Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Sigurður Ólafsson ehf., kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, um að hafna umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 á Höfn í Hornafirði til bátsins Kalla SF-144, (7514).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá Bókhaldsstofunni ehf. f.h. Sigurðar Ólafssonar ehf., dags. 14. febrúar 2014, sem barst ráðuneytinu 18. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, um að hafna umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 á Höfn í Hornafirði til bátsins Kalla SF-144, skipaskrárnúmer 7514. Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins Kalla SF-144 (7514) og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins fyrir fiskveiðiárið 2013/2014.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 8. nóvember 2013, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 9. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Höfn í Hornafirði en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 25. nóvember 2013. Atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytið hafði þá úthlutað 140 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem komu öll í hlut byggðarlagsins Hafnar í Hornafirði. Úthlutunin var tilkynnt Sveitarfélaginu Hornafirði með bréfi, dags. 16. október 2013.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Kalla SF-144 (7514) með umsókn til Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, sem barst Fiskistofu sama dag.

Hinn 31. janúar 2014 tilkynnti Fiskistofa kæranda að hafnað hefði verið umsókn hans um úthlutun byggðakvóta til bátsins Kalla SF-144 (7514) en ákvörðunin var byggð á þeim forsendum að umsóknin hefði borist að liðnum umsóknarfresti. Í ákvörðun Fiskistofu segir m.a. að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, skuli Fiskistofa auglýsa eftir umsóknum útgerða og skuli umsóknarfrestur vera tvær vikur. Með auglýsingu, dags. 8. nóvember 2013, hafi Fiskistofa auglýst á heimasíðu sinni og sama dag í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu eftir umsóknum vegna úthlutunar byggðakvóta til Hafnar í Hornafirði með umsóknar-fresti til og með 25. nóvember 2013. Umsókn kæranda hafi borist að liðnum umsóknarfresti. Með vísan til framanritaðs væri hafnað umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Kalla SF-144 (7514).

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um höfnun umsóknar um úthlutun.

 

Málsrök með stjórnsýslukæru o.fl.

Með stjórnsýslukæru, dags. 14. febrúar 2014, sem barst ráðuneytinu 18. sama mánaðar, kærði Bókhaldsstofan ehf. f.h. Sigurðar Ólafssonar ehf., eiganda og útgerðaraðila bátsins Kalla SF-144 (7514), framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.


Í stjórnsýslukærunni segir að mistök hafi orðið við sendingu umsóknar kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Kalla SF-144 (7514) en umsóknin hafi verið send rafræn frá félaginu og því ekki borist Fiskistofu innan þeirra tímamarka sem Fiskistofa hafði auglýst. Með vísan til 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. 8. mgr. 1. gr. laga nr. 21/2007, sé óskað eftir að ráðuneytið taki ákvörðun Fiskistofu til endurskoðunar.


Með bréfum, dags. 19. febrúar og 27. mars 2014, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.


Í umsögn Fiskistofu, dags. 1. apríl 2014, sem barst ráðuneytinu 2. sama mánaðar, segir m.a. að eins og komi fram í ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, hafi umsókn kæranda borist of seint, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Með auglýsingu, dags. 8. nóvember 2013, hafi Fiskistofa auglýst eftir umsóknum vegna úthlutunar byggðakvóta til Hafnar í Hornafirði með umsóknarfresti til og með 25. nóvember 2013. Umsókn kæranda hafi borist 31. janúar 2014 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að umsóknarfresti lauk. Fiskistofa telji því að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.


Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: staðfest afrit af hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins Kalla SF-144 (7514), dags. 31. janúar 2014 o.fl.

 

Rökstuðningur

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Í 8. mgr. greinarinnar er Fiskistofu falið að annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut fiskiskipa.


Um framangreind atriði hefur ráðherra sett reglugerð nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram eins og í áðurnefndu lagaákvæði að Fiskistofa skuli annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut einstakra byggðarlaga til fiskiskipa og að Fiskistofa skuli auglýsa eftir umsóknum útgerða. Einnig kemur þar fram að umsóknarfrestur skuli vera tvær vikur. Þá gilda um úthlutun byggðakvóta á Höfn í Hornafirði fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 ákvæði auglýsingar nr. 990/2013, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.


Fiskistofa auglýsti með auglýsingu, dags. 8. nóvember 2013, eftir umsóknum útgerða um úthlutun byggðakvóta á Höfn í Hornafirði og var sú auglýsing birt á heimasíðu Fiskistofu þann sama dag og einnig 9. nóvember 2013 í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu en þar kom fram að umsóknarfrestur væri til og með 25. nóvember 2013.


Kærandi sótti um byggðakvóta til Fiskistofu með umsókn, dags. 31. janúar 2014, sem barst Fiskistofu sama dag en samkvæmt framanrituðu barst umsóknin eftir að lokið var auglýstum umsóknarfresti fyrir úthlutun byggðakvóta Hafnar í Hornafirði fyrir fiskveiðiárið 2013/2014.


Þá er það mat ráðuneytisins að þær málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.


Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda, Sigurðar Ólafssonar ehf. um úthlutun af byggðakvóta Hafnar í Hornafirði fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Kalla SF-144 (7514) en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. janúar 2014, um að hafna umsókn kæranda, Sigurðar Ólafssonar ehf., um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Kalla SF-144, skipaskrárnúmer 7514.


 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Jóhann Guðmundsson.

Sigríður Norðmann.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta