Ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna innflutningi á fjórum vörutegundum sem komu til landsins í fimm sendingum staðfest.
Stjórnsýslukæra
Með erindi, dags. 2. mars 2021, kærði [x] lögmaður, f.h. [Y ehf.], ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 3. febrúar 2021, um að hafna innflutningi á fjórum vörutegundum sem komu til landsins í fimm sendingum.
Krafa
Þess er krafist að ákvörðun Matvælastofnunar verði felld úr gildi.
Málsatvik
Kærandi hugðist flytja til landsins eftirfarandi fjórar vörutegundir: [B] Battered Processed Cheese Stick, [B] Export Battered Mozzarella Sticks, Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites og [B] Cheddar Cheese Poppers. Í tölvupóstsamskiptum fulltrúa Matvælastofnunar og kæranda kemur fram að stofnunin líti svo á að um sé að ræða samsettar vörur sem falla undir landamæraeftirlit samkvæmt reglugerð nr. 1440/2020, um skrár yfir samsettar afurðir sem skulu sæta eftirliti á landamæraeftirlitsstöðvum sem sett var með hliðsjón af ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2007/275, með síðari breytingum.
Hinn 20. nóvember 2020 barst kæranda bréf frá Matvælastofnun þar sem fram kemur að fyrirhugað væri að synja um innflutning á fimm sendingum á umræddum fjórum vörutegundum. Kæranda var veittur andmælafrestur og bárust andmæli 25. nóvember 2020. Þar kemur fram að kærandi telur að um sé að ræða samsettar vörur sem falli undir undanþágu frá opinberu eftirliti samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020. Í svarbréfi Matvælastofnunar, dags. 26. nóvember 2020, kemur fram að stofnunin telur að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram nægi ekki til þess að unnt sé að falla frá fyrirhugaðri ákvörðun. Umræddar vörur standist ekki kröfur 6. gr. reglugerðarinnar. Kæranda var þá veittur frestur til andmæla að nýju og bárust þau þann 8. desember 2020. Í erindi kæranda kemur fram að samkvæmt i. lið 6. gr. reglugerðarinnar væri það gert að skilyrði að vara væri stöðug við stofuhita eða það sé öruggt að varan sé fullelduð við framleiðslu eða meðhöndluð með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt. Að mati kæranda nægðu fyrirliggjandi upplýsingar um hitameðhöndlun varanna til þess að vörurnar teldust falla undir undanþágu frá landamæraeftirliti samkvæmt 6. gr. reglugerð nr. 1440/2020.
Með bréfi, dags. 7. janúar 2021, barst kæranda fyrirhuguð synjun Matvælastofnunar á innflutningi á umræddum vörum. Stofnunin vísaði til þess að andmæli kæranda hafi verið tekin til skoðunar og málið hafi verið rannsakað enn frekar. Að mati stofnunarinnar teldust vörurnar [B] Battered Processed Cheese Stick, [B] Export Battered Mozzarella Sticks og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites mjólkurafurðir en varan [B] Cheddar Cheese Poppers félli undir skilgreiningu samsettra afurða samkvæmt ákvæði reglugerðar nr. 1440/2020. Fyrirhuguð ákvörðun stofnunarinnar hvað varðar mjólkurafurðirnar byggði á því að þær uppfylltu ekki innflutningsskilyrði fyrir mjólkurvörur samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/625 og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 605/2010 þar sem frumrit af heilbrigðisvottorði vantaði, auk þess sem afurðirnar væru ekki auðkenndar með þeim hætti sem kveðið væri á um í löggjöf um matvæli, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 sem og reglugerð (ESB) nr. 2017/625. Fyrirhuguð ákvörðun hvað varðar samsettu vöruna, þ.e. [B] Cheddar Cheese Poppers, byggði á því að með vörunni hefði ekki fylgt heilbrigðisvottorð. Að mati stofnunarinnar uppfyllti varan ekki skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 um að halda stöðugleika við geymslu við stofuhita. Þá hafi varan ekki uppfyllt skilyrði sömu greinar um að varan sé fullelduð við framleiðslu eða meðhöndluð með hitun, þannig að allt efnið hafi hitnað í gegn þannig að efnið hafi tekið eðlisbreytingum.
Kæranda var veittur frestur til að skila inn andmælum vegna fyrirhugaðar synjunar sem bárust þann 22. janúar 2021. Andmæli kæranda byggðu á því að vörurnar [B] Export Battered Mozzarella sticks, [B] Battered Processed Cheese Stick og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites væru samsettar afurðir í skilningi reglugerðar nr. 1440/2020. Afurðirnar uppfylli einnig öll skilyrði fyrir undanþágu frá opinberu eftirliti samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar. Fram kemur að kærandi telji ágreiningslaust að varan [B] Cheddar Cheese Poppers sé samsett afurð og heimila ætti innflutning þeirrar vöru óháð niðurstöðu um hvort aðrar vörutegundir væru samsettar afurðir.
Með bréfi, dags. 3. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt um ákvörðun Matvælastofnunar varðandi synjun innflutnings á dýraafurðum frá þriðja ríki. Ákvörðunin byggði annars vegar á því að þær afurðir sem stofnunin teldi til mjólkurafurða, [B] Export Battered Mozzarella sticks, [B] Battered Processed Cheese Stick og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites, uppfylltu ekki innflutningsskilyrði fyrir mjólkurvörur samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 2017/625 og reglugerð (ESB) nr. 605/2010. Vísaði stofnunin til þess að henni sé óheimilt að heimila innflutning á mjólkurafurðum án meðfylgjandi frumrits heilbrigðisvottorðs og viðeigandi auðkenningu sem kveðið er á um í löggjöf um matvæli sem og í reglugerð (ESB) 853/2004. Hvað varðar vöruna [B] Cheddar Cheese Poppers, sem stofnunin mat sem samsetta vöru, kemur fram að Matvælastofnun telur að undir helmingur af innihaldi vörunnar sé mjólkurafurð og uppfylli hún því ekki skilyrði að hún haldi stöðugleika við geymslu við umhverfishita. Þá sé varan ekki fullelduð við framleiðslu, né hafi hún verið meðhöndluð með hitun, þannig að allt efnið hafi hitnað í gegn þannig að ostur hafi tekið eðlisbreytingum. Synjun á innflutningi vörunnar byggist á því að varan sæti innflutningseftirliti samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 og á því að vörunni fylgdi ekki heilbrigðisvottorð sem kveðið er á um í 5. gr. reglugerðarinnar.
Með bréfi, dags. 2. mars 2021, var ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 3. febrúar 2021, um höfnun innflutnings á dýraafurðum frá þriðja ríki kærð til ráðuneytisins. Hinn 20. apríl óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið. Umsögn Matvælastofnunar barst 13. maí 2021. Kæranda var gefinn kostur á að veita andmæli vegna umsagnarinnar og bárust andmæli þann 28. maí 2021. Hinn 2. júní óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun þar til úrskurður í málinu lægi fyrir. Ráðuneytið framlengdi frest til förgunar umræddra vara með bréfi, dags. 9. júlí 2021. Hinn 6. júlí óskaði ráðuneytið eftir viðbótargögnum frá Matvælastofnun vegna málsins sem bárust 30. júní 2021.
Sjónarmið kæranda
Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun sé efnislega röng og að allar þær vörur sem málið varðar teljist til samsettra vara í skilningi a. liðar 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020. Jafnframt telur kærandi að vörurnar hafi allar fengið fullnægjandi hitameðhöndlun samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar og séu því undanþegnar opinberu eftirliti við innflutning, sbr. 4. gr. sömu reglugerðar. Vísar kærandi til þess að styðjast skuli við textaskýringu a. liðar 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 þar sem fram kemur að samsettar afurðir séu matvæli, sem eru ætluð til manneldis og innihalda bæði unnar afurðir úr dýraríkinu og jurtaríkinu, þ.m.t. afurðir þar sem vinnsla frumframleiðsluvöru er óaðskiljanlegur hluti af framleiðslu lokaafurðarinnar. Allar vörurnar sem Matvælastofnun telji til mjólkurafurða séu matvæli sem ætlaðar séu til manneldis og innihalda bæði unnar afurðir úr dýraríkinu og jurtaríkinu. Með vísan til þess falli þær undir a. lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 og sé sú túlkun til samræmis við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar byggi á því að styðjast skuli við leiðbeiningar Evrópusambandsins sem kærandi telur að geti ekki leitt til þess að hverfa skuli frá túlkun ákvæðisins samkvæmt orðanna hljóðan. Um sé að ræða leiðbeiningareglur sem hafi ekki lagagildi hér á landi. Auk þess bendir kærandi á að Matvælastofnun hafi vísað til lista yfir ákveðnar vörur í framangreindum leiðbeiningum en þar megi m.a. finna hitameðhöndlaðan ost sem sé hjúpaður brauðmylsnu. Í skjalinu sé slík vara flokkuð sem mjólkurafurð þar sem brauðmylsna sem bætt hafi verið við hafi verið til þess fallin að ná fram sérstökum eiginleikum ostsins. Kærandi bendir á að framangreindur listi hafi eingöngu að geyma ljósmynd af vörunni sem Matvælastofnun noti til samanburðar við þær vörur sem mál þetta snúist um en engar upplýsingar séu um innihaldsefni hennar, hlutfall innihaldsefna eða framleiðsluferli. Kærandi hafnar því að umræddar leiðbeiningareglur og listi sem þar sé að finna geti verið grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar. Kærandi bendir jafnframt á að undir helmingur af innihaldi allra varanna sé mjólkurafurð en Matvælastofnun vísi til þess viðmiðs varðandi vöruna [B] Cheddar Cheese Poppers að hún sé samsett vara en ekki mjólkurafurð. Kærandi telur að ekki sé tilefni til þess að byggja á öðrum sjónarmiðum hvað varðar hinar þrjár vörurnar. Auk þess styðji tollflokkun varanna það sjónarmið að allar vörurnar séu samsett vara.
Kærandi byggir jafnframt á því að allar þær vörur sem mál þetta varðar uppfylli skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 og séu þar með undanþegnar opinberu eftirliti við innflutning. Í i. lið ákvæðisins er kveðið á um samsettar afurðir, þar sem minna en helmingur innihaldsins er einhver önnur unnin afurð, að því tilskildu að slíkar afurðir haldi stöðugleika við geymslu við umhverfishita eða það sé öruggt að þær hafi verið fulleldaðar við framleiðslu eða meðhöndlaðar með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt. Kærandi bendir á að um sé að ræða matskennt ákvæði og sé ekki að finna í ákvæðinu sjálfu leiðbeiningar um það hverskonar meðhöndlun teljist fullnægjandi svo að tiltekin vara teljist vera „fullelduð“ eða „elduð þannig að allt efnið hitni í gegn og hrárri afurð sé eðlisbreytt“. Kærandi byggir á því að framleiðsluferli allra umræddra vara sýni að þær hafi hlotið fullnægjandi hitameðhöndlun samkvæmt ákvæðinu. Vörurnar séu allar hitaðar við háan hita áður en þær séu frystar. Eldunin leiðir til þess að hrárri afurð sé eðlisbreytt og/eða varan teljist fullelduð, í skilningi ákvæðisins.
Við túlkun ákvæðis 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 megi hafa hliðsjón af 3. gr. reglugerðar nr. 831/2014, um gildistöku (ESB) nr. 605/2010, um skilyrði varðandi heilbrigði dýra og manna og varðandi heilbrigðisvottorð fyrir dýr og dýraafurðir vegna innflutnings til Evrópusambandsins á hrámjólk og mjólkurafurðum til manneldis. Í ákvæðinu sé kveðið á um innflutning á mjólkurafurðum frá þriðju ríkjum eða hlutum þeirra. Samkvæmt ákvæðinu skulu aðildarríki heimila innflutning á sendingum af mjólkurafurðum sem hafa hlotið tiltekna hitameðhöndlun og sé þar gert að skilyrði að mjólkurafurðirnar hafi verið gerilsneyddar með einfaldri hitameðhöndlun eða séu framleiddar úr gerilsneyddri hrámjólk sem fengið hefur tiltekna meðhöndlun. Kærandi telur að sé þetta viðmið haft til hliðsjónar sé ljóst að umræddar vörur uppfylli skilyrði um hitameðhöndlun samkvæmt ákvæðinu. Kærandi bendir jafnframt á að í hinni kærðu ákvörðun sé þess hvergi getið hvaða skilyrði Matvælastofnun geri til hitameðhöndlunar varanna svo að skilyrðið teljist uppfyllt heldur sé vísað með almennum hætti til þess að stofnunin telji [B] Cheddar Cheese Poppers ekki hafa fengið hitameðhöndlun sem ákvæðið gerir kröfur um, án nokkurs rökstuðnings þar að lútandi. Að mati kæranda verði stjórnvöld við túlkun á matskenndum ákvæðum líkt og 6. gr. reglugerðarinnar að gæta þess sérstaklega vel að lögmæt og málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar auk þess sem ætla verði stjórnvöldum að hafa meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að leiðarljósi.
Kærandi byggir jafnframt á því að ákvörðun Matvælastofnunar sé ekki til samræmis við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Ákvörðunin byggir einungis á leiðbeiningareglum Evrópusambandsins að því er varðar mat á því hvort þrjár af fjórum umræddum vörum teljist til mjólkurafurða. Kærandi bendir á að umræddar leiðbeiningareglur séu hvorki bindandi né hafi þær gildi að íslenskum lögum. Með vísan til þess verði að líta svo á að hin kærða ákvörðun eigi sér ekki stoð í lögum og því beri að ógilda hana. Hin kærða ákvörðun sé afar íþyngjandi og gera verði ríkar kröfur til þess að fyrir hendi sé skýr og réttur lagagrundvöllur við töku slíkra stjórnvaldsákvarðana. Kærandi telur einnig að Matvælastofnun hafi ekki gætt að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, við töku ákvörðunar í málinu.
Kærandi byggir á því að annmarkar hafi verið á meðferð málsins sem ætti að leiða til ógildingar. Bendir kærandi á að forsendur og niðurstöður Matvælastofnunar fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi tekið miklum breytingum frá því að málsmeðferð hófst og þar til hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Megi ráða af samskiptum kæranda og Matvælastofnunar að stofnunin hafi lagt fram nýjar forsendur fyrir sömu niðurstöðu á meðan á meðferð málsins stóð. Kærandi vísar til þess að Matvælastofnun hafi upphaflega byggt á því að vörurnar teldust allar vera samsettar vörur og að við mat á því hafi verið litið til þess hvort að innihald varanna teldist að lágmarki 50% mjólkurafurð. Síðar þegar kærandi hafði lagt fram innihaldslýsingar varanna hafi Matvælastofnun bent á að vörurnar væru ekki stöðugar við stofuhita og því yrði komist að sömu niðurstöðu um að hafna innflutningi, þrátt fyrir að vörurnar teldust sem samsettar vörur í skilningi reglugerðar nr. 1440/2020. Kærandi hafi þá bent á að Matvælastofnun færi rangt með efni ákvæðisins um hitameðhöndlun og hafi kærandi lagt fram gögn sem sýndu fram á að vörurnar hefðu fengið fullnægjandi hitameðhöndlun. Í tilkynningu Matvælastofnunar, dags. 7. janúar 2021, um fyrirhugaða synjun hafi Matvælastofnun hins vegar byggt ákvörðun sína á þeim forsendum að þrjár tilteknar vörur teldust vera mjólkurafurðir en ein varan teldist samsett vara. Kærandi telur að torvelt hafi verið að ráða á hvaða grundvelli innflutningi var hafnað varðandi þá vöru sem taldist samsett vara. Ekkert hafi komið fram um það á hvaða grundvelli innflutningi hafi verið hafnað á framangreindri vöru en slíkar röksemdir hafi fyrst komið fram í ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 3. febrúar 2021, n.t.t. að varan hefði ekki fullnægjandi hitameðhöndlun. Sú niðurstaða hafi ekki verið rökstudd í ákvörðun Matvælastofnunar. Með vísan til framangreinds telur kærandi að hann hafi ekki notið raunverulegs andmælaréttar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til framangreinda annmarka á málsmeðferð telur kærandi einnig að málsmeðferð umrædds máls hafi farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. laganna.
Sjónarmið Matvælastofnunar
Matvælastofnun byggir á því að ekki sé unnt að fallast á að allar fjórar vörutegundirnar séu samsettar vörur í skilningi regluverksins. Að mati stofnunarinnar teljist vörurnar [B] Export Battered Mozzarella Sticks, [B] Battered Procesed Cheese Stick og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites til mjólkurafurða. Matvælastofnun bendir á að samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 þurfi í ákveðnum tilvikum að fara fram mat til að ákvarða hvort vörur falli undir reglugerðina enda geti orðalag ákvæðisins ekki eitt og sér kveðið á um slíkt í öllum tilvikum. Auk þess bendir Matvælastofnun á að matvæli teljist ekki til samsettra vara við það eitt að afurðir úr jurtaríkinu séu notaðar við vinnslu dýraafurða, þ.e. í þeim tilgangi að gefa afurðunum sérstaka eiginleika eða þar sem afurðir úr jurtaríkinu séu nauðsynlegar við framleiðsluna. Með vísan til þess sé ekki unnt að beita einfaldri textaskýringu við túlkun enda myndi slíkt leiða til þess að fjölmörg matvæli sem unnin séu bæði úr dýraríkinu og jurtaríkinu myndu falla utan gildissviðs reglugerðar (EB) nr. 853/2004. Matvælastofnun nefnir dæmi á borð við jógúrt eða skyr þar sem ávöxtum er bætt við eða pylsur þar sem jurtum og bragðefnum er bætt við.
Afurðirnar [B] Export Battered Mozzarella Sticks og [B] Battered Processed Cheese Stick séu ostastangir/stykki sem húpaðar séu brauðhjúp sem breyti ekki einkennum afurðarinnar. Vísar Matvælastofnun einnig til þess að á heimasíðu framleiðandans séu umræddar vörur skilgreindar sem mjólkurafurðir. Afurðin Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites sé einnig ostaafurð en um sé að ræða tvær tegundir osta sem bætt hafi verið við hráefnum úr jurtaríkinu (paprikum) án þess að slíkt breyti einkennum vörunnar. Hráefnunum og brauðmylsnunni sé bætt við til að ná fram sérstökum eiginleikum varðandi bragð vörunnar og áferð.
Matvælastofnun vísar til leiðbeininga sem gefnar hafa verið út til þess að ná fram samræmi við túlkun reglna um afurðir sem fluttar eru inn á sameiginlega markað Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Hafi Matvælastofnun haft umræddar leiðbeiningar til hliðsjónar við ákvörðun sína þann 3. febrúar 2021. Mikilvægt sé að hafa þær til hliðsjónar í heild sinni en varðandi hjúpaðan ost segi í leiðbeiningunum: „Paneer Poppers, frozen ingredients: cheese coated with bread crumbs Paneer is fresh cheese similar to curd, but final product has been cooked.“ Vísar Matvælastofnun einnig til skjals Evrópusambandsins sem gefið var út vegna skilyrða varðandi innflutning á samsettum matvælum innan EES.
Matvælastofnun vísar til þess að við mat á því hvort viðkomandi vara falli undir regluverk varðandi mjólkurafurðir eða samsettar vörur þurfi að fara fram heildarmat. Að mati Matvælastofnunar sé varan [B] Cheddar Cheese Poppers samsett vara þar sem mjólkurafurðin sé einungis 19,55% af vörunni. Hinar þrjár vörutegundirnar séu að mati Matvælastofnunar ostar þar sem mjólkurafurðin sé 49,15% af Mozzarella Cheese í [B] Export Battered Mozzarella sticks, 43% af Mozzarella Cheese í [B] Battered Processed Cheese Stick og í Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites sé 15,5% af Monterey Jack Cheese og 12% af Cheddar Cheese. Þessar þrjár vörur séu í grunninn ostar (mjólkurafurðir) þar sem jurtaafurðir hafi verið notaðar við framleiðslu ostsins til að ná fram sérstökum eiginleika varðandi bragð vörunnar og áferð, þ.e. osturinn sé hjúpaður brauðmylsnu þar sem bætt hafi verið við bragðefnum og aukaefnum við framleiðsluna. Sé við framleiðslu vörunnar Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites bætt við framleiðslu ostsins hráefni úr jurtaríkinu, þ.e. paprikur í sama tilgangi.
Að mati Matvælastofnunar liggur einnig fyrir að vörurnar haldi ekki stöðugleika við geymslu við umhverfishita og því þurfi að liggja fyrir að öruggt sé að þær hafi verið fulleldaðar við framleiðslu eða meðhöndlaðar með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt. Jafnvel þó svo að komist yrði að þeirri niðurstöðu að [B] Export Battered Mozzarella Sticks, [B] Battered Processed Cheese Stick og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites væru samsettar vörur þá sé ekki unnt að heimila innflutning á þeim nema að uppfylltu skilyrði um heilbrigðisvottorð þar sem vörurnar uppfylli ekki skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020. Vörutegundirnar séu ekki fulleldaðar og hitunaraðferð sem lýst sé á vörublaði varanna tryggi ekki að allt efnið hitni í gegn þannig að allri hrárri afurðinni sé eðlisbreytt.
Matvælastofnun bendir á að ákvörðun stofnunarinnar byggi á þeim ákvæðum laga og reglugerða sem vísað sé til í ákvörðun stofnunarinnar frá 3. febrúar 2021. Stofnunin hafi komist að niðurstöðu eftir að hafa rannsakað málið, þ.m.t. fyrirliggjandi gögn frá kæranda og haft til hliðsjónar fyrrnefndar leiðbeiningar Evrópusambandsins. Matvælastofnun hafnar því að ákvörðun stofnunarinnar byggi með beinum hætti og einvörðungu á framangreindum leiðbeiningum. Ákvörðun stofnunarinnar byggi á sjálfstæðu mati á viðkomandi vörum, fyrirliggjandi gögnum og gildandi réttarheimildum varðandi innflutning dýraafurða til landsins.
Hvað meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga varðar vísar Matvælastofnun til þess að samkvæmt 27. gr. b. laga nr. 93/1995, um matvæli, skuli allur innflutningur búfjárafurða frá ríkjum utan EES fara um landamærastöðvar sem stofnunin stafrækir. Tilkynna skuli um slíkan innflutning með þeim hætti sem áskilið sé í reglugerðum þar að lútandi. Á landamærastöðvum skuli Matvælastofnun framkvæma eftirlit á skjölum og bera þau saman við innfluttar vörur til að sannreyna uppruna og ákvörðunarstað. Um eftirlitið sé kveðið á með nánari hætti í löggjöf Evrópusambandsins og tekin hafi verið upp í EES-samninginn, þ.m.t. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 og heilbrigðis- og eftirlitsreglugerða (EB) nr. 852/2004, 853/2004 og reglugerðar (ESB) nr. 625/2017. Tilgangur með allri innflutningslöggjöf sé að tryggja að innflutt matvæli uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til framleiðslu og meðhöndlunar matvæla á EES. Ákvörðun Matvælastofnunar lúti að því að tryggja framfylgni við samræmda innflutningslöggjöf EES og sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi, sem og leiðbeiningar sem ætlað sé að tryggja samræmi við innflutningseftirlit. Niðurstaða stofnunarinnar og viðhlítandi úrræði þegar innflutningsskilyrði séu ekki uppfyllt séu lögbundin og ekki sé heimild fyrir Matvælastofnun til að veita undanþágu varðandi hina kærðu ákvörðun.
Matvælastofnun telur að ljóst hafi verið við meðferð málsins að hin samsetta vara uppfyllti ekki skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 og þess vegna hafi sjónarmið þess efnis ekki komið til álita og ekki hafi verið vikið að þeim fyrr en í svörum stofnunarinnar við andmælabréfi kæranda frá 22. janúar 2020. Jafnframt vísar Matvælastofnun til þess að samkvæmt 8. gr. b. laga nr. 93/1995 beri matvælafyrirtæki ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða sem gildi um starfsemina, þ.m.t. að innflutningur matvæla úr dýraríkinu og eftir atvikum samsettum vörum, sé tilkynntur og skráður með 24 klst. fyrirvara, að afurðir úr dýraríkinu séu auðkenndar, sem og innflutningum fylgi frumrit heilbrigðisvottorðs. Framangreind skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu.
Sjónarmið kæranda við umsögn Matvælastofnunar
Kærandi telur ekkert fram komið í umsögn Matvælastofnunar sem færi rök fyrir því hvers vegna umræddar vörur teljist ekki samsettar vörur í samræmi við orðalag reglugerðarinnar. Kærandi mótmælir skilgreiningu Matvælastofnunar á hugtakinu fullelduð í skilningi 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020. Kærandi telur það ljóst af fyrirliggjandi gögnum að vörurnar séu fulleldaðar í skilningi ákvæðisins þar sem vörurnar séu allar hitaðar við háan hita áður en þær eru frystar. Telur kærandi að umræddar vörur uppfylli allar þær kröfur sem gerðar séu í 6. gr. reglugerðarinnar og þar með undanþegnar opinberu eftirliti við innflutning.
Frekari upplýsingar frá Matvælastofnun
Að beiðni ráðuneytisins sendi Matvælastofnun frekari rökstuðning og gögn sem liggja að baki mati stofnunarinnar á því að vörurnar [B] Export Battered Mozzarella Sticks, [B] Battered Processed Cheese Stick og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites teljist mjólkurafurðir. Einnig óskaði ráðuneytið eftir rökstuðningi fyrir mati stofnunarinnar á því að vara geti ekki talist fullelduð ef að neytandi þarf að hita hana upp áður en hún er tilbúin til neyslu og þau gögn sem liggja að baki mati stofnunarinnar á því hvenær vara teljist fullelduð.
Matvælastofnun vísar til þess að þau gögn sem liggja að baki ákvörðunar stofnunarinnar um að afurðirnar [B] Export Battered Mozzarella Sticks, [B] Battered Processed Cheese Stick og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites séu mjólkurafurðir séu innihaldslýsingar á vörunum og þær upplýsingar sem finna má um vörurnar á heimasíðu framleiðandans. Þær vörur sem um ræðir séu ostastangir/stykki sem hjúpaðar séu brauðhjúp, auk krydda og aukaefna, sem breyti ekki einkennum afurðarinnar. Matvælastofnun vísar til þess að á heimasíðu framleiðandans komi eftirfarandi fram um vörurnar: „mozzarella cheese coated with our unique batter for a crispy, delicious texture“ og „Crispy batter surrounds our delicious mozzarella cheese stick cooked to a wonderful golden color, prefried, quick frozen. Quick and easy to prepare in fryer or oven.“ Í grunninn séu vörurnar ostar (mjólkurafurð) þar sem jurtaafurðir hafi verið notaðar við framleiðslu til að ná fram sérstökum eiginleika varðandi bragð vörunnar og áferð.
Matvælastofnun vísar einnig til Q&A skjals sem gefið hefur verið út af Evrópusambandinu þar sem fjallað um skilyrði varðandi innflutning á samsettum matvælum innan EES. Í 1.4. gr. skjalsins sé skilgreint hvað samsett vara sé en kemur þar eftirfarandi fram: „The addition of a product of plant origin during the processing defined in Article 2(1)(m) of Regulation (EC) No 852/2004 of an animal product does not automatically mean that the resulting food falls within the definition of composite products. If such addition does not modify the main characteristics of the final product, the latter is not a composite product. It can be to add special characteristics or necessary for the manufacture of the product of animal origin (Article 2(1)(o) of Regulation (EC) No 852/2004). For instance, a cheese to which herbs are added or a yogurt to which fruit is added remain dairy products. Similarly, canned tuna to which vegetable oil is added remains a fishery product. These foodstuffs must be produced in approved establishments in accordance with Regulation (EC) No 853/2004.“
Matvælastofnun bendir á að ákvörðun um að umræddar vörur uppfylltu ekki skilyrði i. liðar 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 hafi verið byggð á fyrirliggjandi vörublöðum og geti stofnunin ekki fallist á að eldunaraðferðin „par fried“ teljist sem „fullelduð við framleiðslu eða meðhöndluð með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt“. Eldunin „par fried“ merki „partially“ eldað þar sem matvæli sé einungis eldað að hluta einskonar foreldun þannig að hægt sé að fullelda viðkomandi matvæli síðar. Tilgangur með foreldun sé m.a. að flýta fyrir framleiðslu matvæla, þannig að ekki þurfi að koma til fulleldunar heldur nægir snögg eldun áður en unnt sé að neyta vörunnar. Neytandinn eigi eftir að elda vöruna áður en hún sé tilbúin til neyslu. Matvælastofnun skilgreini fulleldun með þeim hætti að neytandi þurfi ekki að klára eldun fyrir neyslu og ljóst sé að fyrrnefnd eldunaraðferð (hitunaraðferð) tryggi ekki að allt efnið hitni í gegn þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt, samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020. Matvælastofnun telur að ákvæðið sé skýrt varðandi þær kröfur sem gerðar séu til viðkomandi vöru til að hún falli undir a. lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.
Matvælastofnun vísar til þess að það sé á ábyrgð framleiðanda og/eða ábyrgðaraðila matvæla að setja fram leiðbeiningar um hvaða vörur teljist tilbúin matvæli. Þannig segi í 8. gr. a laga nr. 93/1995, um matvæli, að matvælafyrirtæki megi ekki markaðssetja matvæli sem ekki séu örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæft til neyslu. Við ákvörðun hvort matvæli séu örugg skuli framleiðandi hafa hliðsjón í fyrsta lagi af því hvernig neytendur noti matvælin venjulega á hverju stigi framleiðslu og dreifingar og í öðru lagi af upplýsingum sem neytendum séu veittar. Sé það þannig á ábyrgð matvælafyrirtækis að ákveða hvernig það markaðssetji matvæli sín. Ef matvælafyrirtæki markaðssetji matvæli sem „tilbúin matvæli“, sbr. skilgreining í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2073/2005 um örverufræðilegar viðmiðanir fyrir matvæli sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 135/2010, hafi það ábyrgst að matvæli séu ætluð „beint til manneldis án þess að þörf sé á eldun eða annarri vinnslu sem gagnist til að eyða eða draga úr örverum, sem gefi tilefni til áhyggna, þannig að viðunandi teljist“. Matvælafyrirtæki þurfi að tryggja öryggi matvæla sinna m.a. miðað við hvernig staðið sé að markaðssetningu og hvaða upplýsingum sé komið á framfæri við notanda vörunnar. Það sé gert með því að meta eðli vörunnar, hvaða örverur þurfi að taka tillit til og hvernig varan sé geymd, hvernig henni verði neytt o.s.frv. Með markaðssetningu umræddra matvæla og þeim upplýsingum sem framleiðandinn hafi komið á framfæri hafi fyrirtækið sjálft ákveðið hvernig eigi að neyta vörunnar, þ.e. að vöruna þurfi að elda áður en henni sé neytt. Með vísan til þess verði ekki annað ráðið en að varan sé ekki fullelduð.
Í vörublöðum fyrir vörunum komi fram að eldunaraðferðin sé eftirfaradi: „Finished product is par fried before freezing at 376°CF for 25-35 seconds“ fyrir allar vörur nema Cheddar Cheese Poppers. Í vörublaði fyrir þá vöru komi ekkert fram um lokahitameðhöndlun vörunnar. Hins vegar megi sjá lýsingu á heimasíðu framleiðanda að varan Cheddar Cheese Poppers þarfnist eldunar vegna matvælaöryggis og gæða. Um eldunarleiðbeiningar segir á heimasíðu framleiðandans: „Product must be cooked for food safety and quality. Since appliances vary, these cooking times are approximate. For best results cook from frozen state using recommended time and temperature. Caution: Ice crystals on frozen food can cause spattering when added to hot oil. Add product carefully. Not recommended for cooking in a microwave oven. Deep Fry frozen product at 350°F (177°C) for approximately 3 minutes. Shake basket after 30 seconds. Caution: Product will be very hot!“ Hið sama eigi við um aðrar vörur sem mál þetta varðar, þ.e. fram komi að vörurnar „must be cooked for food safety and quality“.
Forsendur og niðurstaða
Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar um synjun á innflutningi kæranda á fjórum vörutegundum dýraafurða frá þriðja ríki.
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort umræddar fjórar vörutegundir uppfylli skilyrði um innflutning matvæla og hvort um sé að ræða mjólkurafurðir eða hvort vörurnar teljist sem samsett vara samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020. Kærandi byggir á því að allar þær vörur sem mál þetta varðar séu samsettar afurðir og uppfylli einnig skilyrði undanþágu frá opinberu eftirliti samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 þar sem framleiðsluferli allra varanna sýni að þær hafi hlotið fullnægjandi hitameðhöndlun samkvæmt ákvæðinu. Vörurnar séu allar hitaðar við háan hita áður en þær séu frystar. Eldunin leiði til þess að hrárri afurð sé eðlisbreytt og/eða varan teljist fullelduð í skilningi ákvæðisins. Matvælastofnun byggir á því að vörurnar [B] Export Battered Mozzarella Sticks, [B] Battered Processed Cheese Stick og Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites uppfylli ekki skilyrði samsettrar afurðar heldur teljist sem mjólkurafurðir. Þá byggir stofnunin á því að varan [B] Cheddar Cheese Poppers falli undir skilgreiningu samsettrar afurðar en að varan uppfylli ekki skilyrði fyrir undanþágu frá opinberu eftirliti samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 en aðferðin „par fried“ sé eins konar foreldun sem ekki geti talist sem fulleldun í skilningi framangreinds ákvæðis. Í ljósi þess að neytandinn eigi eftir að elda vöruna áður en hún sé tilbúin til neyslu geti hún ekki talist fullelduð.
Í lögum nr. 93/1995, um matvæli, er kveðið á um innflutning og dreifingu matvæla. Samkvæmt 1. gr. laganna er tilgangur þeirra sá að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Samkvæmt 27. gr. b. laganna skal allur innflutningur búfjárafurða frá ríkjum utan EES fara um landamærastöðvar sem Matvælastofnun starfrækir. Tilkynna skal um slíkan innflutning með þeim hætti sem áskilið er í reglugerðum þar að lútandi. Á landamærastöðvum skal Matvælastofnun framkvæma eftirlit á skjölum og bera þau saman við innfluttar vörur til að sannreyna uppruna og ákvörðunarstað. Jafnframt er kveðið á um eftirlitið í löggjöf Evrópusambandsins sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, þ.m.t. matvælareglugerða (EB) nr. 178/2002 og heilbrigðis- og eftirlitsreglugerða (EB) nr. 852/2004, nr. 853/2004 og reglugerð Evrópuráðsins og þingsins (EB) nr. 2017/625. Samkvæmt 8. gr. b. laga nr. 93/1995 ber matvælafyrirtæki ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða sem gilda um starfsemina á hverjum tíma. Tilgangur innflutningslöggjafar er að tryggja að innflutt matvæli uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til framleiðslu og meðhöndlunar matvæla innan EES. Samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 605/2010, um skilyrði varðandi heilbrigði dýra og manna og varðandi heilbrigðisvottorð fyrir dýr og dýraafurðir vegna flutnings til Evrópusambandsins á hrámjólk og mjólkurafurðum til manneldis sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 831/2014, skal sendingum sem innihalda mjólkurafurðir fylgja heilbrigðisvottorð sem útbúið er í samræmi við fyrirmæli reglugerðarinnar. Um hollustuhætti matvæla gilda m.a. heilbrigðis- og eftirlitsreglugerða (EB) nr. 852/2004 og nr. 853/2004 en voru þær innleiddar með reglugerðum nr. 103/2010 og 104/2010. Reglugerð (EB) nr. 852/2004 nær til allra matvæla en reglugerð (EB) nr. 853/2004 kemur til viðbótar varðandi matvæli úr dýraríkinu og er þar m.a. kveðið á um skilyrði á innflutningi dýraafurða til aðildarríkja EES-samningsins. Almennt nær reglugerð (EB) nr. 853/2004 ekki til samsettra matvæla, nema slíkt sé sérstaklega tiltekið í reglugerðinni. Við vinnslu matvæla þar sem bæði eru notuð hráefni úr dýra- og jurtaríkinu þarf oft að meta hvort umrædd afurð sé dýraafurð samkvæmt reglugerð (EB) nr. 853/2004 eða hvort um sé að ræða samsett matvæli sem fellur á eingöngu undir reglugerð (EB) nr. 852/2004. Við það mat hefur verið horft til þess hvort afurðir þar sem vinnsla frumframleiðsluvöru sé óaðskiljanlegur hluti af framleiðslu lokaafurðarinnar og ef svo er þá sé afurðin talin samsett matvæli.
Samsett afurð er skilgreind í 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 sem sé matvæli, sem er ætluð til manneldis og inniheldur bæði unnar afurðir úr dýraríkinu og jurtaríkinu, þ.m.t. afurðir þar sem vinnsla frumframleiðsuvöru er óaðskiljanlegur hluti af framleiðslu lokaafurðarinnar. Fyrir liggur í málinu að varan [B] Export Battered Mozzarella Sticks inniheldur 49,15% af osti og [B] Battered Processed Cheese Stick inniheldur 43% af osti. Á heimasíðu framleiðandans sem og vörublöðum varanna er þeim lýst sem „mozzarella cheese dipped in a light, crispy golden batter“ og „Crispy batter surrounds our delicious mozzarella cheese stick cooked to a wonderful golden colour“. Framleiðandi varanna virðist þannig skilgreina vörurnar sem osta, þ.e. sem mjólkurafurðir. Framangreindar vörur eru því ostastangir eða -stykki sem hjúpaðar eru brauðhjúp og að mati ráðuneytisins breytir það ekki einkennum afurðarinnar og er brauðhjúpur/brauðmylsnan ekki óaðskiljanlegur hluti af framleiðslu lokaafurðarinnar. Af framangreindu virtu telur ráðuneytið ljóst að vörurnar [B] Export Battered Mozzarella Sticks og [B] Battered Processed Cheese Stick geti ekki talist sem samsett vara samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 og teljast því sem mjólkurafurðir sem þurfa að uppfylla innflutningsskilyrði fyrir mjólkurvörur samkvæmt reglugerðum (ESB) nr. 2017/625 og reglugerð (ESB) nr. 605/2010. Fyrir liggur í málinu að heilbrigðisvottorð fylgdi ekki með umræddum sendingum með þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að sannreyna sendinguna og ákvörðunarstað hennar tafarlaust og fullkomlega líkt og gerð krafa er um í reglugerð nr. 831/2014 og 56. gr. reglugerðar (ESB) nr. 2017/625.
Varan Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites inniheldur um 27,5% af osti og er á heimasíðu framleiðandans vörunni lýst með eftirfarandi hætti: „A crispy, golden breading covers green jalapeño halves stuffed with grated Cheddar cheese“. Í vörublaði vörunnar kemur m.a. fram að varan innihaldi „Pasteurized Process Monterey Jack Cheese [Monterey Jack Cheese (Pasteurized Milk, Cheese Cultures, Salt, Enzymes), Water, Cream, Sodium Phosphate, Salt] max 15,5%, Green Bell Pepper max 14,8%, Water max 14%, Pasteurized Processed Cheddar Cheese [Cheddar Cheese (Milk, Salt, Cheese Cultures, Enzymes), water, Cream, Sodium Phosphate, Salt, Artificial Color, Lactic Acid] max 12% [..]“
Matvælastofnun byggir á því að varan teljist ekki sem samsett afurð og því sé um mjólkurafurð að ræða. Af framangreindu telur ráðuneytið að ekki fáist ráðið að umrædd vara sé ostur og þar með mjólkurafurð þar sem varan inniheldur einungis 27,5% af osti en 14,8% af paprikum. Vörunni er heldur ekki lýst sem osti á heimasíðu framleiðandans heldur sem stykkjum sem innihalda jalapeno og hálf fylltar af osti sem séu síðan hjúpuð brauðmylsnu. Ráðuneytið telur framangreinda vöru falla undir skilgreiningu 2. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 um samsetta afurð en er þar kveðið á um að samsett afurð sé matvæli, sem eru ætluð til manneldis og innihalda bæði unnar afurðir úr dýraríkinu og jurtaríkinu, þ.m.t. afurðir þar sem vinnsla frumframleiðsluvöru er óaðskiljanlegur hluti af framleiðslu lokaafurðarinnar. Kærandi byggir á því að varan uppfylli skilyrði undanþágu frá opinberu eftirliti samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020. Skilyrði fyrir því að undanþágunni sé beitt eru þau að varan þarf að halda stöðugleika við geymslu við umhverfishita eða það sé öruggt að hún hafi verið fullelduð við framleiðslu eða meðhöndluð með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt. Fyrir liggur að varan heldur ekki stöðugleika við geymslu við umhverfishita og ekki er ágreiningur um það í málinu. Á vörublöðum vörunnar segir „Finished product is par fried before freezing at 390°F for 30 seconds“ á heimasíðu framleiðandans kemur fram að neytandinn eigi eftir að elda vöruna áður en hún sé tilbúin til neyslu vegna matvælaöryggis og gæða. Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að varan uppfylli seinni tvö skilyrði i. liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 en líkt og fram kemur á heimasíðu framleiðandans hefur varan einungis verið elduð að hluta áður en að hún er fryst. Jafnframt er tekið sérstaklega fram að neytandinn þurfi að elda vöruna áður en hún sé tilbúin til neyslu. Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið vöruna Anchor Battered Chili Pepper & Cheese Bites ekki uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 1440/2020 um undanþágu frá opinberu eftirliti. Með vísan til þess telur ráðuneytið nauðsynlegt að með vörunni fylgi heilbrigðis- og innflutningsskjal með þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að sannreyna sendinguna og ákvörðunarstað hennar tafarlaust og fullkomlega.
Óumdeilt er í málinu að varan [B] Cheddar Cheese Poppers sé samsett vara sem falli undir reglugerð nr. 1440/2020. Kærandi telur vöruna uppfylla skilyrði skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 um undanþágu frá opinberu eftirliti þarf þá varan að halda stöðugleika við geymslu við umhverfishita eða hafa verið fullelduð við framleiðslu eða meðhöndluð með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt. Ráðuneytið getur ekki fallist á það sjónarmið kæranda líkt og að ofan greinir er eldunin „par fried“ einskonar foreldun og getur hún ekki talist sem fulleldun samkvæmt ákvæðinu. Fyrir liggur að varan heldur ekki stöðugleika við geymslu við umhverfishita og ekki er ágreiningur um það í málinu. Á heimasíðu framleiðandans kemur jafnframt fram að neytandinn þurfi að elda vöruna áður en hún sé tilbúin til neyslu vegna matvælaöryggis og gæða. Varan uppfyllir því ekki skilyrði 6. gr. reglugerðarinnar og sætir þar með opinberu innflutningseftirliti samkvæmt c. lið 4. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 og þarf henni að fylgja vottorð samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar og reglugerðar (EB) nr. 28/2012.
Kærandi telur að andmælaréttar síns hafi ekki verið gætt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins hjá Matvælastofnun þar sem ekkert hafi komið fram um það á hvaða grundvelli innflutningi hafi verið hafnað á vörunni [B] Cheddar Cheese Poppers en slíkar röksemdir hafi fyrst komið fram í ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 3. febrúar 2021, n.t.t. að varan hefði ekki fullnægjandi hitameðhöndlun. Sú niðurstaða hafi ekki verið rökstudd í ákvörðun Matvælastofnunar. Matvælastofnun byggir á því að ljóst hafi verið við meðferð málsins að varan uppfyllti ekki skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1440/2020 og þess vegna hafi sjónarmið þess efnis ekki komið til álita og ekki hafi verið vikið að þeim fyrr en í svörum stofnunarinnar við andmælabréfi kæranda frá 22. janúar 2020. Nauðsynlegt er að kærandi fái tækifæri til andmæla á ákvörðun Matvælastofnunar og að sú ákvörðun stofnunarinnar sé skýrlega rökstudd. Ráðuneytið telur þó umræddan annmarka á meðferð málsins þó ekki breyta niðurstöðu þessa máls þar sem Matvælastofnun veitti kæranda tækifæri á að koma andmælum sínum á framfæri tvívegis áður en ákvörðun stofnunarinnar var tekin í málinu, þ.e. 25. nóvember 2020 og 8. desember 2020. Að mati ráðuneytisins uppfyllti kærandi ekki skilyrði fyrir innflutningi umræddra vara og hvílir sú skylda á Matvælastofnun að framkvæma innflutningseftirlit. Uppfylli vörur ekki skilyrði innflutnings ber Matvælastofnun að hafna beiðni um innflutning ráðuneytið tekur undir það sjónarmið Matvælastofnunar að ekki séu til önnur vægari úrræði sem myndu ná sama markmiði þar sem stofnuninni beri að hafna innflutningi á vörum sem uppfylla ekki skilyrði um innflutning dýraafurða. Með vísan til þess telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi gætt að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar við meðferð málsins.
Ráðuneytið telur að allar umræddar vörur falli undir skilyrði um opinbert eftirlit sem sinnt er af Matvælastofnun samkvæmt 47. gr. reglugerðar (ESB) nr. 2017/625 sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 234/2020. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið telur ráðuneytið að skilyrði um innflutning dýraafurða séu ekki uppfyllt í máli þessu. Af öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.
Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 3. febrúar 2021, um synjun á innflutningi á fjórum vörutegundum sem komu til landsins í fimm sendingum.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 3. febrúar 2021, um synjun innflutnings á fjórum vörutegundum, er hér með staðfest.