Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Reykhólahreppur - Skylda til að halda almennan borgarafund og lögmæti nokkurra funda hreppsnefndar

Burkni Dómaldsson                                                                                    22. mars 1996                                         96010100

Hellisbraut 8                                                                                                                                                                         1001

380 Króksfjarðarnes

 

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar, Jóns Árna Sigurðssonar og Sólrúnar Óskar Gestsdóttur, dagsett 14. janúar 1996, varðandi annars vegar skyldu hreppsnefndar Reykhólahrepps til að halda almennan borgarafund í sveitarfélaginu og hins vegar um fyrirkomulag og lögmæti funda hreppsnefndar Reykhólahrepps “síðustu mánuði”.

 

           Erindi yðar var sent til umsagnar hreppsnefndar Reykhólahrepps með bréfi, dagsettu 19. janúar 1996. Umsögn barst ráðuneytinu hinn 7. febrúar 1996 með bréfi, dagsettu 27. janúar 1996.

 

Málavextir:

 

           Fyrri hluti erindisins varðar kröfu um að haldinn verði almennum borgarafundur í Reykhólahreppi. Þann 29. desember 1995 voru oddvita hreppsnefndar Reykhólahrepps afhentir undirskriftarlistar sem 107 íbúar í hreppnum árituðu, þar sem þess var krafist að hreppsnefnd boðaði til borgarafundar um málefni hreppsins og sérstaklega fyrirhugaða söðu Hitaveitu Reykhóla. Hreppsnefnd hafi ekki orðið við þeirri kröfu.

 

           Í umsögn hreppsnefndar um þennan þátt málsins er tekið fram að hreppsnefndin hafi talið að ekkert hefði gerst í málefnum sveitarfélagsins sem rökstyðji þörf á almennum borgarafundi. Hins vegar hafi hreppsnefnd gefið út fréttabréf og haldið “opinn fund þar sem öll mál voru kynnt og reifuð.” Þannig hafi hreppsnefndin veitt íbúum sveitarfélagsins allar upplýsingar um fjárhagsstöðu hreppsins og þær varnaraðgerðir sem hreppsnefndin hefur unnið að.

 

           Í seinni hluta erindisins er gerð krafa um að “ólöglegar ákvarðanir hreppsnefndar Reykhólahrepps sem teknar hafa verið á fundum sem ólöglega hefur verið staðið að síðustu mánuði” verði ógiltar. Krafan er grundvölluð á því að hreppsnefnd hafi haldið lokaða fundi hreppsnefndar þar sem teknar hafa verið m.a. ákvarðanir um álagningu fasteignagjalda. Til þessa funda hafi ekki verið boðað samkvæmt sveitarstjórnarlögum og samþykkt um stjórn og fundarsköp Reykhólahrepps, þ.e. með auglýsingu og dagskrá. “Almenna reglan í sveitarstjórnarmálum er að fundir skuli vera í heyranda hljóði og til þeirra boðað með auglýsingu ef nauðsynlegt er þá getur hreppsnefnd ákveðið að loka fundi en að hægt sé að boða til lokaðra funda hreppsnefndar fæst ekki staðist. Þá er ekki hægt að sjá nauðsyn þess að ákvörðun um álagningu fasteignagjalda þurfi að taka fyrir luktum dyrum.”

 

           Í umsögn hreppsnefndar er fyrst greint frá þeim erfiðleikum sem sveitarfélagið hefur átt við að glíma á undanförnum mánuðum. Ákveðið hafi verið í upphafi að ræða einstök atriði þessara vandamála á aukafundum, sem allir hreppsnefndarmenn sátu. Í umsögninni er jafnframt tilgreint að aukafundir, sem ekki voru boðaðir með opinberri dagskrá, hafi verið haldnir 31. október, 11., 16., 17. og 20. nóvember, 8., 15., 27., 28. og 30. desember 1995. Samtals 10 fundir haldnir ýmis á Reykhólum eða í Reykjavík. Reglulegir fundir hreppsnefndar, sem boðaðir voru með opinberri dagskrá voru haldnir 11. nóvember og 15. desember 1995 og 20. janúar 1996. Samtals 3 fundir haldnir á Reykhólum.

 

           Með umsögninni fylgdu afrit af fundargerðum allra ofangreindra hreppsnefndarfunda.

 

Niðurstaða ráðuneytisins:

 

Um almenna borgarafundi:

 

           Í 2. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði:

           “Í sveitarfélagi með færri en 500 íbúa er skylt að halda almennan sveitarfund ef 1/4 hluti atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu óskar þess.”

 

           Í Reykhólahreppi voru hinn 1. desember 1995 350 íbúar samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands. Á undirskriftarlistum þeim, sem afhentir voru hreppsnefnd Reykhólahrepps, voru nöfn a.m.k. 97 atkvæðisbærra einstaklinga í sveitarfélaginu, sem augljóslega er meira en 1/4 hluti allra atkvæðisbærra einstaklinga í Reykhólahreppi. Samkvæmt því er ljóst að hreppsnefnd Reykhólahrepps er skylt að halda almennan sveitarfund á grundvelli umræddra undirskriftarlista, sbr. 2. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

           Rétt er hins vegar að benda á í þessu sambandi að almennur borgarafundur var haldinn í Reykhólahreppi 28. desember 1995 um fjámálalega stöðu hreppsins eða daginn áður en ofangreindir undirskrifrarlistar voru afhentir.

 

Um fundi hreppsnefndar:

 

           Um fundi sveitarstjórna er m.a. ákvæði í 1. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og hljóðar það svo:

           “Sveitarstjórnir skulu halda reglulega fundi eftir því sem sveitarstjórn ákveður fyrir fram eða fyrir er mælt um í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Fundi skal halda eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og sveitarstjórnir, þar sem byggðarráð er kjörið, skulu halda fundi eigi sjaldnar en mánaðarlega. Heimilt er þó sveitarstjórn að fella niður fundi í allt að tvo mánuði á hverju sumri. Aukafundi skal halda eftir þörfum.”

 

           Nánari ákvæði um fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps er að finna í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins nr. 549/1987. Í 1. mgr. 12. gr. segir að hreppsnefnd haldi reglulega fundi eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og 3. mgr. sömu greinar segir að aukafundi skuli halda í hreppsnefnd eftir því sem þörf krefur að mati oddvita hreppsins og sveitarstjóra og skylt er að halda aukafund í hreppsnefnd ef a.m.k. þriðjungur hreppsnefndarmanna krefst þess. Samkvæmt 16. gr. skal sveitarstjóri í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir hreppsnefndarfund hafa boðað hreppsnefndarmenn símleiðis á hreppsnefndarfund og kynnt þeim í meginatriðum dagskrá fundarins. Síðan segir í 17. gr. að sveitarstjóri skuli boða hreppsnefndarmenn símleiðis til aukafundar í hreppsnefnd a.m.k. sólarhring fyrir fund.

 

           Í 3. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir að sveitarstjórnarfundir skuli haldnir fyrir opnum dyrum en sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum.

 

           Síðan segir svo í 2. og 3. mgr. 20. gr. samþykktar nr. 549/1987:

           “Hreppsnefndarfund skal að jafnaði halda í heyranda hljóði og almenningi heimilaður aðgangur að þeim, eftir því sem húsrúm leyfir.

           Hreppsnefnd getur ákveðið, að einstök mál verði rædd fyrir luktum dyrum s.s. viðkvæm einkamál manna eða viðskiptamál, sem æskilegt er vegna hagsmuna hreppsins, að rædd verði fyrir luktum dyrum. Jafnframt getur hreppsnefnd ákveðið, að hreppsnefndarfundur, þar sem eingöngu er fjallað um slík mál, verði haldinn fyrir luktum dyrum. Tillaga um að mál skuli rædd fyrir luktum dyrum skal afgreidd umræðulaust í hreppsnefnd.”

 

           Samkvæmt framangreindum ákvæðum er það hreppsnefnd sem metur hverju sinni hvort ástæða er til að fjalla um mál fyrir luktum dyrum eða hvort hreppsnefndarfundur skal vera lokaður. Tilteknar leiðbeiningarreglur eru þó í 3. mgr. 20. gr. samþykktar nr. 549/1987.

 

           Hreppsnefnd Reykhólahrepps hélt reglulega fundi 11. nóvember 1995, 15. desember 1995 og 20. janúar 1996. Ekki verður því annað séð en að fylgt sé ákvæði 1. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 1. mgr. 12. gr. samþykktar nr. 549/1987 varðandi reglulega fundi hreppsnefndar. Ekki verður heldur ráðið af gögnum málsins að ólöglega hafi verið boðað til þeirra funda.

 

           Á tímabilinu frá 31.október til 30. desember 1995 hélt hreppsnefndin 10 lokaða fundi. Samkvæmt fundargerðum þeirra funda voru engar athugasemdir gerðar við það af hálfu hreppsnefndarmanna að fundirnir voru haldir fyrir luktum dyrum. Í sumum tilvikum var bókað sérstaklega að samþykkt hefði verið að hafa fundinn lokaðan og í öllum tilvikum rituðu hreppsnefndarmenn athugasemdalaust undir fundargerðirnar, þ.m.t. að um hafi verið að ræða lokaðan fund.

 

           Ljóst er af gögnum þessa máls svo og öðrum gögnum sem ráðuneytið hefur undir höndum, að mikill vandi hefur steðjað að sveitarsjóði Reykhólahrepps undanfarna mánuði. Hefur hreppsnefnd þurft að grípa til ýmissa ráða við að reyna að leysa úr þeim, m.a. sem varða einkamál manna og viðskiptamál hreppsins. Samkvæmt umsögn hreppsnefndar svo og fundargerðum lokaðra hreppsnefndarfunda 31. október til 30. desember 1995 taldi hreppsnefnd nauðsyn bera til þess að fjalla um úrræði í fjárhagserfiðleikum sveitarfélagsins og mál þeim tengdum fyrst á lokuðum hreppsnefndarfundum. Ráðuneytið telur það ekki óeðlileg vinnubrögð af hálfu hreppsnefndarinnar og jafnframt telur ráðuneytið það samræmast ákvæðum 3. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 20. gr. samþykktar nr. 549/1987.

 

           Hvað varðar fundarstað er rétt að taka fram að í ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og samþykktar um stjórn og fundarsköp Reykhólahrepps nr. 549/1987 eru engin fyrirmæli um hvar skuli halda hreppsnefndarfundi. Einungis segir í 1. mgr. 14. gr. samþykktarinnar að sveitarstjóri boði hreppsnefnd til funda í samráði við oddvita og ákveður jafnframt fundarstað hafi hreppsnefnd ekki gert það. Það er því í valdi sveitarstjóra í samráði við oddvita eða hreppsnefndar að ákveða hvar fundir hreppsnefndar eru haldnir.

 

           Samkvæmt öllu framansögðu telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á að slíkir gallar hafi verið á boðun funda hreppsnefndar Reykhólahrepps á tímabilinu október 1995 til janúar 1996 að efni séu til að ógilda ákvarðanir hreppsnefndarinnar frá þeim tíma.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd Reykhólahrepps.

Samrit:  Jón Árni Sigurðsson og Sólrún Ósk Gestsdóttir.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta