Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

A.Ó.A. útgerð hf. kærir ákvörðun Fiskistofu um afturköllun á tilfærslu aflamarks, 10 ágúst 2012.

Stjórnsýslukæra


Með bréfi, ódags., sem barst ráðuneytinu 21. ágúst 2012 fór Aðalsteinn Ómar Ásgeirsson, f.h. A.Ó.A. útgerðar hf. þess á leit við þann ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál, að ákvörðun Fiskistofu um afturköllun á tilfærslu aflamarks, 10 ágúst 2012, yrði tekin til endurskoðunar þannig að sekt sem af henni muni leiða, samkvæmt lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, yrði lækkuð verulega með vísun til þeirra sjónarmiða sem nánar er lýst í bréfinu.

    Um meðferð kærunnar fer samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsmeðferð

    Með bréfi dags. 25. október 2012 var leitað umsagnar Fiskistofu um stjórnsýslukæruna jafnhliða því að Aðalsteini Ómari var tilkynnt að erindi hans yrði tekið til meðferðar sem stjórnsýslukæra. Umsögn Fiskistofu, dags. 16. desember 2012, með fylgigögnum, var kynnt Aðalsteini Ómari með bréfi dags. 9. janúar 2013. Samkvæmt ósk Aðalsteins Ómars gafst honum, ásamt Sverri Péturssyni útgerðarstjóra Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., færi á að hitta starfsmenn ráðuneytisins á stuttum fundi 19. mars, til að gera grein fyrir kröfum og sjónarmiðum, m.a. í tilefni af umsögn Fiskistofu.

Málsatvik

    Málsatvikum er lýst ítarlega í umsögn Fiskistofu dags. 16. desember sl. Þar segir:

Þann  30.  desember  2011  var  óskað  eftir  því að aflamark, 20.000 kg af innfjarðarrækju,  yrði  flutt  af  Gunnvöru  ÍS-53  (1543) yfir á Val ÍS-20 (1440).  Fiskistofa  gaf  út  staðfestingu  á  flutningnum  sama  dag,  með fyrirvara um að skráðar aflatölur væru réttar.
Þann  9.  júlí  2012 barst Fiskistofu umsókn um flutning aflahlutdeildar af Gunnvöru  ÍS-53  yfir  á  Júlíus  Geirmundsson  ÍS  270  (1977). Fiskistofa staðfesti  ekki  flutning  á hlutdeild í innfjarðarrækju, þar sem það hefði leitt  til  umframaflastöðu  á Gunnvöru ÍS-53 sem þegar hafði ráðstafað með veiðum 13.213 kg af væntanlegri úthlutun næsta fiskveiðiárs [innskot: sbr. 4. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða].
Þann  16.  júlí  2012  afsalaði  A.Ó.A.  útgerð ehf. skipinu Gunnvöru ÍS-53 (1543) til Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. 630169-2249. Í afsalinu er tekið fram að aflahlutdeild og aflamark á skipinu sé í eigu seljanda.
Með  bréfi A.Ó.A útgerðar ehf., dags. 17. júlí 2012, var óskað eftir því að fá  að  greiða gjald vegna umframafla til þess að losa um aflahlutdeildina, þar   sem  ekki  væri  mögulegt  að  laga   aflamarksstöðuna  með  flutningi aflamarks.
Með  bréfi, dags. 25. júlí 2012, hafnaði Fiskistofa því að heimila flutning aflaheimilda  af  Gunnvöru  gegn  greiðslu  “sektar”,  með  þeim  rökum  að lagaskilyrði væru ekki til staðar sem gæfu heimild til slíkrar afgreiðslu.
Með bréfi dags. 9. ágúst 2012 óskuðu fyrirtækin Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. og  A.Ó.A.  útgerð  ehf.  eftir  því  að fyrrnefnd færsla aflamarks frá 30. desember  2011  verði  afturkölluð.  Í kæru er því haldið fram að ekki hafi fengist  heimild til þess að breyta magni færslunnar. Engin gögn eru til um að  farið  hafi  verið fram á að breyta magni færslunnar, en það má vera að munnlegri  fyrirspurn  um  slíkt hafi verið svarað á þann veg að slíkt væri ekki  mögulegt,  enda  er  það  vinnuregla hjá Fiskistofu að ef bakfærsla á flutningi er heimiluð þá er um að ræða ógildingu á öllum flutningnum. Nýjar millifærslur eru ekki framkvæmdar með “bakfærslu að hluta”.
Samkvæmt  ósk  aðila  bakfærði Fiskistofa færslu aflamarks frá 30. desember 2011.  Að  því  loknu,  eða  13.  ágúst  2012 var umrædd hlutdeild flutt af Gunnvöru  ÍS-53  (1543)  yfir  á Júlíus Geirmundsson ÍS 270 (1977) sem er í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar hf.

    Þess skal getið að kærandi hefur ekki gert athugasemd við þessa málavaxtalýsingu, sem fær staðfestingu í þeim gögnum sem fylgdu umsögninni, en þau voru: 1.) Yfirlit yfir stöðu aflaheimilda á 1543 og 1440, 2.) Tilkynning um flutning aflamarks, dags. 30.12.2011, 3.) Staðfesting á flutningi aflamarks, dags. 30.12.2011 4.) Afsal dags. 16.7.2012, 5.) Bréf A.Ó.A útgerðar hf., dags. 17.7.2012, 6.) Bréf Fiskistofu, dags. 25.7.2012, 7.) Bréf Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. og A.Ó.A útgerðar ehf., dags. 9.8.2012, 8.) Umsókn um staðfestingu á flutningi aflahlutdeildar, dags. 9.7.2012 og 9.) Staðfesting á flutningi aflahlutdeildar dags. 13.8.2012.

Sjónarmið kæranda

    Í bréfi Aðalsteins Ómars, sem barst ráðuneytinu 21. ágúst sl., og skrifað er fyrir hönd eigenda hlutaðeigandi fiskiskipa, er gerð grein fyrir því að beiðni um flutning aflahlutdeildar í innfjarðarrækju í Ísafjarðardjúpi milli Gunnvarar ÍS-53 (1543) og Vals ÍS-20 (1440) hafi verið hafnað. Hafa ber í huga að vegna aflaheimildastöðu fiskiskipsins hefði synjun á flutningi að óbreyttu leitt til þess að aflahlutdeild þess í innfjarðarrækju félli niður, sbr. 5. tl. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða.

    Í framhaldi þessa var óskað eftir afturköllun á aflamarksfærslu milli Gunnvarar ÍS-53 (1543) og Vals ÍS-20 (1440), sem nam 20 t. af innfjarðarrækju. Í bréfinu segir að ekki hafi fengist heimild til þess að breyta magni færslunnar, sem hefði getað minnkað skaðann verulega. Skaðanum er lýst þannig að 20 t umframafli varð á Val ÍS-20 og 6.769 kg „dett[i] niður dauð“ á Gunnvöru ÍS-53. Í þessu ljósi er óskað eftir því að væntanleg sekt vegna ólögmæts sjávarafla verði lækkuð verulega, og er gerð nánari tillaga að lækkuninni í bréfinu.

Sjónarmið Fiskistofu

    í umsögn Fiskistofu dags. 16. desember 2012 er svofelld afstaða tekin til sjónarmiða kæranda:
[...]
Í  erindinu er farið er fram á lækkun „sektar“ sem bréfritari telur líklegt að  verði  um  kr.  4.920.000,-  Þar er væntanlega átt við álagningu  gjalds  vegna  ólögmæts  sjávarafla  sem  viðkomandi  aðili gæti átt yfir höfði sér vegna  þess  umframafla  í innfjarðarrækju sem fjallað er um hér að framan. Álagning  þessi hefur ekki átt sér stað enn sem komið er og þar af leiðandi er  ekki  heimilt  að kæra hana. Þar fyrir utan myndi ákvörðun um álagningu slíks gjald vera kæranleg til úrskurðarnefndar skv. 6. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, en ekki til ráðuneytisins.
Eina  ákvörðunin  sem  liggur fyrir í þessu máli er ákvörðun Fiskistofu 25. júlí  2012  þar sem því er hafnað að flytja aflaheimildir af Gunnvöru ÍS-53 (1543)  gegn  greiðslu  „sektar“  sem  næmi  6.871  þorskígildiskílóum.  Ef ráðuneytið  telur að skilja megi erindi Aðalsteins Ómars sem kæru á þessari ákvörðun,  þá  fer  Fiskistofa  fram á að kröfum kæranda verði hafnað og að umrædd  ákvörðun  verði staðfest. Engin heimild er til þess í lögum að slík mál  séu  gerð upp með fyrirframgreiðslu gjalds fyrir ólögmætan sjávarafla. Engin  heimild er  heldur til þess að semja um upphæð gjalds fyrir ólögmætan sjávarafla eins og farið er fram á í bréfi Aðalsteins Ómars.
Óumdeilt  er  í málinu að flutningur á umræddri hlutdeild af Gunnvöru ÍS-53 (1543)  hefði  leitt til umframaflastöðu á nýju fiskveiðiári, ef ekki hefði komið  til bakfærslu á aflamarksflutningi frá 30. des. 2011. Aðilar málsins óskuðu  sjálfir  eftir  því  með  fyrrnefndu bréfi, dags. 9. ágúst 2012, að málið  yrði  afgreitt  með  bakfærslu á aflamarksflutningnum og er ekki við Fiskistofu  að sakast þó að sú leið hafi e.t.v. ekki reynst sú hagfelldasta fyrir viðkomandi fyrirtæki.
Fiskistofa  telur  að  staðfesta  beri ákvörðun stofnunarinnar frá 25. júlí 2012, komi til þess að ráðuneytið fjalli um þennan þátt málsins.

Forsendur og niðurstaða

    Samkvæmt ákveðinni beiðni Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. og A.Ó.A. útgerðar hf. í bréfi dags. 9. ágúst 2012 afturkallaði Fiskistofa flutning aflamarks, þann 10. ágúst 2012, sem hafði átt sér stað 30. desember 2011 milli Gunnvarar ÍS-53 (1543) og Vals ÍS-20 (1440). Samkvæmt því sem greinir í umsögn Fiskistofu eru fordæmi fyrir því að aflamarksflutningar séu bakfærðir samkvæmt beiðni hlutaðeigandi aðilja, en í þeim tilvikum er í raun um að ræða ógildingu/afturköllun á stjórnvaldsákvörðun samkvæmt beiðni hlutaðeigandi. Engin sýnileg skylda hvíldi á Fiskistofu að taka nýja ákvörðun í stað þeirrar sem afturkölluð var, þ.e. við bakfærslu flutningsins. Í þessum úrskurði verður ekki fjallað frekar um gildi þeirrar ákvörðunar.

    Hvað varðar mögulega flutninga aflamarks, til þess að draga úr mögulegri sektarákvörðun vegna umframafla, er vakin athygli á lokamálsgr. 11. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2011/2012, en þar sagði að tilkynning um flutning aflamarks skuli hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 15 dögum eftir að veiðitímabili lýkur. Með því að veiðitímabili innfjarðarrækju lauk 30. apríl 2012, sbr. reglugerð nr. 961/2011 um breytingu á reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2011/2012, var útilokað að slíkum flutningum yrði komið við í ágúst. Ef viðurkennd yrði víðtæk heimild til bakfærslu á flutningum aflmarks, að hluta til eða öllu leyti, samkvæmt ósk hlutaðeigandi aðilja, yrði grafið undan fyrirmælum laga um takmarkanir við flutningum aflamarks skömmu eftir að veiðitímabili lýkur.

    Með vísun til sjónarmiða og forsendna Fiskistofu í hinni kærðu ákvörðun og bréfi dags. 16. desember sl. er hin kærða ákvörðun staðfest.  

Úrskurðarorð

    Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra



Ingvi Már Pálsson

        Arnór Snæbjörnsson

            


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta