Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar og framgöngu MAST um afhendingu hrúts
Úrskurður
Föstudaginn, 14. júní 2024, var í matvælaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
Stjórnsýslukæra
Með erindi, dags. 22. ágúst 2023, kærði [A] f.h. [B] (hér eftir kærandi) ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) dags, 14. júní 2023, um kröfu um afhendingu hrúts (fjár) til stofnunarinnar vegna hættu á riðusmiti.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.
Kröfur
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun MAST verði felld úr gildi en til vara að viðurkennt verði að MAST hafi verið óheimilt að framfylgja ákvörðuninni og að henni verði breytt.
Jafnframt er þess krafist að ráðuneytið kanni hvort tilefni sé til opinberrar áminningar eða hvort almenn hegningarlög nr. 19/1940 eða lög um persónuvernd nr. 90/2018 hafi verið brotin vegna framferðis, athæfis og ásakana og nafnbirtingar af hálfu MAST með því að nafngreina bú kæranda í fjölmiðlum.
Málsatvik
Þann 3. apríl 2023 var birt frétt á vefsíðu MAST þar sem kom fram að riða hafði verið staðfest á bænum [E]. Í kjölfarið var á sömu vefsíðu birt frétt þann 14. apríl sl., þar sem kom fram að allt féð á [E] hefði verið skorið niður. Samtímis niðurskurðinum hefðu kindur af nokkrum öðrum bæjum, sem keyptar hefðu verið frá [E], verið aflífaðar og sýni tekin úr þeim. Við rannsókn á sýnunum kom í ljós að ein þeirra reyndist jákvæð en hún var frá bænum [D] sem er nágrannabær [E]. Var því ákveðið að skera allt fé á [D].
Þann 9. maí sl., sendi MAST bréf til kæranda þar sem gerð var krafa um að kærandi afhenti allt fé sem komið hefði á bæ hennar frá [D]. Kærandi andmælti þessu með tölvupósti þann 11. maí sl. Kærandi gerði athugasemdir við að enginn rökstuðningur hefði fylgt kröfu stofnunarinnar um afhendingu fé hans og hvers vegna gripir hans væru grunsamlegri en aðrir gripir. Þá benti kærandi stofnuninni á að enginn gripur hafi sýnt einkenni sjúkdómsins enda yrði það tilkynnt samstundis til héraðsdýralæknis. Þá óskaði kærandi eftir því að MAST frestaði aðgerðum þar til niðurstaða lægi fyrir vegna sýnatöku á [D] og/eða sauðburður væri yfirstaðinn.
MAST sendi kæranda tölvupóst, þann 17. maí sl., með yfirheitinu “Svar við andmælum vegna [D].“ Í tölvupóstinum var viðhengi sem stílað var á rangan aðila og var jafnframt autt. Í umsögn stofnunarinnar viðurkennir MAST mistökin, stofnunin bendir þó á að skýrt hafi komið fram í tölvupóstinum að í viðhenginu hefði mátt finna svör við andmælum kæranda. Að mati stofnunarinnar hafi verið full ástæða fyrir kæranda eða lögmanns hans að óska eftir skýringum á þessari óvenjulegu sendingu. Ef slíkt hafi verið gert hefði rétt bréf verið sent á sömu netföng. Þrátt fyrir að slíkt hafi ekki verið gert telur stofnunin að þetta hafi ekki valdið réttarspjöllum þrátt fyrir að þetta hafi verið óheppilegt.
Með bréfi til kæranda þann 14. júní sl. tilkynnti MAST að stofnuninni hefðu borist lokaniðurstöður á öllum sýnum sem rannsökuð voru í tengslum við niðurskurð á bænum [D] og reyndust öll sýnin neikvæð. Í ljósi þess hefði MAST fallið frá afhendingu alls fjár sem flutt var frá [D] fyrir eða um haustið 2020. Hins vegar krefðist MAST þess enn að allt fé sem verið hefði verið á húsi frá [D] frá og með vetrinum 2020 skyldi afhent stofnuninni ásamt lömbum. Í tilviki kæranda var um einn hrút að ræða, það er hrút nr. [C]. Engin andmæla bárust frá kæranda við framangreindum fyrirmælum.
Þann 18. júlí sl., sendi MAST bréf til kæranda með fyrirsögninni „opinber fyrirmæli hundsuð, mál kært til lögreglu“. Í bréfinu áréttar MAST að kærandi hafi brotið gegn ákvæðum reglugerðar um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, nr. 651/2001. Þá bendir stofnunin á að kærandi hafi jafnframt hugsanlega fyrirgert rétti sínu til bóta, sbr. 21. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993. Að lokum tilkynnir stofnunin í bréfinu til kæranda að málið verði kært til lögreglu á grundvelli 30. gr. framangreindra laga. Þá sagði jafnframt að með því að hunsa fyrirmæli MAST hafi kærandi ekki aðeins stefnt dýrum sínum í hættu heldur einnig heilsu sauðfjár í annarra eigu.
Með bréfi, dags. 22. ágúst 2023 var ákvörðun MAST kærð til ráðuneytisins. Óskaði ráðuneytið eftir umsögn MAST vegna málsins auk annarra gagna málsins og barst sú umsögn MAST ráðuneytinu þann 26. september 2023. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar og bárust andmæli kæranda þann 15. október 2023.
Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Sjónarmið kæranda
Kærandi telur að málsmeðferð MAST hafi brotið gegn ýmsum form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir ssl.), sem og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Nánar tiltekið telur kærandi stjórnsýslu stofnunarinnar fela í sér brot gegn 7., 10., 11., 12., 13. og 20. gr. ssl. Telur kærandi að slíkt hafi leitt til þess að möguleikar kæranda til að setja fram sjónarmið til varnar hafi verið verulega takmarkaðar.
Í fyrsta lagi telur kærandi að MAST hafi ekki sinnt leiðbeiningaskyldu sinni í samræmi við 7. gr. ssl. en slíkt hafi leitt til þess að kærandi hafi ekki getað nýtt sér upplýsingarrétt sinn. Kærandi hafi ekki fengið að vita að mál væri í kerfinu gagnvart sér eða fengið aðstoð hvað málið varðar. Þá hafi kærandi ekki fengið neinar leiðbeiningar frá MAST um það hvernig kærandi gæti gætt hagsmuna sinna í málinu.
Í öðru lagi telur kærandi að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. ssl., þar sem málið var að mati kæranda ekki nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því. Að mati kæranda leit MAST ekki til þeirra atvika sem nauðsynlegt var til þess að upplýsa málið. Þá telur kærandi að öll rannsókn málsins hafi verið einhliða af hálfu MAST, þar sem ekki hafi verið kallað eftir upplýsingum eða öðru frá kæranda vegna málsins.
Í þriðja lagi telur kærandi að MAST hafi brotið gegn andmælarétti kæranda í 13. gr. ssl., þar sem kæranda var ekki gefið tækifæri til þess að andmæla fyrr en málið var komið á borð lögreglu. Kærandi hafi því aldrei fengið tækifæri til að þess að kynna sér gögn málsins og málsástæður sem ákvörðunin byggðist á áður en hún var tekin. Gat kærandi því ekki tryggt réttindi sín eða haft tækifæri til þess að leiðrétta fram komnar upplýsingar í málinu. Bendir kærandi á að ákvarðanir stjórnvalda þurfi að byggja á lögmætum forsendum og að stjórnvaldi beri að tryggja að réttindi borgaranna séu ekki skert með handhófskenndum ákvörðunum eins og kærandi telur hafi verið gert í fyrirliggjandi máli.
Í fjórða lagi óskar kærandi eftir svörum frá MAST um það hvort stofnunin telji sig hafa farið eftir jafnræðisreglunni í 11. gr. ssl. við úrlausn málsins.
Í fimmta lagi telur kærandi að öll framkoma og ákvörðunartaka MAST hafi farið gegn meðalhófsreglu 12. gr. ssl. Vísar kærandi til þess að hann hafi aldrei mótmælt því eða staðið því í vegi að þessi eini hrútur yrði tekin af bænum og að mati kæranda sýna öll gögn það. Telur kærandi því að MAST hafi farið í óþarflega harkalegar aðgerðir og hafi tekið gífurlega íþyngjandi ákvörðun sem hefði auðveldlega verið hægt að ná fram með fagmannlegum og eðlilegum vinnubrögðum og með mun vægara móti. Að mati kæranda var til dæmis unnt að gera það með því að hafa sannanlega samband við kæranda og setja upp tíma með eðlilegum fresti og leysa málið.
Í sjötta lagi telur kærandi að birtingarháttur hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við 20. gr. ssl. Bendir kærandi á að sú skýra krafa sé gerð til stjórnvalda að við töku íþyngjandi ákvarðana, eins og í fyrirliggjandi máli, að tryggja að birting fyrir aðila hafi sannarlega farið fram. Kærandi bendir á að MAST hafi ekki haft samband til þess að fá það staðfest að tölvupóstar hefðu borist frá stofnunni. Þá hafi kærandi fengið tölvupósta og viðhengi sem stíluð voru á óviðkomandi aðila þar sem ekkert kom fram. Því til viðbótar hafi kærandi aldrei fengið skriflega stjórnvaldsákvörðun varðandi kærurétt sinn en slíkt telur kærandi ekki vera í samræmi við ssl. Því telur kærandi það alfarið á ábyrgð MAST að kærandi hafi séð tölvupóstanna sem stofnunin hafi sent eftir að frestur til andmæla eða aðgerða hafi verið liðinn.
Í sjöunda lagi telur kærandi að öll málsmeðferð MAST í fyrirliggjandi máli hafi farið gegn hinni óskráðu meginreglu um væntingar aðila máls. Vísar kærandi í þeim efnum til fréttar sem birtist á fréttasíðunni mbl.is, þann 19. apríl 2023, með fyrirsögninni „fé með riðu ekki fellt frá og með deginum í dag“. Í ljósi þess hafi kærandi hleypt öllu fé sínu út, þar á meðal þessum tiltekna hrút sem stofnunin óskar eftir að fá afhentan. Þá bendir kærandi á að þegar kærandi hafi fengið bréf frá MAST þann 14. júní 2023, þar sem krafist var afhendingar á hrút kæranda nr. [C] hafi kærandi farið út að leita að honum en ekki fundið hann.
Að lokum áréttar kærandi að það sé ljóst að engin deila sé á milli aðila í málinu varðandi viðkomandi hrút. Kærandi heldur því fram að MAST geti fengið viðkomandi hrút afhentan en enginn krafa hefur hins vegar borist um það frá stofnuninni að mati kæranda. Vísar kærandi til þess að stofnunin hafi einungis gert kröfu þess efnis í bréfi sínu til kæranda þann 14. júní sl., þar sem gerð var krafa um að hrúturinn yrði afhentur til slátrunar þann 19. júní sl., sem kærandi hafi einungis verið meðvitaður um eftir að sá frestur var runnin út. Eftir það hefur enginn krafa um afhendingu hrútsins verið send kæranda. Að því sögðu heldur kærandi því fram að fyrirmælin um afhendingu hrútsins hefðu ekki verið hunsuð og að mati kærandi liggur engin sönnun þess efnis í málinu. Að öllu framangreindu virtu krefst kærandi þess að ákvörðun MAST um afhendingu hrúts verði felld úr gildi eða til vara að viðurkennt verði að MAST hafi verið óheimilt að framkvæma ákvörðunina og henni verði breytt.
Til viðbótar krefst kærandi þess að skoðuð verði vinnubrögð MAST í fyrirliggjandi máli. Er það mat kæranda að allt framferði og vinnubrögð MAST í málinu hafi verið verulega ámælisvert og vill kærandi koma í veg fyrir að aðrir aðilar þurfi að ganga í gegnum það sama og kærandi. Kærandi telur sig hafa orðið fyrir gífurlegu tjóni vegna þessarar málsmeðferðar, ákvörðunartöku og óforsvaranlegu framsetningu á málinu til fjölmiða sem ráðuneytinu ber að bregðast við að mati kæranda.
Sjónarmið Matvælastofnunar
MAST byggir ákvörðun sína um ósk á afhendingu á einum hrút í eigu kæranda á grundvelli 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 651/2001, um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. Þar kemur fram að yfirdýralækni sé heimilt að láta fara fram skoðun og sýnatöku á sauðfé til þess að kanna útbreiðslu riðuveiki og fyrirskipa að fargað verði sjúkum eða grunsamlegum kindum á hvaða tíma árs sem er. Þá er fjáreigendum skylt að aðstoða við slíkar skoðanir og rannsóknar án sérstakrar þóknunar. Við þær athugasemdir kæranda um að brotið hafi verið á hinni óskráðu meginreglu um væntingar aðila með vísan til fréttar, sem birtist á mbl.is, þann 19. apríl 2023 sem kærandi vísar til í kæru sinni þá bendir stofnunin á að hún geti ekki borið ábyrgð á röngum eða villlandi fréttaflutningi.
Við þær athugasemdir kæranda um að hann hafi ekki fengið í hendur neina skriflega stjórnvaldsákvörðun þar sem m.a. komi fram leiðbeiningar um kærurétt hans þá telur stofnunin slíkt vissulega vera rétt þar sem viðhengi með bréfinu barst aldrei til hans. Hins vegar bendir stofnunin á að kærandi hafi leitað til lögmanns sem kærði fyrirmælin til ráðuneytisins og því sé ekki unnt að sjá að þessi mistök stofnunarinnar hafi valdið réttarspjöllum.
Hvað varðar þær athugasemdir kæranda um að stofnunin hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu í 7. gr. ssl. þá bendir stofnunin á að útskýrt hafi verið í bæði bréfum og tölvupóstum hvers vegna krafist var afhendingar tiltekins fjár. Á þeim grunni telur stofnunin að leiðbeiningarskylda hafi því ekki verið brotin í málinu.
Við þær athugasemdir kærandi um að stofnunin hafi ekki sinnt rannsóknarsskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga þá bendir stofnunin á að strax eftir að riðutilfelli greindist í Miðfjarðarhólfi hafi farið fram smitrakning sem leiddi í ljós að á búi kæranda væri að finna kindur frá [D]. Að því sögðu telur stofnunin að málið hafi verið vandlega rannsakað og í samræmi við lög.
Þá fellst stofnunin ekki á þær athugasemdir kæranda að stofnunin hafi brotið á andmælarétti hans skv. 13. gr. stjórnsýslulaga í öllu ferlinu og þá sérstaklega þegar ákvörðun var tekin um að kæra málið til lögreglu. Bendir stofnunin á að kærandi hafi fengið mörg tækifæri til þess að afhenda umræddan hrút en ekki sinnti því. Að mati MAST átti það ekki að koma kæranda á óvart að brot hans gegn gildandi reglugerð gætu endað með kæru til lögreglu.
Hvað varðar þá athugasemd kæranda að stofnunin hafi brotið gegn meðalhófsreglu í 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem kærandi hafi aldrei mótmælt né staðið í vegi fyrir því að þessi eini hrútur yrði tekinn af bænum spyr stofnunin hví kærandi hafi ekki afhent hrútinn rétt og eins og stofnunin hefur krafist sbr. bréf til kæranda þann 14. júní 2023.
Þá telur stofnunin sig hafa gætt jafnræðis í málinu enda hafa flestir þeir bændur sem fengu beiðni um afhendingu fjár brugðist við og afhent féð.
Að lokum bendir stofnunin á að kærandi hafi ekki upplýst stofnuna um að eftir að kærandi hafi fengið fyrirmæli um að fá afhentan hrútinn hafi hann farið út í haga að leita að þessum hrút en hafi ekki fundið hann. Er því kærandi hvattur til þess að hafa samband við héraðsdýralækni til þess að ganga frá afhendingu hrútsins.
Athugasemdir kæranda við umsögn MAST
Kærandi ítrekar allan sinn fyrri málatilbúnað en því til viðbótar gerir kærandi eftirfarandi athugasemdir. Kærandi bendir á að í umsögn stofnunarinnar má sjá viðurkenningu af hálfu MAST um að ekki hafi verið fylgt stjórnsýslureglum í málinu, m.a. hvað varðar reglur um birtingar og er það mat kæranda að slíkt sýni í raun vinnubrögð MAST í öllu þessu máli. Telur kærandi að umrædd viðurkenning MAST eigi sjálfkrafa að þýða að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Þá bendir kærandi á að sú ákvörðun stofnunarinnar að leggja fram kæru gegn sér sé í eðli sínu íþyngjandi ákvörðun sem varðar réttindi og skyldur og ber því öll einkenni þess að vera stjórnvaldsákvörðun. Að því sögðu telur kærandi að það hefði verið rétt að gefa sér andmælarétt í samræmi við stjórnsýslulögin. Óskar kærandi því eftir rökstuðning frá MAST um það hvort stofnunin telji að ákvæði stjórnsýslulaga gildi um ákvörðun stofnunarinnar um að kæra málið til lögreglu.
Þá telur kærandi það ábyrgðarleysi af hálfu MAST að afsala sér allri ábyrgð á villandi fréttaflutning eins og kærandi telur að stofnunin geri í umsögn sinni. Í ljósi þess hversu alvarlegt mál er um að ræða telur kærandi að það hafi verið alfarið á ábyrgð MAST að leiðrétta þennan meinta villanda fréttaflutning strax í stað enda er það mat kæranda að aðilar treysta á opinberar yfirlýsingar sem koma beint frá MAST.
Að lokum varðandi þá athugasemdir MAST í umsögn sinni um það hvers vegna kærandi hefur ekki afhent hrútinn þá telur kærandi að gera verður ákveðnar kröfur til stjórnvalds, og er það mat kærandi að annað sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda m.a. út af kostnaði. Þá ítrekar kærandi að MAST ákveði í samvinnu við sig þá dagsetningu sem kæranda beri að afhenta hrútinn.
Forsendur og niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun MAST um að krefjast þess að fá afhentan hrút í eigu kæranda til að kanna útbreiðslu á riðuveiki, á grundvelli 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar.
Kærandi byggir á því að málsmeðferð MAST hafi brotið gegn ýmsum form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins.
Ákvörðun Matvælastofnunar er tekin á grundvelli reglugerðar um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, nr. 651/2001, sem sett er með heimild í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segir að yfirdýralækni sé heimilt að láta fara fram skoðun og sýnatöku á sauðfé til þess að kanna útbreiðslu riðuveiki og fyrirskipa að fargað verði sjúkum eða grunsamlegum kindum á hvaða tíma árs sem er. Einnig segir í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar að fjáreigendum sé skylt að aðstoða við slíkar skoðanir og rannsóknir án sérstakrar þóknunar. Lógun skal framkvæmd í samráði við héraðsdýralækni gegn bótum skv. IV. kafla reglugerðarinnar. Þá kemur fram í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar að ráðherra geti að fenginni tillögu yfirdýralæknis, fyrirskipað niðurskurð alls eða hluta sauðfjár á riðujörð eða á tilteknu svæði og tímabundið fjárleysi í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu veikinnar.
Í málinu liggur fyrir að ein kind fædd árið 2020 frá [D] greindist með riðuveiki í apríl 2023, en sú ær hafði komið frá [E] og var því í hjörðinni á [D] í tæpa þrjá vetur. Mögulegt er á að ærin frá [E] hafi smitað kindur í hjörðinni á [D], því vitað er að riðuveikar kindur smita frá sér seinni helming meðgöngutíma sjúkdómsins. Algengasti meðgöngutími sjúkdómsins er 1,5-3 ár, en getur þó verið styttri en einnig lengri. Þá liggur fyrir að mest er um smit við sauðburð, en smitmagn riðupríonsins er 10.000 sinnum meiri í hildum og legvatni en öðrum líkamsvessum og lömb eru móttækilegri en eldra fé. Í ljósi þess að ekki greindust fleiri kindur með riðu á Syrðri-Urriðaá er talið líklegt að smitið í hjörðinni hafi verið á byrjunarstigi, því ekki er hægt að greina riðu fyrr en smitefnið hefur náð til heilavefs. Í ljósi framangreinds er afar mikilvægt að gera allt sem unnt er til þess að hefta útbreiðslu smitefnis með því að ná til allra kinda frá [D] í hjörðinni sem höfðu samgang við riðuveiku kindina, sem er í máli kæranda einn hrútur. Þá þykir ljóst að því fyrr sem hún sé fjarlægð úr hjörðinni því líklegra er að hjörðin sleppi við smit.
Af gögnum málsins má sjá að fyrir liggur stjórnvaldsákvörðun, dags. 9. maí 2023, þar sem MAST krafðist þess að kærandi afhenti allt fé sem komið hefði á bæ hennar frá [D]. Jafnframt liggur fyrir í málinu að kærandi andmælti þessari ákvörðun stofnunarinnar þann 11. maí 2023. Þar óskaði kærandi m.a. eftir því að MAST frestaði aðgerðum þar til niðurstaða lægi fyrir vegna sýnatöku á [D] og/eða sauðburður væri yfirstaðinn. Féllst MAST í raun á framangreint, þar sem MAST endurskoðaði fyrri ákvörðun sína, um þá kröfu sína um að kærandi skyldi afhenda allt fé sem komið hefði á bæ hennar frá [D]. Í endurskoðaðri ákvörðun MAST, sem jafnframt er hin kærða ákvörðun, dags. 14. júní 2023, sem tekin var í kjölfar þess að lokaniðurstaða hafði borist um að öll sýnin sem rannssökuð höfðu verið reyndust öll neikvæð, krafðist stofnunin þess að fá einn hrút afhentan, það er hrút nr. [C]. Að framangreindu má sjá að kærandi hafði nýtt sér andmælarétt sinn í kjölfar þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem stofnunin tók þann 9. maí 2023 og að stofnunin hafi fallist á þau andmæli kæranda. Með vísan til framangreinds getur ráðuneytið jafnframt ekki tekið undir þær athugasemdir kæranda um að enginn stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir í málinu þar sem krafist er afhendingar á umræddum hrút.
Í 20. gr. ssl. er kveðið á um birtingarreglu stjórnsýsluréttarins. Í henni felst að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Þá er ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila. Ekki er gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðunin sé komin til vitundar aðila máls, sbr. ummæli um 20. gr. ssl. Yfirleitt á því að vera nægilegt að ákvörðun sé komin þangað sem almennt má búast við að aðili geti kynnt sér hana. Af þessari reglu leiðir að þótt stjórnvald hafi tekið stjórnvaldsákvörðun öðlast hún ekki sjálfkrafa bindandi réttaráhrif í samræmi við efni sitt. Til þess að stjórnvaldsákvörðun öðlist bindandi réttaráhrif verður að birta hana aðilum málsins. Af því sögðu er það mat ráðuneytisins að hin kærða stjórnvaldsákvörðun, sem send var aðila máls í tölvupósti þann 14. júní 2023, hafi verið réttilega birt honum og þar með bindandi, þrátt fyrir að ákvörðunin hafi ekki komið til vitundar hans eftir að sá frestur var runnin út. Eftir að stjórnvaldsákvörðun hefur öðlast bindandi réttaráhrif, er hægt að beita þvingunarúrræðum til þess að knýja aðilann, sem ákvörðuninni er beint gegn, til þess að fara að efni ákvörðunarinnar. Á sama hátt getur aðili málsins borið fyrir sig þá réttarstöðu sem slík ákvörðun veitir honum.
Í 2. mgr. 20. gr. ssl. er kveðið á um leiðbeiningar sem veita skal þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur. Kemur þar fram að veita skuli leiðbeiningar um heimild aðila til að fá ákvörðun rökstudda, kæruheimild ef hún er fyrir hendi, kærufresti, svo og hvert beina skuli kæru. Jafnframt skal tilgreina þann frest til þess að bera ákvörðun undir dómstóla ef slíkur frestur er lögákveðinn. Af gögnum málsins má sjá að MAST hafi ekki veitt kæranda fullnægjandi upplýsingar, þannig var ekki leiðbeint um kærurétt þar sem viðhengi með bréfinu barst aldrei kæranda. Þrátt fyrir það getur ráðuneytið ekki séð að slíkt hafi valdið kæranda réttarspjöllum í fyrirliggjandi máli þar sem kærandi hefur nú kært ákvörðunina til ráðuneytisins.
Þá er til skoðunar sú ósk kæranda um að ráðuneytið kanni hvort tilefni sé til opinberrar áminningar eða hvort almenn hegningarlög nr. 19/1940 eða lög um persónuvernd nr. 90/2018 hafi verið brotin af hálfu MAST í fyrirliggjandi máli. Samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hefur Persónuvernd eftirlit með lögum og reglum um vinnslu persónuupplýsinga. Þá framfylgja lögregluembætti og ákæruvaldið almennum hegningarlögum. Telji kærandi brotið gegn ákvæðum framangreindra laga er unnt að leita til viðeigandi stjórnvalda. Þá er jafnframt vísað til þess að samkvæmt 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ber forstöðumaður ábyrgð á að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar. Að því virtu er rétt að athugasemdum um framferði starfsmanna sé beint til forstöðumanns MAST sem fer með starfsmannahald stofnunarinnar.
Af öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að kærð ákvörðun MAST, dags. 14. júní 2023, um kröfu stofnunarinnar um afhendingu á hrúti nr. [C] til slátrunar þann 19. júní 2023, hafi verið birt kæranda í samræmi við 1. mgr. 20. gr. ssl. Þá er það mat ráðuneytisins að sú ákvörðun stofnunarinnar sé enn í gildi þrátt fyrir að ákvörðunin hafi komið til vitundar kæranda eftir að sá frestur var runninn út. Þá hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem leiða til þess að hnekkja eigi þeirri ákvörðun stofnunarinnar.
Ráðuneytið beinir því til MAST að gæta betur að því að leiðbeina aðilum um kæruheimildir í samskiptum sínum við þá aðila sem til stofnunarinnar leita. Jafnframt ítrekar ráðuneytið mikilvægi þess að kveða skýrlega á um andmælarétt við töku íþyngjandi ákvarðana.
Ráðuneytið telur að ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 14. júní 2023, um kröfu þess efnis að hrútur í eigu kærandi verði afhentur til stofnunarinnar er hér með staðfest.