Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Afturköllun á ákvörðunar Fiskistofu um úthlutun á byggðakvóta í Sandgerði

Reykjavík 30. október 2020

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi:

Úrskurð

Efni: Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 3. júlí 2020, frá [X slf.], f.h. [Y ehf.] þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. maí 2020, að afturkalla ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. mars 2020, um úthlutun byggðakvóta á fiskiskipið [S].

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að staðfest verði ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars. 2020, um úthlutun byggðakvóta á fiskiskipið [S], samtals í þorskígildum talið [… kg].

 

Málsatvik

Með auglýsingu, dags. 10. mars 2020, sem birt var í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og heimasíðu Fiskistofu, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 fyrir Suðurnesjabæ m.a. Sandgerði. Var auglýsingin byggð á reglugerð nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020.

 

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kærandi hafi sótt um byggðakvóta með umsókn, dags. 18. mars 2020, á fiskiskipið [S] sem skráð er í byggðarlaginu Sandgerði. Starfsmaður kæranda hafi sent tölvupóst, dags. 19. mars 2020, á starfsmann Fiskistofu þar sem óskað  hafi verið eftir því að afli skipsins [G] yrði reiknaður yfir á [S]. Hafi starfsmaður Fiskistofu svarað því orðrétt: „Ég skrái það“. Með ákvörðun, dags. 30. mars 2020, hafi byggðakvóta verið úthlutað á fiskiskipið [S] samtals í þorskígildum [… kg].

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu barst kæra frá tveimur aðilum, dags. 8. apríl 2020, þar sem kærð var ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, um úthlutun byggðakvóta á fiskiskipið [S]. Var því haldið fram að fiskiskipið uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 676/2019, fyrir úthlutun byggðakvóta í Sandgerði. Var þar bent á að skipið [S] hafi ekki verið skráð í Sandgerði fyrr en 6. janúar 2020, en skv. b. lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar þurfi skip að vera skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019. Töldu kærendur einnig að skilyrðum 4. gr. reglugerðarinnar væri ekki uppfyllt þar sem allar aflahlutdeildir hafi verið færðar á endurnýjað skip, þ.e. frá [G] yfir á [H]. Hafi hið nýja skip verið skráð í Garði, dags. 18. júlí 2019.

 

Tilkynnti Fiskistofa með bréfi, dags. 30. apríl 2020, til kæranda að til skoðunar væri hvort afturkalla ætti ákvörðun, dags. 30. mars 2020, um úthlutun byggðakvóta á fiskiskipið [S] þar sem ákvörðunin væri hugsanlega haldin ógildingarannmörkum sem leitt gætu til afturköllunar á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kom þar fram að svo virtist vera að fiskiskipið uppfyllti ekki 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 en einnig hafi kærandi ekki endurnýjað fiskiskip sitt innan þess viðmiðunartímabils sem fram komi í 1. mgr. 4. gr., þ.e. 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Hafi útgerðinni verið gefinn kostur á að koma að andmælum eða athugasemdum á framfæri áður en tekin yrði afstaða til þess hvort afturkalla ætti ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. mars. 2020. Bárust andmæli kæranda Fiskistofu, dags. 11. maí 2020. Með bréfi, dags. 26. maí 2020, var kæranda tilkynnt um afturköllun ákvörðunar Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til [S] á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1996.

 

Stjórnsýslukæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með bréfi, dags. 3. júlí 2020. Með tölvupósti, dags. 17. júlí 2020, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun og öðrum gögnum sem stofnunin teldi varða málið. Barst umsögn Fiskistofu með bréfi ásamt fylgiskjölum, dags. 10. ágúst 2020. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Fiskistofu. Bárust athugasemdir kæranda, dags. 24. ágúst 2020. Ekki var talin þörf á að senda athugasemdir kæranda til Fiskistofu og er málið tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

 

Málsástæður og sjónarmið í stjórnsýslukæru

Í stjórnsýslukæru er því lýst að kærandi og dótturfélög hans, [D ehf]. og [A ehf.], hafi lengi rekið umfangsmikla atvinnustarfsemi í Garði og Sandgerði og hafi skip kæranda landað tugum þúsund tonna af fiski í Sandgerði. Sé óumdeilt að skipið [G] hafi landað umtalsverðum afla í Sandgerði á síðasta fiskveiðiári og var skráð í byggðarlaginu, dags. 1. júlí 2019, eins og áskilið sé í reglugerð nr. 676/2019. Sé þá óumdeilt að það skip hafi átt rétt til úthlutunar byggðakvóta enda hafi það verið grundvöllur þeirrar ákvörðunar Fiskistofu dags. 30. mars 2020, að úthluta byggðakvóta til [S].

 

Fram kemur að með kaupsamningi, dags. 15. mars 2019, hafi kærandi keypt skipin [K] og [E] en hafi [K] verið skráð í Garði og fengið nafnið [H]. Hafi aflahlutdeild [G] verið flutt til [H], dags. 6. september 2019, en var [G] seldur, dags. 30. apríl 2020. Var skipið [E] skráð í Sandgerði og fékk það nafnið [S], voru aflahlutdeildir fluttar á [S] frá [J], dags. 10. febrúar 2020.

 

Kemur fram að með umsókn, dags. 18. mars 2020, hafi kærandi sótt um byggðakvóta fyrir skipið [S]. Kærandi telur að ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, hafi verið efnislega rétta en samkvæmt síðari málsl. 6. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 sé framsal aflaheimilda í byggðakvóta heimil hafi fiskiskip efnt löndunar- og vinnuskyldu í samræmi við 7. mgr. ákvæðisins, vísar kærandi einnig til 7. gr. reglugerðar nr. 676/2019. Kærandi telur engin skilyrði séu til að túlka 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar svo þröngt að útgerð geti ekki óskað eftir því að við úthlutun byggðakvóta til skips sé tillit tekið til landaðs afla eldra skips í eigu sama aðila þótt aflahlutdeild hafi ekki verið flutt beint frá eldra skipinu til hins nýja, heldur annars skips í eigu sama aðila. Telur kærandi að túlkun ákvæðisins á þann hátt að aflaheimildir verði að koma beint frá eldra skipinu sé augljóslega röng og feli í sér þá innbyggðu skekkju að aflaheimildir séu aðgreinanleg réttindi. Vísar kærandi einnig til þess að ef skip hefði skemmst eða farist og útgerð þyrfti tíma til að útvega sér nýtt skip að þá væri eðlilegt að „vista“ aflaheimildir á öðru skipi þar til hið nýja skip hefði komið í stað þess eldra.

 

Kærandi bendir á að hann hafi verið að auka umsvif sína í útgerð. Kærandi hafi keypt tvö ný skip og selt eitt, auk þess sem hann keypti auknar aflaheimildir. Tilfærsla aflahlutdeilda í þessu tilviki hafi verið með þeim hætti að fyrst færði kærandi aflaheimildir [G] yfir á það skip sem hafi verið afhent á undan, [H] síðar hafi kærandi keypt meiri aflahlutdeildir og færi  á hið nýja skip [S]. Bendir kærandi á að við upphaf fiskveiðiársins 2018/2019 hafi sú aflahlutdeild, sem síðar hafi verið færð á [S], gefið meira aflamark í þorskígildum talið en sú aflahlutdeild sem hafi verið á [G] á sama tímamarki. Telur kærandi að staðhæfing þess efnis að kærandi uppfyllti ekki skilyrði reglugerðarinnar að nýtt skip hafi komið í stað eldra og hafi sömu eða auknar aflaheimildir sé efnislega rangt. Túlkun þessi, þ.e. að flutningur á réttindum á byggðakvóta sé bundinn við það að aflaheimildir fari með beinum og milliliðalausum hætti milli nýja og eldri skips sé röng. Upphafleg ákvörðun Fiskistofu hafi ekki farið gegn jafnræði gagnvart öðrum útgerðum því kærandi hafði sannarlega átt rétt til að fá byggðakvóta úthlutaðan.

 

Telur kærandi að engin skilyrði hafi verið fyrir afturköllun á ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta. Almennt verði ívilnandi ákvarðanir ekki afturkallaðar nema fyrir hendi séu ríkir hagsmunir sem vegi þyngra en sjónarmið um öryggi í viðskiptum og stjórnsýslu. Ljóst sé að ákvörðun Fiskistofu að afturkalla ákvörðun um úthlutun byggðakvóta hafi valdið kæranda miklu tjóni og því skilyrði 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki uppfyllt. Jafnvel þó talið yrði að ekki væri rétt að úthluta byggðakvóta til [S], þá telur kærandi að hann hefði geta flutt úthlutað aflamark á það skip, sbr. 6. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 7. gr. reglugerðar nr. 676/2019, af því skipi sem rétt átti til úthlutunar. Útkoman hefði verið sú sama. Bendir kærandi á að skylda til greiðslu gjalds skv. 10. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 hvíli á útgerð en ekki einstaka skipi, og því unnt að líta svo á að útgerð eigi rétt til viðkomandi byggðakvóta. Af þeim sökum telur kærandi það fjarri að ákvörðun Fiskistofu hafi verið haldin verulegum annmörkum sem er skilyrði ógildingar stjórnvaldsákvörðunar.

 

Kærandi bendir einnig á að á Fiskistofu hvíldi rannsóknar- og leiðbeiningaskylda, en kærandi hafi óskaði sérstaklega eftir leiðbeiningum Fiskistofu í aðdraganda úthlutunarinnar um hvort mögulegt væri að úthluta [S] þeim rétti sem [G] átti til byggðakvóta. Hafi starfsmaður Fiskistofu svarað að hann myndi „skrá það“. Mæli það almennt á móti ógildingu ákvörðunar ef um sé að kenna mistökum stjórnvalds og kærandi hafi verið í góðri trú og með réttmætar væntingar til þess að ákvörðun Fiskistofu stæði.

 

Kærandi bendir á að með bréfum, dags. 11. maí 2020 og 29. maí 2020, hafi hann farið á þá leit við Fiskistofu að teldi stofnunin ekki skilyrði til úthlutunar til [S] yrði málinu komið í rétt horf, ýmist með því að kærandi myndi flytja aflahlutdeild [G] yfir á [S] eða að [H] yrði úthlutað byggðakvótanum. Hafnaði Fiskistofa þessari beiðni á þeim rökum að úthlutun hefði þegar farið fram. Telur kærandi að úthlutun hefði ekki farið fram og ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að Fiskistofa tæki til greina leiðrétta umsókn. Einnig standist það ekki lög að mistök stjórnvalds við upphaflega ákvörðun leiði til þess að frestir til að óska eftir leiðréttingu á mistökunum líði með tilheyrandi réttindamissi fyrir viðkomandi. Telur kærandi að ef Fiskistofa hefði ekki gert mistök í upphafi heldur sinnt rannsóknar- og leiðbeiningaskyldu stjórnsýsluréttar, hefði kærandi alltaf fengið lögmæta úthlutun.

 

Kærandi bendir jafnframt á að hann hafi hlotið að vera með gilda umsókn um byggðakvóta frá 18. mars 2020, þ.e. innan frests, sem Fiskistofu hafi borið að taka afstöðu til. Leiði afturköllun Fiskistofu á upphaflegri ákvörðun ekki sjálfkrafa til þess að ný ákvörðun hafi verið tekin um umsókn kæranda. Afturköllun eða ógilding á ákvörðun um að taka umsókn til greina eigi ekki að leiða til þess að umsókn verði hafnað, heldur beri stjórnvaldi að afgreiða umsóknina að nýju. Óskaði kærandi eftir því að málinu yrði komið í þann farveg að réttu skipi yrði úthlutað byggðakvótanum með bréfi, dags. 11. maí 2020, og telur kærandi að Fiskistofu hafi borið að afgreiða umsókn kæranda til þess að leiðrétta mistök Fiskistofu.

 

Kærandi telur að afturköllun Fiskistofu hafi valdið kæranda stórfelldu tjóni en telur kærandi að slíkt fari gegn 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf og öryggi stjórnsýslu sem byggi m.a. á því að borgarar megi treysta því að gildar stjórnvaldsákvarðanir skv. 20. gr. stjórnsýslulaga verði ekki síðar afturkallaðar.

 

Loks telur kærandi að Fiskistofa hafi verið búin að taka ákvörðun um afturköllun án þess að gefa kæranda kost á andmælum. Í tölvupósti Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 29. apríl 2020, þar sem Fiskistofa veitir umsögn við þeim kærum sem komu til ráðuneytisins vegna umræddra úthlutunar á byggðakvóta, segir Fiskistofa: „Fiskistofa hyggst afturkalla umrædda ákvörðun á grundvelli 25. gr. laga nr. 37/1993, að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum.“ Hafi þessi málsmeðferð Fiskistofu brotið gegn stjórnsýslulögum.

 

 

Sjónarmið Fiskistofu

Fiskistofa bendir á að stjórnvaldsákvörðun sé ógild þegar hún geti ekki að lögum haft þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, hafi ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, verið haldin verulegum annmörkum en umrætt skip uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 676/2019 um úthlutun byggðarkvóta. Vísar Fiskistofa til þess að samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé stjórnvaldi í tveimur tilvikum veitt heimild til að afturkalla ákvörðun sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þ.e. þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðun er ógildanleg, sbr. 1. og 2. tl. 25. gr. Virðist 2. tl. 25. gr. byggja á þeirri óskráðu meginreglu að stjórnvald, sem tekið hefur stjórnvaldsákvörðun, geti við vissar aðstæður fellt hana niður eða að hún sé ógild, sé ákvörðunin haldin verulegum annmarka. Telur Fiskistofa að stjórnvaldsákvörðun sem tekin var, dags. 30. mars 2020, hafi verið ólögmæt að efni til þar sem skilyrði 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019 töldust ekki uppfyllt. Fiskistofa bendir á að ef til greina komi að raska ívilnandi ákvörðun stjórnvalds verður að vera fyrir hendi sú staða að hún hafi íþyngjandi áhrif fyrir annan aðila, telur Fiskistofa að svo hafi verið í máli þessu og að gæta þurfi jafnræðis.

 

Vísar Fiskistofa til erindis kæranda, dags. 18. mars 2020, þar sem kærandi spyr hvort mögulegt væri að fá afla reiknaðan af [G] yfir á [S].  Hafnar Fiskistofa því að kærandi hafi verið að óska eftir sérstökum leiðbeiningum, enda hefðu þær ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Verði einnig að hafa í huga að kærandi sendi inn erindið eftir að búið var að skila inn umsókn.

 

Fiskistofa vísar sjónarmiðum kæranda varðandi túlkun á 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019 á bug. Bendir Fiskistofa á að skýrt komi fram í ákvæðinu að flytja skuli aflahlutdeildir af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið. Hafi kærandi flutt aflahlutdeildir af [J] sem ekki sé í eigu útgerðarinnar [Y ehf.] heldur [L ehf.] yfir á [S], átti sá flutningur sér stað í febrúar 2020. Voru því ekki fluttar aflahlutdeildir af eldra skipinu, þ.e. [G] þess í stað voru fluttar aflahlutdeildir af [G] yfir á [H], dags. 6. september 2019.

 

Varðandi sjónarmið kæranda um mögulegar útfærslur á umsókn eftir á vísar Fiskistofa til þess að umrædd ákvörðun hafi verið röng þar sem skilyrði til úthlutunar höfðu ekki verið uppfyllt. Vísaði kærandi til 6. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 í kæru sinni og benti á að hann gæti ávallt flutt úthlutað aflamark á [S] frá því skipi sem úthluta átti til. Vísar Fiskistofa þessu á bug en bendir á að ákvæðið sé hugsað eftir að úthlutun hafi farið fram en þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar eigi ákvæðið ekki við. Bendir Fiskistofa á að ef útgerðaraðilar gætu leiðrétt eða lagfært umsóknir sínar eftir að umsóknarfrestur sé liðinn myndi úthlutunarferlið og afhending byggðakvóta lengjast töluvert og væri nánast ómögulegt að halda utan um slíkar breytingar.

 

Fiskistofa telur rök kæranda um fjárhagslegt tjón ekki nægileg svo að hún ætti að vera lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

 

Fiskistofa fellst á að orðalag stofnunarinnar sem notað var í tölvupóstsamskiptum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, dags. 29. apríl 2020, hafi verið óheppilegt en stofnunin hafi verið að upplýsa ráðuneytið um hugsanlega afturköllun. Hefði verið réttara að segja að stofnunin hygðist skoða hvort ákvörðun, dags. 30. mars 2020, væri haldin ógildingarannmarka.

 

Athugasemdir kæranda við umsögn Fiskistofu

Kærandi vísar til orðalags Fiskistofu um að stofnunin hafi gefið kæranda vilyrði um úthlutun byggðakvóta, dags. 30. mars 2020. Telur kærandi að þessu orðalagi sé ætlað að varpa skugga á þær réttmætu væntingar sem kærandi hafi sannarlega mátt hafa af hinni afturkölluðu ákvörðun. Telur kærandi það skjóta það skökku við að ræða um vilyrði um úthlutun byggðakvóta sem, kunni þá eðli máls samkvæmt að taka breytingum, en að halda því síðan fram að ekki hafi verið hægt að breyta umsókn þar sem búið var að tilkynna um úthlutunina.

 

Kærandi telur að ekki sé hægt að segja að hin afturkallaða ákvörðun hafi haft íþyngjandi áhrif fyrir aðrar útgerðir, þvert á móti sé ákvörðun um afturköllun verulega íþyngjandi fyrir kæranda og ívilnandi fyrir aðrar útgerðir, sem munu fá hlutfallslega hærri byggðakvóta en þær höfðu átt rétt á að fá. Ítrekar kærandi að mistök stjórnvalda geti ekki valdið því að frestir til að óska eftir leiðréttingu á mistökunum líði, með tilheyrandi réttindamissi fyrir viðkomandi. Telur því kærandi ljóst að eina ójafnræðið í máli þessu felist gagnvart honum.

 

Kærandi er ósammála fullyrðingu Fiskistofu að niðurstaða stofnunarinnar hefði orðið sú sama ef hún hefði gætt að leiðbeiningaskyldu sinni. Beri Fiskistofu sem stjórnvaldi að bera sönnunarbyrðina fyrir því að niðurstaða stjórnvaldsins hefði orðið sú sama.

 

Bendir kærandi á að vísað hafi verið til 6. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 til þess að sýna fram á hversu einstrengingsleg afstaða það hefði verið hjá Fiskistofu að skýra 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019 svo þröngt eins og stofnunin gerði. Beri að horfa fyrst og fremst til hvort viðkomandi útgerð eigi rétt til úthlutunar, ekki skipin.

 

Bendir kærandi á að lögin geri ráð fyrir því að aðilar geti gert athugasemdir við ákvörðun Fiskistofu um úthlutanir með kæru til ráðuneytisins og að endanleg úthlutun fari ekki fram fyrr en öll ágreiningsmál hafa verið leidd til lykta, sbr. 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

Forsendur og niðurstaða

I.          Kærufrestur og forsendur

Ákvörðun Fiskistofu sem til skoðunar er í þessu máli er dags. 26. maí 2020. Kæruheimild er í 27. gr. laga nr. 37/1993 og er kærufrestur þrír mánuðir. Stjórnsýslukæran barst þann 3. júlí 2020 eða innan tilskilins frests og  er málið því tekið til efnismeðferðar.

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 gildir ákvæði 10. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Í 5. mgr. ákvæðisins er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Á grundvelli framangreinds setti ráðherra reglugerð nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020. Í  1. gr. reglugerðarinnar eru að finna almenn skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt fyrir úthlutun byggðakvóta sem eru svohljóðandi: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattsstjóra. Segir í 2. mgr. ákvæðisins að heimilt sé að úthluta aflamarki byggðarlaga til fiskiskipa, sem uppfylla skilyrði a- og b-liðar og eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beinist að, ef þeir stunda einnig útgerð með skip sem skráð eru í því byggðarlagi sem þeir hafa heimilisfang í.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. maí 2020, um afturköllun á ákvörðun, dags. 30. mars 2020, um úthlutun byggðakvóta á fiskiskipið [S] hafi verið lögmæt. 

 

II.         Lögmæti ákvörðunar Fiskistofu dags. 30. mars 2020.

Kærandi telur að ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, hafi verið rétt að efni til. Telur kærandi að túlkun stofnunarinnar á 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019 efnislega ranga og að ekki eigi að túlka hana svo þröngt að útgerð geti ekki óskað eftir því að við úthlutun byggðakvóta til skips sé tillit tekið til landaðs afla eldra skips í eigu sama aðila þótt aflaheimild hafi ekki verið flutt beint frá eldra skipinu til hins nýja. Fiskistofa telur að skýrt komi fram að flytja skuli aflahlutdeildir af eldra skipinu yfir á endurnýjað skipið til að heimild sé að líta til landaðs afla eldra skips.

 

Ráðuneytið vísar hér til 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019 en kemur þar fram að réttindi til úthlutunar fylgja skipi, nema ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr. hefur endurnýjað fiskiskip sitt á því viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. og flutt aflahlutdeildir af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið getur hann í umsókn sinni óskað eftir að við úthlutun aflamarks, skv. 1 mgr. sé tekið tillit til landaðs afla eldra skips umsækjanda í sömu hlutföllum og nemur þeim aflahlutdeildum sem hafa verið fluttar milli skipanna.  Með ákvæðinu er sett heimild fyrir útgerðir að óska eftir því að litið verði til landaðs afla eldra skips þegar skip hefur verið endurnýjað. Sett er skilyrði um að aflahluteild eldra skips skuli fært yfir á það nýja að hluta eða öllu leiti og reiknast þá landaður afli á það nýja skip af að hluta eða öllu leiti eftir því hversu mikið hlutfall af aflahlutdeild eldra skipsins er flutt yfir á það nýja. Er með þessu leitast við að tryggja að hlutdeildir haldist í byggðalaginu. Skilyrði ákvæðisins eru skýr og ótvíræð. Ekki er veitt heimild til að flytja aflahlutdeildir sem samsvara aflahludeildum eldra skips heldur verða aflahlutdeildir eldra skips að vera fluttar yfir á það nýja til að heimilt sé líta til landaðs afla eldra skips og úthluta byggðakvóta á hið nýja skip. Kærandi flutti aflahlutdeildir af [J] yfir á [S] í febrúar 2020. Voru því ekki fluttar aflahlutdeildir af eldra skipinu, þ.e. [G] yfir á [S] heldur voru þær fluttar yfir á [H], dags. 6. september 2019. Bendir ráðuneytið einnig á að skipið [S] var skráð í Sandgerði, dags. 9. janúar 2020, en skv. b- lið 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 þarf skip að vera skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019 til að fá rétt til úthlutunar byggðakvóta. Skilyrði b. liðar 1. gr. voru því heldur ekki uppfyllt.

 

Með vísan til framangreind getur ráðuneytið ekki fallist á með kæranda að ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, hafi verið efnislega rétt og hefði Fiskistofu verið rétt að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til [S].

 

III.       Afturköllun Fiskistofu á ákvörðun

Snýr ágreiningur málsins einnig að því hvort að Fiskistofu hafi verið heimilt að afturkalla ákvörðun , dags. 30. mars. 2020, um úthlutun byggðakvóta til [S] Byggði Fiskistofa ákvörðun sína um afturköllun á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á því að ákvörðun, dags. 30. mars 2020, hafi verið haldin verulegum annmörkun og því ógildanleg. Með vísan til framangreindar umfjöllunar telur ráðuneytið að ljóst sé að umrædd ákvörðun Fiskistofu var haldin verulegum annmörkun þar sem umsókn kæranda uppfyllti hvorki almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta skv. 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 né voru skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar uppfyllt.

 

IV.       Leiðbeininga- og rannsóknaskylda

Þá kemur til skoðunar hvort Fiskistofa hafi ekki sinnt leiðbeininga- og rannsóknaskyldu stjórnsýslulaga áður en ákvörðun dags. 30. mars 2020 var tekin. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, og skv. 7. gr. veita aðila sem leitar til þess nauðsynlegar leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfsvið þess. Kærandi telur að ef Fiskistofa hefðu uppfyllt framangreindar skyldur hefði verið hægt að úthluta byggðakvóta til kæranda með lögmætum hætti.

 

Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kæranda. Fram hefur komið að ekki voru uppfyllt þau ótvíræðu skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta sem fram koma í reglugerð nr. 676/2019. Það er á ábyrgð kæranda að umsókn um byggðakvóta sé fullnægjandi. Ekki er hægt að gera þá kröfu á Fiskistofu að stofnunin skoði tiltekin mál og leiðbeini aðilum með hvaða hætti umsókn yrði fullnægjandi nema sérstaklega sé óskað eftir leiðbeiningum. Þá leiðir rannsóknaskylda stjórnsýsluréttarins heldur ekki til þess að Fiskistofa skoða hvort umsóknir sem stjórnvaldinu berast um byggðakvóta myndu uppfylla skilyrðin ef þær yrðu útfærðar með öðrum hætti. Í þessu samhengi bendir ráðuneytið á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Gæta verður jafnræðis við úthlutun byggðakvóta og málsmeðferð. 

 

Þá tekur ráðuneytið undir þau sjónarmið Fiskistofu að stofnuninni hafi verið heimilt að afturkalla umrædda ákvörðun þar sem um sé að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvörðun og að við við úthlutun á byggðakvóta verði ávallt að gæta jafnræðis og að gæta þess að ekki sé skipi úthlutaður byggðakvóti sem ekki uppfyllir skilyrði laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 676/2019.

 

Kærandi hefur talið að þrátt fyrir að fiskiskipið [S] ætti ekki rétt til úthlutunar byggðakvóta gæti hann ávallt flutt úthlutað aflamark á fiskiskipið frá því skipi sem úthluta átti til, vísar kærandi til 6. mgr. 10. gr laga nr. 116/2006 þessu til stuðnings. Bendir kærandi einnig á að unnt sé að líta svo á að útgerð eigi rétt til viðkomandi byggðakvóta en ekki einstök skip, vísar þar kærandi til 10. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Ráðuneytið getur ekki tekið undir þessi sjónarmið kæranda þar sem ekki voru uppfyllt þau almennu skilyrði til úthlutunar byggðakvóta skv. 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 né skilyrði 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Telur Ráðuneytið einnig að vert sé að árétta það sjónarmið kæranda að það sé útgerð sem eigi rétt til viðkomandi byggðakvóta en ekki einstök skip, en þetta sjónarmið kæranda telst ekki rétt þar sem rétturinn til úthlutunar byggðakvóta fylgir ávallt fiskiskipi en ekki útgerð skv. 10. gr. laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 676/2019.

 

Ráðuneytið telur að ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra muni ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Telur ráðuneytið að ljóst sé að ákvörðun Fiskistofu frá, dags. 30. mars 2020, hafi verið haldin verulegum annmörkum í skilningi stjórnsýsluréttar og að hún hafi verið ógildanleg samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem skipið uppfyllti ekki skilyrði til úthlutunar byggðakvóta skv. b. lið 1. gr. og 3. mgr. 4. gr. Hafi skilyrði fyrir afturköllun ákvörðunarinnar, verið fyrir hendi og að afturköllun fór fram með lögmætum hætti eins og atvik þessa máls liggja fyrir.

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði hafi verið fyrir að afturkalla ákvörðun Fiskistofu, dags. 30 mars 2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipsins [S] og er hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. maí 2020, staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir hér með ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. maí 2020, um afturköllun á eldri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. mars 2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipsins [S].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta