Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN18040073

Ár 2019, þann 25. febrúar, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli SRN18040073

 

Kæra X

á ákvörðun

Þjóðskrár Íslands

 

I.          Kröfur, kæruheimild og kærufrestir

Með kæru sem barst ráðuneytinu þann 30. apríl 2018 kærði X, kt. 000000-0000 (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 30. janúar 2018 um að synja beiðni hans um afturvirka lögheimilisskráningu frá 26. febrúar 2015. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæran fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

 

II.        Ákvörðun Þjóðskrár Íslands

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

„Vísað er til úrskurðar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins dags. 29. desember 2017, þar sem máli þínu um afturvirka lögheimilisskráningu var vísað til nýrrar meðferðar hjá Þjóðskrá Íslands vegna nýrra gagna sem afhent voru ráðuneytinu undir meðferð málsins.

Þjóðskrá Íslands sendi þér bréf dags. 12. janúar sl., þar sem óskað var eftir að þú afhentir stofnuninni þau viðbótargögn sem um ræðir svo stofnunin gæti lagt mat á það hvort að þau gætu haft áhrif á ákvörðun stofnunarinnar um lögheimilisskráningu þína.

Þann 18. janúar sl., bárust stofnuninni ofangreind viðbótargögn frá lögmanni þínum. Viðbótargögnin innihéldu tölvubréf, dags. 29. ágúst 2017, frá Y þar sem hún lýsir því yfir að þú hafi verið búsettur á heimili hennar að Heimilisfangi A frá 10. apríl 2015 til 6. mars 2016 og síðar að Heimilisfangi B frá 6. mars til 9. nóvember 2016.

Þjóðskrá Íslands hefur nú lagt mat á þessi viðbótargögn og hefur komist að þeirri niðurstöðu að umrætt tölvubréf hefur engin áhrif á ákvörðun stofnunarinnar um að hafna beiðni þinni um afturvirka lögheimilisskráningu á tímabilinu 26. febrúar 2015 til 9. nóvember 2016. Yfirlýsingar einstaklinga um búsetu annarra einstaklinga hafa takmarkað vægi við ákvörðun lögheimilis. Er því beiðni þinni um afturvirka lögheimilisskráningu á umræddu tímabili hafnað enda verður ekki fallist á að gögnin sýni fram á, með ótvíræðum hætti, að þú hafir haft búsetu að fyrrgreindum heimilisföngum í skilningi lögheimilislaga nr. 21/1990.

 

III.       Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins barst Þjóðskrá Íslands (hér eftir ÞÍ) þann 26. febrúar 2015 tilkynning frá Tryggingastofnun ríkisins (hér eftir TR) um að grunur léki á að lögheimili kæranda væri ranglega skráð í þjóðskrá, en á þeim tíma var það skráð að Heimilsfangi C. Hins vegar hafi TR talið að kærandi væri búsettur hjá fyrrum eiginkonu sinni (hér eftir Z) að Heimilisfangi D. Með bréfi ÞÍ þann 19. mars 2015 var þess farið á leit að kærandi upplýsti stofnunina um hvar hann hefði fasta búsetu. Var sent bréf bæði á Heimilsfang C og Heimilisfang D. Þann 25. mars sama ár kom Z í afgreiðslu ÞÍ með bréfið sem sent hafði verið kæranda að Heimilisfangi D og sagði kæranda ekki búa þar. Þann 15. apríl 2015 kom kærandi á fund hjá ÞÍ og tjáði starfsmanni stofnunarinnar að hann væri búsettur hjá vini sínum að Heimilisfangi C. Enginn leigusamningur hafi verið gerður og kærandi greitt leigu með peningum. Hafi kæranda verið kynnt fyrirliggjandi gögn, m.a. færsla á Facebook þar sem hann auglýsti eftir vespu sem stolið hefði verið fyrir utan heimili hans að Heimilisfangi D. Í umsögn ÞÍ kemur fram að kærandi hafi ekki tjáð sig um framlögð gögn. Var kæranda tjáð að ef engin gögn myndu berast sem styddu þá staðhæfingu hans að hann byggi að Heimilisfangi C sæi ÞÍ ekki annan kost en að leita aðstoðar lögreglu. Var kæranda veittur frestur til koma með gögn og veittar leiðbeiningar af hálfu ÞÍ. Bárust engin frekari gögn frá kæranda. Þann 24. apríl 2015 tilkynnti kærandi um lögheimilisflutning frá Heimilisfang C að Heimilisfang A frá og með 10. apríl 2015.

Þann 8. september 2016 sendi ÞÍ kæranda bréf, stílað á Heimilisfang D og Heimilisfang B og óskaði eftir að hann upplýsti stofnunina um hvar hann hefði fasta búsetu. Hafði kærandi þá flutt frá Heimilisfangi A að Heimilisfangi B þann 21. mars 2016. Í umsögn ÞÍ kemur fram að bréfið sem sent var að Heimilisfang B hafi verið endursent þar sem heimilisfang væri óþekkt. Þann 19. september 2016 kom kærandi í afgreiðslu ÞÍ og kvaðst vera búsettur að Heimilisfangi B. Var þess farið á leit af hálfu ÞÍ að kærandi kæmi með gögn sem sýndu fram á að svo væri. Bárust ÞÍ gögn 29. september 2016 og var þar um að ræða póstaðflutningsskýrslu þar sem heimilisfang kæranda var tilgreint að Heimilisfangi B.

Með bréfi ÞÍ þann 27. október 2016 var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sent bréf þess efnis að aðstoðar væri þörf til að athuga með búsetu kæranda, sbr. lög um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1952 og lögreglulög nr. 90/1996. Þann 4. nóvember 2016 barst ÞÍ tölvupóstur frá lögreglunni þar sem fram kom að bankað hefði verið upp á að Heimilisfangi B og rætt við íbúa í húsinu. Hafi enginn viljað kannast við að kærandi byggi eða hefði búið þar. Þá var óskað eftir að lögregla kannaði hvort kærandi væri búsettur að Heimilisfangi D. Í gögnum málsins kemur fram að tekið hafi lögregluna tíma að hafa uppi á kæranda. Þann 18. janúar 2017 barst ÞÍ tölvubréf rá lögreglu þar sem fram kom að þann 15. desember 2016 hafi verið farið að Heimilisfangi D. Z hafi komið til dyra og kærandi einnig verið viðstaddur. Aðspurður hafi kærandi sagt að hann byggi ekki að Heimilisfangi D heldur að Heimilisfangi E, en þann 9. nóvember 2016 flutti kærandi lögheimili sitt frá Heimilisfangi B að Heimilisfangi E. Þann 16. janúar 2017 fór lögregla að Heimilisfangi E til að athuga hvort kærandi héldi þar til. Ræddi lögregla við tvo íbúa að Heimilisfangi E sem könnuðust ekki við að kærandi væri eða hefði verið þar búsettur.

Þann 18. janúar 2017 tók ÞÍ þá ákvörðun að skrá kæranda að Heimilisfangi D frá og með 26. febrúar 2015. Fyrir mistök var kærandi þó skráður að Heimilisfangi D frá 26. janúar 2015 í stað 26. febrúar sama ár en það síðar leiðrétt. Þann 2. febrúar 2017 kom kærandi í afgreiðslu ÞÍ og kvaðst ósáttur við ákvörðun stofnunarinnar og fyllti út flutningstilkynningu að Heimilisfangi E. Þann 15. febrúar 2017 komu kærandi og SG á fund ÞÍ þar sem skráningu kæranda að Heimilisfangi D var mótmælt. Var þeim veittur frestur til að leggja fram gögn sem sýndu fram á búsetu kæranda á umræddu tímabili. Þann sama dag var lögheimili kæranda flutt að Heimilisfangi E og hann skráður með lögheimili þar frá og með 19. janúar 2017. Í kjölfarið sendi ÞÍ tölvubréf á TR þar sem sú stofnun var upplýst um stöðu málsins. Þann 16. mars 2017 lagði kærandi fram viðbótargögn sem sýndu fram á að hann hefði greitt rafmagnsreikninga að Heimilisfangi E frá 9. nóvember 2016. Var skráning kæranda í kjölfarið leiðrétt og hann skráður að Heimilisfangi E frá og með 9. nóvember 2016. Var kæranda tilkynnt ákvörðunin með tölvubréfi þann 21. mars 2017 og honum jafnframt tilkynnt að ekki væri fallist á beiðni hans um afturvirka skráningu til 26. febrúar 2015 þar sem framlögð gögn sýndu einungis að hann hefði verið búsettur að Heimilisfangi E frá 9. nóvember 2016. Var kæranda jafnframt tilkynnt að ÞÍ myndi endurskoða ákvörðun sína um afturvirka skráningu ef kærandi gæti sýnt fram á búsetu sína fyrir tímabilið 26. febrúar 2015 til og með 8. nóvember 2016. Var framangreind ákvörðun ÞÍ kærð til ráðuneytisins sem kvað upp úrskurð í málinu þann 29. desember 2017. Var hin kærða ákvörðun þar felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar ÞÍ á ný. Var ástæðan sú að kærandi lagði fram ný gögn við meðferð málsins hjá ráðuneytinu sem talið var nauðsynlegt að ÞÍ legði mat á varðandi það hvort þau hefðu áhrif á fyrri ákvörðun stofnunarinnar. Með ákvörðun ÞÍ dags. 30. janúar 2018 var það niðurstaða stofnunarinnar að hin nýju gögn breyttu í engu fyrri afstöðu hennar og var því synjað beiðni kæranda um afturvirka lögheimilisskráningu.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu þann 30. apríl 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 3. maí 2018 var Þjóðskrá Íslands gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar mótteknu 13. júní 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 9. júlí 2018 var kæranda kynnt umsögn Þjóðskrár Íslands og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi kæranda mótteknu 12. júlí 2018

Með bréfi ráðuneytisins dags. 24. júlí 2018 var kæranda tilkynnt að málið væri tekið til  úrskurðar.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið í hjúskap með Z og eigi þau saman tvö börn. Árið 2005 hafi þau keypt saman fasteign að Heimilisfangi D. Þann 27. október 2016 hafi Z síðan keypt eignarhlut kæranda í fasteigninni. Þann 8. nóvember 2016 hafi kærandi keypt fasteign að Heimilisfangi E. Þá kemur fram í kærunni að kærandi greiði meðlag með börnunum. Með bréfi dags. 3. febrúar 2017 hafi kæranda og Z borist tilkynningar um stöðvun meðlagsgreiðslna fyrir milligöngu TR þar sem kærandi og Z væru skráð með sameiginlegt lögheimili. Hafi þar komið fram að TR myndi stöðva greiðslur meðlags frá og með 26. janúar 2015 til 28. febrúar 2017 og yrði mynduð krafa vegna þeirrar fjárhæðar. Þá hafi TR tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur mæðra/feðralauna á sama tímibili á grundvelli sömu ástæðna og tekið fram að krafa yrði mynduð vegna fjárhæðarinnar. Fellst kærandi ekki á að ÞÍ geti skráð lögheimili hans að Heimilisfangi D án nokkurrar aðkomu hans. Byggir kærandi á því að andmælaréttur hans hafi verið virtur að vettugi.

Kærandi kveðst ekki hafa getað fellt sig við þá ákvörðun ÞÍ að skrá lögheimili hans að Heimilisfangi D án nokkurrar aðkomu hans og því kært hana til ráðuneytisins. Með kæru hafi verið lögð fram staðfesting frá Y þar sem hún hafi staðfest að kærandi hafi verið búsettur á heimili hennar að Heimilisfang A frá 10. apríl 2015 til 6. mars 2016 og síðar að Heimilisfangi B frá þeim tíma til 9. nóvember 2016. Hafi ráðuneytið fellt fyrri ákvörðun ÞÍ úr gildi þar sem umrætt gagn hafi ekki legið fyrir þegar stofnunin tók ákvörðun í máli kæranda. Hafi ÞÍ verið gert að taka málið til meðferðar á ný en stofnunin hafnað sjónarmiðum kæranda með hinni kærðu ákvörðun í þessu máli.

Kærandi vísar til þess að hann og Z hafi verið fráskilin á því tímabili sem um ræðir, þ.e. frá 26. janúar 2015 til 28. febrúar 2017 þótt þau hafi fjárfest sameiginlega í íbúðinni að Heimilisfangi D. Hafi tilgangur kæranda aðeins verið sá að aðstoða fyrrum eiginkonu sína og börn við að koma undir sig fótunum. Í október 2016 hafi Z keypt hlut kæranda af honum. Þá bendir kærandi á að samkvæmt upplýsingum frá ÞÍ um lögheimilisskráningu þeirra beggja megi sjá að frá 1. janúar 2004 hafi kærandi og Z aldrei átt sameiginlegt lögheimili utan þess tímabils er ÞÍ tók að eigin frumkvæði þá ákvörðun að skrá kæranda með lögheimili að Heimilisfangi D á tveggja mánaða tímabili frá 26. janúar 2015 til 10. apríl 2015.

Í 1. mgr. 7. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 komi fram að hjón eigi sama lögheimili, en samkvæmt 2. mgr. eigi hjón sem slitið hafa samvistir sitt lögheimilið hvort. Í ljósi þessarar meginreglu laganna sé ljóst að ÞÍ hafi brugðist skyldum sínum sem stjórnvald og hvorki uppfyllt andmælarétt kæranda né rannsóknarskyldu, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Byggir kærandi á því að ÞÍ hafi verið óheimilt að skrá kæranda að Heimilisfangi D að eigin frumkvæði eftir ábendingu frá TR og fái slíkt ekki stoð í 4. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962. Hafi ÞÍ ennfremur verið óheimilt að skrá lögheimili kæranda hjá fyrrum eiginkonu hans án þess að ganga úr skugga um hjúskaparstöðu þeirra, en þau hafi þá verið skilin. Samkvæmt rannsóknarreglunni beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þá skuli aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Byggir kærandi á því að ÞÍ hafi ekki rannsakað mál hans nægilega og ekki kallað eftir upplýsingum eða athugasemdum frá kæranda fyrir ákvarðanatöku.

Kærandi kveðst ekki geta fallist á þá afstöðu ÞÍ að tölvupóstur Y geti engin áhrif haft á ákvörðun ÞÍ. Vísar kærandi til niðurstöðu ráðuneytisins þar sem hugsanlegt sé talið að umrætt gagn geti haft áhrif á ákvörðun ÞÍ. Telur kærandi ljóst að ÞÍ horfi á ýmis konar upplýsingar og gögn því til stuðnings hvort lögheimilisskráning einstaklinga sé rétt, t.a.m. póstsendingar, færslur á Facebook og samtöl við aðra íbúa (einstaklinga) á viðkomandi heimilisföngum. Þá hafi ÞÍ enn fremur bent kæranda á að meðal gagna sem hann gæti komið með máli sínu til stuðnings, væri yfirlýsing frá vini kæranda sem hann segðist búsettur hjá. Ákvörðun ÞÍ frá 30. janúar 2018 sé því í engu samræmi við þær upplýsingar og leiðbeiningar sem stofnunin hafi veitt kæranda um það hvernig hann gæti rökstutt mál sitt varðandi rétta lögheimilisskráningu. Þá telur kærandi ljóst að ÞÍ hafi byggt ákvörðun sína m.a. á samtölum lögreglu við einstaklinga sem búsettir voru á umræddum heimilisföngum. Niðurstaða ÞÍ um að yfirlýsingar einstaklinga hafi ekkert vægi varðandi lögheimilisskráningu annarra einstaklinga fái því með engu móti staðist.

Í andmælum sínum áréttar kærandi að í gögnum málsins komi fram að honum hafi verið bent á af hálfu ÞÍ að leggja fram yfirlýsingu frá vini hans til að styðja mál sitt varðandi lögheimilisskráningu. Ítrekar kærandi mótmæli sín gagnvart fullyrðingum ÞÍ þess efnis að yfirlýsingar einstaklinga hafi ekkert vægi varðandi lögheimilisskráningu annarra einstaklinga. Þá telur kærandi að fullyrðing ÞÍ samræmist ekki verklagi stofnunarinnar enda hafi lögheimilisskráning verið ákveðin á grundvelli færslna á Facebook og samtölum við aðra einstaklinga.

 

V.        Umsögn Þjóðskrár Íslands

Í umsögn ÞÍ kemur fram að stofnunin starfi samkvæmt lögum nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu og annist almannaskráningu hér á landi samkvæmt 1. gr. laganna. Á meðal hlutverka stofnunarinnar sé að sjá til þess að lögheimili einstaklinga sé skráð eftir því sem kveðið er á um í lögheimilislögum nr. 21/1990. Ekki sé mælt sérstaklega fyrir um eftirlit með lögheimilisskráningu í lögum nr. 21/1990 en hins vegar hafi verið litið svo á að af ákvæðum þeirra leiði að ÞÍ hafi við tilteknar aðstæður vald til ákveða hvar lögheimili manns skuli skráð, sbr. 6. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 7. gr. laganna. Af lögbundnu eftirlitshlutverki ÞÍ hafi verið talið leiða að stofnunin geti að eigin frumkvæði hafið athugun á því hvort lögheimili tiltekins eða tiltekinna einstaklinga sé skráð í þjóðskrá í samræmi við þær reglur sem er að finna í lögheimilislögum. Hafi þessi framkvæmd margsinnis verið staðfest af ráðuneytinu.

Í 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga segi að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Í 2. mgr. 1. gr. sé nánar útskýrt að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Einstaklingum beri að tilkynna breytingar á lögheimili sínu til stofnunarinnar sbr. 10. gr. lögheimilislaga, sbr. 2. – 5. gr. laga nr. 73/1952.

ÞÍ tekur fram að ákvæði 1. mgr. 7. gr. lögheimilislaga gildi um þá einstaklinga sem enn eru í hjúskap en slitið hafa samvistum. Ákvæðinu sé hins vegar ekki ætlað að útiloka að einstaklingar sem fengið hafi lögskilnað geti átt sameiginlegt lögheimili síðar meir. Þá getur ÞÍ þess að í 7. tl. 4. gr. laga um almannaskráningu og þjóðskrá komi fram að almannaskráning byggist m.a. á upplýsingum sem ÞÍ afli með eftirgrennslan eða stofnuninni berst á einn eða annan hátt, eftir því sem þörf krefur og heimildir leyfa.

ÞÍ telur ekki alls kostar rétt að kærandi hafi verið upplýstur um að það myndi duga honum að koma með yfirlýsingu frá einstaklingi um lögheimilisskráningu fyrir umrætt tímabil. Hins vegar hafi kærandi fengið þær leiðbeiningar að slíkar yfirlýsingar gætu almennt séð komið til álita við heildarmat gagna við ákvarðanatöku Þ.Í., þ.e. sem hluti af öðrum gögnum. Leiðbeiningar ÞÍ til kæranda hafi verið í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar. Sé hvert mál skoðað sérstaklega af hálfu ÞÍ og afgreitt með hliðsjón af heildarmati á atvikum hverju sinni. Þau gögn sem kærandi hafi komið á framfæri við ÞÍ, þ.e. einhliða yfirlýsing án nokkurra annarra gagna, séu að mati ÞÍ ekki nægjanleg svo unnt sé að leiðrétta lögheimilisskráningu kæranda fyrir umrætt tímabil. Öll gögn sem ÞÍ hafi undir höndum bendi þvert á móti til þess að kærandi hafi verið búsettur að Heimilisfang D, Reykjavík. Þá telur ÞÍ að í úrskurði ráðuneytisins sá aðeins verið að vísa til þeirrar meginreglu að stjórnsýslulaga að fjalla þurfi um mál á tveimur stjórnsýslustigum í þeim tilvikum þegar ákvörðun er kæranleg til æðra stjórnvalds. Ekki sé um það að ræða að tekin hafi verið afstaða til umræddra gagna.

ÞÍ hafnar því að andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur. Hafi kæranda verið veitt umtalsvert svigrúm til að bregðast við þeim bréfum sem honum bárust. Þá hafi kæranda ítrekað verið leiðbeint um að koma gögnum til ÞÍ sem sýnt geti fram á hvernig lögheimilisskráningu hans hafi verið háttað. Hafi ráðuneytið staðfest í úrskurði sínum að rannsóknarskylda ÞÍ hafi verið uppfyllt sem og andmælaréttur kæranda. Telur ÞÍ að málið hafi verið rannsakað til hlítar. M.a. hafi verið kallað eftir aðstoð lögreglu sem athugað hafi hvar kærandi kynni að hafa fasta búsetu á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Heimilisfang B, Heimilisfang D og Heimilisfang E. Einungis að Heimilisfang D hafi kærandi fundist fyrir en íbúar á hinum stöðunum hafi ekki kannast við að kærandi væri þar búsettur eða hefði verið það. Þau gögn sem borist hafi ÞÍ frá kæranda hafi ávallt verið tekin fyrir og metið hvort þau væru fullnægjandi til að breyta skráningu kæranda. Hafi það m.a. verið gert þegar rafmagnsreikningar bárust fyrir Heimilisfang E og telur ÞÍ að gætt hafi verið meðalhófs í hvívetna.

 

VI.       Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 30. janúar 2018 um að synja beiðni kæranda um afturvirka lögheimilisskráningu frá 26. febrúar 2015. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Samkvæmt 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962 annast Þjóðskrá Íslands almannaskráningu samkvæmt lögunum. Er meginmarkmiðið með almannaskráningu samkvæmt lögunum að skráning á hverjum tíma sé rétt og lögum samkvæmt. Byggist almannaskráning á þeim gögnum sem talin eru upp í 4. gr. laganna. Samkvæmt lögunum er það eitt af hlutverkum Þjóðskrár Íslands að sjá til þess að lögheimili einstaklinga séu rétt skráð samkvæmt þágildandi lögum um lögheimili nr. 21/1990, en um mál þetta fer eftir þeim lögum þar sem þau voru í gildi er hin kærða ákvörðun var tekin. Af framangreindu leiðir að stofnunin getur að eigin frumkvæði hafið athugun á því hvort lögheimili tiltekinna einstaklinga sé skráð í þjóðskrá í samræmi við ákvæði lögheimilislaga nr. 21/1990.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Samkvæmt 10. gr. lögheimilislaga ber einstaklingum að tilkynna breytingar á lögheimili til Þjóðskrár Íslands, sbr. 2. – 5. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta.

Líkt og rakið var hér að framan á mál þetta sér nokkurn aðdraganda, en upphaf þess má rekja til tilkynningar frá TR sem barst ÞÍ þann 25. febrúar 2015. Í kjölfar þess hóf ÞÍ á grundvelli eftirlitshlutverks stofnunarinnar að kanna hvort lögheimili kæranda væri rétt skráð. Með ákvörðun ÞÍ þann 20. janúar 2017 var lögheimili kæranda skráð að Heimilisfangi D frá og með 26. febrúar 2015. Var sú ákvörðun ekki kærð til ráðuneytisins. Með ákvörðun ÞÍ þann 21. mars 2017 féllst stofnunin hins vegar á að skrá lögheimili kæranda að Heimilisfang E frá og með 9. nóvember 2016. Hins vegar féllst ÞÍ ekki á að skrá lögheimili kæranda afturvirkt á Heimilisfang A og Heimilisfang B frá 26. febrúar 2015 til 9. nóvember 2016. Var sú ákvörðun kærð til ráðuneytisins sem vísaði málinu til nýrrar meðferðar hjá ÞÍ með úrskurði þann 29. desember 2017. Var ástæða þess sú að ný gögn hefðu borist við meðferð kærumálsins sem nauðsynlegt væri að ÞÍ legði mat á. Var það niðurstaða ÞÍ að hin nýju gögn breyttu í engu fyrri afstöðu stofnunarinnar og er það hin kærða ákvörðun.

Líkt og fram hefur komið byggðist fyrri ákvörðun ÞÍ á því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum teldi stofnunin ljóst að lögheimili kæranda hafi verið að Heimilisfang D á tilgreindu tímabili. Við meðferð þess máls kom fram að kærandi gæti freistað þess að fá lögheimilisskráningunni breytt ef hann gæti sýnt fram á búsetu sína fyrir tímabilið 26. febrúar 2015 til og með 8. nóvember 2016. Í því sambandi var kæranda m.a. bent á að hann gæti máli sínu til stuðnings lagt fram yfirlýsingu frá vini hans sem hann kvaðst hafa verið búsettur hjá. Við meðferð fyrra kærumáls hjá ráðuneytinu lagði kærandi fram staðfestingu frá Y þar sem hún staðfesti að kærandi hafi verið búsettur á heimili hennar að Heimilisfangi A frá 10. apríl 2015 til 6. mars 2016 og síðar að Heimilisfangi B frá þeim tíma til 9. nóvember 2016.

Það er mat ráðuneytisins að ekki verði framhjá því litið að við meðferð máls kæranda hjá ÞÍ hafi honum verið leiðbeint um þau gögn sem mögulegt væri að leggja fram máli hans til stuðnings. Í því ljósi  er það mat ráðuneytisins að þrátt fyrir það að fallast megi á það með ÞÍ að afgreiða beri hvert mál með tilliti til heildarmats á atvikum og gögnum hverju sinni, verði eins og máli þessu er háttað að taka tillit þeirrar yfirlýsingar sem vísað hefur verið til hér að framan varðandi lögheimilisskráningu kæranda, enda hafi efni þeirrar yfirlýsingar ekki verið hnekkt með óyggjandi hætti. Að því virtu verði því ekki slegið föstu á grundvelli fyrirliggjandi gagna að lögheimili kæranda hafi sannanlega verið að Heimilisfang D á öllu hinu tilgreinda tímabili, líkt og ákvörðun ÞÍ byggist á. Í því ljósi er það mat ráðuneytisins að ekki verði hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Er jafnframt lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að skrá lögheimili kæranda að Heimilisfangi A frá 10. apríl 2015 til 6. mars 2016 og frá þeim tíma að Heimilisfangi B til 9. nóvember 2016, með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið. Hins vegar er ekki tilefni til að hnekkja ákvörðun ÞÍ varðandi tímabilið frá 26. febrúar 2015 til 10. apríl 2015, með vísan til fyrirliggjandi gagna.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.

Lagt er fyrir Þjóðskrá Íslands að skrá lögheimili X að Heimilisfang A frá 10. apríl 2015 til 6. mars 2016 og frá þeim tíma að Heimilisfang B til 9. nóvember 2016.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta