Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hafnarfjarðarkaupstaður - Afgreiðsla bæjarstjórnar á samþykkt fyrir reynslusveitarfélagið varðandi félagslegar íbúðir

Magnús Jón Árnason og 27. febrúar 1996 96020078

Lúðvík Geirsson, bæjarfulltrúar 1001

220 Hafnarfjörður

Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 16. febrúar 1996, varðandi afgreiðslu bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar á samþykkt fyrir reynslusveitarfélagið Hafnarfjarðarbær, félagslegar íbúðir, á fundi 13. febrúar sl.

Fyrri umræða um framangreinda samþykkt fór fram í bæjarstjórn hinn 16. janúar sl. Á fundi bæjarstjórnar þann 30. janúar sl. var málið á dagskrá en var frestað vegna ábendinga og tillagna frá félagsmálaráðuneytinu um orðalag 4. gr. samþykktarinnar.

Samþykktin var tekin til síðari umræðu á bæjarstjórnarfundi 13. febrúar sl., en þá var lögð fram tillaga um nýja 1. gr. samþykktarinnar og hljóðar hún svo: “Húsnæðisnefnd skal skipuð 5 fulltrúum sem bæjarstjórn tilnefnir, starfstími nefndarinnar skal miðast við kjörtímabil bæjarstjórnar.” Var þessi tillaga samþykkt samkvæmt fundargerð með 7 samhljóða atkvæðum. Felld var tillaga um að fresta málinu þar sem það hafði ekki verið kynnt í bæjarráði og jafnframt var því hafnað að breytingartillaga þessi þarfnaðist tveggja umræðna í bæjarstjórn.

Samkvæmt c-lið 52. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 skulu sveitarstjórnir hafa tvær umræður með a.m.k. einnar viku millibili um reglugerðir og samþykktir sem hljóta eiga staðfestingu ráðherra.

Fyrri umræða fór fram í bæjarstjórn 16. janúar sl. um samþykkt fyrir reynslusveitarfélagið Hafnarfjarðarbæ, félagslegar íbúðir, og síðari umræða átti að fara fram 13. febrúar eftir að ábendingar og tillögur frá félagsmálaráðuneytinu höfðu borist. Í þeim drögum að samþykktum var ekki fjallað um skipan húsnæðisnefndar í sveitarfélaginu. Það var fyrst á fundi bæjarstjórnar þann 13. febrúar sem fram kom tillaga um breytta skipan húsnæðisnefndar.

Tillaga um skipan húsnæðisnefndar, sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar þann 13. febrúar, fól í sér alveg nýtt efnisatriði í samþykktinni. Ráðuneytið telur með hliðsjón af þessu að ekki sé unnt að líta á hana sem einfalda breytingartillögu við fyrirliggjandi samþykkt og því þarfnist hún tveggja umræðna í bæjarstjórninni. Þar af leiðandi lítur ráðuneytið svo á að fyrri umræða um tillöguna hafi farið fram á fundi bæjarstjórnar þann 13. febrúar sl. Bæjarstjórninni ber því að taka tillöguna til síðari umræðu.

Ekki verður séð að við málsmeðferð þessa hafi verið brotin önnur formskilyrði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Hvað varðar tilvitnun til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá verður að telja að í tilvikum sem þessum sé það mat sveitarstjórnar hverju sinni hvort hún telur mál nægjanlega upplýst til að hún geti tekið ákvörðun í því.

Að öðru leyti telur ráðuneytið að samkvæmt ákvæðum laga um reynslusveitarfélög nr. 82/1994 sé heimilt að víkja frá ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um skipan húsnæðisnefndar. Í því sambandi er vísað til 9. gr. laga um reynslusveitarfélög þar sem segir að ráðherra sé heimilt að víkja frá ákvæðum laga um nefndir og stjórnir sveitarfélaga þegar reynslusveitarfélag á í hlut.

Páll Pétursson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Ljósrit: Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta