við val milli umsækjanda þykir ekki ástæða til að gera athugasemdir við þetta val Reykjavíkurborgar enda ekki annað að sjá en sjónarmiðið sem lögð er áhersla á sé málefnalegt auk þess sem það kemur fram í auglýsingu um starfið.
Í tilviki Rimaskóla er vísað til víðtækrar reynslu þess sem ráðinn var af stjórnun í grunnskóla þar sem hann hafi starfað sem fagstjóri, deildarstjóri og aðstoðarskólastjóri. Viðkomandi hafi unnið að uppbyggingu kennslu og félagsstarfs skólans sem og skipulagsmálum og stefnumótun frá upphafi. Þá hafi hann sýnt lipurð og færni í samskiptum við foreldra og nemendur og átt farsæl samskipti á ferli sínum við samstarfsfólk, foreldra og nemendur.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg voru það skólastjóri viðkomandi skóla ásamt starfsmannastjóra Menntasviðs og mannauðsráðgjafa Menntasviðs sem unnu úr umsóknum. Skólastjóri og mannauðsráðgjafi hafi síðan annast starfsviðtöl og spurt fyrirfram ákveðinna spurninga. Af þessu verður ekki annað ráðið en jafnræðis hafi verið gætt með umsækjendum hvað varðar úrvinnslu umsókna og samanburð.
Að virtu öllu framangreindu telur ráðuneytið að ekki sé annað að sjá en þau sjónarmið sem byggt var á við mat á umsækjendum, í því skyni að finna þann sem var talinn hæfastur til að gegna starfi aðstoðarskólastjóra í skólunum fjórum, hafi verið málefnaleg með tilliti til eðli starfanna og þar með fullnægjandi grundvöllur fyrir endanlegri niðurstöðu. Því verði að hafna þeirri málsástæðu kæranda að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið við ráðningu í störfin.
Vegna mikilla starfsanna hefur dregist að kveða upp úrskurð í máli þessu umfram það sem áætlað var og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð
Kröfu A um að ráðning Reykjavíkurborgar í fjórar stöður aðstoðarskólastjóra í grunnskólum Reykjavíkur sé ólögmæt og/eða ógild er hafnað.
Fallist er á kröfu A um að ráðning Reykjavíkurborgar í tímabundna stöðu aðstoðarskólastjóra Rimaskóla hafi verið ólögmæt en kröfu um ógildingu ráðningarinnar er hafnað.
Unnur Gunnarsdóttir
Svanhvít Axelsdóttir