Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 5. september 2017, um að synja kæranda um viðbót við gildandi starfsleyfi

Þriðjudaginn, 25. september 2018, var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 8. nóvember 2018 lagði [A] hér eftir nefndur kærandi, fram stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar Matvælastofnunar dags. 5. september 2017, um að synja kæranda um viðbót við gildandi starfsleyfi, til þess að framleiða hrálýsi til manneldis um borð í togaranum [B].

Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæra barst innan kærufrests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga.

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Þann 9. september 2017 sótti kærandi um leyfi til að bæta við gildandi starfsleyfi, þannig að það næði til framleiðslu mjöls og hrálýsis til manneldis. Lýsið yrði framleitt úr haus, beingarði og slógi. Í umsókn lýsir kærandi vinnslunni þannig að eftir að fiskurinn er veiddur er hann hausaður og slægður. Haus og slóg fara með færibandi í lýsis- og mjölvinnslu. Eftir að búið er að þvo og kæla fiskinn fer hann í gegnum flökunarvél þar sem beingarðurinn er tekinn frá. Beingarðurinn fer með færibandi í lýsis- og mjölvinnsluna. Allt hráefnið fer fyrst í forsjóðara, síðan í sjóðara þar sem hráefnið er soðið (>100°C). Næst fer allt í mjölskilvindu þar sem lýsinu er fleytt af og það geymt.

Matvælastofnun synjaði kæranda um umbeðið leyfi með bréfi dags. 3. október 2017. Í bréfinu var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufrest.

Með bréfi dags. 8. nóvember 2017 var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. 

Með bréfi dags. 15. nóvember 2017 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar. Var stofnuninni gefinn frestur til 8. desember 2017 til að skila umsögn sinni. Umsögn Matvælastofnunar dags. 7. desember 2017, ásamt fylgigögnum, barst ráðuneytinu þann 8. desember 2017.

Með bréfi dags. 13. desember 2017 kynnti ráðuneytið kæranda umsögn Matvælastofnunar og veitti honum frest til 5. janúar 2018 til að skila umsögn. Þann 29. desember 2017 barst ráðuneytinu tölvupóstur þar sem þess var óskað að frestur yrði lengdur til 15. janúar 2018 og veitti ráðuneytið umbeðinn frest með tölvupósti þann 2. janúar 2018. Þann 15. janúar 2018 bárust athugasemdir kæranda með bréfi dagsett sama dag.

Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 5. september 2017, um að synja kæranda um leyfi til að framleiða hrálýsi úr hausum, beinum og slógi fisks, verði felld úr gildi. Kærandi féllst ekki á sjónarmið Matvælastofnunar um að 6. liður II. hluta VIII. þáttar III. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 104/2010, girði fyrir að slóg sé notað til manneldis. Sagði kærandi að ákvæðið fjalli um að aðskilja beri innyfli frá afurðum ætluðum til manneldis en ekkert styðji þá túlkun Matvælastofnunar að innyfli séu skilgreind sem óhæf til manneldis. Telur kærandi að þar sem lifur og hrogn séu hluti af innyflum, feli ákvæðið í sér að þegar nýta eigi innyfli í heild sinni til manneldis, til dæmis við bræðslu á lýsi til manneldis, beri að meðhöndla það hráefni á viðeigandi hátt, með kælingu eða frystingu.

Kærandi benti á breytingar sem gerðar voru á reglugerð (EB) nr. 853/2004 með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1020/2008, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1005/2011. Með reglugerðinni var B-hluta, IV. kafla, III. viðauka bætt við reglugerð nr. 853/2004. Í ákvæðinu segir að hráefni sem notað er við tilreiðslu fisklýsis til manneldis skuli vera frá starfsstöðvum sem eru skráðar og samþykktar, úr lagarafurðum sem eru hæfar til manneldis og í samræmi við ákvæði þáttarins, flutt og geymd við hollustusamleg skilyrði og að þau séu kæld og þeim haldið við það hitastig sem mælt er fyrir um í VII. kafla 

Kærandi taldi hráefnið sem notað er um borð í [B] uppfylla öll ofangreind skilyrði. Togarinn væri með leyfi Matvælastofnunar til veiða og vinnslu á lagarafurðum, sem hæfar séu til manneldis, öll vinnsla lýsisins um borð sé samfelld og hráefnið fari beint eftir slægingu í bræðslu. Benti kærandi á að framangreind breyting taki jafnframt til bræðslu á heilum fiski til framleiðslu lýsis til manneldis. Því sé ljóst, að mati kæranda, að Evrópusambandið telji lýsi unnið úr innyflum vera hæft til manneldis. Vísaði kærandi í I. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004, þar séu lagarafurðir skilgreindar sem „öll sjávar- og ferskvatnsdýr (nema lifandi samlokur, lifandi skrápdýr, lifandi möttuldýr og lifandi sæsniglar og öll spendýr, skriðdýr og froskar), bæði villt og alin og öll æt form, hlutar og afurðir slíkra dýra.“

Kærandi benti á að hann teldi að b-liður C-hluta III. kafla [VIII. þáttar, III. viðauka] reglugerðar (EB) nr. 853/2004, ætti ekki við um framleiðslu fisklýsis, heldur eingöngu vélúrbeinaðar lagarafurðir.

Að lokum tók kærandi fram að nýjustu togararnir í Noregi, sem útbúnir eru mjöl- og lýsisverksmiðju, séu með manneldisvottun fyrir bæði olíu- og mjölvinnslu. Þeir séu að vinna mjöl og lýsi að hluta til úr slógi, líkt og kærandi.

Í bréfi dags. 15. janúar 2018 gerði kærandi athugasemdir við umsögn Matvælastofnunar í heild sinni. Telur hann umsögnina byggja á lögskýringu sem ekki standist nánari skoðun og gangi gegn orðalagi þeirra réttargerða sem afstaða stofnunarinnar byggir á. Telur kærandi túlkun Matvælastofnunar á ákvæði 6. liðar, II.hluta, I. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004, of þrönga og telur ákvæðið eitt og sér ekki geta falið í sér að öll innyfli önnur en hrogn og lifur séu óhæf til manneldis. Þótt ákvæðið vísi til þess að hrogn og lifur geti verið ætluð til manneldis, geti það ekki sjálfkrafa falið í sér að öll önnur innyfli séu þar með óhæf til manneldis hvað sem öðru líður.

Leggi Matvælastofnun þessa einföldu túlkun á ákvæðinu til grundvallar, verði rökstuðningurinn að fela annað og meira í sér sem leiði til þess að erfitt sé að túlka ákvæðið á annan veg. Telur kærandi nauðsynlegt að Matvælastofnun styðji túlkun sína frekari rökum, til dæmis með samanburðarskýringu við önnur ákvæði reglugerðarinnar. Í það minnsta verði að liggja fyrir að fram hafi farið rannsókn af hálfu stofnunarinnar og að niðurstöður hennar, sem byggðar séu á vísindalegum gögnum, styðji afstöðuna. Kærandi kveðst ekki vita til þess að slík rannsókn hafi farið fram eða að slíkar vísindalegar niðurstöður liggi fyrir. Sé það raunin hafi Matvælastofnun brugðist rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi hafnar því að framangreint ákvæði 6. liðar feli í sér sérreglu sem útiloki önnur innyfli en hrogn og lifur á þeim grundvelli að ekkert í ákvæðinu útiloki sérstaklega að innyfli séu notuð til manneldis, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Mælt sé fyrir um nýtingu innyfla til manneldis í reglugerð nr. 853/2004. Alþekkt sé að afurðir séu framleiddar til manneldis úr innyflum öðrum en hrognum og lifur. Byggir kærandi á því að í þeim tilvikum sem nýta eigi innyfli í heild sinni til manneldis, beri að meðhöndla innyflin með viðeigandi hætti, þ.e. í samræmi við þær reglur sem gildi um hrogn og lifur. Tók kærandi fram að hráefnið sem notað væri um borð í [B] uppfylli öll skilyrði sem fram komi um framleiðslu fisklýsis, sbr. B-hluta, IV. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004.

Kærandi mótmælir afstöðu Matvælastofnunar um að skilgreining orðsins „lagarafurðir“ í I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004, sé ákvæði B-hluta, IV. kafla, VIII. þáttar reglugerðar (EB) nr. 853/2004, óviðkomandi. Telur hann ekki hægt að líta með öllu framhjá skilgreiningunni.

Telur kærandi að afstaða Matvælastofnunar, um að ákvæði B-hluta, IV. kafla gangi þvert gegn ákvæði 6. liðar, ekki standast skoðun. Vísar kærandi til þess að B-hluti, IV. kafla nái yfir bræðslu á heilum fiski til framleiðslu lýsis til manneldis. Í þeim tilfellum séu innyfli hluti af því sem brætt er og því ljóst að það sé álit Evrópusambandsins að lýsi úr innyflum sé hæft til manneldis, sé það unnið samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Telur kærandi ljóst að túlka verði ákvæði 6. liðar til samræmis við önnur ákvæði reglugerðarinnar. Telur kærandi þetta atriði vega þungt við mat á því hvort fallast beri á umsókn kæranda.

Kærandi telur C-hluta, III. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka, um að allt hráefni skuli vera laust við slor, aðeins eiga við um vélúrbeinaðar lagarafurðir. Því sé kærandi ekki að oftúlka ákvæðið eins og Matvælastofnun heldur fram. 

Kærandi telur túlkun Matvælastofnun á ofangreindum ákvæðum ekki vera í samræmi við viðurkennd sjónarmið þar að lútandi, þ.e. að 6. lið, II. hluta, I. kafla, VIII. þáttar verði að túlka þannig að öll innyfli, önnur en hrogn og lifur séu óhæf til manneldis, þrátt fyrir að önnur ákvæði reglugerðarinnar gefi annað til kynna.

Telur kærandi túlkun Matvælastofnunar á ákvæði C-hluta, III. kafla, VIII. þáttar sé á þann veg að það eigi við um allt hráefni, en ekki eingöngu vélúrbeinaðar lagarafurðir. Á sama tíma líti Matvælastofnun framhjá framangreindum B-hluta IV. kafla, sem eigi beinlínis við þá framleiðslu sem umsókn kæranda lýtur að og styður málatilbúnað kæranda. Því geti meðferð stofnunarinnar vart talist til samræmis við almennar reglur stjórnsýsluréttar.

Kærandi taldi túlkun Matvælastofnunar á framangreindum ákvæðum ekki í samræmi við viðurkennd sjónarmið þar að lútandi.

Um málsmeðferð og sjónarmið kæranda vísast að öðru leyti til þess sem segir í stjórnsýslukæru.

Sjónarmið Matvælastofnunar

Matvælastofnun synjaði umsókn kæranda um heimild til að framleiða hrálýsi til manneldis, með bréfi dags. 3. október 2017. Stofnunin taldi slóg, að undanskilinni lifur og gotu, ekki hæft til manneldis. Þar sem í umsókn kæmi fram að slóg væri hluti hráefnis til ætlaðrar lýsisframleiðslu, væri umsókninni hafnað.

Byggði stofnunin niðurstöðu sína á að samkvæmt 6. lið, II. hluta, I. kafla, VIII. þáttar III. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004 skuli fjarlægja innyfli og þá hluta af fiskinum sem fyrst og þeim haldið aðskildum frá afurðum sem ætlaðar eru til manneldis. Jafnframt vísaði stofnunin til þess að í b. lið C-hluta III. kafla sama þáttar viðaukans, komi fram að allt hráefni skuli vera laust við slor. Taldi Matvælastofnun þetta vísa til þess að allt hráefni til matvælavinnslu skuli vera hæft til manneldis. 

Benti Matvælastofnun jafnframt á að b. liður, B-hluta, IV. kafla, VIII. þáttar mæli fyrir um að hráefni sem notuð séu við tilreiðslu fisklýsis ætlað til manneldis, skuli vera úr lagarafurðum sem séu hæfar til manneldis og í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í þættinum.

Í umsögn sinni dags. 7. desember 2017, vísaði Matvælastofnun aftur til áðurnefnds 6. liðar, I. kafla, VIII. þáttar. Taldi stofnunin að erfitt væri að túlka ákvæðið á annan hátt en að við hausun og/eða slægingu bæri að skilja innyfli frá og halda þeim frá afurðum ætluðum til manneldis, að skilja bæri aðra hluta af fiskinum, sem gætu verið heilsuspillandi, frá og haldið frá afurðum ætluðum til manneldis. Þá gildi sérregla um lifur og hrogn, sem ætluð eru til manneldis og að önnur innyfli séu ekki hæf til manneldis og loks að enga undantekningu sé að finna varðandi innyfli þegar ætlunin sé að framleiða fisklýsi ætlað til manneldis.

Taldi stofnunin ákvæðið því fela í sér skýr fyrirmæli um að aðskilja innyfli frá afurðum ætluðum til manneldis og að sérregla um hrogn og lifur yfirfærðist ekki á öll innyfli fisksins líkt og kærandi haldi fram. Benti stofnunin á að b. lið, B-hluta, IV. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka skuli lesa með hliðsjón af 6. lið, II. hluta, I. kafla þáttarins. Krafa ákvæðisins um að hráefni skuli vera ætlað til manneldis, leiði af því að venjuleg innyfli komi ekki til greina. Taldi Matvælastofnun túlkun kæranda á hugtakinu „lagarafurðir“, þannig að skilgreiningin feli í sér að öll innyfli teljist hæf til manneldis, standist ekki með hliðsjón af framangreindu ákvæði.

Matvælastofnun taldi varasamt að túlka ákvæði B-hluta, IV. kafla, VIII. þáttar, sem á við nýtingu lagarafurða í heilu lagi, á þann veg að það heimilaði nýtingu allra innyfla fiska, þegar það gangi þvert á fyrirmæli 6. liðar, I. kafla, VIII. þáttar. 

Matvælastofnun telur kæranda oftúlka ákvæði b. liðar B-hluta IV. kafla VIII. þáttar. Telur stofnunin ástæðu þess að sérstaklega sé tekið fram að við vélúrbeiningu lagarafurða skuli allt hráefni vera laust við slor, vera þá að meiri hætta sé á að slor slæðist inn við vélúrbeiningu en þegar fiskur sé unninn í höndunum. 

Matvælastofnun kvaðst ekki geta fallist á rök kæranda og taldi ákvæði reglugerðar (EB) nr. 853/2004, girða fyrir að fiskislóg teldist hæft til manneldis.

Um sjónarmið Matvælastofnunar vísast að öðru leyti til þess sem segir í bréfi stofnunarinnar.

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að umsókn kæranda um leyfi til framleiðslu hrálýsis til manneldis um borð í [B]. Lýsið sem um ræðir yrði framleitt úr hausum, beingarði og slógi. 

Um framleiðslu matvæla, þar með talið lýsis, gilda ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli. Tilgangur laga nr. 93/1995 um matvæli kemur fram í 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla, meðal annars. Í ákvæði 1. mgr. 8. gr. a. laganna segir: „Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu.“

Um matvælaframleiðslu gildir jafnframt áðurnefnd reglugerð (EB) nr. 853/2004 auk viðauka, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 104/2010. Um lagarafurðir er fjallað sérstaklega í VIII. þætti III. viðauka. Fjallað er um kröfur um hollustuhætti í II. hluta I. kafla, en í 6. lið segir: 

Ef fiskur er hausaður og/eða slægður um borð skal það gert samkvæmt reglum um hollustuhætti og sem fyrst eftir veiði og skulu afurðirnar strax þvegnar vandlega með drykkjarhæfu vatni eða hreinu vatni. Þegar svo er skulu innyfli og þeir hlutar af fiskinum, sem gætu verið heilsuspillandi, skilin frá sem fyrst og haldið aðskildum frá afurðum sem eru ætlaðar til manneldis. Lifur og hrogn, sem ætluð eru til manneldis, skal geyma undir ís við hitastig, sem er nálægt hitastigi bráðnandi íss, eða frysta.

Samkvæmt orðalagi ákvæðisins skal skilja innyfli fisksins frá við verkun hans, þegar afurðin er ætluð til manneldis. Verður ákvæðið því skilið þannig að óheimilt sé að nota innyfli í afurðir ætlaðar til manneldis. Í ákvæðinu eru hrogn og lifur sérstaklega undanskilin. 

Í B-hluta, IV. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004, sem fjallar um kröfur varðandi fisklýsi ætlað til manneldis, segir meðal annars:

Hráefni, sem notuð eru við tilreiðslu fisklýsis sem ætlað er til manneldis, skulu:

a)   Vera frá starfsstöðvum, þ.m.t. skip, sem eru skráðar eða samþykktar samkvæmt reglugerð (EB) nr. 853/2004 eða í samræmi við þessa reglugerð,

b)   Vera úr lagarafurðum, sem eru hæfar til manneldis, og sem eru í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í þessum þætti,

c)   Vera flutt og geymd við hollustusamleg skilyrði,

d)   Vera kæld sem fyrst og haldast við hitiastigið sem mælt er fyrir um í VII. kafla.

Líkt og fram kom í umsókn kæranda er ætlunin að framleiða lýsið úr hausum, beingarði og slógi. Samkvæmt lýsingu kæranda eru því öll innyfli fisksins nýtt í lýsisframleiðsluna. Eins og áður greinir, gerir 6. liður, II. hluta, I. kafla, VIII. þáttar ráð fyrir að innyfli fiska séu fjarlægð við hausun og/eða slægingu. Ákvæðið undanskilur lifur og hrogn sem ætluð eru til manneldis, og kveður á um meðferð þeirra.

Kærandi benti á að B-hluti, IV. kafla, VIII. þáttar nái yfir vinnslu lagarafurða í heilu lagi, en Matvælastofnun taldi varasamt að heimila nýtingu allra innyfla fisks byggt á ákvæðunum, þar sem þau gangi þvert gegn fyrirmælum 6. liðar, II. hluta, I. kafla.

Ákvæði 6. liðar kveður skýrt á um að við hausun og/eða slægingu fisks, skuli fjarlægja innyfli og þá hluta af fiskinum sem gætu verið heilsuspillandi, og halda þeim aðskildum frá afurðum ætluðum til manneldis. Líkt og áður segir, undanskilur ákvæðið lifur og hrogn sérstaklega. Miðað við orðalag ákvæðisins verður að telja að um tæmandi talningu sé að ræða og undantekningin eigi ekki við um önnur innyfli. Breytir skilgreining í I. viðauka við reglugerðina á orðinu „lagarafurðir“ engu þar um. 

Kærandi benti á að B-hluti, IV. kafla geri ráð fyrir vinnslu lagarafurða í heilu lagi og því sé það álit Evrópusambandsins að lýsi úr innyflum sé hæft til manneldis sé það unnið samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Í umræddu ákvæði segir:

Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 1. liðar er stjórnanda matvælafyrirtækis ekki skylt að kæla lagarafurðirnar ef um er að ræða lagarafurðir í heilu lagi, sem eru notaðar beint við tilreiðslu fisklýsis til manneldis og ef hráefnið er unnið innan 36 klukkustunda frá lestun, að því tilskildu að ferskleikaviðmiðanir séu uppfylltar og að heildarmagn rokgjarnra niturbasa í óunnu lagarafurðunum fari ekki yfir viðmiðunarmörkin, sem kveðið er á um í 1. lið I. kafla II. þáttar II. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2074/2005.

Ráðuneytið tekur ekki undir þá túlkun kæranda að í ákvæðinu sé að finna óskoraða heimild til að nýta alla hluta fisks til lýsisgerðar. Telur ráðuneytið að ákvæðið eigi eingöngu við um bræðslu fisks í heilu lagi. Mikill munur er á því að bræða fisk í heilu lagi, þegar allir nýtilegir hlutar fisksins eru bræddir með, og því að vinna lýsi eingöngu úr aukaafurðum hans, þar sem innihald meltingarvegar er með.

Þessu til stuðnings má benda á að í 2. mgr. formála reglugerðarinnar segir að nauðsynlegt hafi verið að setja sérstakar reglur um hollustuhætti matvæla þar sem þau geti haft sérstaka hættu í för með sér. Það eigi sérstaklega við um matvæli úr dýraríkinu með tilliti til örverufræðilegrar og efnafræðilegrar hættu. Í slógi er meðal annars meltingarvegurinn og innihald hans, sem inniheldur niðurbrotsefni og mikið magn örvera.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga er lögfest í 10. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir að stjórnvaldi beri að gæta þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en það tekur ákvörðun. Fyrir liggur að Matvælastofnun hafði upplýsingar um að kærandi ætlaði að framleiða lýsi til manneldis úr fiskislógi. Líkt og að framan greinir verður ákvæði 6. liðar, II. hluta, I. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004 skilið þannig að óheimilt sé að nota innyfli í afurð ætlaða til manneldis. Bar Matvælastofnun ekki að rannsaka sérstaklega hvort önnur innyfli en lifur og hrogn væru hæf til manneldis, áður en hún tók ákvörðun. Umrædd synjun byggir á túlkun á lagaákvæðum og þar sem ákvæðið girðir fyrir notkun innyfla, annarra en lifra og hrogna, bar að synja umsókn kæranda. Af því leiðir að Matvælastofnun telst ekki hafa brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið að túlka beri ákvæði reglugerðar (EB) nr. 853/2004 á þann veg að slóg teljist ekki hæft til manneldis og af því leiði að óheimilt sé að framleiða úr því lýsi til manneldis. Í ákvæði 1. mgr. 10. gr. reglugerðar (EB) nr. 853/2004 er að finna heimild til uppfæra II. og III. viðauka að teknu tilliti til meðal annars tækniframfara og raunhæfra afleiðinga þeirra og væntinga neytenda með tilliti til samsetningar matvæla, vísindalegrar ráðgjafar og örverufræðilegra viðmiðana, sbr. c, d og e –lið ákvæðisins. Því er ekki loku fyrir það skotið að í framtíðinni verði ákvæðum III. viðauka breytt þannig að heimilt verði að vinna afurðir til manneldis úr aukaafurðum dýra. Slík heimild fæst hins vegar ekki fyrr en formleg breyting verður gerð á ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 853/2004 og viðaukum við hana, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar. Því er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun Matvælastofnunar um að synja kæranda um leyfi til framleiðslu hrálýsis um borð í [B], verði staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 3. október 2017, um að synja [A] um leyfi til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi, er hér með staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta