Kæra vegna ákvörðunar Matvælastofnunar dags. 28. nóvember 2014, um að synja umsókn kæranda um heimild til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi.
Þriðjudaginn, 25. september 2018, var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
Stjórnsýslukæra
Með bréfi dags. 7. apríl 2015 bar [A] fram kæru f.h. [B] hér eftir nefndur kærandi, vegna ákvörðunar Matvælastofnunar dags. 28. nóvember 2014, um að synja umsókn kæranda um heimild til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi.
Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæran lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar frá 28. nóvember 2014. Þann 18. febrúar 2015 sendi kærandi Matvælastofnun beiðni um endurupptöku máls en Matvælastofnun synjaði beiðninni með ákvörðun dags. 31. mars 2015, og benti á að kærufrestur héldi áfam að líða. Kæra barst ráðuneytinu þann 7. apríl 2015. Samkvæmt framangreindu barst kæra fyrir lok kærufrests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga.
Kröfur
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi þar sem hún byggi á röngum lagaskilningi og kæranda verði veitt heimild til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi. Telur kærandi gildandi lög og reglur ekki fela í sér fortakslaust bann við framleiðslu vöru til manneldis úr slógi.
Málsatvik
Málið á sér töluverða forsögu en þann 11. júlí 2013 sótti kærandi um leyfi til fiskvinnslu, sem fæli í sér leyfi til að búa til lýsi og mjöl úr fiskslógi.
Matvælastofnun fjallaði um málið í niðurstöðu dags. 28. nóvember 2014, þar sem stofnunin synjaði um umbeðið leyfi. Þann 18. febrúar 2015 sendi kærandi Matvælastofnun bréf þar sem hann óskaði þess að málið yrði tekið upp að nýju. Matvælastofnun synjaði beiðni kæranda um endurupptöku með bréfi dags. 31. mars 2015. Þann 7. apríl 2015 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna synjunar Matvælastofnunar frá 28. nóvember 2014. Greinargerð kæranda barst ráðuneytinu 29. apríl 2015.
Með bréfi dags. 6. maí 2015 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna framangreindrar kæru. Stofnuninni var gefinn frestur til 10. júní 2015 til að veita umsögn í málinu. Ráðuneytið ítrekaði beiðni um umsögn með bréfi dags. 16. júní 2015 og veitti frest til 10. júlí 2015 til að skila umsögn. Þann 9. júlí 2015 framlengdi ráðuneytið frestinn til 21. ágúst 2015, og vísaði til verkfalls dýralækna sem þá stóð yfir. Ráðuneytið tilkynnti kæranda um tafir á umsögn með tölvupósti dags. 22. september 2015, og upplýsti um að frestur hefði fyrst verið veittur til loka ágústmánaðar en síðan framlengdur út september þar sem verið væri að bíða upplýsinga frá matvælaeftirlitinu í Noregi.
Umsögn Matvælastofnunar barst ráðuneytinu þann 13. október 2015. Þann 20. október kynnti ráðuneytið kæranda umsögnina og veitti honum frest til 6. nóvember 2015 til að koma á framfæri athugasemdum við umsögnina. Þann 10. nóvember 2015 ítrekaði ráðuneytið beiðni um athugasemdir og innti eftir því við kæranda hvort hann hyggðist skila athugasemdum. Sama dag óskaði kærandi framlengingar á fresti til 12. desember 2015. Daginn eftir, þann 11. nóvember 2015, framlengdi ráðuneytið frestinn samkvæmt ósk kæranda. Kærandi óskaði framlengingar á fresti þann 10. desember 2015 og veitti ráðuneytið frest til 18. janúar 2016 samdægurs. Þann 18. janúar 2016 óskaði kærandi framlengingar á fresti til að skila inn athugasemdum. Þann 3. febrúar 2016 upplýsti kærandi um að ætlunin væri að senda fyrirspurn í tengslum við málið til Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Þann 4. febrúar 2016 framlengdi ráðuneytið frest kæranda til 21. mars 2016 og óskaði svara um undir hvaða reglugerð fyrirspurnin muni heyra. Þann 21. mars 2016 upplýsti kærandi ráðuneytið um að búið væri að teikna upp og lýsa verkferlum verkunarinnar í samráði við Matís og upplýsti jafnframt að fyrirspurn til EFSA myndi byggja á 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1069/2009 og 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 142/2011 og VII. viðauka við hana. Síðar sama dag sendi kærandi framangreindar upplýsingar um ferli hreinsunarinnar.
Þann 29. nóvember 2016 sendi kærandi ráðuneytinu skýrslu Matís. Þann 15. desember 2016 tilkynnti kærandi ráðuneytinu um upplýsingaöflun um sambærilega framleiðslu innan EES, það er framleiðslu vöru til manneldis úr slógi. Þann 27. október 2017 sendi kærandi ráðuneytinu viðbótargögn í málinu og óskaði þess að Matvælastofnun tæki afstöðu til gagnanna og ráðuneytið úrskurðaði í kjölfarið. Þann 10. nóvember sendi ráðuneytið Matvælastofnun viðbótargögnin til umsagnar og veitti frest til 4. desember 2017 til að skila umsögn. Umsögn Matvælastofnunar, dags. 29. nóvember 2017, barst ráðuneytinu 4. desember 2017. Ráðuneytið sendi kæranda umsögnina þann 13. desember 2017 og veitti kæranda frest til 5. janúar 2018 til að skila inn athugasemdum. Þann 8. janúar 2018 óskaði kærandi eftir fresti til 12. janúar 2018 til að skila athugasemdum og veitti ráðuneytið þann frest. Þann 12. janúar 2018 bárust ráðuneytinu athugasemdir kæranda. Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.
Sjónarmið kæranda
Í kæru er þess krafist að ákvörðun Matvælastofnunar frá 28. nóvember 2014 verði felld úr gildi og kæranda veitt heimild til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi. Bendir kærandi á að hann hafi með bréfi dags. 18. febrúar 2015, óskað þess að Matvælastofnun tæki málið upp aftur með vísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en stofnunin hafi synjað þeirri beiðni. Telur kærandi niðurstöðu Matvælastofnunar byggða á röngum lagaskilningi.
Kærandi byggir á því að gildandi lög og reglur séu ekki fortakslaus um það að óheimilt sé að framleiða lýsi úr slógi til manneldis en Matvælastofnun gefi sér að slóg geti aldrei verið hæft til manneldis óháð meðhöndlun þess. Kærandi byggir á því að rétt meðhöndlun hráefnis skipti sköpum um hvort hægt sé að vinna úr því vöru til manneldis. Kærandi telur meðhöndlun og vinnslu slógsins hjá [B] tryggja að varan sé hæf til manneldis. Kærandi kveðst verða að fá tækifæri til að sýna Matvælastofnun að svo sé. Ekki megi fella dóma fyrirfram líkt og kærandi telur Matvælastofnun gera.
Bendir kærandi á að slógið sem um ræði í þessu tilfelli séu fiskmagi og skúflanga. Það fari í gegnum hitameðhöndlun á 90°C í eina klukkustund og svo sé allt fastefni skilið frá. Soðlýsi sem skilið sé frá innihaldi lýsi. Því sé haldið 90°C heitu og lýsið svo skilið frá soðinu. Lýsið sé skilið í lýsisskilvindu, til að hreinsa óhreinindi og vatn úr því. Heitu vatni sé bætt í lýsið áður en það fari í skilvinduna til að þvo það, þannig fáist þvegið lýsi. Lýsið verði síðan hreinsað og unnið eftir kröfum markaða.
Kærandi bendir á að mörg dæmi séu um að innyfli séu notuð til manneldis. Meðal annars sé lifur unnin í lýsi á sama hátt og innyfli, brislingur sé soðinn niður með innyflum, makríll sé frystur með innyflum, allt framangreint hafi manneldisvottun. Þá sé kolmunni bræddur heill og olían sem unnin er úr honum sé seld sem þorskalýsi til manneldis. Telur kærandi þessi dæmi sýna svo ekki verði um villst, að verið sé að vinna vörur til manneldis úr slógi (innyflum) og lagareglur standi því ekki í vegi. Kærandi telur það ekki rétt sem fram komi í bréfi Matvælastofnunar, að skörp skil séu á milli hrogna, lifur og kútmaga annars vegar og annars slógs sem Matvælastofnun telji óhæft til manneldis.
Kærandi telur niðurstöðu ráðuneytisins í úrskurði dags. 10. janúar 2013, sem Matvælastofnun vísar til í ákvörðun sinni frá 28. nóvember 2014, ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að bannað sé að vinna vörur til manneldis úr slógi. Í því máli hafi hrygg, haus og innyflum verið blandað saman í fiskikari. Slík blöndun geti haft í för með sér krossmengun, þar sem niðurbrotsefni í slógi geti mengað annað hráefni. Því skipti rétt meðhöndlun hráefnisins lykilmáli.
Kærandi telur að Matvælastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga nægilega, og henni hafi borið að gefa kæranda tækifæri til að sýna fram á hvernig hráefnið væri meðhöndlað og að varan væri hæf til manneldis. Stofnunin hafi hins vegar gefið sér fyrirfram að framþróun á þessu sviði sé vonlaus. Kærandi telur jafnframt að Matvælastofnun hafi borið að gæta meðalhófs við úrlausn málsins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið nauðsynlegt að banna vinnsluna fortakslaust, heldur hafi stofnunin getað beitt vægara úrræði sem gæfi kæranda möguleika á frekari þróun vörunnar undir lögbundnu eftirliti.
Þá telur kærandi synjun Matvælastofnunar brjóta gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggi að vörur úr slógi/innyflum hafi verið leyfðar til manneldis, líkt og áður greinir. Skilin milli mismunandi innyfla til manneldis séu ekki eins skörp og Matvælastofnun gefi í skyn og fortakslaust bann stofnunarinnar mismuni fyrirtækjum sem vinni vörur úr slógi.
Telur kærandi laga-, sanngirnis- og eðlisrök leiða til þess að kærandi fái leyfi til að þróa vöru úr slógi til manneldis undir lögbundnu eftirliti.
Kærandi telur umsögn Matvælastofnunar frá 27. nóvember 2017 vera ólíka fyrri afstöðu stofnunarinnar. Þar komi meðal annars fram að þess séu mörg dæmi að hráefni séu unnin með breyttum verkferlum og framleiðsluaðferðum þannig að lokaafurðin verði hæf til manneldis. Þar komi fram að vísinda- og heilbrigðisrök hafi verið færð fyrir því að ekkert sé því til fyrirstöðu að hreinsuð slógolía geti verið hæf til manneldis.
Um málsmeðferð og sjónarmið aðila vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.
Sjónarmið Matvælastofnunar
Í umsögn sinni frá 28. nóvember 2014 kvað Matvælastofnun umsóknina snúast um hvort heimilt væri bræða fiskislóg og aðrar aukaafurðir úr fiski til að framleiða meðal annars óhreinsað lýsi til manneldisvinnslu.
Vísaði stofnunin til úrskurðar ráðuneytisins frá 10. janúar 2013, en í því máli hafði Matvælastofnun gert athugasemd við að hráefni væri blandað saman í fiskikari þannig að bein, hausar og slóg blandaðist saman. Í því máli hafi niðurstaða ráðuneytisins verið sú að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. [a] matvælalaga væri óheimilt að markaðssetja matvæli sem ekki væru örugg. Hafi ráðuneytið talið líkindi vera fyrir því að matvæli spillist, þegar innihald meltingarvegar fisks blandast við þann hluta sem ætlaður er til manneldis, bæði með meltingarensímum og miklu magni örvera.
Stofnunin benti á 6. tölul. VIII. þáttar III. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 104/2010. Þar segi að þegar fiskur sé slægður um borð skuli það gert samkvæmt reglum um hollustuhætti og skuli afurðirnar þvegnar vandlega þegar í stað. Í slíkum tilfellum skuli innyfli og aðrir heilsuspillandi hlutar fisksins skilin frá sem fyrst og haldið aðskildum frá afurðum sem ætlaðar eru til manneldis. Lifur og hrogn sem ætluð séu til manneldis skuli geyma undir ís við hitastig nálægt hitastigi bráðnandi íss, eða frysta.
Í III. kafla sama þáttar sé fjallað um kröfur er varði starfsstöðvar sem meðhöndli lagarafurðir, þar með talin skip. Í 2. tölul. A-liðar segi að við hausun og slægingu skuli fylgja reglum um hollustuhætti og ef unnt sé að slægja afurðina, skuli það gert eins skjótt og unnt er eftir veiði og löndun þeirra. Afurðina skuli þvo vandlega strax að lokinni aðgerð. Matvælastofnun telur ákvæðin benda til þess að litið sé á innyfli (slóg) úr fiski sem heilsuspillandi og óhæf til manneldis.
Í b-lið B-hluta IV. kafla III. viðauka reglugerðarinnar, eins og honum var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1020/2008, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1005/2011, segi að hráefni sem notuð séu í fiskilýsi til manneldis skuli vera úr lagarafurðum sem eru hæfar til manneldis og sem eru í samræmi við ákvæði VIII. þáttar.
Komst Matvælastofnun að þeirri niðurstöðu að framangreint leiddi til þess að hafna bæri umsókn kæranda. Ekki væri unnt að heimila framleiðslu á fiskilýsi ætluðu til manneldis þegar hráefnið væri ekki ætlað til manneldis. Engu skipti þó hið óhreinsaða lýsi sé hreinsað á síðara vinnslustigi.
Í synjun sinni á beiðni kæranda um endurupptöku máls, dags. 31. mars 2015, vísaði Matvælastofnun til þess að skilyrði 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt og þess að 2. tölul. ákvæðisins ætti ekki við.
Matvælastofnun benti á að innyfli úr fiski teldust almennt ekki vera hæf til manneldis nema um væri að ræða hrogn, lifur eða kútmaga. Benti stofnunin á að grundvallarmunur væri á framangreindu og öðrum innyflum fiska
Benti Matvælastofnun á að reglugerð EB nr. 853/2004, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 104/2010, kvæði á um að lýsi mætti eingöngu vinna úr lagarafurðum sem teldust hæfar til manneldis. Slóg teldist ekki hæft til manneldis, að undanskildum ákveðnum innri líffærum. Reglugerðin skilgreini slógið sem aukaafurð dýra, sem ekki sé ætluð til manneldis og því skipti meðhöndlun og vinnsla þess í raun engu, þar sem frumvaran teljist óhæf til manneldis. Annað gildi um lifur og hrogn.
Matvælastofnun vísaði til álits EFSA frá 2010, um fiskilýsi sem ætlað er til manneldis, sem segi að hráefni fiskilýsis, sem ætlað sé til manneldis, skuli vera úr fiskafurðum sem séu hæfar til manneldis og meðhöndlaðar sem slíkar. Aukaafurðir og fiskafurðir sem ekki séu hæfar til manneldis sé ekki hægt að nota sem hráefni til framleiðslu á fiskilýsi til manneldis.
Matvælastofnun hafnaði því að hafa brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Umsókn kæranda hafi verið ítarleg og afstaða kæranda legið fyrir. Því taldi stofnunin ekki þörf á að veita honum andmælarétt, enda séu umsóknir almennt afgreiddar af stjórnvöldum án þess að svo sé.
Stofnunin hafnaði því jafnframt að hafa brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Tilgangslaust hafi verið að leyfa kæranda að sýna fram á að varan væri hæf til manneldis þar sem fortakslaust bann liggi fyrir varðandi vinnslu af þessu tagi.
Hvað brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga varðar, benti Matvælastofnun á að þegar hefði komið fram að aðrar reglur gildi um hrogn, lifur og kútmaga. Því væri ekki um brot á jafnræðisreglu að ræða.
Í umsögn sinni frá 10. október 2015 um stjórnsýslukæru, vísaði Matvælastofnun til sömu sjónarmiða og áður. Benti stofnunin á að hlutfall slógs og ætis í fiski er mismikið eftir árstímum, þannig sé slóg í horuðum fiski lítið og öfugt. Taldi Matvælastofnun kæruna lúta að því að heimila notkun á m.a. innihaldi meltingarvegar eða ætis við lýsisframleiðslu til manneldis.
Taldi stofnunin að kærandi benti réttilega á að í sumum tilfellum væri vara framleidd úr slógi, sem teldist hæf til manneldis. Í þeim tilfellum væri þó um að ræða fisk sem vegna smæðar sinnar væri óraunhæft að ætla að slægja, og sem hefð væri fyrir að neyta í heilu lagi. Hvað makríl varðaði, væri hann frystur heill, en innyfli skilin frá áður en hans væri neytt. Frystingin kæmi jafnframt í veg fyrir smit frá innyflunum, en í innyflum fiska sé að finna milljónir gerla í hverju grammi en ekkert í holdi þeirra. Matvælastofnun ítrekaði að í reglugerðum á þessu sviði, sé litið á slóg sem heilsuspillandi og óhæft til manneldis og því hafi borið að synja umsókninni.
Matvælastofnun benti á að upplýsinga hefði verið leitað hjá sérfræðingi Matís ohf., um vinnslu á lýsi úr slógi. Í samtali við sérfræðinginn hafi komi fram að í Noregi væri slóg úr laxeldi notað við framleiðslu á lýsi til manneldis. Því hafi starfsmenn Matvælastofnunar sett sig í samband við starfsmenn norsku matvælastofnunarinnar (Mattilsynet). Þar hafi komið fram „að heimilað væri að nota innyfli úr sláturfiski ef ekkert innihald væri í meltingarveginum, þ.e. sé innihald í meltingarvegi er lýsið sem framleitt er talið óheimilt til manneldis, en sé meltingarvegurinn tómur sé leyft að framleiða lýsi til manneldis.“ Almennt sé meltingarvegurinn hjá eldislaxi tómur við slátrun. Flokkun á slógi úr villtum fiski sé erfiðari í framkvæmd, þar sem slógið skemmist mjög hratt auk þess sem aðstæður við söfnun, geymslu og flutning séu misjafnar og innihald meltingarvegarins geri hráefnið óhæft til lýsisframleiðslu til manneldis.
Að lokum vísaði Matvælastofnun til áðurnefnds álits EFSA frá 2010. Í inngangi álitsins komi fram að hráefni skuli vera úr fiskafurðum sem hæfar séu til manneldis og meðhöndlaðar sem slíkar. Ekki megi nota aukaafurðir og fiskafurðir, sem ekki eru hæfar til manneldis, sem hráefni til framleiðslu á fiskilýsi til manneldis. Því hefði engu breytt þótt kærandi hefði fengið tækifæri til að sýna fram á hvernig hráefnið væri meðhöndlað og varan væri í raun hæf til manneldis að lokinni meðferð eða hreinsun. Málið hafi verið nægjanlega upplýst og hvorki rannsóknar- né meðalhófsregla stjórnsýslulaga brotin.
Í umsögn Matvælastofnunar frá 29. nóvember 2017, þar sem stofnunin fjallaði um viðbótargögn kæranda, kemur fram að afstaða hennar sé óbreytt. Þar segir að synjun Matvælastofnunar hafi fyrst og fremst byggt á tilteknum ákvæðum reglugerðar EB nr. 853/2004. Vísaði stofnunin til sömu sjónarmiða og áður og taldi að með vísan til þessa hefði verið óhjákvæmilegt að synja umsókninni á sínum tíma.
Matvælastofnun kvaðst geta tekið undir sjónarmið kæranda að hráefni, sem notað er til framleiðslu, og er meðhöndlað á viðeigandi hátt geti uppfyllt öll skilyrði til manneldis, enda þótt um innyfli fiska sé að ræða. Taldi Matvælastofnun ljóst að vinnsluferli framleiðslu lýsis sé þannig að lítil hætta sé á að hin endanlega afurð sé hættuleg heilsu manna.
Matvælastofnun benti á að túlkun á lögum og reglugerðum geti verið vandasöm en í grunninn snúist málið um túlkun á 6. tölul. II. hluta I. kafla III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004. Þar séu skýr fyrirmæli um að skilja beri innyfli frá nýtilegum hluta fisksins sem fyrst og þeim haldið aðskildum frá afurðum sem ætlaðar eru til manneldis. Þá komi fram að hráefni sem notað sé til framleiðslu á lýsi skuli vera hæft til manneldis. Synjun stofnunarinnar byggist á framangreindum fyrirmælum.
Um sjónarmið Matvælastofnunar vísast að öðru leyti til þess sem segir í bréfi stofnunarinnar.
Forsendur og niðurstaða
Líkt og að ofan greinir hefur mál þetta átt langan aðdraganda. Málið lýtur að umsókn kæranda um leyfi til að vinna mjöl og lýsi til manneldis úr fiskislógi.
Um framleiðslu matvæla, þar með talins lýsis, gilda ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli. Tilgangur laga nr. 93/1995 um matvæli kemur fram í 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla, meðal annars. Í ákvæði 1. mgr. 8. gr. a. laganna segir: „Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu.“
Um matvælaframleiðslu gildir einnig áðurnefnd reglugerð (EB) nr. 853/2004 viðauka, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 104/2010. Um lagarafurðir er fjallað sérstaklega í VIII. þætti, III. viðauka. Fjallað er um kröfur um hollustuhætti í II. hluta I. kafla, en í 6. lið segir:
Ef fiskur er hausaður og/eða slægður um borð skal það gert samkvæmt reglum um hollustuhætti og sem fyrst eftir veiði og skulu afurðirnar strax þvegnar vandlega með drykkjarhæfu vatni eða hreinu vatni. Þegar svo er skulu innyfli og þeir hlutar af fiskinum, sem gætu verið heilsuspillandi, skilin frá sem fyrst og haldið aðskildum frá afurðum sem eru ætlaðar til manneldis. Lifur og hrogn, sem ætluð eru til manneldis, skal geyma undir ís við hitastig, sem er nálægt hitastigi bráðnandi íss, eða frysta.
Samkvæmt orðalagi ákvæðisins skal skilja innyfli fisksins frá við verkun hans, þegar afurðin er ætluð til manneldis. Verður ákvæðið því skilið þannig að óheimilt sé að nota innyfli í afurðir ætlaðar til manneldis. Í ákvæðinu eru hrogn og lifur sérstaklega undanskilin.
Með 1. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1662/2006, var gerð viðbót við IV. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004, sem varðar fiskilýsi ætlað til manneldis. Var B. hluta bætt inn, þar sem sú krafa er gerð, meðal annars, að lýsið sé úr lagarafurðum sem eru hæfar til manneldis.
Í 2. lið. formála reglugerðarinnar segir að nauðsynlegt hafi verið að setja sérstakar reglur um hollustuhætti matvæla þar sem þau geti haft sérstaka hættu í för með sér. Það eigi sérstaklega við um matvæli úr dýraríkinu með tilliti til örverufræðilegrar og efnafræðilegrar hættu. Matvælastofnun benti á í umsögn sinni dags. 10. október 2015, að milljónir gerla eru í hverju grammi innyfla fiska, en engir í holdi þeirra. Munur er á að bræða fisk heilan og því að framleiða lýsi eingöngu úr aukaafurðum. Þegar stór hluti ætilegs hluta fisksins er bræddur með er örverumagn hlutfallslega minna en ella.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að túlka beri ákvæði reglugerðar (EB) nr. 853/2004 á þann veg að slóg teljist ekki hæft til manneldis og af því leiði að óheimilt sé að framleiða úr því lýsi til manneldis.
Jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins mælir fyrir um að stjórnvöld gæti samræmis og jafnræðis við úrlausn mála sem eru sambærileg í lagalegu tilliti, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Í frumvarpi með stjórnsýslulögum er tekið fram að það teljist ekki mismunun í lagalegu tilliti, byggi mismunur á úrlausna mála á lögmætum sjónarmiðum. Líkt og áður greinir byggir ákvörðun Matvælastofnunar aðallega á 6. lið, II. hluta I. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004, sem kveður á um að fjarlægja skuli innyfli og heilsuspillandi hluta fisks frá afurðum ætluðum til manneldis. Hrogn og lifur eru sérstaklega undanskilin og því um tæmandi talningu að ræða. Samkvæmt framangreindu telst synjun Matvælastofnunar því ekki brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.
Rannsóknarreglan er lögfest í 10. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir að stjórnvaldi beri að gæta þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en það tekur ákvörðun. Fyrir liggur að Matvælastofnun hafði upplýsingar um að kærandi ætlaði að framleiða meðal annars lýsi til manneldis úr fiskislógi. Líkt og að framan greinir verður ákvæði 6. liðar, II. hluta, I. kafla, VIII. þáttar, III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004 skilið þannig að óheimilt sé að nota innyfli í afurð ætlaða til manneldis. Bar Matvælastofnun ekki að kanna sérstaklega hvort vinnsla kæranda skilaði hreinni afurð áður en hún tók ákvörðun, þar sem ákvæðið girðir fyrir notkun fiskislógs í afurðir til manneldis. Af því leiðir að Matvælastofnun telst ekki hafa brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
Kærandi benti á að með framþróun í vinnsluaðferðum getur afurð sem áður taldist óhæf til manneldis, orðið hæf til manneldis. Í ákvæði 1. mgr. 10. gr. reglugerðar (EB) nr. 853/2004 er að finna heimild til uppfæra II. og III. viðauka að teknu tilliti til meðal annars tækniframfara og raunhæfra afleiðinga þeirra og væntinga neytenda með tilliti til samsetningar matvæla, vísindalegrar ráðgjafar og örverufræðilegra viðmiðana, sbr. c, d og e –lið ákvæðisins. Því er ekki loku fyrir það skotið að í framtíðinni verði ákvæðum III. viðauka breytt þannig að heimilt verði að vinna afurðir til manneldis úr aukaafurðum dýra. Slík heimild fæst hins vegar ekki fyrr en formleg breyting verður gerð á ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 853/2004 og viðaukum við hana, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun Matvælastofnunar um synjun um leyfi til framleiðslu lýsis til manneldis úr fiskislógi, verði staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Matvælastofnunar um að synja [B] um leyfi til að framleiða lýsi til manneldis úr slógi, er hér með staðfest.