Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um að veita fyrirmæli á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um velferð, nr. 55/2013.
Stjórnsýslukæra
Þann 24. júní 2022 barst ráðuneytinu erindi frá A (hér eftir kærandi) þar sem fram kemur að kærð sé ákvörðun Matvælastofnunar, dags 12. apríl 2022, um að veita honum fyrirmæli með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26 .gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2013, og barst erindi kæranda innan kærufrests.
Kröfur
Þess er krafist að ákvörðun stofnunarinnar um að veita kæranda fyrirmæli með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013, verði felld úr gildi.
Málsatvik
Þann 25. janúar 2022 framkvæmdi Matvælastofnun eftirlit hjá kæranda og voru gerðar athugasemdir við fjölmörg skoðunaratriði, það er á meðal vegna fóðrunar og brynningar og vegna holdafars gripa. Var kæranda veittur frestur til 10. febrúar 2022 til þess að bæta úr öllum frávikum en þegar eftirlitið átti að fara fram urðu starfsmenn að hverfa frá vegna þess að ekki náðist í kæranda. Þá framkvæmdi Matvælastofnun eftirlit hjá kæranda þann 28. mars 2022 og voru fjölmargar alvarlegar athugasemdir gerðar við búfjárhaldið.
Í kjölfarið var kæranda sent bréf, dags. 4. apríl 2022, þar sem boðuð fyrirmæli voru kynnt og honum gefinn frestur til að koma á framfæri andmælum. Veittur var frestur til 6. apríl 2022. Fyrirmælin voru þau að kærandi þyrfti að bæta úr þeim frávikum sem skráð voru í skýrslunni frá 28. mars 2022. Þau voru 1) að hann sækti sér fóðurráðgjöf sem Matvælastofnun samþykkti 2) að hann myndi útvega sér gott og lystugt hey og að fóðursalinn staðfesti kaupin við Matvælastofnun og 3) að hann myndi íhuga alvarlega að farga lökustu gripunum (holdastig 1,0-2,0). Þann 5. apríl 2022 bárust stofnuninni andmæli frá lögmanni kæranda þar sem gerðar voru athugasemdir við erindi Matvælastofnunar. Matvælastofnun yfirfór andmæli kæranda og tók í kjölfarið ákvörðun, dags 12. apríl 2022, þar sem honum voru veitt hin kærðu fyrirmæli, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 55/2013.
Þann 24. júní 2022 var veiting fyrirmælanna kærð til ráðuneytisins. Óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins og barst sú umsögn þann 25. júlí 2022. Kæranda var í framhaldinu gefinn frestur til andmæla og bárust sú andmæli 5. september 2022.
Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Sjónarmið kæranda
Kærandi telur að málsmeðferð Matvælastofnunar hafi brotið gegn form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Nánar tiltekið telur kærandi stjórnsýslu stofnunarinnar fela í sér brot gegn 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem stofnunin hafi ekki séð til þess að mál kæranda hafi verið nægjanlega upplýst þegar kæranda voru gefin framangreind fyrirmæli með bréfi dags 12. apríl 2022. Mótmælir kærandi því að nautgripir á bæ hans séu fóðraðir með mjög ólystugu fóðri enda hafi engin sérstök rannsókn farið fram af hálfu Matvælastofnunar á því fóðri sem nautgripunum hafi verið gefið. Þá mótmælir kærandi mati skoðunarmanns á holdafari kúnna og telur að það byggi á einfaldri sjónskoðun án þess að tekið hafi verið tillit til allra aðstæðna. Kærandi bendir á að hann hafi fengið Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (hér eftir RML) til að taka út ástand mjólkurkúnna á bænum og í skýrslu þeirra, dags. 26. apríl 2022, komi fram að ástandið hafi heilt yfir verið gott og engin kýr hafi verið undir 2 í holdstigum. Þá gerir kærandi athugasemdir við framkvæmd Matvælastofnunar, þar sem í þeim tilvikum sem ekki hafi tekist að ná í kæranda í síma hafi starfsmenn stofnunarinnar farið inn í fjós og gripahús án samþykkis kæranda. Telur kærandi þessa framgöngu starfsmanna Matvælastofnunar í andstöðu við ákvæði 71. gr. stjórnarskrár Íslands sem mælir fyrir um friðhelgi einkalífs, heimils og fjölskyldu. Þá mótmælir kærandi þeim staðhæfingum Matvælastofnunar að hann hafi haldið því ranglega fram að hann væri búinn að panta slátrun. Jafnframt gerir kærandi sérstaka athugasemd við að Matvælastofnun hafi leitað eftir slíkum upplýsingum frá sláturleyfishafa og þannig farið út fyrir hlutverk sitt og verkefni og vísar þar til 4. mgr. 34. gr. laga. nr. 55/2013 og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.
Þá byggir kærandi á því að Matvælastofnun hafi með stjórnsýslu sinni brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í nefndri reglu felst að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar því lögmæta markmiði sem stefnt er að verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þá skal því vera gætt að ekki sé gengið lengra en ber til. Kærandi bendir á að framkvæmdir hafi staðið yfir á bæ hans um nokkurt skeið og reynt hafi verið eftir fremsta megni að gera vel í öllum aðbúnaði og dýravelferð á búinu. Hins vegar hafi ýmis utanaðkomandi og óviðráðanleg atvik tafið framkvæmdir og telur kærandi að Matvælastofnun hafi ekki tekið tillit til ýmissa atriða sem ollu því að ástandið hafi ekki verið eins og best verði á kosið. Líta verði á að um tímabundið ástand væri að ræða sem nú sé liðið hjá sbr. skýrslu RML, og að auki hafi kærandi brugðist vel við ábendingum og skoðunum Matvælastofnunar og framkvæmt þær úrbætur sem bent hafi verið á með sem bestum hætti. Telur kærandi m.a. að stofnunin hafi gefið honum íþyngjandi fyrirmæli um að kaupa hey frá fóðursala og leita sér fóðurráðgjafar. Slík fyrirmæli feli í sér nokkur útgjöld fyrir kæranda án þess að ávinningur þess að fylgja þeim væri ljós.
Þá byggir kærandi á því að Matvælastofnun hafi brotið gegn andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem stofnunin veitti kæranda ekki nægilegan frest til þess að koma að andmælum við málsmeðferð. Áðurnefnt erindi Matvælastofnunar, þar sem mælt var fyrir um að leggja fram hin kærðu fyrirmæli hafi borist kæranda þann 4. apríl 2022 og honum veittur frestur til 6. apríl 2022. Hafi sá frestur í raun runnið út á miðnætti 5. apríl og kæranda þannig einungis veittur rúmur sólarhringur til þess að koma að athugasemdum, að því gefnu að erindi stofnunarinnar kæmi til vitundar kæranda sama dag og erindið var sent. Að lokum gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við þá málsmeðferð Matvælastofnunar um að honum hafi ekki verið veittur frekari frestur í málinu til þess að kynna sér gögn málsins þrátt fyrir skýra beiðni þar um sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga. Telur kæranda slíkt vera alvarlegt brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga í ljósi þeirra íþyngjandi fyrirmæla sem stofnunin beindi að kæranda í erindi sínu og þess stutta frests sem kæranda var veittur til þess að andmæla erindi stofnunarinnar, dags. 4. apríl 2022.
Með vísan til framangreindra atriða telur kærandi að ákvörðun Matvælastofnunar um að veita kæranda framangreind fyrirmæli brjóti gegn form- og efnisreglum stjórnsýsluréttar.
Sjónarmið Matvælastofnunnar
Matvælastofnun (MAST) byggir á því að stofnuninni hafi verið heimilt að veita kæranda fyrirmæli með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013.
Telur stofnunin að ljóst sé af skýrslunni sem framkvæmd var þann 28. mars 2022 að ástand á bænum hafði versnað frá eftirliti sem var framkvæmd þann 25. janúar 2022. Hafði kærandi ekki bætt úr þeim skráðum frávikum um ófullnægjandi fóðrun og fyrirmæli í skýrslu um að tryggja að nautgripir fengju aðgang að fóðri skv. þörfum á þeim rúmum tveimur mánuðum sem liðu á milli eftirlitsheimsókna. Þá var hann enn að vinna í því að skipta út gömlu og ónýtu blautu heyi, sem var á fóðurgangi. Einnig taldi stofnunin að fleiri gripir hafi verið í lélegum holdum við eftirfylgni skoðunina þann 28. mars 2022 og ljóst að gripir höfðu ekki fengið aðgang að fóðri sem uppfyllti kröfur löggjafarinnar um gæði og magn til að það fullnægði þörfum þessara gripa.
Þá bendir stofnunin á að það sé á ábyrgð kæranda á að uppfylla aðbúnað og tryggja fóðrun gripa sem eru í umsjá hans sbr. 14. gr. laga nr. 55/2013 og 5. og 7. gr. reglugerðar nr. 1065/2014. Þar sem stofnunin taldi slíkt ekki vera uppfyllt var stofnunin því nauðugur sá kostur að grípa til frekari aðgerða gagnvart kæranda til að tryggja lágmarkskröfur löggjafarinnar um fóðrun og holdafar gripa. Af þeim sökum ákvað stofnunin að beina hinum kærðu fyrirmælum til kæranda, um að hann sækti sér fóðurráðgjöf sem stofnunin samþykkti, að hann útvegaði sér gott og lystugt hey og hann íhugaði að farga lökustu gripunum.
Varðandi þá málsástæðu að frestur kæranda til andmæla hafi verið of skammur þá vísar Matvælastofnun til þess að ekki sé kveðið á um lengd andmælafrests í lögum heldur ráðist hann af magni og umfangi þeirra gagna sem liggja fyrir í hverju máli. Telur stofnunin að ljóst þyki að holdafar tiltekinna gripa í umráðum kæranda hafi verið slæmt og hann hafi ekki verið að sinna eigin eftirliti eða tryggja þeim fóðrun sem fullnægði þörfum þeirra. Þegar litið sé til málsatvika og þess að ástandið hafði versnað frá eftirliti sem framkvæmt var þann 25. janúar 2022 hafi stofnuninni verið nauðugur sá kostur að boða með skömmum fyrirvara þau fyrirmæli sem kærandi hafi nú kært til ráðuneytisins. Að því sögðu tók andmælafresturinn mið af þeim forsendum að grípa þurfti strax til aðgerða til að bæta fóðrum og holdafar gripanna. Telur Matvælastofnun að þessi skammi frestur hafi ekki hindrað kæranda við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri enda lágu þau fyrir við ákvarðanatökuna.
Matvælastofnun telur að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið uppfyllt þegar ákvörðun um fyrirmæli var tekin, þar með talið að tryggja fullnægjandi rannsókn um aðbúnað og fóðrun gripa sem og að fá fram sjónarmið kæranda og taka afstöðu til þeirra.
Varðandi mótmæli kæranda á þeirri fullyrðingu að fóðrun hafi ekki verið ábótavant getur Matvælastofnun ekki fallist á að umræddur texti skýrslunnar hafi verið rangur enda megi má sjá í eftirlitsgögnum að enn hafi ónýtt og ólystugt hey verið í boði fyrir kýrnar. Hvað varðar mótmæli kæranda er snúa að fullyrðingu um bágt holdafar kúnna bendir Matvælastofnun á að við eftirlit sem var framkvæmt 28. mars 2022 hafi verið gerð margvísleg frávik við búskapinn hjá kæranda. Vísar stofnunin til þess að sú úttekt sem RML framkvæmdi að beiðni kæranda hafi verið gerð þann 26. apríl 2022, eða tæpum mánuði eftir eftirlit Matvælastofnunar. Á þeim tíma, þ.e. þegar úttekt RML var gerð, varð ljóst að ástandið hafði batnað. Heilt yfir hafði ástand mjólkurkúnna verið gott og enginn kýr undir 2 í úttekt RML og þær úrbætur sem kærandi hafði framkvæmt eftir að fyrirmælin voru gefin telur stofnunin ekki breyta stöðu mála, það er fóðrun og holdafari þann 28. mars 2022. Taldi stofnunin því nauðsynlegt að beina hinum kærðu fyrirmælum til kæranda til að koma fóðrun og holdafari nautgripa í rétt horf.
Varðandi þá athugasemd sem kærandi gerir við að Matvælastofnun hafi leitað eftir upplýsingum frá sláturleyfishafa og farið þannig út fyrir hlutverk sitt og verkefni þá vísar stofnunin til þess að hún fari ekki einungis með eftirlit með lögum nr. 55/2013 heldur fer stofnunin einnig með eftirlit með flutningi sláturgripa og meðferð þeirra meðan á flutningi stendur. Þá fer stofnunin einnig með eftirlit með slátrun og vinnslu afurða í sláturhúsum og kjötvinnslum skv. lögum nr. 93/1995 um matvæli. Að því sögðu fer stofnunin með eftirlit með allri keðjunni frá bónda til smásala. Telur því stofnunin að henni hafi verið heimilt að kanna þær upplýsingar sem kærði kom á framfæri varðandi fyrirhugaða slátrun gripa. Að lokum mótmælir Matvælastofnun að starfsmenn hennar hafi farið inn í fjós og gripahús án samþykkis kæranda líkt og getið er í kærunni.
Þá telur Matvælastofnun að gætt hafi verið að meðalhófsreglunni þegar umrædd fyrirmæli voru gefin. Bendir stofnunin á að henni beri samkvæmt lögum að sinna eftirliti með velferð dýra og tryggja að umráðamaður dýra uppfylli skyldur sínar varðandi aðbúnað og umhirðu. Taldi stofnunin að búskapur hafi ekki uppfyllt þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til aðbúnaðar og umhirðu nautgripa og því voru hin kærðu fyrirmæli gefin. Mótmælir Matvælastofnun því sérstaklega að þær ytri aðstæður sem getið er í kærunni hafi ekki gert kæranda kleift að tryggja rétta fóðrun nautgripa. Þá bendir stofnunin á það að sú ákvörðun að beina fyrirmælum til kæranda um að bæta fóðrun með því að kaupa fóður og leita sér fóðurráðgjafar hafi verið vægasta úrræðið sem stofnunin gat gripið til og til þess fallið að ná því lögmæta markmiði að nautgripirnir fái að gæðum og magni það fóður sem þeir þurftu til að fullnægja þörfum þeirra. Önnur úrræði sem kveðið er um í X. kafla laga nr. 55/2013 séu meira íþyngjandi en það úrræði sem stofnunin notaðist við í þessu máli.
Athugasemdir kæranda við umsögn Matvælastofnunnar
Með bréfi dags. 5. september 2022 gerði kærandi athugasemdir við umsögn Matvælastofnunar frá 25. júlí 2022. Vísar kærandi til þess að málsatvikalýsing Matvælastofnunar sé ófullnægjandi að því leyti að þar er ekki vikið að skoðunarskýrslu sem barst kæranda með tölvupósti síðla kvölds á skírdag 14. apríl 2022. Þá ítrekar kærandi að honum þykir ljóst að Matvælastofnun hafi brotið gegn andmælarétti hans og vísar þar m.a. í þau atriði sem hann hafði áður komið á framfæri í kærubréfi sínu frá 24. júní 2022.
Forsendur og niðurstaða
Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar, dags 12. apríl 2022, um að veita kæranda fyrirmæli á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013.
Ákvörðun Matvælastofnunar byggir á lögum um velferð dýra nr. 55/2013 og reglugerð um velferð nautgripa nr. 1065/2014. Samkvæmt 1. gr. laga um velferð dýra er markmið laganna að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu, meiðsli og sjúkdóma. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að fara vel með dýr og að umráðamaður beri ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lögin. Þá segir í 6. gr. laganna að ill meðferð dýra sé óheimil. Umráðamaður skal einnig tryggja að dýr fái góða umönnun svo sem með því að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu, sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð, sbr. 14. gr. laganna. Í 1. gr reglugerðar nr. 1065/2014, um velferð nautgripa, er kveðið á um að tilgangur reglugerðarinnar sé að tryggja velferð og heilbrigði allra nautgripa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að nautgripir geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur.
Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hafi brotið gegn form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins þegar hin kærðu fyrirmæli voru veitt. Hin kærðu fyrirmæli hafi brotið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem embættið hafi ekki séð til þess að mál kæranda hafi verið nægjanlega upplýst þegar hin kærðu fyrirmæli voru veitt. Þá hafi stofnunin brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Einnig byggir kærandi á að brotið hafi verið á andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, þar sem stofnunin veitti kæranda ekki nægilegan frest til þess að koma að andmælum við málsmeðferð.
Ákvörðun Matvælastofnunnar um að veita kæranda umrædd fyrirmæli er byggð á grundvelli 37. gr. laga um velferð dýra þar sem kveðið er á um að Matvælastofnun sé heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Byggir ákvörðun Matvælastofnunar um að veita hin kærðu fyrirmæli á því að ástand á bæ kæranda hafi varað um nokkurt skeið, gerðar hafi verið athugasemdir ásamt kröfum um úrbætur en kærandi hafi ekki bætt úr skráðum frávíkum. Hafi því stofnuninni verið nauðugur sá kostur að grípa til frekari aðgerða gagnvart kæranda til að tryggja lágmarkskröfur löggjafarinnar um fóðrun og holdafar gripa.
Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Það eru því aðeins stjórnvaldsákvarðanir sem eru kæranlegar samkvæmt ákvæðinu en ekki aðrar athafnir stjórnvalda, ákvarðanir þeirra um málsmeðferð eða verklagsreglur stjórnvalda. Með hugtakinu stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvarðanir um rétt og skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnvaldsákvörðun er ákvörðun sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og beint er milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni er kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldu þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Þá er það yfirleitt einkennandi fyrir stjórnvaldsákvarðanir að þær eru teknar einhliða af stjórnvöldum og oftast á skriflegan hátt. Samkvæmt framangreindri skilgreiningu er ljóst að sú ákvörðun þarf að uppfylla tiltekin skilyrði til þess að hún geti talist stjórnvaldsákvörðun, og þegar þau eru uppfyllt ber að fara að stjórnsýslulögum við málsmeðferðina þar sem fyrirhugað er eða til greina kemur að taka stjórnvaldsákvörðun.
Eitt þeirra skilyrða til þess að ákvörðun teljist stjórnvaldsákvörðun er að ákvörðunin verður að binda enda á það mál sem er til úrlausnar hjá stjórnvaldinu. Með öðrum orðum verður ákvörðunin að leiða málið til lykta. Af þessu leiðir að almenn stjórnvaldsfyrirmæli, álit eða umsagnir stjórnvalda, tilmæli, leiðbeiningar og ráðgjöf teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þá eru ákvarðanir sem teknar eru til undirbúnings stjórnvaldsákvörðunar hluti af málsmeðferð og undanfari og skilyrði fyrir beitingu íþyngjandi úrræða. Slíkar ákvarðanir lúta að formi málsins sem binda ekki málið á enda og teljast því ekki stjórnvaldsákvarðanir.
Ákvörðun Matvælastofnunar um að veita kæranda fyrirmæli með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um velferð dýra batt ekki enda á málið sem til úrlausnar er hjá stofnuninni, enda kemur fram í bréfi dags 12. apríl 2022 að ef ekki verður brugðist við þessum fyrirmælum strax mun Matvælastofnun neyðast til þess að beita 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra og taka nautgripina úr vörslu kæranda.
Af öllu framangreindu er telur ráðuneytið að ákvörðunin sé ekki kæranleg á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga enda má telja að ákvörðun Matvælastofnunar að leggja fram umrædd fyrirmæli til kæranda hafi ekki bundið enda á málið sem er til úrlausnar og telst því ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Að lokum skal benda á að almennt er viðurkennt að enda þótt ráðstöfun eða athöfn stjórnvalds verði ekki talin vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kunni stjórnvald samt sem áður að vera skylt að veita þeim sem málið varðar kost á að setja fram andmæli á grundvelli hinnar óskráðu meginreglu um andmælarétt. Fresturinn til andmæla er misjafnlega langur og getur verið háður þeim hagsmunum sem í húfi eru hverju sinni. Mikilvægast er þó að stjórnvaldið hafi gert eðlilegar og raunhæfar ráðstafanir að virtum atvikum máls til að gera aðila máls kleift að nýta þann rétt sinn til andmæla. Í fyrirliggjandi máli fékk aðili máls tvo daga til þess að koma andmælum sínum að framfæri. Fresturinn var heldur stuttur. Í gögnum málsins kemur þó fram að Matvælastofnun hafi tekið mið af aðstæðum og talið mikilvægt að grípa til aðgerða strax. Ekki verður séð að hinn skammi frestur hafi hindrað kæranda við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ákvarðanatökuna.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru frá A, dags. 24. júní 2022, vegna ákvörðunar Matvælastofnunar frá 12. apríl 2022 um að veita honum fyrirmæli með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013, er hér með vísað frá ráðuneytinu.
f. h. matvælaráðherra