Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Ákvörðun Matvælastofnunar á vörslusviptingu og aflífun á hesti á grundvelli 38. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013.

Stjórnsýslukæra

            Með erindi, dags. 23. ágúst 2021, kærði [x] f.h. [Y], ákvörðun Matvælastofnunar frá 7. júní 2021 um að svipta kæranda vörslum á hesti sínum og aflífa hestinn.

            Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.

 

Krafa

            Þess er krafist að ákvörðun Matvælastofnunar um að taka hest kæranda í sínar vörslur og hann aflífaður, verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

            Málsatvikum er lýst á þann hátt að í lok mars 2020 barst Matvælastofnun ábending um slæmt ástand hrossa á [A]. Hafi þá Matvælastofnun framkvæmt eftirlit á bæ kæranda þann 31. mars 2020 en í eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar frá 1. apríl 2020 voru gerðar athugasemdir  við hófhirðu og ástand á gömlum gráum hesti, fram kemur að hann hafi verið horaður, hárafar mjög slæmt og að hesturinn hafi verið með stóra skallabletti. Hesturinn hafi verið ómerktur og óskráður og fór Matvælastofnun fram á í skýrslunni að kærandi myndi klippa hófa hrossanna og fella gamla hestinn sem hafi ekki verið að þrífast nógu vel. Kæranda var þá veittur tveggja vikna frestur til úrbóta.

Við eftirlit Matvælastofnunar þann 27. apríl 2020 kemur fram í eftirlitsskýrslu að kærandi hafi þá verið búinn að bæta úr hófhirðu hrossanna. Kærandi hafi sagt að gamli hesturinn væri í meðhöndlun hjá dýralækni sem gæti staðfest að ekkert væri að hestinum. Í gögnum málsins kemur fram að í símtali á milli kæranda og Matvælastofnunar þann 30. apríl 2020 hafi kærandi greint frá því  að dýralæknir myndi skoða hestinn þann 4. maí 2020. Þann 13. maí 2020 barst kæranda bréf frá Matvælastofnun þar sem stofnunin gaf kæranda kost á að láta aflífa umræddan hest og vísaði þar til 14. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013 eða að kærandi myndi leggja fram vottorð dýralæknis um að hægt væri að meðhöndla hestinn og að aflífun væri ekki þörf. Kæranda var veittur frestur til 20. maí 2020. 

Með bréfi þann 27. maí 2020 vísar Matvælastofnun til þess að við eftirlit þann 25. maí 2020 hafi komið í ljós að hesturinn væri enn á lífi og að kærandi væri ekki búinn að leggja fram vottorð dýralæknis. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi tjáð Héraðsdýralækni og eftirlitsmanni Matvælastofnunar að honum hafi ekki borist bréfið frá 13. maí 2020 með kröfu um aflífun eða læknismeðferð á hestinum en Matvælastofnun vísar til þess að bréfið hafi verið sett í póstkassa við heimili kæranda þann sama dag. Matvælastofnun vísar til 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 910/2014 um velferð hrossa um að skylt sé að aflífa alvarlega veik og/eða slösuð hross eins fljótt og auðið er ef meðhöndlun er ekki möguleg.

Í bréfi frá 27. maí veitir Matvælastofnun kæranda framlengdan frest til þess að leggja fram vottorð dýralæknis um heilsu hestsins eða að aflífa hestinn. Matvælastofnun veitti kæranda frest í þrjá virka daga frá móttöku bréfsins og frest til að koma að athugasemdum til 12 næsta dags frá afhendingu bréfsins. Matvælastofnun vísaði einnig til þess að ef ekki yrði brugðist við innan frestsins mætti búast við að Matvælastofnun myndi nýta heimild í 37. gr. laga um velferð dýra og taka hestinn í sínar vörslur og láti aflífa.

Þann 8. júní 2020 barst Matvælastofnun tölvubréf frá kæranda um að verið væri að afla vottorðs dýralæknis. Matvælastofnun veitti þá kæranda framlengdan frest til 11. júní 2020. Dýralæknir ritaði dýralæknavottorð þann 18. júlí 2020 en samkvæmt gögnum málsins barst Matvælastofnun ekki vottorðið fyrr en þann 28. júlí. Í vottorði dýralæknisins kemur fram að almennt ástand hestsins hafi verið sæmilegt en hann hafi verið grannur, holdastig 2. Tennur hestsins hafi verið lélegar, hárafar sæmilegt en hafi lagast mikið með hækkandi sól og sumri. Blóðprufa hafi verið tekin úr hestinum sem sýndi eðlilega blóðmynd. Hesturinn hafi verið stirður til gangs og hrumur af elli. Ekki hafi þó verið hægt að greina það að  hesturinn hafi þjáðst. Dýralæknirinn taldi eðlilegt að hesturinn fengi að lifa sumarið og fram á haust með fyrirvara um að ástand hans myndi ekki versna. Þá væri ástand hestsins metið að nýju með tilliti til þess hvort hann væri á vetur setjandi. Einnig kemur fram að tennur hestsins væru það lélegar að óvíst/ólíklegt væri að hann myndi þola einn vetur í viðbót. Síðasti vetur hafi verið hestinum erfiður en hárin duttu af hestinum á stórum svæðum og hann þ.a.l. illa í stakk búinn að þola kulda.

Þann 23. september 2020 fór eftirlitsmaður Matvælastofnunar að skoða hestinn og taldi hestinn í ásættanlegu standi en líklegast þyrfti að fylgjast vel með til að hann færi ekki í sama horf og veturinn þar á undan. Í gögnum málsins kemur fram að ekki hafi tekist að skoða hestinn haustið 2020 þar sem ekki hafi náðst í kæranda til að leyfa eftirlit og hafi hesturinn ekki sést úti. Þann 9. maí 2021 fóru eftirlitsmenn Matvælastofnunar í eftirlit til kæranda að skoða hestinn. Í eftirlitsskýrslu kemur fram að hesturinn hafi þá fundist þar í slæmu ástandi og holdafari. Hesturinn hafi verið í holdastigi 1,5 og hárlaus á stórum svæðum. Reynt hafi verið að hafa samband við kæranda símleiðis en kærandi hafi ekki svarað.

Með bréfi 11. maí 2021 veitti Matvælastofnun kæranda frest til 17. maí 2021 til þess að aflífa hestinn en kæranda var veittur frestur til 14. maí til andmæla. Í andmælum kæranda frá 14. maí 2021 mótmælir kærandi kröfu Matvælastofnunar um vörslusviptingu og aflífunar hestsins. Kærandi taldi ákvörðun Matvælastofnunar órökstudda og benti hann einnig á að engin ástæða væri til að aflífa hestinn og að dýralæknir gæti staðfest það. Kæranda var með bréfi Matvælastofnunar þann 25. maí 2021 veittur frestur til að leggja fram vottorð dýralæknis til 31. maí 2021. Í bréfi Matvælastofnunar er jafnframt tekið fram að um væri að ræða lokafrest kæranda til afhendingar vottorðs dýralæknis. Ef skoðun dýralæknis og vottorð lægi ekki fyrir að loknum fresti skyldi aflífa hestinn tafarlaust. Vísað var til 45. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra þar sem kveðið er á um að heimilt sé að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota á lögunum.

Þann 1. júní ítrekaði Matvælastofnun að frestur væri liðinn og ef ekkert hefði borist um hádegi þann dag mætti kærandi búast við frekari aðgerðum Matvælastofnunar. Þann sama dag hafi Matvælastofnun borist tölvubréf frá kæranda þar sem tilkynnt var um að kærandi hafi haft samband við dýralækni og að búist væri við honum þann 3. júní.  Kærandi hafi tilkynnt Matvælastofnun að hann ætti von á dýralækni eftir helgi. Þann 6. júní 2021 hafði Matvælastofnun ekki borist neinar upplýsingar um dýralæknisskoðun hestsins. Þann 7. júní fór Matvælastofnun ásamt lögreglu í eftirlitsferð til kæranda og skoðaði hestinn. Matvælastofnun mat hestinn í slæmu ástandi, horaður í holdastigi 1,5 og hárlaus og mat héraðdýralæknir að ástand hestsins væri það slæmt að aflífa skyldi hann strax, skv. 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

            Með bréfi, dags. 23. ágúst 2021, var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. Hinn 27. ágúst 2021 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið og veitti frest til 10. september 2021. Matvælastofnun óskaði eftir framlengdum fresti til 16. september 2021. Umsögn Matvælastofnunar barst ráðuneytinu 16. september 2021. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur til á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar. Engin andmæli bárust frá kæranda. Undir rekstri málsins kom í ljós að fylgigögn sem Matvælastofnun hugðist senda með umsögn stofnunarinnar bárust ekki ráðuneytinu en þau bárust þann 26. október 2021. Kæranda var þá veittur annar frestur til að koma andmælum sínum á framfæri vegna gagnanna og var veittur frestur til 12 nóvember. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Sjónarmið kæranda

            Kærandi byggir á því að það sé óskráð meginregla stjórnsýsluréttar að stjórnvaldsákvörðun verði að vera efnislega bæði ákveðin og skýr svo að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Kærandi telur ákvörðun Matvælastofnunar óskiljanlega, vísar þar kærandi til þess að þann 13. maí 2020 hafi kæranda verið gefinn kostur á því að aflífa hestinn eða leggja fram vottorð dýralæknis sem kærandi gerði. Ári síðar hafi hesturinn verið skoðaður aftur af starfsmanni Matvælastofnunar og ákvörðun um vörslusviptingu byggð á því að kærandi hafi ekki sinnt fyrirmælum frá 13. maí 2020. Telur kærandi að ákvörðun Matvælastofnunar sé byggð á því að kærandi hafi ekki sinnt fyrirmælum Matvælastofnunar frá 13. maí 2020. Kærandi telur að ástand hestsins hafi verið það sama og greint var frá í vottorði dýralæknis frá 18. júlí 2020. Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hafi ekki gætt að nægilega vel að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar á grundvelli 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi vísar til þess að í bréfi Matvælastofnunar frá 7. júní 2021 sé það órökstutt hvers vegna ekki mætti beita vægara úrræði í stað þess að nýta neyðarúrræði samkvæm 38. gr. laga nr. 55/2013 eða að heimila kæranda að láta dýralækni skoða hestinn eftir vörslusviptingu. Umræddur hestur hafi verið í lífi kæranda og fjölskyldu í áratugi og skiptir hann þau afar miklu máli. Kærandi telur að sú aðgerð að fara að heimili kæranda án þess að láta hann vita, svipta hann vörslum á hestinum og aflífa sé aðgerð sem hafi verið óþörf.

            Kærandi vísar til þess að samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Kjarni andmælareglunnar sé að ekki verði tekin ákvörðun um réttarstöðu aðila fyrr en honum hafi verið gefinn kostur á því að kynna sér málsgögn og málsástæður sem ákvörðun byggist á og tjá sig um málið. Kærandi telur að til þess að hann geti neytt andmælaréttar verði hann að hafa aðgang að málsgögnum og eiga þess kost á að tala máli sínu. Þá sé tilgangur reglunnar jafnframt að mál verði betur upplýst og vísar þar kærandi til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi vísar til 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra þar sem kveðið er á um að Matvælastofnun sé ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið. Kærandi telur að afar sterk rök þurfi að vera fyrir því að kæranda sé svipt þeim grundvallarréttindum til andmæla og að baki slíkri ákvörðun þurfi að liggja ótvíræð gögn.

            Kærandi vísar til þess að ekki sé hægt að sjá hvað breyting á ástandi hestsins hafi leitt til þess að Matvælastofnun hafi metið það svo að útbætur myndu ekki þola bið. Engin gögn liggi fyrir um að einhver breyting hafi orðið á ástandi hestsins, þvert á móti hafi ástand hans farið batnandi með hækkandi sól. Kærandi telur því að ekki hafi verið skilyrði eða ástæða til þess að beita 38. gr. laga um velferð dýra og svipta kæranda andmælarétti áður en hestur hans hafi verið aflífaður. Kærandi telur að með öflun vottorðs dýralæknis hefði hann mögulega geta sýnt fram á að engin ástæða hafi verið til þess að aflífa hestinn. Kærandi telur að ef skoðunarskýrslur frá annars vegar 1. apríl 2020 og hins vegar 11. maí 2021 eru bornar saman megi sjá að ástand hestsins hafi verið betra í þeirri síðari.

            Kærandi telur að málarekstur Matvælastofnunar hafi verið á reiki og kærandi því átt erfitt með að skilja hvers væri ætlast til af honum en ávallt reynt að bregðast við eftir bestu getu.

            Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hefði átt að byggja ákvörðun sína á 37. gr. laga um velferð dýra og að stofnunin hafi misbeitt valdi sínu með því að byggja ákvörðun sína á 38. gr. laganna.

 

Umsögn Matvælastofnunar

            Matvælastofnun byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra sé kveðið á um að ráðherra fari með yfirstjórn mála er varða velferð dýra en að framkvæmd stjórnsýslunnar sé að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hafi eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Skylt sé að fara vel með dýr og beri umráðamaður þeirra ábyrgð á að annast um þau í samræmi við lögin. Í 14. gr. laganna segir að umráðamönnum dýra beri að tryggja dýrum góða umönnun, þ.m.t. að sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð (e-liður). Í reglugerð 910/2014 um velferð hrossa segi í 7. gr. að bannað sé að beita hross harðýðgi eða annarri illri meðferð. Í 11. gr. segi að umráðamaður skuli fylgjast með holdafari og heilbrigði hrossa í hans umsjá og kalla til dýralækni ef með þarf. Í 4. mgr. 10 gr. sem fjalli um fóðrun, beit og brynningu segi að hross skuli alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum, þ.e. holdastig 3. Að öðrum kosti skuli þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umsjár, fóðrun skal tafarlaust bætt og aðgangur að góðu skjóli tryggður. Matvælastofnun vísar til þess að samkvæmt 4. mgr. 10. gr. reglugerðar um velferð hrossa sé holdastig undir 2 talið til illrar meðferðar. Skylt sé að aflífa alvarlega veik og/eða slösuð hross eins fljótt og auðið er ef meðhöndlun er ekki möguleg, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna. Í 38. gr. laga um velferð dýra segir að telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið geti stofnunin tekið dýr úr vörslu umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar.

            Matvælastofnun byggir á því að í málum þar sem farið sé fram á tafarlausar úrbætur og bregðast þurfi fljótt við sé andmælafrestur eðli málsins samkvæmt styttri en venjulega. Þar sem frestur til aðgerða hafi verið stuttur hafi Matvælastofnun farið með bréf frá 11. maí 2021 að heimili kæranda en hann hafi neitað að taka við bréfinu. Bréfið hafi þá verið skilið eftir í póstkassa við heimreiðina við heimili kæranda en þó ekki eftirlitsskýrslur sem einungis séu afhentar eða sendar í ábyrgðarpósti.

            Matvælastofnun vísar til þess að 12 mánuðir liðu milli þess að farið hafi verið fram á vottorð í maí 2020 og afskipta Matvælastofnunar sumarið 2021. Matvælastofnun hafi farið fram á vottorð um ástand hestsins í maí 2020 og gefið ítrekaða fresti en vottorð dýralæknis sem er dagsett 18. júlí 2020 sem þó hafi ekki skilað sér til Matvælastofnunar fyrr en 28. júlí 2020 þegar hesturinn hafi verið út á grænu grasi á besta tíma ársins en samt hafi hann verið grannur. Matvælastofnun vísar til þess að þó það segi í vottorði að ekki sé að sjá að hesturinn þjáist þá taki dýralæknir fram að veturinn hafi verið hestinum erfiður og að meta þurfi ástand hestsins aftur um haustið varðandi það hvort rétt sé að láta hann lifa veturinn. Þessu hafi kærandi ekki sinnt. Matvælastofnun vísar til þess að þegar hesturinn hafi verið skoðaður vorið 2021 hafi hann verið í holdafari 1,5 sem telst til illrar meðferðar samkvæmt mati á holdastigi í reglugerð nr. 910/2014 um velferð hrossa.

            Matvælastofnun vísar til þess að stofnuninni beri skylda að sjá til þess að lögum um velferð dýra sé framfylgt. Ef umráðamaður dýrs sem sé sjúkt og/eða slasað sinni ekki þeirri skyldu að kalla til dýralækni til að meðhöndla eða aflífa hestinn hafi Matvælastofnun heimild til að bregðast við. Kæranda hafi ítrekað verið gefnir frestir til að láta aflífa hestinn eða leggja fram vottorð dýralæknis um ástand hestsins. Í vottorði dýralæknis sem kærandi lagði fram sumarið 2020 hafi Matvælastofnun ákveðið að bíða með frekari aðgerðir en dýralæknir hafi lagt til að ástand hestsins yrði metið aftur um haustið. Það hafi ekki verið gert og hesturinn hafður úti um veturinn þrátt fyrir hárleysi og slæmt hárafar. Kæranda hafi þá aftur verið veittur frestur til að aflífa hestinn sjálfur eða fá dýralækni til að meta ástand hestsins vorið 2021 þrátt fyrir að hesturinn væri í verra ástandi en árinu áður. Samkvæmt skoðun dýralæknis Matvælastofnunar hafi hesturinn verið horaður, hárlaus, með lélegar tennur og átt erfitt með að éta. Hesturinn hafi jafnframt verið mjög stirður og með merki um krabbamein við endaþarmsop.

            Matvælastofnun byggir á því að þegar dýr eru sjúk eða slösuð og þrífast ekki sé lög sú ábyrgð á umráðamann að sjá til þess að þau fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu annars aflífuð. Í málinu liggi fyrir að umræddur hestur hafi verið orðinn mjög gamall, eða um fertugt samkvæmt upplýsingum kæranda. Það sé mjög hár aldur fyrir hesta og ekki algengt að þeir verði svo gamlir. Hesturinn hafi verið orðinn hrumur og stirður, tennur lélegar og þess vegna hafi hann átt erfitt með að éta og var því hættur að fóðrast og þrífast vel. Hárafar hafi verið slæmt og dýrið með skallabletti. Að mati Matvælastofnunar hafi ekki verið ástættanlegt að láta hestinn lifa í þessu ástandi og þörf að grípa til aðgerða þar sem umráðamaður hafi ekki orðið að kröfum stofnunarinnar.

            Kæranda hafi ítrekað fengið fresti til að leggja fram vottorð og staðfestingu dýralæknis á því að hægt væri að meðhöndla hestinn og koma honum í betra stand en aflífa hann annars. Það hafi kærandi ekki gert. Eina vottorðið sem hafi komið frá dýralækni þann 18. júlí 2020 hafi verið þegar að hesturinn hafi verið út á grænu grasi og í besta standinu en engu að síður horaður á þeim tíma. Ástand hestsins hafi versnað eðlilega milli ára og því hafi ástandið verið metið svo að ekki væri hægt að bíða með frekari aðgerðir heldur aflífa hestinn skv. e. lið 14. gr. laga um velferð dýra.

            Það hafi verið mat héraðsdýralæknis, dýraeftirlitsmanna og sérgreindardýrlæknis hrossasjúkdóma að út frá sjónarmiðum um velferð dýra væri ekki hægt að fresta aflífun, því hafi verið farið í vörslusviptingu og aflífun samkvæmt 38. gr. laga um velferð dýra. Matvælastofnun telur að meðalhófs hafi verið gætt þegar gerðar hafi verið kröfur til kæranda sem umráðamanns og að ekki hafi verið hægt að veita frekari fresti út frá sjónarmiðum um velferð dýra.

 

Forsendur og niðurstaða

            Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 7. júní 2021, um að taka hest kæranda í sína vörslu og aflífa á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra.

            Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra er markmið laganna að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu, meiðsli og sjúkdóma. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að fara vel með dýr og að umráðamaður beri ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lögin. Ill meðferð dýra er óheimil. Umráðamaður skal einnig tryggja að dýr fái góða umönnun svo sem að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu, sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð, sbr. 14. gr. laganna. Um velferð hrossa gildir reglugerð nr. 910/2014 og er í 7. gr. reglugerðarinnar kveðið á um að bannað sé að beita hross harðýðgi eða annarri illri meðferð. Í 11. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að umráðamaður skuli fylgjast með holdarfari og heilbrigði hrossa í hans umsjá og kalla til dýralæknis ef með þarf. Í 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að hross skuli alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum, þ.e. holdastig 3. Að öðrum kosti skuli þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umsjár, fóðrun skuli tafarlaust bætt og aðgangur að góðu skjóli tryggður. Holdastig undir 2 telst til illrar meðferðar. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er skylt að aflífa alvarlega veik og/eða slösuð hross eins fljótt og auðið er ef meðhöndlun er ekki möguleg.

            Ákvörðun Matvælastofnunar byggir á 38. gr. laga um velferð dýra en í ákvæðinu er kveðið á um að telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið geti stofnunin tekið dýr úr vörslu umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Matvælastofnun byggir á því að kæranda hafi ítrekað verið veittir frestir til úrbóta og það eina vottorð dýralæknis sem lagt hafi verið fram hafi verið frá 18. júlí 2020 þegar hesturinn hafi verið í sínu besta standi með sólina hátt á lofti og grasið grænt. Læknirinn hafi samt sem áður metið hestinn sem horaðann að holdastigi 2. Hann stirður og tennur lélegar og jafnframt hafi læknirinn tekið fram að veturinn þar áður hafi verið hestinum erfiður að meta þyrfti ástand hestsins aftur um haustið en því hafi kærandi ekki sinnt. Stofnunin vísar einnig til þess að við eftirlit vorið 2021 hafi hesturinn verið metinn í holdafari 1,5 með skallabletti og illa haldinn.

            Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hafi ekki gætt að andmælarétti sínum samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins hjá stofnuninni. Kærandi vísar jafnframt til 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra þar sem kveðið er á um að Matvælastofnun sé ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið. Kærandi telur að ekki sé hægt að sjá hvaða breyting á ástandi hestsins hafi leitt til þess að Matvælastofnun hafi metið það svo að úrbætur myndu ekki þola bið. Engin gögn liggi fyrir um að einhver breyting hafi orðið á ástandi hestsins, þvert á móti hafi ástand hans farið batnandi með hækkandi sól. Kærandi telur því að ekki hafi verið skilyrði eða ástæða til þess að beita 38. gr. laga um velferð dýra og svipta kæranda andmælarétti áður en hestur hans hafi verið aflífaður. Kærandi telur að ef skoðunarskýrslur frá annars vegar 1. apríl 2020 og hins vegar 11. maí 2021 eru bornar saman megi sjá að ástand hestsins hafi verið betra í þeirri síðari.

            Samkvæmt 38. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, hefur Matvælastofnun heimild til þess að taka dýr úr vörslu umráðamanns eða aflífa dýr ef stofnunin telur að úrbætur þoli enga bið. Auk þess segir að þær aðgerðir skuli gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu. Í máli þessu var kæranda svipt vörslum á hesti og hesturinn aflífaður samstundis. Samkvæmt ákvæðinu er Matvælastofnun ekki skylt að veita kæranda andmælafrest áður en ákvörðun er tekin og er því um íþyngjandi úrræði að ræða. Af gögnum málsins má sjá að kæranda var ítrekað veittur andmælafrestur og frestur til úrbóta frá fyrstu eftirlitskoðun þann 31. mars 2020. Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að við skoðun skoðunarskýrslu frá annars vegar 1. apríl 2020 og hins vegar 11. maí 2021 megi sjá að ástand hestsins hafi farið batnandi. Í skoðunarskýrslu frá 11. maí 2021 kemur fram að gerðar hafi verið kröfur um úrbætur í þremur skoðunaratriðum, þar af tvö alvarleg frávik og eitt frávik. Fram kemur einnig að umræddur hestur, sem farið hafi verið fram á að yrði felldur, hafi enn verið á lífi og holdastig hans komið niður í 1,5 en í vottorð dýralæknis frá 18. júlí 2020 var hesturinn metinn í holdastigi 2. Jafnframt gerði dýralæknir þá kröfu í vottorðinu frá 18. júní 2020 að fylgst yrði vel með hestinum og að ólíklegt væri að hann myndi þola annan vetur. Dýralæknir taldi eðlilegt að hesturinn fengi að lifa sumarið og fram á haust með fyrirvara um að ástand hans myndi ekki versna. Þá yrði að meta hestinn að nýju með tilliti til þess hvort hann væri á vetur setjandi. Fyrir liggur að kærandi lét ekki skoða hestinn aftur haustið 2020. Í skoðunarskýrslu Matvælastofnunar frá 11. maí 2021 er kæranda aftur veittur frestur til að leggja fram vottorð dýralæknis um heilbrigði hestsins þrátt fyrir að ástand hestsins hafi farið versnandi. Kærandi lét slíka skoðun ekki fara fram, né framvísaði vottorði þrátt fyrir að hafa verið gefinn ítrekaðir kostir á því, fyrst þann 11. maí 2021, aftur 25. maí og í þriðja sinn 1. júní.  Eftir að Matvælastofnun hafi ekki borist neitt vottorð dýralæknis þann 6. júní 2021 fór stofnunin daginn eftir í eftirlitsferð til kæranda ásamt lögreglu. Samkvæmt skoðun dýralæknis Matvælastofnunar hafi hesturinn verið horaður, hárlaus, með lélegar tennur og átt erfitt með að éta. Hesturinn hafi jafnframt verið mjög stirður og með merki um krabbamein við endaþarmsop. Ráðuneytið getur því ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að andmælarétti hans, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, hafi ekki verið gætt við meðferð málsins hjá Matvælastofnun. Með vísan til þess sem rakið er hér er það mat ráðuneytisins að skilyrðum 38. gr. laganna hafi verið fullnægt þegar ákvörðun var tekin um að svipta kæranda vörslu hestsins og aflífa hann.

            Með vísan til alls framan ritaðs staðfestir ráðuneytið ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 7. júní 2021 um vörslusviptingu og aflífun á hesti kæranda á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Ráðuneytið telur að ekki þurfi a ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 7. júní 2021, um vörslusviptingu og aflífun á gömlum gráum hesti á grundvelli 8. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, er hér með staðfest.

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta