Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Ólafsfjarðarbær - B-gatnagerðargjald, skylda sveitarfélags til framkvæmda, gjalddagi

Ólafsfjarðarbær
18. janúar 2005
FEL04120048/122

Kristinn Hreinsson, bæjarritari

Ólafsvegi 4

625 Ólafsfirði

Vísað er til erindis Ólafsfjarðarbæjar til félagsmálaráðuneytis, dags. 16. desember 2004, þar sem

óskað er eftir áliti ráðuneytisins á stöðu bæjarins varðandi frágang á slitlagi á Mararbyggð í

Ólafsfirði.

Málavextir eru þeir að á árinu 1989 voru byggð fjögur hús við Mararbyggð nr. 10, 12, 37 og 39.

Gatnagerðargjöld voru innheimt við byggingu þeirra húsa. Við Mararbyggð standa nú fimm

íbúðarhús, þ.e. auk ofangreindra fjögurra húsa jafnframt hús nr. 49. Ekki hefur enn verið gengið

frá bundnu slitlagi á Mararbyggð og hafa íbúar húsa nr. 10, 12, 37 og 39 nú krafið bæjaryfirvöld

um varanlegan frágang á bundnu slitlagi.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram:

Málið snýst um innheimtu svonefnds B-gatnagerðargjalds sem varið skal til að leggja bundið

slitlag á götur í sveitarfélagi og til lagningar gangstétta, sbr. 3. og 4. gr. laga um

gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975. Með lögum um gatnagerðargjald, nr.

17/1996, er B-gatnagerðargjald afnumið, þó þannig að ákvæði eldri laga um innheimtu og

álagningu B-gatnagerðargjalds halda gildi sínu vegna framkvæmda sem lokið er við innan tíu ára

frá gildistöku nýju laganna, þ.e. fyrir 31. desember 2006.

Um greiðslu B-gatnagerðargjalds á Ólafsfirði vísast jafnframt til staðbundinna reglna bæjarins,

þ.e. 11. gr. reglugerðar um gatnagerðargjöld fyrir Ólafsfjarðarkaupstað, nr. 795/1982. Umrætt

reglugerðarákvæði heldur gildi sínu jafnlengi og lagastoð þess, þ.e. vegna framkvæmda sem

lokið er við fyrir 31. desember 2006, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 17/1996.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, er gatnagerðargjald gjaldkræft

þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu er lokið. Sams konar

efnisreglu er að finna í 14. gr. reglugerðar um gatnagerðargjöld fyrir Ólafsfjarðarkaupstað, nr.

785/1982, en þar segir að innheimta skuli B-gjald af fasteignum við götur sem lagðar hafa verið

bundnu slitlagi á sl. 5 árum. Í þessu sambandi bendir ráðuneytið á tvo dóma Hæstaréttar, annan

frá 1991, bls. 615, en þar gerði Hæstiréttur ekki athugasemdir við það að sveitarfélagið hóf

innheimtu á hluta B-gatnagerðargjalda áður en lagningu gangstéttar var að fullu lokið og hinn

dóminn frá 1984 bls. 573, sem fjallaði um álagningu B- gatnagerðargjalds, en þar fann

Hæstiréttur ekki að því að þessi gjöld væru lögð á og innheimta þeirra hafin áður en

gatnagerðarframkvæmdum lauk.

Með hliðsjón af framangreindum hæstaréttardómum telur ráðuneytið fyrst heimilt að hefja

innheimtu B-gatnagerðargjaldsins eftir að bundið slitlag hefur verið lagt á viðkomandi götu. Í

máli þessu var eigendum fjögurra húsa við Mararbyggð á hinn bóginn gert að greiða gjaldið áður

en framkvæmdir hófust, sem er í andstöðu við lög og staðbundnar reglur bæjarins. Bendir

ráðuneytið í þessu sambandi sérstaklega á 9. og 102. gr. sveitarstjórnarlaga um skyldu

sveitarstjórna til að fara að lögum og heimild ráðuneytisins til að veita sveitarstjórn áminningu

vanræki hún lögbundnar skyldur sínar.

Með hliðsjón af framansögðu er niðurstaða ráðuneytisins sú að Ólafsfjarðarbæ sé skylt að hefja

nú þegar og ljúka framkvæmdum við að leggja bundið slitlag á á Mararbyggð.

Lagaheimild sveitarfélagsins til að innheimta B-gatnagerðargjald af húsi nr. 49 við Mararbyggð

er síðan bundin við það að framkvæmdum sé lokið fyrir 31. janúar 2006, sbr. ákvæði til

bráðabirgða í lögum nr. 17/1996, en ella fellur heimild til innheimtu niður.

Með vísan til alls sem að framan er rakið er þess hér með farið á leit að Ólafsfjarðarbær tilkynni

ráðuneytinu um niðurstöðu málsins í bæjarstjórn.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

18. janúar 2005 - Ólafsfjarðarbær - B-gatnagerðargjald, skylda sveitarfélags til framkvæmda, gjalddagi (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta