Stjórnsýslukæra þar sem kærður er óhóflegur dráttur á málsmeðferðar Matvælastofnunar vegna útgáfu starfsleyfis til vinnslu hvalaafurða.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [x], fyrir hönd [Y hf.], dags. 1. september 2021, þar sem [Y hf.] kærir óhóflegan drátt á málsmeðferð Matvælastofnunar vegna útgáfu starfsleyfis til vinnslu hvalaafurða.
Kæruheimild er í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Málsatvik og málsmeðferð
Í stjórnsýslukæru segir að kærandi hafi sóst eftir leyfi til vinnslu hvalaafurða í þrjú ár og eru samskipti kæranda og Matvælastofnunar á umræddu tímabili rakin ítarlega í stjórnsýslukæru. Með bréfi dags. 6. september sl. óskaði ráðuneytið þess að Matvælastofnun veitti upplýsingar um stöðu málsins og hvenær mætti vænta þess að málinu myndi ljúka hjá stofnuninni. Með bréfi dags. 20. september 2021 svaraði Matvælastofnun bréfi ráðuneytisins. Í bréfi stofnunarinnar segir að nýjasta tölvupóst Matvælastofnunar til kæranda hefði vantað í stjórnsýslukæru. Um sé að ræða tölvupóst sem sendur var kæranda fimm dögum áður en stjórnsýslukæra barst Matvælastofnun eða þann 1. september 2021. Í umræddum tölvupósti var áréttað hvaða gögn hefði vantað til að unnt hefði verið að gefa út hið umbeðna starfsleyfi. Í bréfinu var vísað til fjarfundar starfsmanna Matvælastofnunar með fulltrúum kæranda í mars 2021, þar sem fulltrúar beggja aðila hafi verið sammála um að starfsleyfi yrði gefið út þegar umrædd gögn lægju fyrir. Kæranda var veitt tækifæri til að bregðast við gögnum frá Matvælastofnun með bréfi dags. 23. september 2021. Umsögn barst frá kæranda með tölvupósti dags. 30. september 2021 þar sem meðal annars fyrri kröfur og málatilbúnaður var ítrekaður.
Með tölvupósti þann 21. október 2021 upplýsti Matvælastofnun ráðuneytið um að stofnunin hefði veitt kæranda ótímabundið leyfi til vinnslu hvalaafurða þann 8. október sl. Þar sem hið umdeilda leyfi hefur nú verðið gefið út verður ekki komist hjá því að vísa máli þessu frá.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru [Y hf.], dags. 1. september 2021, er vísað frá.