Úrskurður nr. 2/2024 um ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta.
Föstudaginn, 17. maí 2024, var í matvælaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
Stjórnsýslukæra
Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá, [A ehf.], dags. 26. febrúar 2024, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. febrúar 2024, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta á Þingeyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 til bátsins [B].
Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Kröfur
Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. febrúar 2024, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 til bátsins [B] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukæru.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 26. janúar 2024, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Þingeyri í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 852/2023, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024. Umsóknarfrestur var til og með 9. febrúar 2024. Matvælaráðuneytið hafði þá úthlutað 1.110 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 851/2023, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2023/2024, sem skiptust á eftirfarandi byggðarlög: Flateyri, 285 þorskígildistonn, Hnífsdalur 163 þorskígildistonn, Ísafjörður 195 þorskígildistonn, Suðureyri 192 þorskígildistonn og Þingeyri 285 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 1. desember 2023.
Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [B] með umsókn til Fiskistofu, dags. 9. janúar 2024.
Hinn 14. febrúar 2024 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Þingeyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að hafnað væri framangreindri umsókn um byggðakvóta. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 852/2023, sbr. auglýsingu nr. 70/2024, um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024, verði fiskiskip að hafa gilt leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests til að koma til greina við úthlutun. Báturinn [B]hafi ekki haft almennt leyfi til fiskveiða við lok umsóknarfrests.
Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til matvælaráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina.
Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð
Með stjórnsýslukæru, dags. 26. febrúar 2024, kærði [A ehf.], til matvælaráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. febrúar 2024, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 til bátsins [B].
Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að óskað sé eftir endurskoðun á úthlutun byggðakvóta fyrir Þingeyri en kærandi hafi sótt um byggðakvóta fyrir bátinn [B] en umsókninni verið hafnað vegna þess að báturinn hafði ekki veiðileyfi. Veiðileyfi hafi ekki verið klárt vegna þess að fyrirsvarsmaður kæranda hélt að skipið væri með gilt veiðileyfi og taldi sig hafa fundið staðfestingu þess en það hafi verið rangt. Þegar leitað hafi verið að veiðileyfi skipsins í skjölum hafi fyrirsvarsmaður kæranda fundið kvittun frá Fiskistofu fyrir strandveiðileyfi sem kostaði kr 50.000 og á sömu nótu hafi verið veiðileyfi sem kostaði 22.000 kr. Sama verð og fyrir almenna veiðileyfið sem fyrirsvarsmaður kæranda keypti sama dag og kæran var lögð fram. Óskað sé eftir að litið verði á þetta sem byrjendamistök. Það að fá smá byggðakvóta sé mjög mikilvægt fyrir útgerð kæranda þar sem strandveiðin sé frekar óörugg vegna veðurs á leyfilegum dögum. Báturinn [B] hafi t.d. aðeins getað róið í 14 daga sumarið 2023 bæði vegna veðurs og vegna þess hversu fljótt strandveiðikvótinn kláraðist.
Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.
Með tölvubréfi, dags. 27. febrúar 2024, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
Í umsögn Fiskistofu, dags. 3. apríl 2024, segir að Fiskistofa hafi þann 26. janúar 2024, auglýst eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir byggðarlagið á Þingeyri samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 852/2023, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024, 26. janúar 2024 á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is. Umsóknarfrestur hafi verið til og með 9. febrúar 2024. Kærandi hafi sótt um byggðakvóta 9. febrúar 2024. Með ákvörðun, dags. 14. febrúar 2024, hafi Fiskistofa hafnað umsókn kæranda um byggðakvóta fyrir fiskiskipið [B] þar sem skipið hafi ekki uppfyllt kröfur a-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 852/2023, sbr. auglýsingu nr. 70/2024, um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024, um að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eða frístundaveiðileyfi skv. 2. tl. 4. mgr. 6. gr. sömu laga, við lok umsóknarfrests. Kærandi hafi sótt um og fengið leyfi til krókaaflamarksveiða 26. febrúar 2024. Kærandi virðist hafa talið að skipið hefði gilt veiðileyfi þegar sótt var um byggðakvóta þar sem skipið hafði fengið strandveiðileyfi fiskveiðiárið 2022/2023, eða að í strandveiðileyfinu hafi einnig falist almennt veiðileyfi. Kærandi tiltaki að á kvittun fyrir strandveiðileyfinu sé tilgreint að strandveiðileyfi kosti kr. 50.000 og veiðileyfi kosti kr. 22.000, sem sé sama verð og fyrir almennt veiðileyfi. Fiskistofa tilgreini á reikningi fyrir strandveiðileyfi annars vegar leyfi til strandveiða kr. 22.000 og hins vegar sérstakt gjald vegna strandveiðileyfa kr. 50.000. Fiskistofa fallist ekki á sjónarmið um að strandveiðileyfi á strandveiðivertíðinni fiskveiðiárið 2022/2023 geti talist gilt leyfi eftir lok strandveiðivertíðar 2022/2023. Fiskveiðiárið 2022/2023 sé skýrt tekið fram í strandveiðileyfinu. Þá fallist Fiskistofa ekki á að kærandi geti talist hafa greitt fyrir almennt veiðileyfi samkvæmt reikningi Fiskistofu fyrir strandveiðileyfi með hliðsjón af sundurliðun reikningsins. Fiskistofa hafi við afgreiðslu umsókna um byggðakvóta reynt eins og kostur sé að taka mið af þeim sjónarmiðum sem rakin séu í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10898/2021. Með hliðsjón fjölda umsókna og flækjustigi við úthlutun byggðakvóta sé vandkvæðum bundið að yfirfara umsóknir með hliðsjón af rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda áður en umsóknarfrestur líður nema eftir því sé leitað sérstaklega t.d. símleiðis. Fiskistofa hafi því ásett sér að leiðbeina umsækjendum að laga þær augljósu villur sem þeir geri í umsóknum sínum eftir að umsóknarfrestur líður. Þar sem skilyrði um veiðileyfi verði að vera uppfyllt fyrir lok umsóknarfrests hefði Fiskistofa, í umræddu tilfelli, ekki getað staðreynt fyrirliggjandi upplýsingar og leiðbeint kæranda um hvernig rétt væri að bera sig að til að fá þau réttindi sem hann sótti um með sérstökum tilkynningum eða leiðbeiningum fyrir lok umsóknarfrests, þar sem kærandi hafi sótt um byggðakvóta rétt fyrir lok umsóknarfrests. Stefnt sé að því að veita nauðsynlegar leiðbeiningar og vekja athygli á hugsanlegum mistökum um leið og umsækjandi fylli út umsókn í umsóknargátt Fiskistofu. Vandasamt geti reynst að uppfylla skilyrði um tilskilið veiðileyfi við lok umsóknarfrests. Skip geti misst veiðileyfi s.s. vegna þvingunarúrræða eða viðurlaga Fiskistofu, einnig megi nefna að útgerðaraðilar geti gleymt að sækja um veiðileyfi eða veiðileyfi fallið niður, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 116/2006. Auk þess sem sérreglur sveitarfélaga geti verið mismunandi, t.a.m. hefði frístundaveiðileyfi einnig nægt í tilfelli kæranda. Að mati Fiskistofu megi leggja það á kæranda sem stundi útgerð að kynna sér þær reglur sem gildi um úthlutun byggðakvóta eða leita sérstaklega eftir upplýsingum um hvaða skilyrði verði að uppfylla til að eiga kost á að fá úthlutað byggðakvóta og ganga úr skugga um að skipið hafi viðeigandi veiðileyfi. Úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa sé úthlutun takmarkaðra gæða sem séu eftirsóknarverð og feli í sér verðmæti. Fiskistofu sé falið að úthluta byggðakvóta og fari eftir þeim reglum sem settar hafi verið um úthlutun í viðkomandi byggðarlagi. Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins verði ákvarðanir og athafnir Fiskistofu að eiga sér stoð í lögum og geti Fiskistofa ekki án lagastoðar eða heimildar í stjórnvaldsfyrirmælum vikið frá þeim skilyrðum sem ráðherra hafi sett. Í tilfelli kæranda hafi það verið mat Fiskistofu að ekki væri heimilt að úthluta byggðakvóta til skips kæranda þar sem skilyrði um viðeigandi veiðileyfi hafi ekki verið uppfyllt við lok umsóknarfrests þó svo kærandi hafi síðar sótt um og fengið krókaaflamarksleyfi. Fiskistofa telji einnig rétt að vísa til úrskurðar ráðuneytisins, dags. 1. september 2022, í máli nr. [C]. Með hliðsjón af framangreindu telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu v. [B], dags. 14.. febrúar 2024. 2) Tölvupóstur frá [A ehf.], dags. 12. febrúar 2024, ásamt yfirlýsingu um vinnslu afla vegna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023/2024. 3) Frétt á vefsíðu Fiskistofu, dags. 26. janúar 2024. 4) Staðfestingarpóstur um móttöku umsóknar um byggðakvóta, dags. 9. febrúar 2024, ásamt fylgiskjali með umsókn, dags. 9. febrúar 2024. 5) Leyfi [B] til krókaaflamarksveiða, gildir frá 26. febrúar 2024. 6) Leyfi [B] til strandveiða fiskveiðiárið 2022/2023, gildir frá 2. maí 2023. 7) Reikningur fyrir leyfi til strandveiða og sérstöku gjaldi vegna strandveiðileyfa, dags. 27. apríl 2023.
Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2024, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda og veitti honum kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 19. apríl 2024.
Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda við umsögn Fiskistofu.
Rökstuðningur og niðurstaða
I. Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og er kærufrestur tvær vikur. Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta er dags. 14. febrúar 2024. Kæra í máli þessu barst matvælaráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 26. febrúar 2024. Kæran er því komin fram innan tilskilins frests.
II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 1. mgr. kemur fram að á hverju fiskveiðiári sé ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem hér segir: 1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. 2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig: a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.
Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 852/2023, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023/2024 sem eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2023 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2023. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 852/2023.
Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Ísafirði, m.a. á Þingeyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu nr. 70/2024, um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024. Þar segir m.a. að ákvæði reglugerðar nr. 852/2023 gildi um úthlutun byggðakvóta Flateyrar, Hnífsdals, Ísafjarðar, Suðureyrar og Þingeyrar með eftirfarandi breytingum m.a.: a) Ákvæði 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eða frístundaveiðileyfi skv. 2. tölul. 4. mgr. 6. gr. sömu laga, við lok umsóknarfrests Ákvæði b)-e) liða auglýsingarinnar hafa ekki áhrif á úrlausn þessa máls.
Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Þingeyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 852/2023 og auglýsingu nr. 70/2024.
Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru í 1. gr. reglugerðar nr. 852/2023 talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023/2024 en samkvæmt a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar eru þau m.a. að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, við lok umsóknarfrests. Með auglýsingu nr. 70/2024, um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024 var breytt m.a. ákvæði a. liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 852/2023 verið breytt og er ákvæðið svohljóðandi: „Hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eða frístundaveiðileyfi skv. 2. tl. 4. mgr. 6. gr. sömu laga, við lok umsóknarfrests.“ Báturinn [B] hafði ekki leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests um úthlutun byggðakvóta á Þingeyri sem lauk þann 9. febrúar 2024 og hafði því ekki veiðileyfi á þeim tíma sem miðað er við í framangreindu ákvæði reglugerðar nr. 852/2023, sbr. og a-lið auglýsingar nr. 70/2024, um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2023/2024. Það er mat ráðuneytisins að þær ástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni fyrir því að báturinn hafði ekki slíkt leyfi á umræddu tímamarki geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls. Bent er á að aðilum sem stunda útgerð, sem ber að uppfylla íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli á sviði fiskveiðistjórnar, er skylt að kynna sér og þekkja vel þær reglur sem um útgerðina og úthlutun aflaheimilda gilda.
Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á úrlausn þessa máls.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. febrúar 2024, um að hafna umsókn kæranda, [A ehf.], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 til bátsins [B] en samkvæmt því verður ákvörðunin staðfest.
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.
Úrskurðarorð
Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. febrúar 2024, um að hafna umsókn kæranda, [A ehf.], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 til bátsins [B].