Skógaá ehf., kærir ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2013.
Stjórnsýslukæra
Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 27. júní 2013, sem barst ráðuneytinu 5. júlí s.l., frá Skógaá ehf., Skeifunni 5, 108 Reykjavík, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2013.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kröfur kæranda
Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði fyrir almanaksárið 2013.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með auglýsingu, ódags. sem birt var í Bændablaðinu 7. febrúar 2013 og einnig í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 2. febrúar 2013, auglýsti Fiskræktarsjóður eftir umsóknum um úthlutun styrkja úr sjóðnum, sbr. 8. gr. laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Umsóknarfrestur var til og með 1. mars 2013.
Kærandi sótti um úthlutun styrks úr sjóðnum með umsókn, dags. 27. febrúar 2013, en í umsókninni var lýsing á því verkefni sem umsóknin var byggð á.
Með bréfi, dags. 26. apríl 2013, tilkynnti stjórn Fiskræktarsjóðs kæranda þá ákvörðun stjórnarinnar að hafna umsókn Skógaár ehf. Í ákvörðuninni segir m.a.: "Með umsókn yðar til Fiskræktarsjóðs dags. 27. febrúar 2013 var óskað eftir styrk úr sjóðnum vegna verkefnis: Skógaá. Stjórn Fiskræktarsjóðs telur þetta verkefni ekki uppfylla gæðakröfur sjóðsins og hafnar því þessari styrkbeiðni."
Þá kom fram í ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að kæranda barst framangreind tilkynning, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsástæður með stjórnsýslukæru o.fl.
Með stjórnsýslukæru, dags. 27. júní 2013, sem barst ráðuneytinu 5. júlí s.l., kærði Skógaá ehf. framangreinda ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að umsókn Skógaár ehf. hafi verið hafnað þar sem hún samrýmdist ekki gæðakröfum sjóðsins en hvergi væri getið um hver sé gæðastefna sjóðsins. Eldgosið í Eyjafjallajökli hafi eyðilagt Skógaá sem í mörg ár þar á undan hafði verið blómleg laxveiðiá og bleikjuveiðiá. Meðalveiði í nokkur ár hafi verið um 1.000 laxar en ekkert hafi veiðst í ánni síðustu 4 árin. Enduruppbygging árinnar hafi hafist í fyrra og hafi tekist góð samvinna við bændur um enduruppbyggingu árinnar. Ós árinnar hafi verið grafinn út og lagfærður og hreinsað hafi verið úr ánni mikið af ösku. Sérfræðingar telji að með markvissu ræktunarstarfi og lagfæringu á ánni megi koma upp ágætri veiði í ánni að nýju. Í fyrra hafi verið sleppt 30.000 seiðum og sama magni verði sleppt í ána í júlí 2013.
Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: hin kærða ákvörðun, dags. 26. apríl 2013, umsókn kæranda, dags. 27. febrúar 2013 o.fl.
Með bréfi, dags. 14. ágúst 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem stjórn Fiskræktarsjóðs kynni að hafa um málið.
Með tölvubréfi frá 1. nóvember 2013 barst ráðuneytinu umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið. Þar er m.a. lýst styrkumsókn kæranda, þ.e. heiti verkefnisins, tegund þess, tilgangi og markmiðum, fjallað um lýsingu á verkefninu, framkvæmdaáætlun, skipulag o.fl.
Einnig kemur þar fram að tiltekin atriði hafi verið lögð til grundvallar niðurstöðu stjórnar sjóðsins, m.a. bendi stjórn Fiskræktarsjóðs á að misræmi sé á milli kostnaðar við verkefnið, kr. 12.000.000 og kostnaðaráætlunar, kr. 14.700.000. Stjórn Fiskræktarsjóðs hafi ákveðið að styrkja ekki kaup á seiðum til sleppinga í ám fyrir árið 2013. Þá hafi stjórn sjóðsins ákveðið að styrkja ekki almennt framkvæmdir til þess að endurheimta veiðistaði árið 2013. Samkvæmt framkvæmdaáætlun verkefnisins miði verkefnið eingöngu að sleppingum seiða og mokstri úr ánni, m.a. ósnum sem verði að gera árlega. Ekki sé gerð grein fyrir því í umsókninni hvernig skipting kostnaðar sé milli seiðakaupa-/sleppinga og uppmoksturs úr ánni. Að síðustu telji stjórnin að áður en ráðist sé í þær verklegu framkvæmdir sem lýst sé í umsókninni verði að liggja fyrir álit þar til bærra vísindamanna um væntanlegan árangur og gagnsemi þeirra en ekkert komi fram um menntun eða reynslu tveggja ráðgjafa sem séu tilnefndir í umsókninni. Samkvæmt framanrituðu telji stjórn Fiskræktarsjóðs að styrkumsóknin hafi ekki uppfyllt gæðakröfur sjóðsins.
Einnig bárust ráðuneytinu með tölvubréfi frá 23. desember 2013 tiltekin gögn með umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs.
Með bréfi, dags. 26. nóvember 2013, veitti ráðuneytið kæranda kost á að gera athugasemdir við framangreinda umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 1. nóvember 2013.
Með bréfi, dags. 4. desember 2013, bárust ráðuneytinu tilteknar athugasemdir við umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs frá Skógaá ehf. en þar segir m.a. að kærandi telji að umsókn félagsins hafi uppfyllt gæðakröfur Fiskræktarsjóðs og sé mótmælt afstöðu stjórnar sjóðsins um það atriði. Þá kemur þar fram að hægt hefði verið að leggja fram upplýsingar um skiptingu kostnaðar og að tveir ráðgjafar Skógaár ehf. séu þaulreyndir menn í seiðasleppingum og uppbyggingu veiðiáa.
Rökstuðningur
I. Um Fiskræktarsjóð gilda ákvæði laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Þar segir m.a. í 1. gr. að Fiskræktarsjóður sé sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Í 2. gr. kemur fram að Fiskræktarsjóður lýtur fimm manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í 3. gr. kemur fram að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi yfirumsjón með starfsemi sjóðsins og að verkefni stjórnar séu m.a. að taka ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld. Í 8. gr. er fjallað um úthlutanir úr Fiskræktarsjóði, m.a. kemur þar fram að stjórn Fiskræktarsjóðs skuli gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem skulu gilda fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Um málsmeðferð við veitingu lána og styrkja úr sjóðnum gilda einnig ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Fiskræktarsjóður hefur tiltekið ráðstöfunarfé til úthlutunar fyrir almanaksárið 2013 samkvæmt lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum, og ljóst er að ekki er unnt að veita styrki vegna allra umsókna sem hafa borist stjórn sjóðsins. Það er samkvæmt því mat ráðuneytisins að stjórn sjóðsins hafi ákveðið svigrúm til að velja þau verkefni sem ákveðið er að úthluta styrkjum til fyrir almanaksárið 2013.
Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að hlutverk ráðuneytisins við endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, í máli þessu takmarkist við úrlausn um hvort gætt hafi verið laga og stjórnvaldsreglna við ákvörðunina, þ.m.t. hvort ákvörðunin sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.
Ráðuneytið hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, í máli þessu og málsmeðferð stjórnar Fiskræktarsjóðs við ákvörðunina. Það er mat ráðuneytisins að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi við meðferð málsins og ákvörðunina farið eftir ákvæðum laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og öðrum reglum stjórnsýsluréttarins. Einnig er það mat ráðuneytisins að hin kærða ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, í máli þessu sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, í máli þessu.
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.
Úrskurður
Ráðuneytið staðfestir ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, um að hafna umsókn kæranda, Skógaár ehf., um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði fyrir almanaksárið 2013.
Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Ingimar Jóhannsson.
Sigríður Norðmann.