Júlíus Sigurþórsson, kærir ákvörðun Bjargráðasjóðs um að synja kæranda um greiðslu úr sjóðnum vegna afurðatjóns sem varð á haustmánuðum 2015.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur þann 11. september 2017 kveðið upp svohljóðandi:
Ú R S K U R Ð
Stjórnsýslukæra
Með stjórnsýslukæru dags. 19. maí 2017 kærði Júlíus Sigurþórsson, kt. 090773-5779, hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Bjargráðasjóðs um að synja kæranda um greiðslu úr sjóðnum vegna afurðatjóns sem varð á haustmánuðum 2015.
Kröfugerð
Kærandi gerir þá kröfu að Bjargráðasjóður bæti kæranda að hluta það tjón sem varð á uppskeru kæranda haustið 2015. Kærandi áætlar að tjónið sé á bilinu 30-40 milljónir króna og krefst þess að bætur nemi að minnsta kosti 25% af áætluðu heildartjóni, eða eins og hæfilegt þykir. Þá krefst kærandi þess, vegna brota á stjórnsýslulögum og vegna óhóflegs dráttar á málsmeðferð, að Bjargráðasjóður greiði hæstu leyfilegu dráttarvexti á bótum sem kærandi kann að fá, frá öðrum nefndarfundi sem haldinn var eftir að umsókn um bætur voru sendar inn, til greiðsludags.
Um kærufrest og kæruheimild
Um kærufrest vísar kærandi til 21. og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi kveðst hafa óskað eftir rökstuðningi samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga vegna synjunar Bjargráðasjóðs á umsókn hans en sá rökstuðningur hafi ekki borist enn. Vísar kærandi til þess að kærufrestur hefjist ekki fyrr en rökstuðningur hafi verið kynntur honum, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Þar sem honum hafi ekki borist rökstuðningur Bjargráðasjóðs og því hafi kærufrestur ekki enn hafist.
Kæruheimild er að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga. Í ákvæðinu segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til að fá henni breytt eða hana fellda úr gildi, nema annað leiði af lögum eða venju. Ákvörðunum sjálfstæðra ríkisstofnana verður ekki skotið til ráðherra nema með sérstakri lagaheimild.
Bjargráðasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009 um Bjargráðasjóð. Ákvæði 1. gr. þágildandi laga skilgreinir Bjargráðasjóð sem sjálfstæða stofnun, að jöfnu í sameign ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Hvergi í lögunum er að finna kæruheimild til ráðherra vegna ákvarðana Bjargráðasjóðs. Af því leiðir að ákvarðanir Bjargráðasjóðs eru ekki kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.
Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
Með vísan til framangreinds er Bjargráðasjóður sjálfstæð stofnun. Í þágildandi lögum um Bjargráðasjóð er ekki að finna kæruheimild til ráðuneytisins. Af því leiðir að umsókn kæranda um fyrirgreiðslu vegna afurðatjóns, er ekki kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga. Skal kæru á synjun Bjargráðasjóðs því vísað frá ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Stjórnsýslukæru Júlíusar Sigurþórssonar, kt. 090773-5779, vegna synjunar Bjargráðasjóðs dags. 5. september 2017, á fyrirgreiðslu vegna afurðatjóns, er vísað frá.
Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Ólafur Friðriksson
Birgitta Kristjánsdóttir