Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Kópavogskaupstaður - Útgáfa veðskuldabréfa og vinnulag við útboð og verksamninga

Helga Sigurjónsdóttir                                                                                 2. maí 1996                                    96020013

Hrauntungu 97                                                                                                                                                           1001

200 Kópavogur

 

 

 

 

           Vísað er til erinda yðar , dagsettra 28. febrúar og 10. mars 1996, þar sem gerðar eru fyrirspurnir til félagsmálaráðuneytisins annars vegar varðandi útgáfu veðskuldabréfa og hins vegar “vegna vinnulags við útboð og verksamninga á vegum bæjarins.”

 

           Erindi yðar var sent til umsagnar bæjarstjórnar Kópavogskaupstaðar með bréfi, dagsettu 13. mars 1996. Umsögn barst ráðuneytinu hinn 25. mars 1996 með bréfi, dagsettu 22. sama mánaðar.

 

Veðskuldabréf.

 

           Ráðuneytið hefur áður fjallað um þann hátt sem Kópavogskaupstaður hefur haft á varðandi útgáfu skuldabréfa vegna gatnagerðargjalda, sbr. úrskurð frá 30. nóvember 1994 og bréf frá 2. júní 1995. Það álit ráðuneytisins sem þar kemur fram hefur ekki breyst.

 

           Í umsögn frá bæjarlögmanni Kópavogskaupstaðar er lýst aðdraganda að samþykkt þeirri sem gerð var á fundi bæjarráðs þann 25. janúar 1996. Ráðuneytið fær ekki annað séð en að með þeim aðgerðum sé verið að færa þann þátt mála í betra horf hjá sveitarfélaginu.

 

Útboð og verksamningar.

 

           Í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 eða öðrum lögum er ekki kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að láta fara fram útboð vegna framkvæmda á þeirra vegum, nema um sé að ræða framkvæmdir sem áætlað er að nemi 5 milljónum evrópskra mynteininga (ECU) eða meira án virðisaukaskatts, sbr. 1. og 22. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda nr. 63/1970 með síðari breytingum. Í ýmsum tilfellum getur verið eðlilegra og að auki vandaðri stjórnsýsluhættir hjá sveitarfélögum að láta fara fram útboð til að fá hagstæðari kjör, sérstaklega ef um stærri verk er að ræða, en rétt er að ítreka að það er ekki skylt samkvæmt lögum.

 

           Samkvæmt þessu er það því falið sveitarstjórn að meta og setja viðmiðanir um hvenær efna skuli til útboðs vegna framkvæmda á vegum sveitarfélagsins þegar framkvæmdakostnaður er lægri en framangreint lágmark.

 

           Hvað varðar þátttöku bæjarfulltrúa í opnum eða lokuðum útboðum á vegum Kópavogskaupstaðar skal eftirfarandi tekið fram:

 

           Ekki er að finna í lögum ákvæði sem fyrirfram útiloka sveitarstjórnarmenn frá því að taka þátt í slíkum útboðum.

 

           Hins vegar kemur hér til skoðunar 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um hæfi sveitarstjórnarmanna til að fjalla um einstök mál í sveitarstjórn. Tilgangur 45. gr. er að tryggja málefnalega umfjöllun í sveitarstjórn um þau erindi sem henni berast og að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að sveitarstjórn leysi úr málum á hlutlægan hátt.

 

           Af 45. gr. laganna leiðir að sveitarstjórnarmaður sem tekur þátt í útboði á vegum viðkomandi sveitarfélags er vanhæfur til að fjalla í sveitarstjórn um val á verktaka í því tilfelli. Ráðuneytið telur að í slíkum tilfellum geti sveitarstjórnarmaðurinn ekki í sömu andrá gætt eigin hagsmuna og hagsmuna sveitarfélagsins og hætta er á að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti af t.d. eignarhaldi hans á viðkomandi verktakafyrirtæki.

 

           Að lokum vill ráðuneytið taka fram að það telur enn ríkari ástæðu en ella fyrir sveitarfélög að vanda aðdraganda og gerð verksamninga þegar sveitarstjórnarmaður leitar eftir að gera slíkan samning í eigin nafni eða nafni fyrirtækis síns.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta