Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Mosfellsbær - Innheimta gatnagerðargjalda af útihúsi á lögbýli

Seljabrekka ehf.

Þór Skjaldberg

Seljabrekku

270 Mosfellsbæ

Reykjavík, 30. júní 2000

Tilvísun: FEL00050038/122/SÁ/--

 

 

 

Vísað er til erindis yðar, dagsett 10. maí 2000, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar að innheimta gatnagerðargjald af útihúsi á lögbýlinu Seljabrekku í Mosfellsdal.

 

Óskað er eftir áliti ráðuneytisins á því hvort um ólögmæta innheimtu er að ræða þar sem lög um gatnagerðargjald kveði á um rétt sveitarfélaga til að leggja slík gjöld á vegna kostnaðar við vegaframkvæmdir en í þessu tilfelli falli enginn kostnaður á sveitarfélagið. Þar að auki standi venja til að gatnagerðargjöld vegna bygginga á lögbýlum í sveitum landsins hafi aldrei verið lögð á bændur enda um að ræða útihús lögbýlis.

 

Með bréfi, dagsettu 11. maí 2000, var óskað umsagnar Mosfellsbæjar um erindið og þá sérstaklega um með hvaða hætti Mosfellsbær telji slíka álagningu samræmast ákvæðum laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996.

 

Umsögn Mosfellsbæjar barst með bréfi, dagsettu 25. maí 2000. Þar er vísað til 1. og 2. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996 um að sveitarstjórn sé heimilt að innheimta gatnagerðargjald af öllum lóðum í sveitarfélaginu og/eða mannvirkjum á þeim og að gatnagerðargjaldi skuli varið til gatnagerðar. Svo er bent á að í frumvarpi til laganna segi að ráðstöfun gatnagerðargjaldanna sé ekki lengur bundin við gerð gatna við þær lóðir sem gatnagerðargjald er innheimt af. Vísað er til b-liðar 3. gr. gjaldskrár Mosfellsbæjar um gatnagerðargjald frá 16. september 1998 sem segi að þar sem ekki hefur verið tekið ákvörðun um hefðbundnar gatnagerðarframkvæmdir, svo sem í dreifbýli, greiðist grunngjald. Svo er tekið fram að ástæðan að baki þessu ákvæði um grunngjald sé hlutdeild í kostnaði við stofngötukerfi bæjarins sem heimilt sé að innheimta gatnagerðargjald fyrir skv. 2. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996. Ennfremur er tekið fram að Mosfellsbær teldi það brot á jafnræðisreglu ef íbúar utan þéttbýlis í bæjarfélaginu tækju ekki þátt í kostnaði þess vegna framkvæmda við stofngötukerfi bæjarfélagsins. Að lokum er vísað til 13. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald nr. 543/1996 og tekið fram að kærandi hafi ekki borið þessa ákvörðun byggingarfulltrúa undir bæjarráð Mosfellsbæjar.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

 

Í 13. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald nr. 534/1996 segir svo:

Verði ágreiningur um ákvörðun og/eða innheimtu gatnagerðargjalds, skal hann borinn undir viðkomandi sveitarstjórn eða byggðarráð, eftir því hver háttur er hafður á í viðkomandi sveitarfélagi. Aðili máls getur skotið ákvörðun sveitarstjórnar eða byggðarráðs um álagningu og/eða innheimtu gatnagerðargjalds til úrskurðar félagsmálaráðherra. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um álagningu gjaldsins. Kæruheimild þessi skerðir þó eigi rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.

 

Félagsmálaráðuneytið telur að framangreint reglugerðarákvæði sem á sér stoð í 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996 leiði til þess að ágreining um álagningu umrædds gatnagerðargjalds verði fyrst að bera undir bæjarráð Mosfellsbæjar áður en félagsmálaráðuneytið getur látið í ljós endanlegt álit sitt.

 

Með vísan til framangreinds er yður því bent á að bera ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ undir bæjarráð. Að auki er til fróðleiks látið fylgja hér með afrit af umsögn Mosfellsbæjar um erindi yðar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit: Mosfellsbær.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta