Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Sveitarfélagið Álftanes - Uppsögn samninga og nýjar lántökur, þörf á sérfræðiáliti skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga

Guðmundur G. Gunnarsson, bæjarfulltrúi
21. desember 2006
FEL06090028

Norðurtúni 3

225 Álftanesi

Þann 21. desember var kveðinn upp í ráðuneytinu svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 8. september 2006, óskuðu þrír fulltrúar í bæjarstjórn Sveitarfélagsins

Álftaness, þau Guðmundur G. Gunnarsson, Sigríður Rósa Magnúsdóttir og Kristinn

Guðlaugsson, hér eftir nefnd kærendur, eftir því að félagsmálaráðuneytið úrskurðaði um lögmæti

ákvarðana meirihluta bæjarstjórnar og bæjarráðs Sveitarfélagsins Álftaness, hér eftir nefnd kærði,

frá 28. og 31. ágúst 2006.

Kæran var send kærða með bréfi, dags. 26. september 2006. Umsögn kærða, dags. 16. október

2006, barst ráðuneytinu þann 20. október sl. og var hún send kærendum með bréfi ráðuneytisins

sama dag. Viðbrögð bárust frá einum kærenda, Guðmundi G. Gunnarssyni, með bréfi, dags. 7.

nóvember 2006.

Kærendur fara þess á leit að úrskurðað verði um eftirfarandi:

? Lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar á fundi 28. ágúst 2006 um slit á samningum við Eir

þar sem ekki lá fyrir álit sérfróðs aðila, sbr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga.

? Lögmæti ákvörðunar bæjarráðs á fundi 31. ágúst 2006 um lántöku án þess að álit sérfróðs

aðila, sbr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga, hafi legið fyrir og án þess að á neinn hátt hafi verið

útskýrt hvaða áhrif lántakan hafi á afkomu bæjarsjóðs. Í erindi kærenda er hin kærða

ákvörðun sögð vera heimild til allt að 450.000.000 kr. lántöku en samkvæmt gögnum

málsins er Lánsfjárhæðin tvær milljónir evra og tvær milljónir dollara, eða u.þ.b.

320.000.000 kr.

I. Málavextir.

 

Slit á samningum.

 

Á fundi fyrrverandi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness þann 12. október 2005 voru

samþykktir þrír samningar við Hjúkrunarheimilið Eir um uppbyggingu húsnæðis fyrir eldri íbúa á

Álftanesi. Samningarnir voru kaupsamningur um lóð, leigusamningur og þjónustusamningur. Á

fundinum lá fyrir álit sérfróðs aðila frá ParX, dags. 6. október 2005, sbr. 65. gr.

sveitarstjórnarlaga. Samningarnir voru undirritaðir 14. október 2005. Í sveitarstjórnarkosningum í

maí 2006 féll þáverandi meirihluti í bæjarstjórn Álftaness.

Nýr meirihluti bæjarstjórnar var með hugmyndir um breytt skipulag sem leiddu til þess að leita

þurfti eftir viðræðum við Hjúkrunarheimilið Eir um að breyta samningum sem sveitarfélagið

hafði gert við hjúkrunarheimilið og lutu að öldrunarþjónustu á Álftanesi. Drög að samkomulagi

um niðurfellingu samninganna voru lögð fyrir fund bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness 28.

ágúst 2006 og samþykkt þar með atkvæðum meirihlutans. Var bæjarstjóra jafnframt falið að

undirrita samkomulagið fyrir hönd bæj0arstjórnar og var það gert næsta dag, þann 29. ágúst 2006.

Lántaka.

 

Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Álftaness þann 31. ágúst 2006 var samþykkt tillaga

meirihlutans um lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð tvær milljónir evra og tvær

milljónir dollara í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem lágu fyrir á fundinum.

Til tryggingar láninu skyldu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr.

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Lánið var tekið til að fjármagna byggingu skóla- og

íþróttamannvirkja auk greiðslu fyrir land á miðsvæði Álftaness.

II. Sjónarmið kærenda.

 

Kærendur taka fram að svo hart hafi verið gengið fram af hálfu kærða að slíta löglegum

samningum Sveitarfélagsins Álftaness og Hjúkrunarheimilisins Eirar um uppbyggingu fyrir eldri

íbúa á Álftanesi að varði almannaheill. Afleiðing þessarar ákvörðunar sé enn fremur sú að

fjárhagsáætlun sveitarfélagsins hafi verið tekin úr sambandi og nú hafi verið samþykkt að taka

allt að 450.000.000 króna að láni án þess að uppfyllt sé sú skylda að umsögn sérfróðs aðila liggi

fyrir. Þessi lántaka sé afleiðing af gerbreyttri stefnu kærða og setji lántakan fjárhagsáætlun ársins

2006 í uppnám og kollvarpi einnig ramma að fjárhagsáætlun til þriggja ára.

Kærendur benda á 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segir: „Hyggist sveitarstjórn ráðast í

fjárfestingu og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í henni nemur hærri fjárhæð

en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs er skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn

sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á

fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, sé um hann að

ræða. Jafnframt skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun

sveitarfélagsins.“

Þá taka kærendur fram að á umræddum fundum kærða, þ.e. á fundi bæjarstjórnar 28. ágúst 2006

og bæjarráðs 31. ágúst 2006, hafi verið fjallað um málefni Hjúkrunarheimilisins Eirar og þá

löglegu samninga sem gerðir voru í október 2005. Til umfjöllunar á framangreindum fundum

kærða hafi verið riftun samninganna, fjármögnun vegna þeirrar afleiðingar sem riftun

samninganna hafi í för með sér og breytt stefna meirihluta í bæjarstjórnar Sveitarfélagsins

Álftaness (kærða) í þessu máli.

Hvað varðar stefnu kærða hafi breyttar áherslur valdið því meðal annars að deiliskipulag

miðsvæðis bæjarfélagsins hafi verið hafnað eftir mjög umfangsmikla og yfirgripsmikla vinnu á

síðasta kjörtímabili. Fjárhagsáætlun ársins 2006 byggi að stórum hluta á tekjum af uppbyggingu

þess svæðis, gatnagerðargjöldum, byggingarleyfisgjöldum og þess háttar. Þessar tekjur renni nú

ekki í bæjarsjóð, en í fjárhagsáætlun ársins 2006 hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum lántökum. Í

stað þess séu nú uppi áform um að gera nýtt deiliskipulag miðsvæðisins með allri þeirri vinnu

sem því fylgi. Sú ákvörðun valdi meðal annars því að í stað tekna þurfi nú að taka hið stóra lán.

Ekki sé gerð nein grein fyrir því hvernig kærði ætli að fjárhagsleg framvinda bæjarsjóðs verði og

engar forsendur fyrir lántöku hafi verið lagðar fram.

Ástæða þess að óskað sé eftir úrskurði ráðuneytisins í máli þessu sé sú að á fundi kærða, þ.e.

bæjarstjórnar, þann 28. ágúst 2006 hafi ekki legið fyrir álit sérfróðs aðila eins og skylt er skv. 65.

gr. sveitarstjórnarlaga. Ekki hafi heldur legið fyrir slíkt álit á fundi bæjarráðs þann 31. ágúst

2006. Álit sérfróðs aðila hafi hins vegar legið fyrir á fundi fyrri bæjarstjórnar þann 12. október

2005 þegar samningar kærenda við Eir voru samþykktir.

Eftir að samningar hafi legið fyrir þann 14. október 2005 var unnið að lokafrágangi deiliskipulags

miðsvæðisins þar sem Eir var ætlaður staður. Einnig var unnið að undirbúningi hönnunar innan

skipulags sem ætlað var til samnýtingar í þjónustumiðstöð Eirar. Kærendur rekja þau gögn sem

komu við sögu í þeirri vinnu.

Kærendur taka fram að þeir telji að slit á samningum við Eir, á þeim forsendum sem kærði hafi

gefið upp, sé lögbrot. Byggist sú skoðun á því „að bæjarstjóri hafi á tveggja manna fundi hans og

forstjóra Eirar stillt málinu upp með svo afgerandi og ófyrirleitnum hætti að forstjóri Eirar hafi

ekki séð annan möguleika í stöðunni en að leita eftir slitum á samningunum“. Kærendur rekja

nánar ástæðu þess að forstjóri Eirar féllst á slit á samningunum sem hafi verið sú að bæjarstjóri

kvað það ófrávíkjanlegt að fram færi samkeppni arkitekta um deiliskipulag miðsvæðis Álftaness.

Vinna við deiliskipulagið tæki tiltekinn tíma og á meðan yrði ekkert af framkvæmdum Eirar á

svæðinu þrátt fyrir ákvæði þar um í samningi kærenda við Eir. Forstjóri Eirar hafi ekki fallist á að

löng bið yrði á upphafi framkvæmda samkvæmt samningunum. Engin tilraun hafi verið gerð af

hálfu kærða á umræddum fundi að reyna sættir eða láta á það reyna hvort hægt væri að

endurskoða samningana í ljósi nýrrar stefnu meirihluta bæjarstjórnar.

Enn fremur benda kærendur á að miðað við þau drög að samkomulagi um slit á samningum við

Eir, sem lögð voru fram á fundi bæjarráðs 20. júlí 2006, og síðan það plagg, sem var samþykkt á

fundi bæjarstjórnar 28. ágúst 2006, hafi markmið kærða verið „að ná fram með sliti samninganna

við Eir, eignarhaldi á allri hönnun mannvirkisins“ en það hafi ekki gengið eftir. Vinna við

samningsslitin hafi staðið yfir í rúmlega tvo mánuði sumarið 2006.

Kærendur líta svo á að málatilbúnaður kærða sé lögleysa og beri ráðuneytinu að úrskurða

framangreindar ákvarðanir ógildar.

Kærendur telja að ljóst sé að ákvarðanir kærða hafi valdið því með beinum eða óbeinum hætti að

löglegum samningum við Eir var slitið. Þær hafi í för með sér bótaskyldu sveitarfélagsins til

Eirar, kaupskyldu á landi og tekjumissi vegna gatnagerðargjalda og annars sem samkvæmt.

hinum löglega samningi hefði átt að koma inn sem tekjur sveitarsjóðs á þessu ári eða hinu næsta.

Til þess að koma til móts við þessi útgjöld og tekjumissi hafi kærði ákveðið að taka lán allt að

450 milljónum króna. Sú fjárhæð sé langt umfram þann fjórðung af skatttekjum sem fram kemur

í 65. gr. sveitarstjórnarlaga. Þótt fjárfesting sé tiltekin í lagagreininni þá hljóti tilgangur

ákvæðisins að vera sá að tryggja hagsmuni sveitarfélags þegar ákvarðanir eru teknar sem vega

þungt í efnahagsreikningi þess.

Kærendur taka að lokum fram að óskað sé eftir að ráðuneytið úrskurði um eftirfarandi:

? Lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar á fundi 28. ágúst 2006 um slit á samningum við Eir

þar sem ekki lá fyrir álit sérfróðs aðila, sbr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga.

? Lögmæti ákvörðunar bæjarráðs á fundi 31. ágúst 2006 vegna láns sem tekið var án

þess að álit sérfróðs aðila skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga hafi legið fyrir og án þess að á

neinn hátt hafi verið útskýrt hvaða áhrif lántakan hafi á afkomu bæjarsjóðs og hvaða

áhrif ný stefna hafi á fjárhagsáætlun bæjarins.

III. Sjónarmið kærða.

 

Í umsögn kærða er rakið að í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2006 féll þáverandi meirihluti

bæjarstjórnar. Í kosningunum var meðal annars tekist á um skipulag á svonefndu miðsvæði

Álftaness. Breytt skipulagsáform leiddu til þess að leita þurfti eftir viðræðum við

Hjúkrunarheimilið Eir um að breyta samningum sem kærendur höfðu gert við Eir. Til eiginlegra

viðræðna kom þó ekki þar sem þegar í upphafi varð ljóst að Hjúkrunarheimilið Eir gat ekki fellt

sig við þá töf sem óhjákvæmilega fylgdi því að farið yrði í arkitektasamkeppni. Þá óskaði Eir eftir

því við kærða að samningarnir yrðu felldir úr gildi. Þannig hafi niðurfelling á samningum

sveitarfélagsins við Eir verið að ósk Eirar eins og skýrt sé tekið fram í 1. gr. samkomulagsins

milli kærða og Eirar, dags. 29. ágúst 2006. Mótmælt er og vísað á bug sem órökstöddum og

ósmekklegum dylgjum því sem kærendur gefi í skyn um að kærði hafi knúið fram umrætt

samkomulag og nánast neytt fulltrúa Eirar til samkomulagsins.

Drög að samkomulaginu um niðurfellingu samninganna voru lögð fyrir fund bæjarstjórnar

Sveitarfélagsins Álftaness 28. ágúst 2006 og samþykkt þar með atkvæðum meirihlutans. Málið sé

því úr sögunni hvað aðila samkomulagsins varðar.

Á fundi bæjarráðs Álftaness 31. ágúst 2006 var samþykkt sú tillaga meirihlutans að bæjarráð tæki

lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð tvær milljónir evra og tvær milljónir dollara í samræmi

við samþykkta skilmála fyrir lánveitingunum sem lágu fyrir á fundinum. Lánið væri tekið til

fjármögnunar á skóla- og íþróttamannvirkjum sem þegar hefðu verið byggð auk þess sem lánið

skyldi renna til greiðslu fyrir land á miðsvæði Álftaness. Með því síðarnefnda sé átt við land það

sem sveitarfélagið keypti til baka af Hjúkrunarheimilinu Eir samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi

aðila, dags. 29. ágúst 2006.

Varðandi lögmæti ákvörðunar um slit á samningum við Hjúkrunarheimilið Eir tekur kærði fram

að kærendur byggi beiðni sína um úrskurð um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar þann 28. ágúst

sl. um slit á samningum við Eir á því að ekki hafi legið fyrir álit sérfróðs aðila, sbr. 65. gr.

sveitarstjórnarlaga. Í því sambandi bendir kærði á að skilyrði um álit sérfróðs aðila komi fyrir á

tveimur stöðum í 65. gr. laganna, þ.e. bæði í 1. og 2. mgr. Ákvæði 2. mgr. eigi samkvæmt efni

sínu ekki við um málið þar sem áðurnefnd ákvörðun fól ekki í sér staðfestingu á samningum, eins

og kveðið sé á um í 2. mgr., heldur þvert á móti staðfestingu á niðurfellingu samninga. Kærði

gangi því út frá því að vísun kærenda í aðkomu sérfróðs aðila skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga taki

til 1. mgr. greinarinnar og verði því gengið út frá því í eftirfarandi umsögn meirihlutans.

Um hafi verið að ræða fjóra samninga, þ.e. rammasamning, þjónustusamning, leigusamning og

kaupsamning. Aðeins niðurfelling á kaupsamningnum hafði í för með sér fjárskuldbindingar af

hálfu sveitarfélagsins. Ljóst sé því að niðurfelling þriggja af fjórum samningum hafi ekki í för

með sér neina fjárfestingu af hálfu sveitarfélagsins. Af þessu sé ljóst að ákvæði 1. mgr. 65. gr.

sveitarstjórnarlaga eigi ekki við um niðurfellingu þessara þriggja samninga. Til álita í þessu

sambandi komi því aðeins niðurfelling kaupsamningsins og þær skuldbindingar sem af honum

leiddu fyrir sveitarfélagið. Niðurfelling kaupsamnings hafði þau áhrif að kaupin voru látin ganga

til baka með þeim réttaráhrifum að aðilar urðu eins settir og ef samningarnir hefðu ekki verið

gerðir. Hafi þetta verið tekið fram beinum orðum í samkomulaginu, dags. 29. ágúst 2006. Af

þessu leiddi að greiðslur sem farið höfðu á milli aðila voru látnar ganga til baka þannig að

skuldbindingar aðila samkvæmt samningnum jöfnuðust út. Enda þótt sveitarfélagið hafi þurft að

greiða Eir tiltekna fjárhæð umfram það sem greitt var fyrir lóðirnar á sínum tíma sé sú fjárhæð

langt frá því að geta talist veruleg skuldbinding fyrir sveitarsjóð. Nettóskuldbinding

sveitarfélagsins sé því fjarri því að geta uppfyllt skilyrði 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga.

Við þetta megi bæta að jafnvel þótt aðeins sé litið einangrað til fjárfestingar sveitarfélagsins

samkvæmt samkomulaginu séu skilyrði 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga ekki uppfyllt.

Niðurfelling á kaupsamningnum samsvaraði 143 milljóna króna fjárfestingu og nái það ekki

fjórðungi af áætluðum skatttekjum ársins.

Kærði ítrekar að ljóst sé að lögmæti margnefndrar ákvörðunar bæjarstjórnar 28. ágúst 2006 um

slit á samningum sé hafið yfir allan vafa og að ekki hafi verið skylt að fyrir lægi sérfræðiálit skv.

65. gr. sveitarstjórnarlaga.

Varðandi lögmæti ákvörðunar um lántöku tekur kærði fram að varðandi þetta athugunarefni muni

vísun kærenda í 65. gr. sveitarstjórnarlaga taka til 1. mgr. greinarinnar og miðist umsögnin því

við það.

Hér hafi ekki verið um nýja fjárfestingu að ræða heldur einungis fjármögnun vegna fjárfestinga

sem áður höfðu verið samþykktar í bæjarstjórn. Því hafi ekki þurft að liggja fyrir álit sérfræðings

á grundvelli 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga.

Þá er vísað til samþykktar bæjarráðs Sveitarfélagsins Álftaness á fundi 31. ágúst 2006. Í

fjárhagsáætlun 2006, sem fyrrverandi meirihluti hafi gert, var gert ráð fyrir tekjum vegna

uppbyggingar á miðsvæði Álftaness. Ljóst mátti vera fyrir kosningar að ef nýr meirihluti tæki við

þá myndi frestast um 1–2 ár að þessar tekjur yrðu að veruleika vegna arkitektasamkeppni og

gerðar nýrrar skipulagsáætlunar á grundvelli hennar. Þetta hafi nú gengið eftir. Vegna þessara

breytinga hafi lántakan verði nauðsynleg.

Við skýringu á orðinu fjárfesting beri að hafa í huga hina eiginlegu framkvæmd sem fyrir

höndum sé. Um kostnað vegna þeirrar framkvæmdar beri að fjalla um leið og hún er ákveðin sem

slík og þá skuli liggja fyrir álit sérfróðs aðila skv. 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga að öðrum

skilyrðum uppfylltum. Ákvörðun bæjarráðs frá 31. ágúst 2006 hafi hins vegar einungis lotið að

því að samþykkja skilmála lána sem tekin voru til að fjármagna fjárfestingar sem áður höfðu

verið ákveðnar. Vegna þeirra breytinga, sem orðið höfðu á áætlunum um uppbyggingu á

miðsvæði Álftaness og fyrirsjáanlegum breytingum á skipulagi þess, riðlaðist fjárhagsáætlunin

2006 svo að nauðsynlegt varð að taka hærri fjárhæð að láni en ella hefði þurft. Eins og áður hafi

komið fram sé hér þó aðeins um að ræða tímabundna töf á því að tekjur vegna miðsvæðisins

renni í sveitarsjóð og því séu langtímaáhrif lántökunnar lítil eða hverfandi.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærði að 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga eigi ekki við um

lántökuna af þeim sökum að einungis sé verið að fjármagna fjárfestingar sem áður hafi verið

samþykktar.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins.

A. Um slit á samningum við Eir.

 

Af gögnum málsins verður ótvírætt ráðið að ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness

um slit á samningum fyrri bæjarstjórnar fellur ekki undir 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga þar

sem ekki var um fjárfestingu að ræða. Jafnframt telur ráðuneytið rétt að benda á að hin kærða

ákvörðun felur í sér staðfestingu á samkomulagi sem bæjarstjóri gerði við Hjúkrunarheimilið Eir.

Kostnaður við slit á samningnum kemur fram í samningum þessara aðila er tilgreindur í

samkomulaginu og verður ekki séð að um skaðabótaskyldu geti orðið að ræða vegna hinnar

kærðu ákvörðunar líkt og haldið er fram í erindi kærenda. Bæjarstjórninni var því ekki skylt að

leita álits sérfróðs aðila þegar ákvörðun um samningsslitin var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar

þann 29. ágúst 2006.

Ennfremur skal tekið fram að samkomulagið felur í sér einkaréttarlegan gerning sem ráðuneytið

getur ekki úrskurðað ógildan á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Verður því að hafna kröfu

kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar.

B. Ákvörðun um lántöku.

 

Valdbærni bæjarráðs.

 

Við meðferð málsins óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá kærða um það hvort lántaka sem

samþykkt var á fundi bæjarráðs 31. ágúst 2006 hafi hlotið staðfestingu bæjarstjórnar, sbr. 3. mgr.

39. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í umsögn kærða er fyrirspurn ráðuneytisins svarað. Þar kemur fram að á fundi bæjarstjórnar

Sveitarfélagsins Álftaness 20. júní 2006 var samþykkt að fella niður fundi bæjarstjórnar fram í

september sama ár. Í samþykkt bæjarstjórnar frá 20. júní 2006 sagði enn fremur um það efni:

„Bæjarráði er veitt fullt umboð til afgreiðslu mála á meðan á sumarleyfi stendur, svo sem

heimilað er í sveitarstjórnarlögum.“ Hér hafi verið vísað til 3. mgr. 39. gr. sveitarstjórnarlaga eins

og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 69/2004. Þar segi að byggðarráð fari með sömu heimildir

og sveitarstjórn hefur ella meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi. Í athugasemdum við frumvarp er

varð að lögum nr. 69/2004 um breytingu á sveitarstjórnarlögum segir svo um þetta atriði: „Í

greininni eru tekin af tvímæli um að á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi getur byggðarráð tekið

fullnaðarákvarðanir um einstök mál án þess að vera bundið af því að ákvörðun megi ekki varða

verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans.“ Sumarleyfi bæjarstjórnar stóð til 26. september

2006 en þann dag var fyrsti fundur bæjarstjórnar, að afloknu sumarleyfi, haldinn. Fundur

bæjarstjórnar sem haldinn var 28. ágúst 2006 var því aukafundur, sbr. 17. gr. samþykkta

sveitarfélagsins um stjórn og fundarsköp.

Með hliðsjón af því að upplýst er að sumarleyfi bæjarstjórnar Álftaness stóð frá 20. júní til 26.

september 2006, að undanskildum aukafundi 28. ágúst 2006, var bæjarráð bært til að taka

ákvörðun um lántöku í máli þessu, sbr. 3. mgr. 39. gr. sveitarstjórnarlaga.

Málsmeðferð bæjarráðs.

 

Aðila greinir á um hvort málsmeðferð bæjarráðs við lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að

fjárhæð tvær milljónir evra og tvær milljónir dollara hafi farið í bága við ákvæði 1. mgr. 65. gr.

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, sbr. lög nr. 74/2003, þar sem álits sérfróðs aðila var ekki aflað og

einnig út frá því sjónarmiði hvaða áhrif lántakan hafi á afkomu bæjarsjóðs.

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, ber að afla

álits sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á

fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð ef ráðast á í

fjárfestingu og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélags í henni nemur hærri fjárhæð en

fjórðungi skattekna yfirstandandi reikningsárs.

Kærendur benda að lántakan hafi verið gerð til að koma til móts við þau útgjöld og tekjumissi

sem sveitarfélagið varð fyrir vegna slita á samningunum við Eir. Fjárhæð lánsins sé langt umfram

þann fjórðung af skatttekjum sem fram komi í 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga. Enda þótt

lagaákvæðið tiltaki fjárfestingu þá hljóti tilgangur ákvæðisins að vera sá að tryggja hagsmuni

sveitarfélagsins þegar teknar séu ákvarðanir sem vegi þungt í efnahagsreikningi þess.

Kærði tekur fram að ákvæði 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga eigi ekki við um lántökuna af þeim

sökum að lántakan sé ekki vegna nýrra fjárfestinga heldur sé einungis verið að fjármagna áður

samþykktar fjárfestingar, auk þess sem verið sé að kaupa til baka áður seldar landspildur með

niðurfellingu á kaupsamningi, dags. 14. október 2005. Kaupverð áður seldra landspilda nemi 143

milljónum króna sem ekki nái fjórðungi af áætluðum skatttekjum ársins. Í fjárhagsáætlun fyrir

árið 2006 hafi upphaflega verið gert ráð fyrir 310 milljóna króna tekjum vegna uppbyggingar á

svokölluðu miðsvæði Álftaness. Vegna breytinga sem orðið hafa á áætlunum um uppbyggingu á

miðsvæði Álftanes,s og fyrirsjáanlegum breytingum á skipulagi þess, hafi fjárhagsáætlun 2006

riðlast svo að nauðsynlegt hafi verið að taka hærri fjárhæð að láni en ella hefði þurft.

Samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2006 eru áætlaðar skatttekjur 796 milljónir

króna. Með niðurfellingu á kaupsamningi, dags. 14. október 2005, er sveitarfélaginu eins og áður

segir gert að greiða Hjúkrunarheimilinu Eir samtals 143 milljónir króna vegna tveggja

landspildna. Ljóst er að sú fjárhæð er lægri en sem nemur fjórðungi af áætluðum skatttekjum

sveitarfélagsins á árinu 2006. Að öðru leyti kemur fram í gögnum málsins að umrætt lán var tekið

til að fjármagna framkvæmdir sem áður hafi verið ákveðnar og jafnvel þegar verið lokið og telur

ráðuneytið því ótvírætt að 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga eigi ekki við um hina kærðu

ákvörðun.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð bæjarráðs við

lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð tvær milljónir evra og tvær milljónir dollara hafi

ekki farið í bága við ákvæði 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, sbr. lög nr. 74/2003.

Verður því að hafna kröfu kærenda um að ráðuneytið ógildi hina kærðu ákvörðun

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness á fundi 28. ágúst 2006 um slit á samningum

við Eir var lögmæt.

Ákvörðun bæjarráðs Sveitarfélagsins Álftaness á fundi 31. ágúst 2006 um lántöku var lögmæt.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

21. desember 2006 - Sveitarfélagið Álftanes - Uppsögn samninga og nýjar lántökur, þörf á sérfræðiáliti skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta