Reykjavíkurborg - Málsmeðferð borgarstjórnar við gerð fjárhagsáætlunar
Björn Bjarnason, borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins 3. desember 2002 FEL02120003/1001
Háuhlíð 14
105 REYKJAVÍK
Ráðuneytið vísar til erindis yðar varðandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem barst ráðuneytinu í rafpósti hinn 2. desember 2002. Í erindinu er óskað upplýsinga um hvort ráðuneytið hafi látið í ljós þá skoðun að samstæðureikningur þurfi ekki að liggja fyrir við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar. Einnig er óskað eftir rökstuðningi ráðuneytisins fyrir því að unnt sé að leggja fjárhagsáætlun fram í tveimur ólíkum myndum við afgreiðslu hennar og er í því sambandi vitnað í erindinu til álits ráðuneytisins frá 18. apríl 2000.
Það skal hér með upplýst að ráðuneytið hefur ekki með formlegum hætti tekið afstöðu til þess hvort þær breytingar á framkvæmd við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar sem vitnað er til í erindi yðar séu í samræmi við 61. gr. sveitarstjórnarlaga. Embættismenn borgarinnar hafa hins vegar í óformlegum viðræðum við ráðuneytið viðrað hugmyndir sem ætlað er að tryggja vandaðri málsmeðferð við afgreiðslu svonefnds b-hluta fjárhagsáætlunar borgarinnar. Meginbreytingin sem þetta mun hafa í för með sér er sú að fjárhagsáætlun verður ekki lögð fram í einu lagi í borgarstjórn og er stefnt að því að á fundi borgarstjórnar sem haldinn verður 5. desember nk. verði lagt fram frumvarp til fjárhagsáætlunar borgarsjóðs, þ.e. a-hluti fjárhagsáætlunar, þar sem fram kemur samspil borgarsjóðs og fyrirtækja í hans eigu en án þess að lögð sé fram samantekin fjárhagsáætlun borgarsjóðs og fyrirtækja og stofnana í eigu Reykjavíkurborgar. Þó munu liggja frammi fjárhagsáætlanir Reykjavíkurhafnar, Bílastæðasjóðs og Fráveitu Reykjavíkur.
Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Reykjavíkurborg verða fjárhagsáætlanir annarra b-hluta fyrirtækja lagðar fram á fundi borgarstjórnar sem haldinn verður 19. desember nk. og mun þá einnig liggja fyrir samantekin fjárhagsætlun. Gert er ráð fyrir því að á fundinum muni fara fram síðari umræða um a-hluta fjárhagsáætlunar og fyrri umræða um b-hluta áætlunarinnar en síðari umræða um b-hlutann fari síðan fram í fyrri hluta janúarmánaðar 2003.
Af framangreindri lýsingu verður ekki ráðið að ætlunin sé að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar verði lögð fram í tveimur ólíkum myndum eins og haldið er fram í erindi yðar, heldur virðist einungis um það að ræða að samantekin fjárhagsáætlun verður ekki lögð fram fyrr en að lokinni fyrri umræðu um a-hluta fjárhagsáætlunar. Í fyrrgreindu áliti ráðuneytisins frá 19. apríl 2000, sem einnig varðaði Reykjavíkurborg, var um það að ræða að í samþykktri fjárhagsáætlun var ekki að finna áætlun um efnahag borgarinnar í upphafi og lok árs. Var þessi annmarki á fjárhagsáætlun talinn vera í andstöðu við 5. mgr. 61. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Umrætt álit fjallar hins vegar ekki um það álitamál hvort nauðsynlegt sé að samantekin fjárhagsáætlun liggi fyrir við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun.
Í 61. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að sveitarstjórn skuli fyrir lok janúarmánaðar gera fjárhagsáætlun fyrir sveitarsjóð og stofnanir sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár. Þær meginreglur sem tilgreindar eru í ákvæðinu eru einkum eftirfarandi:
Við gerð fjárhagsáætlunar skal hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu sveitarsjóðs og stofnana sveitarfélagsins.
Fjárhagsáætlun skal rædd á tveimur fundum í sveitarstjórn með a.m.k. einnar viku millibili.
Í áætluninni skal koma fram rekstrar- og framkvæmdaáætlun, áætlun um efnahag í upphafi og lok árs, auk áætlaðra fjármagnshreyfinga.
Form fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings.
Ekki er unnt að draga þá ályktun af orðalagi 61. gr. sveitarstjórnarlaga að óheimilt sé að ræða fjárhagsáætlun á fleiri en tveimur fundum og ljúka umfjöllun um a-hluta áætlunarinnar áður en síðari umræða fer fram um b-hluta hennar. Hins vegar telur ráðuneytið óhjákvæmilegt að efnahags- og rekstraráætlanir sveitarsjóðs ásamt fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins liggi fyrir og að sveitarstjórnarmönnum gefist kostur á að kynna sér niðurstöðu þeirra áætlana áður en kemur að síðari umræðu um a-hluta fjárhagsáætlunar.
Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins munu allar upplýsingar sem kveðið er á um í 5. mgr. 61. gr. liggja fyrir við síðari umræðu um a-hluta fjárhagsáætlunar og gerir ráðuneytið ráð fyrir að þau gögn verði send borgarfulltrúum með nægum fyrirvara fyrir fund borgarstjórnar sem haldinn verður 19. desember.
Með vísan til alls sem að framan er rakið telur ráðuneytið ekki ástæðu til að ætla, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, að fyrirhuguð málsmeðferð við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar sé í andstöðu við ákvæði 61. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
F. h. r.
Garðar Jónsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)
Afrit:
Reykjavíkurborg