Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Kærð ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 21. Janúar 2020, um stöðvun rekstrr skv. 1. Mgr. 21. Gr. C laga nr. 71/2008

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi: dags. 19. október

 

Úrskurð

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A] f.h. [B ehf.], dags. 17. mars 2020, þar sem  kærð er ákvörðun Matvælastofnunar um „fyrirhugaða lokun heimaræktunar á fáeinum fiskum að [C], með atbeina lögreglu.“ Með þessu er kærð ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 21. janúar 2020, um stöðvun rekstrar samkvæmt 1. mgr. 21. gr. c. laga nr. 71/2008. Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst kæra innan kærufrests.

 

Kröfur

Í kæru er þess krafist að ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 21. janúar 2020, verði „hrundið fullkomlega án tafar“, því stofnunin hafi „ítrekað hótað lögregluaðgerðum á kostnað eigenda“, reikningur verði afturkallaður og að eigendum [B ehf.] verði viðurkennt „fullt frelsi“ til þess að halda nokkra fiska í heimaræktun til heimilisnota í tjörn sinni að [C] án afskipta opinberra stofnanna.

 

Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til niðurstaða kæru liggi fyrir sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt eru áskildar bætur frá hinu opinbera sem svari þeim kostnaði og álitshnekki sem „tilefnislausar aðgerðir og hótanir Matvælastofnunar“ hafi haft í för með sér. Með bréfi dags. 23. mars 2020 var fallist á frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar til 22. maí 2020.

 

Málsatvik og málsmeðferð

Haustið 2018 fór eftirlitsmaður Matvælastofnunar í almennt eftirlit á bæinn [C] þar sem [B ehf.] reka starfsemi. Áður hafði heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra bent [B ehf.] (og Matvælastofnun) á að hann ræki fiskeldi án leyfis og þyrfti að sækja um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Í eftirlitsferðinni kom í ljós að fiskur var alinn í tjörn á bænum og var þá bent á að sækja þyrfti um rekstrarleyfi fyrir fiskeldi til Matvælastofnunar. Það gerðu [B ehf.] í framhaldi, þann 27. nóvember 2018. 

Í kæru segir að send hafi verið „einhvers konar umsókn“ til Matvælastofnunar en jafnframt mótmælt því að þetta ætti við um búskapinn að [C]. Var hér um að ræða umsókn um rekstrarleyfi til að ala bleikju sem matfisk. Í umsókn er talað um 100-200 fiska á ári eða 100-200 kg.

Enda þótt umsókn kæranda bærist í nóvember 2018 hófst ekki vinna við umsóknina fyrr en u.þ.b. ári síðar eða í lok árs 2019, sem mun skýrast af miklu verkefnaálagi hjá Matvælastofnun. Samkvæmt 8.gr. gjaldskrár fyrir eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar er lægsta mögulega gjald fyrir rekstrarleyfi í fiskeldi 476.850 kr. Tekið er fram í greininni að umsókn skuli ekki tekin til afgreiðslu fyrr en gjaldið hafi verið greitt. Um áramótin 2019-2020 gerði Matvælastofnun því [B ehf.] reikning fyrir þeirri fjárhæð. Þann 6.janúar 2020 hafði félagið í framhaldi samband við Matvælastofnun um síma og tilkynnti að hætta væri við fiskeldi í umræddri tjörn. Fyrirsvarsmaður félagsins sagðist „frekar sleppa fiskinum en að borga þennan reikning.“

Í ljósi þessa, þann sama dag, 6. janúar 2020, boðaði Matvælastofnun að farið yrði fram á að tjörnin yrði tæmd af fiski fyrir 15. febrúar 2020. Var jafnframt kallað eftir framkvæmdaáætlun vegna stöðvunar rekstrar og staðfestingar að framkvæmd lokinni, þ.e. að stöðin hefði verið tæmd af fiski.  Veittur var andmælaréttur til 20. janúar 2020. Engin andmæli bárust. Með bréfi dags. 21. janúar var félaginu í framhaldi tilkynnt að stöðin ætti að vera tæmd fyrir 15. febrúar og jafnframt kallað eftir framkvæmdaáætlun fyrir 28. janúar. 

Engin framkvæmdaáætlun barst frá félaginu innan settra tímamarka og hafði fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun í framhaldi símasamband við félagið, þann 30. janúar 2020. Í símtalinu var því haldið fram að fyrirsvarsmaður félagsins hefði ekki séð fyrra bréfið (frá 6. janúar 2020) því hann hefði verið erlendis. Kærandi var upplýstur um það í símtalinu að ef hann vildi ekki sækja um rekstrarleyfi þyrfti hann að loka stöðinni og tæma tjörnina af fiski.  Kærandi bað um að fá send gildandi lög og reglugerðir um fiskeldi og var það gert samdægurs. Jafnframt var gefinn frestur til að skila inn framkvæmdaáætlun framlengdur til 5. febrúar. Þann 5. febrúar 2020 barst Matvælastofnun síðan bréf frá lögmanni félagsins þar sem ákvörðun Matvælastofnunar var mótmælt.

Þann 18. febrúar 2020 sendi Matvælastofnun erindi á félagið, bæði í tölvupósti og ábyrgðarpósti, þar sem greind var ákvörðun stofnunarinnar um stöðvun rekstrar.  Veittur var lokafrestur til 10. mars til að skila inn framkvæmdaáætlun. Bent var á að henni þyrfti að koma fram tímasetning á því hvenær tjörnin/stöðin hefði verið tæmd af fiski. Einnig þyrfti að koma fram hvar fiski yrði slátrað og hann unninn og hvar honum yrði fargað eða hann fluttur. Engin fullnægjandi framkvæmdaáætlun barst.

Með bréfi dags. 17. mars 2019 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þessi. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Matvælastofnunar um kæruna og barst hún með bréfi dags. 8. apríl 2020. Umsögn Matvælastofnunar var send félaginu og veitt færi á að koma framfæri athugasemdum Athugasemdir bárust með bréfi dags. 28. apríl 2020. Var málið tekið til úrskurðar, í framhaldi.

 

Sjónarmið [B ehf.].

[B ehf.] telja að skylda til öflunar rekstrarleyfis fiskeldis gildi ekki um heimarækt á fáeinum fiskum í tjörnum, af því tagi sem kærandi stundar. Er af þessu tilefni vísað til 1. liðs 3. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008, þar sem til alifiska er talinn; fiskur sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum. Félagið segir að orðið „alifiskur“ síðan aldrei fyrir í lögum um fiskeldi né reglugerð um fiskeldi nr. 1170/2015, enda beinist lögin og reglugerð að stórfelldu fiskeldi í sjó eða á landi sem ætlað sé til sölu, en ekki að smávægilegri heimaræktun til einkanota, og ekki til sölu.

 

Þá vísar félagið einnig til fleiri laga og reglugerða sem ætlað er að leiða fram að engar reglur gildi um heimaræktun til einkanota. Er hér vísað til 1. mgr. 2. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 þar sem segir að lögin taki ekki til frumframleiðslu til einkanota eða vinnslu, meðferðar eða geymslu á matvælum til einkaneyslu. Þá er vísað til 2. gr. reglugerðar nr. 580/2012, um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum og afhendingu frumframleiðenda á litlu magni matvæla beint til neytenda og staðbundinna smásölufyrirtækja. Þar segi að ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 gildi ekki um starfsemina nema að því leyti sem ákveðið sé í reglugerðinni. Í 6. gr. reglugerðarinnar segi síðan  að aðilar sem falli undir reglugerðina, þurfi ekki leyfi, skv. 9. og 20. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, til að framleiða og markaðsetja matvæli sem reglugerði þessi nái til. Er einnig vísað til leiðbeininga Matvælastofnunar um reglugerðina, en þar segi m.a. að hugtakið einkasvið nái yfir matvælastarfsemi við heimilishald og matvælastarfsemi sem jafna megi til heimilishalds, þ.e. einkaneyslu.

 

Þá telur félagið að Matvælastofnun hafi gengið þvert á mörg ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi verið fullnægt rannsóknarskyldu, en ósannað sé að fiskur hafi verið seldur úr heimaræktinni í tjörninni að [C]. Þá hafi meðalhófsregla verið brotin með ítrekuðum kröfum Matvælastofnunar um tæmingu tjarnarinnar og tímasetningum þar að lútandi þótt vitað hafi verið tjörnin hafi verið frosin og ómögulegt væri að tæma fisk úr henni fyrr en tíð leyfi. Telur kærandi einnig að jafnræðisregla sé brotin því víða setji menn fisk í læki sína, tjarnir og vötn án afskipta Matvælastofnunar.

 

Við umsögn Matvælastofnunar er gerð sú athugasemd að á tveimur stöðum sé þar staðhæft að engar reglur séu til um starfsemi kæranda á [C]. Þá segi þar að ekkert sérákvæði sé að finna um minniháttar fiskeldi og matvælalög taki ekki til frumframleiðslu til einkanota, eða til vinnslu, meðferðar og geymslu á matvælum til einkanota. Telur félagið að með þessum ummælum sé ljóst að sú heimaræktun sem hann stundi sé heimil.

 

Þá bendir félagið á að það hafi staðfastlega andmælt því að hafa selt fisk úr tjörninni og því falli fullyrðing Matvælastofnunar um sjálft sig. Í þessu sambandi hafi ekkert sönnunargildi þó birt sé mynd af auglýsingu frá [C], því engan veginn megi lesa úr henni að heimaræktaður fiskur sé til sölu. Þá segir félagið að lagður hafi verið fram reikningur um kaup á fiski til endursölu og ekkert sem segi í umsögn Matvælastofnunar hnekki þeim reikningum.

 

Að lokum er haldið fram að ekki sé heimilt að framselja vald ráðuneyta án þess að lagastoð sé fyrir hendi. Í því tilviki sem hér um ræði sé framsal á valdi bundið við forstjóra stofnunarinnar og hann hafi ekki vald til þess að framselja vald sitt til undirmanna sinna nema lagaheimild sé til staðar, en svo sé ekki í þessu tilfelli.

 

Sjónarmið og ábendingar Matvælastofnunar

Matvælastofnun bendir á að í 3.gr. laga um fiskeldi sé hugtakið „fiskeldi“ skilgreint á þann veg að um sé að ræða geymslu, gæslu og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.  Þá sé hugtakið „fiskeldisstöð“ skilgreint svo í sömu lagagrein að það sé staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki sé nýtt í þágu fiskeldis. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. b. í lögunum þurfi til starfrækslu fiskeldisstöðvar starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Um starfsemi án rekstrarleyfis sé fjallað í 21. gr. c. í lögunum, en þar segi í 1. mgr.:

Ef fiskeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi sé í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina. Eftir þörfum ber lögreglu að veita Matvælastofnun liðsinni í því skyni. Matvælastofnun er heimilt að slátra eða farga eldisdýrum, fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir skv. 21. gr. b á kostnað þess aðila sem rekið hefur fiskeldisstarfsemi án leyfis. Eldisdýr sem hæf eru til manneldis skulu seld og andvirðið, að frádregnum kostnaði Matvælastofnunar við söluna, skal renna í ríkissjóð hafi aðili hafið starfsemi án rekstrarleyfis en ella til fyrrverandi rekstrarleyfishafa.

Matvælastofnun fjallar sérstaklega um muninn á fiskeldi og fiskrækt. Ágreiningur málsins lúti að því hvort stundað sé fiskeldi eða fiskrækt á [C].  [B ehf.] styðjist í skrifum sínum ýmist við hugtökin „heimaræktun“ eða „heimaeldi“ í umfjöllun um þá starfsemi sem stunduð sé á [C].  Hugtakið „heimaeldi“ sé ekki skilgreint í lögum um fiskeldi en notkun kæranda sjálfs á orðinu „eldi“ bendi til þess að hann líti sjálfur á þessa starfsemi sem fiskeldi.

Í 3. gr. laga um fiskrækt sé hugtakið „fiskrækt“ skilgreint á þann veg að um sé að ræða hvers konar aðgerðir sem ætla megi að skapi eða auki fisk í veiðivatni.  Eftirlit með fiskrækt sé í höndum Fiskistofu en ekki Matvælastofnunar. Í málinu liggi fyrir tölvupóstur frá kæranda sem sendur hafi verið Matvælastofnun í febrúar 2019.  Þar segi m.a.:

Við vorum með 300 bleikjuseiði sem búið er að veiða en fengum síðastliðið haust 1000 ný seiði sem verða veiðanleg líklega á næsta ári, bleikjan er alin í tjörnum sem bæjarlækurinn rennur í gegnum og eru það kjöraðstæður fyrir hana hvað varðar hitastig og hreinleika vatnsins, enda þrífst hún vel, hún er alin á fóðri frá [E]. Við höfum verið að reykja bleikju úr okkar litla eldi og einnig lax frá [F].

Þetta fari ekki saman við staðhæfingar í stjórnsýslukæru um um heimaeldi á fáum fiskum til heimanotkunar, það er að fiskurinn sé til heimilisnotkunar og tómstundaánægju fyrir heimilisfólk og þeirra persónulegu gesti og sé ekki seldur.

Matvælastofnun hafnar þessu.  Bleikjurnar séu fluttar  frá eldisstöð sem seiði í tjörnina og síðan fóðraðar þangað til hluta þeirra sé slátrað og afurðirnar reyktar og þær síðan seldar á staðnum og í gegnum netið. Það sé óumdeilt að [B ehf.] reki matvöruverslun að [C]. Þá fylgi umsögn Matvælastofnunar útprentun af auglýsingasíðu [C] á netinu þar sem kemur skýrt fram að seld sé „reykt [D]“ sem standi öllum til boða, bæði gestum og gangandi. Hins vegar bendir Matvælastofnun á að vissulega sé fiskeldið sem kærandi stundi á [C] mjög umfangslítið. 

Í umsögn Matvælastofnunar segir að rangt sé að engar reglur gildi um heimaeldi á fáum fiskum til heimanotkunar.  Hugtakið alifiskur skv. 3. gr. laga um fiskeldi merki fisk sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum. Hugtakið eigi ekki við um fisk sem slátrað er og afurðirnar síðan seldar viðskiptavinum eins og raunin sé á [C]. Slík starfsemi sé fiskeldi í skilningi laga um fiskeldi og þurfi að afla leyfa frá opinberum stofnunum áður en hefjist.

Matvælastofnun bendir á að kærandi vísi líka til laga um matvæli nr. 93/1995 og reglugerðar nr. 580/2012 „um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum og afhendingu frumframleiðenda á litlu magni beint til neytenda og staðbundinna smásölufyrirtækja.“ Í þessu sambandi bendir Matvælastofnun á að það sé vissulega rétt að matvælalög taki ekki til frumframleiðslu til einkanota eða til vinnslu, meðferðar og geymslu á matvælum til einkaneyslu.  Það sé enn fremur rétt að ofangreind reglugerð skilgreinir og útfærir þetta nánar.  Það komi hins vegar hvergi fram í matvælalögum eða ofangreindri reglugerð að þær reglur hafi áhrif á lög um fiskeldi og þær skýru reglur um leyfisskyldur sem þar er að finna, enda væri að sjálfsögðu eðlilegra að slíkar undanþágureglur væri að finna í lögum um fiskeldi.  Engar slíkar undanþágur um umfangslítið fiskeldi sé hins vegar að finna í fiskeldislögum.

Þá nefnir Matvælastofnun að í kærubréfi sé því haldið fram að Matvælastofnun hafi brotið bæði rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þessu er hafnað. Fram hafi komið í auglýsingum frá [B ehf.] að eldisfiskur úr tjörninni á [C] sé seldur á almennum markaði sem matvæli. Málið hafi því verið fullrannsakað en kærandi hafi auk þess sjálfur ákveðið að sækja til Matvælastofnunar um rekstrarleyfi fyrir fiskeldi og með því viðurkennt að stunda fiskeldi á [C]. Þá hafi Matvælastofnun sýnt sveigjanleika í fyrirmælum til félagsins og verið tilbúin til að koma til móts við sjónarmið varðandi kröfur um tæmingu tjarnarinnar af fiski.  Meðalhófs hafi því verið gætt. Þá kunni það vel að vera að víða séu settir fiskar í læki, tjarnir og vötn án leyfis Matvælastofnunar.  Það sé þá gert samkvæmt lögum um fiskrækt og með leyfi Fiskistofu enda þurfi ekki leyfi Matvælastofnunar til slíks.   Hins vegar er ekki annað að sjá en að á [C] sé stundað fiskeldi til matvælaframleiðslu sem sé allt annar hlutur.  Jafnræðis hafi því verið gætt.

Þá segir í umsögninni að því sé haldið fram í kærubréfi að fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun hafi ekkert umboð til að stöðva fiskeldi sem rekið er ólöglega án rekstrarleyfis heldur verði forstjóri stofnunarinnar sjálfur að skrifa undir slíkar stöðvunartilkynningar. Fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun hafi fullt umboð til þess að rita bréf af þessu tagi. Ella þyrfti forstjórinn sjálfur að skrifa undir flest bréf stofnunarinnar. Valdframsal innan stofnunar þurfi ekki að styðjast við lagaheimild heldur hafi heimildir til þess að framselja vald til starfsmanna innan hennar stuðst við réttarvenju og felist í almennum stjórnunarheimildum yfirmanns eða forstjóra.

Matvælastofnun bendir á að í stjórnsýslukæru sé því hvergi haldið fram að öll bleikja sem seld sé í sölubúðinni að [C] sé í raun aðkeypt og endurseld og með því sé ekki um fiskeldi að ræða. Afrit reikninga sem fylgi með kæru sé illlæsilegt en sýni fram á kaup á fiski. Kærandi auglýsi hvað sem þessu lýður að hann bjóði viðskiptavinum sínum upp á „reykta [D]“ og varla sé sú „[D]“ öll aðkeypt, en allt sé þetta mjög óljóst í kæru.

Matvælastofnunar bendir á að stofnunin hafi verið að framfylgja lagaskyldu þegar hún hafi tekið fyrir umsókn [B ehf.] um rekstrarleyfi fyrir fiskeldi. Stofnunin telji sig ekki hafa neinar heimildir til að sleppa öllu eftirliti með umfangslitlu fiskeldi og hlífa slíkum aðilum við að sækja um rekstrarleyfi fyrir slíku eldi. Þá geri félagið mjög lítið úr fiskeldi sínu í kærubréfi og í fjölmiðlum og tali hann um „nokkra bleikjusporða“. Í raun ali félagið um þúsund bleikjur í tjörn sem eru fóðraðar og síðan seldar í verslun á staðnum. 

Sú skylda hvíli á Matvælastofnun að stöðva fiskeldi sem rekið er án rekstrarleyfis.  Þetta sé fiskeldi en ekki fiskrækt. Samkvæmt lögum beri Matvælastofnun að stöðva umsvifalaust fiskeldi sem rekið sé án rekstrarleyfis og beri lögreglu að veita aðstoð við það ef þörf krefji. Því fari fjarri að Matvælastofnun hafi gengið hart fram í þessu máli

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 2. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 gilda lögin um starfsemi þar sem fiskeldi fer fram, en með fiskeldi er átt við geymslu, gæslu og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi, hvort sem það er í söltu eða ósöltu vatni. Starfsemi [B ehf.] sem um ræðir í máli þessu telst til fiskeldis samkvæmt þessari grein. Um leið telst félagið reka fiskeldisstöð í skilningi laganna, þ.e. stöð þar sem vatn, land eða mannvirki er nýtt í þágu fiskeldis. Starfsemin er ekki undanskilin ákvæðum laganna samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 580/2012, svo sem rakið er í hinni kærðu ákvörðun.

 

Ef ætlun löggjafans væri sú að slíkt minniháttar fiskeldi sem mál þetta varðar ætti ekki að falla undir leyfisskyldu þá væri skýrlega kveðið á um slíka undanþágu í fiskeldislögum. Slíku ákvæði er ekki til að dreifa í þeirri löggjöf og hvergi kveðið á um að minniháttar fiskeldi eða heimaeldi á fáum fiskum til heimanotkunar sé undanskilið þeirri leyfisskyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr. b laga um fiskeldi nr. 71/2008. Þá hefur það enga þýðingu eða áhrif á leyfisskyldu hvort fiskeldi sé ætlað til heimilisnotkunar og tómstundaánægju.

 

Ráðuneytið hafnar þeirri málsástæðu kæranda að Matvælastofnun hafi brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en sjá má af gögnum málsins að málið er fullrannsakað af hálfu stofnunarinnar og ljóst að starfsemi kæranda fellur undir fiskeldisstöð í skilningi laga um fiskeldi nr. 71/2008 og er því leyfisskyld.

 

Þá er því hafnað að Matvælastofnun hafi brotið á kæranda meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur hafi stofnunin eins og sjá má af gögnum málsins verið mjög sveigjanleg í fyrirmælum sínum til kæranda og alltaf verið tilbúin til að koma til móts við kæranda varðandi kröfur um tæmingu tjarnarinnar af fiski. 

 

Ekki er fallist á þá málsástæðu kæranda að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin þar sem menn setji víða fisk í læki sína, tjarnir og vötn og ekkert sé við því gert af hálfu Matvælastofnunar. Vísast um þetta til hinnar kærðu ákvörðunar og athugasemda í umsögn Matvælastofnunnar. 

 

Ein af málsástæðum [B ehf.] er sú að fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun hafi ekki umboð til að rita undir erindi um stöðvun fiskeldis. Hér byggir kærandi á 3. gr. laga nr. 30/2018 um Matvælastofnun þar sem fram komi að forstjóri stofnunarinnar beri ábyrgð á rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Ráðuneytið bendir á að valdframsal innan stofnunar þurfi ekki að styðjast við lagaheimild heldur hafi heimildir til þess að framselja vald til starfsmanna innan hennar stuðst við réttarvenju og felist í almennum stjórnunarheimildum yfirmanns eða forstjóra. Þessu er því hafnað.

 

Það er óumdeilt að á Matvælastofnun hvílir lagaskylda skv. 21. gr. c. laga um fiskeldi til að bregðast við ef aðili verður uppvís að því að reka fiskeldisstöð án rekstrarleyfis. Þá má gera þá kröfu til aðila sem stunda fiskeldi að þeir kynni sér og þekki þá löggjöf sem um starfsemina gilda. Félagið sótti um rekstrarleyfi fyrir fiskeldisstöð sína  27. nóvember 2018.  Sökum mikilla anna hófst  þó ekki vinna hjá Matvælastofnun við umsóknina fyrr en ári síðar og var þá fyrsta verk Matvælastofnunar að senda reikning fyrir þjónustugjaldi vegna þess kostnaðar sem til félli við afgreiðslu umsóknarinnar en slík greiðsla er forsenda þess að umsóknir um rekstrarleyfi séu teknar til afgreiðslu skv. 14. gr. a. laga um fiskeldi nr. 71/2008. Félagið hefur ekki greitt þann reikning og virðist sýnt að ekki standi til hjá kæranda að framkvæma þá greiðslu. Því var Matvælastofnun skylt að stöðva umrædda starfsemi. Möguleg bótakrafa félagsins og krafa um afturköllun á téðum reikningi er kærumáli þessu óviðkomandi.

 

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda sem koma fram í stjórnsýslukæru og öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á úrlausn þessa máls.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 21. janúar 2020, um að stöðva starfsemi [B ehf.] sem rekin er án rekstrarleyfis.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta