Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. nóvember 2018

Mánudaginn, 29. apríl 2019, var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með tölvupósti dags. 5. desember 2018, bar [A] (hér eftir kærandi) fram kæru vegna ákvörðunar Matvælastofnunar (hér eftir MAST) frá 22. nóvember 2018 um að synja um innflutning á ketti þar til 120 dagar væru liðnir frá bólusetningu.

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og barst innan kærufrests.

 

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

Þann 16. nóvember 2018 sótti kærandi um að MAST heimilaði innflutning á ketti. Hugðist kærandi flytja köttinn til landsins þann 22. nóvember 2018. Þann 20. nóvember barst stofnuninni heilbrigðis- og upprunavottorð vegna kattarins. Sama dag var kæranda tilkynnt að köttur hans uppfyllti ekki skilyrði innflutnings á tilgreindri dagsetningu þar sem meðal annars skilyrði um biðtíma í kjölfar bólusetningar væri ekki uppfyllt. Ef tekið væri mið af dagsetningu bólusetningar mætti flytja köttinn til landsins í seinni hluta marsmánaðar. Kærandi óskaði í kjölfarið eftir leyfi til innflutningsins 30 dögum eftir skráða bólusetningu í stað 120 daga. MAST hafnaði þeirri beiðni meðal annars með vísan til þess að um fyrstu bólusetningu væri að ræða þar sem fyrri bólusetning hefði verið útrunnin.

Með tölvupósti dags. 21. desember 2018 var ákvörðunin kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með bréfi dags. 12. desember 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn MAST vegna málsins sem barst dags. 3. janúar 2019.  Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á andmælum vegna umsagnarinnar og bárust andmæli þann 21. janúar 2019.

Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

 

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að málið snúi að 120 daga reglunni sem eigi við þegar köttur sé fluttur inn sem hafi ekki áður fengið sprautu við hundaæði. Segir hann MAST vísa í hugtök í læknisfræði sem haldi ekki vatni þar sem hvergi í lögunum sé tekið fram að eftir ákveðinn tíma geti önnur eða þriðja hundaæðissprauta talist vera fyrsta sprauta, enda hljóti lögin og reglur settar með stoð í þeim að gilda um innflutninginn eðli máls samkvæmt. Kveður hann köttinn hafa fengið tvær sprautur gegn hundaæði til viðbótar við þá sprautu sem hann hafi fengið fyrir áætlaðan innflutning, sem sýni að hann sé ekki með hundaæði. Með vísan til þess sé kötturinn bólusettur og samkvæmt lögunum gildi því 30 daga reglan. Það sé ekki ásættanlegt að ekki sé farið eftir gildandi lögum við innflutning dýra heldur vísað til gildistíma bóluefnis án lagastoðar þegar ljóst sé að kötturinn sé bólusettur og niðurstaða nýju bólusetningarinnar ekki tekin gild. Telur hann tilgreindan gildistíma bóluefna ekki eiga sér stoð í lögunum heldur sé vísað til hugtaka í læknisfræði. Þau komi lögum og reglum um innflutning dýra ekki við nema þau séu skilgreind þar. Ljóst sé að þetta hafi ekki verið fyrsta bólusetning kattarins og án lagastoðar um annað gildi 30 daga reglan.

Telur kærandi að MAST sé að búa til nýja reglu um hvað teljist fyrsta bólusetning um leið og stofnunin leggi áherslu á þrönga túlkun ákvæða laganna. Ljóst sé að stofnunin átti sig ekki á túlkun laga og reglna er varða réttindi borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld, en stjórnsýslulög séu sett til verndar almenningi en ekki stjórnvöldum vegna þess mikla mismunar sem ríki milli einstaklinga sem eigi í samskiptum við yfirvöld. Þetta þýði að stjórnvald geti ekki eftir sinni hentisemi samið eða sett nýja reglu sem gilda eigi ef „fyrsta“ bólusetning telst að einhverjum sökum eldri en almennt gengur. Það breyti með engu þeirri staðreynd og ófrávíkjanlegu reglu sem fram komi í reglugerðinni að 30 daga reglan gildi þegar um endurbólusetningu sé að ræða og sé þar vísað í lagarök og réttarheimildir sem fram hafi komið í málinu og varði innflutning á dýrum. Þá tekur kærandi fram að þótt honum hafi verið sendar reglur MAST nokkrum sinnum vegna innflutnings gæludýra segi þær beinlínis ekki neitt sem máli skiptir og ekki komi fram í lögunum. Enda gætu þær, þótt svo væri, ekki gengið framar þeim lögum og reglum er gilda um innflutninginn.

Um málsmeðferð og sjónarmið kæranda vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

 

Sjónarmið MAST

MAST bendir á að málið snúi fyrst og fremst um varnir gegn sjúkdómnum hundaæði sem sé banvænn sjúkdómur. Sjúkdómurinn orsakist af veiru sem ræðst á miðtaugakerfið og veldur heila- og mænubólgu. Meðgöngutími sjúkdómsins er allt að eitt ár en að jafnaði ein vika til nokkurra mánaða hjá hundum og köttum. Í löndum þar sem hundaæði er landlægt sé bólusetning dýra sem geti borið veiruna mikilvægasta leiðin til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

Þá tekur MAST fram að greint sé á milli „fyrstu bólusetningar“ og „endurbólusetningar.“ Fyrsta bólusetningin sé fyrsta bólusetningin í röð endurtekinna bólusetninga sem gerðar séu í þeim tilgangi að viðhalda ónæmi gegn viðkomandi sjúkdómi. Endurnýjun bólusetningar fari fram áður en gildistími fyrri bólusetningar rennur út, annars sé hætt við því að mótefnin í blóðinu minnki og dýrið sé óvarið gegn viðkomandi sjúkdómi á milli bólusetninga. Fari endurnýjun bólusetningar ekki fram innan tilskilins tíma þurfi að bólusetja viðkomandi dýr aftur og séu slíkar bólusetningar taldar „fyrsta bólusetning“, þ.e. dýrið sé meðhöndlað með sama hætti og önnur dýr sem séu ekki með ónæmi fyrir viðkomandi sjúkdómi.

Vegna innflutnings katta til Íslands kveði reglugerð nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis á um að bólusetja skuli ketti gegn hundaæði þegar þeir hafa náð a.m.k. 12 vikna aldri. Bólusetningin skuli fara fram á síðustu 365 dögum fyrir innflutning. Að lágmarki 120 dagar skuli líða frá fyrstu bólusetningu þar til kettir mega koma til landsins, svo fremi sem niðurstaða mótefnamælingar sé fullnægjandi. Sé um gilda endurbólusetningu að ræða, og niðurstaða mótefnamælingar sé fullnægjandi, sé heimilt að flytja köttinn inn 30 dögum eftir endurbólusetningu. Þetta sé að sjálfsögðu háð því að önnur skilyrði vegna innflutnings séu einnig uppfyllt.

MAST kveður ástæðu þess að krafist sé 120 daga biðtíma eftir fyrstu bólusetningu gegn hundaæði vera hinn langa meðgöngutíma sjúkdómsins. Smitist dýr af hundaæði skömmu fyrir eða eftir bólusetningu sé ekki nægjanlegt magn mótefna í blóði dýrsins og hætta sé á sýkingu. Vegna fyrrgreinds meðgöngutíma sjúkdómsins sé því mögulegt að einkenni komi ekki fram fyrr en að vikum eða mánuðum liðnum. Því sé krafist 120 daga biðtíma að lokinni bólusetningu og við það bætist fjögurra vikna dvöl í einangrun. Þá séu liðnir a.m.k. fimm mánuðir frá bólusetningu og hafi dýrið smitast séu miklar líkur á því að einkenni hundaæðis komi fram fyrir þann tíma. Þá skuli, auk bólusetningarinnar, fara fram mótefnamæling á blóðsýni sem tekið skal í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu.

Í umsögn MAST kemur fram að þann 16. nóvember 2018 hafi stofnuninni borist umsókn kæranda um leyfi til innflutnings á ketti. Með því að senda inn slíka umsókn skuldbindi innflytjandi sig til að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem MAST setji sem skilyrði til innflutnings og einangrunar skv. reglugerðum nr. 935/2004 og 432/2003. Í umsókn komi fram að um sé að ræða calico kött (húskött) sem fæddur sé 19. febrúar 2008. Í tölvupóstsamskiptum við kæranda hafi komið fram að hann hygðist flytja köttinn til Íslands fimmtudaginn 22. nóvember 2018. Er staðfesting á greiðslu gjalds vegna innflutningseftirlits hafði borist, hafi stofnunin veitt kæranda innflutningsleyfi. Í leyfisbréfi komi fram að uppfylla skuli skilyrði reglugerðar nr. 935/2004. Skannað afrit leyfisbréfs hafi verið sent kæranda ásamt veftengli á leiðbeiningar um innflutning katta. Kærandi hafi ekki átt frátekið pláss fyrir köttinn í einangrunarstöð en hafi fengið úthlutað plássi fyrir köttinn þann 21. nóvember 2018. Bent er á að samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 935/2004 skal innflytjandi senda yfirdýralækni (MAST) a.m.k. 5 dögum fyrir áætlaðan komudag öll tilskilin vottorð vegna innflutningsins til umsagnar og samþykktar. Í lok dags. 20. nóvember 2018 hafi stofnuninni borist heilbrigðis- og upprunavottorð vegna kattarins sem gefið hafði verið út þann 19. nóvember 2018 af tilgreindum dýralækni í Bandaríkjunum. Auk þess að berast of seint hafi eftirfarandi þættir í vottorðinu ekki staðist skilyrði fyrrgreindrar reglugerðar:

a)   Bólusetning gegn hundaæði: Samkvæmt vottorðinu hafði kötturinn fengið tvær bólusetningar gegn hundaæði, þ.e. 19. júní 2007 (gildistími til 19. júní 2008) og 19. nóvember 2018 (gildistími til 19. nóvember 2019). Þar sem bólusetning frá árinu 2007 hafði ekki verið endurnýjuð hafi bólusetningin sem kettinum var gefin þann 19. nóvember 2018 talist vera fyrsta bólusetning og því þurfi að líða að lágmarki 120 dagar þar til heimilt sé að flytja köttinn til landsins. Í tilfelli kattar kæranda voru einungis liðnir 2 dagar frá bólusetningu og þar til fyrirhugað var að flytja köttinn inn.

b)   Mótefnamæling vegna hundaæðis: Blóðsýni vegna mótefnamælingar hafi verið tekið þann 19. nóvember 2018, þ.e. sama dag og kötturinn hafi verið bólusettur gegn hundaæði. Í því samhengi er bent á að ekki sé horft til bólusetningar frá árinu 2007 þar sem hún hafði runnið út 10 árum fyrr. Með vísan til framangreinds höfðu tilskildir 30 dagar frá bólusetningu ekki liðið þar til mótefnamæling var gerð auk þess sem niðurstöður mælingarinnar lágu ekki fyrir.

c)   Bólusetning gegn kattafári, kattaflensu og kattakvefi: Köttur kæranda hafi verið bólusettur gegn þessum sjúkdómum þann 19. nóvember 2018 og því einungis 2 dagar frá bólusetningu og þar til fyrirhugað var að flytja köttinn inn.

d)   Rannsókn vegna salmonellu: Saursýni úr ketti kæranda hafi verið sent til greiningar þann 19. nóvember 2018 og dregið var í efa að niðurstöður lægju fyrir þann sama dag.

e)   Fæðingardagur kattar: Skráður fæðingardagur kattarins (sá sami og hafi komið fram í umsókn) sé 19. febrúar 2008. Stangist sú fæðingardagsetning á við dagsetninguna 19. júní 2007 sem skráð sé að kötturinn hafi verið bólusettur gegn hundaæði.

 

Sama dag og framangreint vottorð hafi borist MAST hafi kæranda verið tilkynnt með tölvupósti að köttur hans uppfyllti ekki skilyrði vegna innflutnings. Skilyrði um biðtíma (dagafjölda) í kjölfar bólusetninga hafi verið útskýrð og jafnframt hafi fylgt með tengill á vef stofnunarinnar þar sem reglur um innflutning katta sé að finna. Auk þess hafi verið tekið fram að ef tekið væri mið af bólusetningu kattarins gegn hundaæði þann 19. nóvember 2018 mætti flytja hann til landsins í seinni hluta marsmánaðar 2019. Kærandi hafi fallist á þá niðurstöðu að innflutningur kattarins yrði ekki heimilaður þann 21. nóvember 2018. Kærandi hafi þó óskað eftir heimild til að flytja köttinn til Íslands 30 dögum eftir bólusetningu í stað 120 daga eins og kveðið sé á um í reglugerð nr. 935/2004 á þeim forsendum að bólusetningin þann 19. nóvember 2018 yrði skilgreind sem endurbólusetning. Einnig hafi komið fram í tölvupósti frá kæranda að hann hafi ekki séð í reglugerð né á vef stofnunarinnar neitt sem staðfesti að bólusetningin sem kötturinn hafi fengið í nóvember 2018 skuli teljast fyrsta bólusetning og félli því undir 120 daga regluna. Í tölvupósti til kæranda hafi verið bent á að endurbólusetning teljist aðeins gild sé hún framkvæmd innan gildistíma fyrri bólusetningar og að sé fyrri bólusetning útrunnin þá teljist næsta bólusetning á eftir vera fyrsta bólusetning. Kæranda hefi einnig verið bent á að fleiri þáttum í vottorðinu hafi verið ábótavant.

Vísað er til þess að þann 20. nóvember 2018 hafi kærandi sent MAST með tölvupósti mynd af eyðublaði frá The Humane Society of Tampa Bay sem hann segir staðfesta að kötturinn hafi verið bólusettur gegn hundaæði árið 2010. Eyðublaðið frá The Humane Society of Tampa Bay hafi verið með álímdu bandarísku hundaæðisbólusetningarmerki með ártalinu 2010. Á eyðublaðinu hafi verið upplýsingar um kött með öðru nafni en uppgefið var vegna kattar kæranda og einnig hafi staðið „rabies vaccine due 6-19-08“ sem bendi til þess að kötturinn hafi verið bólusettur þann 19. júní 2007. Þó sé ekkert á þessu skjali sem staðfesti að það eigi við kött kæranda. Þessi gögn hafi því ekki skýrt málið frekar og hafi kæranda verið gert ljóst að jafnvel þótt kötturinn hafi verið bólusettur árið 2010 þá væri sú bólusetning einnig útrunnin þar sem hundaæðisbóluefni hafi ýmist eins, tveggja eða þriggja ára gildistíma. MAST sé a.m.k. ekki kunnugt um hundaæðisbóluefni sem hafi yfir 8 ára gildistíma. Í sama tölvupósti segi kærandi það ekki standast sem fram komi í erindi stofnunarinnar að síðasta bólusetningin hafi verið árið 2007 þar sem kötturinn hafi fæðst árið 2008. Bendir MAST á að hér hafi stofnunin þó verið að vísa í gögn sem kærandi hafi sjálfur lagt fram.

Bendir MAST á að undirbúningur fyrir innflutning katta taki jafnan nokkra mánuði og mikilvægt sé að innflytjendur kynni sér heilbrigðiskröfur tímanlega. Slíkt virðist ekki hafa átt við í tilfelli kæranda þar sem hann átti ekki pantað pláss fyrir köttinn sinn í einangrunarstöð, umsókn um leyfi til innflutning hafi borist eingöngu 5 dögum fyrir áætlaðan innflutning, farið hafi verið með köttinn í fyrsta og eina skiptið til dýralæknis vegna innflutningsins tveimur dögum fyrir áætlaðan innflutning og þegar kærandi hafi óskað eftir endurskoðun málsins hafi hann borið því við að kostnaður við vottorðið hafi verið hár ekki síst vegna flýtimeðferðar. Hafi enda komið í ljós að töluvert hafi vantað upp á að kötturinn uppfyllti heilbrigðisskilyrði eins og rakið hafi verið. Telur MAST ámælisvert að dýralæknir gefi út vottorð sem standist augljóslega ekki þau skilyrði sem komi skýrt fram á vottorðseyðublaðinu. Vafi leiki auk þess á um uppruna upplýsinga um hundaæðisbólusetningu sem kötturinn á að hafa hlotið þann 19. júní 2007 sem stangist á við fæðingardag kattarins sem skráður sé í vottorðið. Hvað téða 120 daga reglu varði segist kærandi ekki hafa séð í reglugerð né á vef stofnunarinnar neinar upplýsingar sem styðja þá niðurstöðu MAST að hundaæðisbólusetning sú sem kötturinn hans hafi fengið í nóvember 2018 skuli teljast fyrsta bólusetning og falli því undir 120 daga regluna. Í því samhengi bendir stofnunin á leiðbeiningar um innflutning katta til Íslands á vefnum mast.is. Kæranda hafi tvívegis verið sendur tengill á vefinn þar sem leiðbeiningarnar sé að finna, þann 20. nóvember kl. 15.09 þegar honum hafi verið sent innflutningsleyfið og svo aftur sama dag kl. 16.06 þegar það hafi legið fyrir að stofnunin heimilaði ekki innflutning kattarins.

Um bólusetningu gegn hundaæði segi í fyrrgreindum leiðbeiningum að hún skuli hafa farið fram í mesta lagi 365 dögum fyrir innflutning, kötturinn skuli hafa verið a.m.k. 12 vikna gamall við fyrstu bólusetningu og 120 dagar þurfi að líða frá fyrstu bólusetningu þar til kötturinn megi koma til landsins (svo fremi sem niðurstaða mótefnamælingar sé fullnægjandi). Sé um gilda endurbólusetningu að ræða (og niðurstaða mótefnamælingar sé fullnægjandi) sé heimilt að flytja köttinn inn 30 dögum eftir endurbólusetningu. MAST kveður hugtökin „fyrsta bólusetning“ og „endurbólusetning“ ekki skilgreind sérstaklega í reglugerð nr. 935/2004, en líta verði til málnotkunar á þessum hugtökum í tengslum við bólusetningar og innflutning dýra og ekki síður að skýrt sé kveðið á um í reglugerðinni varðandi þann mun sem felst í því að taka mið af annars vegar fyrstu bólusetningu og hins vegar endurbólusetningu gegn hundaæði: „óheimilt er að flytja hunda og ketti til landsins fyrr en 120 dagar eru liðnir frá því þeir voru fyrst bólusettir gegn hundaæði. Sé um endurbólusetningu að ræða og hafi mótefni mælst að minnsta kosti 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið inn 30 dögum eftir síðustu endurbólusetningu.“

Hvað aðrar bólusetningar varði þá skuli líða 30 dagar frá bólusetningu þar til flytja megi köttinn (eða hundinn) til landsins hvort sem um sé að ræða fyrstu bólusetningu eða endurbólusetningu. Í liðum ii-v b. liðar 7. tölul. 11. gr. segi að dýrin skuli fullbólusett gegn við komandi sjúkdómum og að fylgja skuli fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar. Verklag MAST við mat á vottorðum og öðrum bólusetningargögnum vegna innflutnings katta og hunda taki mið af framangreindu. Sambærileg mál og mál kæranda hafi komið upp áður hjá stofnuninni og mikilvægt sé að jafnræðis sé gætt við meðferð slíkra mála.

Að lokum tekur MAST fram að strangar reglur gildi um innflutning katta og hunda til Íslands enda sé um að ræða undanþágu frá almennu banni við innflutningi dýra í lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra. Heimildir sem byggi á slíkum undanþágum beri að túlka þröngt. Flestum íslenskum dýraeigendum sé kunnugt um að ekki sé heimilt að flytja inn gæludýr nema að undangenginni heilbrigðisvottun auk þess sem dýrin skuli dvelja í einangrun eftir að þau komi til landsins. Kærandi dragi í efa lögmæti ákvörðunar MAST sem snúi að skilgreiningu hundaæðisbólusetningu kattarins þann 19. nóvember 2018 sem fyrstu bólusetningu og því þurfi að líða að minnsta kosti 120 dagar frá þeirri dagsetningu þar til flytja megi köttinn til landsins. Bent er á að stofnunin byggi þá ákvörðun sína á skýrum ákvæðum reglugerðar nr. 935/2004 og þeirri staðreynd að endurbólusetning teljist ekki gild nema hún sé framkvæmd innan gildistíma fyrri bólusetningar. Ein forsenda kæranda fyrir beiðni um endurskoðun ákvörðunar stofnunarinnar hafi verið sú að vottorð sem lagt hafi verið fram hafi verið kostnaðarsamt, en hefði kærandi kynnt sér reglur um innflutning tímanlega hefði verið hægt að komast hjá aukakostnaði vegna flýtimeðferðar.

Eins og að framan greini hafi köttur kæranda verið bólusettur gegn hundaæði þann 19. júní 2007 og gilti sú bólusetning til 19. júní 2008. Ef MAST myndi samþykkja að bólusetning gegn hundaæði sem gefin hafi verið 10 árum og 5 mánuðum síðar yrði skilgreind sem endurbólusetning væri það í mótsögn við gildandi reglur sbr. reglugerð nr. 935/2004 og verklag stofnunarinnar. 

Um sjónarmið MAST vísast að öðru leyti til þess sem segir í bréfi stofnunarinnar.

 

Forsendur og niðurstaða

Stjórnsýslukæran sem hér er til meðferðar barst ráðuneytinu innan kærufrests, gagnaöflun er lokið, málið telst nægilega upplýst og því tekið til úrskurðar. Mál þetta lýtur að skilyrðum laga nr. 54/1990 um innflutning dýra og reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis, ásamt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Heimilt er að víkja frá því banni sem um getur í 1. mgr. 2. gr. laganna samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a. sömu laga. Yfirdýralæknir (MAST) getur þá heimilað innflutning á gæludýrum eða erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir sbr. 5. gr. laganna, enda sé fylgt fyrirmælum sem felast í lögum um innflutning dýra og reglugerðum er settar eru samkvæmt þeim. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. a laganna skal meta áhættu af innflutningi á gæludýri og heimilt er að krefja innflytjanda um upplýsingar um heilbrigði gæludýrs, þ.m.t. heilbrigðis- og upprunavottorð, sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu, rannsóknir og meðhöndlun gæludýrs eða erfðaefnis fyrir innflutning. Samkvæmt 8. gr. sömu laga skal hvert einstakt dýr sem flytja skal inn heilbrigðisskoðað af embættisdýralækni og skulu vottorð og aðrar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir áður en innflutningur fer fram. 

Nánar er fjallað um innflutning gæludýra í reglugerð nr. 935/2004, um innflutning gæludýra og hundasæðis. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að innflutningur gæludýra sé óheimill nema að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Auk þess kemur fram að innflytjandi staðfesti með undirskrift sinni að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem sett verði sem skilyrði fyrir innflutningnum. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar skal innflytjandi sjá til þess að þau vottorð sem krafist sé fylgi dýrinu við innflutning. Samkvæmt 5. gr. skal heilbrigðis- og upprunavottorð fylgja öllum gæludýrum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins. Kemur fram að vottorðið skuli vera rétt útfyllt og staðfest með undirskrift þess dýralæknis sem fyllti það út.  Jafnframt kemur fram að auk heilbrigðis- og upprunavottorðs skuli fylgja þeim gæludýrum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins m.a. staðfesting rannsóknarstofu á niðurstöðum blóðrannsóknar á hundaæðismótefnum. Í 9. gr. reglugerðarinnar kemur skýrt fram að ef það komi í ljós að skilyrðum reglugerðarinnar sé ekki framfylgt í hvítvetna falli innflutningsleyfið samstundis úr gildi og dýrið sent úr landi sé þess kostur en aflífað ella, bótalaust og á kostnað eiganda.

Í II. kafla reglugerðarinnar er svo fjallað um innflutning katta. Í 11. gr. er upptalning á því sem staðfest skuli í heilbrigðis- og upprunavottorði katta. Í fyrrgreindri upptalningu er meðal annars kveðið á um bólusetningar sbr.  i. lið b. liðar 7. tölul. 11. gr. sem hljóðar svo: „Bólusetning gegn hundaæði (rabies) – hundar og kettir: Á síðustu 365 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda og ketti sem koma frá landi með hundaæði, sbr. e-lið 2. gr., með deyddu bóluefni gegn hundaæði. Dýrin skulu vera að minnsta kosti 12 vikna gömul við fyrstu bólusetningu. Mæla skal magn mótefnis í blóði í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og skal það vera að minnsta kosti 0,5 a.e./ml. Sé það lægra er óheimilt að flytja dýrið til landsins. Mælingarnar skulu framkvæmdar á viðurkenndri rannsóknarstofu á EES-svæðinu eða í Bandaríkjunum. Óheimilt er að flytja hunda og ketti til landsins fyrr en 120 dagar eru liðnir frá því þeir voru fyrst bólusettir gegn hundaæði. Sé um endurbólusetningu að ræða og hafi mótefni mælst að minnsta kosti 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið inn 30 dögum eftir síðustu endurbólusetningu.“

Ljóst er að um strangar kröfur er að ræða þegar kemur að innflutningi dýra þar sem meginreglan er sú að innflutningur dýra er bannaður. Í 1. mgr. 4. gr. a. laga um innflutning dýra er að finna heimild til að víkja frá banni samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990 og leyfa innflutning á gæludýrum, enda sé fylgt fyrirmælum sem felast í lögum um innflutning dýra og reglugerðum er settar eru samkvæmt þeim. Um er að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 2. gr. laganna. Almennt skal túlka undantekningu sem þessa í lögum þröngt, enda er nánar fjallað um innflutning katta í 2. mgr. 4. gr. a. laganna. Þar kemur fram að meta skuli áhættu af innflutningi og heimilt sé að krefja innflytjanda um upplýsingar um heilbrigði gæludýrs, þ.m.t. heilbrigðis- og upprunavottorð, sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu, rannsóknir og meðhöndlun gæludýrs.

MAST metur hvort þau dýr sem sótt er um innflutning fyrir uppfylli skilyrði fyrrgreindra laga og reglugerða sem gilda um slíkan innflutning. Samkvæmt umsögn stofnunarinnar uppfyllti köttur kæranda ekki tilgreind skilyrði við innflutning en sérstaklega er deilt um skilgreiningu stofnunarinnar á hundaæðisbólusetningu kattarins sem „fyrstu bólusetningu.“ Þó svo að umrædd hugtök séu ekki skilgreind sérstaklega í reglugerð nr. 935/2004, tekur ráðuneytið undir þá túlkun MAST að líta verði til málnotkunar á þessum hugtökum í tengslum við bólusetningar og innflutning dýra og að í reglugerð nr. 935/2004 sé skýrt kveðið á um þann mun sem felst í því að taka mið af annars vegar fyrstu bólusetningu og hins vegar endurbólusetningu gegn hundaæði: „óheimilt er að flytja hunda og ketti til landsins fyrr en 120 dagar eru liðnir frá því þeir voru fyrst bólusettir gegn hundaæði. Sé um endurbólusetningu að ræða og hafi mótefni mælst að minnsta kosti 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið inn 30 dögum eftir síðustu endurbólusetningu. Er þessi munur ítrekaður í leiðbeiningum stofnunarinnar um innflutning katta til Íslands en þar segir að heimilt sé að flytja kött inn 30 dögum eftir gilda endurbólusetningu.

Líkt og fram hefur komið er sú krafa gerð samkvæmt viðeigandi lögum og regulgerðum að þeim fyrirmælum sem sett eru vegna innflutningsins sé fylgt í hvívetna. Með tilliti til gagna málsins tekur ráðuneytið undir það mat MAST að skilyrði vegna innflutningsins hafi ekki verið uppfyllt og að minnst 120 dagar hafi þurft að líða frá hundaæðisbólusetningu kattarins þann 19. nóvember 2018 þar til leyfilegt væri að flytja hann til landsins að öðrum skilyrðum uppfylltum. Ekki er því fallist á að um ólögmæta ákvörðun sé að ræða.

Með vísan til alls ofangreinds er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun Matvælastofnunar dags. 22. nóvember 2018 um að um að synja um innflutning á ketti kæranda þar til 120 dagar væru liðnir frá hundaæðisbólusetningunni dags. 19. nóvember 2018, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 22. nóvember 2018, um að synja [A] um innflutning á ketti þar til 120 dagar væru liðnir frá hundaæðisbólusetningu dags. 19. nóvember 2018 er hér með staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta