Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Borgarfjarðarsveit - Álagning b-gatnagerðargjalds, gjalddagi og útreikningur gjaldsins

Guðjón Guðmundsson                       7. september 2001                    FEL01080047/1001

Hlíð

320 Reykholt

 

 

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 22. ágúst sl., þar sem óskað er álits ráðuneytisins varðandi vinnubrögð sveitarstjórnar Borgarfjarðarsveitar við innheimtu gatnagerðargjalda í Reykholti. Erindið barst ráðuneytinu þann 27. ágúst sl. Í því er gerð athugasemd við að ekki hafi verið haft samband við íbúa áður en sveitarfélagið hóf framkvæmdir við lagningu bundins slitlags á íbúðagötu í Reykholti. Mun gatan, ásamt öllum lögnum og götulýsingu, upphaflega hafa verið lögð af íbúum við umrædda götu, sem samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er á landi í eigu ríkissjóðs. Einnig teljið þér að fasteignaeigendum í Reykholti kunni að verða mismunað þar sem sveitarstjórn hafi í hyggju að undanþiggja fasteignir sem tilheyra Hótel Reykholti gjaldinu.

 

Ráðuneytið taldi ástæðu til að kanna hvort ætlun yðar væri að leggja fram stjórnsýslukæru vegna þessa máls. Einnig taldi ráðuneytið óljóst um ýmis tildrög málsins. Var af þeim sökum haft símasamband við yður og sveitarstjóra til að afla frekari upplýsinga og afstöðu til málsins. Að þeim upplýsingum fengnum telur ráðuneytið að ekki sé um stjórnsýslukæru að ræða og verður því fjallað um erindi yðar með almennum hætti á grundvelli 2. og 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

 

Álit ráðuneytisins:

Upplýst er í málinu að haustið 2000 voru sendir út greiðsluseðlar til fasteignaeigenda í Reykholti sem eiga lóðir austan megin við umrædda íbúðagötu. Ekki voru sendir út greiðsluseðlar til eigenda Hótel Reykholts né menntamálaráðuneytisins, en umræddir aðilar eiga lóðir vestan götunnar. Þessu mótmæltu íbúar austan götunnar og liggur nú fyrir að menntamálaráðuneytið mun greiða gatnagerðargjöld vegna tveggja íbúðarhúsa sinna. Málefni Hótel Reykholts hafa enn ekki verið útkljáð, að sögn sveitarstjóra. Upphaflega var stefnt að því að framkvæmdum lyki á árinu 2000 en tafir hafa orðið á að svo yrði. Hefur því bundið slitlag enn ekki verið lagt á götuna en fyrirhugað er að það gerist á næstunni.

 

Núgildandi lög um gatnagerðargjald eru nr. 17/1996 og tóku þau gildi 1. janúar 1997. Í bráðabirgðaákvæði við þau lög segir að lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, gildi um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda við lagningu bundins slitlags og gangstétta sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku laganna. Þetta ákvæði á þó einvörðungu við um lóðir sem úthlutað var eða veitt hefur verið byggingarleyfi á fyrir gildistöku laga nr. 17/1996. Að sögn sveitarstjóra Borgarfjarðarsveitar eru öll hús við umrædda götu í Reykholti byggð fyrir 1. janúar 1997. Verður því að ætla að þær gatnaframkvæmdir sem nú standa yfir í Reykholti falli undir fyrrgreint bráðabirgðaákvæði. Gilda því lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, um álagningu og innheimtu gatnagerðargjalda vegna lagningar bundins slitlags á götuna.

 

Í 6. gr. laga nr. 51/1974 er kveðið á um að gatnagerðargjald skv. 3. gr. laganna skuli gjaldkræft þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu er lokið. Er þetta ákvæði mjög frábrugðið fyrirmælum laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, þar sem segir að gatnagerðargjald sé fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar, sem er í eigu sveitarfélagsins eða sveitarfélagið hefur ráðstöfunarrétt á, og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum. Sveitarstjórn ákveður í gjaldskrá sinni hvenær gjaldið er innheimt. Er ljóst, með vísan til þess að framkvæmdirnar í Reykholti falla undir bráðabirgðaákvæði laga nr. 17/1996, að óheimilt er að innheimta gatnagerðargjaldið fyrr en framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á götuna er lokið.

 

Jafnframt telur ráðuneytið líklegt, í ljósi þeirra upplýsinga sem það hefur aflað, að við álagningu gatnagerðargjalds hafi verið miðað við gjaldskrá sem sett er á grundvelli laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, og reglugerðar um gatnagerðargjald, nr. 543/1996. Umrædd lagafyrirmæli geta þó ekki gilt við álagningu sérstaks gatnagerðargjalds, sbr. 3. gr. laga um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sem er gjaldtökuheimild fyrir malbikun og lagningu gangstétta við þá götu þar sem gjaldandi býr. Fyrrnefndu lagafyrirmælin byggja á öðrum grunni en lög nr. 51/1974 og er þar heimiluð gjaldtaka til að standa straum af almennum kostnaði við gatnagerð í sveitarfélaginu, svo sem til að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum, m.a. vegna götulýsingar, og leggja bundið slitlag, gangstéttir, umferðareyjar og þess háttar þar sem gert er ráð fyrir því í skipulagi, sbr. 2. gr. laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996.

 

Af ofangreindum ástæðum mun ráðuneytið beina því til sveitarstjórnar Borgarfjarðarsveitar að gatnagerðargjöld vegna þeirra framkvæmda sem nú standa yfir í Reykholti verði endurreiknuð og þau lögð á að nýju að framkvæmdum loknum. Tekið skal fram að gert er ráð fyrir því í lögum nr. 51/1974 að sveitarfélög setji samþykkt um gatnagerðargjöld sem ráðherra staðfestir. Slík samþykkt var ekki í gildi í fyrrum Reykholtsdalshreppi í tíð laga nr. 51/1974. Er gert ráð fyrir að sveitarfélagið leysi úr því í samráði við ráðuneytið hvernig standa skuli að endanlegri ákvörðun gatnagerðargjalda á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins, en m.a. ætti að vera unnt að hafa mið af samþykktum nágrannasveitarfélaga Borgarfjarðarsveitar við lausn málsins.

 

Í ljósi þess að nokkur ágreiningur virðist vera um staðreyndir málsins, m.a. varðandi það hvort samráð hafi verið haft við fasteignaeigendur í Reykholti áður en framkvæmdir hófust og um það hvort endanleg ákvörðun liggi fyrir varðandi Hótel Reykholt, telur ráðuneytið ekki unnt að svara  spurningum yðar varðandi þau atriði að svo stöddu. Ráðuneytið telur þó rétt að benda á að enda þótt sveitarfélög hafi samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar sjálfræði á sínum málum, þ.á m. varðandi styrkveitingar til einstakra aðila, sætir það sjálfræði ákveðnum takmörkunum lögum samkvæmt. Meðal annars verður að taka tillit til jafnræðisreglu 65. greinar stjórnarskrárinnar, ákvæða samkeppnislaga nr. 8/1993, og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

 

 

F. h. r.

Sturlaugur Tómasson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta