Siggi Odds ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu að svipta skipið LUkku ÓF-57 leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku.
Stjórnsýslukæra
Með bréfi, dags. 3. apríl 2017, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði Sigurður Oddsson f.h. Sigga Odds ehf., Pálsbergsgötu 1, 625 Ólafsfirði, þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, að svipta skipið Lukku ÓF-57, skipaskrárnúmer 2482 leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá og með 6. apríl 2017 til og með 12. apríl 2017. Með tölvubréfi, dags. 5. apríl 2017, féllst Fiskistofa á beiðni kæranda sem barst stofnuninni með tölvubréfi 4. apríl 2017, um að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar þannig að hún gildi frá og með 1. júlí 2017 til og með 7. júlí 2017.Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.
Kröfur kæranda
Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, sem breytt var með ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. apríl 2017, um að svipta skipið Lukku ÓF-57 (2482) leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá og með 1. júlí 2017 til og með 7. júlí 2017.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 7. febrúar 2017, tilkynnti Fiskistofa Sigga Odds ehf. að stofnunin hefði mál félagsins til meðferðar og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir og senda gögn. Þar kemur fram m.a. að í skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, segi að þann 20. janúar 2017 hafi eftirlitsmaðurinn verið í róðri með Lukku ÓF-57 (2482) sem stundi línuveiðar frá Siglufirði þegar hann hafi séð skipstjóra skipsins kasta í sjóinn einum smáþorski sem komið hafði á línuna og um borð í skipið. Í samtali fyrirsvarsmanns kæranda við eftirlitsmanninn hafi komið fram að hann hafi talið að þetta væri heimilt þrátt fyrir bann við brottkasti. Einnig var þar gerð grein fyrir ákvæðum laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um málið, m.a. ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, þar sem kveðið er á um að skylt sé að hirða og landa öllum afla sem komi í veiðarfæri fiskiskipa og 1. mgr. 5. gr. laganna þar sem segir að öllum afla sem íslensk skip veiði úr stofnum sem að hluta til eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í íslenskri höfn svo og 15. gr. sömu laga þar sem mælt er fyrir um viðurlög í formi veiðileyfissviptinga eða skriflegra áminninga sem Fiskistofa ákveður. Þá segir þar að Fiskistofa hafi mál þetta til meðferðar. Áður en ákvörðun verði tekin í málinu og eftir atvikum um hvort viðurlögum verði beitt, sé kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum eða athugasemdum skriflega eða með tölvupósti eigi síðar en 22. febrúar 2017.Engin andmæli bárust Fiskistofu frá kæranda vegna bréfsins.Með bréfi, dags. 3. mars 2017, tók Fiskistofa ákvörðun um að svipta skipið Lukku ÓF-57 (2482) leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku, frá og með 6. apríl 2017 til og með 12. apríl 2017. Með tölvubréfi, dags. 5. apríl 2017, féllst Fiskistofa á beiðni kæranda sem barst stofnuninni með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2017 um að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar þannig að hún gildi frá og með 1. júlí 2017 til og með 7. júlí 2017. Í ákvörðuninni var vísað til bréfs stofnunarinnar til kæranda, dags. 7. febrúar 2017, og framangreindrar málavaxtalýsingar. Þar kemur fram að í skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, segi að þann 20. janúar 2017 hafi eftirlitsmaðurinn verið í róðri með Lukku ÓF-57 (2482) sem stundi línuveiðar frá Siglufirði þegar hann hafi séð skipstjóra skipsins kasta í sjóinn einum smáþorski sem komið hafði á línuna og um borð í skipið. Í samtali fyrirsvarsmanns kæranda við eftirlitsmanninn hafi komið fram að hann hafi talið að þetta væri heimilt þrátt fyrir bann við brottkasti. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sé kveðið á um að skylt sé að hirða og landa öllum afla sem komi í veiðarfæri fiskiskipa. Reglan sé áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laganna en þar segi að öllum afla sem íslensk skip veiði úr stofnum sem að hluta til eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í íslenskri höfn. Engin andmæli hafi borist við framangreindu bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 7. febrúar 2107. Með vísan til þessa telji Fiskistofa að með því að skipstjóri Lukku ÓF-57 (2482) hafi kastað í sjóinn einum þorski sem komið hafði í veiðarfæri skipsins og með því um borð í það 20. janúar 2017 hafi verið brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.Einnig kemur þar fram að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, skuli Fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn þess eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafi brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. sé mælt fyrir um að við fyrsta brot sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli veiðileyfissviptingin ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en í tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Í 3. mgr. 15. gr. komi fram að við fyrsta minniháttar brot skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Einnig kemur þar fram að útgerð Lukku ÓF-57 (2482), áhöfn skipsins eða aðrir sem í þágu útgerðar starfi hafi ekki áður orðið uppvís að brotum sem þýðingu hafi við úrlausn þessa máls. Brotið verði því meðhöndlað sem fyrsta brot í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Við mat á því hvort um minniháttar brot sé að ræða, verði meðal annars litið til þess hve mikilvægum hagsmunum brotið hafi ógnað, hvort brotið hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi og hvort ætla megi að útgerð skips hafi haft verulegan ávinning af brotinu. Fiskistofa telji ekki að útgerð Lukku ÓF-57 (2482) hafi haft fjárhagslegan ávinning af brotinu. Eins og atvikum sé lýst í skýrslu veiðieftirlitsmanns verði að ganga út frá því að um ásetningsbrot hafi verið að ræða. Varðandi hagsmuni sem hafi verið ógnað með brotinu, verði að líta til markmiða laga nr. 57/1996, eins og þau komi fram í lögskýringagögnum. Þar komi fram að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fiski sé varpað fyrir borð og að fiski sé landað framhjá vigt. Í áfangaskýrslu nefndar sem sett hafi verið til að gera tillögur að endurskoðun löggjafarinnar sé meðal annars bent á að viðurlög við brotum eigi að vera ströng og þyngjast við endurtekin brot. Af þessu verði ráðið að lögum um umgengni um nytjastofna sjávar sé ætlað að tryggja tvö meginatriði. Í fyrsta lagi að allur afli sem komi í veiðarfæri fiskiskipa sé færður að landi og honum landað í viðurkenndri höfn en í öðru lagi að aflinn sé þar veginn og skráður. Öllum sem í atvinnuskyni fái heimild til að nýta auðlindir sjávar við Ísland beri að fara eftir þessum ákvæðum. Í ljósi þessa sé það mat Fiskistofu að ekki geti komið til þess að litið verði á brottkast afla sem minniháttar brot í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Í tilviki því sem hér sé til meðferðar hafi aðeins einum fiski verið kastað í sjóinn og í ljósi þess og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þyki rétt að marka veiðileyfissviptingu eins stuttan tíma og lög heimili. Með hliðsjón af öllu framangreindu og með vísan til 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, hafi Fiskistofa ákveðið að svipta fiskiskipið Lukku ÓF-57 (2482) leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni í eina viku. Sviptingin gildi frá og með 6. apríl 2017. Sviptingin hafi ítrekunaráhrif í tvö ár skv. 19. gr. laga nr. 57/1996.Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan eins mánaðar frá því að kæranda barst tilkynningin, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996. Kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.Hinn 17. mars 2017 barst Fiskistofu beiðni kæranda um að málið yrði tekið til meðferðar að nýju á grundvelli nýrra upplýsinga sem tilgreindar voru í bréfinu. Í fyrsta lagi hefði fyrirsvarsmaður útgerðarinnar gert þau mistök að vitja ekki um póst sem hafi borist á starfsstöð útgerðarinnar og því hafi hann ekki getað komið andmælum að í málinu áður en ákvörðun hafi verið tekin. Í öðru lagi væri það rangt að hann hefði kastað fiski í sjóinn í umræddri veiðiferð. Hið rétta væri að hann hefði tekið umræddan smáþorsk af línunni, sýnt veiðieftirlitsmanni Fiskistofu fiskinn og spurt hvort hann mætti henda honum í sjóinn. Veiðieftirlitsmaðurinn hafi sagt honum að hann ætti að færa allan afla að landi og hann hefði farið að þeim leiðbeiningum og sett fiskinn í ílát sem hæfði stærð hans. Í þriðja lagi hefðu komið þrjár lúður á línuna í þessari veiðiferð og hafi þær allar verið skornar af línunni. Með bréfi, dags. 21. mars 2017, synjaði Fiskistofa beiðni um endurupptöku málsins. Þar segir m.a. að ákvörðunin hafi byggst á frásögn í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, þar sem greint sé frá því að eftirlitsmaðurinn hafi verið að störfum um borð í Lukku ÓF-57 (2482) 20. janúar 2017 og séð skipstjóra skipsins kasta einum smáþorski í sjóinn. Fiskistofa hafi sent útgerð Lukku ÓF-57 (2482) tilkynningu um meðferð málsins þegar við upphaf málsmeðferðarinnar. Með því hafi verið uppfyllt skilyrði 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig hafi stofnunin veitt útgerð skipsins leiðbeiningar um málsatvik og lagaatriði og uppfyllt með því ákvæði 7. gr. sömu laga. Stofnunin hafi einnig veitt útgerðinni tækifæri til að skila andmælum og athugasemdum til Fiskistofu áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Með því hafi verið uppfyllt ákvæði 10. og 13. gr. sömu laga. Málsaðili hafi upplýst að fyrir mistök hafi hann ekki vitjað um póst sem hafi borist á heimilisfang útgerðarinnar og því hafi hann ekki nýtt andmælarétt sinn. Fiskistofa telji að útgerðin verði að bíða hallann af því. Upplýsingar sem komi fram í umræddri endurupptökubeiðni um að þrjár lúður hafi komið á línu skipsins í umræddri veiðiferð sem málið snúist um og að lúðunni hafi verið sleppt hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins og leiði ekki til þess að málið verði endurupptekið. Þá geti það ekki haft þýðingu fyrir úrlausn málsins að í umræddri endurupptökubeiðni komi fram að það sé rangt að skipstjóri skipsins hafi í umrætt sinn kastað í sjóinn fiski sem hafi komið um borð með veiðarfæri skipsins en þessar uppýsingar höfðu ekki komið fram þegar Fiskistofa tók umrædda stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi aðili stjórnsýslumáls rétt á að mál sé tekið til meðferðar að nýju, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt honum, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Af orðalagi ákvæðisins leiði að um verði að vera að ræða upplýsingar sem byggt hafi verið á eða hafi haft þýðingu við ákvörðun málsins, en ekki upplýsingar um atvik sem litlu eða engu hafi skipt við úrlausn málsins. Ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, um að svipta fiskiskipið Lukku ÓF-57 (2482) veiðileyfi í eina viku á grundvelli 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, hafi eingöngu verið byggð á skýrslu eftirlitsmanns stofnunarinnar um atvik sem hann hafi upplifað af eigin raun í veiðiferð skipsins 20. janúar 2017. Ekki hafi verið litið til afstöðu skipstjóra skipsins til brotsins. Þær upplýsingar sem útgerð skipsins hafi nú komið á framfæri um afstöðu skipstjóra skipsins til brotsins hafi því ekki áhrif á ákvörðun málsins.Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að hún barst kæranda, sbr. 26. og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 3. apríl 2017 barst Fiskistofu afrit af tölvupósti með stjórnsýslukæru kæranda. Í framhaldi af því hafði Fiskistofa samband við útgerðina og leiðbeindi um að mögulegt væri að sækja um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar. Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2017, óskaði kærandi eftir að frestað yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Með tölvubréfi Fiskistofu, dags. 5. apríl 2017, var réttaráhrifum ákvörðunarinnar frestað til 1. júlí 2017.
Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð
Með stjórnsýslukæru, dags. 3. apríl 2017, sem barst barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði Sigurður Oddsson f.h. Sigga Odds ehf. þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, að svipta skipið Lukku ÓF-57 (2482) leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá og með 6. apríl 2017 til og með 12. apríl 2017. Eins og áður greinir féllst Fiskistofa með tölvubréfi, dags. 5. apríl 2017, á beiðni kæranda um að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar þannig að hún gildi frá og með 1. júlí 2017 til og með 7. júlí 2017.Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi krefjist þess að ákvörðun Fiskistofu verði felld úr gildi. Kærandi mótmæli viðurlögum vegna meints brots þar sem honum sé gefið að sök að hafa kastað í sjóinn einum smáþorski sem hafi komið á línuna og um borð í Lukku ÓF-57 (2482). Kærandi telji að ákvörðun Fiskistofu geti valdið félaginu milljóna tjóni sem ekki sé í neinu samræmi við hið meinta brot. Málsatvik séu þau að við línuveiðar Lukku ÓF-57 (2482) þann 20. janúar 2017 hafi afli verið ágætur. Eins og gerist við línuveiðar hafi afli verið af öllum stærðum. Í umræddum róðri hafi meginuppistaðan í aflanum verið þorskur og ýsa. Aðrar tegundir sem hafi komið á línuna hafi verið ufsi, keila, langa, hlýri, steinbítur, karfi og lúða. Síðastnefndu tegundinni hafi verið sleppt við borðstokk. Við frágang afla hafi kærandi sýnt veiðieftirlitsmanni Fiskistofu einn áberandi smáan og ræfilslegan fisk og spurt hvort ekki mætti sleppa honum. Eftirlitsmaður hafi sagt að það ætti að koma með allt sem veitt væri að landi. Fiskurinn hafi því farið í það ílát sem honum hafi hæft. Kærandi haldi því fram að fiskinum hafi ekki verið hent fyrir borð. Kærandi stundi nú grásleppuveiðar en samkvæmt ákvörðun Fiskistofu eigi framkvæmd veiðileyfissviptingar að vera frá og með 6. apríl 2017 til og með 12. apríl 2017. Kærandi sé nýbúinn að fjárfesta í grásleppuveiðileyfi með öllu meðfylgjandi. Frátöf frá veiðum tímabilið 6.-12. apríl 2017 muni því hafa veruleg áhrif á rekstur útgerðarinnar og afleiðingar sem ekki séu í neinu samræmi við hið meinta brot. Með bréfi, dags. 6. apríl 2017, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.Í umsögn Fiskistofu, dags. 25. apríl 2017, kemur fram m.a. að í skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 20. janúar 2017, segi að hann hafi farið í róður með Lukku ÓF-57 (2482) sem stundi línuveiðar frá Siglufirði. Um kl. 10:00 hafi hann verið að lengdarmæla fisk meðan skipstjórinn hafi verið að draga inn línuna. Hann hafi þá séð skipstjórann kasta einum smáþorski í sjóinn. Skipstjórinn hafi síðan haft orð á því, hvort ekki mætti henda svona smáfiski ef hann væri lífvænlegur en verið leiðbeint um að skylt væri að fara með allan afla í land, óháð stærð hans. Hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, sem rituð hafi verið í beinu framhaldi af broti skipstjóra Lukku ÓF-57 (2482). Þar segi að veiðieftirlitsmaður hafi horft á skipstjóra skipsins henda einum þorski fyrir borð og að komið hafi til orðaskipta þeirra á milli vegna þess. Ekki komi fram í skýrslunni að skipstjórinn hafi þá neitað að hafa kastað fiskinum í sjóinn. Við hina kærðu ákvörðun hafi þó ekki verið gengið út frá því að skipstjórinn eða útgerðin hefði viðurkennt brotið, heldur hafi einungis verið stuðst við frásögn í skýrslu veiðieftirlitsmanns, sem starfi í samræmi við lögbundið erindisbréf og hafi enga hagsmuni af úrlausn málsins. Fiskistofa hafi sent bréf til útgerðar Lukku ÓF-57 (2482) hinn 7. febrúar 2017 þar sem tilkynnt hafi verið um meðferð málsins, leiðbeiningar veittar og útgerðinni veitt tækifæri til að koma andmælum eða athugasemdum að í málinu áður en ákvörðun yrði tekin. Í stjórnsýslukærunni komi fram að það hafi verið mistök fyrirsvarsmanns útgerðarinnar að vitja ekki um póst sem borist hafi á starfsstöð fyrirtækisins og hafi það verið ástæðan fyrir því að andmælum hafi ekki verið skilað. Fiskistofa líti svo á að stofnunin hafi veitt útgerðinni færi á að koma andmælum að í málinu og að útgerðin verði að bíða hallann af því að hirða ekki um að opna eða svara póstsendingum. Kærandi telji að með því að beita sviptingu veiðileyfis skv. 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, í stað þess að beita áminningu skv. 3. mgr. sömu greinar, hafi Fiskistofa brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að við fyrsta minniháttar brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. sömu greinar, veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Af orðalagi málsgreinarinnar verði ráðið að bæði skilyrðin verði að vera uppfyllt svo máli verði lokið með þeim hætti. Engin fyrri brot hafi haft áhrif á viðurlagaákvörðun í málinu og hafi brotið verið meðhöndlað sem fyrsta brot. Við mat á því hvort um minniháttar brot hafi verið að ræða hafi verið litið til þriggja atriða. Í fyrsta lagi hvort útgerð skipsins hafi haft verulega fjárhagslega hagsmuni af brotinu. Talið hafi verið að enginn fjárhagslegur ávinningur hafi verið af brotinu. Í öðru lagi hvort brotið hefði verið framið af ásetningi eða gáleysi. Eins og háttseminni hafi verið lýst í skýrslu veiðieftirlitsmanns hafi ekki verið talið fært að álykta annað en að um ásetningsbrot hefði verið að ræða. Í þriðja lagi hve miklum hagsmunum brotið hefði ógnað. Þeim hagsmunum sé meðal annars lýst í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Þar segi að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar sem verði að nýta þannig að þær gefi sem mestan arð. Góð umgengni um þessar auðlindir sé því augljóslega eitt helsta hagsmunamál þjóðarinnar. Upplýsingar um afla og aflasamsetningu séu mikilvægasta forsendan sem fiskifræðingar styðjist við þegar lagt sé mat á ástand stofna og afrakstursgetu þeirra. Rangar eða ónákvæmar upplýsingar um afla leiði óhjákvæmilega til ónákvæmni í útreikningi varðandi ástand fiskstofna, og þar með aukist hættan á að of nærri þeim verði gengið. Í athugasemdunum komi fram að markmið laganna séu að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að fiski sé varpað fyrir borð og að fiski sé landað framhjá vigt. Einnig að lagaákvæði séu einföld og skýr og að viðurlög við brotum séu ströng. Fiskistofa telji að lögskýringagögn bendi til þess að bann við brottkasti sé önnur af tveimur meginstoðum þeirrar grundvallarreglu sem fiskveiðistjórnunarkerfið byggi á að allur afli sem komi í veiðarfæri skipa í íslenskri lögsögu skuli færður að landi, hann veginn í löndunarhöfn við löndun og skráður í opinbert aflaskráningarkerfi. Brottkast afla raski þeim mikilvægu hagsmunum sem löggjöfinni sé ætlað að vernda og því verði brotið ekki talið minniháttar brot. Af þeirri ástæðu hafi ekki verið heimild til að ljúka málinu með skriflegri áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Aðeins hafi komið til greina að beita sviptingu veiðileyfis skv. 1. mgr. 15. gr. laganna en með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi sviptingunni verið markaður stysti mögulegi gildistími skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 eða ein vika. Fiskistofa vísi að öðru leyti til rökstuðnings sem hafi fylgt hinni kærðu ákvörðun og meðfylgjandi fylgigagna. Umsögn Fiskistofu fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Skýrsla veiðieftirlitsmanns Fiskistofu. 2) Andmælabréf – tilkynning um meðferð máls, dags. 7. febrúar 2017. 3) Ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis, dags. 3. mars 2017. 4) Beiðni um endurupptöku, dags. 17. mars 2017. 5) Synjun um endurupptöku, dags. 21. mars 2017. 6) Stjórnsýslukæra Sigurðar Oddssonar f.h. Sigga Odds ehf., dags. 3. apríl 2017. 7)-9) Tölvupóstsamskipti milli kæranda og Fiskistofu vegna frestunar réttaráhrifa ákvörðunarinnar.Með bréfi, dags. 21. apríl 2017, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina. Frestur til þess var veittur til og með föstudagsins 5. maí 2017.Engar athugasemdir bárust frá kæranda við umsögnina.
Rökstuðningur
I. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 3. apríl 2017, með tölvubréfi, sama dag þar sem kærð var ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, um að svipta skipið Lukku ÓF-57 (2482) leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku. Kærufrestur í málinu sem er einn mánuður, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996, var því ekki liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.
II. Um umgengni um nytjastofna sjávar gilda ákvæði laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, en brot gegn lögunum varða viðurlögum samkvæmt IV. kafla laganna.Hin kærða ákvörðun Fiskistofu í máli þessu, dags. 3. mars 2017, um sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni byggir á því að brot kæranda samkvæmt framangreindum lögum nr. 57/1996 hafi verið fólgið í því að kastað hafi verið fyrir borð skipsins Lukku ÓF-57 (2482) einum smáþorski og að með því hafi verið brotið gegn 2. gr. laga nr. 57/1996 en í 1. málsl. 2. mgr. greinarinnar segir:
"Skylt er að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa." (http://www.althingi.is/lagas/141b/1996057.html)
Reglan er áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1996 en þar segir að öllum afla sem íslensk skip veiði úr stofnum sem að hluta til eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í íslenskri höfn.Þessi regla kemur einnig fram í 1. gr. reglugerðar nr. 468/2013, um nýtingu afla og aukaafurða, en í ákvæðum reglugerðarinnar koma fram tilteknar undantekningar frá framangreindri meginreglu sem ekki eiga við í þessu máli. Í 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, er svohljóðandi ákvæði:
"Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu." (http://www.althingi.is/lagas/142/1996057.html)
Af hálfu kæranda hefur því verið mótmælt að um hafi verið að ræða brottkast afla af skipinu Lukku ÓF-57 (2482) en kærandi heldur því fram að umræddum fiski hafi ekki verið kastað frá borði heldur hafi hann verið settur í ílát um borð í skipinu.Ákvörðun Fiskistofu í máli þessu byggðist á skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, sem rituð var í beinu framhaldi af broti skipstjóra Lukku ÓF-57 (2482). Ekki kemur fram í skýrslunni að skipstjórinn hafi þá neitað að hafa kastað fiskinum í sjóinn.Þar sem að veiðieftirlitsmaður var á vettvangi um borð í skipinu í umrætt sinn þykir verða að leggja til grundvallar að skýrsla hans hafi að geyma raunsanna lýsingu á atvikum málsins. Samkvæmt því og með vísan til þeirra forsendna sem koma fram í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, telur ráðuneytið ekki ástæðu til að véfengja skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, um að kastað hafi verið frá borði skipsins Lukku ÓF-57 (2482) einum smáþorski.Með framangreindri háttsemi verður að telja að kærandi hafi brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 468/2013, um nýtingu afla og aukaafurða.Af ákvæðum laga nr. 57/1996 verður ráðið að brottkast á fiski sé ávallt litið alvarlegum augum og varði viðurlögum samkvæmt 15. gr. laganna. Þar kemur fram að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi fyrir slík brot, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna en við fyrsta minniháttar brot skuli Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, kemur ekkert fram um að um hafi verið að ræða meira magn en einn smáþorsk sem kastað hafi verið frá borði skipsins í umræddu tilviki.Einnig var um að ræða fyrsta brot kæranda en útgerð skipsins, áhöfn eða aðrir sem í þágu útgerðarinnar starfa hafa ekki samkvæmt gögnum málsins áður orðið uppvís að brotum sem þýðingu hafa við úrlausn þessa máls. Þá verður við ákvörðun í málinu að líta til þess að ein af grundvallarreglum íslensks stjórnsýsluréttar er meðalhófsreglan sem efnislega felur í sér að ekki skuli ganga lengra við töku ákvarðana í hverju tilviki en tilefni er til á hverjum tíma og að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.Með hliðsjón af því magni sem byggt er á í skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, því að um var að ræða fyrsta brot kæranda og með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er það mat ráðuneytisins að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði um leyfissviptingu samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 hafi verið uppfyllt.Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, með þeirri breytingu sem gerð var á henni með ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. apríl 2017, um að svipta skipið Lukku ÓF-57 (2482) leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá og með 1. júlí 2017 til og með 7. júlí 2017.Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.
Úrskurður
Ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. mars 2017, sem breytt var með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. apríl 2017, um að svipta skipið Lukku ÓF-57, skipaskrárnúmer 2482, leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá og með 1. júlí 2017 til og með 7. júlí 2017, er felld úr gildi.
Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherraJóhann Guðmundsson
Sigríður Norðmann