Ákvörðun Matvælastofnunar um synjun innflutnings á hundi sem er blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier til Íslands.
Stjórnsýslukæra
Með erindi, dags. 14. júlí 2021, kærði [X] ákvörðun Matvælastofnunar 18. maí 2021, um synjun innflutnings á hundi sem er blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier til Íslands.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.
Krafa
Þess er krafist að ákvörðun Matvælastofnunar verði ógild og að kæranda verði veitt heimild til þess að flytja hundinn til landsins.
Málsatvik
Þann 17. febrúar 2021 féll úrskurður vegna stjórnsýslukæru kæranda þar sem ráðuneytið vísaði stjórnvaldsákvörðun Matvælastofnunar, dags. 11. mars 2020, þess efnis að synja kæranda um innflutning á sama hundi og um er að ræða í máli þessu aftur til stofnunarinnar og var lagt fyrir stofnunina að taka málið til meðferðar að nýju. Matvælastofnun tók málið upp að nýju í samræmi við þá niðurstöðu ráðuneytisins að rökstuðningur Matvælastofnunar fyrir ákvörðuninni væri ófullnægjandi. Ráðuneytið taldi sig þannig ekki í stöðu til þess að taka ákvörðun í málinu á grundvelli þeirra gagna sem þá lágu fyrir enda byggi Matvælastofnun yfir sérfræðiþekkingu á skilgreiningu hundategunda en ekki ráðuneytið og bæri því að rannsaka málið til hlítar áður en ákvörðun væri tekin.
Hinn 19. febrúar 2021 barst kæranda bréf Matvælastofnunar um fyrirhugaða höfnun á innflutningi á hundinum, sem er blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier, og var kæranda veittur frestur til að koma á framfæri athugasemdum til 5. mars 2021. Þann 10. mars höfðu Matvælastofnun engin andmæli borist og var kæranda tilkynnt um höfnun um leyfi til innflutnings. Í kjölfarið upplýsti kærandi stofnuninni um að andmæli hefðu verið send til stofnunarinnar. Matvælastofnun afturkallaði því höfnunarbréfið þann 11. mars, þannig að hægt væri að taka afstöðu til andmæla kæranda. Þann 6. maí barst kæranda bréf Matvælastofnunar um ákvörðun um synjun á innflutningi hunds kæranda. Í samskiptum kæranda og Matvælastofnunar 6. og 7. maí óskaði kærandi eftir endurskoðun á ákvörðun Matvælastofnunar. Þann 18. maí 2021 upplýsti Matvælastofnun kæranda um að ákvörðun frá 6. maí 2021 stæði.
Með tölvubréfi, dags. 14. júlí 2021, var ákvörðun um synjun á innflutningi hundsins kærð til ráðuneytisins. Hinn 27. júlí óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið og veitti frest til 10. ágúst. Matvælastofnun óskaði eftir framlengdum fresti til umsagna og barst umsögn Matvælastofnunar þann 23. ágúst 2021. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnar Matvælastofnunar. Andmæli kæranda bárust 7. október 2021.
Sjónarmið kæranda
Kærandi byggir á því að hundurinn sem hann óskar eftir að flytja til landsins sé blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier, Boxer og German Sheperd. Því til stuðnings leggur kærandi fram greiningu á umræddum hundi sem hann lét framkvæma af Genomia genetic laborator. Í skjalinu kemur fram að hundurinn sé 50% blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier, 37,5% blendingur af tegundinni Boxer og 12,5% af tegundinni German Sheperd Dog. Kærandi telur tegundina American Staffordshire Terrier ekkert eiga sameiginlegt með tegundunum American Pitbull Terrier eða Staffordshire bull terrier nema eiga sömu forfeður.
Að mati kæranda hafi Matvælastofnun heimild til þess að víkja frá almennu ákvæði um bann við innflutningi á dýrum til landsins í tilvikum þar sem tegundir séu hvorki á lista yfir tegundir sem bannað er að flytja inn til landsins samkvæmt reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta, né samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 935/2004. Í ákvæði 14. gr. reglugerðar nr. 200/2020 sé kveðið á um hundategundir sem óheimilt sé að flytja til landsins og sé þar ekki vísað til American Staffordshire Terrier heldur einungis Staffordshire Bull Terrier sem sé í raun English Staffordshire Terrier. Kærandi vísar til þess að hann hafi í tvígang lagt fram beiðni til Matvælastofnunar um innflutning umrædds hunds til landsins en hafi í bæði skiptin verið hafnað.
Kærandi byggir einnig á eldra máli þar sem Matvælastofnun hafi vikið frá ákvæðum um bann við innflutningi og heimilað innflutning á hundi af tegundinni English Bull Terrier. Hafi því ekki verið gætt jafnræðis á grundvelli 11. gr. stjórnsýslulaga enda hafi stofnunin í því tilviki upphaflega borið sömu rök fyrir og í máli kæranda en síðar komist að þeirri niðurstöðu að heimila innflutning hundsins.
Kærandi byggir á því að ákvörðun Matvælastofnunar að synjun um innflutning á hundi kæranda sé afar íþyngjandi og að ekki hafi verið gætt meðalhófs samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi vísar til þess að Matvælastofnun sé ríkisstofnun og beri því ríka rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
Kærandi vísar til þess að Matvælastofnun taki eftirfarandi fram í ákvörðun sinni: „Mjög erfitt getur verið að skilja á milli þessara tegunda og víða í heimildum er fjallað um „pit bull-type dog“ eða „pit bull“ sem samheiti yfir hunda/-tegundir sem eru í grunnin ólíkar erfðafræðilega en líkar og útliti og erfitt er að greina á milli“. Kærandi vísar til orða Matvælastofnunar „ólíkar erfðafræðilega“ og telur þá kærandi að þar með séu tegundirnar ekki þær sömu en að Matvælastofnun skilgreini þær engu að síður sem þær sömu vegna útlits. Kærandi telur að útlitsmunur sé á öllum þeim tegundum sem Matvælastofnun tilgreinir, stærð, þyngd, feldi og andlitsmótun. Kærandi vísar jafnframt til þess að Bretland leyfi tegundirnar Staffordshire Bull Terrier og American Staffordshire Terrier standist þær skapgerðarmat.
Umsögn Matvælastofnunar
Matvælastofnun byggir á því að niðurstaða stofnunarinnar hafi verið sú að hafna innflutningi umrædds hunds á grundvelli 5. tl. f-liðar 14. gr. reglugerðar nr. 200/2020, þar sem kveði er á um að óheimilt sé að flytja inn „aðrar hundategundir eða blendinga, samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar í hverju tilfelli“. Hafi sú ákvörðun verið á þeim forsendum að um væri að ræða tegund sem mjög erfitt sé að aðgreina frá bönnuðu tegundunum Pit Bill Terrier og/eða Staffordshire Bull Terrier og að þær ástæður sem liggi fyrir banni við innflutningi á Pit Bill Terrier og/eða Staffordshire Bull Terrier eigi einnig við um hunda af tegundinni American Staffordshire Terrier og blendinga af þeirri hundategund.
Matvælastofnun hafnar þeim sjónarmiðum kæranda að tegundin American Staffordshire Bull Terrier sé ekki til og bendir stofnunin í því sambandi á að sú tegund komi fram í ýmsum heimildum. Þá segir stofnunin að þetta geti einnig bent til þess að tegundaheiti þessara náskyldu tegunda séu nokkuð á reiki. Matvælastofnun vísar til þess að tegundin Staffordshire Bull Terrier sé í grunnin bresk hundategund sem eigi uppruna að rekja til Englands. Hundarnir höfðu fyrst verið notaðir sem vinnuhundar en einnig í dýraat. Dýraat hafi seinna verið bannað með lögum árið 1835 en þó höfðu menn haldið áfram að nota tegundina í hundaat. Samfara breyttri notkun hundanna breyttust áherslur í ræktunarstarfinu en þar sem umrædd tegund hafi lengi verið tengd við hundaat hafi ekki verið talið auðsótt að fá tegundina skráða hjá hundaræktarfélagi Bretlands The Kennel Club. Þó hafi tegundin verið skráð undir heitinu Staffordshire Bull Terrier í félaginu árið 1935. Um miðja 19. öld höfðu margir hundar af þessum ættum borist til Norður-Ameríku þar sem þeir urðu þekktir sem American Pit Bull Terrier, Pit Bull Terrier, American Bull Terrier eða Yankee Terrier. Hundaræktarfélagið UKC (United Kennel Club) hafi skráð tegundina American Pit Bull Terrier árið 1898. Ameríska hundaræktarfélagið (AKC) hafi aftur á móti ekki viðurkennt hundategundir sem taldar voru vera „pit bull types“ þar sem slíkir hundar tengdust hundaati en eftir að bann við slíku varð lögbundið fékk tegundin skráningu undir heitinu Staffordshire terrier. Árið 1972 hafi heitinu verið breytt í American Staffordshire Terrier. Matvælastofnun vísar til þess að í sumum heimildum sé tegundin nefnd American Staffordshire Bull Terrier en gjarnan kallist tegundin AmStaff en Bandaríkjamenn ræktuðu stærri hunda og ástæða þótti til að greina þá tegund frá upprunalegu (English) Staffordshire bull terrier sem var skráð sem sérstök tegund 1974. Matvælastofnun vísar til þess að oft reynist erfitt að aðgreina þessar tvær tegundir vegna mikilla líkinda hvað varðar útlit, heiti og uppruna.
Matvælastofnun byggir á því að gæta þurfi jafnræðis við meðhöndlun umsókna um innflutning hunda. Þar sem niðurstaða stofnunarinnar um að tegundin sem um ræðir og blendingar hennar sé sú að innflutningur hennar sé óheimil, skuli það gilda um alla hunda af þeirri tegund. Skapgerðarmati hefur ekki verið beitt í slíkum málum þar sem f. lið 14. gr. reglugerðar nr. 200/2020 á við. Matvælastofnun vísar til sjónarmiða kæranda um að líta skuli til fordæmis um þegar heimilaður var innflutningur á hundi af tegundinni Bull Terrier en stofnunin lítur ekki svo á að tegundin Bull Terrier falli undir Pit Bull Terrier mengið. Matvælastofnun vísar jafnframt til þess að á sl. fjórum árum hefur tveimur umsóknum verið hafnað um leyfi vegna innflutnings á hundum af tegundinni American staffordshire á sömu forsendum og í máli þessu.
Forsendur og niðurstaða
Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar um synjun á innflutning kæranda á hundi sem er blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier, Boxer og German Sheperd.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra er meginreglan sú að óheimilt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a sömu laga er heimilt að víkja frá banninu og getur yfirdýralæknir heimilað innflutning á gæludýrum eða erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir, sbr. 5. gr. laganna. Forsenda heimildar yfirdýralæknis er að fyrirmælum laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim sé fylgt.
Í 3. mgr. 4. gr. a laganna kemur fram að óheimilt sé að veita undanþágu til innflutnings á hundum, blendingum af úlfum og hundum, eða öðrum gæludýrum, sem hætta getur stafað af. Nánar er fjallað um innflutning gæludýra í reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinn er innflutningur hunda óheimill nema að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Í 1. tl. f. liðar 14. gr. reglugerðarinnar eru taldar upp þær tegundir hunda sem ekki er heimilt að flytja inn til landsins. Í ákvæðinu er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að flytja inn hunda til landsins af tegundinni Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier og blendinga af þeim.
Ákvörðun Matvælastofnun um synjun á innflutningi á umræddum hundi er á grundvelli 5. tl. f. liðar 14. gr. reglugerðarinnar sem kveður á um að óheimilt sé að flytja inn „aðrar hundategundir eða blendinga, samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar í hverju tilfelli“. Matvælastofnun byggir ákvörðun sýna á þeim forsendum að um sé að ræða tegund sem sé mjög erfitt að aðgreina frá bönnuðu tegundunum Pit Bull Terrier og/eða Staffordshire Bull Terrier og að þær ástæður sem liggi fyrir banni við innflutningi á Pit Bull Terrier og/eða Staffordshire Bull Terrier eigi við með sama hætti um hunda sem flokkaðir eru sem American Staffordshire Terrier og blendinga af þeirri hundategund.
Að mati kæranda hefur Matvælastofnun heimild til þess að víkja frá almennu ákvæði um bann við innflutningi á dýrum til landsins þar sem tegund umrædds hunds sé ekki á lista yfir tegundir sem bannað er að flytja inn til landsins samkvæmt reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta. Kröfur vegna innflutnings dýra eru strangar og er meginreglan sú að innflutningur dýra er bannaður og skulu undantekningar frá slíku banni túlkaðar þröngt. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 4. gr. a. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, er undanþága frá slíku banni bundin við að ákvæðum laga og reglugerða sé fylgt. Með vísan til umsagnar Matvælastofnunar og sökum líkinda hundsins með tegundum sem eru á lista yfir bönnuðum tegundum í 1. tl. f. liðar 14. gr. reglugerðarinnar telur ráðuneytið að hætta geti stafað af innflutningi af hundi sem er blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier. Að mati ráðuneytisins er því óheimilt að veita undanþágu til innflutnings á hundi kæranda, sbr. 3. mgr. 4. gr. a. laga nr. 54/1990.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið ljóst að skilyrðum ákvæðis 1. mgr. 4. gr. a. laganna og 3. gr. reglugerðarinnar sé ekki fullnægt í málinu og því sé ekki heimilt að veita undanþágu til innflutnings á hundi kæranda. Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.
Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 18. maí 2021, um synjun innflutnings á hundi sem er blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier til Íslands.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 18. maí 2021, um synjun innflutnings á hundi sem er blendingur af tegundinni American Staffordshire Terrier til Íslands, er hér með staðfest.