Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu kærð vegna úthlutunar byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [Y] f.h. [X ehf.], dags. 7. mars 2019, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærðar eru til ráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. febrúar 2019, um úthlutun byggðakvóta á Blönduósi í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 til bátanna [A] og [B].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felldar verði úr gildi hinar kærðu ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. febrúar 2019, um úthlutun byggðakvóta á Blönduósi í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 til bátanna [A] og [B]. Eigandi og útgerðaraðili bátanna er [X ehf.], sem er skráð með heimilisfang á Blönduósi í Blönduósbæ en póstfang […] Reykjavík.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 28. janúar 2019, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 29. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 á Blönduósi í Blönduósbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, 5. gr. reglugerðar nr. 685/2018, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2018/2019 og auglýsingu (I) nr. 31/2019, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 14. febrúar 2019. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 69 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Blönduósbæjar á grundvelli reglugerðar nr. 684/2018, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2018/2019, sem öll komu í hlut byggðarlagsins Blönduóss. Úthlutunin var tilkynnt Blönduósbæ með bréfum, dags. 22. nóvember og 11. desember 2018.

Kærandi sótti um úthlutun byggðakvóta fyrir bátinn [C] með umsókn til Fiskistofu, dags. 2. febrúar 2019.

Einnig sótti [Z ehf.] um úthlutun byggðakvóta fyrir bátana [A] og [B], með umsóknum, dags. 7. febrúar 2019.

Hinn 28. febrúar 2019 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Blönduósi í Blönduósbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að 5.455 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins [F]. Einnig var [Z ehf.] tilkynnt að 5.455 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins [A] og 5.455 þorskígildiskíló í hlut bátsins [B]). Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, reglugerð nr. 685/2018 og auglýsingu (I) nr. 31/2019.

Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindum tilkynningum um úthlutun.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 7. mars 2019, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [Y] f.h. [X ehf.] til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. febrúar 2019, um úthlutun byggðakvóta á Blönduósi í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 til bátanna [A] og [B].

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi telji samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra að [Z ehf.], eigandi og útgerðaraðili bátanna [A] og [B], eigi ekki rétt á úthlutun af byggðakvóta Blönduóss miðað við þær sérreglur sem gildi á Blönduósi fyrir fiskveiðiárið 2018/2019. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá ríkisskattstjóra að [Z ehf.] ehf. sé skráð með lögheimili að […] Reykjavík.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2019, óskaði ráðuneytið eftir afstöðu Fiskistofu til stjórnsýslukærunnar.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 12. apríl 2019, segir m.a. að Fiskistofa telji að staðfesta beri hinar kærðu ákvarðanir. Bátarnir sem stjórnsýslukæran fjalli um séu í eigu [L ehf], sem einnig geri þá út en heimahöfn þeirra sé Blönduós. Kærandi virðist byggja kæruna á því að útgerðin hafi ekki verið skráð í Blönduósbæ 11. júlí 2018, sbr. c-lið 1. gr. auglýsingar (I) nr. 31/2019 frá 23. janúar 2019, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, þar sem komi fram sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta Blönduósbæjar. [Z ehf.] hafi verið skráð að […] á Blönduósi 1. júlí 2018 en að […] í Reykjavík 11. júlí 2018. Frekari skoðun hafi leitt í ljós að flutningurinn hafi verið að beiðni þinglýsts eiganda […] á Blönduósi. Í beiðni um flutning heimilisfangs félagsins komi fram að umræddur eigandi hafi keypt húsið tveimur árum áður og félagið hafi verið skráð í húsinu allan þann tíma. Hann viti ekki hver eigi félagið, skráning þess í húsinu hafi hvorki verið framkvæmd í samráði við hann né með samþykki hans og hann vilji losna við félagið úr húsinu. Tilkynningin sé stimpluð af ríkisskattstjóra til staðfestingar á móttöku 5. júlí 2017. Fiskistofa hafi haft samband við embætti ríkisskattstjóra vegna málsins. Þar hafi fengist þær upplýsingar að embættinu væri ekki heimilt að breyta varnarþingi lögaðila nema samkvæmt beiðni þeirra sem til þess séu bærir samkvæmt samþykktum þeirra. Þess vegna hafi ekki verið lagaheimild fyrir flutningi félagsins samkvæmt beiðni þinglýsts eiganda hússins. Ríkisskattstjóri hafi hins vegar brugðist við beiðninni með því að flytja skráð póstfang félagsins til lögheimilis stjórnarformanns þess að […] í Reykjavík. Félagið væri eftir sem áður skráð í Blönduósbæ. Þar sem fyrir lá staðfesting ríkisskattstjóra á að [Z ehf.] hafi verið skráð í Blönduósbæ 11. júlí 2018 hafi bátarnir [A] og [B] uppfyllt öll skilyrði fyrir úthlutun af byggðakvóta Blönduóss.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins: 1) Útprentun af vefsíðu Creditinfo um eldri skráningu [Z ehf.] 1. júlí 2018. 2) Útprentun af vefsíðu Creditinfo um eldri skráningu [Z ehf.]., dags. 11. júlí 2018. 3) Afrit af beiðni eiganda […], Blönduósi um flutning félags. 4) Tölvupóstsamskipti Fiskistofu við embætti ríkisskattstjóra 9. apríl 2019. 5) Vottorð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra útgefið 9. apríl 2019. Einnig bárust ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 21. maí 2019, ljósrit af tilteknum gögnum málsins, m.a. afrit af hinum kærðu ákvörðunum og ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til báts kæranda, dags. 28. febrúar 2019.

Með bréfi, dags. 20. maí 2019, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 12. apríl 2019, til kæranda og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 5. júní 2019.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda vegna framangreinds bréfs.

Með bréfi, dags. 20. maí 2019, sendi ráðuneytið ljósrit af stjórnsýslukærunni, dags. 7. mars 2019 og umsögn Fiskistofu, dags. 12. apríl 2019 til [Z ehf.] og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við framangreind gögn, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 4. júní 2019, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá [H lögmannstofu] f.h. [Z ehf.] um stjórnsýslukæruna og umsögn Fiskistofu. Þar segir m.a. að [Z ehf.] hafi verið með öllu ókunnugt um nefnda stjórnsýslukæru, sem og þau atvik sem hún byggist á, þar til erindi ráðuneytisins hafi borist félaginu. Hinn 1. ágúst 2013 hafi verið settar nýjar samþykktir fyrir félagið og lögheimili þess verið flutt á […] á Blönduósi. Þáverandi eigandi/umráðamaður fasteignarinnar hafi heimilað þá lögheimilisskráningu, sbr. meðfylgjandi tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. [Z ehf.] hafði þá nýverið bætt nýjum báti við útgerð sína, [B] en fyrir hafi félagið gert út [A] frá árinu 2004 og hafi báðir bátarnir frá upphafi útgerðar verið skráðir á Blönduósi. Líkt og komi fram í umsögn Fiskistofu og stutt sé gögnum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, virðist eigandi […], Blönduósi, hafa sent inn beiðni um "flutning félags" sem þinglýstur eigandi eignar sem félagið hafi verið skráð til heimilis á. Samkvæmt fyrirsögn á forprentuðu tilkynningarblaði ríkisskattstjóra komi fram að heimild þinglýsts eiganda fasteignar takmarkist við það að geta krafist þess að heimilisfang félagsins verði flutt af fasteigninni. Hann geti því ekki tilkynnt um annað lögheimili eða breytt varnarþingi félagsins, enda sé slíkt einungis á færi fyrirsvarsmanna einkahlutafélaga skv. ákvæðum laga nr. 138/1994. Sérstök athygli sé vakin á þeim skýringum sem Fiskistofa hafi fengið hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og þeim mistökum sem hafi átt sér stað tímabundið við skráningu á lögheimili félagsins, sem síðar hafi verið leiðrétt. Fyrir liggi að handskrifuð tilkynning, dags. 4. júlí 2016 sé móttekin hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 5. júlí 2017. Þá liggi einnig fyrir forprentuð tilkynning sem sé dags. 20. ágúst 2018 og móttekin hjá ríkisskattstjóra bæði 28. júní 2018 og 5. júlí 2017. Engar skýringar sé að finna á þessu. Fyrir liggi opinber skráning á því hver sé fyrirsvarsmaður félagsins, auk þess sem ljóst sé hvar hann sé að finna en bæði hann og félagið séu skráð í símaskrá. [Z ehf.] telji að kærandi hefði getað ráðfært sig við fyrirsvarsmann félagsins í stað þess að senda umrædda tilkynningu. [Z ehf.] hafi nú þegar, eftir að félaginu hafi orðið þetta mál ljóst, sent tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um breytingu á lögheimili félagsins, þar sem tilkynnt sé að lögheimili þess sé að […] á Blönduósi. Tilkynningin sé dags. 29. maí 2019 og móttekin hjá ríkisskattstjóra 3. júní 2019. Þá sé heimild til stjórnsýslukæru samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 almennt bundin við aðila máls. Í stjórnsýslukærunni sé ekkert vikið að því með hvaða hætti úthlutun byggðakvóta á Blönduósi fiskveiðiárið 2018/2019 varði kæranda eða með hvaða hætti hann eigi aðild að því máli. Verði því að telja að við svo búið beri að vísa kærunni frá þegar af þeirri ástæðu, nema að ráðuneytinu sé kunnugt um aðild og/eða hagsmuni kæranda af úrlausn málsins. Telji ráðuneytið rétt að taka kæruna til efnismeðferðar vísi [Z ehf.] að öðru leyti til umsagnar Fiskistofu og krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Eftirtalin gögn fylgdu framangreindu bréfi [H lögmannsstofu ehf.] f.h. [Z ehf.]: 1) Tvær beiðnir til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um "flutning félags". 2) Samþykktir [Z ehf.], dags. 1.  ágúst 2013. 3) Tilkynning um breytingu á lögheimili, dags. 1. ágúst 2013. 4) Tilkynning um breytingu á lögheimili, dags. 29. maí 2019 og móttekin 3. júní 2019.

Með bréfi, dags. 9. júlí 2019, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af bréfi, dags. 4. júní 2019, frá [H lögmannsstofu ehf.] f.h. [Z ehf]. og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við bréfið. Frestur til þess var veittur til og með 23. júlí 2019.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda vegna framangreinds bréfs.

Rökstuðningur

I.  Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til ráðuneytisins, þ.e. nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er hugtakið aðili máls ekki skilgreint en í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur hins vegar fram að það eigi ekki einungis við um þá sem eigi beina aðild að máli heldur geti einnig fallið undir aðila máls samkvæmt lögunum þeir sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Þá kemur þar einnig fram að það sem ráði úrslitum um það efni sé hvort viðkomandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af stjórnvaldsákvörðun, sbr. Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3282.

Kæruheimild í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 byggir samkvæmt framanrituðu á því að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta sem beinlínis reynir á við úrlausn tiltekins máls sem kært er til ráðuneytisins.

Bátur kæranda, [C] hefur samkvæmt ákvörðun Fiskistofu, dags. 28. febrúar 2019, fengið úthlutað af þeim 69 þorskígildistonnum af byggðakvóta sem úthlutað var til Blönduóss í Blönduósbæ, sbr. bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til Blönduósbæjar, dags. 22. nóvember og 11. desember 2018. Úthlutun af byggðakvóta á Blönduósi í Blönduósbæ til bátanna [A] og [B] samkvæmt ákvörðunum Fiskistofu, dags. 28. febrúar 2019, hefur því áhrif á úthlutun byggðakvóta til báts kæranda þar sem hún fer einnig fram af framangreindum byggðakvóta sem úthlutað hefur verið til byggðarlagsins.

Með vísan til framanritaðs er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess máls sem hér er til umfjöllunar en samkvæmt því verður kæran tekin til efnismeðferðar.

 

II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 685/2018, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2018/2019. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, b) að skip hafi verið skráð með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2018 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2018. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 685/2018.

Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Blönduósi í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (I) nr. 31/2019, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Þar kemur fram að ákvæði reglugerðar nr. 685/2018 gildi um úthlutun byggðakvóta Blönduósbæjar fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 með tilteknum viðauka/breytingum. M.a. kemur þar fram í c-lið að ákvæði b-liðar 1. gr. reglugerðarinnar um skráningu fiskiskipa breytist og verður: Eru skráð í viðkomandi sveitarfélagi 11. júlí 2018.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Blönduósi í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 685/2018 og auglýsingu (I) nr. 31/2019.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan kemur fram í c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 685/2018, sbr. auglýsingu (I) nr. 31/2019 það skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Blönduósi í Blönduósbæ að fiskiskip hafi verið skráð í viðkomandi sveitarfélagi 11. júlí 2018. Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem Fiskistofa hefur lagt fram í málinu var [Z ehf.], eigandi og útgerðaraðili bátanna [A] og [B], skráð í Blönduósbæ 11. júlí 2018. Þegar litið er til þessa og annarra gagna málsins verður ekki annað séð en að bátarnir [A] og [B] hafi uppfyllt öll skilyrði sem sett voru fyrir úthlutun af byggðakvóta Blönduóss fyrir fiskveiðiárið 2018/2019.

Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hinar kærðu ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. febrúar 2019, um úthlutun af byggðakvóta Blönduóss í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 til bátanna [A] og [B].

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður  

Ráðuneytið staðfestir ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. febrúar 2019, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 til bátanna [A] og [B].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta