Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Flóahreppur - Ákvörðun sveitarstjórnar um að víkja formanni umhverfisverndar úr sæti. Mál nr. 31/2010

 

Ár 2010, 27. ágúst er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 31/2010 (SAM 10040011) 

Almar Sigurðsson
gegn
Flóahreppi

I.          Kröfur, kærufrestir, kæruheimild og aðild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 30. mars 2010 kærði Almar Sigurðsson (hér eftir nefndur AS), kt. 140559-3509, þá ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps að víkja honum úr sæti formanns umhverfisnefndar Flóahrepps þann 17. mars 2010. Krefst hann þess að brottvísunin verði ógilt.

Framangreind kæra barst  ráðuneytinu þann 7. apríl 2010. AS var tilkynnt um ákvörðun sveitarstjórnar  með bréfi dags. 18. mars 2010. Barst því kæran ráðuneytinu innan þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kært er á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Ekki er ágreiningur um aðild.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Á fundi sveitastjórnar Flóahrepps þann 17. mars 2010 var eftirfarandi bókað í fundargerð 81. fundar undir liðnum önnur mál þar sem fjallað var um breytingu á nefndarskipan í sveitarfélaginu:

„[...] Einnig var rætt um að Almar Sigurðsson, formaður umhverfisnefndar víki úr sæti þar sem hann hefur lýst yfir framboði gegn sitjandi sveitarstjórn í komandi sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórn samþykkir að hann víki úr nefndinni með þremur atkvæðum. Einn var á móti og þrír sátu hjá. Samþykkt að Karen Viðarsdóttir taki sæti formanns umhverfisnefndar.”

Ákvörðun sveitarstjórnar var tilkynnt AS með bréfi dags. 18. mars 2010.

AS kærði ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps með bréfi dags. 30. mars 2010 og var kæran móttekin hjá ráðuneytinu þann 7. apríl 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 9. apríl var Flóahreppi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið þann 12. maí 2010 með bréfi dags. 6. maí 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 14. maí 2010 var AS gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Flóahrepps. Bárust þau andmæli þann 8. júní 2010 með bréfi dags. 6. júní 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 9. júní 2010 var málsaðilum tilkynnt að uppkvaðning úrskurðar myndi tefjast vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.       Málsástæður og rök AS

AS bendir á að ekki hafi verið haft samband við hann áður en ákvörðun um brottvikningu hafi verið tekin. Getur hann þess að hann hafi ekki verið að fara í framboð til sveitarstjórnar líkt og sveitarstjórn Flóahrepps bókar sem ástæðu brottvikningarinnar samkvæmt fundargerð frá 17. mars 2010 og í bréfi til hans.

AS bendir jafnframt á að brottvikningin hafi verið samþykkt með þremur atkvæðum en einn hafi verið á móti og þrír setið hjá samkvæmt fundargerð Flóahrepps.

Þá dregur AS í efa að ástæða sveitarstjórnar fyrir brottvikningunni sé málefnaleg með tilliti til 42. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem meint framboð hans hafi ekki átt við rök að styðjast. Heldur hann því fram að breytingar á skipan fulltrúa í nefndum hafi ekki verið gerðar samkvæmt 42. gr. sveitarstjórnarlaga og að ekki hafi verið farið að 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segi að kosning í nefndir skuli vera leynileg, komi ágreiningur upp innan sveitarstjórnar.

Í andmælum sínum vegna umsagnar Flóahrepps bendir AS á að það komi málinu ekki við þó að eiginkona hans hafi skipað efsta sæti T-listans, hann hafi gerst umboðsmaður T-listans löngu eftir að brottvikningin hafi átt sér stað og mótmælir hann því sem rökstuðningi.

Varðandi fullyrðingu Flóahrepps um að hann hafi notað fund umhverfisnefndar sem vettvang til að gagnrýna sveitarstjórn bendir AS  á að sveitarstjórn sé ekki yfir gagnrýni hafin og að umræða sé nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Rétt sé að umhverfisnefnd hafi gagnrýnt sveitarstjórn þar sem ekki hafi verið staðið nægjanlega vel að ákveðnum málum.

AS segir það rétt að í Fréttablaðinu þann 6. og 15. mars 2010 hafi birst við hann viðtöl þar sem sagt hafi verið frá hugsanlegu framboði í Flóahreppi. Hins vegar gildi málfrelsi ríki á Íslandi og því sé óeðlilegt að vera rekinn fyrir að koma fram opinberlega.

Þá bendir AS á að í umsögn Flóahrepps hafi ekki verið vikið að málsmeðferð við brottvikninguna. Ítrekar hann að málsmeðferðin hafi ekki verið í samræmi við 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Nefndin hafi ekki verið öll skipuð að nýju heldur honum einum vikið frá. Þá hafi ágreiningur verið innan sveitarstjórnar þar sem við atkvæðagreiðslu hafi þrír greitt atkvæði  með brottvikningunni, þrír setið hjá og einn greitt atkvæði á móti.

IV.       Málsástæður og rök Flóahrepps

Flóahreppur byggir á því að í ljósi yfirlýsingar AS um framboð gegn meirihluta sveitarstjórnar í komandi sveitarstjórnarkosningum hafi ekki verið eðlilegt að hann ynni áfram fyrir meirihluta sveitarstjórnar.

Flóahreppur bendir á fundargerð Umhverfisnefndar Flóahrepps frá 29. desember 2009 þar sem AS hafi notað fund umhverfisnefndar sem vettvang til að gagnrýna sveitarstjórn og störf hennar. Flóahreppur telur að eðlilegt hefði verið að AS segði sig úr nefndinni að eigin frumkvæði í stað þess að nýta umboð sitt með þessu móti.

Flóahreppur vísar einnig til frétta sem birtust í Fréttablaðinu 6. og 15. mars 2010 þar sem tekið var viðtal við AS vegna væntanlegs framboðs. Í frétt frá 6. mars 2010 segir m.a.:

„Það stefnir í að það verði óbeint kosið um þetta mál,” segir Almar Sigurðsson, bóndi á Lambastöðum og einn aðstandenda nýs framboðs sem nú er í burðarliðnum. Ekki er enn ljóst hvort hópurinn sem stendur að framboðinu nær að setja fram lista fyrir kosningarnar, en Almar segir það líklega skýrast á fundi í næstu viku. [...] „Eins og þessi mál liggja við mér ætlaði sveitarstjórnin að þvinga virkjunina í gegnum kerfið gegn vilja íbúa,” segir Almar. Í ljós hafi komið strax árið 2007 að meirihluti kjósenda í hreppnum sé andvígur virkjuninni. Því sé sveitarstjórnin að vinna gegn vilja meirihluta íbúa sveitarfélagsins.”

Í frétt frá 15. mars 2010 segir m.a.:

,,Almar segir hópinn sem standi að nýju framboði ekki tengdan stjórnmálaflokkum eða hagsmunasamtökum. [...] Almar segir stefnumál nýs framboðs ekki fullmótuð. Á undirbúningsfundi hafi verið mikill áhugi á að ljúka skipulagsmálum sem fyrst, en án þess að Urriðafossvirkjun verði á aðalskipulagi, eins og sitjandi sveitarstjórn áformi. Þá sé mikil áhersla á að koma vatnsmálum í hreppnum í lag, en vatnsskortur hefur plagað hreppinn síðustu sumur.”

Flóahreppur bendir á að framboðslisti, auðkenndur með bókstafinum T, hafi verið stofnaður og eiginkona AS hafi skipað efsta sæti listans. AS hafi sent skrifstofu sveitarstjórnar tölvupóst sem umboðsmaður T-listans og óskað eftir styrk sem sveitarstjórn hafði samþykkt að veita til löglegra framboða.

Flóahreppur vísar til 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segi að sveitarstjórn geti hvenær sem er á kjörtímabili ákveðið að skipta um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum. Sveitarstjórn hafi talið ríka ástæðu til að víkja AS úr sæti formanns nefndar vegna ofantalinna atriða. Flóahreppur telur óeðlilegt að AS haldi fram hlutleysi vegna fyrirhugaðs framboðs þó að hann eigi ekki sjálfur sæti á lista.

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1.         Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 kýs sveitarstjórn fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Kjörtímabil slíkra nefnda skal vera hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn. Flóahreppur hefur sett sér samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins nr. 542/2007 með síðari breytingu nr. 249/2010. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. samþykktarinnar kýs sveitarstjórn fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða og samþykktarinnar. Slíkar kosningar skulu vera leynilegar bundnar hlutfalls­kosningar ef einhver sveitarstjórnarmaður óskar þess.

Í tíð eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 var talið óheimilt að veita nefndarmönnum lausn frá störfum með vísan til þess að skoðanir þeirra væru ekki þóknanlegar ríkjandi meirihluta í sveitarstjórn. Í áliti umboðsmanns Alþingis dags. 4. september 1998 í máli nr. 2211/1997 dró umboðsmaður þá ályktun af ákvæðum um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna að nefndarmaður væri ekki bundinn af öðru en lögum, samþykktum sveitarstjórnar og sannfæringu sinni. Taldi hann einnig að ákvæði laganna tryggðu að þeir sem sætu í sveitarstjórnum eða nefndum á vegum sveitarfélaga væru sjálfstæðir í starfi.

Þetta verður að skoða út frá því að við lögfestingu núgildandi sveitarstjórnarlaga árið 1998 var bætt við skýru ákvæði í 4. mgr. 40. gr. um að sveitarstjórn væri heimilt að skipta um fulltrúa í nefndum hvenær sem er á kjörtímabili nefndar ef hún teldi sérstakar ástæður mæla með því, svo sem ef nefndarmenn nytu ekki lengur trausts meirihluta sveitarstjórnar. Slík heimild til handa sveitarstjórn var talin nauðsynleg til þess að stuðla að betri starfsemi og skilvirkni í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þessar breytingar gera það að verkum að nefndarmenn eru undir eftirliti sveitarstjórnar og af þeim sökum getur málfrelsi þeirra að einhverju leyti takmarkast. Með lögum nr. 69/2004 var ákvæðið útfært nánar og því fundinn nýr staður í lögunum. Það er nú í 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga og hljóðar svo:

,,Sveitarstjórn getur hvenær sem er á kjörtímabili ákveðið að skipta um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sem hún kýs eða skipar ef ekki er um það ágreiningur innan sveitarstjórnar eða málefnalegar ástæður mæla með slíkri breytingu, svo sem ef nefndarmaður, án lögmætra forfalla, mætir ekki á fundi nefndar eða brýtur gegn þagnarskyldu. Enn fremur getur sveitarstjórnarmaður krafist þess að nefnd verði endurskipuð, svo sem ef breytingar verða á meirihlutasamstarfi á kjörtímabilinu. Sveitarstjórn er þó heimilt að hafna slíkri beiðni ef hún er bersýnilega tilefnislaus. Við framangreindar breytingar á skipan fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags skal kjósa alla fulltrúa að nýju og fer þá um kjör skv. 2. mgr. 40. gr. nema enginn ágreiningur sé innan sveitarstjórnar um breytingarnar.”

Ákvæði 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga felur í sér þrengingu á heimild sveitarstjórnar sem var í 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga fyrir breytinguna árið 2004. Eins og umrætt ákvæði var orðað var sá möguleiki fyrir hendi að meirihluti sveitarstjórnar gæti misbeitt meirihlutavaldi sínu til þess að víkja fulltrúum minnihlutans úr nefndum. Sá annmarki var jafnframt talinn vera á umræddu ákvæði að þar var ekki kveðið á um hvernig færi um kjör fulltrúa í stað þess sem vikið var úr nefnd. Þrátt fyrir að lögin tæku ekki af skarið um þetta var túlkun ráðuneytis sveitarstjórnarmála á þann veg að nefndarmenn í viðkomandi nefnd yrðu leystir frá störfum og kosið á ný í nefndina. (Sjá álit félagsmálaráðuneytisins frá 13. júlí 1999 og úrskurð félagsmálaráðuneytisins frá 26. maí 2004.)

Þrátt fyrir lagabreytinguna 2004 er sveitarstjórn áfram heimilt að skipta um fulltrúa í nefndum sé ekki ágreiningur um það innan sveitarstjórnar. Einnig er sveitarstjórn slíkt heimilt grundvallist það á málefnalegum ástæðum, svo sem ef nefndarmaður hefur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum um að mæta á fundi eða gæta trúnaðar um það sem hann verður áskynja um í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls, sbr. 27. og 32. gr. sveitarstjórnarlaga. Ætla verður að sveitastjórn grípi ekki til þessa úrræðis nema nauðsyn beri til og að undangenginni áminningu þar sem það á við en í ákvæðinu er gert ráð fyrir að samþykki meirihluta sveitarstjórnar nægi þegar umræddar ástæður teljast vera fyrir hendi.

2.         Kosning í þáverandi umhverfisnefnd Flóahrepps fór fram á 2. fundi sveitarstjórnar þann 21. júní 2006. Á 81. fundi sveitarstjórnar þann 17. mars 2010 voru gerðar breytingar á skipan fulltrúa í umhverfisnefnd þar sem AS var vikið úr nefndinni. Í fundargerð sveitarstjórnar segir að ástæða brottvikningarinnar sé sú að AS hafi lýst yfir framboði gegn meirihluta sveitarstjórnar í komandi sveitarstjórnarkosningum. AS mótmælir þessum rökstuðningi sveitarstjórnar og segist ekki hafa ætlað í framboð og ekki eigi að skipta máli þó að eiginkona hans skipi efsta sæti umrædds framboðslista. AS var hins vegar umboðsmaður þess framboðslista en það tók hann ekki að sér fyrr en löngu eftir brottvikninguna. Flóahreppur vísar til frétta í Fréttablaðinu þar sem rætt er um nýtt framboð sem sé í burðarliðnum og viðtals sem tekið var við AS sem einn af aðstandendum framboðsins.

Einn sveitarstjórnarmaður var andvígur brottvikningu AS úr umhverfisnefnd og því ljóst að ágreiningur var innan sveitarstjórnar um málið og skilyrði lagaákvæðisins hvað það varðar því ekki fullnægt. Ber því að skoða hvort málefnalegar ástæður hafi mælt með umræddri breytingu á nefndarskipan.

Í fundargerð sveitarstjórnar frá 17. mars 2010 er hins vegar einungis bókað að ástæða  brottvikningarinnar sé sú að AS hafi lýst fyrir framboði gegn sitjandi sveitarstjórn, ekki er vikið að öðrum ástæðum fyrir brottvikningunni. Við meðferð málsins hefur sveitarstjórn Flóahrepps hins vegar upplýst að ákvörðun um brottvikningu AS hafi byggst á fyrrgreindum yfirlýsingum í fjölmiðlum þar sem fram kom óánægja hans með meirihluta í sveitarstjórninni auk þess sem á fundum umhverfisnefndar hafi komið fram töluverð gagnrýni á störf sveitarstjórnar sem hafi leitt til þess að hann naut ekki lengur trausts meirihluta sveitarstjórnar. 

Það er mat ráðuneytisins að brottvikning fulltrúa úr nefnd á vegum sveitarfélagsins á grundvelli þess að um trúnaðarbrest hafi verið að ræða sé ákvörðun er byggist á málefnalegum ástæðum. Hins vegar verður að geta þess í bókun í hverju slíkur trúnaðarbrestur felst. Í bókun sveitarstjórnar Flóahrepps segir berum orðum að ástæða brottvikningarinnar sé sú að í fjölmiðlum hafi AS lýst yfir framboði gegn meirihluta sveitarstjórnar. Hins vegar er ekki vikið að þeirri málsástæðu sem fram kemur í greinargerð sveitarfélagsins til ráðuneytisins að AS hafi nýtt fundiumhverfisnefndar, sbr. fund umhverfisnefndar 29. desember 2009, til að gagnrýna meirihluta sveitarstjórnar og hafi þannig unnið gegn meirihlutanum.

Ljóst er að í fjölmiðlum var vitnað til samtala við AS þar sem fram komu upplýsingar um að í burðarliðnum væri nýtt framboð til sveitarstjórnar í Flóahreppi og að AS væri einn af forsvarsmönnum þess.

Ráðuneytið telur aðekki verði hjá því komist að líta til þess að í bókun sveitarstjórnar er þess ekki getið að ástæða brottvikningarinnar sé sá trúnaðarbrestur er grundvallist á bókun umhverfisnefndar frá fundi hennar þann 29. desember 2009, eða framgöngu AS almennt sem formanns umhverfisnefndar, heldur einungis vísað til þess að ástæða brottvikningarinnar sé sú að AS hafi lýst yfir framboði til sveitarstjórnar.

Í því sambandi er rétt að benda á þá óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnsýsla skuli vera rekjanleg og gegnsæ þannig að unnt sé að gera sér grein fyrir því á hvaða grundvelli ákvörðun var tekin. Er sú regla grundvöllur þess að kæruheimildir stjórnsýsluákvarðana hafi þýðingu þannig að stjórnvald á kærustigi geti tekið ákvörðun annars stjórnvalds til endurskoðunar. Verður stjórnvald sem sinnir ekki þeirri skyldu að bera hallann af slíku.

Í bréfi ráðuneytisins til Flóahrepps þar sem óskað var umsagnar um kæru AS var m.a. óskað eftir upplýsingum um það hvort og þá hvernig sveitarstjórn hefði sinnt rannsóknarskyldu sinni en í 10. gr. stjórnsýslulaga er lögfest sú regla að stjórnvald skuli sjá um að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin. Í rannsóknarskyldunni felst að stjórnvaldi beri að eigin frumkvæði að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir að mál teljist nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Þá er rétt að hafa í huga að markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að ákvarðanir stjórnvaldsins verði bæði löglegar og réttar.

Í bókun frá fundi sveitarstjórnar þann 17. mars 2010,  kemur fram að AS hafi lýst yfir framboði gegn meirihluta sveitarstjórnar í komandi sveitarstjórnarkosningum og sé það ástæða brottvikningarinnar. Þessu hefur AS mótmælt og segir að hann hafi ekki lýst slíku yfir, enda hafi hann ekki verið í framboði til sveitarstjórnarkosninga vorið 2010.

Verður ekki séð af gögnum málsins að sveitarfélagið hafi leitast við að staðreyna þær upplýsingar sem birtust í fjölmiðlum og vörðuðu AS en telja verður að slíkt hefði verið í samræmi við markmið rannsóknarreglunnar. Ekki verður talið að sveitarstjórn geti uppfyllt rannsóknarskyldu sína einungis með því byggja á upplýsingum úr fjölmiðlum heldur verður sjálfstæð rannsókn stjórnvaldsins að fara fram enda hvílir sú skýra skylda á stjórnvaldinu að mál sé fullrannsakað áður en ákvörðun er tekin.

Þá er til þess að líta að ákvörðun Flóahrepps um að víkja AS úr umhverfisnefnd er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun en gera verður strangar kröfur til stjórnvalds að það gangi úr skugga um að þær upplýsingar sem búa að baki ákvörðuninni séu sannar og réttar þegar um slíkar ákvarðanir er að ræða. 

Það er niðurstaða ráðuneytisins að sveitarstjórn Flóahrepps hafi ekki verið heimilt að víkja AS úr umhverfisnefnd Flóahrepps eingöngu á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram komu í fjölmiðlum án þess að staðreyna þær upplýsingar sem þar komu fram. Að því leyti verður að fallast á það með AS að brottvikning hans hafi verið ólögmæt.

Í lokamálslið 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga segir að við breytingar á skipan fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags skuli kjósa alla fulltrúa að nýju og fer þá um kjör skv. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nema enginn ágreiningur sé innan sveitarstjórnar um breytingarnar. Er þannig mælt fyrir um að kjósa skuli nefndina í heild í hlutbundnum listakosningum, jafnvel þó að einungis eigi að skipta út einum nefndarfulltrúa. Hins vegar er sú undantekning gerð að ef enginn ágreiningur er innan sveitarstjórnar þá séu slíkar kosningar óþarfi. (Sjá grein Kára Hólmars Ragnarssonar: „Kosningar í nefndir, ráð og stjórnir sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnar- og jafnréttislögum”  í ritinu Rannsóknir í félagsvísindum X, 2009, bls. 195). Ljóst er af fundargerð frá 81. fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 17. mars 2010 að ekki fór fram kosning allra fulltrúa nefndarinnar að nýju heldur var einungis samþykkt á fundinum að Karen Viðarsdóttir tæki sæti sem formaður umhverfisnefndar. Því er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð sveitarstjórnar Flóahrepps við breytingar á nefndarskipan í umhverfisnefnd Flóahrepps hafi verið andstæð ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Skipun nefndarinnar frá 17. mars 2010 til 14. júní 2010 var því ekki í samræmi við lög og af þeim sökum ólögmæt.

Varðandi kröfu AS um að ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps um brottvikningu hans verði ógilt, telur ráðuneytið með vísan til framangreinds, þ.e. að skipun nefndarinnar í heild var ólögmæt frá 17. mars 2010 og að ný nefnd var skipuð í júní 2010, að slíkt hafi enga þýðingu.

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps að víkja  Almari Sigurðssyni, kt. 140559-3509,  úr sæti formanns umhverfisnefndar Flóahrepps þann 17. mars 2010 er ólögmæt. Málsmeðferð sveitarstjórnar við kjör fulltrúa í umhverfisnefnd Flóahrepps var ekki í samræmi við lög. Skipan umhverfisnefndar Flóahrepps frá 17. mars 2010 til 14. júní 2010 er því ólögmæt.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Hjördís Stefánsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta