Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Stöðvarhreppur - Heimild til að veita afslátt af skattheimtu eða annarri gjaldtöku

Bjarni Gíslason                                                      8. júlí 1997                                                         97040054

Heiðmörk 7                                                                                                                                                   1110

755 Stöðvarfjörður

            

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar, dagsett 30. mars 1997, um heimildir sveitarfélaga til að veita afslætti vegna skattheimtu eða annarrar gjaldtöku á þeirra vegu. Varðar málið ákvörðun Stöðvarhrepps um að veita afslátt af álögðum fasteignagjöldum fyrir árið 1997 hafi þau verið greidd fyrir 20. maí sama ár.

 

             Fasteignaskattur er þáttur í tekjuöflun sveitarfélaga til almenns reksturs þeirra og er ekki skilgreint í lögum að nota skuli þær tekjur til tiltekinna verkefna hjá sveitarfélaginu. Slík skattlagning verður ekki lögð á þegnana nema skýr lagaheimild sé fyrir hendi. Lagaheimild til álagningar fasteignaskatts er í 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga 4/1995, en þar segir að leggja skuli árlega skatt til sveitarfélags þar sem fasteign er eftir nánar greindum aðferðum. Gefið er síðan upp hámark þess skatts sem unnt er að leggja á viðkomandi fasteignareiganda á árinu. Ekki er beinlínis tiltekið í áðurgreindum lögum að sveitarfélögum sé heimilt að veita afslátt af álögðum fasteignaskatti, en telja verður að slíkt geti verið heimilt án þess að sérstakri lagaheimild sé til að dreifa, enda um ívilnandi ákvörðun að ræða gagnvart þegnunum.

 

             Í 4. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga kemur fram að sveitarstjórn er í sjálfsvald sett hvenær fasteignaskattur fellur í gjalddaga, jafnframt sem henni er heimilt að kveða á um hvort skatturinn skuli greiddur sem ein heildargreiðsla eða með sem næst jöfnum greiðslum á fleiri en einum gjalddaga. Verður að telja að ákveðið hagræði sé fyrir þegnana að njóta þess kostar að greiða álagðan fasteignaskatt með jöfnum greiðslum yfir árið í stað einnar heildargreiðslu án vaxta eða annars aukakostnaðar.

 

             Hins vegar getur það verið til mikils hagræðis fyrir sveitarfélag að fá þessa tekjustofna greidda sem fyrst. Þannig getur t.d. verið unnt að koma í veg fyrir lántökur vegna reksturs sveitarfélagsins og þar af leiðandi minnka m.a. vaxtakostnað af lánum.

 

             Að mati ráðuneytisins getur því verið réttlætanlegt að þeir gjaldendur sem greiða skattinn á mun færri gjalddögum en ella, hér 4 af 10, fái ívilnun sem nemur tilteknum afslætti en það getur aukið líkur á að fasteignaeigendur legðu kapp á að borga gjöldin fyrir 20. maí. Ætíð verður þó að gæta þess að afslátturinn nemi ekki svo háu hlutfalli að ósanngjarnt yrði, en 10% afsláttur verður ekki talinn ósanngjarn.

 

             Ráðuneytið telur að sömu sjónarmið eigi við um fasteignatengd þjónustugjöld, svo sem vatnsgjald.

 

             Beðist er velvirðingar á að dregist hefur að svara erindi yðar, en það stafar af miklum önnum í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta