Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Eskifjarðarkaupstaður - Afgreiðsla forseta bæjarstjórnar á tillögu bæjarfulltrúa á fundi

Emil Thorarensen                                                                                       22. nóvember 1996                       96090023

Fífubarði 7                                                                                                                                                                   1001

735 Eskifjörður

 

 

           Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 5. september 1996, varðandi afgreiðslu eða úrskurð forseta bæjarstjórnar Eskifjarðarkaupstaðar í máli er þér lögðuð fram á fundi bæjarstjórnar þann sama dag.

 

           Erindi yðar var sent til umsagnar forseta bæjarstjórnar með bréfi, dagsettu 9. september 1996. Umsögn barst ráðuneytinu þann 27. september 1996 með bréfi, dagsettu 25. sama mánaðar.

 

I.         Málavextir og málsástæður.

 

           Á dagskrá fundar bæjarstjórnar Eskifjarðarkaupstaðar sem haldinn var 5. september 1996 voru sex mál á dagskrá þ.e.: 1) Fundargerðir bæjarráðs frá 12 fundum, 2) fundargerð atvinnumálanefndar, 3) fundargerðir húsnæðisnefndar frá þremur fundum, 4) fundargerðir skólanefndar frá tveimur fundum, 5) fundargerð Sorpsamlags Mið-Austurlands og 6) þriggja ára áætlun.

 

           Þegar 1. dagskrárliður var til umræðu tókuð þér til máls út af ýmsum málefnum sem borið höfðu á góma í umfjöllun bæjarráðs. Jafnframt lögðuð þér fram ályktun varðandi læknadeilu sem þá stóð yfir.

 

           Forseti bæjarstjórnar úrskurðaði þá að sú ályktun snerti ekki neitt af þeim málum sem á dagskrá voru og vísaði hann því ályktuninni út af dagskrá. Kröfðust þér þá atkvæðagreiðslu um hvort bæjarfulltrúar vildu taka ályktunina fyrir og ræða hana. Fjórir bæjarfulltrúar samþykktu að taka málið á dagskrá, einn var á móti (forseti bæjarstjórnar) og tveir sátu hjá.

 

           Í framhaldi af atkvæðagreiðslunni úrskurðaði forseti að tilskilinn meirihluti fyrir því að taka málið á dagskrá væri ekki fyrir hendi og vísaði því ályktuninni aftur út af dagskrá fundarins.

 

           Þér vísuðuð því máli þessu til félagsmálaráðuneytisins og vitnið m.a. til 20. gr. samþykktar um stjórn Eskifjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 195/1990 og 9. gr., 2. mgr. 40. gr. og 51. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Teljið þér að tilskilinn meirihluti hafi verið til þess í bæjarstjórn að taka málið á dagskrá bæjarstjórnarfundar.

 

           Í umsögn forseta bæjarstjórnar kemur fram að hann telur að tilskilinn meirihluti hafi ekki verið fyrir hendi þar sem í 20. gr. samþykktarinnar sé ekki kveðið á um hjásetu.

 

           Um mál þetta er þannig bókað í fundargerð bæjarstjórnar:

           “Emil lagði fram ályktun varðandi ástand heilbrigðismála og fór fram á, að hún yrði tekin til umræðu.

           Þar sem málið var ekki á dagskrá, var það borið undir atkvæði og voru 4 samþykktir, 1 á móti, 2 sátu hjá.

           Forseti úrskurðaði, að þar sem málið hefði ekki náð samþykki 2/3 fundarmanna, yrði málið ekki tekið á dagskrá.

           Emil lýsti sig ósáttan við þessi málalok og kvaðst myndi leita réttar síns í því sambandi.”

 

II.       Niðurstaða ráðuneytisins.

 

           Í 20. gr. samþykktar um stjórn Eskifjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 195/1990 er svohljóðandi ákvæði:

           “Mál skulu tekin til umræðu og afgreidd í bæjarstjórn í þeirri röð, sem þau eru á dagskrá, nema forseti eða bæjarstjórn ákveði annað.

           Heimilt er að taka til meðferðar á bæjarstjórnarfundi mál, sem ekki hefur verið á dagskrá, ef 2/3 viðstaddra bæjarfulltrúa samþykkja slíkt afbrigði.”

 

           Samþykkt þessi er sett á grundvelli 49. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

           Ráðuneytið telur að ekki hafi verið sýnt fram á að ályktunartillaga yðar um læknadeiluna hafi beinlínis fallið undir fyrsta dagskrárlið fundarins, þ.e. um fundargerðir bæjarráðs. Bæjarráð hafði ekki samkvæmt fundargerðunum fjallað beinlínis um læknadeiluna, aðeins um sumarleyfi lækna í heilsugæsluumdæmi Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Rétt var því að greiða atkvæði um hvort málið yrði tekið á dagskrá fundarins í samræmi við 2. mgr. 20. gr. samþykktarinnar.

 

           Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. er slík dagskrártillaga ekki samþykkt nema “2/3 viðstaddra bæjarfulltrúa” samþykki slíkt afbrigði. Er hér um að ræða sérreglu, sem er undantekning frá þeirri meginreglu að einfaldur meirihluti atkvæða ráði. Rétt er að ítreka að hér var um dagskrártillögu að ræða en ekki tillögu um afgreiðslu tiltekins máls.

 

           Ráðuneytið telur að við túlkun á því hvenær tillaga samkvæmt 2. mgr. 20. gr. samþykktarinnar teljist samþykkt, beri fyrst og fremst að líta á orðalag ákvæðisins. Tilvísun í skýringar með 2. mgr. 51. gr. sveitarstjórnarlaga á að mati ráðuneytisins ekki við hér. Í ákvæðinu segir svo: “Á sveitarstjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum mála.” Þar er því einungis fjallað um þá aðstöðu er sveitarstjórn greiðir atkvæði um afgreiðslu tiltekins máls, en um fundarsköp bæjarstjórnar Eskifjarðarkaupstaðar er að öðru leyti fjallað í áðurgreindri samþykkt nr. 195/1990.

 

           Tilgangur 2. mgr. 20. gr. samþykktarinnar er að tryggja að ekki verði rædd önnur mál í sveitarstjórn en eru á áður útsendri dagskrá, nema í undantekningartilfellum. Slíkt ákvæði er eðlilegt til að auðvelda sveitarstjórnarmönnum að gera sér grein fyrir dagskrárefni fundar og undirbúa sig fyrir þá umræðu er þar kann að fara fram.

 

           Í máli því sem hér er til umfjöllunar samþykktu fjórir bæjarfulltrúar tillöguna, einn var á móti og tveir sátu hjá. Ráðuneytið telur með hliðsjón af framansögðu að 2/3 greiddra atkvæða þurfi til að breyta út af dagskrá. Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 20. gr. samþykktarinnar þurftu þannig fimm af sjö bæjarfulltrúum að samþykkja tillöguna til að hún næði fram að ganga. Því telur ráðuneytið að forseti bæjarstjórnar Eskifjarðarkaupstaðar hafi ekki brotið framangreint ákvæði er hann ákvað að taka umrætt mál ekki á dagskrá fundar bæjarstjórnar þann 5. september 1996.

 

 

           Beðist er velvirðingar á að afgreiðsla máls þessa hefur dregist hjá ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Ljósrit:  Forseti bæjarstjórnar Eskifjarðarkaupstaðar.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta