Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Kópavogsbær - Veiting afsláttar til ellilífeyrisþega, skylda til að setja reglur um tekjuviðmið

Kópavogsbær
8. ágúst 2006
FEL06060065

Fannborg 2

200 Kópavogi

Með erindi, dags. 25. maí 2006, óskaði A., hér eftir nefndur málshefjandi, eftir úrskurði ráðuneytisins um

lögmæti reglna Kópavogsbæjar um afslátt af fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega. Nánar tiltekið

leitar málshefjandi úrlausnar á því hvort ólögmætt hafi verið af hálfu bæjarins að ákvarða tiltekna fasta

fjárhæð afsláttar af fasteignaskatti á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995,

með síðari breytingum, til allra elli- og örorkulífeyrisþega í sveitarfélaginu, óháð tekjum lífeyrisþeganna,

samanber bókun bæjarráðs frá 15. desember 2005. Einnig er þess óskað að Kópavogsbæ verði gert að

auglýsa nýjar reglur og að þær verði afturvirkar til ársins 2004 þegar reglum bæjarins var síðast breytt.

Með bréfi, dags. 8. júní 2006, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Kópavogsbæjar um erindið og skýringum á

því hvers vegna ekki hafi verið fylgt leiðbeiningum ráðuneytisins frá 30. október 2003 varðandi beitingu á

framangreindu heimildarákvæði við setningu reglna um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af

fasteignaskatti, sbr. bréf dags. 31. október 2003 og 22. febrúar 2006. Umsögnin barst með bréfi

bæjarlögmanns Kópavogsbæjar, dags. 9. júní 2006. Var umsögnin send málshefjanda til kynningar með

bréfi dags. 22. júní sama ár, þar sem honum var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum.

Athugasemdir bárust í tölvupósti frá málshefjanda, dags. 10. júlí sama ár. Frekari skýringar á kröfugerð

málshefjanda bárust með tölvupósti dags. 1. ágúst 2006. Með tölvupósti dags. 2. ágúst 2006 var honum

tilkynnt að ráðuneytið myndi veita álit í málinu með vísan til 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

I. Málavextir og málsrök aðila

Fram kemur í gögnum málsins að móðir málshefjanda er ellilífeyrisþegi sem býr í eigin húsnæði í

Kópavogsbæ. Hún sótti um lækkun eða niðurfellingu á fasteignagjöldum vegna íbúðarhúsnæðis og

endurskoðun á afsláttarreglum Kópavogsbæjar fyrir lífeyrisþega þann 23. janúar 2006. Var erindinu

synjað af hálfu Kópavogsbæjar með bréfi bæjarlögmanns dags. 7. febrúar 2006. Málshefjandi fór fram á

rökstuðning fyrir synjuninni með tölvupósti, dags 1. mars 2006, og barst rökstuðningurinn honum með

bréfi dags. 15. mars 2006.

Málshefjandi byggir kröfu sína á þeirri málsástæðu að reglur Kópavogsbæjar um afslátt ellilífeyrisþega og

öryrkja á álögðum fasteignagjöldum séu ekki í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna

sveitarfélaga nr. 4/1995. Þá heldur hann því fram að sú ákvörðun Kópavogsbæjar að veita öllum elli- og

örorkulífeyrisþegum sama afslátt af fasteignaskatti óháð tekjum lífeyrisþeganna stangist á við umrætt

ákvæði. Í þessu sambandi vísar málshefjandi til leiðbeininga félagsmálaráðuneytisins, dags. 30. október

2003, um beitingu 4. mgr. 5. gr. sem sendar voru öllum sveitarfélögum landsins. Einnig vísar hann til

úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 3. júlí 2003, er varðaði Grýtubakkahrepp.

Kópavogsbær hefur í umsögn sinni skýrt afstöðu sína til málsins en í umsögninni segir meðal annars:

„Þau sjónarmið sem ráðið hafa við ákvörðun bæjarins við setningu þessara reglna eru þau að með þessu

sé gætt jafnræðis og allir sem uppfylla skilyrði reglnanna njóta sama afsláttar. Einnig skiptir verulegu

máli að mikið óhagræði leiðir af tekjutengingu afsláttarins þar sem þá þyrftu allir þeir sem afsláttarins

vilja njóta að skila staðfestu endurriti skattframtals. Ljóst er að fjölmargir aldraðir og lasburða yrðu af

afslættinum af þessum sökum. Þá er til þess að líta að flestir aldraðir og öryrkjar eru tekjulitlir þó

eiginfjárstaða sé æði mismunandi.

Ákvörðun bæjarins um afsláttarreglur var sem áður segir tekin á fundi bæjarráðs þann 19. desember 2005

og staðfest í bæjarstjórn 28. desember 2005. Bæjarstjórn Kópavogs er kjörin til að taka ákvarðanir um

málefni bæjarins og réttur sveitarfélaga til að ráða eigin málefnum í samræmi við ákvæði laga er

staðfestur í 78. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvörðun Kópavogsbæjar byggðist á þeim sjónarmiðum sem hafa

verið rakin og er ívilnandi.

Þannig er á því byggt að ofangreind ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs sé lögleg og því alfarið mótmælt

að til greina komi að auglýstar verði nýjar reglur og þær afturvirkar til ársins 2004 eins og kærandi fer

fram á.“

 

II. Álit ráðuneytisins

 

Niðurstaðan í máli þessu ræðst af túlkun á ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr.

4/1995, en það hljóðar svo eftir að ákvæðinu var breytt með lögum nr. 140/2005:

„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og

örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis,

svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af

fasteignaskatti.“

 

Málshefjandi byggir á því, eins og áður segir, að skylt sé samkvæmt ákvæðinu að tekjutengja afsláttinn

þannig að hann verði aðeins veittur tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum í samræmi við orðalag

tilvitnaðs lagaákvæðis. Kópavogsbær vill hins vegar túlka ákvæðið svo að sveitarfélögum sé ekki skylt að

tekjutengja afsláttarreglur sínar heldur hafi þau um það val, í ljósi sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaganna

og þess að um sé að ræða ívilnandi ákvörðun.

Ráðuneytið hefur í leiðbeiningum frá 30. október 2003 og í úrskurði frá 3. júlí 2003, er varðaði

Grýtubakkahrepp, látið í ljós túlkun sína á ákvæðinu eins og það hljóðaði áður en fyrrnefnd breyting var

gerð með lögum nr. 140/2005. Í leiðbeiningunum kemur fram sú afstaða ráðuneytisins að sveitarfélög

skuli setja ákveðin tekjuviðmið sem ákvarði hverjir skuli njóta umrædds afsláttar eða niðurfellingar.

Jafnframt hefur ráðuneytið látið í ljós þá skoðun að sveitarfélögum sé heimilt að líta til fjármagnstekna við

mat á tekjum elli- eða örorkulífeyrisþega, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 14. júní 2000, í máli nr.

2812/1999. Sama niðurstaða kemur fram í úrskurði ráðuneytisins sem málshefjandi vísar til varðandi

Grýtubakkahrepp. Með lögum nr. 140/2005 var bætt við ákvæðið nýjum málslið þar sem lögð er sú skylda

á sveitarstjórnir að setja reglur um beitingu ákvæðisins og eru í ákvæðinu rakin dæmi um atriði sem fram

ættu að koma í slíkum reglum. Kópavogsbær hefur ekki sett reglur þar sem heimildin er nánar útfærð en

við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2006 var ákveðið að veita allt að 37.000 kr. afslátt til þeirra elliog

örorkulífeyrisþega sem búa í eigin húsnæði.

Að mati ráðuneytisins er sú framkvæmd Kópavogsbæjar að láta alla ellilífeyrisþega njóta sama afsláttar,

þ.e. allt að 37.000 kr. á ári, ekki í samræmi við afdráttarlaust ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna

sveitarfélaga. Ekki er fallist á að sú framkvæmd verði réttlætt með vísan til þess að með því sé tryggt

jafnræði allra ellilífeyrisþega. Tilgangur umrædds lagaákvæðis er að heimila sveitarfélögum að ívilna

tilteknum hópi íbúa sveitarfélaga, þ.e. tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum. Ákveði sveitarstjórn að

beita heimildinni er henni skylt að gera það í samræmi við orðalag ákvæðisins. Samkvæmt því er

Kópavogsbæ skylt að setja reglur um veitingu afsláttarins og gæta þess að efni reglnanna sé í samræmi við

skýran tilgang 4. mgr. 5. gr. tekjustofnalaga. Þessa hefur ekki verið gætt af hálfu bæjarstjórnar og er hún

hér með áminnt um að bæta úr svo fljótt sem verða má.

Ráðuneytið hefur kynnt sér framkvæmd annarra sveitarfélaga á afsláttarveitingu til ellilífeyrisþega.

Sveitarfélög geta fengið upplýsingar frá Ríkisskattstjóra sem gera þeim kleift að láta afsláttarveitingu

gerast sjálfkrafa í álagningarkerfi fasteignaskatts. Sú röksemd Kópavogsbæjar á því ekki við að bærinn

verði að krefjast staðfests afrits skattframtals allra sem telja sig eiga rétt á afslætti, með tilheyrandi

óhagræði fyrir skattgreiðendur. Ef rétt er staðið að framkvæmd álagningar á jafnframt ekki að vera mikil

hætta á því að skattgreiðandi sem á rétt á afslætti missi þann rétt.

Málshefjandi hefur krafist þess að Kópavogsbæ verði gert að auglýsa nýjar reglur og að þær verði

afturvirkar til 2004 þegar reglum bæjarins var síðast breytt. Ráðuneytið telur sig ekki hafa forsendur til að

taka afstöðu til þess hvort málshefjandi eða aðrir, sem telja sig eiga rétt á meiri afslætti en veittur hefur

verið undanfarin ár, geti átt fjárkröfu gagnvart Kópavogsbæ af þeim sökum. Ráðuneytið telur hins vegar

rétt að Kópavogsbær hafi hliðsjón af lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995 við

afgreiðslu slíkra erinda sem bænum kunna að berast.

Ráðuneytið beinir því til Kópavogsbæjar að settar verði reglur um beitingu 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 í

samræmi við þá breytingu sem gerð var á tekjustofnalögum með lögum nr. 140/2005. Jafnframt telur

ráðuneytið rétt að Kópavogsbær taki afstöðu til þess hvort gerðar verði breytingar vegna afsláttar til

ellilífeyrisþega fyrir árin 2004 og 2005 líkt og farið er fram á í erindi málshefjanda. Ef málshefjandi óskar

eftir endurupptöku á erindi sínu til Kópavogsbæjar um afslátt af fasteignaskatti fyrir árið 2006 er því

jafnframt beint til Kópavogsbæjar að erindið verði tekið til afgreiðslu og afstaða tekin til þess hvort tilefni

sé til leiðréttingar á veittum afslætti.

Með vísan til 102. gr. sveitarstjórnarlaga er þess óskað að ráðuneytinu verði gerð grein fyrir því fyrir 1.

október nk. hvernig Kópavogsbær hyggst bregðast við áliti þessu.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Stefanía Traustadóttir (sign.)

8. ágúst 2006 - Kópavogsbær - Veiting afsláttar til ellilífeyrisþega, skylda til að setja reglur um tekjuviðmið. (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta