Frosti ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu í bréfi dags. 23. apríl 2013 um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012.
Stjórnsýslukæra
Með bréfi, dags. 18. júní 2013 bar KPMG ehf. upp kæru f.h. Frosta ehf. vegna ákvörðunar Fiskistofu í bréfi dags. 23. apríl 2013 um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012. Þess er krafist aðallega að ákvarðað sérstakt veiðigjald verði lækkað um 41.866.613 kr. og til vara að það verði lækkað um 11.700.142 kr.
Um meðferð kærunnar fer skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Atvik máls og hin kærða ákvörðun.
Með umsókn um vef Fiskistofu dags. 5. nóvember sl. sótti Frosti útgerð ehf. um lækkun álagðs sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/13. Álagt sérstakt veiðigjald á félagið nam, á þeim tíma, 53.275.756 kr. Síðar jókst álagningin samhliða úthlutun aflamarks um almanaksáramót. Í umsókninni var sótt um að sérstaks veiðigjald yrði lækkað um 41.866.613 kr. Með umsókninni fylgdu eftirtalin gögn:
1. Greinargerð Frosta útgerðar ehf. (og Frosta ehf.) dags. 5. nóvember 2012.
2. Skattframtal Frosta ehf. 2012.
3. Ársreikningur Frosta ehf. 2011.
Með rafbréfi frá 19. desember sl. greindi Fiskistofa umsækjanda frá því að eftir skoðun á umsókninni verði ekki betur séð en að um sé að ræða aflahlutdeildir sem bókfærðar eru hjá öðrum en umsækjanda, og því skuli sækja um skv. 6. gr. reglugerðar nr. 83/2012.
Í greinargerð Frosta ehf. sem fylgdu endurskoðaðri umsókn, dags. 31. janúar 2012 er gerð grein fyrir málavöxtum, eins og þeir horfa við félaginu. Þar segir:
Frosti ehf. gerir út fiskiskipið Frosta ÞH 229, sem úthlutað hefur verið aflamarki á yfirstandandi fiskveiðiári. Skipið er skráð eign Frosta útgerðar ehf. og hefur Frosti ehf. það á leigu. Frosti útgerð ehf. keypti skipið í apríl 2012 í beinu framhaldi af kaupum Frosta ehf. á félaginu. Félagið var þá nýstofnað, óvirkt félag, þ.e. félagið var stofnað af fagaðila til sölu og hafði enga starfsemi með höndum.
Vegna hins skráða eignarhalds var Frosta útgerð ehf. gert að greiða veiðigjald fyrir fiskveiðiárið 2012/2013, þ.m.t. sérstakt veiðigjald, þrátt fyrir að félagið hafi ekki útgerð með höndum.
Umsókn um lækkun sérstaks veiðigjalds var lögð fyrir Fiskistofu í nafni Frosta útgerðar ehf., kt. 790112-1360, í nóvember sl. Fjárhæðir tilgreindar í umsókninni voru sóttar í skattframtal Frosta ehf. fyrir tekjuárið 2011 og samstæðureikning þess félags og dótturfélags þess Hlaða ehf., formlegs eiganda hluta þeirra aflaheimilda sem skráðar eru á fiskiskipið Frosta ÞH 229 og nýttar eru í útgerð Frosta ehf. Varðandi skipulag samstæðunnar vísast til greinargerðar sem fylgdi umsókninni í nóvember sl.
Frosti útgerð ehf. keypti umrætt skip án nokkurra aflaheimilda. Samhliða þeim kaupum seldi Frosti ehf. fiskiskip og það án nokkurra aflaheimilda. Skipti á skipum breyttu því engu um aflaheimildir félagasamstæðunnar. Þær aflaheimildir sem áður voru bundnar því skipi sem selt var, eru nú bundnar því skipi sem keypt var. Útgerð fiskiskipa félagasamstæðunnar, jafnt núverandi skips sem hins fyrra, hefur alla tíð verið á hendi Frosta ehf. og þar með nýting þeirra aflaheimilda sem við skipin hafa verið bundnar.
Veiðiheimildir þær sem nýttar eru í útgerð Frosta ÞH 229, eru annars vegar skráð eign Frosta ehf. og hins vegar skráð eign dótturfélagsins Hlaða ehf. Síðarnefndu heimildirnar nýtir Frosti ehf. gegn gjaldi. Engar veiðiheimildir eru í eigu Frosta útgerðar ehf.
Fiskistofa hefur ekki tekið afstöðu til umsóknarinnar frá því í nóvember sl. en veitt frest til framlagningar frekari skýringa og gagna. Umsóknin er hér með endurnýjuð í ljósi breyttrar forsendu, sbr. eftirfarandi umfjöllun um samruna, og að virtri ábendingu Fiskistofu. Í endurnýjuninni felst að líta ber á Frosta ehf. sem umsækjanda skv. umsókn frá í nóvember, en jafnframt er viðbótarumsókn sett fram sem varakrafa.
Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 838/2012 ber að setja umsókn fram á því formi sem Fiskstofa ákveður. Frosti ehf. leitast við að fylgja þeim fyrirmælum, þótt uppbygging samstæðu félagsins og dótturfélaga þess falli illa að umsóknarformum Fiskstofu, enda verða öll hugsanleg tilvik seint séð fyrir við gerð eyðublaða.
Breytt forsenda
Þann 19. desember 2012 samþykktu stjórni Frosta ehf. og Frosta útgerðar ehf. samrunaáætlun félaganna. Stjórni félaganna eru sammála um að sameina félögin undir nafni og kennitölu Frosta ehf. á grundvelli XIV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Frosti ehf. á allt hlutafé í Frosta útgerð ehf. og fellur það niður við samrunann. Markmið samrunans er aukin hagræðing í rekstri. Samruninn mun ekki rýra möguleika lánadrottna á fullnustu krafna á hendur félögunum.
Samruninn skal miðast við 1. júlí 2012 og tekur hið sameinaða félag við öllum rekstri, eignum, skuldum, réttindum og skyldum Frosta útgerðar ehf. frá og með þeim degi. Sá uppgjörsdagur er innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994. Frá og með 1. júlí 2012 mun félaginu Frosta útgerð ehf. teljast reikningshaldslega slitið [svo]. Skattaleg áhrif samrunans munu einnig miðast við 1. júlí 2012, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eina skattframtal Frosta útgerðar ehf. mun því taka til tímabilsins 24. janúar 2012 til 30. júní 2012 þ.e. frá stofndegi og fram að uppgjörsdegi vegna samruna. Af því leiðir að álagt veiðigjald og sérstakt veiðigjald fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 mun verða gjaldfært í skattframtali Frosta ehf. (hins sameinaða félags), en gjöldin eru frádráttarbær í tekjuskattsskilum skv. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 74/2012, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.
Samrunaáætlun félaganna, ásamt samrunaefnahagsreikningi 1. júlí 2012, greinargerðum stjórna félaganna og greinargerð löggilts endurskoðanda (matsmanns), var lögð fyrir hlutafélagaskrá 21. desember 2012 til skráningar og birtingar í Lögbirtingablaði, sbr. ákvæði 98. gr. og 125. gr. laga nr. 138/1994. Það dróst í heilan mánuð hjá ríkisskattstjóra, skráarhaldara hlutafélagaskrár, að auglýsa hinn fyrirhugaða samruna og birtist auglýsingin ekki fyrr en 23. janúar 2013. Félögin geta því ekki endanlega staðfest samrunann fyrr en í fyrsta lagi 23. febrúar 2013, sbr. ákvæði 4. mgr. 99. gr. laga nr. 138/1994. Hér meðfylgjandi er útprentun af auglýsingu ríkisskattstjóra, hlutafélagaskrár.
Að loknu samrunaferli verður það Frosti ehf. sem bera mun veiðigjald fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 og að sama skapi verða rétthafi lækkunar sérstaks veiðigjalds. Að samrunaferli loknu mun jafnframt fara saman skráð eignarhald fiskiskipsins Frosta ÞH 229 og útgerð þess, hvort tveggja verður í nafni Frosta ehf.
Í ljósi alls framanritaðs verður að líta á Frosta ehf. sem raunverulegan gjaldanda þess sérstaka veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 sem umsókn um lækkun lýtur að.
Í greinargerðinni er í framhaldi þessa vikið að skilyrðum lækkunar hjá Frosta ehf., samkvæmt handhöfn keyptra veiðiheimilda og vaxtaberandi skulda, að því gefnu að litið verði á félagið sem réttan gjaldanda veiðigjalds. Áhyggjum er lýst af skilyrðinu um að hámark lækkunar takmarkist við 4% af ófyrnanlegum eignum. Þar segir:
Í b-lið 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða er tiltekið að miða skuli við ófyrnanlegar eignir samkvæmt skattframtali og í 2. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið ófyrnanlegar eignir skýrt með vísan til reits 5010 í skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04. Þá afmörkun verður að skýra með tilliti til tilgangs ákvæðisins um lækkun sérstaks veiðigjalds.
[...]
Frosti ehf. keypti á árinu 2006 alla hluti í Hlöðum ehf. Yfirverð, þ.e. kaupverð umfram bókfært eigið fé Hlaða ehf., nam 1.020 milljónum króna (m.kr.). Yfirverðið endurspeglaði vanmat eigna í bókum Hlaða ehf. og var í lögboðnum samstæðureikningsskilum félaganna fært til hækkunar eignanna í samræmi við reikningsskilareglur (kaupaðferð). Veiðiheimildir voru megin eign Hlaða ehf. og eru það enn. Af yfirverðinu voru 1.013 m.kr. færðar til hækkunar á virði aflaheimilda í samstæðureikningi. Frá þeim tíma hefur það verð verið fært niður og í lok árs 2011 nam fært yfirverð aflaheimildanna um 739 m.kr., til viðbótar 15 m.kr. færðu verði í bókum Hlaða ehf.
Ef tilgangur ákvæða um lækkun sérstaks veiðigjalds á að nást hjá Frosta ehf. verður útreikningur lækkunar að miðast við raunverulegt kaupverð þeirra aflaheimilda sem veiðigjald er greitt af og þær vaxtaberandi skuldir sem stofnað var til vegna kaupanna. Í umsókn sem lögð var fyrir Fiskistofu í nóvember sl. eru fjárhæðir leiddar fram úr samstæðureikningum í árslok 2011 í samræmi við umrædd sjónarmið um tilgang ákvæða um lækkun sérstaks veiðigjalds. Aðalkrafa Frosta ehf. er að Fiskistofa leggi þær fjárhæðir til grundvallar ákvörðun um lækkun og lækki sérstakt veiðigjald um 41.866.613 kr.
Tilgangur ákvæðisins kemur m.a. fram í eftirfarandi orðum nefndarálits meirihluta atvinnuveganefndar:
„Áhrif þessa ákvæðis eru þau að hinn heimilaði frádráttur takmarkast við þær skuldir sem til staðar kunna að vera vegna kaupa á kvóta, beint eða að félag með kvóta hefur verið keypt á yfirverði og síðan sameinað kaupandanum.“
Vegna þessara orða er bent á að yfirverð keyptra aflaheimilda hvorki raungerist né kemur fyrst fram í reikningshaldi við sameiningu (samruna) félaga, heldur raungerist yfirverðið við kaupin og kemur fram í reikningshaldi strax við kaupin, þ.e. myndun samstæðu félaganna. Samstæðureikningur félaganna hefur allt frá kaupum Frosta ehf. á Hlöðum ehf. verið nákvæmlega eins og verði hefði ef félögin hefðu verið sameinuð. Eignir og skuldir samstæðunnar eru þær sömu og færðar við sama verði, þ.m.t. aflaheimildir.
Frosti ehf. og Hlaðir ehf. sæta samsköttun tekjuskatts, samkvæmt 55. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Með samsköttun félaganna nást fram sömu áhrif hvað tekjuskatt varðar og ef félögin hefðu verið sameinuð. Það væri óeðlilegt og andstætt sjónarmiðum þeim sem að baki lögum um veiðigjald búa, ef myndun samstæðu hefði ekki sömu áhrif og sameining gagnvart þeirri skattlagningu sem í veiðigjaldi og sérstöku veiðigjaldi felst.
Með vísan til framanritaðs verður að telja að efnisleg skilyrði séu til að verða við kröfu um að lækka sérstakt veiðigjald um 41.866.613 kr.
Til vara gerir Frosti ehf. þá kröfu að sérstakt veiðigjald verði lækkað um 11.700.142., eins og fram kemur í meðfylgjandi viðbótarumsókn. Fjárhæðir eigna, skulda og vaxtagjalda, tilgreindar í viðbótarumsókninni, eru sóttar í skattframtal Frosta ehf. vegna tekjuársins 2011. Virði aflaheimilda sem skráðar eru eign Hlaða ehf. eru ekki meðtaldar í tilgreiningu eigna.
Þann 7. febrúar sendi umsækjandi Fiskistofu eftirfarandi gögn: i) samstæðureikning Frosta ehf. dags. 31. desember 2011, ii) samstæðuárshlutareikning Frosta ehf. dags. 30. júní 2012 og iii) samrunaefnahagsreikning Frosta ehf. og Frosta útgerðar ehf. dags. 30. júní 2012.
Í bréfi Fiskistofu til Frosta útgerðar ehf/Frosta ehf. dags. 23. apríl sl. er rakið að þar sem Frosti útgerð ehf. hafi verið eigandi þess skips sem aflahlutdeildir þær sem um ræðir voru skráðar á, verði að telja með vísun til 6. gr. laga um veiðigjöld, að sérstakt veiðigjald vegna aflamarks á fiskveiðiárinu 2012/2013 hafi verið réttilega lagt á Frosta útgerð ehf. Því teljist Frosti útgerð ehf. réttur aðili til að sækja um lækkun sérstaks veiðigjalds, að nánari skilyrðum fullnægðum. Síðan segir í bréfinu:
Samkvæmt 1. og 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins tekur réttur til lækkunar mið af vaxtaberandi skuldum, vaxtagjöldum og ófyrnanlegum eignum samkvæmt skattframtali greiðanda fyrir rekstrarárið 2011. Þar sem Frosti útgerð ehf. hafði ekki verið stofnað á árinu 2011 er ekki til skattframtal fyrir félagið vegna þess árs.
Fiskistofa telur að samkvæmt reglugerð nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds sé ekki heimilt að byggja umsókn á efnahag annarra félaga en umsækjanda sjálfs, ef undan er skilin heimild í 6. gr. reglugerðarinnar. Þar sem umsækjandi hefur valið að sækja ekki um lækkun skv. því ákvæði kemur ekki til skoðunar hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Hvorki í lögum um veiðigjöld né í reglugerð um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds er að finna heimild til þess að líta á samstæðu fyrirtækja sem einn aðila.
Fiskistofa telur að samruni félaganna Frosta útgerðar ehf. og Frosta ehf. sem samþykktur var nokkrum mánuðum eftir gildistöku laga um veiðigjöld nr. 74/2012 skapi ekki rétt til lækkunar á sérstöku veiðigjaldi, enda er í bráðabirgðaákvæði um lækkun sérstaks veiðigjalds miðað við stöðu gjaldanda í árslok 2011, eða í undantekningartilvikum við gildistöku laganna þann 5. júlí 2012.
Veiðiheimildir færðust til Frosta útgerðar ehf. fyrir gildistöku laga um veiðigjöld og hefði því verið heimilt að taka tillit til þeirra samkvæmt 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Hins vegar eru engar skuldir eða ófyrnanlegar eignir hjá félaginu sem leitt geta til lækkunar.
Með hliðsjón af ofangreindu telur Fiskistofa að hvorki Frosti útgerð ehf. né Frosti ehf. eigi rétt á lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013.
Sjónarmið Frosta ehf. í stjórnsýslukæru
Samkvæmt framangreindu lúta sjónarmið Frosta ehf. að annars vegar sambandi félagsins við Frosta útgerð ehf. og réttaráhrifum samruna félaganna, og hins vegar með hvaða hætti skuli afmarka ófyrnanlegar eignir skv. ákvæði II. til bráðabirgða við lög um veiðigjöld.
Forsendur og niðurstaða
1. Samband félaganna Frosta ehf. og Frosta útgerðar ehf.
Þeir aðiljar sem ráða yfir fiskiskipi, sem fær úthlutað aflaheimildum, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, teljast skyldir til greiðslu veiðigjalda skv. 6. gr., sbr. 13 og 14. gr. laga um veiðigjöld. Þetta endurspeglast í 4. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds, þar sem segir:
Gjaldandi sérstaks veiðigjalds á rétt á lækkun gjaldsins vegna fiskveiðiársins 2012/2013, ef keypt aflahlutdeild, sbr. 1. tl. 2. gr. [reglugerðarinnar], er í handhöfn hans, við upphaf fiskveiðiársins 2012/2013 og á hann hefur verið lögð skylda til greiðslu veiðigjalda af aflamarki samkvæmt henni fyrir það fiskveiðiár.
Í bréfi Fiskistofu dags. 23. apríl sl. er komist að þeirri niðurstöðu að samruni Frosta ehf. og Frosta útgerðar ehf. skapi ekki rétt til lækkunar á sérstöku veiðigjaldi, með vísun þess að ákvæði til bráðabirgða II. við lög um veiðigjöld taki mið af stöðu gjaldanda í árslok 2011, eða í undantekningartilvikum við gildistöku laganna þann 5. júlí 2012. Til þess er vísað í framhaldi, eins og segir í bréfinu, að:
Veiðiheimildir færðust til Frosta útgerðar ehf. fyrir gildistöku laga um veiðigjöld og hefði því verið heimilt að taka tillit til þeirra samkvæmt 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Hins vegar eru engar skuldir eða ófyrnanlegar eignir hjá félaginu sem leitt geta til lækkunar.
Tilvísað ákvæði 4. mgr. ákvæðis II. til bráðabirgða við lög um veiðigjöld hljóðar svo:
Taka skal tillit til vaxtakostnaðar vegna kaupa á aflahlutdeildum á árinu 2012 sem gerð hafa verið fyrir gildistöku laganna með sama hætti og gildir um fyrri ár.
Í lögskýringargögnum með því frumvarpi sem varð að lögum um veiðigjöld eru ekki gefnar leiðbeiningar um skýringu þessa ákvæðis, en tilgangur þess er auðsjálega sá að afsláttur vegna kvótakaupa taki til viðskipta sem átt hafi sér stað allt fram til gildistöku laganna, en þau öðluðust gildi 5. júlí 2012. Vegna þess hvernig ákvæði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II við lögin taka mið af því að upplýsingar til töku ákvörðunar um mögulega lækkun veiðiréttar verði leiddar úr skattframtölum útgerðarfélaga 2012 (skattárið 2011), er ekki fullljóst með hvaða hætti löggjafinn sá fyrir sér að tryggt væri að ákvæðið yrði framkvæmt. Í 7. gr. reglugerðar nr. 838/2012 var umrætt ákvæði fært nánar út, en greinin hljóðar svo:
7. gr.
Kaup aflahlutdeildar á árinu 2012 fram að gildistöku laga um veiðigjöld.
Hafi gjaldandi veiðigjalds keypt aflahlutdeild á tímabilinu 1. janúar til 5. júlí 2012 og vaxtakostnaður hans hefur aukist af þeim sökum, getur hann óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun lækkunar sérstaks veiðigjalds skv. 5. gr. vegna fiskveiðiársins 2012/2013. Í þeim tilvikum skal umsækjandi tilgreina aflahlutdeildina, kaupverð hennar, fjárhæð lána sem tengjast kaupunum og vaxtagjöld vegna þeirra. Umsókn skulu fylgja gögn vegna kaupanna s.s. myndrit af kaupsamningi og viðkomandi lánasamningi.
Við útreikning á lækkun veiðigjalds vegna þeirra aðstæðna sem í 1. mgr. getur skal bæta kaupverði aflaheimilda við ófyrnanlegar eignir og fjárhæð lána, vegna kaupanna, við vaxtaberandi skuldir. Reikna skal 4% vaxtagjöld af viðkomandi lánum miðað við heilt ár og bæta þeim við vaxtagjöld ársins 2011. Þó er heimilt að miða við vexti af lánum vegna kaupa aflahlutdeildar á árinu 2012 ef gjaldandi veiðigjalds sýnir fram á þá með vísun til gagna skv. 1. mgr. Hafi peningalegar eignir verið notaðar til að fjármagna kaupin að hluta skal lækka peningalegar eignir um þá fjárhæð áður en þær eru dregnar frá vaxtaberandi skuldum.
[...]
Með setningu þessarar greinar var leitast við að bregðast við þeim tilvikum þegar félög keyptu aflahlutdeildir á árinu 2012 með því að heimila tilteknar afmarkaðar breytingar á upplýsingum sem leiddar eru úr skattframtali. Í ákvæðinu er ekki brugðist við aðstæðu eins og þeirri sem hér er til skoðunar, að tvö félög eru sameinuð á tímabilinu 1. janúar til 5. júlí 2012. Fram kemur í gögnum málsins að samruni Frosta ehf. og Frosta útgerðar miðar við uppgjörsdag sem er sex mánuðum fyrir undirritun samrunaáætlunar – sem verður til þess að sameiningin gildir frá 1. júlí 2012.
Samkvæmt gögnum málsins var fiskiskipið Frosti ÞH 229 keypt af Frosta útgerð ehf. í apríl 2012 án nokkurra aflaheimilda. Félagið var stofnað til að halda utan um kaupin að því greint er í umsókninni. Frosti ehf. átti allt hlutafé í Frosta útgerð ehf. Samhliða þessum kaupum seldi Frosti ehf. fiskiskip og það án aflaheimilda. Þær aflaheimildir sem áður voru bundnar því skipi sem selt var, voru fluttar á Frosta ÞH 229. Samrunaáætlun Frosta ehf. og Frosta útgerðar ehf. var samþykkt af stjórnum félaganna 19. desember 2012, en félögin voru sameinuð undir nafni og kennitölu Frosta ehf. (samruni með yfirtöku) á grundvelli XIV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samruninn miðast við 1. júlí 2012.
Með vísan til þessa verður að fallast á sjónarmið Frosta ehf. um að félagið njóti mögulegs réttar til lækkunar sérstaks veiðigjalds samkvæmt reglugerð nr. 838/2012, en við ákvörðun þess réttar verður að byggja á skattframtali Frosta ehf., eftir því sem við á, þannig að félagið njóti sömu stöðu og jafnsettir aðilar.
2. Afmörkun ófyrnanlegra eigna – yfirverð við kaup á dótturfélögum.
Í b. lið 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög um veiðigjöld segir beinum orðum að lækkun sérstaks veiðigjalds, samkvæmt ákvæðinu, skuli „aldrei vera meiri en sem svarar 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali fyrir sama ár.“ Með þessu er bersýnilega átt við reit 5010 í skattframtali, þar sem óefnislegar eignir koma fyrir, sbr. 2. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds.
Tilgangur viðmiðunar um 4% af ófyrnanlegum eignum er sá að binda lækkunarréttinn við skuldsetningu sem tengist með skýrum hætti kaupum á aflaheimildum hjá hlutaðeigandi gjaldanda. Í kærunni er lögð áhersla á að samstæðureikningur Sigurbjarnar og dótturfélaga sé byggður upp með sama hætti og ef félögin hefðu verið sameinuð. Eignir og skuldir samstæðunnar séu þær sömu og færðar við sama verði, þ.m.t. aflahlutdeildir. Telja verði óeðlilegt og andstætt sjónarmiðum þeim sem að baki lögum um veiðigjald búa, ef myndun samstæðu hefði ekki sömu áhrif og sameining gagnvart þeirri skattlagningu sem í veiðigjaldi og sérstöku veiðigjaldi felst. Í því sambandi er sérstaklega bent á þau ummæli í framanröktu áliti atvinnuveganefndar, að „áhrif þessa ákvæðis eru þau að hinn heimilaði frádráttur takmarkast við þær skuldir sem til staðar kunna að vera vegna kaupa á kvóta, beint eða að félag með kvóta hefur verið keypt á yfirverði og síðan sameinað kaupandanum“. Í tilefni af þessu er ástæða til að taka til athugunar þær reglur sem gilda um samsköttun félaga sem mynda svonefnda samstæðu.
Almennt er einkahlutafélag sjálfstæður lögaðili við álagningu skatta. Skattlagning skal fara eftir tekjum og gjöldum hvers félags og er tap þannig ekki yfirfæranlegt á milli félaga innan samstæðu nema sótt sé um samsköttun skv. 55. gr. laga um tekjuskatt. Heimild til samsköttunar er undantekning frá þessum reglum. Við samsköttun er tekjuskattur af sameiginlegum tekjuskattstofni allra félaganna sem taka þátt í samsköttuninni lagður á móðurfélagið en öll félögin bera sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslunum, sbr. 55. gr. laga um tekjuskatt. Tilgangur samsköttunar er því sá að atvinnurekstur sé ein skattaleg heild þó að ábyrgð, skyldum og fjármögnun sé dreift. Telst þetta vera almenn hagræðing fyrir félögin þar sem heildartekjuskattur allra félaganna verður ekki hærri en hann hefði orðið ef öll starfsemi félaganna hefði verið rekin í einu félagi. Þetta gerir félögunum líka kleift að nýta tap eins eða fleiri félaga innan samstæðunnar til frádráttar á rekstrartekjum annars félags innan samstæðunnar. Félag innan samstæðunnar sem kemur út í tapi þarf því ekki að bíða fram á næsta ár til þess að nýta tapið (Stefán Már Stefánsson: Samstæður hlutafélaga. Rvk. 2008, bls. 223-225).
Í ákvæði til bráðabirgða II. við lög um veiðigjöld er ekki mælt fyrir um heimild til að líta til samstæðureikninga félaga við afmörkun lækkunarréttar hvers gjaldanda veiðigjalds, en til þess hefði þurft skýrt ákvæði í lög um veiðigjöld enda er meginreglan sú að hvert einkahlutafélag, þótt innan samstæðu sé, beri ábyrgð og skyldur sérstaklega nema frá því séu skýrar undantekningar með lögum. Af þessum sökum verður að hafna þessum sjónarmiðum kæranda.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi. Fiskistofa skal taka umsókn Frosta ehf. til endurskoðunar á grundvelli þeirra sjónarmiða sem sett eru fram í þessum úrskurði.
Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Jóhann Guðmundsson.
Arnór Snæbjörnsson.