Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Akraneskaupstaður - Álagning B-gatnagerðargjalds vegna endurnýjunar gangstéttar, skortur á lagastoð

Lögmenn
23. ágúst 2005
FEL05050033/122

Arnór Halldórsson, hdl.

Skipholti 50 C

105 REYKJAVÍK

Hinn 23. ágúst 2005 er í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með erindi, dags. 23. maí 2005, mótteknu 24. sama mánaðar, kærði Arnór Halldórsson hdl.,

f.h. eigenda fasteigna við Vesturgötu nr. 129, 131, 134–145 og 147–165 á Akranesi, hér eftir

nefndir kærendur, ákvörðun Akraneskaupstaðar um álagningu og innheimtu gatnagerðargjalds

af fasteignum við Vesturgötu á Akranesi, vegna endurnýjunar gangstéttar. Krefjast kærendur

þess að ráðuneytið hnekki álagningu og innheimtu viðkomandi gjalda.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Akraneskaupstaðar, hér eftir nefndur kærði, með bréfi, dags.

31. maí 2005. Óskað var eftir því að í umsögninni yrði gerð grein fyrir málsatvikum, eins og

þau horfðu við sveitarfélaginu, ásamt lagagrundvelli fyrir innheimtu gjaldsins. Einnig var þess

óskað að í umsögninni kæmi fram hvort B-gatnagerðargjald hefði áður verið lagt á umræddar

fasteignir og hvenær framkvæmdum við lagningu bundins slitlags og frágang götu hefði

endanlega verið lokið. Í bréfinu tók ráðuneytið fram að kærendum hefði verið gefinn kostur á

að leggja fram ítarlegri upplýsingar vegna málsins og að þau gögn yrðu send Akraneskaupstað

um leið og þau bærust ráðuneytinu. Frestur var veittur til 1. júlí 2005 og barst ráðuneytinu

umsögn Akraneskaupstaðar þann 15. júní 2005. Var umsögnin send til lögmanns kærenda þann

23. sama mánaðar.

Með bréfi, dags. 31. maí 2005, gaf ráðuneytið kærendum kost á að leggja fram ítarlegri

upplýsingar vegna málsins, þ.á m. um nöfn þeirra gjaldenda sem kærðu álagninguna, þau gögn

sem byggt væri á og annað sem kærendur teldu að skipt gæti máli við meðferð málsins hjá

ráðuneytinu. Frestur var gefinn til 15. júní 2005 og barst svar til ráðuneytisins hinn 14. sama

mánaðar. Voru þau gögn send kærða til umsagnar þann 15. júní 2005 og barst sú umsögn

ráðuneytinu þann 30. sama mánaðar. Athugasemdir lögmanns kærenda við umsögnina barst

ráðuneytinu með símbréfi, dags. 15. júlí 2005, og var kærða gefinn kostur á því með bréfi,

dags. 5. ágúst 2005, að koma að frekari athugasemdum af sinni hálfu. Engar frekari

athugasemdir hafa þó borist frá kærða.

I. Málavextir

 

Þann 3. september 2004 var húseigendum við Vesturgötu á Akranesi send orðsending frá

Orkuveitu Reykjavíkur sf., Akraneskaupstað og Símanum hf. þess efnis að ofangreindir aðilar

myndu á næstu tveimur mánuðum endurnýja gangstétt, dreifi- og heimæðalagnir við hús þeirra.

Í orðsendingunni kemur meðal annars fram að megintilgangur framkvæmdanna sé „fyrst og

fremst sá að bæta rekstraröryggi veitnanna“. Í bréfinu kemur einnig fram að tenging við

húslagnir sé húseigendum að kostnaðarlausu.

Er umræddum húseigendum barst síðan greiðsluseðill til innheimtu gatnagerðargjalds vegna

framkvæmdanna, með gjalddaga 22. febrúar 2005, leitaði einn þeirra eftir skýringum á

gjaldtökunni hjá Akraneskaupstað. Í svarbréfi Akraneskaupstaðar, dags. 4. mars 2005, kemur

meðal annars fram að innheimta gjaldsins sé byggð á heimild í lögum og reglugerð. Einnig er

tekið fram að þar sem framkvæmdum sé ekki endanlega lokið við frágang götunnar þyki

eðlilegt að lengja greiðslufrestinn þannig að gjalddagi reiknings verði 1. september 2005.

Fram kemur í gögnum málsins að flest þeirra íbúðarhúsa er málið varðar eru byggð fyrir árið

1960. Jafnframt er óumdeilt að framkvæmdum við lagningu bundins slitlags og gangstéttar við

Vesturgötu lauk árið 1976. Af hálfu kærða er upplýst að leitað hafi verið upplýsinga í

ársreikningum Akraneskaupstaðar frá árunum 1976–1981 um hvort B-gatnagerðargjald hafi

áður verið lagt á umræddar fasteignir en þar sé hvergi að finna tekjur af gatnagerðargjöldum á

Vesturgötu. Í fyrrnefndum ársreikningum sjáist hins vegar að á sama tíma hafi verið innheimt

gjald af eigendum fasteigna við aðrar götur. Einnig bendir kærði á að ekki finnist nein gögn um

að gerðir hafi verið samningar við fasteignaeigendur um greiðslu gatnagerðargjalds, líkt og

tíðkast hafi á þessum tíma. Kærði tekur þó fram í umsögn sinni, dags. 30. júní 2005, að

gatnagerðargjöld hafi verið lögð á og innheimt allt frá því að lög nr. 51/1974 tóku gildi og telur

kærði að fyllsta jafnræðis hafi verið gætt í því sambandi.

II. Málsrök kærenda

 

Í málinu halda kærendur því fram að umrædd gjaldtaka eigi sér ekki næga stoð í lögum. Máli

sínu til stuðnings benda þeir á að lagaákvæði það sem kærði byggi mál sitt á, þ.e. ákvæði til

bráðabirgða í lögum nr. 17/1996, sé ekki ætlað að gilda um framkvæmdir vegna endurnýjunar

gatna eða gangstétta sem hafi að fullu verið frágengnar í gildistíð eldri laga nr. 51/1974.

Ákvæðinu sé heldur ekki ætlað að gilda um slíkar framkvæmdir sem að öllu leyti eiga sér stað í

gildistíð hinna nýju laga nr. 17/1996.

Kærendur benda einnig á að samkvæmt upplýsingum frá bæjarritara Akraneskaupstaðar, dags.

4. mars 2005, hafi gangstétt við þann hluta Vesturgötu sem hér um ræðir verið frágengin árið

1976. Samkvæmt þágildandi lögum nr. 51/1974 hafi Akraneskaupstaður haft heimild til þess

að innheimta gatnagerðargjald en hafi hins vegar ekki gert það og þar sem meira en fimm ár

séu liðin frá því gangstétt var lögð við götuna megi ekki innheimta gjaldið skv. 4. gr. laga nr.

51/1974.

Að mati kærenda var engin þörf á að endurnýja gangstétt við götuna og benda þeir á í því

sambandi að ekkert í lögunum heimili gjaldtöku vegna kostnaðar sem fellur til við að brjóta

upp mannvirki í fullkomnu lagi í því skyni að þjóna hagsmunum utanaðkomandi aðila, svo sem

Orkuveitu Reykjavíkur sf. og Símans hf., líkt og gert hafi verið í því tilfelli sem hér um ræðir.

Kærendur halda því enn fremur fram að gjaldtakan hafi ekki stoð í gjaldskrá

Akraneskaupstaðar nr. 844/2004 sem var í gildi á þeim tíma þegar umrædd ákvörðun var tekin.

Því uppfylli gjaldtakan ekki skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 17/1996 er varðar slíkar gjaldskrár.

Auk þess telja kærendur að skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 51/1974, þess efnis að ráðherra skuli

staðfesta samþykktir sveitarstjórna, hafi ekki verið uppfyllt þar sem slík staðfesting liggi ekki

fyrir varðandi gjaldskrá Akraneskaupstaðar.

Auk þess sem að framan greinir telja kærendur að ýmsar reglur stjórnsýsluréttarins hafi verið

brotnar með gjaldtökunni. Má þar nefna að kærendur telja að 20. gr. stjórnsýslulaga, nr.

37/1993, hafi verið brotin þar sem Akraneskaupstaður hafi ekki látið greiðendur gjaldsins vita

um álagningu gjaldsins sérstaklega áður en þeim bárust greiðsluseðlarnir í hendur. Auk þess

hafi viðkomandi greiðsluseðlar ekki haft að geyma fullnægjandi upplýsingar um gjaldtökuna

eða réttarstöðu gjaldenda í samræmi við áðurnefnda 20. gr. laga nr. 37/1993. Slík vitneskja sé

hins vegar grundvöllur þess að unnt sé að bregðast við ólögmætri gjaldtöku. Einnig telja

kærendur að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin þar sem innheimta

Akraneskaupstaðar á B-gatnagerðargjaldi virðist vera handahófskennd og einungis beinast að

sumum en ekki öllum húseigendum. Í fylgiskjali nr. 5 sem barst ráðuneytinu með bréfi frá

lögmanni kærenda, dags. 14. júní 2005, kemur fram undir lið 4 að Akraneskaupstaður hafi áður

innheimt gatnagerðargjöld hjá húseigendum í bænum og þurft að draga þær innheimtur til baka

eða endurgreiða álögð gjöld. Einnig kemur þar fram að húseigendur við Presthúsabraut hafi

ekki þurft að greiða álögð gatnagerðargjöld þar sem einn húseigandi við götuna hafi getað sýnt

fram á það, með gamalli kvittun, að Akraneskaupstaður hafði áður lagt slík gjöld á

húseigendur. Bent er á að álögð gjöld á húseigendur neðarlega við Vesturgötu hafi verið dregin

til baka.

Í athugasemdum frá 15. júlí 2005 ítreka kærendur fyrri kröfur og málsástæður. Kærendur í

málinu hafa vefengt að framangreind lagaheimild geti verið grundvöllur álagningar. Byggja

þeir mál sitt í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið sýnt fram á annað í málinu en að eigendur húsa

við viðkomandi götu, sem lögð hafi verið bundnu slitlagi fyrir hartnær þrjátíu árum síðan, hafi

greitt B-gatnagerðargjald á þeim tíma. Ekki geti verið heimilt samkvæmt lögum að innheimta

gjaldið að nýju hafi það þegar verið greitt. Einnig benda kærendur á að hús við götuna hafi

flest verið byggð fyrir árið 1960 og á þeim tíma hafi verið í gildi lög nr. 18/1920 um gjöld til

holræsa og gangstétta. Ekki hafi verið kannað af hálfu Akraneskaupstaðar hvort innheimt hafi

verið gatnagerðargjöld á grundvelli þeirra laga. Kærendur benda einnig á að samkvæmt

upplýsingum frá bæjarritara Akraneskaupstaðar, dags. 4. mars 2005, hafi gangstétt við þann

hluta Vesturgötu, sem hér um ræðir, verið frágengin árið 1976. Samkvæmt þágildandi lögum

um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, með síðari breytingum, hafi Akraneskaupstaður haft heimild

til þess að innheimta gatnagerðargjald en hafi það ekki verið gert innan fimm ára frá því

gangstétt var lögð við götuna megi ekki innheimta gjaldið skv. 4. gr. laganna.

Í öðru lagi halda kærendur því fram að engin þörf hafi verið fyrir endurnýjun gangstéttar við

Vesturgötu, auk þess sem þeir telja að ekki hafi verið tekin um það ákvörðun af til þess bæru

stjórnvaldi að ráðast í endurnýjun hennar á kostnað íbúa við götuna eða á hvern hátt álagningu

gatnagerðargjalds yrði háttað og hvaða kostnaður liggi til grundvallar. Í því sambandi vísa

kærendur til þess að megintilgangur framkvæmda við gangstéttina hafi verið að bæta

rekstraröryggi dreifi- og heimæðalagna Orkuveitu Reykjavíkur sf. og Símans hf. Í þessu

sambandi mótmæla kærendur fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 48/1982, sem vitnað

er til í umsögn kærða, þar sem aðstæður í þessu máli séu ekki sambærilegar við þær sem fjallað

var um í dómi Hæstaréttar.

Í þriðja lagi vefengja kærendur að gjaldtaka byggist á gildri samþykkt bæjarstjórnar, staðfestri

af ráðherra, líkt og áskilið sé í lögum nr. 51/1974. Gildandi gjaldskrá um gatnagerðargjald hafi

ekki hlotið staðfestingu ráðherra og einnig telja kærendur að ákvæði reglugerðar nr. 201/1985

fari á bága við ákvæði laga nr. 51/1974 enda sé í reglugerðinni gengið út frá því að gjaldið sé

álagt sem skattur en ekki þjónustugjald, líkt og lögin kveði á um. Þar sem um sé að ræða

íþyngjandi kvöð verði hún að styðjast við gilda lagastoð.

III. Málsrök kærða

 

Um heimild til álagningar styðst kærði, Akraneskaupstaður, við ákvæði laga um

gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, með síðari breytingum, samanber bráðabirgðaákvæði laga um

gatnagerðargjald, nr. 17/1996. Einnig hefur kærði vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 48/1982

varðandi fordæmi fyrir slíkri gjaldtöku.

Í málinu vísar kærði til þess að í frumvarpi sem síðar varð að lögum um gatnagerðargjald, nr.

17/1996, hafi verið gert ráð fyrir því að ákvæði til bráðabirgða myndi einungis taka til

framkvæmda sem hafnar væru fyrir gildistöku laganna en í fyrrnefndu frumvarpi sagði: „Lög

um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, gilda um innheimtu og álagningu

gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974 sem hafnar

eru fyrir gildistöku laga þessara, enda verði þeim framkvæmdum lokið innan fimm ára frá

gildistöku laga þessara.“ Kærði bendir hins vegar á að ákvæðið hafi tekið breytingum í

meðförum félagsmálanefndar Alþingis en sú breytingatillaga, sem síðan hafi verið samþykkt,

hafi hljóðað svo: „Í stað orðanna hafnar eru fyrir gildistöku laga þessara, enda verði þeim

framkvæmdum lokið innan fimm ára í fyrri málslið fyrri töluliðar komi: lokið er við innan tíu

ára.“ Auk þess bendir kærði á að breytingartillagan hafi verið skýrð með eftirfarandi hætti í

nefndaráliti félagsmálanefndar:

Þá er og lagt til að aðlögunartími samkvæmt fyrri tölulið ákvæðis til bráðabirgða verði

lengdur úr fimm árum í tíu ár þar sem sveitarfélögin eru misjafnlega vel á vegi stödd til þess

að mæta þeim tímamörkum sem sett eru. Lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, með síðari

breytingum, munu því gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda

á grundvelli 3. og 4. gr. þeirra laga, sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku laga þessara

með nánari skilyrðum sem kveðið er á um í fyrri tölulið ákvæðis til bráðabirgða.

Kærði telur ljóst af framansögðu að löggjafinn hafi fallið frá því skilyrði, sem fram komi í

upphaflegu frumvarpi, að framkvæmdir við gatnagerð væru hafnar fyrir gildistöku laga nr.

17/1996 til þess að ákvæði til bráðabirgða ætti við.

Kærði heldur því enn fremur fram að þótt lög nr. 51/1974 byggi á því meginsjónarmiði að

gatnagerðargjald sé innheimt við fyrstu lagningu gatna og gangstétta hafi Hæstiréttur í dómi

sínum í málinu nr. 48/1982 staðfest að einnig mætti innheimta gjald samkvæmt fyrrnefndum

lögum vegna endurnýjunar, hafi gjald ekki verið innheimt í upphafi. Að mati kærða er það í

höndum bæjaryfirvalda að ákveða hvort tilteknar framkvæmdir séu nauðsynlegar eða ekki. Í

því tilfelli sem hér um ræðir hafi verið nauðsynlegt að endurnýja gangstétt við Vesturgötu en

framkvæmdin hafi hins vegar ekki verið gerð í því skyni að þjóna hagsmunum utanaðkomandi

aðila, líkt og kærendur haldi fram, þótt tækifæri til endurnýjunar lagna hafi verið nýtt samhliða

framkvæmdinni.

Kærði telur enn fremur að innheimta gatnagerðargjaldanna byggi á gjaldskrá sem sett sé með

lögformlegum hætti, en með lögum nr. 17/1996 hafi verið aflagður sá háttur að ráðherra

staðfesti samþykkt sveitarstjórnar en þess í stað væru gjaldskrár birtar í Stjórnartíðindum. Þó

umrædd gjaldtaka byggist á ákvæði til bráðbirgða í lögum nr. 17/1996, þar sem vísað sé til laga

nr. 51/1974, sé ekki hægt að gera þá kröfu að við alla framkvæmd gjaldtökunnar verði stuðst

við aflögð vinnubrögð. Auk þess bendir kærði á 1. og 15. gr. gjaldskrár Akraneskaupstaðar, nr.

844/2004, og telur að þar sé að finna næga heimild til gjaldtökunnar.

Kærði telur sannað að eigendur fasteigna við Vesturgötu hafi ekki áður verið krafðir um

gatnagerðargjöld vegna gatnagerðar við götuna og nefnir í því sambandi ársreikninga

Akraneskaupstaðar frá árunum 1976–1981 en þar sé hvergi að finna tekjur af

gatnagerðargjöldum á Vesturgötu, en í fyrrnefndum reikningum sjáist hins vegar að á sama

tíma hafi verið innheimt gjald af eigendum fasteigna við aðrar götur. Kærði tekur þó fram í

umsögn sinni, dags. 30. júní 2005, að gatnagerðargjöld hafi verið lögð á og innheimt allt frá

því að lög nr. 51/1974 tóku gildi og telur kærði að fyllsta jafnræðis hafi verið gætt í því

sambandi.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Í máli þessu er deilt um heimild Akraneskaupstaðar til að leggja á svonefnt B-gatnagerðargjald

vegna endurnýjunar á gangstétt. Um heimild til álagningar styðst kærði við ákvæði laga um

gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, með síðari breytingum, samanber bráðabirgðaákvæði laga um

gatnagerðargjald, nr. 17/1996. Einnig hefur kærði vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 48/1982

varðandi fordæmi fyrir slíkri gjaldtöku. Nú er í gildi gjaldskrá nr. 236/2005 frá 23. febrúar

2005 fyrir gatnagerðargjald, stofngjald holræsa, byggingarleyfis- og þjónustugjöld tækni- og

umhverfissviðs Akraneskaupstaðar en um álagningu B-gatnagerðargjalds samkvæmt eldri

lögum gildir reglugerð um gatnagerðargjöld á Akranesi nr. 201/1985.

Almenna heimild fyrir sveitarfélög til að innheimta gatnagerðargjöld var ekki að finna í lögum

fyrr en sett voru lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974. Í 3. gr. þeirra laga var sveitarstjórnum

heimilað að innheimta sérstakt gjald sem varið skyldi til framkvæmda við að undirbyggja götur

með tilheyrandi lögnum og slitlagi. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að umræddum

lögum kemur fram að varanleg gatnagerð sé verkefni sem ekki sé mögulegt að fjármagna

eingöngu með þeim tekjustofnum sem sveitarfélög ráða yfir samkvæmt lögum og sé

frumvarpið flutt til að auðvelda sveitarfélögum að leysa þetta verkefni og fá í lög heimild til að

innheimta gatnagerðargjöld.

Ákvæði 3. gr. laganna var ætlað að gilda bæði um fasteignir við nýjar götur og götur sem

byggst höfðu fyrir gildistöku laganna en voru ekki að fullu frágengnar, enda hefðu ekki áður

verið innheimt gatnagerðargjöld. Í 2. mgr. 6. gr. laganna var tekið fram að sérstakt

gatnagerðargjald skyldi gjaldkræft þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við

hlutaðeigandi götu væri lokið.

Við úrlausn þessa máls telur ráðuneytið mestu skipta að B-gatnagerðargjaldi var eingöngu

ætlað að gera sveitarfélögum kleift að standa straum af stofnframkvæmdum við götur, þ.e.

lagningu bundins slitlags og gerð gangstéttar. Ekki var gert ráð fyrir því í lögum nr. 51/1974 að

hægt væri að leggja gjaldið á að nýju til að fjármagna viðhald eða endurnýjun gatna eða

gangstétta og verður að gera ráð fyrir að löggjafinn hafi ætlað sveitarfélögum að fjármagna

viðhald og endurnýjun gatnakerfis með almennum skatttekjum.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 51/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1975, ber að innheimta Bgatnagerðargjald

innan fimm ára frá því framkvæmdum lýkur. Í úrskurði ráðuneytisins frá 10.

nóvember 1997 varðandi Eyrarsveit (ÚFS 1997:133) er komist að þeirri niðurstöðu að umrætt

ákvæði beri að skýra samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að í því felist að sveitarstjórn glati

möguleikanum á að leggja á B-gatnagerðargjald að liðnum fimm árum frá lokum framkvæmda.

Í þessu máli deila aðilar um hvort B-gatnagerðargjald hafi verið innheimt á sínum tíma. Verður

að skilja málflutning kærenda svo að þeir telji kærða bera sönnunarbyrði hvað þetta atriði

varðar. Af hálfu kærða, Akraneskaupstaðar, er heimild til álagningar B-gatnagerðargjalds

byggð á því að gjaldið hafi ekki verið innheimt á sínum tíma og vísar hann til dóms Hæstaréttar

í máli nr. 48/1982 um fordæmi fyrir slíkri gjaldtöku. Aðstæður í því máli voru þó aðrar en um

er að ræða í þessu máli að því leyti að um var að ræða götu sem var að öllu leyti frágengin fyrir

gildistöku laga nr. 51/1974. Af þeirri ástæðu gat ekki orðið um það að ræða að hugsanlegt

tómlæti sveitarstjórnar varðandi innheimtu gjaldsins hefði áhrif á niðurstöðu réttarins.

Að mati ráðuneytisins hefur kærði fært fram sennilegar skýringar því til stuðnings að Bgatnagerðargjald

hafi aldrei verið lagt á fasteignir kærenda. Frekari sönnunarfærsla um þetta

atriði skiptir þó engu um niðurstöðu þessa máls. Ef það er rétt sem kærendur halda fram, að

gjaldið hafi áður verið innheimt, er ljóst að kærða er ekki stætt á að leggja það á að nýju. Sé

það hins vegar rétt sem kærði heldur fram, að bæjaryfirvöldum hafi á sínum tíma láðst að

innheimta gjaldið, verður niðurstaðan sú að sá réttur sé löngu niðurfallinn vegna tómlætis,

samanber afdráttarlaust orðalag 4. gr. laga nr. 51/1974, með síðari breytingum, um að gjaldið

verði ekki lagt á ef liðin eru meira en fimm ár frá lokum framkvæmda við götu. Sá réttur getur

ekki stofnast að nýju við þá ákvörðun að endurnýja gangstétt við götuna. Þegar af þessari

ástæðu verður að draga þá ályktun að álagning B-gatnagerðargjalds vegna endurnýjunar

gangstéttar við Vesturgötu eigi sér ekki lagastoð og sé því ógild.

Með vísan til þessarar niðurstöðu er sú ákvörðun Akraneskaupstaðar að krefja kærendur um Bgatnagerðargjald

vegna endurnýjunar gangstéttar við Vesturgötu á Akranesi ógild.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist umfram þann tíma sem mælt er fyrir um í 103. gr.

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Skýrist sá dráttur af miklu annríki í ráðuneytinu og

sumarleyfum starfsmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Akraneskaupstaðar að leggja á B-gatnagerðargjald vegna endurnýjunar gangstéttar

við Vesturgötu á Akranesi, er ógild.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

G. Dýrleif Kristjánsdóttir (sign.)

Samrit:

Akraneskaupstaður

23. ágúst 2005 - Akraneskaupstaður - Álagning B-gatnagerðargjalds vegna endurnýjunar gangstéttar, skortur á lagastoð. (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta