Breiðdalshreppur - Synjun um niðurfellingu fasteignaskatts af gömlu fiskverkunarhúsi, jafnræðisregla stjórnsýsluréttar, beiting undanþáguheimildar 2. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995
Kristín Ellen Hauksdóttir
10. október 2000
FEL00060044/1110
Sólvöllum 18
760 Breiðdalsvík
Vísað er til erindis yðar, dags. 19. júní sl., varðandi synjun hreppsnefndar Breiðdalshrepps um niðurfellingu fasteignaskatts af gömlu fiskverkunarhúsi í yðar eigu, sbr. bréf hreppsnefndar til yðar, dags. 27. apríl sl. Hús þetta hefur staðið ónotað í nokkur ár.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn hreppsnefndar Breiðdalshrepps með bréfi dags. 5. júlí sl. Umsögnin barst með bréfi dags. 18. júlí sl.
I. Málavextir
Í umsögn hreppsnefndar kemur fram að ekki sé að finna neina heimild til niðurfellingar fasteignagjalda af eign yðar í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Byggist sú niðurstaða á því að ekkert þeirra atriða sem talin eru upp í 5. gr. laganna eigi við um eign yðar.
Eins og fram kemur í gögnum málsins hafið þér gert athugasemdir við synjun hreppsnefndar á grundvelli jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hafið þér vísað til þess að hreppsnefnd samþykkti á fundi hinn 14. mars. sl. að fella niður fasteignagjöld ársins 2000 af fasteigninni Sólvöllum 23. Í bréfi hreppsnefndar, dags. 14. júní sl., kemur fram að sú ákvörðun hafi verið byggð á því að eignin sé nú nýtt sem líkamsræktarstöð og falli því undir undanþáguákvæði 2. mgr. 5. gr. laganna. Var hreppsnefnd þeirrar skoðunar að starfsemin flokkist undir endurhæfingar- og/eða tómstundastarf.
Í umsögn hreppsnefndar, dags. 18. júlí sl., kemur enn fremur fram að fasteignin Sólvellir 23 hafi staðið auð um margra ára skeið en það sé fyrst nú, með breyttri nýtingu eignarinnar, að opnast hafi heimild til niðurfellingar fasteignagjalda.
II. Álit ráðuneytisins
Í ljósi framlagðra gagna telur ráðuneytið að hreppsnefnd Breiðdalshrepps hafi ekki átt annars úrkosti en að hafna beiðni yðar um niðurfellingu fasteignagjalda af hinni umdeildu fasteign. Er ljóst að sveitarstjórn er óheimilt að fella niður fasteignaskatt af ónýttu húsnæði nema um sé að ræða útihús á lögbýli, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Undanþágu- og niðurfellingarheimildir 1. og 2. mgr. 5. gr. byggja á hinn bóginn á því að fasteign sé nýtt á einhvern þann hátt sem talið er upp í þeim ákvæðum.
Hvað varðar fullyrðingu yðar um að hreppsnefndin hafi mismunað fasteignaeigendum í sveitarfélaginu telur ráðuneytið sig ekki hafa nægilegar upplýsingar til að fjalla ítarlega um málið. Þó skal tekið fram ráðuneytið telur að hreppsnefnd hafi fært fram rök fyrir niðurfellingu fasteignagjalda ársins 2000 af fasteigninni Sólvöllum 23 sem út af fyrir sig verður að telja málefnaleg. Þannig telur ráðuneytið ljóst að undir niðurfellingarheimild 2. mgr. 5. gr. laganna getur í raun fallið hvers konar tómstundastarfsemi. Sveitarstjórn ber að meta hvort skilyrðum ákvæðisins er fullnægt en tekið skal fram að hér er einungis um heimildarákvæði að ræða. Er því ljóst að hreppsnefnd Breiðdalshrepps hafði allnokkurt svigrúm til ákvarðanatöku í málinu. Hefur á engan hátt verið sýnt fram á að ómálefnalega hafi verið staðið að því mati, en ráðuneytið bendir á að eðlilegt væri að sveitarfélagið mótaði skýrar reglur um beitingu ákvæðisins. Í þeim reglum gætu m.a. komið fram skilyrði um að starfsemin sé opin öllum íbúum sveitarfélagsins, eða öllum innan ákveðins aldurshóps. Þá væri einnig hugsanlegt að gera skilyrði um að ákveðinn lágmarksfjöldi íbúa nýti sér aðstöðuna.
Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið að ekki sé ástæða til að gera athugasemd við synjun Breiðdalshrepps á beiðni yðar um niðurfellingu fasteignagjalda. Jafnframt telur ráðuneytið, miðað við þau gögn sem liggja frammi í málinu, að ekki hafi verið sýnt fram á að hreppsnefnd hafi mismunað greiðendum fasteignagjalda í sveitarfélaginu þar sem þau tilvik sem athygli ráðuneytisins hefur verið vakin á eru ekki sambærileg.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu málsins. Stafar hann af sumarleyfum og því að nýr starfsmaður ráðuneytisins tók við málinu nú á haustdögum.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)