Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Fjarðabyggð - Heimild til afsláttar af fasteignaskatti skv. 4. mgr. 5. gr. tekjustofnalaga, tenging við tekjur maka

A.                                                                    20. ágúst 2003                              FEL02080049/1110

 

 

 

 

 

Hinn 20. ágúst 2003 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi, dags. 21. ágúst 2002, kærði A, til heimilis í Fjarðabyggð, hér eftir nefndur kærandi, til ráðuneytisins synjun Fjarðabyggðar, hér eftir nefnd kærði, á ósk kæranda um afslátt eða niðurfellingu á fasteignaskatti. Ráðuneytið svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 4. september 2002, þar sem honum var bent á að ágreiningur um gjaldstofn fasteignaskatts, þ.e. fasteignamat eignar, og gjaldskyldu ætti undir Fasteignamat ríkisins og yfirfasteignamatsnefnd. Einnig var kæranda tilkynnt um að ráðuneytið myndi leita eftir frekari upplýsingum frá kærða vegna erindis hans. Með bréfi sama dag óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá kærða um meðferð málsins og þeim gögnum sem málið vörðuðu.

 

Ráðuneytinu bárust svör kærða með bréfi, dags. 20. september 2002. Frekari athugasemdir kæranda varðandi málið bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 20. nóvember 2002. Ráðuneytið svaraði bréfi kæranda með bréfi, dags. 18. desember 2002, þar sem honum var greint frá því að ráðuneytið teldi nauðsynlegt að skoða erindi hans betur m.a. með tilliti til dómafordæma, auk þess sem ráðuneytið hefði í hyggju að taka afstöðu til fleiri ábendinga sem því hefðu borist um beitingu sveitarfélaga á heimildarákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Einnig var kæranda sent svar kærða við bréfi ráðuneytisins, dags. 4. september 2002.

 

Með bréfi, dags. 17. mars 2003, var kæranda tilkynnt um að ráðuneytið hefði ákveðið að ráðast í könnun á beitingu sveitarfélaga á fyrrnefndu heimildarákvæði, en það var mat ráðuneytisins að niðurstöður könnunarinnar kynnu að hafa þýðingu við úrlausn málsins. Var kæranda einnig tilkynnt að í ljósi þessa yrði úrskurður ekki kveðinn upp fyrr en niðurstöður könnunarinnar lægju fyrir.

 

 

I. Málavextir og málsrök aðila

Með erindi, dags. 26. maí 2002, fór kærandi fram á það við kærða að hann tæki til skoðunar álagningu fasteignagjalda á fasteignir kæranda. Kærandi er öryrki og í hjúskap. Kærði synjaði erindi kæranda með bréfi, dags. 26. júní 2002, á þeim forsendum að kærandi og eiginkona hans væru yfir þeim tekjumörkum sem sveitarfélagið miðaði við, vegna niðurfellingar eða afsláttar af fasteignaskatti.

 

Kærandi heldur því fram að reglur kærða um niðurfellingu og afslátt af fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega, sem settar eru á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, séu ólögmætar. Í því sambandi telur kærandi að ákvæði reglnanna um viðmiðunartekjumörk samrýmist ekki niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 125/2000, Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands, þar sem beitt sé tekjutengingu milli hjóna við ákvörðun viðmiðunartekjumarka. Bendir kærandi á að í fyrrnefndu máli hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að tekjutenging milli hjóna við útreikning örorkubóta samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 11/1993, væri ólögmæt.

 

Krefst kærandi endurgreiðslu fasteignagjalda þrjú ár aftur í tímann með vísan til viðbragða ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í máli nr. 125/2000.

 

Kærði heldur því fram að honum beri ekki að fella niður fasteignaskatt af fasteignum kæranda. Bendir kærði á að tekjustofnar sveitarfélaga séu ákveðnir með lögum og einungis sé heimilt að veita lífeyrisþegum niðurfellingu á greiðslum, umfram aðra þegna sveitarfélagsins, á grundvelli lagaheimildar. Slíka heimild sé að finna í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en hins vegar séu kærandi og eiginkona hans yfir viðmiðunartekjumörkum sveitarfélagsins hvað varðar undanþágur skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995.

 

Kærði bendir einnig á að nauðsynlegt hafi verið talið að tekjutengja niðurfellinguna og miða við sameiginlegar tekjur hjóna, þar sem verið sé að leggja fasteignaskatt á sameign þeirra, ólíkt dómi Hæstaréttar í máli nr. 125/2000, þar sem fjallað var um beinar greiðslur til einstaklings.

 

II. Niðurstaða ráðuneytisins

Reglur um álagningu fasteignaskatts er að finna í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna skal vísa ágreiningi vegna gjaldstofns skv. 3. gr. til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla. Beiting sveitarfélaga á heimildum til niðurfellingar og lækkunar fasteignaskatta fellur hins vegar undir úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins, skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

 

Ákvæði um undanþágur frá fasteignaskatti og heimildir sveitarfélaga til að undanþiggja einstök mannvirki fasteignaskatti og tiltekna hópa frá greiðslu fasteignaskatts er að finna í 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna er sveitarfélögum heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Ákvæðið hefur að stofni til verið í lögum frá árinu 1972, en það var fyrst lögfest með lögum nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá hljóðaði ákvæðið svo:

 

„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega, sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri.“

 

Í lögskýringargögnum með umræddu ákvæði kemur fram að vegna verulegrar hækkunar á fasteignaskatti, sem af lögunum leiddi, hafi þótt nauðsynlegt að setja ákvæði um heimild handa sveitarstjórnum til þess að lækka eða fella niður fasteignaskatt þessara tveggja hópa. Jafnframt segir í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 8/1972 að heimild þessi sé þröng þar eð hún nái aðeins til elli- og örorkulífeyrisþega og komi því aðeins til greina, að efnahagur þeirra og afkoma sé slík að þeir geti ekki mætt hækkuðum útgjöldum vegna opinberra gjalda. Með lögum nr. 91/1989 var orðalagi ákvæðisins breytt þannig að heimildin nær nú til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega í stað efnalítilla áður.

 

Það er á valdi viðkomandi sveitarstjórnar að ákveða hvort heimild 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 verði notuð, og með hvaða hætti hún er útfærð, svo fremi sem útfærslan er innan ramma ákvæðisins og byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum, samanber álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2812/1999. Við túlkun ákvæðisins verður að hafa í huga að sveitarfélög hafa almennt umtalsvert svigrúm til athafna og ákvarðanatöku að því leyti sem þeim eru ekki settar skorður til slíks með lögum, meginreglum stjórnsýsluréttar eða eðli máls, sbr. 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Getur kærði því m.a. sett reglur um hverjir teljast tekjulágir einstaklingar sem og með hvaða hætti hann ákvarðar tekjuviðmið, t.d. hvort beita eigi tekjutengingu milli hjóna.

 

Í þessu sambandi skiptir einnig máli að samkvæmt meginreglu hjúskaparlaga, nr. 31/1993, eru hjón framfærsluskyld gagnvart hvoru öðru og fjölskyldu sinni, sbr. VII. kafla laganna. Jafnframt teljast eignir hjóna hjúskapareignir nema sérstakar heimildir kveði á um annað, sbr. 53. gr. laganna, og er þeim almennt óheimilt að ráðstafa þeim án samþykkis hins. Að mati ráðuneytisins telst það því málefnalegt sjónarmið að líta til tekna beggja hjóna við ákvörðun viðmiðunartekjumarka.

 

Ráðuneytið hefur nýverið gengist fyrir könnun um beitingu og útfærslu sveitarfélaga á heimildarákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Af niðurstöðum þeirrar könnunar má sjá að nokkur fjöldi sveitarfélaga beitir tekjutengingu milli hjóna í viðmiðunartekjumörkum og gerir ráðuneytið ekki athugasemd við þá framkvæmd.

 

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 125/2000 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að Tryggingarstofnun ríkisins hefði verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka sem ekki var lífeyrisþegi, með þeim hætti sem gert var í lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í þessu máli hefur því verið haldið fram af kærða að það álitaefni sem til umfjöllunar var í dómi Hæstaréttar sé ekki sambærilegt álagningu fasteignaskatts, þar sem annars vegar sé um beinar greiðslur til einstaklinga að ræða en fasteignaskattur sé hins vegar lagður á sameiginlegar eignir hjóna. Verður að fallast á það með kærða að hér sé ekki um sambærileg tilvik að ræða, enda eðlismunur á lágmarkstekjutryggingu eða grunnframfærslu, sem að einhverju leyti er varin af 76. gr. stjórnarskrárinnar, og opinberum gjöldum sem lögð eru á fasteignir.

 

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur ráðuneytið að ekki verði annað séð en að kærða hafi verið heimilt að miða tekjumörk afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti við sameiginlegar tekjur hjóna. Það er því niðurstaða ráðuneytisins að hafna beri kröfum kæranda í máli þessu.

 

Vegna anna í ráðuneytinu og sumarleyfa hefur uppkvaðning úrskurðar þessa tafist.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Fjarðabyggðar um að synja ósk A. um niðurfellingu og endurgreiðslu fasteignaskatts er gild.

 

 

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Guðmundur Ómar Hafsteinsson (sign.)

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta