Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 3. júlí 2013 kveðið upp svohljóðandi:
ÚRSKURÐ
Kröfugerð
Með stjórnsýslukæru, dags. 27. febrúar 2013, kærði Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir hdl., Land lögmenn f.h. Brúarreykja ehf., hér eftir nefnt kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. nóvember 2012, þess efnis að afturkalla starfsleyfi félagsins.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 30. nóvember 2012, þess efnis að afturkalla starfsleyfi félagsins verði felld úr gildi og að úrskurðað verði að Matvælastofnun hafi verið óheimilt að afturkalla starfsleyfi og stöðva sölu á mjólk og sláturgripum frá Brúar-reykjum frá og með 1. desember 2012.
Matvælastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi kæranda verði staðfest.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt er kæruheimild í 30. gr. d. laga nr. 93/1995, um matvæli sem kærandi vísar ekki til.
Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti.
Þann 17. janúar 2012 fór héraðsdýralæknir Vesturumdæmis á vegum Matvælastofnunar í eftirlit til kæranda að Brúarreykjum. Kærandi veitti héraðsdýralækni ekki leyfi til að fara inn í fjós en veitti honum leyfi til að fara í girðingu þar sem kvígur voru og var það gert. Héraðsdýralæknir kom aftur til eftirlits að Brúarreykjum þann 19. janúar 2012 og fékk þá símleiðis leyfi kæranda til eftirlits í fjósinu. Samkvæmt meðfylgjandi skoðunarskýrslu eru gerðar m.a. eftirfarandi athugasemdir og frávik vegna matvælaframleiðslu:
a) Handþvotta aðstaða –frávik við búnað - almennt (lið 3.2.01) Ekki vatn í handlaug.
b) Þrif á mjaltaþjóni – ekki getið athugasemda við mjaltaþjón.
c) For út um allt og umgengni léleg/þrif í mjólkurhúsi – frávik við byggingar (lið 3.1.08) Mygla og óhreinindi í lofti, köngulóavefur. Viðhaldi á veggjum ábótavant. Athugasemd við búnað - mjólkurhús (lið 3.2.81) Mjólkurtankur illa þrifinn að utan. Frávik við byggingar - flór og frárennsli (lið 3.1.08) 10 - 15 cm. djúp for þar sem átplássið er. Vantar grindur/frárennsli í haughús. Engar sköfur. Í aðalrými (stóra rýmið): opið gat niður í haughús ca. 25x40 cm. Vantar grind yfir hluta af gamla flórnum. Gúmmímottur og plötur á flórristum með múrstein ofan á. Viðhaldi ábótavant. Slysahætta. Frestur til úrbóta miðast við að hreinsa forina af gólfi og hreinsa bása. Frestur til viðhalds á gólfefnum til 19/4.2012.
d) Merking gripa – frávik við merkingu gripa (lið 5.7.01) Minnstu kálfarnir eru ómerktir (stíu 1, 2 og 3) nema 4. stk. í stíu 3. Kálfar fæddir eftir 1. nóvember með 1 merki. Nokkrar ómerktar kýr.
e) Hreinleiki gripa – frávik við umhirðu (lið 5.2.03) Kýr skýtugar. Legubásar skítugir, þurrir í aðalrými en að hluta til blautir í ganginum. Klóruburstinn er bilaður/ónýtur. Frávik við búnað - gripahús (liður 3.2.74) Kálfastía 4: 10-15 cm. for í flór nema í legubásar (6. stk.) 9 kálfar. Mikill skítur í legubásum. Kálfar skítugir. Kálfastía 3: Bleyta bæði í flór og legusvæði, kálfar skítugir.
Kæranda var veittur frestur til 31. janúar 2012 til að bæta úr þeim atriðum sem athugasemd eða frávik voru gerð við í skoðunarskýrslu. Þá var kæranda veittur frestur til 19. apríl 2012 til að bæta úr viðhaldi á gólfefnum. Héraðsdýralæknir kom í eftirfylgni 2. febrúar 2012. Samkvæmt skoðunarskýrslu dags. 9. febrúar 2012 voru athugasemdir og frávik sem sneru að matvælaframleiðslu m.a. eftirfarandi:
a) Handþvotta aðstaða – ekki getið athugasemda við handþvotta aðstöðu.
b) Þrif á mjaltaþjóni – ekki getið athugasemda við mjaltaþjón.
c) For út um allt og umgengni léleg/þrif í mjólkurhúsi – frávik við búnað - mjólkurhús (lið 3.2.82) Búið að færa illgresieyðir. Ekki búið að færa kassa með verkfæri o.fl. Ekki búið að færa kjötsög. Betri tiltekt þarf að fara fram þannig að þrif verði auðveldari. Kjötsög á ekki að vera í mjólkurhúsi (þó hún sé biluð).
d) Merking gripa – frávik við merkingu gripa (lið 5.7.01) Kálfur sem er ómerkt, Bjarni segir að merkið er dottið úr, ætlar að panta nýtt. Enginn eru með merki í báðum eyrum. Allir gripir fæddir eftir 01. nóv 2011 skulu vera merktir í bæði eyru (Reglugerð 968/2011, 1760/2000, 4. gr.).
e) Hreinleiki gripa – alvarlegt frávik við búnað – gripahús (lið 3.2.74) Ekki búið að moka út kálfastíu 4, né gólf, né legubásar. Úrbótum þarf að vera lokið fyrir 12.02.2012 þar sem dýrin hafa ekkert þurrt og hreint legupláss.
Þann 13. febrúar 2012 kom héraðsdýralæknir í eftirlit til kæranda og samkvæmt skoðunar-skýrslu dags. 1. júní 2012 var búið að moka út úr kálfastíu og fjarlægja hænur.
Þann 4. maí 2012 fór héraðsdýralæknir á vegum Matvælastofnunar í eftirlit til kæranda og voru athugasemdir og frávik sem sneru að matvælaframleiðslu m.a. eftirfarandi:
a) Handþvotta aðstaða –frávik við búnað – almennt (lið 3.2.01) Enn ekki vatn í handlaug. Verður að tengja kalt og heitt vatn í handlaug.
b) Þrif á mjaltaþjóni – ekki getið athugasemda við mjaltaþjón.
c) For út um allt og umgengni léleg/þrif í mjólkurhúsi – frávik við byggingar (lið 3.1.11) Ekki búið að mála eða þrífa veggi. Þarf að þrífa veggi, fjarlægja köngulóarvef og myglu, þarf að gera við og mála veggi.
d) Merking gripa – ekki getið athugasemda við merkingar gripa.
e) Hreinleiki gripa – frávik við búnað – gripahús (lið 3.2.63) 88 gripir (mjólkandi kýr, óbornar kvígur, geldar kvígur, geldar kýr, 1. naut) í lausagöngunni þar sem legupláss er fyrir 64. Reglugerð 438/2002 8. gr.: Í lausagöngufjósum, þar sem eru mjólkurkýr, skulu allar kýr geta legið samtímis á legubásum eða á til þess gerðu legusvæði. Lausn núna verður að setja geldar kýr og kvígur út. Það verður að fækka gripir eða byggja við fyrir næsta haust. Mun Matvælastofnun líta á þetta sem alvarlegt brot ef það verður endurtekið næsta vetur.
Þann 8. nóvember 2012 kom héraðsdýralæknir í eftirlit til kæranda og voru athugasemdir og frávik sem sneru að matvælaframleiðslu m.a. eftirfarandi:
a) Handþvotta aðstaða –frávik við handþvott/salerni (lið 3.3.32) Enn ekkert vatn í handlaug. Verður að tengja kalt og heitt vatn í handlaug. 19.01 var gefinn frestur til úrbóta til 19.04.12. Við skoðun 04.05 var vatn enn ekki tengt, nýr frestur gefinn 01.10.12..
b) Þrif á mjaltaþjóni – frávik við búnað í snertingu við hráefni (lið 4.33.1) Mjaltaþjónn væri skýtugur. Alþrif á mjólkurtank þarf að fara fram.
c) For út um allt og umgengni léleg/þrif í mjólkurhúsi – alvarlegt frávik við búnað ekki í snertingu við hráefni (lið 4.33.2) 10 cm. djúp for í ganginum þar sem átplássið er. Mögulega enn dýpri for í kálfastíu 4. Mikil for í öllum kálfastíum. Umgengni og þrif í mjólkurhúsi ekki í lagi, of mikið óþarfa drasl. Mjólkurtankur skítugur. Alvarlegt frávik við gólf (lið 4.42.1) Ónýt flórrist, slysahætta. Vantar grind yfir hluta af gamla flórnum. Gúmmímottur og plötur á flóristunum með múrstein ofan á. Gólf í ganginum hált. Við skoðun sást kýr sem hrasaði og átti erfitt með að fóta sig en hálkan getur einnig verið vegna forarinnar. Frestur til viðhalds á gólfefnum 19.04.12 var settur í skýrslu í janúar 2012.
d) Merking gripa – frávik við merkingu gripa (lið 7.31.1) Kálfar eru bara með merki í öðru eyranu. Alvarlegt frávik var við skráningar (lið 7.32.1).
e) Hreinleiki gripa – frávik við hreinleika gripa (lið 5.44.4) Mjög skítugir gripir, kálfar og kýr. Nánast ekkert þurrt legupláss í kálfastíunum. Legubásar skítugir og að hluta til blautir (sérstaklega legubásar við átplássið). Vitnað er til athugasemda í skoðunarskýrslu frá 4. maí 2012 vegna hreinleika gripa.
Samkvæmt gögnum málsins sendi héraðsdýralæknir kæranda tölvupóst dags. 9. nóvember 2012 eftir að eftirlit fór fram. Þar gerði héraðsdýrlæknir kæranda m.a. grein fyrir því að krafa sé gerð um að mokað verði út úr fjósi og öllum kálfastíum, mjólkurhús sé þrifið og þar tekið til og fækkað verði fjölda dýra í fjósinu. Í framangreindum tölvupósti kom m.a. fram að Matvælastofnun veitti stutta fresti til úrbóta þ.e.a.s örfáa daga. Afleiðing þess að ekki yrði brugðist við með úrbótum innan frests gæti haft í för með sér að starfsleyfi kæranda yrði afturkallað. Í niðurlagi tölvupóstsins kemur fram að héraðsdýralæknir hafi talið rétt að láta kæranda vita af gangi mála ef vilji væri til að hefjast aðgerða strax. Með tölvupósti dags. 13. nóvember 2012 var kæranda send skoðunarskýrsla vegna eftirlits sem framkvæmt var 8. nóvember 2012. Kæranda var veittur frestur til úrbóta til kl. 12, 15. nóvember 2012. Þá var þess getið í tölvupósti til kæranda að ef ekki yrði búið að lagfæra frávik sem varði matvælaöryggi innan tilskilins frests gæti það leitt til afturköllunar mjólkursöluleyfis.
Þann 15. nóvember 2012 kom héraðsdýralæknir í eftirlit til kæranda og voru athugasemdir og frávik sem sneru að matvælaframleiðslu m.a. eftirfarandi:
a) Handþvotta aðstaða – ekki getið athugasemda við handþvotta aðstöðu.
b) Þrif á mjaltaþjóni– frávik við búnaður í snertingu við hráefni (lið 4.33.1) Mjaltaþjónn skítugur. Enn ekki búið að þrífa mjaltaþjón. Í ljós kemur að einungis hitaveituvatn er notað til að þvo mjólkurtankinn. Sé hitaveituvatn notað til þvotta á mjaltakerfi og tanki skal skola kerfið/tankinn með vatni að neysluvatnsgæðum á eftir. Sláturdýr (öllum gripum verður að endingu slátrað) eru mjög skítug.
c) For út um allt og umgengni léleg/þrif í mjólkurhúsi – frávik við búnað ekki í snertingu við hráefni (lið 4.33.2) Búið að moka út úr fjósinu og úr kálfastíum. Bjarni segist moka út tvisvar á dag. Við komu kl. 13 er for nú þegar að byggjast upp. Með 90 gripi í fjósinu er líklega ekki nóg að moka tvisvar á dag. Veggir í fjósi mjög skítugir. Þarf að þrífa. Búið að taka til í mjólkur-húsinu og þrífa mjólkurtankinn öðru megin. Vantar að klára að þrífa mjólkurtankinn. Þrif á veggjum og þaki ábótavant. Alvarlegt frávik við gólf (lið 4.42.1) Vitnað er til athugasemda við eftirlit 8. nóvember 2012. Ónýt flórrist, slystahætta. Vantar grind yfir hluta af gamla flórnum. Gúmmímottur og plötur á flórristunum með múrstein ofan á. Gólf í ganginum hált. Við skoðun sást kýr sem hrasaði og átti eftirtt með að fóta sig, en hálkan getur einnig verið vegna forarinnar.
d) Merking gripa – frávik við merkingu gripa (lið 7.31.1) Vitnað er til athugasemda við eftirlit 8. nóvember 2012. Kálfar eru bara með merki í öðru eyranu. Alvarlegt frávik við skráningar (lið 7.32.1).
e) Hreinleiki gripa – frávik við hreinleika gripa (lið 5.44.4) Mjög skítugir bæði kálfar og kýr. Skoðaði júgur sérstaklega. Mörg júgur eru það skítug að mjaltaþjónn ræður alls ekki við að þrífa júgur/spena nægilega fyrir mjaltir. Frávik við legurými, þéttleika í stíum (lið 5.44.6) Meira en 90 gripir í fjósinu, en bara 64 legubásar. Vitnað er til athugasemda við eftirlit 4. maí 2012. Í skoðunarskýrslu kemur einnig fram Bjarni segir að áætlað sé að senda 10 kýr í sláturhús fyrir áramót. Tekið fram að ekki verður samþykkt að gripir verði settir út nema ásættanleg aðstaða sé til staðar.
Með bréfi Matvælastofnunar dags. 20. nóvember 2012 var kæranda tilkynnt að með vísan til framangreindra skoðunarskýrslna og á grundvelli 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, hygðist Matvælastofnun afturkalla starfsleyfi kæranda. Lokafrestur til úrbóta hafi verið veittur til 15. nóvember 2012. Í framangreindu bréfi var kæranda veittur andmælafrestur til 26. nóvember 2012 til að koma á framfæri skriflegum andmælum vegna málsins. Andmæli bárust Matvælastofnun með tölvupósti dags. 28. nóvember 2012 þar sem kom fram að úrbætur hefðu átt sé stað. Eftirfarandi kom fram í andmælum kæranda:
a) „Handþvotta aðstaða – úrbætur hafa þegar farið fram eins og kemur fram í bréfi Matvælastofnunar
b) Þrif á mjaltaþjóni – þrif hafa farið fram á mjaltaþjóni til samræmis við ábendingar Matvælastofnunar
c) For út um allt og umgengni léleg/þrif í mjólkurhúsi – úr þessu hefur verið bætt. Fjósið er þrifið núna reglulega fjórum til sex sinnum á dag.
d) Merking gripa – Kýr hafa verið merktar eins og reglugerðir kveða á um frá burði þeirra á öðru eyra. Ef reglugerðum hefur verið breytt á þá lund að merkja þurfi eldri kýr (kýr bornar í tíð eldri reglugerða) á báðum eyrum þá verður brugðist við því á viðeigandi hátt.
e) Hreinleiki gripa – öllum kálfum á Brúarreykjum verður slátrað í næstu viku. Mótmælt er þeirri fullyrðingu Matvælastofnunar að róbóti nái ekki að þrífa spena með fullnægjandi hætti. Í því sambandi er vísað til niðurstöðu mjólkurranssókna Auðhumlu.“
Í andmælum kæranda er þess einnig getið að kærandi hafi farið í einu og öllu eftir ábendingum héraðsdýralæknis. Þá minnir kærandi á í andmælum að reglur stjórnsýslulaga gildi og gæta beri meðalhófs.
Með bréfi dags. 30. nóvember 2012 tók Matvælastofnun ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi Brúarreykja. Í bréfi stofnunarinnar var vakin athygli kæranda á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri heimilt að kæra ákvörðunina til atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytisins. Jafnframt var vakin athygli á 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir að stjórnsýslukæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir hdl. Land lögmenn f.h. Brúarreykja ehf. kærði ákvörðun Matvælastofnunar um afturköllun á starfsleyfi með bréfi dags. 27. febrúar 2013 til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í kæru er þess krafist að ákvörðun Matvæla-stofnunar verði felld úr gildi og úrskurðað að Matvælastofnun hafi verið óheimilt að afturkalla starfsleyfi og stöðva sölu á mjólk og sláturgripum frá Brúarreykjum frá og með 1. desember 2012.
Með bréfi dags. 7. mars 2013 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar um málið og jafnframt öllum þeim gögnum sem stofnunin kynni að hafa um málið en ekki hefðu borist ráðuneytinu. Var Matvælastofnun veittur frestur til 22. mars 2013. Matvælastofnun óskaði eftir viðbótarfresti til að svara beiðni ráðuneytisins með tölvupósti dags. 21. mars 2013. Viðbótarfrestur var veittur til 12. apríl 2013. Þann 12. apríl 2013 bárust umsögn og gögn Matvælastofnunar.
Með bréfi dags. 19. apríl 2013 veitti ráðuneytið kæranda frest til 6. maí 2013 til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn og gögn Matvælastofnunar.
Þann 5. maí 2013 bárust athugasemdir frá kæranda vegna málsins.
Málsástæður og lagarök
Málsástæður og lagarök kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar að afturkalla starfsleyfi verði felld úr gildi og úrskurðað verði að Matvælastofnun hafi verið óheimilt að afturkalla starfsleyfi kæranda og stöðva sölu á mjólk og sláturgripum frá Brúarreykjum frá og með 1. desember 2012.
Kærandi vísar til þess að 8. nóvember 2012 hafi héraðsdýralæknir Vesturumdæmis komið í eftirlit að Brúarreykjum. Í skoðunarskýrslu hafi verið settar fram athugasemdir og alvarleg frávik við lið 4.33.2 búnaður ekki í snertingu við hráefni, lið 7.3.2 skráningar og lið 4.4.2 byggingar. Með bréfi Matvælastofnunar dags. 20. nóvember 2012 hafi verið gerðar athugasemdir við handþvottaaðstöðu, þrif á mjaltaþjóni, for út um allt og umgengni léleg/þrif í mjólkurhúsi, merkingu gripa og hreinleika gripa. Í kæru er vísað til þess að strax eftir eftirlitsferð héraðsdýralæknis þann 8. nóvember 2012 hafi kærandi farið í að framkvæma úrbætur og þrifið fjósið, auk þess að koma merkingum á gripum í lag. Við eftirlit héraðsdýralæknis þann 15. nóvember voru gert alvarleg frávik við lið 7.3.2 úrbætur og lið 4 byggingar og búnað. Kærandi bendir á að Matvælastofnun hafi ekki komið í nýja eftirlitsferð að Brúarreykjum eftir að andmæli dags. 28. nóvember 2012 bárust. Þess í stað tók Matvælastofnun ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi kæranda frá og með 1. desember 2012. Við þá ákvörðun hafi skapast neyðarástand að Brúarreykjum og öll innkoma búsins stöðvast. Þegar leyfi til slátrunar var afturkallað takmarkaðist verulega möguleiki kæranda á að fækka gripum í fjósi til að koma í veg fyrir of mikil þrengsli og auka þannig gæði aðbúnaðar þeirra gripa sem eftir voru.
Kærandi telur að ákvörðun Matvælastofnunar sé byggð á ólögmætum ástæðum. Kærandi telur að brotið hafi verið gegn lögum nr. 93/1995, um matvæli þar sem ekki hafi verið lögð fram gögn þess efnis að mjólk frá Brúarreykjum hafi verið heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Kærandi vísar til skýrslu Auðhumlu þar sem kemur fram að líftala og frumutala mjólkur frá Brúarreykjum var í 1A fl. og 1 fl. þegar ákvörðun um afturköllun á starfsleyfi var tekin. Þá vísar kærandi til 1. mgr. og 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli og telur ljóst að ákvörðun Matvælastofnunar um afturköllun leyfis til mjólkurframleiðslu og slátrun gripa standist ekki ákvæði laganna. Kærandi mótmælir afstöðu Matvælastofnunar að sýnatökur sýni ekki heilnæmi mjólkur. Sýnataka sé sú leið sem tiltæk sé samkvæmt lögum og reglugerðum og sé notuð til að tryggja gæði mjólkur. Kærandi bendir á að sýni sem tekin voru og þau gögn sem lögð hafa verið fram gefi ekki annað til kynna en að gæði mjólkur frá kæranda séu góð. Það feli í sér að mjólk frá kæranda fullnægi þeim stöðlum sem önnur bú á landinu þurfa að uppfylla svo leggja megi hana inn í mjólkurstöð.
Kærandi telur að að athugasemdir eftirlitsaðila hafi ekki verið til þess fallnar að túlka mætti þær sem alvarleg tilvik eða ítrekuð brot samkvæmt 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Kærandi vísar til 9. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli sem fjallar um leyfi til matvælaframleiðslu og heimild Matvælastofnunar skv. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, til að fella úr gildi starfsleyfi. Kærandi hafnar því að í málinu sé um að ræða alvarleg eða ítrekuð brot á lögum um matvæli og reglugerðum eða fyrirmælum sem kæranda voru gefin. Í kæru vísar kærandi til skoðunarskýrslu héraðsdýralæknis frá 8. nóvember 2012 þar sem tilgreindar eru alvarlegar athugasemdir við aðbúnað fjósins, ristar í fjósi og merkingar gripa. Kærandi hafnar því að um alvarleg eða ítrekuð brot sé að ræða sem réttlæti að Matvælastofnun taki jafn íþyngjandi ákvörðun og að afturkalla starfsleyfi kæranda. Kærandi vísar til þess í kæru varðandi athugasemdir um skráningu gripa að kærandi hafi ítrekað reynt að fá aðgangsorð og lykilorð að Hupp tölvuskráningarkerfi hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands án árangurs. Kærandi bendir á að þær athugasemdir í skoðunarskýrslu héraðsdýralæknis sem listaðar eru sem alvarleg frávik séu ekki vegna óþrifnaðar heldur aðbúnar og rista í fjósi auk merkinga. Þá hafi frávik sem listuð eru alvarleg í skoðunarskýrslu héraðsdýralæknis frá 8. nóvember 2012 verið lagfærð þegar eftirlit fór fram 15. nóvember 2012. Eftir síðara eftirlit 15. nóvember 2012, framkvæmdi kærandi alþrif á fjósinu og bendir hann á að Matvælastofnun hafi borið að fara í eftirlitsferð til að meta endurbætur sem tekið var fram að framkvæmdar hefðu verið samkvæmt andmælum kæranda í bréfi dags. 28. nóvember 2012.
Kærandi bendir á að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem Matvælastofnun tók ákvörðun um að svipta kæranda starfsleyfi án þess að hafa framkvæmt annað eftirlit í kjölfar andmæla sem stofnuninni bárust með bréfi dags. 28. nóvember 2012. Kærandi bendir á að með þessu hafi stofnunin tekið ákvörðun án þess að málið væri nægjanlega upplýst af hálfu stofnunarinnar.
Þá telur kærandi að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kærandi hafi verið tekinn sérstaklega út og gerðar athugasemdir hjá honum umfram það sem tíðkast hafi á öðrum eftirlitssvæðum. Kærandi bendir á að það sé stjórnvalda að kanna hversu mörg kúabú á landinu hafi svipaða eða sömu aðstöðu þegar kemur að byggingum og búnaði auk þess sem kærandi telur víst að einhver kúabú hafi ekki fært allar skráningar í Huppu. Þá tilgreinir kærandi að það sé umhugsunarefni hvort hægt sé að afturkalla starfsleyfi á grundvelli athugasemda héraðsdýralæknis sem sett eru sem frávik við skoðun en ekki listuð sem alvarleg frávik. Kærandi telur að þrátt fyrir að Matvælastofnun vinni eftir gæðahandbók þá séu héraðsdýralæknar eins misjafnir og þeir eru margir og ólíkar manneskjur taki ólíkt á ákveðnum aðstæðum, þrátt fyrir lög, reglur, leiðbeiningar eða gæðahandbækur. Því telur kærandi mikilvægt í máli sem þessu sé gætt hlutleysis. Kærandi bendir á að árin áður hafi ekki verið gerðar athugasemdir við mjólkurframleiðslu sína. Síðla árs 2011 hafi komið nýr héraðsdýralæknir og við eftirlitsferðir 2012 hafi athugasemdir í skoðunarskýrslum, framkvæmd og túlkun reglna breyst.
Kærandi telur að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem Matvælastofnun tók þá ákvörðun sem var hvað mest íþyngjandi fyrir kæranda í stað þess að beita öðrum og vægari úrræðum. Kærandi bendir á að ákvörðun Matvælastofnunar að afturkalla leyfi til mjólkursölu og slátrunar gripa sé íþyngjandi ákvörðun og um sé að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir kæranda. Þann tíma sem kærandi var án starfsleyfis hafi hann þurft að hella niður u.þ.b 30.000 lítrum af mjólk. Mikið tjón hlaust af því að slátrun gripa var óheimil og beingreiðslur féllu niður. Kærandi telur að með því að afturkalla starfsleyfið hafi stofnunin tekið þá ákvörðun sem mest var íþyngjandi. Beita hefði mátt öðrum leiðum til að ná fram því markmiði sem að var stefnt. Kærandi bendir á að Matvælastofnun hafi komið í eftirlit 4. maí 2012 og svo aftur 8. og 15. nóvember 2012 og í kjölfar þess tekið ákvörðun um afturköllun starfsleyfis. Kærandi bendir á að eðlilegt hefði verið að fara í aðra eftirlitsferð um miðjan desember 2012 til að gefa kæranda tækifæri á að sýna fram á að úrbætur hefðu verið gerðar. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og samið verði um skaðabætur vegna þess tjóns sem kærandi varð fyrir vegna afturköllunar starfsleyfis. Kærandi telur að sú ákvörðun að afturkalla starfsleyfi frá og með 1. desember 2012 án þess að koma í eftirlit dagana á undan og/eða gefið lokafrest til úrbóta, geti ekki samræmst meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi bendir á að stjórnvöldum beri að gæta meðalhófs í ákvörðunartöku sinni og ávallt leitast við að beita vægara úrræði til að ná fram sama lögmæta markmiði.
Þá telur kærandi að brotið hafi verið gegn andmælarétti sínum samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem afar stuttir frestir hafi verið veittir í málinu. Kærandi vísar til þess að í máli þessu hafi iðulega verið gefinn fjögurra til sjö daga andmælafrest sem kærandi telur ekki nægjanlegan þegar tillit er tekið til þeirra gríðarlegu hagsmuna sem um ræðir. Eftirlit var framkvæmt hjá kæranda 8. nóvember 2012 og aftur þann 15. nóvember 2012. Kærandi telur ljóst að svigrúm til endurbóta á svo stuttum tíma sé afar lítið. Þá bendir kærandi á að nokkurra daga andmælafrestur sé ekki nægjanlegur eða í samærmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem var m.a. sett með það markið að koma í veg fyrir að mismunun, valdníðsla og annarleg sjónarmið ráði för við ákvarðanatöku stjórnvalda.
Kærandi vísar til þess að ákvörðun Matvælastofnunar feli í sér brot gegn atvinnufrelsi þar sem um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun að svipta kæranda starfsleyfi. Atvinnufrelsi einstaklinga sé verndað í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og því frelsi megi einungis setja skorður með lögum krefjist almannaheill þess. Kærandi bendir á að í sínu tilfelli hafi mjólkin staðist allar þær gæðakröfur sem krafist er samkvæmt lögum og því ekki þörf á verndun almanna-hagsmuna. Kærandi telur að þar af leiðandi hafi Matvælastofnun ekki uppfyllt skilyrði sem lögbundin eru til að hefta atvinnufrelsi.
Kærandi bendir á að gögn sem lögð voru fram í málinu af hálfu Matvælastofnunar og dagsett eru eftir 1. desember 2012 séu kæru þeirri sem hér er til umfjöllunar með öllu óviðkomandi.
Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar
Matvælastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun að afturkalla starfsleyfi Brúarreykja hf. verði staðfest.
Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 30. nóvember 2012 byggir á því að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um úrbætur og aðvaranir um afleiðingar þess að ekki væri brugðist við athugasemdum, hafi kærandi brugðist seint, illa eða alls ekki við kröfum um úrbætur. Lokafrestur til úrbóta hafi verið veittur 15. nóvember 2012 og samkvæmt skýrslu héraðsdýralæknis sama dag hafði kærandi ekki brugðist við umræddum kröfum innan tilskilins frests. Þá hafi einnig bæst við að þéttleiki gripa var slíkur að það fól í sér brot á reglugerð. Þéttleiki gripa geti haft áhrif á matvælaöryggi þegar skítur hleðst hratt upp í húsinu og óþrifnaður er almennur. Samkvæmt 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli er heimilt að stöðva starfsemi þegar um alvarleg tilvik eða ítrekuð brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tilskilins frests. Þegar um slík brot er að ræða getur opinber eftirlistaðili afturkallað leyfi viðkomandi matvæla-fyrirtækis. Í ákvörðun Matvælastofnunar er vísað til skoðunarskýrslu héraðsdýralæknis frá 15. nóvember 2012 og tillit tekið til andmæla kæranda. Með heimild í 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli hafi Matvælastofnun tekið þá ákvörðun að afturkalla starfsleyfi Brúarreykja ehf. Afhending mjólkur og sláturgripa skyldi vera hætt frá 1. desember 2012. Þá var kærandi upplýstur um að Matvælastofnun gæti veitt kæranda takmarkaða heimild til að slátra hreinum gripum, ef kærandi leitaði eftir því.
Í umsögn Matvælastofnunar vegna kæru í máli þessu, bendir Matvælastofnun á að í óþrifnaði geti leynst ýmsar bakteríur sem ekki sé unnt að benda á með sýnatöku mjólkurbúa og slíkt feli ekki í sér viðurkenningu á heilnæmi afurðarinnar. Þær sýnatökur sem kærandi bendir á í kæru sinni mæli frumtölu og líftölu en mæli ekki tilteknar bakteríur eða sjúkdóma, eins og salmonellu og listeríu. Matvælastofnun hafnar því að þar sem mjólkursýni hafi verið fullnægjandi hafi stofnuninni ekki verið heimilt að afturkalla starfsleyfi kæranda.
Matvælastofnun vísar til þess í umsögn sinni að margítrekuð brot hafi verið framin af hálfu kæranda frá 19. janúar 2012 og nokkur þeirra séu alvarleg. Frávik séu metin ýmist sem alvarleg frávik eða frávik samkvæmt eftirlitsreglum Matvælastofnunar. Þegar um er að ræða alvarleg frávik er veittur skammur frestur til úrbóta, þar sem alvarleg frávik eru talin fela í sér meiri áhættu vegna matvælaöryggis. Þegar um sé að ræða frávik sé veittur lengri frestur þar sem áhættan er talin vera minni. Þegar frávik er viðvarandi og engar úrbætur gerðar, er áhættan í framleiðsluferlinu uppsöfnuð og því getur frávik falið í sér sömu áhættu og ef um er að ræða alvarlegt frávik. Matvælastofnun bendir á í umsögn sinni að óþrifnaður í óbeinni snertingu við matvæli kunni fyrir röð atvika að komast í beina snertingu við matvæli sem verið er að framleiða. Því lengri tími sem áhættan er til staðar því meiri líkur á að matvæli mengist. Samkvæmt 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli telur Matvælastofnun að greinarmunur sé gerður á alvarlegu tilviki, ítrekuðu broti og því að sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Alvarlegt tilvik nægi eitt og sér til afturköllunar starfsleyfis samkvæmt orðalagi ákvæðisins. Í þeim tilvikum þegar ekki er um að ræða alvarlegt tilvik þurfa brotin að vera ítrekuð eða úrbótum ekki sinnt innan tilskilins frests svo afturkalla megi starfsleyfi. Alvarlegt frávik þarf því ekki að koma til svo skilyrði 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli sé uppfyllt.
Matvælastofnun hafnar því í umsögn sinni að jafnræðis hafi ekki verið gætt þegar stofnunin tók ákvörðun um afturköllun starfsleyfis kæranda. Stofnunin vinni eftir gæðahandbók sem allir héraðsdýralæknar fylgja og þá hafi sérgreinadýralæknir nautgripasjúkdóma sinnt eftirliti með héraðsdýralækni sem og héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis. Það hafi meðal annars verið gert til að tryggja að mat á skoðunaratriðum sé samræmt.
Í umsögn stofnunarinnar kemur fram að ítrekað var reynt að fá kæranda til að bregðast við og fara í úrbætur. Kærandi sinnti ekki úrbótum fyrir frest 31. janúar 2012 sem honum var veittur við skoðun 19. janúar 2012. Matvælastofnun bendir á í umsögn sinni að svigrúm hafi myndast sumarið 2012 til að fara í úrbætur þar sem gripir voru úti. Afstaða Matvælastofnunar var því að grípa þyrfti til harðari úrræða enda hefði kærandi ekki sýnt það í verki í tæpt ár að vilji væri til að bæta úr framleiðsluháttum sínum.
Matvælastofnun hafnar því í umsögn að andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt. Kæranda hafi verið veittur kostur á að koma á framfæri andmælum sínum og nýtt sér þann rétt. Matvælastofnun bendir einnig á að eðli málsins hafi verið með þeim hætti að skjót afgreiðsla málsins var nauðsynleg til að tryggja öryggi neytenda.
Rökstuðningur
Mál þetta lýtur að skilyrðum laga nr. 93/1995, um matvæli, reglugerðum settum samkvæmt þeim og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Hollustuhættir við matvælaframleiðslu
Samkvæmt 10. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli skulu matvælafyrirtæki haga starfsemi sinn í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt. Stjórnandi matvælafyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjónvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma skv. 8. gr. b. laga nr. 93/1995, um matvæli. Stjórnandi matvælafyrirtækis er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um matvæli í matvælafyrirtækjum, undir hans stjórn skv. 21 ml. 4. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Með tilliti til framangreinds er ljóst að kærandi, Brúarreykir ehf., er matvælaframleiðandi í skilningi laganna og ber að tryggja að framleiðsla matvæla sé í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma.
Reglur um almenna hollustuhætti er að finna í reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli og reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, auk áorðinna breytinga. Hollustuhættir eru skilgreindir í a. lið 1. tl. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 852/2004 sem ráðstafanir og skilyrði sem eru nauðsynleg til að halda í skefjum hættu og tryggja að matvæli séu hæf til neyslu með hliðsjón af fyrirhugaðri notkun þeirra. Framleiðsla matvæla sem hér er til umfjöllunar er frumframleiðsla en skv. 17. ml. 4. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, er frumframleiðsla meðal annars mjöltun og eldi dýra fram að slátrun. Markmið löggjafar um hollustuhætti matvæla er að fyrirbyggja, sem frekast er unnt, framleiðslu á matvælum sem eru óhrein, spillt eða óörugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu og veita neytendum öfluga vernd með tilliti til öryggis matvæla. Samkvæmt 8. gr. a. laga nr. 93/1995, um matvæli er óheimilt að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Í 2. - 4. mgr. 8. gr. eru tilgreind í hvaða tilvikum matvæli eru ekki örugg.
Kærandi vísar til þess að samkvæmt skýrslum Auðhumlu var mjólk frá Brúarreykjum í 1. gæðaflokki, þar sem líftala og frumutala mjólkur var í 1A fl. og 1. fl. þegar Matvælastofnun afturkallaði starfsleyfi kæranda. Ráðuneytið telur að þrátt fyrir að líftala og frumtala mjólkur sé ofarlega í flokkunarreglum um frumtölu og líftölu samkvæmt reglum nr. 52/2010 um flokkun og verðfellingu mjólkur vegna líftölu, frumutölu, lyfjaleifa og frírra fitusýsa, þá beri gögn málsins það með sér að ekki sé tryggt að mjólk frá kæranda við frumframleiðslu geti ekki óhreinkast eða spillst á annan hátt vegna óþrifnaðar og aðstöðu hjá kæranda. Ráðuneytið telur með tilliti til ofangreinds að í máli þessu reyni á almenna hollustuhætti en ekki beint öryggi matvæla.
Nánar er fjallað um hollustuhætti við frumframleiðslu í I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 852/2004. Samkvæmt 1. tl. 4. gr. reglugerðarinnar skulu stjórnendur sem stunda frumframleiðslu og tengda starfsemi, sem tilgreind er í I. viðauka, uppfylla almenn ákvæði um hollustuhætti sem mælt er fyrir um í A-hluta I. viðauka og allar sértækar kröfur sem kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 853/2004. Samkvæmt 3. lið II. tl. I viðauka reglugerðar (EB) nr. 852/2004 skulu stjórnendur matvælafyrirtækja fara eftir viðeigandi ákvæðum í löggjöf Bandalagsins og landsbundinni löggjöf sem tengist vörnum gegn hættu í frumframleiðslu og tengdri starfsemi, þar á meðal ráðstöfunum til að sporna gegn mengun frá lofti, jarðvegi, vatni, fóðri, áburði, dýralyfjum, plöntuvarnarefnum og sæfiefnum sem og mengun frá geymslu, meðhöndlun og förgun úrgangs sbr. a. lið 3. liðar II. tl. viðauka reglugerðarinnar. Frekari skyldur eru lagðar á stjórnendur matvælafyrirtækja í 4. lið II. tl. viðauka reglu-gerðarinnar þar sem stjórnendur matvælafyrirtækja, þar sem dýr eru alin, þeim slátrað, þau veidd eða framleiddar eru frumframleiðsluvörur úr dýraríkinu, skulu gera fullnægjandi ráðstafanir eftir því sem við á. Má þar sem dæmi nefna að halda hreinni allri aðstöðu, sem notuð er við frumframleiðslu og tengda starfsemi, halda m.a. búnaði, ílátum og grindum hreinum og sótthreinsa á viðeigandi hátt að lokinni hreinsun ef nauðsyn krefur til að tryggja eins og framast er unnt hreinlæti í tengslum við dýr sem send eru til slátrunar. Samkvæmt framansögðu er lögð rík ábyrgð á stjórnendur í frumframleiðslu að gæta að almennum hollustuháttum.
Sérstaklega er fjallað um sérkröfur til framleiðslu tiltekinna matvæla í III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004. Í IX. þætti viðaukans er fjallað um hrámjólk og mjólkurafurðir. Samkvæmt 1. lið A-lið II. tl. IX þáttar III. viðauka kemur fram að mjaltabúnaður og húsnæði, þar sem mjólk er geymd, meðhöndluð eða kæld, skal vera þannig staðsett og með þeim hætti að dregið sé úr hættu á að mjólk mengist. Samkvæmt 3. lið A-lið II. tl. IX. þáttar skal yfirborð búnaðar, sem ætlað er að komast í snertingu við mjólk (áhöld, ílát, geymar o.s.frv., til mjalta og söfnun og flutnings á mjólk), vera auðvelt að þrífa og sótthreinsa og skal haldið í góðu ástandi.
Ákvörðun Matvælastofnunar er m.a. byggð á því að þrifum á mjaltaþjóni hafi verið ábótavant, for hafi verið út um allt fjós og umgengni léleg. Þá hafi þrifum verið ábótavant í mjólkurhúsi og bæði kálfar og kýr verið skítugar. Í gögnum málsins má sjá að athugasemdir voru gerðar við þrif á mjaltaþjóni við eftirlit 19. janúar 2012, 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012, og bera myndir í gögnum málsins það með sér að mjaltaþjónn hafi við eftirlit 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012 verið skítugur. Þá voru athugasemdir gerðar við umgengni og hreinleika gripa við eftirlit 19. janúar 2012, 9. febrúar 2012, 4. maí 2012, 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veittir nokkrir frestir til úrbóta. Fyrsti frestur til úrbóta var kæranda veittur eftir eftirlit 19. janúar 2012, frestur var annars vegar til 31. janúar 2012 og hins vegar 19. apríl 2012. Kærandi gerði nokkrar úrbætur en samkvæmt skoðunarskýrslu við eftirlit 2. febrúar 2012 voru úrbætur ekki fullnægjandi, þar sem frávik var gert við umgengni og þrif og alvarlegt frávik við hreinleika gripa. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi framkvæmdi nokkrar úrbætur frá 19. janúar 2012 þar til Matvælastofnun tók ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi 30. nóvember 2012.
Í reglugerð nr. 438/2002, um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra kemur fram hvernig aðstöðu skuli háttað við framleiðslu mjólkur, aðstaða og þrif. Í 12. gr. reglugerðarinnar er fjallað um hvernig aðstaða mjólkurhúsa skuli háttað og þrifum sé háttað á mjólkurbúnaði. Þar er einnig mælt fyrir um að júgur og spenar skuli vera hreinir og þurrir áður en kýr er mjólkuð. Af gögnum málsins er ljóst að aðstaða í mjólkurhúsi, þrif og hreinlæti við mjaltir var verulega ábótavant þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir og frávik. Þá er einnig í 8. gr. reglugerðarinnar mælt fyrir um aðstöðu í lausagöngufjósum og með tilliti til þéttleika gripa. Þrátt fyrir að ákvæði reglugerðarinnar snúi að aðbúnaði gripa þá tengist það matvælaöryggi með þeim hætti að hreinlæti í mjókurhúsi og við mjaltir þarf að vera í lagi. Ef þéttleiki gripa er mikill safnast for hraðar upp sem getur mengað þá mjólk sem framleidd er.
Með tilliti til framangreindra ákvæða laga um matvæli og reglugerða, telur ráðuneytið að rík skylda sé lögð á frumframleiðanda mjólkur að fyrirbyggja, sem frekast er unnt, framleiðslu mjólkur sem er óhrein, spillt eða óörugg. Framleiðanda er skylt að grípa til ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að halda í skefjum hættu og tryggja að matvæli séu hæf til neyslu. Halda skal allri aðstöðu sem notuð er við frumframleiðslu hreinni til að draga úr áhættu á að matvæli, sem framleidd eru, geti mengast. Ráðuneytið telur með tilliti til gagna málsins að kærandi hafi ekki uppfyllt skyldu sína vegna húsnæðis eða búnaðar sem til notkunar er við frumframleiðslu mjólkur og hafi með því ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli og reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, auk áorðinna breytinga.
Ráðuneytið telur með tilliti til gagna málsins að hreinlæti við matvælaframleiðslu kæranda hafi verið ábótavant þegar Matvælastofnun tók ákvörðun um afturköllun starfsleyfis 30. nóvember 2012. Kærandi hafi ekki sinnt þeim úrbótum sem nauðsynlegar voru að mati stofnunarinnar með fullnægjandi þrifum á aðstöðu og búnaði tengdum frumframleiðslu. Með tilliti til þess var ekki unnt að tryggja að afurðir við frumframleiðslu óhreinkuðust ekki eða spilltust á annan hátt sbr. 10. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Ráðuneytið telur að með framangreindri háttsemi sinni hafi kærandi brotið gegn framangreindum ákvæðum laga og reglugerða um almenna hollustuhætti.
Aðstaða til handþvotta
Frávik var gert við aðstöðu til handþvotta við eftirlit 19. janúar 2012 þar sem ekkert vatn var í handlaug. Kæranda var veittur frestur til úrbóta til 19. apríl 2012. Við eftirlit 4. maí 2012 var frávik gert við að ekkert vatn væri í handlaug og nauðsynlegt væri að legga kalt og heitt vatn í handlaugina. Kæranda var veittur frestur til úrbóta til 1. október 2012. Við eftirlit 8. nóvember 2012 var frávik gert við að enn væri ekkert vatn í handlaug. Samkvæmt skoðunarskýrslu við eftirlit 15. nóvember 2012 var aðstaða til handþvotta í lagi. Kærandi hafði því brugðist við þeim athugasemdum sem gerðar voru eftir ítrekaða fresti. Samkvæmt 2. lið C-lið 1. tl. IX. þáttar III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004 er lögð sú skylda á þá sem fást við mjaltir að gæta fyllsta, persónulegs hreinlætis. Nauðsynlegt er að viðeigandi aðstaða til handþvotta sé í námunda við mjaltastað þar sem þeir sem mjólka og meðhöndla hrámjólk geti þvegið sér um hendur og handleggi. Ráðuneytið telur með tilliti til framangreinds að kærandi hafi brugðist við þeim úrbótum sem nauðsynlegar eru í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og því sé ekki tilefni til að fjalla nánar um aðstöðu til handþvotta vegna almennra hollustuhátta. Með tilliti til framangreinds telur ráðuneytið að ekki hafi verið tækt að afturkalla starfsleyfi kæranda á þeim grundvelli að handþvotta aðstaða væri ekki í lagi, þar sem bætt hafði verið úr henni fyrir eftirlit 15. nóvember 2012.
Merkingar nautgripa með tilliti til rekjanleika matvæla
Frávik var gert við merkingar gripa við eftirlit 19. janúar 2012, 2. febrúar 2012, 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012. Í bréfi kæranda dags. 28. nóvember 2012 kemur fram að kýr hafi verið merktar frá burði á öðru eyra eins og reglugerðir kveði á um. Í bréfi kæranda kemur einnig fram að ef reglugerðum hafi verið breytt á þá lund að merkja þurfi eldri kýr á báðum eyrum verði brugðist við því.
Tilgangur laga nr. 93/1995, um matvæli er m.a. að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara, varúðaraðgerðum, fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknum, neytendavernd og opinberu eftirliti. Samkvæmt 24. ml. 4. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli felur rekjanleiki í sér að rekja uppruna og feril matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í eða í snertingu við matvæli í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar. Samkvæmt 31. gr. a. laga nr. 93/1995, um matvæli setur ráðherra reglugerð um rekjanleika matvæla og umbúða. Reglugerð nr. 916/2012 um merkingu búfjár var sett 30. október 2012, en fyrir þann tíma var í gildi reglugerð nr. 289/2005 um merkingar búfjár. Ákvæði reglugerðar nr. 916/2012 eiga því aðeins við um nautgripi sem fæddir eru eftir 11. nóvember 2011. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 916/2012 skulu naugripir merktir með forprentuðu plötumerki í bæði eyru innan 20 daga frá fæðingu. Í tíð eldri reglugerðar nr. 289/2005 um merkingu búfjár var skylt að merkja nautgripi með plötumerki í eyra innan við 30 daga frá fæðingu samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar. Ef umráðamaður búfjár sinnir ekki skyldu sinni um merkingar búfjár getur Matvælastofnun stöðvað allan flutning dýra frá tiltekinni hjörð samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 916/2012. Með tilliti til tilgangs laga um matvæli og þeirrar skyldu sem lögð er á umráðamann búfjár, telur ráðuneytið að rík skylda hvíli á kæranda að merkingar gripa séu í lagi og unnt sé að rekja hvaðan tiltekin matvæli eða afurðir koma. Við eftirlit 19. janúar 2012 kemur fram að kálfar séu ómerktir. Með tilliti til ákvæða eldri reglugerðar nr. 289/2005 áttu nautgripir að vera merktir 30 dögum frá fæðingu. Hafi gripirnir fæðst 11. nóvember 2011 hafi þeir átt að vera merktir í síðasta lagi 11. desember 2011. Ráðuneytið telur með tilliti til framangreinds að kærandi hafi. með því að merkja ekki gripi sína, brotið gegn framangreindum ákvæðum laga um matvæli og reglugerðar um merkingu búfjár. Við eftirlit 2. febrúar 2012, 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012 var gert frávik við merkingu gripa og var þá einnig um að ræða merkingar kálfa, þar sem þeir væru ekki merktir í bæði eyru eins og ákvæði reglugerðar nr. 916/2012 um merkingu búfjár mælir fyrir um. Með tilliti til framangreinds telur ráðuneytið að kærandi hafi brotið gegn ákvæðum laga um matvæli og reglugerða um merkingu búfjár enda sé nauðsynlegt með tilliti til matvælaöryggis að rekja afurð til framleiðanda ef ástæða þykir til verndunar fyrir neytendur.
Skilyrði 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli
Kærandi byggir á því í kæru að athugasemdir Matvælastofnunar hafi ekki verið til þess fallnar að túlka ætti þær sem alvarlegt tilvik eða ítrekað brot samkvæmt 5. mgr. 30 gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Kærandi hafnar því að um sé að ræða alverleg eða ítrekuð brot á matvælalögum, reglugerðum og fyrirmælum sem gefin hafa verið. Kærandi vísar til þess að í skoðunarskýrslum héraðsdýralæknis snúa alvarleg frávik að aðbúnaði, ristum í fjósi og merkingum en ekki óþrifnaði. Þá hafi frávik sem tilgreind voru alvarleg í skoðunarskýrslu héraðsdýralæknis frá 8. nóvember 2012 verið lagfærð áður en eftirlit fór fram 15. nóvember 2012.
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli er Matvælastofnun heimilt að stöðva starfsemi að hluta eða í heild ef rökstuddur grunur er um að matvæli séu heilsuspillandi, óhæf til neyslu eða valdi tjóni á öðrum hagsmunum. Þá skal stöðvun starfsemi og förgun á vörum aðeins beitt þegar um alvarleg tilvik eða ítrekuð brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf, sbr. 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Enn fremur segir að sé um slíkt brot að ræða getur opinber aðili, Matvælastofnun, afturkallað leyfi viðkomandi matvælafyrirtækis til reksturs, skv. 9. gr. sbr. 20. gr. laganna. Leyfisveiting til kæranda er í höndum Matvælastofnunar þar sem um er að ræða frumframleiðslu samkvæmt a. lið 6. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli sbr. 20. gr. laga nr. 93/1995. Samkvæmt 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli er Matvælastofnun veitt viðamikið vald til að stöðva rekstur matvælafyrirtækis ef skilyrðum laga, reglugerða og fyrirmælum er ekki fylgt.
Ítrekað frávik var gert við handþvottaaðstöðu samkvæmt skoðunarskýrslu, 19. janúar 2012, 4. maí 2012 og 8. nóvember 2012. Eins og áður hefur verið rakið hafði kærandi bætt úr því fyrir eftirlitsskoðun 15. nóvember 2012. Í skoðunarskýrslum var ekki getið frávika við þrif á mjaltaþjóni nema við eftirlit 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012. Ítrekað var gert frávik við óþrifnað, 19. janúar 2012, 9. febrúar 2012, 4. maí 2012, 15. nóvember 2012 og alvarlegt frávik við eftirlit 8. nóvember 2012. Á þessu tímabili hafði kærandi þó tekið til og fjarlægt hluti sem ekki áttu að vera í mjólkurhúsi og einnig var mokað út úr fjósi og kálfastíum. Úrbætur þær sem kærandi gerði voru að mati Matvælastofnunar ekki fullnægjandi og því var ítrekað gert frávik við óþrifnað. Einnig var ítrekað gert frávik við merkingu gripa, 19. janúar 2012, 9. febrúar 2012, 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012. Þá var ítrekað gert frávik við hreinleika gripa við eftirlit 19. janúar 2012, 4. maí 2012, 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012. Alvarlegt frávik var gert við hreinleika gripa við eftirlit 9. febrúar 2012. Með tilliti til framangreinds telur ráðuneytið ljóst að ítrekað hefur verið gert frávik við aðstöðu og búnað frá eftirliti 19. janúar 2012 þar til Matvælastofnun tók ákvörðun sína 30. nóvember 2012.
Matvælastofnun hefur það hlutverk að samræma eftirlit með matvælaframleiðslu skv. 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Samkvæmt leiðbeiningum um eftirlit sem öllum héraðsdýralæknum er skylt að fara eftir ber merkingin „frávik“ í skoðunarskýrslu með sér að athugasemd er gerð við að ákvæði laga og/eða reglugerða eru ekki uppfyllt og kröfur um úrbætur eru gerðar. Þá er um að ræða brot sem geta með óbeinum hætti leitt til framleiðslu óöruggra matvæla, þ.e. matvæla sem álitin eru heilsuspillandi og/eða óhæf til neyslu. Frávik leiðir til þess að úrbætur eru metnar í næstu reglubundnu skoðun sem leiðir að öllu jöfnu ekki til sérstakrar eftirfylgni. Merkingin „alvarlegt frávik“ felur í sér að athugasemd er gerð við að ákvæði laga og/eða reglugerða eru brotin þannig að það getur með beinum hætti leitt til framleiðslu matvæla sem álitin eru heilsuspillandi. Þá skal úrbótum lokið innan 7 virkra daga. Ef athugasemdin gefur tilefni til er gripið til þvingunarúrræða strax.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi ítrekað fresti til úrbóta frá 19. janúar 2012. Þá hafði kærandi einnig tækifæri til úrbóta frá 4. maí 2012 til 8. nóvember 2012 til að bregðast við þeim athugasemdum sem gerðar höfðu verið frá 10. janúar 2012. Með tilliti til framangreinds telur ráðuneytið að kærandi hafi ítrekað brotið gegn ákvæðum laga og reglugerða og ekki brugðist við með fullnægjandi úrbótum innan þeirra fresta sem honum voru veittir til úrbóta. Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds að skilyrði 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli hafi verið uppfyllt þegar stofnunin afturkallaði starfsleyfi kæranda 30. nóvember 2012.
Rannsóknarskylda
Kærandi telur Matvælastofnun hafa brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem stofnunin fór ekki í eftirlitsferð að nýju eftir að andmæli bárust frá kæranda vegna fyrirhugaðarar afturköllunar starfsleyfisins. Samkvæmt andmælum kæranda dags. 28. nóvember 2012 framkvæmdi kærandi úrbætur á þeim atriðum sem Matvælastofnun gerði athugasemdir við, við eftirlit á Brúarreykjum þann 15. nóvember 2012. Með því hafi Matvælastofnun ekki rannsakað málið til hlítar áður en ákvörðun um afturköllun starfsleyfis var tekin.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Frá 17. janúar 2012 þar til Matvælastofnun tók ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi kæranda var farið í átta eftirlitsferðir til kæranda. Atriði eins og hreinleiki gripa var við eftirlit ekki talið fullnægjandi og frávik gert við hreinleika gripa þrátt fyrir úrbætur kæranda. Var kæranda einnig veittir frestir til úrbóta áður en Matvælastofnun tók þá ákvörðun að afturkalla starfsleyfi kæranda. Ráðuneytið telur að með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þá hafi skipt miklu að ákvörðun yrði tekin sem fyrst þar sem möguleiki væri á að matvæli gætu mengast vegna óþrifnaðar. Þá liggur einnig fyrir í málinu að kærandi uppfyllti ekki lagaskilyrði laga nr. 93/1995, um matvæli og þar af leiðandi tekur ráðuneytið undir með Matvælastofnun að stofnunin hafi ekki þurft að framkvæma eftirlit hjá kæranda í kjölfar andmæla 28. nóvember 2012, enda hafi kæranda verið veittur frestur og verið upplýstur að ef ekki yrði brugðist við þeim frávikum sem komu fram við eftirlit 8. nóvember 2012 gæti hann átt á hættu að starfsleyfi hans yrði afturkallað. Þá liggja fyrir myndir úr eftirliti 8. nóvember 2012 og 15. nóvember 2012 þar sem ljóst er að úrbætur voru ekki nægjanlegar til að uppfylla skilyrði laga um matvæli. Einnig liggja fyrir skoðunarskýrslur þar sem ítrekað eru gerðar athugasemdir við sömu atriðin og veittir voru frestir til úrbóta sem kærandi nýtti ekki. Áður en Matvælastofnun tók ákvörðun lágu fyrir mikið af gögnum og nauðsynlegar upplýsingar sem ráðuneytið telur að hafi verið fullnægjandi svo stofnunin gæti tekið efnislega rétta ákvörðun. Þar af leiðandi hafi Matvælastofnun ekki verið skylt að framkvæma lokaúttekt á hollustuháttum hjá kæranda. Ráðuneytið telur með tilliti til framangreinds að Matvælastofnun hafi ekki brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga þegar stofnunin tók ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi kæranda.
Jafnræði
Kærandi telur Matvælastofnun hafi brotið gegn 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem stofnunin hafi tekið hann sérstaklega út umfram aðra eftirlitsskylda aðila og gert athugasemdir umfram það sem tíðkast á öðrum eftirlitssvæðum. Kærandi telur að þrátt fyrir að héraðsdýralæknar Matvælastofnunar starfi samkvæmt gæðahandbók þá hafi engar athugasemdir verið gerðar hjá kæranda fyrr en nýr hérðasdýralæknir kom til starfa síðla árs 2011 og athugasemdir í skoðunarskýrslu, framkvæmd eftirlits og túlkun reglna hafi breyst. Hafi kærandi því ekki notið jafnræðis við aðra eftirlitsskylda aðila.
Matvælastofnun hefur það hlutverk að samræma eftirlit með matvælaframleiðslu sbr. 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Eitt þeirra gagna sem Matvælastofnun notar til að samræma eftirlit er gæðahandbók þar sem farið er yfir hvernig eftirliti skuli hagað, tryggt að allir héraðsdýralæknar noti sömu skoðunarblöð við eftirlit og svo framvegis. Gæðahandbók þessi er aðgengileg almenningi og geta eftirlitsaðilar því kynnt sér efni hennar. Eftirlit hjá kæranda var í höndum héraðsdýralæknis Vesturumdæmis. Við eftirlit 17. janúar, 19. janúar og 8. nóvember 2012 var í för með héraðsdýralækni sérgreinadýralæknir Matvælastofnunar. Þá var héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis einnig með við eftirlit hjá kæranda. Var héraðs-dýralæknir því ekki einn við eftirlit hjá kæranda og telur ráðuneytið að hlutleysis hafi verið gætt við eftirlit hjá kæranda og Matvælastofnun hafi vandað til verka með að kalla til starfsmann til að sinna eftirliti með héraðsdýralækni til að gæta þess að eftirlit sé samræmt og í samræmi við þá gæðahandbók sem héraðsdýralæknum ber að starfa eftir við eftirlit. Ráðuneytið telur fullyrðingar þess efnis að kærandi hafi verið tekinn út umfram aðra eftirlitsskylda aðila eiga ekki við rök að styðjast. Matvælastofnun sinnir eftirliti hjá öllum matvælaframleiðendum á landinu og ljóst sé að matvælaframleiðendur, sem ekki sinna matvælaframleiðslu sinni í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1995, þurfi á að halda auknara eftirliti en þeir matvælaframleiðendur sem haga matvælaframleiðslu sinni í samræmi við ákvæði laga og reglugerða.
Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Ráðuneytið telur að Matvælastofnun hafi ekki brotið gegn ákvæði 11. gr. stjórnarskrár við eftirlit hjá kæranda, enda sé af gögnum málsins ljóst að eftirlit var meira hjá kæranda vegna þeirra athugasemda sem gerðar eru í þeim átta eftirlitsheimsóknum sem stofnunin framkvæmdi hjá kæranda. Með tilliti til markmiðs laga um matvæli verður ekki annað séð en nauðsynlegt hafi verið hjá stofnuninni að haga eftirliti hjá kæranda með þessum hætti. Þá hafi stofnunin einnig gætt þess að héraðsdýralæknir fengi aðstoð sérgreinadýralæknis stofnunarinnar til eftirlits, svo mat á aðstöðu og búnaði hjá kæranda væri sem hlutlausast og í samræmi við gæðahandbók Matvælastofnunar.
Meðalhóf
Kærandi telur að Matvælastofnun hafi brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf þar sem Matvælastofnun tók þá ákvörðun sem var hvað mest íþyngjandi, þ.e. að afturkalla starfsleyfi í stað þess að beita vægari úrræðum. Kærandi telur að Matvælastofnun hafi borið að veita lokafrest til úrbóta áður en ákvörðun um afturköllun starfsleyfis var tekin af hálfu stofnunarinnar.
Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru eða vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Markmið ákvæða laga nr. 93/1995, um matvæli er að tryggja eins og kostur er hollustuhætti við matvælaframleiðslu. Kæranda var ítrekað veittir frestir til úrbóta frá 17. janúar 2012 sem hann nýtti ekki. Kæranda var veittur lokafrestur til úrbóta 15. nóvember 2012 og kærandi upplýstur með tölvupósti héraðsdýra-læknis dags. 9. nóvember og 11. nóvember 2012 að ef úrbætur yrðu ekki gerðar með fullnægjandi hætti fyrir þann tíma gæti starfsleyfi kæranda verið afturkallað. Ráðuneytið telur að með því hafi Matvælastofnun veitt kæranda tækifæri á að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar áður en stofnunin tók þá íþyngjandi ákvörðun að afturkalla starfsleyfi kæranda. Ákvörðun Matvælastofnunar að afturkalla starfsleyfi kæranda 30. nóvember 2012 hafi þar af leiðandi verið í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga.
Andmælaréttur
Kærandi telur að Matvælastofnun hafi brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem Matvælastofnun veitti kæranda stutta fresti í málinu til að verða við úrbótum og til að koma á framfæri andmælum sínum við stofnunina. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga eiga aðilar máls þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Kæranda voru veittir ítrekaðir frestir til úrbóta við meðferð málsins og voru þeir frestir misjafnlega langir eftir því hverjar úrbæturnar voru. Kærandi telur frest til úrbóta frá 8. nóvember til 15. nóvember 2012 hafa verið of stuttan til að verða við þeim athugasemdum sem gerðar voru í skoðunarskýrslu. Með tilliti til gagna málsins er ljóst að athugasemdir þær sem gerðar voru 8. nóvember 2012 höfðu einnig verið gerðar áður við eftirlit hjá kæranda og ekki orðið við úrbótum. Með tilliti til þess telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi ekki veitt of stuttan frest til úrbóta þar sem fyrir hafi legið í nokkra mánuði að bæta þyrfti úr aðstöðu til matvæla-framleiðslu. Með tilliti til þeirrar hættu sem möguleg var á að matvæli gætu mengast telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi verið heimilt að veita stutta fresti til að bregðast við athugasemdum við eftirlit 8. nóvember 2012 enda hafi legið fyrir í eftirliti frá 19. janúar 2012 að kærandi yrði að bæta úr aðstöðu og þrifnaði.
Kærandi bendir á að sér hafi verið veittur skammur andmælafrestur með bréfi 20. nóvember 2012 þegar Matvælastofnun tilkynnti kæranda að yfirvofandi væri afturköllun starfsleyfis. Kæranda var veittur frestur til 26. nóvember 2012 til að koma á framfæri andmælum sínum. Hafi kærandi talið að hann þyrfti lengri frest til að koma á framfæri andmælum sínum hefði hann getað óskað þess við Matvælastofnun. Ekki liggur fyrir að slíkar óskir hafi komið fram af hálfu kæranda þrátt fyrir að andmæli kæranda hafi borist tveimur dögum eftir tilgreindan andmælafrest. Andmæli bárust frá kæranda með tölvupósti dags. 28. nóvember 2012. Andmæli kæranda lágu því fyrir áður en Matvælastofnun tók ákvörðun í málinu. Í ákvörðun Matvælastofnunar dags. 30. nóvember 2012 er tekin efnisleg afstaða til andmæla kæranda og taldi Matvælastofnun að þrif eftir 15. nóvember 2012 myndu ekki breyta ákvörðun Matvælastofnunar um afturköllun starfsleyfis. Þær úrbætur gætu hins vegar komið til skoðunar ef kærandi myndi sækja um starfsleyfi að nýju og úttekt Matvælastofnunar sýndi fram á að þrif hefðu farið fram og úrbætur væru fullnægjandi. Með tilliti til framangreinds telur ráðuneytið að með því að veita kæranda ítrekað færi á að verða við athugasemdum með úrbótum hafi Matvælastofnun gætt að andmælarétti kæranda. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ekki brugðist við öllum þeim athugasemdum sem gerðar voru 15. nóvember 2012, má þar nefna þrif á mjólkurhúsi og úrbætur á gólfi. Þá telur ráðuneytið að með tilliti til hollustuhátta matvæla og þeim miklu hagsmunum sem að baki því búa að menguð matvæli fari ekki í umferð, hafi Matvælastofnun ekki þurft að framkvæma eftirlit eftir að andmæli kærandi bárust 28. nóvember 2012, enda hafi lokafrestur verið veittur til 15. nóvember 2012 til að ljúka við úrbætur. Með tilliti til framangreinds telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi gætt að ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.
Atvinnufrelsi
Kærandi telur að með ákvörðun Matvælastofnunar að afturkalla starfsleyfi hans hafi hann verið sviptur atvinnufrelsi sínu. Kærandi bendir á að mjólk frá Brúarreykjum hafi staðist allar þær gæðakröfur sem krafist er samkvæmt lögum og því ekki þörf að vernda almannahagsmuni. Hafi aðgerðir Matvælastofnunar þar af leiðandi ekki uppfyllt þau skilyrði sem lögbundin eru til að hefta atvinnufrelsi manna.
Samkvæmt 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Svo skerða megi atvinnufrelsi með þessum hætti verða þær skorður að vera settar með lögum þegar almannahagsmunir krefjast þess. Eins og rakið hefur verið hér að ofan telur ráðuneytið með tilliti til 10. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi gætt að almennum hollustuháttum og tryggt að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt við matvælaframleiðslu. Þær takmarkanir sem matvælalög setja matvælaframleiðendum eru meðal annars gerðar til að tryggja öryggi og hreinlæti matvæla og er það því mat ráðuneytisins að með tilliti til 10. gr. matvælalaga sé ekki tryggt að afurðir við frumframleiðslu kæranda óhreinkist ekki og því komi hér til álita almannahagsmunir, sem fela í sér að ekki sé komið til neytenda matvælum sem geta verið óörugg eða heilsuspillandi. Með tilliti til þessa telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi með ákvörðun sinni að afturkalla starfsleyfi kæranda ekki brotið gegn stjórnarskrárbundnum rétti kæranda til atvinnu enda séu ákvæði matvælalaga sett með tilliti til 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, þar sem takmarkanir eru settar með lögum til verndunar almannahagsmuna.
Ráðuneytið tekur undir með kæranda að þau gögn sem varði kæranda og eru dagsett eftir 1. desember 2012 eigi ekki við í máli þessu enda sé um að ræða eftirlit og aðstæður hjá kæranda fyrir 30. nóvember 2012 þegar ákvörðun um afturköllun um starfsleyfi var tekin.
Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
Í máli þessu reynir á hollustuhætti matvælaframleiðanda samkvæmt ákvæðum matvælalaga og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Ráðuneytið telur með vísan til gagna málsins að kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að halda í skefjum óþrifnaði og tryggja að matvæli væru hæf til neyslu. Hreinlæti við matvælaframleiðslu hafi verið ábótavant, þrátt fyrir ítrekaða fresti til úrbóta. Ráðuneytið telur að kærandi hafi ekki tryggt að afurðir við frumframleiðslu óhreinkuðust eða spilltust samkvæmt 10. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Ráðuneytið telur að kærandi hafi brugðist við athugasemdum varðandi aðstöðu til handþvotta með fullnægjandi hætti og þar af leiðandi hafi ekki verið unnt að byggja afturköllun á starfsleyfi á þeirri athugasemd enda bætt úr því fyrir eftirlit 15. nóvember 2012. Frávik og alvarleg frávik voru gerð við merkingar og skráningar hjá kæranda við eftirlit hjá kæranda frá 19. janúar 2012 til 15. nóvember 2012. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki fengið aðgangsorð og lykilorð í Huppu til að færa skráningu, þá hafi kæranda borið að merkja gripi sína í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Ráðuneytið telur að með tilliti til matvælaöryggis og mikilvægis þess að unnt sé að rekja hvaðan matvæli komi hafi kærandi brotið gegn ákvæðum reglugerða og laga um matvæli er snúa að merkingu gripa og rekjanleika matvælanna.
Ráðuneytið telur að kærandi hafi ítrekað brotið gegn ákvæðum laga um matvæli og ákvæðum reglugerða settum samkvæmt þeim frá 19. janúar 2012 til 15. nóvember 2012. Hafi með því verið uppfyllt skilyrði 5. mgr. 30. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli og Matvælastofnun hafi verið heimilt að afturkalla starfsleyfi kæranda. Þá telur ráðuneytið að tilgangur aftur-köllunarinnar hafi verið að koma í veg fyrir að matvæli menguðust og því hafi Matvælastofnun verið heimilt að veita stutta fresti enda hafi stofnunin ítrekað veitt lengri fresti á því tæpa ári sem stofnunin framkvæmd eftirlit hjá kæranda. Matvælastofnun tók tillit til andmæla kæranda í ákvörðun sinni og gætti þar af leiðandi af skilyrðum 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið telur að Matvælastofnun hafi ekki borið að framkvæma annað eftirlit hjá kæranda eftir 15. nóvember 2012 enda hafi kæranda verið veittir ítrekaðir frestir til úrbóta og veitt lokafrest 15. nóvember 2012. Þá hafi ítarlegar skoðunarskýrslur legið fyrir í málinu ásamt myndum úr eftirliti héraðsdýralæknis. Með tilliti til þess telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi uppfyllt skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gætt að rannsóknarskyldu sinni. Ráðuneytið telur að Matvælastofnun hafi gætt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við eftirlit hjá kæranda enda hafi héraðsdýralæknir fengið sérgreinadýralæknir Matvælastofnunar og héraðs-dýralækni Suðvesturumdæmis með sér við eftirlit hjá kæranda og með því gætt hlutleysis við mat á athugasemdum. Þá hafi Matvælastofnun einnig gætt meðalhófs við ákvörðunartöku, þar sem kæranda hafi ítrekað verið veittir frestir til úrbóta og því hafi Matvælastofnun beitt vægari úrræðum áður en svo íþyngjandi ákvörðun var tekin að afturkalla starfsleyfi kæranda. Telur ráðuneytið Matvælastofnun hafi þar með gætt að 12. gr. stjórnsýslulaga. Með tilliti til mikilvægis þess að gætt sé að hollustu og öryggi matvæla eins og ákvæði laga um matvæli mæla fyrir um, telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi ekki skert atvinnufrelsi kæranda enda séu það almannahagsmunir að matvæli óhreinkist ekki eða spillist.
Með tilliti til framangreinds er ákvörðun Matvælastofnunar að afturkalla starfsleyfi kæranda staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Matvælastofnunar frá 30. nóvember 2012, um að afturkalla starfsleyfi Brúarreykja ehf. er staðfest.
Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Halldór Runólfsson
Rebekka Hilmarsdóttir