Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta.
Stjórnsýslukæra
Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [A ehf.), [B], löggiltum endurskoðanda f.h. [C ehf.], dags. 6. júlí 2020, sem barst ráðuneytinu 7. sama mánaðar, þar sem kærðar eru til ráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu, dags. 23. júní 2020, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátanna [D] og [E].
Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
Kröfur kæranda
Kærandi krefst þess að felldar verði úr gildi ákvarðanir Fiskistofu, dags. 23. júní 2020, um að hafna umsóknum um úthlutun byggðakvóta til bátanna [D] og [E]. Jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til framangreindra báta í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 20. maí 2020, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 í nokkrum byggðarlögum, m.a. í Grímsey í Akureyrarkaupstað en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og 5. gr. reglugerðar nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 4. júní 2020. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 263 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Akureyrarkaupstaðar sem skiptust á byggðarlögin Grímsey, 103 þorskígildistonn og Hrísey, 158 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Akureyrarkaupstað með bréfi, dags. 30. desember 2019.
Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir [D] og [E] með umsóknum til Fiskistofu, dags. 25. maí 2020.
Hinn 23. júní 2020 tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðum í Grímsey um úthlutun byggðakvóta milli einstakra báta í byggðarlaginu. Kæranda var tilkynnt að 6.680 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins [D] og 6.245 þorskígildiskíló í hlut bátsins [E]. Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á ákvæðum 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, reglugerð nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020 og auglýsingu (IV) nr. 463/2020, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.
Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindum tilkynningum Fiskistofu um úthlutun.
Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð
Með stjórnsýslukæru, dags. 6. júlí 2020, sem barst ráðuneytinu 7. sama mánaðar, frá [A ehf.) ehf.,[B] löggiltum endurskoðanda f.h. [C ehf.] eru kærðar til ráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu, dags. 23. júní 2020, um úthlutun af byggðakvóta Grímseyjar í Akureyrarkaupstað fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátanna [D] og [E].
Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi telji sig eiga rétt á hærri úthlutun af byggðakvóta Grímseyjar. Úthlutunin byggi á lönduðum afla í byggðarlaginu. [C ehf.] sé næst stærsti útgerðaraðilinn, ef horft sé til aflaheimilda, með aðsetur í Grímsey og geri út skipin [D] og [E]. Gerðar séu athugasemdir við úthlutun byggðakvóta til annars aðila í Grímsey sem kærandi telji að að sé byggð á lönduðum afla þess tíma þegar félagið hafi átt töluvert miklar aflaheimildir en félagið hafi selt aflaheimildir sínar frá sér og virðist ætla að byggja útgerð sína alfarið á fyrirhugaðri úthlutun byggðakvóta og því aflamarki sem Byggðastofnun hafi úthlutað vegna brothættra byggða. Nánast öll önnur útgerðarfélög í Grímsey hafi selt aflaheimildir sínar og byggi rekstur sinn á úthlutun almenns byggðakvóta og þeim kvóta sem úthlutað sé af Byggðastofnun í tengslum við reglugerð um brothættar byggðir. Verulega ósanngjarnt og ómálefnalegt sé að félög sem hafi selt frá sér allar aflaheimildir fái stærstan hluta þess almenna byggðakvóta sem úthlutað sé til Grímseyjar. Eitt aðalmarkmið með úthlutun byggðakvóta sé að styrkja byggðir í landinu. Úthlutun byggðakvóta til aðila sem hafi selt frá sér allar aflaheimildir og greitt upp allar sínar skuldir með verulegum hagnaði geti ekki talist eðlileg og sanngjörn úthlutun á byggðakvóta meðan aðrir verði að standa undir verulegum skuldbindingum. Horfa verði til samhengis hluta við úthlutun byggðakvóta en ekki á úreltar upplýsingar. Úthlutun sem byggi á löndun afla við allt aðrar aðstæður en nú séu geti ekki talist eðlileg og sanngjörn. Löndunarskylda í Grímsey vegna fyrirhugaðrar úthlutunar byggðakvóta hafi verið afnumin og sé því ósamræmi í því að miða landaðan afla í Grímsey við úthlutun byggðakvótans. Þá hafi komið upp vélarbilun í [D] í maí 2019 sem hafi valdið því að báturinn hafi engum afla landað á tímabilinu 14. maí - september 2019, hvorki í Grímsey né annars staðar. Árið áður hafði útgerðin landað mun meiri afla í Grímsey.
Með tölvubréfi, dags. 8. júlí 2020, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
Með bréfi, dags. 28. ágúst 2020, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu. Þar segir m.a. að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarði samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. 10. gr. a laga nr. 116/2006. Umræddum aflaheimildum sé úthlutað af Byggðastofnun og séu umræddar aflaheimildir því ekki á forræði Fiskistofu. Í 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 sé vísað til almennra skilyrða fyrir úthlutun aflamarks. Þar segi m.a. að fiskiskip verði að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, vera skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019 og vera í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019. Þau skip sem hafi fengið úthlutun í Grímsey hafi uppfyllt almenn skilyrði sem komi fram í 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019. Viðmiðanir um úthlutun aflamarks til einstakra skipa séu tilgreind í 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019. Í ákvæðinu segi m.a. að skipta skuli hlutfallslega því aflamarki sem fallið hafi til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafi þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Út frá gildandi reglugerð hafi umrædd skip því uppfyllt skilyrði til úthlutunar. Engar undantekningar sé að finna í reglugerðinnni fyrir viðmiðunartímabili um úthlutun aflamarks og hafi stofnunin því ekki heimild til að taka til skoðunar önnur tímabil þótt vélarbilun hafi komið upp í bát kæranda, m.a sé engin slík heimild í auglýsingu um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í byggðarlaginu. Út frá ofangreindu telji Fiskistofa að staðfesta beri hinar kærðu ákvarðanir vegna úthlutunar byggðakvóta til báta [C ehf.]
Eftirtalin gögn fylgdu framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 28. ágúst 2020: 1) Bréf Fiskistofu, dags. 23. júní 2020.
Með tölvubréfi, dags. 31. ágúst 2020, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 28. ágúst 2020, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við hana. Frestur til þess var veittur til og með 18. september 2020.
Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu vegna framangreinds tölvubréfs, dags. 31. ágúst 2020.
Rökstuðningur
I. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Í 8. mgr. greinarinnar er Fiskistofu falið að annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut einstakra fiskiskipa.
Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
Þá eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.
Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 676/2019.
Þá kemur fram í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi. Sambærilegt ákvæði er í 6. gr. reglugerðar nr. 676/2019.
Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Grímsey í Akureyrarkaupstað fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 með auglýsingu (IV) nr. 463/2020 sem hafa ekki áhrif á niðurstöðu þessa máls.
Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa í Grímsey í Akureyrarkaupstað fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 676/2019 og auglýsingu (IV) nr. 463/2020.
II. Ráðuneytið hefur farið yfir úthlutun byggðakvóta til báta kæranda, [D] og [E] og verður ekki annað séð en að hún sé í samræmi við framangreind lög og reglur sem gilda um úthlutunina.
Ekki verður annað séð en að það magn aflaheimilda sem kom í hlut bátanna sé í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019. Í reglugerðinni er ekki að finna neinar undantekningar fyrir viðmiðunartímabili um úthlutun aflamarks og er ekki heimild til að taka til skoðunar önnur viðmiðunartímabil en þar koma fram.
Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda sem koma fram í stjórnsýslukærunni eða öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að breyta úthlutun af byggðakvóta Grímseyjar í Akureyrarkaupstað fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátanna [D] og [E] en samkvæmt því ber að staðfesta hinar kærðu ákvarðanir Fiskistofu, dags. 23. júní 2020.
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.
Úrskurður
Ráðuneytið staðfestir ákvarðanir Fiskistofu, dags. 23. júní 2020, um úthlutun af byggðakvóta Grímseyjar í Akureyrarkaupstað fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátanna [D] og [E]