Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hveragerðisbær: Ágreiningur um álagningu gatnagerðargjalds. Mál nr. 74/2009


Ár 2010, 25. maí er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


ú r s k u r ð u r


í stjórnsýslumáli nr. 74/2009 (SAM09100055)


Valgerður Magnúsdóttir
gegn
Hveragerðisbæ

 

I.         Kröfur og aðild

Þann 14. október 2009 barst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu erindi frá Valgerði Magnúsdóttur, kt. 230154-2609, (hér eftir nefnd V) til heimilis að Klettahlíð 12 í Hveragerði, þar sem kærð er ákvörðun Hveragerðisbæjar að leggja á og innheimta B-gatnagerðargjald á fasteign hennar að Klettahlíð 12 í Hveragerði.

Krafa V er að sú ákvörðun Hveragerðisbæjar að leggja kr. 407.175 gatnagerðargjald á fyrrgreinda fasteign verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að krafan verði lækkuð til muna og að lengri greiðslufrestur verði veittur án vaxta og verðbóta.
Hveragerðisbær mótmælir kröfugerð V.
Óumdeilt er að V er aðili máls.

Um kæruheimild og kærufrest er fjallað í kafla V. Álit og niðurstaða.

 

II.          Málsatvik og  málsmeðferð

Í stuttu máli eru málavextir á þá leið að V sem er eigandi fasteignarinnar að Klettahlíð 12 í Hveragerði fékk heimsendan reikning frá Hveragerðisbæ að fjárhæð kr. 407.175,- vegna gatnagerðargjalds. Í bréfinu sem fylgdi reikningnum sagði að uppgjör gatnagerðargjalds geti farið fram með tvennum hætti, þ.e. annars vegar með staðgreiðslu en þá væri veittur 3% staðgreiðsluafsláttur og hins vegar með svokallaðri skuldaviðurkenningu, en þá bæri að greiða 20% gjaldsins á gjalddaga en  80% gjaldsins myndi greiðast með reglubundnum afborgunum næstu fjögur árin. Miða skyldi vexti við almenna óverðtryggða skuldabréfavexti Sparisjóðs Suðurlands á hverjum tíma, sem voru þá 16,95%, en lántöku- og stimpilkostnaður var 2,5%.

Fram kemur í máli V að hún hafi búið að Klettahlíð 12 mestan hluta ævi sinnar og nú búi hún þar ásamt móður sinni, Júlíu Jónsdóttur, en hún afsalaði V húsinu árið 2007. Segir V að móðir hennar hafi keypt húsið í janúar 1954 og telji hún að öll gjöld vegna gatnagerðar og annarra framkvæmda á vegum sveitarfélagsins séu löngu greidd.

Í málflutningi Hveragerðisbæjar kemur fram að Klettahlíð sé ein af eldri götum bæjarfélagsins, en aldrei hafi verið gengið frá yfirborðsfrágangi hennar frekar en nokkurra annarra gatna á svipuðum slóðum í bænum. Íbúar við götuna hafi því aldrei greitt fyrir kostnað sem af slíkum framkvæmdum hlýst. Gatnagerðin árið 2008 hafi falist í jarðvegsskiptum, endurnýjun á lögnum og frágangi yfirborðs, þ.e. gata og gangstétt voru malbikuð og kantsteinar lagðir.

Þann 14. október 2009, lagði V fram stjórnsýslukæru vegna málsins.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. október var Hveragerðisbæ gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau sjónarmið þann 9. nóvember 2009.

Ráðuneytið gaf V kost á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Hveragerðisbæjar með bréfi dags.11. nóvember 2009 og bárust þau andmæli þann 9. desember 2009.

Þann 10. desember 2009, ritaði ráðuneytið báðum aðilum bréf og tilkynnti að fyrirsjáanlegt væri að uppkvaðning úrskurðarins myndi dragast og þann 23. mars 2010 ritaði ráðuneytið aðilum á ný og tilkynnti þeim að uppkvaðning úrskurðar myndi enn dragast.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök V

Eins og fyrr segir þá hefur V búið að Klettahlíð 12 mestan hluta ævi sinnar og býr hún þar nú ásamt móður sinni, Júlíu Jónsdóttur, en hún afsalaði V húsinu árið 2007. Segir V að móðir hennar hafi keypt húsið í janúar 1954 og telji móðir hennar að hún sé fyrir löngu búin að greiða öll gjöld vegna gatnagerðar og annarra framkvæmda á vegum sveitarfélagsins. Engin leið sé að finna reikninga og önnur skjöl er þetta varðar eftir svo langan tíma, en faðir hennar, sem er látinn, sá að mestu um fjármál heimilisins.

Bendir V á að í bréfi því sem fylgdi reikningnum fyrir gatnagerðargjaldinu komi fram að um sé að ræða gatnagerðargjald B án frekari útskýringa. Í 3. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006 er heimild til álagningar gatnagerðargjalds, annars vegar er þar um að ræða heimild skv. a. lið 2. mgr. 3. gr. þar sem kveðið er á um heimild til álagningar gatnagerðargjalds er sveitarstjórn úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt, og hins vegar heimild skv. b. lið 2. mgr. 3. gr. en þar segir:

,,Verði ekki lagt á gatnagerðargjald skv. a-lið, eða ef veitt er byggingarleyfi fyrir stærri byggingu en álagning skv. a-lið var upphaflega miðuð við, skal við útgáfu byggingarleyfis leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til.”

V segir að áratugir séu síðan byggingarleyfið hafi verið gefið út og því geti ekki verið um álagningu að ræða á grundvelli þessa ákvæðis. Þá sé ekki heldur um stækkun að ræða eins og kveðið er á um 3. mgr. 3.gr. laganna og ekki sé verið að reisa nýja og stærri byggingu í stað annarrar á sömu lóð eða endurbyggja hús eins og kveðið er á um í 4. og 5. mgr. 3. gr. laganna. V telur því að lagastoð fyrir álagningu gatnagerðargjalds á svo gamalt hús sé ekki til staðar skv. orðalagi ákvæðisins, en ekki sé heimilt að beita rúmri túlkun vegna slíkrar skattlagningar og/eða þjónustugjaldaákvæða enda er um að ræða íþyngjandi ákvarðanir gagnvart gjaldendunum. 

V telur að hún og móðir hennar ættu frekar að fá bætur fyrir það óhagræði að sveitarfélagið skuli ekki í hálfa öld hafa gert þessa götu sæmilega til umferðar. V segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hafi aflað hafi Klettahlíð verið næstsíðasta gatan í bænum sem átti eftir að leggja á bundið slitlag þegar farið var í framkvæmdirnar og telur V að íbúar götunnar hafi því ekki setið við sama borð og aðrir bæjarbúar. Þá telur hún að framkvæmdin hafi verið alltof kostnaðarsöm auk þess sem hún hafi staðið yfir í allt of langan tíma. Vinnubrögðin hafi verið slík að það hafi valdið íbúum götunnar óhagræði og sumum tilfellum tjóni. Kemur fram í málflutningi V að hún hafi orðið fyrir því óhappi að bakka bifreið sinni á gröfuskóflu er lagt var aftan við bifreið hennar í innkeyrslu lóðarinnar, en myrkur var þegar atvikið átti sér stað. Skemmdist stuðari bifreiðarinnar og hefur hún ekki enn treyst sér til þess að láta gera við hann. V fer fram á það að Hveragerðisbær bæti henni þetta tjón en hún muni láta leggja mat á það á næstunni.

Þá bendir V á að skemmdir hafi verið unnar á lóð hennar þar sem gatan var hækkuð mikið og hefur ekki enn verið lokið við að lagfæra samskeyti lóðar og götu þannig að viðunandi sé. V bendir jafnframt á að eftir sé að ganga frá innkeyrslunni þannig að auðvelt sé að keyra inn í hana frá götunni en nú sé þar hár kantur vegna hækkunar götunnar.

V segir að meðan á framkvæmdunum hafi staðið, en þær tóku u.þ.b. tvö ár, hafi henni ekki verið tilkynnt um það að hún myndi fá háan reikning vegna framkvæmdarinnar. Bendir hún á að það hafi ekki allir íbúar tækifæri til þess að sækja fundi sem sveitarfélagið standi fyrir en hún viti ekki hvort framkvæmdin hafi verið kynnt á slíkum fundi og þá gerð grein fyrir því að kostnaðurinn við hana myndi lenda á íbúum götunnar en þeir reikningar sem íbúar við Klettahlíð fengu vegna gatnagerðargjaldanna komu þeim í opna skjöldu. Þá tekur V fram að hún hafi aldrei fengið tilkynningu um fund til kynningar á gatnagerðarframkvæmdum.
Þá telur V nauðsynlegt að fá upplýsingar um heildarkostnað við framkvæmdina, hvort leitað hafi verið tilboða í hana og hvort kostnaði hafi verið skipt niður á götur eða hvort kostnaði hafi verið skipt niður eftir heildarframkvæmd í fleiri götum og þá hvort framkvæmdum sé öllum lokið.

V telur að álagning gjaldsins sé tilviljunarkennd og ekki hafi verið gætt jafnræðis. Telur V að Hveragerðisbær hafi ekki sýnt fram á hvernig kostnaðurinn deilist niður á lóðir/hús við götuna. Máli sínu til stuðnings bendir hún á að nágranni hennar sem búi í stærra húsi að fermetrafjölda hafi fengið lægri reikning. Þá segir V að við götuna séu hús fyrir aldraða og nýlega byggt atvinnuhúsnæði sem hýsi þvottahús í eigu dvalarheimilisins Áss og Grundar, en henni hafi skilist að slík húsnæði geti fengið lækkað eða fellt niður gatnagerðargjald. Þá hefur ekki komið fram hvort sveitarfélagið ráðgeri að selja fleiri lóðir við götuna, hvort kostnaður vegna gatnagerðarinnar í götunni dreifist eingöngu niður á þau hús sem þar eru fyrir eða hvort kostnaður vegna óbyggðra lóða hafi verið dreginn frá. Þá bendir V á að samkvæmt greinargerð bæjarins megi ráða að við Klettahlíð séu samtals 11 hús en hún telur þau vera samtals 13.

Þá telur V að skort hafi á leiðbeiningarskyldu Hveragerðisbæjar en í því bréfi sem fylgdi reikningnum er ekki gerð grein fyrir  því á hvaða lagaheimild álagningin byggist og hver viðmiðun útreiknings álagningarinnar hafi verið. Einungis sé vísað til samþykktar um byggingargjöld í Hveragerði án þess að upplýsa um númer hennar né hvar hana sé að finna. Þá séu ekki heldur veittar leiðbeiningar um heimild þess að fá ákvörðunina rökstudda, um kæruheimild eða kærufresti og hvert skuli kæra, en um þetta er kveðið á í 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Loks bendir V á að fjárhæð gjaldsins sé slík að það brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýslunnar en heildar gjaldið nemur meira en tvöföldum mánaðarlaunum hennar. Þá er forsenda þess að unnt sé að velja afborgunarleiðina sú, að viðkomandi greiði 20% af heildargjaldinu en V bendir á að fyrir hana sé það tæplega helmingur mánaðarlauna hennar. Telur hún að með því að bjóða fólki upp slíka afarkosti eins og Hveragerðisbær gerir sé um skýrt brot á á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að ræða auk þess sem það stríðir gegn stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur að leiðarljósi, samkvæmt yfirlýsingum ráðherra í fjölmiðlum, að létta greiðslubyrði fólks í láglaunastörfum.

Telur V að ákvörðun sveitarfélagsins um að leggja á gatnagerðargjaldið sé ólögmæt.

 

IV. Málsástæður og rök Hveragerðisbæjar

Hveragerðisbær segir að álagning B-gatnagerðargjalda á lóðarhafa við Klettahlíð sé byggð á samþykkt um byggingargjöld í Hveragerði og sé einingarverð í útreikningi gjalda miðað við byggingarvísitölu 1. desember 2007 og einingarverðið sem gilti við útreikning B-gatnagerðargjalds vegna lóðarinnar Klettahlíðar 12 hafi verið 915,- kr./m³.

Samþykkt um byggingargjöld í Hveragerðisbæ er byggð á lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006, en í lögunum er ákvæði til bráðbirgða er tekur til álagningar svokallaðra B-gatnagerðargjalda en þar segir:

,,1. Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. skal 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við lög um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974, um gatnagerðargjöld, sem lokið er við fyrir 31. desember 2012. Ákvæði þetta gildir aðeins um lóðir sem úthlutað var eða veitt var byggingarleyfi á fyrir 1. janúar 1997.
2. Samningar um gatnagerðargjald af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafa gert við sveitarstjórnir, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjald sem sveitarstjórn hefur sett og lóðarhafi eða lóðareigandi hefur undirgengist, halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði laga þessara, nema aðilar séu um annað sáttir.
3. Endurgreiðsla gatnagerðargjalda vegna lóða sem úthlutað var eða byggingarleyfi var veitt á fyrir gildistöku laga þessara skal verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags.”

Í greinargerð Hveragerðisbæjar kemur fram að Klettahlíð sé ein af eldri götum bæjarfélagsins en aldrei hafi verið gengið frá yfirborðsfrágangi hennar frekar en nokkurra annarra gatna á svipuðum slóðum í bænum. Þar af leiðandi hafi íbúar aldrei greitt fyrir kostnað sem fylgir slíkum framkvæmdum. Gatnagerð sú sem fram fór í Klettahlíð árið 2008 fólst í jaðvegsskiptum, endurnýjun á lögnum og frágangi yfirboðs þ.e. gata og gangstétt malbikuð og kantsteinar lagðir. Þá fylgir greinargerðinni kostnaðarsamantekt Jóhanns Ágústssonar, en hann var eftirlitsmaður með verkinu. Heildarkostnaður við verkið nam 18,7 milljónum króna og þar af var yfirborðsfrágangur 6,4 milljónir króna, en hvorutveggja er á verðlagsgrundvelli frá því í febrúar 2007.

Hveragerðisbær segir að lóðarhafar lóða við Klettahlíð hafi verið boðaðir á sérstakan fund þann 11. mars 2008, þar sem gatnagerðarframkvæmdin hafi verið kynnt. Hafi þar m.a. verið rætt um álagningu B-gatnagerðargjalds en hver einstakur lóðarhafi hafi ekki verið upplýstur um fjárhæð gjaldsins. Var lóðarhöfum bent á hafa beint samband við skipulags- og byggingarfulltrúa til að fá nánari upplýsingar um gjaldið.

Hveragerðisbær segir að lóðarhöfum við Klettahlíð hafi ekki verið veittur andmælaréttur við álagningu B-gatnagerðargjaldsins en sú regla sé við lýði hjá sveitarfélaginu að veita almennt ekki andmælarétt við álagningu gjalda sem eru í samræmi við samþykktar gjaldskrár.

Þá telur Hveragerðisbær að fulls jafnræðis hafi verð gætt við álagningu B-gatnagerðargjalds. Fjárhæð álagðra B-gatnagerðargjalda vegna níu lóða við Klettahlíð nam samtals 3,8 milljónum króna og var sama reikniregla viðhöfð við allan útreikning. Heildarkostnaður við yfirborðsfrágang götunnar var 6,4 milljónir króna.

Ekki hafi verið lagt á B-gatnagerðargjald á lóðarhafa tveggja lóða við Klettahlíð þar sem um tiltölulega nýbyggð hús er að ræða og því engin heimild til álagningar hvað þær lóðir varðaði, enda byggingarleyfi fyrir þeim lóðum veitt eftir 1. janúar 1997. Kostnaður við yfirborðsfrágang götu var í þeim tilfellum innifalinn í álögðu gatnagerðargjaldi vegna þessara tveggja lóða og greiddu þeir lóðarhafar því gatnagerðargjald að fullu eins og venja er þegar lóðum er úthlutað nú til dags. 

Hveragerðisbær telur að unnið hafi verið í einu og öllu eftir þeim lögum og reglum sem í gildi eru vegna innheimtu gatnagerðargjalda í bæjarfélaginu.

 

V.  Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er deilt um heimild Hveragerðisbæjar til að leggja á og innheimta svokallað B-gatnagerðargjald  á fasteign V að Klettahlíð 12 í Hveragerði.

1.  Fyrstu lögin sem heimiluðu álagningu gatnagerðargjalda voru lög nr. 51/1974 en þar var kveðið á um tvenns konar gatnagerðargjöld,  enda ljóst af heiti laganna að gjöldin voru fleiri en eitt.  Annars vegar er um að ræða gjald til gatnagerðarframkvæmda, þ.e. kostnaðar við að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum og slitlagi (síðar kallað A-gjald) og hins vegar gjald sem varið skyldi til framkvæmda við að setja bundið slitlag á götur og til lagningar gangstétta (síðar kallað B-gjald). Í úrskurði þessum verður notast við þessa aðgreiningu gjaldanna, þ.e. A-gjald og B-gjald. Þá gerðu lögin ráð fyrir að sveitarfélög settu sér samþykktir um innheimtu gjaldanna og skyldu þær staðfestar af ráðherra.

Lögin voru endurskoðuð og árið 1996 voru sett ný lög um gatnagerðargjald, lög nr. 17/1996. Eins og heiti laganna ber með sér fólu þau í sér m.a. þá grundvallarbreytingu frá lögum nr. 51/1974 að aflögð var tvískipting gatnagerðargjalds og einungis gert ráð fyrir innheimtu eins gatnagerðargjalds, þ.e. A-gjaldsins. Þá var mælt fyrir um að ein reglugerð um gatnagerðargjaldið skyldi gilda fyrir landið allt en ekki reglugerð eða samþykkt fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig. Hins vegar skyldi hver sveitarstjórn setja sér gjaldskrá fyrir gatnagerðargjald þar sem kveðið væri nánar á um álagningu gjaldsins, innheimtu þess o.fl.

Í bráðabirgðaákvæði við lögin nr. 17/1996 var þó mælt fyrir um að eldri lög (lög nr. 51/1974) skyldu gilda um innheimtu og álagningu B-gjaldsins vegna framkvæmda sem lokið væri við innan 10 ára frá gildistöku laganna. Lög nr. 17/1996 tóku gildi 1. janúar 1997 og gilti því heimild bráðabirgðaákvæðisins í 10 ár frá því tímamarki, eða til ársloka 2006.
Ný lög um gatnagerðargjald nr. 153/2006 tóku síðan gildi 1. júlí 2007. Í frumvarpi til laganna var ekki gert ráð fyrir bráðabirgðaákvæði um B-gjöldin heldur lagt til að fella alveg brott heimild til töku þess gjalds. Á það var hins vegar ekki fallist af félagsmálanefnd Alþingis og var bætt við bráðabirgðaákvæði sem mælir fyrir um heimild til töku B-gjaldsins í þrjú ár til viðbótar eða til 31. desember 2009. Þar sem bráðabirgðaákvæði eldri laga um heimild til töku B-gjaldsins féll niður í árslok 2006 var bráðabirgðaákvæðið látið taka gildi 1. janúar 2007 til þess að mynda samfellt gildi heimildarinnar þótt lögin sjálf tækju gildi síðar.

Með lögum nr. 6/2009 voru síðan gerðar breytingar á bráðabirgðaákvæðinu þannig að tímafrestur heimildar til að taka B-gjaldið var lengdur til 31. desember 2012. Var sú breyting gerð vegna efnahagsástandsins til að sveitarfélög gætu aðlagað framkvæmdahraða að því.

2.  Samkvæmt framangreindu er ljóst að heimild til töku B-gjaldsins hefur verið í lögum allt frá setningu laga nr. 51/1974. Heimild til innheimtu gjaldsins er því enn fyrir hendi og mun gilda allt til ársloka 2012. Þá hefur löggjafinn ákveðið að um B-gjaldið gildi ákvæði laga nr. 51/1974 hvað varðar álagningu og innheimtu þess enda, þegar bráðabirgðaákvæðinu sleppir, eru engin ákvæði hvorki í lögum nr. 17/1996 né 153/2006 sem fjalla um B-gjaldið. Heimildarlög um álagningu  og innheimtu B- gatnagerðargjalda eru því lög nr. 51/1974 en ekki lög nr. 153/2003.

Álagning gjaldsins verður þar af leiðandi ekki ógilt af þeirri ástæðu að lagaheimild til innheimtu þess hafi skort og er því ekki fallist á þá málsástæðu V.

3.    Með lögum nr. 17/1996 voru gerðar þær breytingar á innheimtu gatnagerðargjalda, eins og áður hefur verið rakið, að ekki var lengur gert ráð fyrir B-gjaldinu heldur einungis A-gjaldi. Þá var ákveðið að sett yrði ein reglugerð um gatnagerðargjald fyrir öll sveitarfélög en sveitarstjórnir skyldu setja sér sérstaka gjaldskrá þar sem nánar væri kveðið á um álagningu og innheimtu gjaldsins (þ.e. A-gjaldsins).

Á grundvelli laga nr. 17/1996 setti félagsmálaráðherra reglugerð um gatnagerðargjald (þ.e. A-gjaldið) nr. 534/1996. Með þeirri reglugerð voru felldar úr gildi allar reglugerðir og samþykktir einstakra sveitarfélaga um gatnagerðargjöld sem sett voru á grundvelli laga nr. 51/1974, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 17/1996, sbr. 15. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt framangreindu er ekki annað að sjá en löggjafinn hafi áfram gert ráð fyrir að þau sveitarfélög sem vildu innheimta B-gjaldið hefðu sérstaka samþykkt um það sbr. 3. gr. laga nr. 51/1974 en í því ákvæði var kveðið á um að sveitarstjórnum væri heimilt að ákveða með sérstakri samþykkt sem ráðherra staðfestir að innheimta. B-gjaldið. Orðalag ákvæðisins er afdráttarlaust hvað staðfestingu ráðherra varðar.

Eins og rakið hefur verið hér að framan þá gerir löggjafinn ráð fyrir því að standi vilji sveitarstjórna til þess að innheimta hið svokallaða B-gatnagerðargjald þá skuli lög nr. 51/1974 gilda um þá álagningu og innheimtu, sbr. 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 153/2006, sbr. lög nr. 6/2009.

Verður því ekki önnur ályktun dregin en sú að hyggist sveitarstjórnir innheimta B-gatnagerðargjald þá verði slíkt einungis gert á grundvelli sérstakrar samþykktar sem staðfest hefur verið af ráðherra, sbr. 3. gr. laga nr. 51/1974. Hefur ráðuneytið áður komist að þessari niðurstöðu, sbr. úrskurð þess uppkveðinn þann 30. apríl 2009 (SAM08100009).
4.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins er í gildi hjá Hveragerðisbæ samþykkt um byggingargjöld í Hveragerði, nr. 375/2009 er var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 15. apríl 2009 og er þar í kafla II fjallað um gatnagerðargjöld. Þá segir í  17. gr. samþykktarinnar:

,,Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 16. gr. skal 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við lög um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974, um gatnagerðargjöld, sem lokið er við fyrir 31. desember 2012, sbr. 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 153/2006. Ákvæði þetta gildir aðeins um lóðir sem úthlutað var eða veitt var byggingarleyfi á fyrir 1. janúar 1997.”

Eins og áður hefur verið rakið er ekki fjallað um B-gjaldið í lögum nr. 17/1996 og því eiga ákvæði þess um nánari útfærslu í reglugerð og sérstaka gjaldskrá ekki við um það gjald heldur einungis A-gjaldið. Sama á við um lög nr. 153/2006, ákvæði þeirra um hvernig útfæra skuli innheimtu og álagningu gatnagerðargjalds sem lögin fjalla um tekur ekki til B-gjaldsins sem fjallað er um í bráðabirgðaákvæðinu heldur einungis A-gjaldið.

Ráðuneytið telur ljóst með vísan til þess sem að framan greinir að bæði lög nr. 17/1996 og lög nr. 153/2006 eru skýr um það að lög nr. 51/1974 gilda um innheimtu og álagningu B-gjaldsins. Þar af leiðandi ber því sveitarfélagi sem ætlar að innheimta slíkt gjald að setja sér sérstaka samþykkt sem staðfest skal af ráðherra, sbr. 3. gr. laga nr. 51/1974.

Hveragerðisbær hefur upplýst að álagning B- gjaldsins á fasteign V hafi farið fram á grundvelli fyrrgreindrar samþykktar nr. 375/2009. Því er ljóst að álagning B-gjaldsins á fasteign V fór ekki fram á grundvelli samþykktar sem uppfyllir það skilyrði að vera samþykkt af ráðherra.

Ráðuneytið telur því ljóst að lagaskilyrði fyrir innheimtu gjaldsins hafa ekki verið uppfyllt, ákvörðunin hafi verið ólögmæt og því beri að fella álagninguna úr gildi.

5.  Þegar af þeirri ástæðu að lagaskilyrði voru ekki uppfyllt telur ráðuneytið ekki tilefni til þess að fjalla um þær málsástæður V sem lúta að málsmeðferð Hveragerðisbæjar, svo sem varðandi jafnræði, meðalhóf, leiðbeiningarskyldu o.fl.

Þá tekur ráðuneytið fram vegna þeirrar kröfu V um að sveitarfélagið bæti henni það tjón sem hún telur sig hafa orðið fyrir að það á ekki úrskurðarvald um slíkt.
6. Í máli þessu er deilt um álagningu gatnagerðargjalds. Í 11. gr. laga nr. 153/2006, sem eru gildandi lög um gatnagerðargjald, segir að aðili máls geti skotið ákvörðunum sveitarstjórnar samkvæmt lögunum til úrskurðar félagsmálaráðherra (nú samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sbr. lög nr. 167/2007). Þar er einnig kveðið á um þriggja mánaða kærufrest frá því aðili fékk vitneskju um ákvörðunina. Þá segir að sé niðurstaða ráðherra sú að ákvörðunin hafi ekki verið í samræmi við lög geti hann ógilt hana og eftir atvikum lagt fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan greinir, þ.e. að núgildandi lög nr. 153/2006 gildi ekki um svokallað B-gatnagerðargjald, þá er ekki um að ræða ákvörðun samkvæmt þeim lögum. Af því leiðir að kæruheimildin grundvallast ekki á 11. gr. laganna.

Eins og áður hefur verið rakið þá er það niðurstaða ráðuneytisins að lög nr. 51/1974 gildi um innheimtu og álagningu B-gjaldsins, í þeim lögum er hins vegar ekki sérstök kæruheimild sambærileg við það sem er í 11. gr. laga nr. 153/2006.

Hin almenna kæruheimild er í 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 en þar er í 1. mgr. kveðið á um að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Þannig er það lögbundið hlutverk ráðuneytisins að úrskurða um lögmæti ákvarðana sveitarfélaga á grundvelli kæru frá þeim sem nægjanlegra hagsmuna eiga að gæta nema annað verði leitt af lögum. Ráðuneytið telur því ljóst að kæruheimild máls þessa grundvallist á 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Framangreind kæra barst ráðuneytinu þann 14. október 2009. Hin kærða ákvörðun var birt V með bréfi dags. 18. september 2009. Kæran barst því innan kærufrests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í máli þessu umfram það sem áformað var og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð


Ákvörðun Hveragerðisbæjar um að leggja gatnagerðargjald að fjárhæð kr. 407.175.- á fasteign Valgerðar Magnúsdóttir við Klettahlíð 12, Hveragerði, í september 2009, er ólögmæt og er felld úr gildi.

 

Ragnhildur Hjaltadóttir

Hjördís Stefánsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta