Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Reykjavíkurborg - Heimildir til að skuldbinda Reykjavíkurborg vegna ábyrgða Landsvirkjunar

Tómas Gunnarsson                                       14. janúar 2003                               FEL02120016/1001

Bleikjukvísl 1

110 REYKJAVÍK

 

 

 

Vísað er til erindis yðar sem ráðuneytinu barst með símskeyti hinn 10. desember 2002, varðandi ábyrgðir Reykjavíkurborgar á skuldum Landsvirkjunar. Í erindinu er óskað álits ráðuneytisins á því hvort það samrýmist ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, "að fella milljarðatugaábyrgð á sveitarfélagið Reykjavík með stórvirkjanaframkvæmdum sem þegar eru hafnar" án þess að að borgarstjórn hafi gert um það formlega samþykkt.

 

Því er til að svara að samkvæmt 1. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, er Landsvirkjun sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarkaupstaðar. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Á ríkissjóður 50% eignarhluta í fyrirtækinu en Reykjavíkurborg 44,525% og Akureyrarkaupstaður 5,475%. Hver eigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins en um innbyrðis ábyrgð fer eftir eignarhlutföllum. Eiganda er óheimilt að ganga úr félaginu án samþykkis sameigenda.

 

Samkvæmt 8. gr. laganna skal stjórn Landsvirkjunar skipuð sjö mönnum. Ráðherra orkumála skipar þrjá stjórnarmenn, borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá stjórnarmenn og bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar kýs einn. Ráðherra orkumála skipar formann stjórnar úr hópi þeirra stjórnarmanna sem hann skipar og vegur atkvæði hans tvöfalt á fundum stjórnar. Varamenn, jafnmargir, skulu skipaðir og kosnir á sama hátt.

 

Samkvæmt 14. gr. laganna er Landsvirkjun heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól (bókfærðu eigin fé í lok næstliðins árs) á ári hverju, þarf Landsvirkjun að leita samþykkis eignaraðila.

 

Ráðuneytið telur ótvírætt að ákvæði sérlaga um Landsvirkjun ganga framar ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, sem eru almenn lög um framkvæmd sveitarstjórnarmála. Með lögum nr. 42/1983 hefur löggjafinn ákveðið að þau sveitarfélög sem eiga eignarhluta í Landsvirkjun skuli ábyrg fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins, en tekið skal fram að skv. 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarfélögum almennt óheimilt að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Sú takmörkun á ekki við í ljósi ákvæða laga nr. 42/1983.

 

Ráðuneytinu er kunnugt um að borgarstjórn mun á næstu dögum taka til afgreiðslu erindi frá Landsvirkjun er varðar ábyrgðir eigenda fyrirtækisins vegna Kárahnjúkavirkjunar. Er ljóst að ábyrgðin tekur ekki gildi gagnvart Reykjavíkurborg nema hún verði samþykkt í borgarstjórn, enda er um að ræða skuldbindingar umfram hámark það sem tilgreint er í 14. gr. laga nr. 42/1983.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta