Kæra vegna ákvörðunar Matvælastofnunar dags. 3. júlí 2018 um óásættanlegt holdafar hunds
Lykilorð: Matvælastofnun, velferð dýra, frávísun
Úrskurðurinn birtur 7. Desember 2020
Með bréfi, dags. 6. nóvember 2018, bar [A] (hér eftir kærandi), fram kæru vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um eftirlit, dags. 3. júlí 2017.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kröfur
Kröfur aðila eru óljósar, en draga má þá ályktun út frá andmælum kæranda að hann óski eftir afturköllun ákvörðunar.
Málsatvik
Þann 30. mars 2017 framkvæmdi Matvælastofnun eftirlit hjá kæranda eftir að ábending barst um holdafar hunds í hans eigu. Dýralækni og eftirlitsmanni fannst hundurinn horaður og var hann holdastigaður. Hundurinn var stigaður í holdastuðul 2 sem telst undir eðlilegum holdastuðli sem er 4-5 skv. viðauka III í reglugerð um velferð gæludýra nr. 80/2016. Þegar eftirlit fór fram hafði hundurinn hvorki verið bólusettur né farið í ormahreinsun. Gaf stofnunin 30 daga frest í skoðunarskýrslu dags. 31. mars 2017 til að fara með hundinn til dýralæknis og bæta holdafar hans
Í bréfi héraðsdýralæknis suðvesturumdæmis dags. 3. júlí 2017 þar sem kæranda er svarað vegna andmæla sem bárust með bréfi dags. 22. júní 2017 kemur fram að burtséð frá aldri hundsins þá sé holdafar hans óásættanlegt. Héraðsdýralæknir gerði þá kröfu að kærandi yrði í sambandi við starfsfólk Matvælastofnunnar varðandi eftirlit þar sem tvisvar hafði verið reynt að fylgja því eftir að skoða hundinn en ekki tekist að hitta neinn fyrir. Héraðsdýralæknir fór jafnframt fram á staðfestingu á því að farið hafi verið með hundinn til dýralæknis á Akureyri 20. maí 2017. Slík staðfesting barst stofnuninni ekki.
Þann 30. júní 2018 sendir kærandi bréf til ráðuneytisins vegna málsins. Með bréfi dagsettu 15. ágúst 2018, veitti ráðuneytið leiðbeiningar varðandi kæruheimild. Með bréfi dags. 6. nóvember 2018 var ofangreind ákvörðun Matvælastofnunar um staðfestingu þess að farið hafi verið með hundinn til dýralæknis 20. maí 2017 og að framkvæma þurfi eftirlit þar sem hundurinn er skoðaður, dags. 3. júlí 2017, kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með bréfi dags. 12. desember 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna stjórnsýslukærunnar. Umsögn stofnunarinnar barst þann 11. janúar 2019. Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.
Sjónarmið kæranda
Kærandi byggir á því að eftirlit Matvælastofnunar hafi verið óheimilt án vitneskju og samþykkis kæranda. Jafnframt hafi umræddur dýralæknir og dýraeftirlitsmaður verið vanhæfir til meðferðar vegna vanþekkingar þeirra á tiltekinni hundategund, þá nefnir kærandi að skýrsla hafi ekki verið gerð í viðurvist eiganda.
Um sjónarmið kæranda vísast að öðru leyti til þess sem segir í stjórnsýslukæru.
Sjónarmið Matvælastofnunar
Matvælastofnun vísar til þess að kærufrestur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið liðinn þegar umrædd kæra barst ráðuneytinu. Með bréfi dags. 3. júlí 2017 hafi sú ákvörðun stofnunarinnar verið tilkynnt til kæranda að staðfesta þurfi að farið hafi verið með hundinn til dýralæknis og framkvæma þurfi eftirlit. Stjórnvaldskæra vegna málsins sé hins vegar dagsett 6. nóvember 2018.
Þá vísar stofnunin til þess að hjá eftirlitsmönnum Matvælastofnunar sé vinnureglan sú að skýrslu sé lokið innan fimm virkra daga frá því að eftirlit fari fram. Skoðunarskýrslan sé því vel innan þeirra marka og farið hafi verið yfir efni og athugasemdir skýrslunnar með kæranda þegar eftirlit fór fram. Einnig vísar Matvælastofnun til þess að í eftirlitsstörfum vegna dýravelferðar á vegum stofnunarinnar séu dýralæknar og eftirlitsmenn sem flestir hafi áralanga reynslu af umhirðu og/eða læknisstörfum vegna dýra. Umráðamönnum dýra beri lögum samkvæmt að fara vel með dýr í sinni umsjá og þeir verði að þola athugasemdir og ábendingar eftirlitsaðila þegar umhirðu eða aðbúnaði virðist ábótavant. Eftirlitsfólk Matvælastofnunnar vinni sín störf af heilindum með aðbúnað og velferð dýra að leiðarljósi.
Um sjónarmið Matvælastofnunar vísast að öðru leyti til þess sem segir í bréfi stofnunarinnar.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður séu fyrir hendi ber að líta til hagsmuna aðila máls, til að mynda hvort um grundvallar mál sé að ræða, sem haft geti þýðingarmikið fordæmisgildi. Meginreglan í 28. gr. stjórnsýslulaga er skýr og segir að vísa skuli kæru frá berist hún að kærufresti liðnum. Þá segir í 2. mgr. 28. gr. laganna að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Þó svo að litið væri á bréf sent til ráðuneytisins þann 30. júní 2018 sem kæru fellur það utan fyrrgreinds frests.
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Mál þetta varðar ákvörðun Matvælastofnunar um að staðfesta þurfi að farið hafi verið með hundinn til dýralæknis og framkvæma þurfi eftirlit þar sem hundurinn er skoðaður. Ekki er uppi ágreiningur um að kæranda hafi verið ljóst um tímalengd kærufrests síns.
Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvaldsákvörðun bindandi eftir að hún hefur verið birt og miðast upphafstími réttaráhrifa við það þegar ákvörðun er komin til aðila máls. Þó er ljóst að það er ekki skilyrði að ákvörðunin sé komin til vitundar málsaðila heldur er jafnan nægjanlegt að ákvörðunin sé komin þangað sem almennt megi búast við því að aðili geti kynnt sér hana.
Með vísan til alls framangreinds og gagna málsins er það mat ráðuneytisins að ekki verði talið afsakanlegt að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af ofangreindu er stjórnsýslukæru, dags. 6. nóvember 2018, vísað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeim sökum verður ekki vikið frekar að öðrum málsástæðum kæranda.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru [A], vegna ákvörðunar Matvælastofnunar dags. 3. júlí 2017 ákvörðunar um eftirlit, er hér með vísað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.