Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Vesturbyggð - Reglur um boðun varamanna á bæjarstjórnarfundi

Ingibjörg Guðmundsdóttir                                                                        22. febrúar 1996                                     96020091

Mýrum 17                                                                                                                                                                             1001

450 Patreksfjörður

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 21. febrúar 1996, þar sem óskað er eftir upplýsingum um reglur sem gilda um boðun varamanna á bæjarstjórnarfundi í Vesturbyggð.

 

           Kosning til bæjarstjórnar Vesturbyggðar hinn 28. maí 1994 var bundin hlutfallskosning, sbr. 14. - 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

           Í 35. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um varamenn í sveitarstjórn þegar kosning er bundin. Er þar að finna mismunandi reglur um hvernig varamenn taka sæti eftir því hvort um varanleg forföll er að ræða eða forföll um stundarsakir.

 

           Í 1. mgr. 35. gr. segir svo: “Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista, sem þeir eru kosnir af, falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt frá því að sitja í sveitarstjórn.”

 

           Síðan segir m.a. svo í 4. mgr. 35. gr.: “Nú forfallast aðalmaður um stundarsakir vegna veikinda eða af öðrum ástæðum og er honum þá rétt að tilnefna þann af varamönnum sínum sem taka skal sæti hans á meðan. Hafi hann engan tilnefnt úr hópi varamanna skal varamaður taka sæti hans skv. ákvæðum 1. og 2. mgr. þessarar greinar.”

 

           Jafnframt segir svo m.a. í 1. mgr. 25. gr. samþykktar um stjórn Vesturbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 575/1994: “Sé bæjarfulltrúi forfallaður um stundarsakir skal hann tilkynna eða láta tilkynna forföllin til bæjarstjóra, og boða síðan varamann sinn á fund. Bæjarfulltrúa, sem forfallast um stundarsakir er heimilt að ákveða, hver varamanna hans taki sæti á bæjarstjórnarfundi ella tekur varamaður sæti samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga.”

 

           Samkvæmt ofangreindum ákvæðum er gert ráð fyrir að varamaður taki að jafnaði sæti á bæjarstjórnarfundum ef aðalmaður er forfallaður Aðalmaðurinn skal tilkynna forföllin til bæjarstjóra og boða varamann sinn á fund. Ef hann hefur ekki valið sér varamann til að taka sæti sitt um stundarsakir tekur varamaður sæti samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga, þ.e. í þeirri röð sem varamenn eru kjörnir. Boða ber því 1. varamann á fund ef aðalmaður er forfallaður um stundarsakir og hefur ekki valið sér varamann.

 

           Rétt er að taka fram að ákvæði þessi koma ekki í veg fyrir að viðkomandi aðalmaður geti óskað eftir því að t.d. bæjarstjóri boði fyrir sig varamann, en bæjarstjórinn verður að fylgja ofangreindum reglum og boða 1. varamann ef aðalmaðurinn hefur ekki valið sér varamann.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta