Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Úrskurður nr. 5 um ákvörðun Fiskistofu um að taka ekki til viðmiðunar sem mótframlag við úthlutun byggðakvóta afla sem landað var á fiskmarkað

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [A] og [B] og f.h. [C ehf.], dags. 4. janúar 2023, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. október 2022, um að taka ekki til viðmiðunar sem mótframlag við úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022 samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, afla sem landað hefur verið á fiskmarkað á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi, af bátnum [D].

Kæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. október 2022, um að taka ekki til viðmiðunar samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, afla sem landað hefur verið til vinnslu á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi í gegnum fiskmarkað þar af bátnum [D] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að taka til viðmiðunar sem mótframlag umræddan afla sem landað hefur verið á fiskmarkað á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 4. maí 2022, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 995/2022. Umsóknarfrestur var til og með 18. maí 2022. Matvælaráðuneytið hafði þá úthlutað 300 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Tálknafjarðarhrepps samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, sem komu öll í hlut byggðarlagsins Tálknafjarðar. Úthlutunin var tilkynnt Tálknafjarðarhreppi með bréfi, dags. 21. desember 2021.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [D] með umsókn til Fiskistofu, dags. 17. maí 2022.

Hinn 20. maí 2022 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að úthlutað hafi verið tilteknu magni til báts félagsins [D] í samræmi við umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta til bátsins [D]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022. Einnig kom þar fram að samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 sé byggðakvóti ekki afhentur fyrr en tilskildu mótframlagi hafi verið landað til vinnslu í sveitarfélaginu.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til matvælaráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina.

Með bréfi, dags. 6. október 2022, tilkynnti Fiskistofa kæranda að ekki væru uppfyllt skilyrði um löndun til vinnslu og því ætti skipið ekki rétt til að fá afhentan byggðakvótann. Þar segir að Fiskistofa hafi nú lokið úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022. Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022 fari eftir ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022 og sérreglum sem kunni að hafa verið settar fyrir viðkomandi byggðarlög. Samkvæmt gögnum Fiskistofu hafði skipið [D], þann 31. ágúst 2022, engu landað í samræmi við skilgreiningu 6. gr. ofangreindrar reglugerðar, um löndun mótframlags byggðakvóta og hafi því ekki uppfyllt skilyrði til að fá úthlutað byggðakvóta.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til matvælaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að kæranda barst umrædd tilkynning.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 4. janúar 2023, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærðu [A] og [B] f.h. [C ehf.], framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. október  2022, til matvælaráðuneytisins.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærð sé ákvörðun Fiskistofu um að félagið hafi ekki uppfyllt kröfur um löndun mótframlags og komi ekki til með að fá úthlutað byggðakvóta fyrir bátinn [D] fyrir fiskveiðiárið 2021/2022. Helstu rök fyrir kærunni séu þau að vegna mistaka Fiskistofu hafi forráðamönnum félagsins ekki borist tilkynning um úthlutun fyrr en um miðjan júlí 2022. Pósturinn hafi ekki verið sendur á lögheimili félagsins. Einnig hafði þá dregist mjög að úthluta byggðakvóta fyrir Tálknafjörð, þaðan sem bátur félagsins [D] sé gerður út. Á þeim tíma hafi verið ljóst að ekki myndi nást að landa strandveiðiafla bátsins sem mótframlagi. Þá hafi eina fiskvinnslan í Vesturbyggð verið með lokað allan ágústmánuð og hafi því ekki getað tekið við afla.

Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.

Með tölvubréfi, dags. 5. janúar 2023, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Svarbréf Fiskistofu barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 27. janúar 2023. Þar segir m.a. að samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sé afhending byggðakvóta háð því að fiskiskip uppfylli kröfu um löndunarskyldu. Aflinn skuli nema, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni. Til viðbótar við reglugerð nr. 995/2021 hafi verið í gildi sérreglur nr. 505/2022 í Tálknafjarðarhreppi á fiskveiðiárinu 2021/2022. Þar segi í b-lið að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja eigi til byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Samkvæmt gögnum frá Fiskistofu hafi útgerð bátsins [D] eingöngu gert vinnslusamning við tiltekna fiskvinnslu í Tálknafirði um vinnslu á þorski á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til 1. janúar 2023. Alls séu 11 landanir frá skipinu [D] skráðar sem byggðakvóti til vinnslu hjá umræddri fiskvinnslu. Samkvæmt vigtar- og ráðstöfunarskýrslum frá fiskvinnslunni hafi allur aflinn verið sendur óunninn á fiskmarkað en ekki unninn í fiskvinnslunni, sbr. 1. mgr. 6. gr. framangreindrar reglugerðar. Varðandi staðhæfingar kæranda um að félaginu hafi ekki borist tilkynning um úthlutun byggðakvóta upplýsist að samkvæmt gögnum Fiskistofu hafi fyrsta byggðakvótalöndun skipsins verið skráð 27. júní 2022. Með vísan til framangreinds hafi skipið því ekki uppfyllt skilyrði um vinnsluskyldu fyrir úthlutun byggðakvóta.

Eftirtalin gögn fylgdu framangreindu svarbréfi Fiskistofu: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. október 2022. 2) Excelskjal með yfirliti um landanir bátsins [D].

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2023, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af framangreindu bréfi Fiskistofu og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við það en frestur til þess var veittur til og með 27. febrúar 2023.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda við framangreint bréf Fiskistofu.

  

 

Rökstuðningur

I.  Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en kærufrestur er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Ákvörðun Fiskistofu er dags. 6. október 2022 en kæran barst ráðuneytinu 4. janúar 2023, þ.e. innan kærufrests. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

 

II.  Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en samkvæmt 2. tölul. ákvæðisins er gert ráð fyrir að byggðakvóta sé úthlutað til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski og einnig til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum.

Í 5. mgr. 10. gr. laganna er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru:  a) að skip hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip séu skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2022 og c) að skip séu í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2022. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en þar kemur fram að skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skuli skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur hlutur til þess niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum aðstæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærileg ákvæði eru í 2. gr. reglugerðar nr. 995/2021.

Í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, segir að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Einnig kemur þar fram að ráðherra sé heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 er sambærilegt ákvæði um að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt. Ráðherra sé þó heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar, að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.Með vinnslu skv. 1. mgr. sé átt við flökun, flatningu, frystingu, söltun eða herslu.

Einnig segir í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021, að afli sem boðinn er upp á fiskmarkaði teljist ekki hafa verið landað til vinnslu samkvæmt greininni.

Sett hafa verið sett sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu nr. 505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um (1.) breytingu á þeirri auglýsingu. Þar segir m.a. í c-lið að ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu, á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022,  505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um (1.) breytingu á þeirri auglýsingu.

Samkvæmt framanrituðu uppfyllir afli sem landað hefur verið á fiskmarkaði ekki skilyrði um að vera afli sem landað er til vinnslu í byggðarlagi samkvæmt 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021, og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um breytingu á þeirri auglýsingu.

Í máli þessu er þess krafist að afli af bát kæranda, [D], verði tekinn til viðmiðunar samkvæmt 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 sem mótframlag við úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa fyrir fiskveiðiárið 2021/2022.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 27. janúar 2023, sem gerð er grein fyrir hér að framan, kemur fram að samkvæmt vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem bárust Fiskistofu frá tiltekinni fiskvinnslu sem kærandi gerði samning við hafi allur afli sem báturinn landaði á umræddu tímabili verið sendur óunninn á fiskmarkað en ekki unninn í fiskvinnslu í samræmi við framangreind ákvæði.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði til fallast á kröfur kæranda um að taka til viðmiðunar samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, afla sem landað hefur verið á fiskmarkað á Tálknafirði af bátnum [D]. Samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. október 2022.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. október 2022, um að hafna því að taka til viðmiðunar samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um breytingu á þeirri auglýsingu, við úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022, afla sem landað hefur verið á fiskmarkað á Tálknafirði af bátnum [D].

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta