Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um stöðvun á dreifingu vöru
Stjórnsýslukæra
Með erindi, dags. 28. maí 2020, kærði [A], lögmaður, f.h. [B], hér eftir nefnt kærandi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, hér eftir nefnt HER, frá 28. febrúar 2020, um að stöðva dreifingu vörunnar [C] poppolíu, hér eftir nefnt varan.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. d-liðar 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli og 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindi kæranda barst innan kærufrests.
Kröfur
Þess er krafist að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um stöðvun dreifingar vörunnar [C] poppolíu, verði felld úr gildi.
Málsatvik
Með bréfi, dags. 21. október 2019, tilkynnti HER kæranda að fyrirhugað væri að stöðva dreifingu vörunnar á markaði. Kæranda var veittur frestur til 4. nóvember s.á. til þess að skila andmælum við fyrirhugaðri ákvörðun. Hinn 29. október s.á. óskaði kærandi eftir gögnum málsins og viðbótarfresti til þess að skila andmælum. Í kjölfarið voru gögn málsins afhent og fallist á að veita viðbótarfrest til andmæla. Kærandi skilaði andmælum 11. nóvember 2019 þar sem þess var krafist að fallið yrði frá fyrirhugaðri stöðvun á dreifingu vörunnar.
Með bréfi, dags. 21. nóvember 2019, var kæranda tilkynnt um að fyrirhugaðri stöðvun á dreifingu væri frestað auk þess sem óskað var eftir dreifingarlista fyrir vöruna sem kærandi afhenti 16. desember s.á. Með bréfi HER til kæranda, dags. 28. febrúar 2020, var tilkynnt um stöðvun á dreifingu vörunnar og að óheimilt væri að hafa vöruna í dreifingu eftir 1. mars 2021. Hinn 4. janúar 2021óskaði ráðuneytið eftir viðbótarupplýsingum frá HER.
Sjónarmið kæranda
Kærandi vísar til þess að varan innihaldi litarefnið karótín sem sé auðkennt E 160a. Slíkt litarefni sé einungis heimilt að nota í fitu en ekki olíur, samkvæmt flokki 02.1 í skrá Evrópusambandsins yfir matvælaaukefni í viðauka II reglugerða (EB) nr. 1333/2008. Kærandi byggir á því að varan sé fita/feiti og því hafi ekki verið lagaskilyrði fyrir því að taka hina kærðu ákvörðun.
Samkvæmt vörulýsingu eigi varan að byrja að umbreytast úr föstu formi í fljótandi í kringum 76°F eða u.þ.b. 24,44°C. Í hinni kærðu ákvörðun sé rakið að hitastig vörunnar í geymslum kvikmyndahúsa hafi verið 22-23°C og hafi varan þar verið í föstu formi. Þá segi í ákvörðuninni að til þess að umbreyta vörunni í fljótandi form hafi hún verið geymd á hærra hitastigi þar til hún hafi orðið fljótandi og síðan hafi vörunni verið dælt upp úr umbúðunum í poppvélar með sérstökum dælubúnaði. Ekki sé rakið nákvæmlega við hvaða hitastig varan hafi breyst úr föstu formi í fljótandi en kærandi telur að leggja verði til grundvallar vörulýsingu vörunnar, þ.e. að varan sé á fljótandi formi við um 24,4 °C og hærra hitastig en við lægra hitastig sé varan á föstu formi.
Kærandi vísar til þess að almennt sé gerður greinarmunur á olíum og fitu/feiti með þeim hætti að olíur séu á fljótandi formi við stofuhita en fita/feiti sé á föstu formi við stofuhita. Til þess að komast að niðurstöðu um hvort varan sé fita/feiti eða olía þurfi því að skilgreina hugtakið „stofuhiti“. Hugtakið sé ekki skilgreint í reglugerð (EB) nr. 1333/2008 og ekki virðist liggja fyrir samræmd skilgreining á hugtakinu í annarri löggjöf á sviðinu. Á eldri reglugerðum á sviði matvælalöggjafarinnar sé að finna vísbendingar um viðmið varðandi stofuhita, sbr. t.d. c-lið 19. gr. reglugerðar nr. 503/2005, um merkingu matvæla, sem nú sé brottfallin. Stofuhiti hafi þar verið skilgreindur með eftirfarandi hætti: „ekki er skylt að gefa upp geymsluskilyrði fyrir vörur sem geymdar eru við stofuhita (20 °C). Þá megi nefna að í íslenskri orðabók sé stofuhiti skilgreindur sem „hiti í stofu, 20-24 °C“. Kærandi vísar til þess að ókunnugt sé við hvaða viðmið HER styðst varðandi stofuhita og/eða á hvaða heimildum þær byggi. Með hliðsjón af framangreindu telji kærandi að 24,44 °C sé hærra hitastig en stofuhiti og því verði að leggja til grundvallar að varan sé á föstu formi við stofuhita og teljist því fita/feiti.
Að mati kæranda þurfi viðmið um hvort vara sé fita/feiti eða olía að byggjast á hlutlægum grunni sem sé í þessum efnum stofuhiti. Að mati kæranda geti markaðssetning og merkingar á vöru gefið vísbendingar um hvort að varan teljist vera fita/feiti eða olía en endanleg niðurstaða hljóti að byggjast á hlutlægum grunni. Að öðrum kosti gætu framleiðendur komist hjá því að framfylgja reglum með því að tilgreina tilteknar olíur sem fita/feiti og öfugt óháð eðli viðkomandi vöru.
Kærandi byggir á því að notkun vörunnar komi ekki til greina við afmörkun á því hvort vara teljist vera feiti/fita eða olía.
Sjónarmið Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur
Byggt er á því að varan sé eins og nafnið gefur til kynna bragðsbætt lituð kókosolía sem sé framleidd í Bandaríkjunum. Kókosolía sé rík af mettuðum fitusýrum og því sé hún sambærileg flestri dýrafitu hvað það varðar en einnig annarri jurtaolíu á borð við pálmaolíu og pálmakjarnaolíu. Jurtaolíur sem séu ríkar af mettuðum fitusýrum hafi hærra bræðslumark en aðrar jurtaolíur. Í tilfelli kókosolíu sé bræðslumarkið um 24-25°C (um 76-78°F) sem þýði að olían er á föstu formi fyrir neðan það hitastig en á fljótandi formi fyrir ofan það. Bræðslumark pálmaolíu sé um 35°C, pálmakjarnaolíu sé um 24°C, ólífuolíu um -6°C og svínafeiti (lard) um 41°C. Bræðslumörk feiti og olíu ráðist ekki einungis af magni mettaðrar fitu heldur einnig af öðrum þáttum á borð við stærð fitusameindanna.
Við hinn svokallaða stofuhita (20-25°C) sé kókosolían því á föstu formi en því ráði m.a. fitusýrusamsetningin en það hafi ekki með hitastigið að gera. Því síður sé um feiti (fitu) að ræða enda sé afurðin jurtaolía sem svo vill til að sé rík af mettaðri fitu og sé með tiltölulega hátt bræðslumark miðað við aðra jurtaolíu. Feiti (fita) er almennt á föstu formi, nema við hátt hitastig, og sé oft og tíðum meira unnin en olía (hersla). Með vísan til framangreinds er það mat HER að hvorki geti hinn svokallaði stofuhiti verið úrslitaatriði í málinu né geti stofuhiti stjórnað því hvort afurð telst feiti (fita) eða olía líkt og kærandi byggir á í málinu.
HER byggir á því að framleiðandi vörunnar skilgreini vöruna sem olíu, sbr. vörulýsingu eða „Product Data Sheet for Item 2041“ en hvergi í vörulýsingunni sé notað hugtakið feiti (fita) um vöruna. Í ljósi markaðssetningar vörunnar lítur HER á vöruna sem jurtaolíu en ekki jurtafeiti enda væri annað villandi.
Kærandi byggi á því að markaðssetning og merkingar á vöru geti gefið vísbendingar um hvort að varan teljist vera fita/feiti eða olía en endanleg niðurstaða í þeim efnum hljóti að byggjast á hlutlægum grunni. Að öðrum kosti gætu framleiðendur komist hjá framfylgd við reglur með því að tilgreina tilteknar olíur sem fita/feiti og öfugt óháð eðli viðkomandi vöru. HER hafnar þessari málsástæðu. Matvælaframleiðendur séu bundnir af lögum nr. 93/1995, um matvæli, og reglugerðum sem settar séu með stoð í þeim. Í a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1169/2011, um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 1294/2014, um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, segi að matvælaupplýsingar skuli ekki vera villandi, einkum er varðar sérkenni matvælanna og einkum eðli þeirra, auðkenni, eiginleika, samsetningu, magn, geymsluþol, upprunaland eða upprunastað, framleiðsluaðferð eða framleiðslu. Með vísan til framangreinds verði framleiðandi matvæla að tryggja að neytendur eða aðrir notendur matvælaupplýsinga fái rétta hugmynd um eðli matvælanna og geti greint þau frá matvælum sem þau kunna að vera tekin í misgripum fyrir. Nauðsynlegt sé því m.a. að vöruheiti sé rétt og lýsandi. Kókosolía sé jurtaolía en ekki jurtafeiti og skal því merkt þannig líkt og gert var með vöruna, sbr. vöruheiti og vörulýsingu. Auk þess komi fram í a-lið 1. mgr. 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1169/2011 sé lögboðið að tilgreina heiti matvæla á umbúðum þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. sömu reglugerðar skal heiti matvæla vera lögheiti þeirra. Þegar slíkt heiti sé ekki fyrir hendi skuli heiti matvælanna vera venjubundið heiti þeirra eða, ef ekki er um venjubundið heiti að ræða eða venjubundna heitið er ekki notað, skuli nota lýsandi heiti fyrir matvælin. Í 1. tl. A-hluta VI. viðauka reglugerðarinn segi jafnframt: Heiti matvælanna skal innihalda eða því skulu fylgja upplýsingar um eðlisrænt ástand matvælanna eða þá sérstöku meðhöndlun sem þau hafa hlotið (t.d. mulning í duft, endurfrystingu, frostþurrkun, hraðfrystingu, þykkingu, reykingu) í öllum tilvikum þegar það að sleppa slíkum upplýsingum getur villt um fyrir neytendum.“
Varðandi notkun aukefna í matvæli sé horft til reglugerðar (EB) nr. 1333/2008, um aukefni í matvælum, sem innleidd hafi verið hér á landi með reglugerð nr. 978/2011. Í viðauka II við reglugerðina sé listi yfir aukefni sem samþykkt sé að nota í matvæli. Í viðaukanum er matvælum skipt í matvælaflokka og séu tilgreind þau aukefni sem leyfilegt sé að nota í hverjum matvælaflokki fyrir sig ásamt nánari skilyrðum um notkun. Varan falli í matvælaflokk 02.1 (fita og olíur sem eru að mestu leyti vatnsfríar að undanskilinni vatnsfrírri mjólkurfitu). Á lista yfir innihaldsefni vörunnar sé að finna litarefnið karótín (E 160a) en það megi einungis nota í fitu (feiti) en ekki olíur eftir þörfum (quantum satis), sbr. matvælaflokk 02.1, þ.e. ekki er tölulegt hámarksgildi fyrir aukefnið heldur skuli nota það í samræmi við meginregluna eftir þörfum. Í 3. tl. 11. gr. reglugerðar (EB) nr. 1333/2008 komi fram að hámarksgildi fyrir matvælaaukefni, sem sett séu fram í II. viðauka, gildi um matvælin eins og þau séu sett á markað, nema annað sé tekið fram. Varan sé jurtaolía og er markaðssett sem slík. Litarefnið E 160a sé því ekki heimilt að nota í vöruna og sé dreifing hennar því óheimil. Óskað hafi verið eftir áliti frá dönsku matvælastofnuninni (Fødevarestyrelsen) sem hafi verið í samræmi við 3. tl. 11. gr. reglugerðarinnar.
Í ljósi alls framangreinds gerir HER þá kröfu að ákvörðun HER um stöðvun vörunnar verði staðfest þar sem varan uppfylli ekki kröfur reglugerðar (EB) nr. 1333/2008, um aukefni í matvælum, og reglugerðar nr. 978/2011, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum.
Athugasemdir kæranda við umsögn HER
Í athugasemdum kæranda við umsögn HER kemur fram að HER byggi á því að stofuhiti geti ekki haft úrslitaáhrif í málinu og að stofuhiti stjórni því ekki hvort afurð teljist vera feiti (fita) eða olía heldur ráði fitusýrusamsetningar, mettaðar fitusýrur og annað ráði bræðslumarki vörunnar. Kærandi leggur þann skilning í framangreinda málsástæðu HER að afurð geti haft hærra bræðslumark en stofuhita en geti samt sem áður talist olía. Auk þess komi fram bræðslumark afurðarinnar við stofuhita sé ekki ráðandi um það hvort hún teljist til olíu eða feiti. Í því samhengi fjalli HER sérstaklega um að jurtaolíur, sem séu ríkar af mettuðum fitusýrum, hafi hærra bræðslumark en aðrar jurtaolíur. Þá komi fram að pálma-, pálmakjarna- og kókosolía sé á meðal jurtaolíu sem séu ríkar af mettuðum fitusýrum og hafi því hærra bræðslumark en aðrar olíur. Þrátt fyrir hærra bræðslumark séu framangreindar vörur samt sem áður olíur en ekki feiti/fita. Kærandi hafnar framangreindum málsástæðum og telur að hærra bræðslumark leiði til þess að varan teljist vera fita/feiti. Því til stuðnings megi benda á umfjöllun á heimasíðu landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna. Þar sé sérstaklega fjallað um þær olíur sem HER gerir að umtalsefni í umsögn sinni, þ.e. pálma-, pálmakjarna- og kókosolíur. Í umfjöllun landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna komi fram að þessar „olíur“ séu kallaðar olíur þar sem þær séu jurtaafurðir. Auk þess segi að þrátt fyrir að framangreindar vörur séu kallaðar olíur sé um að ræða fitu (solid fat) þar sem þær séu með hátt magn af mettaðri fitusýru eða transfitusýru. Að mati kæranda liggur fyrir að kókosolía sé venjubundið heiti matvæla af þessu tagi, sbr. vöruheiti og vörulýsingu, þrátt fyrir að raunverulega sé um fitu/feiti að ræða með hliðsjón af eðli vörunnar.
Kærandi byggir á því að eðlilegt sé að stofuhiti sé ráðandi við mat á því hvort um feiti/fitu eða olíu sé að ræða með tilliti til eðli þeirrar ákvörðunar sem um er deilt í málinu. Ákvörðun HER sé íþyngjandi og eðlilegt sé að slík ákvörðun byggist á lagaheimildum sem unnt er að beita með fyrirsjáanlegum hætti. Undirliggjandi lagaheimild sem HER noti sem grundvöll fyrir íþyngjandi úrræðum gagnvart kæranda hafi ekki að geyma vísbendingar um hvernig skuli greina á milli fitu/feiti og olíu. Eina viðmiðið sem sé fyrir hendi í málinu varðandi aðgreiningu á því hvort vara teljist vera fita/feiti eða olía er hvort að varan sé á fljótandi eða föstu formi við stofuhita. Slík aðgreining virðist vera alþekkt á þessu sviði og finni sér örugga stoð á meðal fræðimanna. Af þeim sökum ætti ástand vörunnar við stofuhita að vera ráðandi við úrlausn málsins. Með hliðsjón af umsögn HER sé óumdeilt að varan sé á föstu formi við stofuhita og eigi því að teljast til fitu/feiti.
Kærandi byggir á því að afurð sé annað hvort fita/feiti eða olía eftir eðlislægum eiginleikum afurðarinnar og að notkun, markaðssetning eða heiti breyti ekki slíkum eiginleikum. Að byggja á notkun, markaðssetningu eða heiti vörunnar finni sér ekki hljómgrunn í texta þeirrar lagaheimildar sem liggi til grundvallar ákvörðun HER. Kókosolía virðist almennt vera kölluð olía þrátt fyrir að raunverulega sé um fitu/feiti að ræða. Að mati kæranda sé notkun vörunnar enn fremur óheppilegt viðmið. Sem dæmi megi nefna að svínafeiti, sem báðir aðilar virðast sammála um sé fita/feiti, sé oft hituð upp í fljótandi form og nýtt í eldamennsku. Þrátt fyrir að svínafeiti sé við þessa notkun breytt í fljótandi form er eðli vörunnar samt sem áður feiti enda er hún á föstu formi við stofuhita. Sama eigi við um vöruna sem deilt er um í málinu.
Frekari upplýsingar og gögn frá HER
Í ljósi þess að í andmælum kæranda var byggt á nýjum gögnum frá landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna óskaði ráðuneytið eftir að HER veitti viðbótarumsögn. Í svari HER kemur fram að á heimasíðu landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna sé fjallað um hvað teljist vera fita á föstu formi (solid fats), m.ö.o. fita/feiti. Tekin séu dæmi um dýrafitu en einnig jurtaolíur, þ.m.t. kókosolíu, sem sé talin vera fita á föstu formi vegna þess að hún innihaldi mikið af mettaðri fitu eða transfitusýrum. Eftirfarandi komi fram á heimasíðunni „The starred items are called „oils“ because they come from plant sources. Even though they are called „oils“ they are considered to be solid fats because they are high in satured or trans fatty acids“. HER bendir á að síðar í sömu umfjöllun skilgreini landbúnaðarráðuneytið Bandaríkjanna kókosolíu með þessum hætti vegna næringarfræðilegra þátta, þ.e. að hún innihaldi mikið af mettaðri fitu en engin önnur skilgreining virðist liggja þar að baki. Þannig segi á heimasíðunni „A few plant oils, including coconut oil and palm oil, are high in satured fats and for nutrition purposes are considered solid fats“
Óumdeilt sé að kókosolía innihaldi mikið af mettaðri fitu. Fitusýrusamsetning hennar valdi því að við 20-25°C (stofuhiti eða umhverfishiti) sé hún á föstu formi en fyrir ofan það hitastig sé hún fljótandi. Það að hún sé á föstu formi við slíkt hitastig breyti því ekki að um sé að ræða jurtaolíu úr kókoshnetum en ekki jurtafitu/feiti. Kókosolía sé hluti af staðli Codex Alimentarius um jurtaolíur af tilteknum uppruna („Standard for Named Vegetable Oils“, CXS 210-1999) og Evrópusambandið sé aðili að hinu svokallaða Codex samstarfi.
Auk þess byggir HER á því að í heitari löndum þar sem umhverfishiti sé mun hærri en hér á landi megi búast við því að kókosolía sé fljótandi en ekki á föstu formi. Þá er bent á að fallist ráðuneytið á kröfur kæranda í málinu og felli úr gildi ákvörðun HER um stöðvun dreifingar á vörunni verði heimilt að dreifa vörunni innan Evrópusambandsins í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þ.m.t. í þeim ríkjum Evrópusambandsins þar sem stofuhiti/umhverfishiti sé hærri og þar sem búast megi við að varan sé á fljótandi formi.
Forsendur og niðurstaða
Málið lýtur að því hvort varan teljist vera fita/feiti eða olía sem er ráðandi þáttur í því hvort heimilt sé að dreifa vörunni á markaði eða ekki. Óumdeilt er í málinu að varan inniheldur litarefnið karótín sem er auðkennt E 160a en slíkt litarefni er einungis heimilt að nota í fitu/feiti en ekki olíur, samkvæmt flokki 02.1 í skrá Evrópusambandsins yfir matvælaaukefni í viðauka II reglugerða (EB) nr. 1333/2008. Kærandi byggir á því að varan sé fita/feiti og því hafi ekki verið lagaskilyrði fyrir því að taka hina kærðu ákvörðun.
Í 1. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, er kveðið á um tilgang laganna sem er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Í 6. og 22. gr. laganna kemur fram að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fari með opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla. Matvælaeftirlit heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna felst m.a. í eftirliti með notkun aukefna í matvælum og með matvælaupplýsingum sem koma fram á umbúðum matvæla og er það hlutverk útfært nánar m.a. í reglugerð nr. 1294/2014, um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda sem og reglugerð nr. 978/2011, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1333/2008, um aukefni í matvælum.
Reglugerð nr. 1294/2014 innleiðir reglugerð (EB) nr. 1169/2011 í íslenskan rétt og samkvæmt ákvæðum hennar skulu matvælaupplýsingar ekki vera villandi, einkum hvað varðar sérkenni matvælanna og sér í lagi eðli þeirra, auðkenni, eiginleika, samsetningu, magn, geymsluþol, upprunaland o.fl. Í ákvæði 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heiti matvæla skuli vera lögheiti þeirra og sé slíkt heiti ekki fyrir hendi skuli heiti matvælanna vera venjubundið heiti þeirra, eða ef ekki er um venjubundið heiti að ræða eða það ekki notað, skal nota lýsandi heiti fyrir matvælin. Í vörulýsingu framleiðanda (e. Product Data Sheet for Item #2041) er varan skilgreind og markaðssett af framleiðanda sem olía. Í vörulýsingunni kemur jafnframt fram að varan byrji að umbreytast úr föstu formi í fljótandi við 76°F eða 24,44°C. Auk þess kemur fram að varan sé á fljótandi formi ef hún sé yfir 76°F, en annars sé hún á föstu formi.
Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að ráðandi þættir við skilgreiningu á því um hverskonar matvæli sé að ræða byggi á þeim kröfum sem fram koma í ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 1169/2011. Sé ekki fyrir að fara lögheiti matvæla verði að líta til venjubundins eða lýsandi heiti þess til að ákvarða um hvers konar matvæli sé að ræða hverju sinni. Að mati ráðuneytisins er þó nauðsynlegt að líta til annarra þátta en þeirra sem snúa að heiti matvæla og sem fram koma í reglugerðinni, s.s. eðli og samsetningu matvæla. Fyrir liggur að varan inniheldur mikið magn af mettaðri fitu en slíkar afurðir hafa gjarnan hærra bræðslumark. Varan hefur þ.a.l. sambærilega eðliseiginleika og t.a.m. dýrafita en jafnframt aðrar jurtaolíur á borð við pálmaolíu og pálmakjarnaolíu. Þá verður einnig að horfa til þess að fitusýrusamsetning vörunnar veldur því að við stofuhita (20-25°C) er hún á föstu formi en fyrir ofan það hitastigsbil er hún fljótandi. Ráðuneytið telur að auki að ekki verði hjá því komist að líta til skilgreiningar á kókosolíu samkvæmt staðli Codex Alimentarius um jurtaolíur af tilteknum uppruna, sem Ísland er aðili að, en samkvæmt þeim staðli telst kókosolía vera jurtaolía.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat ráðuneytisins að varan telst vera olía en ekki fita/feiti.
Aukefni matvæla eru skilgreind í 2. tl. 4. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, sem efni sem notuð eru við tilbúning matvæla til að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð og aðra eiginleika þeirra. Í 3. mgr. 17. gr. laganna kemur fram að í matvæli til dreifingar hér á landi og í öðrum EES-ríkjum megi einungis nota þau aukefni sem lög og stjórnvaldsreglur leyfa og í því magni sem þar er heimilað.
Í reglugerð (EB) nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 978/2011 er mælt fyrir um reglur um matvælaaukefni sem notuð eru í matvæli og í viðauka við þá reglugerð er sett fram skrá yfir samþykkt matvælaaukefni og skilyrði fyrir notkun þeirra. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1333/2008 segir að einungis megi setja matvælaaukefni, sem er að finna á skrá Bandalagsins í II. viðauka, á markað sem slík og nota í matvæli samkvæmt þeim notkunarskilyrðum sem þar eru tilgreind. Þá kemur fram í ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar að enginn skuli setja matvælaaukefni eða matvæli sem slíkt aukefni hefur verið notað í á markað ef notkun matvælaaukefnisins uppfyllir ekki kröfur reglugerðarinnar. Í 3. tl. 11. gr. reglugerðarinnar segir jafnframt að hámarksgildi matvælaaukefni, sem sett eru fram í II. viðauka, gilda um matvælin eins og þau eru sett á markað nema annað sé tekið fram.
Líkt og fram hefur komið er í viðauka II við reglugerðina listi yfir þau aukefni sem samþykkt er að nota í matvæli. Matvælum er þar skipt í matvælaflokka og tilgreind eru þau aukefni sem leyfilegt er að nota í hverjum matvælaflokki fyrir sig. Samkvæmt flokki 02.1 í viðaukanum er einungis heimilt að nota litarefnið karótín með auðkenninu E 160a fitu/feiti eftir þörfum en ekki í olíur. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að varan sem um er deilt sé olía og hún uppfylli því ekki kröfur reglugerðar (EB) nr. 1333/2008, um aukefni í matvælum, og því beri að staðfesta ákvörðun Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að stöðva dreifingu vörunnar.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 28. febrúar 2020, um stöðvun dreifingu vörunnar [C] poppolíu, er staðfest.