Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Kærð ákvörðun Matvælastofnunar að hafna innflutningi frá Bandaríkjunum á Calf-manna fóðri sem inniheldur dýraafurðir.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 1. nóvember 2013 kveðið upp svohljóðandi:

 ÚRSKURÐ

Kröfugerð

Með stjórnsýslukæru, dags. 9. júlí 2013 kærði Haukur Hjaltason f.h. Eldfljótt ehf. kt. 600207-2370, hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 8. nóvember 2012, um að hafna innflutningi frá Bandaríkjunum á Calf-manna fóðri sem inniheldur dýraafurðir.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 8. nóvember 2012, um synjun á innflutningi á Calf-Manna fóðri frá Bandaríkjunum verði felld úr gildi og veitt verði leyfi til innflutnings á fóðrinu.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst kæran fyrir lok kærufrests, skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. 

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Þann 19. september 2012 flutti kærandi til landsins fóður frá Manna Pro Products LLC í Missouri fylki í Bandaríkjunum. Fóðrið ber nafnið Calf-Manna og er ætlað fyrir hesta, nautgripi, geitur, kanínur og svín. Innihald fóðursins er eftirfarandi samkvæmt innihaldslýsingu:

„Soybean meal, corn, hominy feed, feeding oatmeal, dried whey, dehydrated alfalfa meal, linseed meal, brewer's dried yeast, vegetable oil, fenugreek seed, anise oil, calcium carbonate, monocalcium phosphate, dicalcium phosphate, salt, sulfur, iron oxide, ferrous carbonate, ferrous sulfate, copper oxide, copper sulfate, manganous oxide, zinc oxide, sodium selenite, cobalt carbonate, calcium iodate, vitamin A supplement, vitamin D3 supplement, vitamin E supplement, choline chloride, thiamine mononitrate, niacin supplement, riboflavin supplement, calcium pantothenate, pyridoxine hydrochloride, vitamin B12 supplement, folic acid, biotin, propionic acid.“

Fóðrið barst til landsins í gámi þann 19. september 2012 frá Bandaríkjunum með Reykjafossi, skipi Eimskipafélagsins. Var sendingin skoðuð og kom þá í ljós að sendingin innihéldi dýraafuðir. Matvælastofnun hafði samband við kæranda og gerði honum grein fyrir að nauðsynleg fylgigögn, skráning og merkingar á vöruna vantaði með sendingunni. Kærandi óskaði eftir skráningu nýs fóðurs með umsókn dags. 19. september 2012. Samkvæmt umsókn um skráningu var um að ræða fóðurbæti, steinefnafóður með vítamíni fyrir alifugla, gæludýr, hesta, jórturdýr (ekki lömb), kanínur og svín. Með tölvupósti dags. 15. október 2012 óskaði kærandi eftir frekari leiðbeiningum hvaða skilyrði þyrftu að vera uppfyllt svo unnt væri að flytja fóðrið inn til landsins. Matvælastofnun svaraði erindi kæranda með tölvupósti 16. október 2012 þar sem kæranda var leiðbeint hvar finna mætti skilyrði fyrir innflutningi á ensku og hvaða upplýsingar yrði að leggja fram við skráningu fóðurs og einnig hvaða gögn skyldu fylgja fóðrinu við innflutning. Þá kom einnig fram að í fóðrinu væri að finna dýraafurðir og því yrði að skrá vöruna í gegnum tölvukerfið TRACES og landamærastöð auk þess sem vörunni þyrfti að fylgja opinbert heilbrigðisvottorð.

Með bréfi dags. 26. október 2012 tilkynnti Matvælastofnun kæranda um væntanlega höfnun vegna innflutnings á dýraafurðum í fóðrinu. Í bréfinu var kærandi upplýstur um þá annmarka sem Matvælastofnun taldi vera á sendingunni og gæfi ástæðu til að hafna bæri innflutningi. Var kæranda veittur 10 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum við bréf stofnunarinnar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dags. 8. nóvember 2012 hafnaði Matvælastofnun innflutningi á dýraafurðum. Í bréfinu var kærandi upplýstur um að ráðstafa yrði vörunni, annað hvort með endursendingu hennar til ákvörðunarstaðar utan Evrópska efnhagssvæðisins, eða með eyðingu vörunnar ef endursending væri óframkvæmanleg. Þá var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufresti í bréfinu. Í bréfinu kom eftirfarandi fram: „Vakin er athygli á að skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, er þér heimilt að kæra ákvörðun þessa til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Sérstök athygli er vakin á að samkvæmt 30. gr. d. laga nr. 93/1995 um matvæli, er kærufrestur styttri en samkvæmt stjórnsýslulögum, og skal bera fram kæru innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina.“

Með tölvupósti dags. 9. nóvember 2012 sendi Matvælastofnun til kæranda bréf stofnunarinnar dags. 8. nóvember 2012 ásamt nánari upplýsingum um að heimilt væri að afhenda hluta sendingarinnar með þeim skilyrðum að sendingunni yrði skipt upp í tvær sendingar, sem eru með og án dýraafurða. Sá hluti sendingarinnar sem innihéldi dýraafurð yrði svo að vera skráð í TRACES.

Með tölvupósti dags. 6. desember 2012 upplýsti Matvælastofnun kæranda um að kærufrestur væri liðinn og því bæri kæranda að velja á milli þess að endursenda vöruna eða sjá til þess að henni yrði fargað. Var kærandi upplýstur um að ráðstöfun sendingarinnar færi fram hjá Tollstjóra. Kærandi svaraði bréfi stofnunarinnar sama dag þar sem kom fram að kærandi hefði óskað þess að fá hluta sendingarinnar, þ.e. fóðrið Calf-Manna skráð í TRACES en sú beiðni hefði glatast. Kærandi óskaði því eftir að engar ráðstafanir yrðu gerðar varðandi sendinguna fyrr en 9. janúar 2013 þegar hann væri væntanlegur aftur til landsins. Með tölvupósti 7. desember 2012 svaraði Matvælastofnun kæranda. Þar kom fram að sendingin uppfyllti ekki innflutningskröfur samkvæmt bréfum stofnunarinnar dags. 26. október 2012 og 8. nóvember 2012 og vanskráning í TRACES væri ekki ástæða höfnunarinnar. Var kæranda því tilkynnt að ekki væri ástæða til að framlengja frest vegna höfnunar á innflutningi sendingarinnar.

Kærandi kom á fund í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vegna málsins í byrjun janúar 2013 og í framhaldi þess fundar aflaði ráðuneytið upplýsinga um stöðu málsins hjá Matvælastofnun sem áframsendar voru til kæranda með tölvupósti dags. 16. janúar 2013. Með bréfi dags. 31. janúar kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis vegna málsins. Samkvæmt bréfi umboðsmanns Alþingis dags. 10. júní 2013 var kærandi upplýstur um að skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis væri ekki unnt að leita til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra sett stjórnvald hefði tekið afstöðu til málsins. Þar sem ákvörðun Matvælastofnunar dags. 8. nóvember 2012 hafði ekki verið kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins gæti umboðsmaður ekki fjallað um málið að svo stöddu.

Kærandi óskaði eftir leiðbeiningum vegna málsins hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með tölvupósti dags. 18. júní 2013. Framangreindur tölvupóstur barst ekki til ráðuneytisins þar sem hann var stílaður á rangt netfang. Kærandi hafði samband símleiðis við ráðuneytið 5. júlí 2013 þar sem honum hafði ekki borist svar frá ráðuneytinu. Með tölvupósti dags. 8. júlí 2013 var kæranda veittar leiðbeiningar um stjórnsýslukæru til ráðuneytisins.

Með bréfi dags. 9. júlí 2013 til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var kærð ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna innflutningi á dýrafóðri. Samkvæmt kæru er þess krafist að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 8. nóvember 2012 um að hafna innflutningi á fóðri verði felld niður.

Með bréfi dags. 17. júlí 2013 óskaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar um málið og jafnframt eftir öllum þeim gögnum sem Matvælastofnun kynni að hafa um málið en hefðu ekki borist til ráðuneytisins. Matvælastofnun var veittur frestur til 1. ágúst 2013. Með símtali 17. júlí 2013 hafði kærandi samband við ráðuneytið til að ganga úr skugga um að kæra hans og gögn hafi borist til ráðuneytisins. Þá var kæranda leiðbeint um ferli stjórnsýslukærunnar og hann upplýstur um að beðið væri umsagnar og gagna frá Matvælastofnun.

Með tölvupósti dags. 6. ágúst 2013 óskaði Matvælastofnun eftir frekari fresti vegna sumarleyfa hjá stofnuninni. Viðbótarfrestur var veittur til 15. ágúst 2013. Umsögn og gögn Matvælastofnunar bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 15. ágúst 2013.

Með bréfi dags. 15. ágúst 2013 veitti ráðuneytið kæranda frest til 30. ágúst 2013 til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn og gögn Matvælastofnunar. Með símtali 16. ágúst 2013 vildi kærandi koma á framfæri leiðréttingu að um væri að ræða dýrafóður sem innihéldi mysuduft en ekki væri um að ræða innflutning á mjólkurdufti. Þá gerði hann einnig athugasemdir við að Matvælastofnun hafi ekki heimilað vöruskoðun á vörunni. Þá var kæranda leiðbeint um hvernig hann gæti komið að frekari athugasemdum í málinu. Með tölvupósti dags. 21. ágúst 2013 óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum og gögnum sem Matvælastofnun vitnaði til í umsögn sinni dags. 15. ágúst 2013. Umbeðnar upplýsingar og gögn bárust ráðuneytinu með tölvupósti dags. 22. ágúst 2013. Framangreind gögn voru send kæranda sama dag. Með tölvupósti dags. 22. ágúst 2013 og 24. ágúst 2013 barst ráðuneytinu athugasemdir og gögn frá kæranda vegna málsins. Frekari athugasemdir eða gögn bárust ekki frá kæranda fyrir 30. ágúst 2013.

Með bréfi 11. september 2013 óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá framleiðanda fóðursins Manna Pro Products. Veittur var frestur til 16. september 2013 til að bregðast við bréfi ráðuneytisins. Svar við spurningum ráðuneytisins bárust með tölvupóstum dags. 12. september 2013 og 3. október 2013. Sama dag, 3. október 2013 sendi ráðuneytið svör Manna Pro Products til kæranda og veitti frest til athugasemda. Sama dag barst ráðuneytinu athugasemdir kæranda.

Málsatvik og lagarök

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru er þess krafist að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 8. nóvember 2012 að hafna innflutningi á Calf-Manna fóðri verði felld úr gildi og kæranda verði heimilað að flytja inn Calf-Manna fóður sem flutt var til landsins 19. september 2012.

Í kæru vísar kærandi til þess að hann flytji inn fóður frá Manna Pro Products í Bandaríkjunum. Manna Pro Products sé skráð og viðurkenndur fóðurframleiðandi af Alríkis fæðu- og fóðurráðuneyti Bandaríkjanna og af Missouri fylki.

Kærandi bendir á að með aðild Íslands að Aljóðaviðskiptastofnuninni (World Trade Organization, WTO) sé fyrirtækjum, sem hafa leyfi til útflutnings, heimilt að flytja inn vörur frá Bandaríkjunum. Kærandi bendir á að fóðrið Calf-Manna sé margviðurkennd fóðurvara og sé góð fyrir fjölmargar tegundir dýra. Varan sé að mestu kornvara sem innihaldi steinefni og vítamín eða sirka 97% vörunnar. Í fóðrinu er einnig hitameðhöndlaðar dýraafurðir, það er þurrkað mysuduft sirka 2-3%. Bendir kærandi á að mikið magn þessara efna sé að finna í annarskonar mat og fóðurvöru.

Kærandi bendir á að viðskiptahagsmunir við Bandaríkin séu miklir fyrir íslenskan almenning og útflutning. Í kæru vísar kærandi til þess að túlkun Matvælastofnunar á reglugerðum sé þröng og hamli eðlilegri og frjálsri verslun. Með því að stöðva innflutning á fóðri og fæðu sé útflutningsverslun til Bandaríkjanna sett í hættu. Í kæru vísar kærandi til þess að eingöngu sé heimilt að takmarka atvinnufrelsi og leggja hömlur við því ef almannaheill krefst þess samkvæmt 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Kærandi bendir á að hvergi í lögum séu settar hömlur við þessum innflutningi enda sé ekki tilefni til þess að brjóta grundvallarlög með því að stöðva innflutning á fóðrinu Calf-Manna.

Í kæru vísar kærandi til laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og laga nr. 93/1995, um matvæli ásamt reglugerð nr. 1044/2011 um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnhagssvæðisins.

Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar

Í umsögn Matvælastofnunar dags 15. ágúst 2013 er málatvikum lýst. Matvælastofnun bendir á í umsögn sinni að í 4. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru sé kveðið á um að fóðurfyrirtæki skuli tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en starfsemi hefst. Þá komi fram í ákvæði laganna að óheimilt sé að flytja til landsins fóður nema að tilkynna það og láta skrá hjá Matvælastofnun skv. 5. gr. laganna. Þá er kveðið á um það skilyrði að allur innflutningur fóðurs frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem inniheldur dýrafurðir skuli fara um landamærastöðvar. Krafa er gerð um að Matvælastofnun skuli tilkynnt með 24 klst. fyrirvara um slíkan innflutning þar sem tilgreina skal magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sendingin berist. Á landamærastöð skal svo fara fram athugun á skjölum og samanburður framkvæmdur á þeim og sendingunni til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað skv. 7. gr. i laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Matvælastofnun vísar til þess að um innflutning á dýraafurðum frá þriðju ríkjum gilda ákvæði reglugerðar nr. 1044/2011 um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnhagssvæðisins. Þá vísar stofnunin til Viðauka F við reglugerðina, þar eru tilgreind dýr og afurðir sem skulu sæta heilbrigðiseftirliti á skoðunarstöðvum á landamærum. Í 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Matvælastofnun skuli sjá til þess að engin sending frá þriðja ríki sé flutt inn á Evrópska efnhagssvæðið nema að loknu heilbrigðiseftirliti samkvæmt reglugerðinni. Skylt er því að tilkynna Matvælastofnun, með nánar tilgreindum hætti og landamærastöð með 24 klst. fyrirvara um komu sendingarinnar til landsins. Þá skuli öllum sendingum fylgja frumrit heilbrigðisvottorðs og annarra skjala sem krafist er. Matvælastofnun heldur skrá yfir ríki, svæði og starfsstöðvar sem innflutningurinn er heimill frá og birtir á heimasíðu sinni. Með vísan til þeirra annmarka sem Matvælastofnun taldi vera á sendingunni var innflutningi fóðursins hafnað. Í umsögn Matvælastofnunar vísar stofnunin til þess að skv. 17. gr. reglugerðar nr. 1044/2011 skuli afurðir sem ekki uppfylla kröfur laga eða reglna eða eftirlit leiði í ljós vanrækslu skal Matvælastofnun, að undangengnum andmælum innflytjanda, fyrirskipa endursendingu vörunnar til ákvörðunarstaðar utan Evrópska efnahagssvæðisins sem samþykktur er af innflytjanda innan 60 daga. Sé endursending óframkvæmanleg innan 60 daga skal farga vörunni. Samkvæmt umsögn Matvælastofnunar var kæranda leiðbeint með tölvupósti dags. 6. desember 2012 um að hann yrði að endursenda vöruna eða sjá til þess að henni yrði fargað. Stofnuninni hafi ekki borist svör frá kæranda og því sé fóðrið enn í vörslu Matvælastofnunar á landamærastöð.

Matvælastofnun bendir á að innflutningi á sendingu kæranda hafi verið hafnað þar sem sendingin uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Matvælastofnun hafnar því að lagastoð hafi skort þegar Matvælastofnun tók ákvörðun um að hafna innflutningi á fóðrinu. Þá bendir Matvælastofnun á að það sé ekki á færi stjórnvalds að víkja til hliðar settum lagaákvæðum með vísan til þess að þau standist ekki ákvæði stjórnarskrár, slíkt sé aðeins á færi dómstóla að skera úr um.

Rökstuðningur

Mál þetta lýtur að skilyrðum laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Fóður sem inniheldur dýraafurðir

Með vísan til gagna málsins inniheldur fóðrið Calf-Manna mysuduft (dried whey). Í gögnum málsins er vitnað til þess að varan væri geitamjólkurduft. Má það meðal annars sjá í skoðunarskýrslu Matvælastofnunar dags. 19. september 2012 til Sundafrost/Tollgæslunnar. Með vísan til innihaldslýsingar vörunnar eins og henni er lýst á heimasíðu framleiðanda og samkvæmt innihaldslýsingu á vörunni sjálfri er ljóst að varan inniheldur mysuduft (dried whey). Inniheldur fóðrið þar af leiðandi dýraafurð, þ.e. mjólkurafurð. Með vísan til gagna málsins og upplýsinga frá Manna Pro Products liggur fyrir í máli þessu að Manna Pro Products nota mysuduftið tilbúið frá öðrum framleiðanda við blöndun fóðursins Calf-Manna. Samkvæmt upplýsingum frá Manna Pro Products dags. 3. október 2013 er mysuduftið meðhöndlað með eftirfarandi hætti:

„First step is to run through a pasteurizer where it is heated to 188 degrees F for a minimum of 15 seconds, typically 17 seconds. The next step is through a condensing unit which condenses the solids by removal of water; this happens at 115 degrees F. The whey is then sprayed into the top of a tower drier which is heated to 350 degrees F. As the whey falls from the top of drier to bottom it dries. When the product enters the bag it is typically 90-95 degrees F.“

Í ákvæðum laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gagnvart þeim er fjallað um m.a. dýrafóður. Tilgangur laganna er að fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra skv. b. lið 1. gr. laga nr. 25/1993. Í d. lið 8. gr. laga nr. 25/1993 kemur fram að ráðherra geti samkvæmt lögunum og að fengnum tillögum Matvælastofnunar fyrirskipað bann við innflutningi eða útflutningi til að útrýma eða hindra útbreiðslu þeirra dýrasjúkdóma sem taldir eru upp í viðaukum 1A, 1B og 2 við lögin og til að afstýra hættu og tjóni af völdum úrbreiðslu þessara sjúkdóma. Frekari skilyrði er að finna í reglugerð nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. Reglugerðin gildir um innflutning á hvers konar afurðum dýra og öðrum vörum, sem smitefni geta borist með er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum. Samkvæmt 6. tl. b. lið 3. gr. reglugerðar nr. 448/2012 er óheimilt að flytja til landsins dýrafóður sem inniheldur mjólkurafurðir sem almennt myndu ekki standast kröfur dýralæknayfirvalda til innflutnings og sem geta borið með sér smitefni er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum. Með vísan til upplýsinga frá framleiðanda fóðursins Manna Pro Products liggur fyrir að mysuduftið er hitameðhöndlað áður en það er blandað í Calf-Manna fóðrið. Þar af leiðandi innihaldi fóðrið ekki ómeðhöndlaða eða hráa dýraafurð sem geti borið með sér smitefni er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að þrátt fyrir að fóðrið Calf-Manna innihaldi dýraafurð þá sé mysuduftið meðhöndlað með þeim hætti að fóðrið falli ekki undir 3. gr. reglugerðar 448/2012 sbr. 8. gr. laga nr. 25/1993. Þar af leiðandi sé ekki óheimilt að flytja fóðrið til landsins ef önnur innflutningsskilyrði samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða eru uppfyllt.

Skilyrði fyrir innflutningi fóðurs

A. Samþykkisnúmer

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru er tilgangur laganna að tryggja svo og kostur er öryggi og heilnæmi fóðurs og gæði áburðar og sáðvöru. Fóður er skilgreint sem hvers konar efni eða vörur, einnig aukaefni, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem ætluð eru til fóðrunar dýra. Í máli þessu er um að ræða fóður sem er ætlað fyrir m.a. hesta, nautgripi, geitur, kanínur og svín. Í málinu er óumdeilt að Calf-Manna sé fóður fyrir búfé og falli því undir gildissvið laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Samkvæmt 5. gr. nr. 22/1994 er óheimilt að flytja til landsins vörur sem lögin taka til nema að tilkynna þær og skrá hjá Matvælastofnun sem staðfestir skráningu vörunnar. Matvælastofnun skal aðeins skrá vörur er þeim hefur verið lýst á fullnægjandi hátt. Tilkynningarskyldan er nauðsynleg til að eftirlitið geti, hvenær sem ástæða er talin vera til gripið til viðhlítandi úrræða til að tryggja sem best að gildandi lög um notkun fóðurs séu virt.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 22/1994 setur ráðherra reglugerðir til að tryggja framkvæmd laganna. Þannig var með reglugerð nr. 107/2010 innleidd reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 183/2005 um kröfur varðandi hollustuhætti sem varða fóður. Í 10. gr. reglugerðar (EB) nr. 183/2005 er fjallað um samþykki starfsstöðva fóðurfyrirtækja. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu tryggja að starfsstöðvar undir þeirra stjórn, þar sem fóður er framleitt, falli undir reglugerðina og séu samþykktar af lögbæru yfirvaldi. Samkvæmt 23. gr. reglugerðar (EB) nr. 183/2005 skulu stjórnendur fóðurfyrirtækis, sem flytja fóður frá þriðju löndum sjá til þess að innflutningur sé í samræmi við eftirfarandi skilyrði a.- d. liðar 23. gr. reglugerðarinnar, en þar kemur fram:

  1. sendingarlandið, sem er þriðja land, er tilgreint í skrá sem er samin í samræmi við 48. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004 yfir þriðju lönd þaðan sem innflutningur á fóðri er leyfður,
  2. afgreiðslustöðin er tilgreind í skrá sem þriðja land semur og uppfærir í samræmi við 48. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004 yfir starfsstöðvar þaðan sem innflutningur á fóðri er leyfður,
  3. afgreiðslustöðin eða önnur starfsstöð í skránni, sem um getur í b-lið, eða í Bandalaginu framleiddi fóðrið og
  4. fóðrið uppfyllir:
  1. kröfur sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð og allri annarri löggjöf Bandalagsins þar sem mælt er fyrir um reglur um fóður eða
  2. skilyrði sem Bandalagið telur a.m.k. jafngilt téðum kröfum eða
  3. kröfur í sérsamningi milli Bandalagsins og útflutningslandsins ef slíkur samningur hefur verið gerður.

Í reglugerð nr. 744/2011 um notkun og markaðssetningu fóðurs var innleidd reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 767/2009 um setningu fóðurs á markað og notkun þess. Reglugerð (EB) nr. 767/2009 fjallar um fóður sem ætlað er dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis og dýrum sem ekki gefa af sér afurðir til manneldis. Gerðar eru kröfur varðandi merkingar, pökkun og framsetningu skv. 2. gr. reglugerðar (EB). Í 15. gr. reglugerðarinnar er fjallað um almennar, lögboðnar kröfur varðandi merkingar. Samkvæmt c. lið 15. gr. reglugerðarinnar skal fóðurefni eða fóðurblanda merkt með upplýsingum um samþykkisnúmer starfstöðvar fyrirtækisins, ef slíkt númer er fyrir hendi, fyrir þann aðila sem ber ábyrgð á merkingum.

Samkvæmt 7. gr. f laga nr. 22/1994 skal við dreifingu fóðurs vera fyrir hendi möguleiki á að rekja feril fóðurs dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis. Innflytjandi getur þurft að staðfesta frá hvaða fyriræki það hefur fengið tiltekið fóður eða efni sem sett eru í fóður til að tryggja rekjanleika á öllum stigum ef rannsókn fer fram. Þá er einnig mælt fyrir um að fóðurvörur skuli vera merktar og auðkenndar á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga. Þá er mælt fyrir um í 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002 að á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar skal vera fyrir hendi möguleiki á að rekja feril fóðurs og hvers kyns efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í fóður. Fóður sem er markaðssett eða líklegt er að verði markaðssett á EES-svæðinu skal merkt eða aukennt á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsingum í samræmi við viðeigandi kröfur í sérákvæðum. Þá skulu stjórnendur matvæla- og fóðurfyrirtækja hafa yfir að ráða kerfum og verklagsreglum til að geta tilgreint fyrirtækin sem þeir hafa afhent vörur sínar og slíkar upplýsingar skuli vera gerðar aðgengilegar lögbærum yfirvöldum að beiðni þeirra.

Með vísan til ákvörðunar Matvælastofnunar 8. nóvember 2012 var innflutningi á fóðrinu Calf-Manna hafnað þar sem varan var ekki merkt viðukenndri starfsstöð samkvæmt skrá Evrópusambandsins. Kærandi framvísaði með gögnum málsins vottorði frá Manna Pro Products dags. 30. október 2012 þar sem kemur fram að fyrirtækið hafi leyfi til framleiðslu fóðursins Calf-Manna. Varan sé bandarísk að uppruna og framleiðsla hennar sé undir alríkis- og fylkiseftirliti og uppfylli allar heilbrigðiskröfur. Fyrirtækið og framleiðslan uppfylli öll skilyrði sem þeim eru sett í fylkisfæðulöggjöf (State feed law) og hefur framleiðsluleyfi sem veitt er af Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna (Department of Agriculture). Þar kemur einnig fram að fyrirtækinu sé heimilt að selja og dreifa fóðrinu Calf-Manna innan Bandaríkjanna sem og utan. Í gögnum málsins er einnig að finna samskipti kæranda við starfsmenn Manna Pro Products, framleiðanda fóðursins Calf-Manna. Þar kemur fram í upplýsingum starfsmanns fyrirtækisins að fóðrið sé flutt til Evrópu. Ráðuneytið óskaði upplýsinga frá Manna Pro Products þess efnis til hvaða landa í Evrópu fóðrið væri flutt til og einnig hvort fyrirtækið hefði svokallað samþykkisnúmer starfsstöðvar. Í svari Manna Pro Products dags. 12. september 2013 kom fram að fyrirtækið sjálft, væri ekki að flytja fóðrið Calf-Manna til annarra landa innan Evrópusambandsins og hefði þar af leiðandi ekki samþykkisnúmer.

Með vísan til gagna málsins og myndum af fóðrinu Calf-Manna telur ráðuneytið að ákvæði 15. gr. reglugerðar (EB) nr. 767/2009 sbr. reglugerð 744/2011 og 7. gr. f. laga nr. 22/1994 hafi ekki verið uppfyllt enda vanti framangreindar merkingar á fóðrið. Á fóðrinu sé ekki að finna samþykkisnúmer starfsstöðvarinnar né er fóðrið merkt og auðkennt með þeim hætti að unnt sé að rekja feril þess með vísan til viðeigandi skjala og upplýsinga. Í gögnum málsins liggur fyrir að Manna Pro Products flytja vöru sína Calf-Manna ekki beint til annarra landa innan Evrópska efnhagssvæðisins og hafa því ekki samþykkisnúmer. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að skilyrði laga nr. 22/1994 og reglugerða settum samkvæmt þeim hafi ekki verið uppfyllt vegna innflutnings á Calf-Manna fóðri frá þriðja ríki, hvað varðar merkingar og viðeigandi innflutningsskilyrði.

B. Heilbrigðisvottorð

Í 7. gr. i laga nr. 22/1994 er sérstaklega fjallað um innflutning fóðurs, sem inniheldur dýraafurðir, frá ríkjum utan Evrópska efnhagssvæðisins. Samkvæmt ákvæðinu skal slíkur innflutningur fara um landamærastöðvar. Tilkynna þarf Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist. Í 3. mgr. 7. gr. i laganna segir að á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og framkvæma skal samanburð á þeim og sendingunni til að sannreyna uppruna og ákvörðunarstað fóðursins.

Með reglugerð nr. 489/2010 um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 136/2004 um reglur um heilbrigðiseftirlit dýralæknis á landamærastöðvum með afurðum sem eru fluttar inn frá þriðju löndum er fjallað um samræmda dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorðið (CVED) við innflutning m.a. fóðurs frá þriðju löndum. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 136/2004 skal sá sem ábyrgð ber á farminum, tilkynna starfsmönnum heilbrigðiseftirlits á viðkomandi landamæraskoðunarstöð um komu afurðanna með því að nota samræmt dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð (CVED) sbr. III. viðauka við reglugerðina. Við innflutning fóðurs frá þriðja ríki þarf að vera unnt að framkvæma sannprófun skjala skv. 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar í samræmi við I. viðauka við reglugerðina.

Í reglugerð nr. 1044/2011 um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnhagssvæðisins er sérstaklega fjallað um innflutning frá þriðju ríkjum. Reglugerðin gildir um afurðir í dýraríkinu sem um getur í viðauka F við reglugerðina. Samkvæmt 23. kafla reglugerðarinnar, leifar og úrgangur frá matvælaframleiðslu, er fjallað um unnið skepnufóður sem inniheldur mjólkurafurðir. Þar með talinn brodd og mjólk í fljótandi formi, ekki til manneldis og afurðir sem innihalda mjólk ekki til manneldis. Þær vörur sem tilgreindar eru í viðauka F við reglugerðina skulu sæta eftirliti samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Matvælastofnun skuli sjá til þess að engin sending frá þriðja ríki sé flutt inn á Evrópska efnhagssvæðið nema að loknu heilbrigðiseftirliti samkvæmt reglugerðinni. Þá skuli sendingar frá þriðja ríki fluttar inn á yfirráðasvæði Evrópska efnhagssvæðisins um landamærastöðvar. Í 3. mgr. 3. gr. kemur eftirfarandi fram:

Skylt er að tilkynna Matvælastofnun og viðkomandi landamærastöð með 24 klst. fyrirvara um komu sendingar til landsins. Tilkynningin skal send í formi samræmda dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorðsins (CVED) sbr. reglugerð nr. 489/2010. Skjalið skal vera í fjórum eintökum, eitt frumrit og þrjú afrit og skal innflytjandi eða fulltrúi hans fylla út 1. lið á öllum fjórum eintökum. Hann skal undirrita öll eintökin og senda til Matvælastofnunar. Matvælastofnun er heimilt að skoða farmskrár skipa og flugvéla og ganga úr skugga um að þær samsvari innflutningsskjölum. Ef afferma á afurðir á einhvern hátt skal það tilkynnt Matvælastofnun. Öllum sendingum skal fylgja frumrit heilbrigðisvottorðs og annarra skjala sem krafist er.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi óskaði eftir skráningu nýs fóðurs þann 19. september 2012. Með tölvupósti dags. 16. október 2013 leiðbeindi Matvælastofnun kæranda um þau skilyrði sem uppfyllt þyrftu að vera svo unnt væri að heimila innflutning fóðurs frá þriðja ríki, hvaða gögn væru nauðsynleg, eins og opinbert heilbrigðisvottorð (dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð (CVED)) og að skrá yrði fóðrið í gegnum TRACES og landamærastöð þar sem það innihéldi dýraafurð. Ráðuneytið telur að þrátt fyrir skráningu nýs fóðurs hjá Matvælastofnun og kærandi hafi aflað vottorðs frá framleiðanda fóðursins þá hafi ekki legið fyrir dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð (CVED) í samræmi við framangreint.

Ráðuneytið telur að með vísan til ákvæða laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, sé heimilt að flytja til landsins fóðrið Calf-Manna ef önnur innflutningsskilyrði laga og reglugerða eru uppfyllt. Með vísan til framangreinds fylgdi dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð (CVED) ekki fóðrinu þegar það var flutt til landsins. Ráðuneytið telur vottorð framleiðanda fóðursins Manna Pro Products ekki uppfylla þau skilyrði sem tilgreind eru. Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds að ekki hafi verið uppfyllt innflutningsskilyrði vegna innflutnings Calf-manna fóðursins, þar sem sendingunni hafi ekki fylgt dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð (CVED) þegar fóðrið barst til landsins.

Leiðbeiningarskylda, meðalhóf og ráðstöfun sendingar

Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 8. nóvember 2012 var byggð á ákvæðum laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Ákvörðun stofnunarinnar að hafna innflutningi á fóðrinu Calf-Manna byggir á því að í fyrsta lagi hafi varan ekki verið merkt viðurkenndri starfsstöð samkvæmt skrá Evrópusambandsins og í öðru lagi hafi fóðrinu ekki fylgt frumrit af heilbrigðisvottorði fyrir Evrópumarkað. Ráðuneytið telur að ákvörðun Matvælastofnunar hafi byggt á því að framangreind skilyrði fyrir innflutningi fóðurs til landsins hafi ekki verið uppfyllt.

Með tölvupósti dags. 16. október 2012 og 26. október 2012 var kæranda leiðbeint um þau skilyrði sem hann yrði að uppfylla svo heimilt væri að flytja inn til landsins fóðrið Calf-Manna. Í tölvupósti dags. 26. október 2012 kom eftirfarandi fram:

Upplýsingar um meginskilyrði fyrir Innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan EES

  1. Innflutningurinn skal skráður í TRACES, sem er samevrópskt kerfi fyrir útgáfu á innflutningsskjölum fyrir dýraafurðir (CVEDP)
  2. Varan skal vera framleidd í viðurkenndri starfsstöð, skv. meðfylgjandi skrá ESB
  3. Varan skal vera merkt með samþykkisnúmeri viðurkenndu starfsstöðvarinnar
  4. Sendingunni skal fylgja frumrit af heilbrigðisvottorði fyrir Evrópumarkað, gefið út af yfirvöldum útflutningslands
  5. Afurðirnar mega einungis koma til landsins á þar til samþykkta landamærastöð"

Með vísan til framangreinds tölvupóst til kæranda og einnig með vísan til gagna málsins svo sem tölvupósta frá starfsmönnum Matvælastofnunar til kæranda telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og veitt kæranda aðstoð og leiðbeiningar áður en stofnunin tók ákvörðun um að hafna innflutningi á fóðrinu Calf-Manna, með ákvörðun dags. 8. nóvember 2012. Óumdeilt er í málinu að kæranda var leiðbeint ranglega um kærufrest samkvæmt bréfi Matvælastofnunar frá 6. desember 2012. Var það leiðrétt með bréfi Matvælastofnunar 4. júní 2013. Sending kæranda sé því enn í vörslu Matvælastofnunar.

Þá var kæranda einnig leiðbeint um að hann gæti fengið hluta sendingarinnar afhentan, þ.e. þann hluta sem ekki innihéldi fóður. Kom það meðal annars fram í tölvupósti Matvælastofnunar dags. 26. október 2012 og 9. nóvember 2012. Þar kom fram að kærandi gæti fengið hluta sendingarinnar afhentan ef sendingunni yrði skipt upp í tvær sendingar, þ.e. með og án dýraafurða. Þá yrði sá hluti sendingarinnar sem innihéldi dýraafurðir að vera skráður í TRACES. Þá var kæranda leiðbeint um til hvaða starfsmanns kærandi gæti leitað til hjá Eimskip varðandi skráningu í TRACES. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiðið, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi veitt kæranda tækifæri á að fá sendinguna afhenta. Hafi stofnunin með því gætt að meðalhófsreglur 12. gr. stjórnsýslulaga áður en stofnunin tók ákvörðun um að grípa til ráðstafna í samræmi við 17. gr. reglugerðar nr. 1044/2011. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1044/2011 kemur fram að ef eftirlit leiði í ljós að afurðir uppfylla ekki kröfur sem settar eru í lögum og reglugerðum, að undangengnum andmælarétti skal fyrirskipa um endursendingu vörunnar til ákvörðunarstaðar utan Evrópska efnhagssvæðisins sem samþykktur er af innflytjanda. Þá er mælt fyrir um í 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar að ef endursending er óframkvæmanleg, 60 daga tímamarkið er liðið og innflytjandi samþykkir að slíkt sé framkvæmt þegar í stað, skal farga vörunni. Þar til endursending fer fram, förgun eða staðfesting fæst á ástæðum höfnunar skulu viðkomandi afurðir geymdar undir eftirliti Matvælastofnunar á kostnað innflytjanda skv. 7. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Ráðuneytið telur því að Matvælastofnun hafi ekki brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Með tölvupósti dags. 6. desember 2012 var kæranda tilkynnt að kærufrestur væri liðinn, var það síðar leiðrétt með bréfi Matvælastofnunar 4. júní 2013. Var kæranda leiðbeint um að leggja yrði inn aðflutningsskýrslu til Tollstjóra um að annað hvort endursendingu vörunnar eða förgun hennar undir tollaeftirliti. Framangreindar ráðstafanir voru ekki framkvæmdar og fóðrið er því enn í vörslu Matvælastofnunar í tollvörugeymslu Tollsjóra. Í tölvupósti Matvælastofnunar dags. 9. nóvember 2012 var kæranda leiðbeint um að heimilt væri að afhenda hluta sendingarinnar ef sendingunni yrði skipt upp í tvær sendingar. Beiðni þess efnis barst ekki frá kæranda og samkvæmt gögnum málsins barst Matvælastofnun þær upplýsingar frá kæranda að hann hyggðist fá alla sendinguna afhenta og því óskaði hann ekki eftir því að henni yrði skipt upp. Við meðferð málsins hjá ráðuneytinu barst ráðuneytinu afrit af bréfi Tollstjóra dags. 5. september 2013 þar sem kæranda var tilkynnt um fyrirhugaða nauðungarsölu eða förgun sendingarinnar. Með bréfi dags. 11. september 2013 óskaði Matvælastofnun eftir því að ráðstöfun sendingarinnar yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í máli þessu. Sendingin er því í vörslu Matvælastofnunar í tollvörugeymslu Tollstjóra.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að skilyrði fyrir innflutningi Calf-Manna fóðursins séu ekki uppfyllt en fóðrið er hluti af sendingu sem barst til landsins 19. september 2012. Ráðuneytið telur að ef kærandi óski þess innan 30 daga frá úrskurði þessum, sé ekkert í gögnum málsins sem komi í veg fyrir, að heimilaður verði innflutningur á þeim hluta sendingarinnar sem ekki inniheldur fóðrið Calf-Manna. Þá telur ráðuneytið með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæranda skuli veittur 60 daga frestur frá úrskurði þessum til að endursenda fóðrið til útflutningslandsins. Að liðnum 60 daga fresti skal fóðrinu fargað á kostnað kæranda.

Atvinnufrelsi og Alþjóðaviðskiptastofnunin

Í kæru kemur fram að kærandi telji að framangreind skilyrði laga og reglugerða brjóti gegn atvinnufrelsi sínu. Í 75. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Ísland nr. 33/1944 er atvinnufrelsi verndað. Ákvæðið tryggir rétt manna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa, með þeim skorðum þó sem settar eru í lögum ef almannahagsmunir krefjast þess. Með vísan til orðalags ákvæðisins er heimilt að setja atvinnufrelsi skorður með lögum og að almannahagsmunir liggi til grundvallar þeirri lagasetningu. Ráðuneytið telur að ekki sé á valdi þess að skera úr um hvort framangreind skilyrði varðandi innflutning á fóðri frá þriðja ríki stangist á við ákvæði stjórnarskrár heldur sé slíkt á forræði dómstóla að skera úr um. Í kæru bendir kærandi á að hvergi í lögum séu settar hömlur við innflutningi á fóðri frá Bandaríkjunum. Með vísan til framangreindra skilyrða í lögum nr. 22/1994 og í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerðum settum samkvæmt þeim þurfa tiltekin skilyrði að vera uppfyllt svo unnt sé að flytja til landsins fóður, hvort sem er frá landi innan Evrópska efnahagssvæðisins eða frá þriðja ríki. Tilgangur laganna og reglugerða er að tryggja svo sem kostur er öryggi og heilnæmi þess fóðurs sem notað er hér á landi. Sérstök skilyrði eru sett vegna innflutnings á fóðri sem inniheldur dýraafurðir frá þriðju ríkjum. Ráðuneytið telur því að ákvæði laganna komi ekki í veg fyrir innflutning fóðurs frá Bandaríkjunum ef framangreind skilyrði eru uppfyllt og fullnægjandi gögn fylgi því fóðri sem flutt er til landsins.

Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var undirritaður af Íslands hálfu 15. apríl 1994. Stofnunin á rætur sínar að rekja til hins almenna samnings um tolla og viðskipti (General Agrement on Tariffs and Trade, GATS). Með þingsályktunartillögu um fullgildingu samnings um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fullgildur hér á landi. Markmið Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er að afnema viðskiptahindranir og auka frelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Samningurinn gerir ekki ráð fyrir að vikið verði frá þeim kröfum sem settar eru í lögum og reglugerðum viðkomandi lands varðandi hollustuhætti og heilbrigði manna og dýra. Ráðuneytið telur að framangreind skilyrði fyrir innflutningi fóðursins Calf-Manna hafi ekki í för með sér að hindra innflutning fóðursins til landsins ef framangreind skilyrði og gögn fylgja því fóðri sem flutt er til landsins. Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 8. nóvember 2012 hafi því ekki borið með sér að stöðva að öllu leyti innflutning á fóðri og fæðu enda snýr ákvörðun stofnunarinnar að því að framangreind skilyrði fyrir innflutningi og merkingu fóðursins séu ekki fullnægjandi og að viðeigandi gögn hafi vantað.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Óumdeilt er að fóðrið Calf-Manna inniheldur dýraafurð, þ.e. mysuduft (dried whey).Mysuduftið er hitameðhöndlað og er notað tilbúið við framleiðslu fóðursins Calf-Manna. Ráðuneytið telur að með vísan til ákvæða laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, sé heimilt að flytja til landsins fóðrið Calf-Manna ef önnur innflutningsskilyrði laga og reglugerða eru uppfyllt.

Allur innflutningur fóðurs sem inniheldur dýraafurðir, frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, skal fara um landamærastöð, tilkynna þarf um innflutninginn fyrirfram. Á fóðrinu er ekki að finna samþykkisnúmer starfsstöðvarinnar né er fóðrið merkt og auðkennt með þeim hætti að unnt sé að rekja feril þess með vísan til viðeigandi skjala og upplýsinga. Í gögnum málsins liggur fyrir að Manna Pro Products flytja vöru sína Calf-Manna ekki beint til annarra landa innan Evrópska efnhagssvæðisins og hafa því ekki samþykkisnúmer. Í gögnum málsins liggur einnig fyrir að fóðrinu fylgi ekki dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð (CVED). Ráðuneytið telur vottorð framleiðanda fóðursins Manna Pro Products dags. 30. október 2012 ekki uppfylla þau skilyrði sem tilgreind eru í ákvæðum laga nr. 22/1994 og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Ráðuneytið telur að þar sem sendingunni hafi ekki fylgt dýraheilbrigðis- og innflutningsvottorð (CVED) hafi ekki verið uppfyllt skilyrði vegna innflutnings fóðursins. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að skilyrði laga nr. 22/1994 og reglugerða settum samkvæmt þeim hafi ekki verið uppfyllt vegna innflutnings á Calf-Manna fóðri frá þriðja ríki, hvað varðar merkingar og viðeigandi innflutningsskilyrði og því sé ekki unnt að heimila innflutning fóðursins Calf-Manna.

Ráðuneytið telur með vísan til gagna málsins að Matvælastofnun hafi gætt að leiðbeiningarskyldu sinni við meðferð málsins skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi stofnunin einnig veitt kæranda tækifæri á að fá afhentan hluta sendingarinnar sem ekki innihéldi fóður. Matvælastofnun hafi einnig veitt kæranda tækifæri á að endursenda vöruna. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að stofnunin hafi gætt meðalhófs við meðferð málsins í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ráðuneytið telur atvinnufrelsi kæranda ekki skert umfram þau skilyrði sem ákvæði laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og reglugerðir settar samkvæmt þeim setja. Séu framangreind skilyrði laganna og reglugerðanna uppfyllt sé unnt að flytja inn fóður frá Bandaríkjunum. Þá telur ráðuneytið að Samningur um tolla og viðskipti (Genaral Agreement on Tariffs and Trade, GATS)geri ekki ráð fyrir að vikið sé frá þeim kröfum sem settar eru í lögum og reglugerðum varðandi hollustuhætti og heilbrigði.

Fóðrið Calf-Manna er hluti af sendingu sem barst til landsins 19. september 2012. Ráðuneytið telur að ef kærandi óski þess innan 30 daga frá úrskurði þessum, sé ekkert í gögnum málsins sem komi í veg fyrir, að heimilaður verði innflutningur á þeim hluta sendingarinnar sem ekki inniheldur fóðrið Calf-Manna. Þá telur ráðuneytið með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæranda skuli veittur 60 daga frestur frá úrskurði þessum til að endursenda fóðrið til útflutningslandsins. Að liðnum 60 daga fresti skal fóðrinu fargað á kostnað kæranda. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 8. nóvember 2012, um að hafna innflutningi á vörunni Calf-Manna, er staðfest. Óski kærandi þess innan 30 daga frá úrskurði þessum, að fá sendingunni skipt upp skal honum afhendur sá hluti sendingarinnar sem ekki inniheldur fóðrið Calf-Manna. Kæranda skal veittur 60 daga frestur frá úrskurði þessum til að senda fóðrið Calf-Manna til útflutningslandsins. Að liðnum 60 daga fresti skal fóðrinu fargað á kostnað kæranda.

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

                                               Baldur P. Erlingsson                           Rebekka Hilmarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta