Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ísfélag Vestmannaeyja hf. kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. desember 2014, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Þórshafnar í Langanesbyggð fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 til skipsins Suðureyjar ÞH-9, (2020).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Eyþórs Harðarsonar f.h. Ísfélags Vestmannaeyja hf., dags. 8. janúar 2015, sem barst ráðuneytinu með tölvupósti sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. desember 2014, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Þórshafnar í Langanesbyggð fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 til skipsins Suðureyjar ÞH-9, skipaskrárnúmer 2020.

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. og er kærufrestur tvær vikur samkvæmt þeirri grein og 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015.

Kröfur kæranda

Kærandi óskar eftir að endurskoðuð verði hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. desember 2014, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Þórshafnar í Langanesbyggð til skipsins Suðureyjar ÞH-9 (2020) og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta af byggðakvóta Þórshafnar í Langanesbyggð fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 til skipsins Suðureyjar ÞH-9 (2020), í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukæru.

Málsatvik

Með auglýsingu, dags. 12. desember 2014, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 í Langanesbyggð en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og 5. gr. reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/2015. Framangreind auglýsing var birt á vefsíðu Fiskistofu og í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Þá var tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 29. desember 2014.

Með umsókn til Fiskistofu, dags. 12. desember 2014, sótti kærandi um byggðakvóta fyrir skipið Suðurey ÞH-9 (2020). Þann 30. desember 2014 tilkynnti Fiskistofa kæranda ákvörðun sína um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Þórshafnar í Langanesbyggð til framangreinds skips þar sem skipið hafði ekki landað neinum afla innan byggðarlagsins á þessu tímabili sem féll að skilyrðum 6. gr. reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/2015.

Með tölvupósti, dags. 8. janúar 2015, kærði kærandi framangreinda ákvörðun Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í stjórnsýslukæru segir að Suðurey ÞH-9 (2020) hafi ekki fengið úthlutun þar sem skipið hafi ekki verið skráð í byggðarlaginu á síðasta fiskveiðiári. Kærandi hafi selt Þorstein ÞH-360 (1903) sem hafi landað 377 tonnum af bolfiski til vinnslu á Þórshöfn í Langanesbyggð og í staðinn hafi Suðurey ÞH-9 (2020) verið skráð í byggðarlaginu. Suðurey ÞH-9 (2020) hafi verið skráð í Vestmannaeyjum en landaði 428 tonnum til vinnslu í Þórshöfn Langanesbyggð á síðasta fiskveiðiári. Kærandi telur að taka hefði átt tillit til breytinga á skipastól kæranda og úthluta Suðurey ÞH-9 (2020) þann byggðakvóta sem Þorsteinn ÞH-360 (1903) hafði áunnið sér samkvæmt úthlutunarreglum, enda bæði skipin í eigu kæranda. Önnur niðurstaða en kærandi fari fram á leiði til þess að útgerðir geti ekki selt fiskiskip eða breytt um útgerðarmynstur innan fiskveiðiársins án þess að tapa réttindum.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2015, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um efni stjórnsýslukæru Ísfélagsins hf., sem og staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun, auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið. Í umsögn Fiskistofu, sem barst með bréfum dags. 30. janúar og 2. febrúar 2015 segir að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 652/2014 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015, geti eigandi eða leigutaki fiskiskips sem hafi endurnýjað fiskiskip sitt eftir að lokið er því viðmiðunartímabili átt rétt til úthlutunar skv. 5. mgr. 4. gr. og sá réttur verið fluttur af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið, og skal við mat á hvort uppfyllt séu skilyrði samkvæmt þessari grein einnig heimilt að miða við landaðan afla beggja skipana í viðkomandi byggðarlagi. Í umsókn kæranda frá 12. desember 2014 hafi ekki verið farið fram á það af hálfu kæranda að tekið yrði tillit til landaðs afla Þorsteins ÞH-360 (1903) í Þórshöfn Langanesbyggð. Fiskistofu beri ekki að hafa yfirsýn yfir hugsanleg réttindi eigenda fiskiskipa og verði hver aðili að gæta að hagsmunum og réttindum eftir efni og ástæðum og upplýsa stjórnvald þar um.

Með bréfi, dags 5. febrúar 2015, var kæranda gefinn kostur á að koma með athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti dags. 7. febrúar 2015. Þar segir að hvorki hafi verið gert ráð fyrir því að sendar væru upplýsingar um breyttan skipakost í umsóknarferlinu né á stöðluðu umsóknareyðublaði. Fiskistofu hafi verið fullkunnugt um að fiskiskip kæranda hafi landað umtalsverðum afla á Þórshöfn í Langanesbyggð undanfarin ár og séu burðarás í atvinnulífinu þar. Kærandi telji að allar upplýsingar um félagið og skip þess hafi legið fyrir við ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta á Þórshöfn og fellst ekki á að tilgreina hefði þurft allar upplýsingar, sér í lagi þar sem það sé lögbundið hlutverk Fiskistofu að safna þessum upplýsingum og hafa tiltækar.

Með bréfi, dags. 10 febrúar 2015, óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum frá Fiskistofu um umsóknarferlið og hvernig því væri almennt háttað þegar aðilar væru með breyttan skipakost eða óskuðu eftir flutningi á réttindum milli skipa. Svar Fiskistofu barst með bréfi, dags. 12. febrúar 2015. Í bréfi Fiskistofu kemur fram að stofnunin fallist á það með kæranda að ekki sé sérstaklega gert ráð fyrir að umsækjandi sendi upplýsingar um breytingar á skipakosti. Hins vegar komi skýrt fram á eyðublaðinu fyrir hvaða skip umsóknin gildir. Í umsóknareyðublaðinu sé vísað til reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015 varðandi úthlutunarreglur og upplýst um hvar reglugerðina sé að finna. Fiskistofa tekur fram að þegar umsókn liggi fyrir kanni Fiskistofa hvort lagaskilyrði fyrir úthlutun séu fyrir hendi varðandi það fiskiskip sem umsókn lýtur að og tilkynnir útreikninga þar að lútandi. Þá bendir Fiskistofa á að hvergi sé að finna í lögum né reglugerðum að á Fiskistofu hvíli jákvæð skylda að kanna öll tiltekin réttindi umsækjenda eða vekja athygli umsækjenda á hugsanlegum réttindum umfram það að vekja athygli á úthlutunarreglum eins og gert var varðandi þá umsókn sem kæra lýtur að. Það leiði ekki af tilkynningaskyldu um breytta útgerðaraðild í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða að Fiskistofa hafi skyldu til að gæta allra hugsanlegra réttinda sem viðkomandi skip hafi til að veiða úr nytjastofnum sjávar og á getur reynt við stjórnsýslu Fiskistofu.

Fiskistofa vekur sérstaka athygli á 3. og 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar þar sem segir að réttindi til byggðakvóta fylgi fiskiskipi nema eigandi óski eftir því í umsókn að tillit sé tekið til endurnýjunar skips við úthlutun. Að mati Fiskistofu eigi eigendur fiskiskipa að halda réttindum sínum til haga.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2015, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svar Fiskistofu. Engar athugasemdir bárust og var erindið ítrekað með tölvupósti, dags. 4. mars 2015. Þar sem engar athugasemdir við svar Fiskistofu bárust frá kæranda er málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi telur að Fiskistofa hefði átt að úthluta Suðurey ÞH-9 (2020) þeim byggðakvóta sem Þorsteinn ÞH-360 (1903) hafði áunnið sér í Þórshöfn Langanesbyggð. Kærandi hafi selt Þorstein ÞH-360 (1903) sem hafi landað 377 tonnum af bolfiski til vinnslu í Þórshöfn Langanesbyggð og í stað hans skráð Suðurey ÞH-9 (2020) í byggðarlagið.

Kærandi telur að Fiskistofa eigi að kanna að eigin frumkvæði hvort umsækjendur séu með breyttan þar sem það sé lögformlegt hlutverk stofnunarinnar að halda utan um slíkar upplýsingar. varðandi. Hvorki hafi verið gert ráð fyrir því í umsóknarferli né á stöðluðu umsóknareyðublaði að upplýsingar um breyttan skipakost kæmu fram. Þar sem Fiskistofa búi yfir þessum upplýsingum og hafi verið fullkunnugt um að skip kæranda hafi landað talsverðum afla á Þórshöfn á undanförnum árum telur kærandi að Fiskistofa hefði átt að úthluta Suðurey ÞH-9 (2020) þeim byggðakvóta sem Þorsteinn ÞH-9 (7040) hafði áunnið sér í Þórshöfn Langanesbyggð.

Að mati kæranda myndi önnur niðurstaða en farið er fram á leiða til þess að útgerðir geti ekki selt fiskiskip eða breytt um útgerðarmynstur innan fiskveiðiársins án þess að tapa réttindum.

Málsástæður og lagarök Fiskistofu

Fiskistofa segir að ekki hafi verið farið fram á það af hálfu kæranda að tillit yrði tekið til landaðs afla Þorsteins ÞH (1903) á Þórshöfn í Langanesbyggð á viðmiðunartímanum í umsókn Ísfélagsins hf. frá 12. desember 2014. Fiskistofa segir að hver verði að gæta sinna hagsmuna og réttinda og upplýsa stjórnvöld þar um, það sé ekki Fiskistofu að hafa yfirsýn yfir hugsanleg réttindi eigenda fiskiskipa.

Fiskistofa vísar til 3. mgr. 6. gr. reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðárinu 2014/2015 þar sem segir að eigandi eða leigutaki fiskiskips sem hefur endurnýjað fiskiskip sitt eftir að lokið er því viðmiðunartímabili átt rétt til úthlutunar skv. 5. mgr. 4. gr. og sá réttur verið fluttur af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið, og skal við mat á hvort uppfyllt eru skilyrði samkvæmt þessari grein einnig heimilt að miða við landaðan afla beggja skipanna í viðkomandi byggðarlagi.

Að lokum segir Fiskistofa að hver verði að gæta sinna hagsmuna og réttinda og upplýsa stjórnvöld þar um, það sé ekki hlutverk Fiskistofu að hafa yfirsýn yfir hugsanleg réttindi eigenda fiskiskipa.

Rökstuðningur

I. Kærufrestur

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og er kærufrestur tvær vikur samkvæmt þeirri grein og 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015. Kæran barst ráðuneytinu með tölvupósti þann 8. janúar 2015. Kæra telst því komin innan tilskilins frests.

II. Úthlutun byggðakvóta til Suðureyjar ÞH-9 (2020)

Í stjórnsýslukæru er á því byggt að Fiskistofa hefði átt að úthluta Suðurey ÞH-9 (2020) þeim byggðakvóta sem Þorsteinn ÞH-360 (7040) hafði áunnið sér án sérstakrar beiðni þar um þar sem kærandi gerði út bæði fiskiskipin. Suðurey ÞH-9 (2020) hafi verið skráð á Þórshöfn í Langanesbyggð þegar Þorsteinn ÞH-360 (7040) hafi verið seldur.

Um úthlutun byggðakvóta gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og reglugerð nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2014 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2014. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015 kemur fram að réttindi til úthlutunar fylgja skipi, nema ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr. hefur endurnýjað fiskiskip sitt á því viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. og flutt aflahlutdeildir af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið getur hann í umsókn sinni óskað eftir að við úthlutun aflamarks verði tekið tillit til landaðs afla eldra skips umsækjenda í sömu hlutföllum og nemur þeim aflahlutdeildum sem hafa verið fluttar milli skipa. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að ef fiskiskip er endurnýjað eftir að skipting aflamarks hefur farið fram samkvæmt 1. mgr. en áður en uppfyllt hafi verið skilyrði samkvæmt 6. gr. er heimilt að óska eftir að flytja rétt til úthlutunar aflamarks af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið, enda hafi verið gerður fyrirvari þess efnis í kaupsamningi eða afsali, hafi skip verið selt á því tímamarki.

Af framanrituðu má sjá að skýrt er tekið fram í reglugerð nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015 að réttur til byggðakvóta er bundin við fiskiskip og að heimilt sé að flytja aflamarkið milli fiskiskipa að ákveðnum skilyrðum uppfylltum óski eigandi fiskiskips eftir því.

Þá telur ráðuneytið það ekki skipta máli fyrir úrlausn þessa máls að ekki hafi verið sérstaklega gert ráð fyrir því í umsóknarferli eða stöðluðu umsóknareyðublaði að aðilar gefi upplýsingar um breyttan skipakost. Í auglýsingu um umsóknir um byggðakvóta fyrir Þórshöfn í Langanesbyggð var vísað til heimasíðu Fiskistofu. Á heimasíðu stofnunarinnar kom fram að Fiskistofa auglýsi eftir umsóknum fyrir tiltekin byggðarlög samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipta á fiskveiðiárinu 2014/2015 og var einnig tengill á reglugerðina. Þá voru leiðbeiningar þess efnis að umsækjendur skyldu vista umsóknareyðublað á eigin tölvu og senda með sem viðhengi á netfang Fiskistofu. Ráðuneytið telur að kærandi sem er útgerðarfyrirtæki hefði átt að kynna sér þær reglur sem gilda um úthlutun byggðakvóta og birtar eru í reglugerð nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárið 2014/2015. Fram kemur í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að eigandi fiskiskips geti óskað eftir því í umsókn að tillit sé tekið til landaðs afla eldra skips. Þó ekki hafi verið sérstaklega gert ráð fyrir slíkum upplýsingum á umsóknareyðublaðinu hefði kærandi getað sent slíkar upplýsingar með umsóknareyðublaðinu og öðrum umbeðnum gögnum. Ekki er hægt að gera þá kröfu að Fiskistofa gæti að því hvort umsækjandi eigi ríkari rétt en hann sækir um og ráðuneytið tekur undir með stofnuninni að hver verði að gæta sinna réttinda.

Með vísan framanritaðs staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu dags. 30. desember 2014, um að hafna umsókn um úthlutun af byggðakvóta Þórshafnar í Langanesbyggð til skipsins Suðureyjar ÞH-9 (2020).

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. desember 2014, um að hafna umsókn um úthlutun af byggðakvóta Þórshafnar í Langanesbyggð til skipsins Suðureyjar ÞH-9 (2020) fyrir fiskveiðiárið 2014/2015.

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Jóhann Guðmundsson.

Erna Jónsdóttir.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta