Úrskurður vegna úthlutunar byggðakvóta fyrir Kópasker 2013/2014
Stjórnsýslukæra
Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Lögfræðistofu Reykjavíkur, Þórðar H. Sveinssonar, hdl. f.h. Garðars Birgissonar, Duggugerði 5, 670 Kópaskeri, dags. 18. júní 2014, sem barst ráðuneytinu 19. sama mánaðar.
Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
Kröfur kæranda
Kærandi gerir svohljóðandi kröfur í stjórnsýslukærunni: "Að felld verði úr gildi úthlutun Fiskistofu á byggðakvóta fyrir Kópasker fiskveiðiárið 2013/2014 og lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta til bátsins Fróða ÞH-81, skipaskrárnúmer 2438 byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 í samræmi við löndunar- og vinnsluskyldu skipsins og heimildir, í hlutfalli við önnur skip sem eiga rétt til byggðakvóta fyrir Kópasker, en í samræmi við lögheimilisföng útgerða þeirra innan 670 Kópasker."
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 16. maí 2014, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 16. og 17. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 í Norðurþingi, m.a. á Kópaskeri en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 30. maí 2014. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 414 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Norðurþings samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 664/2013, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2013/2014, sem skiptust á byggðarlögin Húsavík, 210 þorskígildistonn, Kópasker, 55 þorskígildistonn og Raufarhöfn, 149 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Norðurþingi með bréfi, dags. 16. október 2013.
Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Fróða ÞH-81 (2438) með umsókn til Fiskistofu, dags. 23. maí 2014. Einnig sóttu Æðarsker ehf. um úthlutun byggðakvóta fyrir bátana Margréti ÞH-55 (2157) með umsókn, dags. 7. janúar 2014 og Þorbjörgu ÞH-25 (2588) með umsókn, dags. 7. janúar 2014, Hraungarðar sf. um úthlutun fyrir bátinn Kötluvík ÞH-31 (6047) með umsókn, dags. 31. mars 2014, Helga ÞH ehf. um úthlutun fyrir bátinn Helgu Sæm ÞH-78 (6945) með umsókn, dags. 26. maí 2014, Tryggvi Aðal ehf. um úthlutun fyrir bátinn Rósu í Brún ÞH-50 (6347) með umsókn, dags. 27. maí 2014 og Ester ehf. um úthlutun fyrir bátana Blika ÞH-53 (6680) með umsókn, dags. 30. maí 2014 og og Fálka ÞH-35 (6909) með umsókn dags. 30. maí 2014.
Hinn 5. júní 2014 tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðum í sveitarfélaginu Norðurþingi, þ.á.m. Kópaskeri ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að 8.819 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Fróða ÞH-81 (2438). Einnig var Æðarskeri ehf. tilkynnt að 7.976 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Margrétar ÞH-55 (2157) og að 3.647 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Þorbjargar ÞH-25 (2588), Hraungörðum sf. tilkynnt að 282 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Kötluvíkur ÞH-31 (6047), Helgu ÞH ehf. tilkynnt að 20.333 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Helgu Sæm ÞH-78 (6945), Tryggva Aðal ehf. tilkynnt að 6.200 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Rósu í Brún ÞH-50 (6347) og Ester ehf. tilkynnt að 7.743 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Blika ÞH-53 (6680) og að engin úthlutun hafi komið í hlut bátsins Drífu EA-60 (6909) (Fálka ÞH-35 (6909)). Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með 1síðari breytingum, reglugerð nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014 og auglýsingu (IX) nr. 462/2014, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.
Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá tilkynningum Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta eða höfnun umsókna um úthlutun.
Málsrök með stjórnsýslukæru og málsmeðferð
Með stjórnsýslukæru, dags. 18. júní 2014, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði Lögfræðistofa Reykjavíkur, Þórður H. Sveinsson, hdl. f.h. Garðars Birgissonar framangreinda ákvörðun Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með bréfi, dags. 20. júní 2014, barst ráðuneytinu viðbótarrökstuðningur og gögn um málið frá lögmanni kæranda.
Í stjórnsýslukærunni og rökstuðningi í áðurnefndu bréfi segir m.a. að kærandi telji ekki rétt staðið að úthlutun byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi á fiskveiðiárinu 2013/2014, m.a. vegna þess að aðilar sem séu skráðir í dreifbýlinu 671 Kópasker, hafi fengið úthlutað byggðakvóta en slíkt standist ekki ákvæði 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 664/2013 um skilgreiningu á byggðarlagi. Kærandi telji að eingöngu skip útgerða sem séu skráðar með lögheimili í póstnúmerinu 670 Kópasker eigi rétt til byggðakvóta en ekki þær útgerðir sem séu skráðar í dreifbýli í póstnúmerinu 671 Kópasker. Einnig telur kærandi að ekki skuli taka mið af landaðri grásleppu (grásleppuhrognum) við útreikning byggðakvóta samkvæmt 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013 og eru í því sambandi nefnd tiltekin skip í stjórnsýslukærunni. Um rökstuðning vísar kærandi til máls sem var til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis, þ.e. máls nr. 7309/2012 en umræddu máli var lokið með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 31. október 2014. Kærandi telur að þar hafi reynt á svipuð sjónarmið og í þessu máli um tiltekin atriði sem kærandi telur ekki í samræmi við lög, m.a.: a) að þorskígildisstuðull fyrir álagningu veiðigjalds gildi nú um grásleppu, b) að heimilisfesti í dreifbýlinu 671 Kópasker uppfylli skilyrði til að fá úthlutað byggðakvóta, sem kærandi telji ekki í samræmi við lög og reglur um byggðakvóta nema að ósk sveitastjórnar Norðurþings, c) að löndun grásleppu (grásleppuhrogna) uppfylli skilyrði til að fá úthlutað byggðakvóta, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013 og einnig að vinnsla grásleppuhrogna sem sé eingöngu söltun uppfylli skilyrði 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013.
Einnig byggir kærandi á því m.a. að í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 664/2013, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2013/2014, komi fram sama skilgreining á byggðarlagi og áður, m.a. í reglugerð nr. 1181/2011, svohljóðandi: "Byggðarlög samkvæmt 1. mgr. eru byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. [...]"Þar komi skýrt fram að um sé að ræða byggðakjarna sem liggi að sjó, og séu háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Af því leiði að hér sé átt við húsaþyrpingu, þorp þar sem fleiri en ein fjölskylda búi og sem liggi að sjó (í næsta nágrenni) og að þessir byggðakjarnar séu háðir veiðum og vinnslu sjávarafla. Í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 sé vísað til reglugerðar sem sé í gildi á hverjum tíma um skilgreiningu á byggðarlagi en reglugerðir um það efni fyrir síðustu fiskveiðiár hafi allar verið samhljóða um skilgreiningu á byggðarlagi. Kópasker 670 falli undir þessa skilgreiningu þar sem Kópasker 670 liggi að sjó þar sem sé höfn og sé byggðarlagið Þar komi skýrt fram að um sé að ræða byggðakjarna sem liggi að sjó, og séu háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Af því leiði að hér sé átt við húsaþyrpingu, þorp þar sem fleiri en ein fjölskylda búi og sem liggi að sjó (í næsta nágrenni) og að þessir byggðakjarnar séu háðir veiðum og vinnslu sjávarafla. Í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 sé vísað til reglugerðar sem sé í gildi á hverjum tíma um skilgreiningu á byggðarlagi en reglugerðir um það efni fyrir síðustu fiskveiðiár hafi allar verið samhljóða um skilgreiningu á byggðarlagi. Kópasker 670 falli undir þessa skilgreiningu þar sð skýrt orðið "byggðarlag",á þann veg að það nái einnig yfir dreifbýlið 671 Kópasker, sem sé sveitin í kringum Kópasker og liggi ekki að sjó eða höfninni á Kópaskeri. Byggðarlag geti ekki verið í dreifbýli eða staðsett í sumarhúsi eða bóndabæ víðsfjarri sjó þar sem ekki sé neinn byggðakjarni, þ.e. fleiri en eitt hús og ein fjölskylda sem háð séu veiðum. Eini aðilinn sem geti breytt þessu sé sveitarfélagið Norðurþing, sbr. 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 665/2013 en sveitarfélagið hafi ekki óskað eftir að sett yrðu sérstök skilyrði um það efni fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2013/2014, sbr. auglýsing (IX) nr. 462/2014. Við úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2013/2014 séu þrír aðilar sem fái úthlutað byggðakvóta með póstáritunina 671 Kópasker og einn sem skráður sé á Akureyri. Hvort sem dreifbýlið liggi 10 eða 50 kílómetra frá höfninni á Kópaskeri (eða að sjó) þá geti viðmiðunin alveg eins verið Húsavík sem liggi 100 kílómetra frá Kópaskeri, því dreifbýlið liggi ekki að sjó og sé ekki háð vinnslu sjávarafla. Samkvæmt meðfylgjandi úthlutunarblaði fyrir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2013/2014 komi fram að tilteknir umsækjendur um byggðakvóta hafi heimilisfesti í dreifbýlinu 671 Kópaskeri. Samkvæmt framangreindu telji kærandi að úthlutun byggðakvóta fyrir Kópasker fari í bága við skilgreiningu c-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 664/2013 á hugtakinu byggðarlagi.
Ennfremur telur kærandi að ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi fari í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem eingöngu þeir sem búi í byggðarlaginu 670 Kópasker falli undir skilgreininguna byggðarlag en þeir einir eigi að fá úthlutað byggðakvóta fyrir Kópasker. Hagsmunir þeirra séu skertir ef ekki sé farið samkvæmt ákvæðum í lögum og reglugerðum um byggðakvóta. Kærandi telji sig hafa lögvarinna hagsmuna að gæta af máli þessu þar sem hann telji að í hans hlut eigi að koma hærri úthlutun byggðakvóta en úthlutað hafi verið.
Þá vísar kærandi til rökstuðnings í máli nr. 7309/2012 sem hafi verið til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis um að grásleppa hafi ekki þorskígildisstuðul og því sé ekki hægt að ákvarða veiðigjald vegna hennar og geti hún ekki talist til viðmiðunar við úthlutun byggðakvóta. Af því leiði að hún sé ekki tæk sem viðmið fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir Kópasker framangreint fiskveiðiár.
Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni: 1) Bréf Fiskistofu, dags. 5. júní 2014. 2) Yfirlit um úthlutun byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. 3) Aflayfirlit vegna tiltekins báts o.fl.
Eftirtalin gögn fylgdu bréfi lögmanns kæranda, dags. 20. júní 2014: 1) Þinglýsingarvottorð vegna tiltekinnar fasteignar. 2) Vottorð Hlutafélagaskrár vegna tiltekins hlutafélags. 3) Gögn varðandi stofnun tiltekins hlutafélags. 4) Kvörtun til umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7309/2012. 5) Bréf umboðsmanns Alþingis til ráðuneytisins, dags. 20. september 2013. 6) Bréf ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 17. desember 2013. 7) Bréf til umboðsmanns Alþingis, dags. 29. janúar 2014 í máli nr. 7309/2012.
Með bréfi, dags. 19. júní 2014, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
Í umsögn Fiskistofu, dags. 3. september 2014, segir m.a. að það sé mat stofnunarinnar að málatilbúnaður kæranda sé það óljós og vanreifaður að ekki verði hjá því komist að vísa kærunni frá. Í fyrsta lagi sé þess krafist að felld verði úr gildi stjórnvaldsákvörðun sem Fiskistofa hafi ekki tekið, það sé að felld verði úr gildi úthlutun byggðakvóta fyrir Kópasker í Norðurþingi. Samkvæmt reglugerð nr. 664/2013, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2013/2014, sé það sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem úthluti byggðakvóta til byggðarlaga, en ekki Fiskistofa. Kröfugerð kæranda virðist síðan miðast við að ráðuneytið endurskoði og breyti úthlutun til bátsins Fróða ÞH-81 (2438) á grundvelli breyttrar úthlutunar byggðakvóta til byggðarlagsins Kópaskers. Einnig sé í kærunni vísað til rökstuðnings vegna máls nr. 7309/2012 sem hafi verið til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Mál það sé hvorki reifað í kærunni né málsgögn lögð fram, þannig að ekki verði séð hvernig rök í því máli geti verið leiðbeinandi við úrlausn þessa máls. Telji ráðuneytið hægt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar sé bent á m.a. að í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 664/2013 séu skilgreiningar á því hvað séu byggðarlög. Byggðarlög samkvæmt reglugerðinni skiptist í: a) byggðarlög sem séu byggðakjarnar sem liggi að sjó og séu háð veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla og b) minni byggðarlög sem séu byggðarlög með færri íbúum en 2.000. Þannig eigi hugtökin um byggðakjarna og að þeir liggi að sjó og séu háðir veiðum og/eða vinnslu sjávarafla ekki við um "minni byggðarlög".Ef svo væri hefði verið nauðsyn að þessi hugtök fylgdu jafnframt skilgreiningu á hugtakinu minni byggðarlög, en svo sé ekki. Fiskistofa telji því ekki réttar skilgreiningar kæranda eða að byggðarlög séu bundin við "póstnúmer"eða "dreifbýli"enda sé þau hugtök ekki að finna í reglugerðinni. Að mati Fiskistofu falli Kópasker undir hugtakið "minni byggðarlög"og því eigi hugtökin "byggðakjarni"eða að hann "liggi að sjó"og sé "háður veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla"ekki við um minni byggðarlög sem sé eingöngu bundið við skilgreininguna að íbúafjöldi sé innan 2.000. Þá sé vísað til bréfs ráðuneytisins í máli nr. SLR12010123/10.7.2, dags. 21. febrúar 2012, sem hafi verið svar við bréfi Fiskistofu, dags. 19. janúar sama ár, þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort grásleppa teldist til botnfiska sem taka skyldi tillit til varðandi útreikning þorskígilda við úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga og hvernig reikna skyldi þorskígildi blandaðra grásleppuhrogna, teldi ráðuneytið að grásleppa félli undir þá skilgreiningu að um botnfisktegund væri að ræða. Í svari ráðuneytisins hafi komið fram að grásleppa teljist til viðmiðunartegunda í þessu tilliti og að við umreikning grásleppuhrogna í heila grásleppu skyldi nota margföldunarstuðulinn 3,4. Þannig verði að telja grásleppu og grásleppuhrogn til landaðs afla sem myndi andlag til ákvörðunar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa og til ákvörðunar um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga. Fiskistofa telji því að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um úthlutun byggðakvóta til bátsins Fróða ÞH-81 (2438) en að öðru leyti beri að vísa frá kröfum kæranda.
Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Staðfest afrit af hinni kærðu ákvörðun, dags. 5. júní 2014. 2) Bréf ráðuneytisins í máli nr. SLR11030100/0.5.3, dags. 14. júlí 2011. 3) Bréf ráðuneytisins í máli nr. SLR12010123.10.7.2, dags. 21. febrúar 2012. 4) Auglýsing um úthlutun byggðakvóta Norðurþings í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu 16. og 17. maí 2014. 5) Auglýsing á vef Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta Norðurþings 16. maí 2014. 6) Tölvupóstur Fiskistofu til sveitarstjórnar Norðurþings frá 20. maí 2014. 7) Úrskurður ráðuneytisins í máli nr. ANR12090438/0.7.7, dags. 2. nóvember 2012. 8) Auglýsing (IX) nr. 462/2014, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.
Með bréfi, dags. 15. september 2014, sendi ráðuneytið lögmanni kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu og veitti honum kost á að gera athugasemdir við umsögnina.
Með bréfi, dags. 13. október 2014, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá lögmanni kæranda, Þórði H. Sveinssyni, hdl. um umsögn Fiskistofu en þar segir m.a. að kærandi telji kröfugerð sína skýra þótt vísað sé til rökstuðnings í öðru máli. Kröfugerð kæranda sé rökstudd í a-c-liðum á bls. 2 í kæru til ráðuneytisins og eingöngu fjallað í rökstuðningi með kæru um byggðarlög en vísað að öðru leyti til sömu röksemda hvað byggðarlög varðar, þorskígildisstuðul og grásleppu/grásleppuhrogn sem viðmið og komi fram í máli nr. 7309/2012 sem sé sams konar mál og hafi þá verið til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Ráðuneytið hafi í vörslum sínum öll gögn í máli nr. 7309/2012 og sé vísað til þeirra. Í athugasemdum Fiskistofu komi fram rýmkandi lögskýring á seinni málsl. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 664/2013, þar sem segi að "Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. desember 2012."Skýringar Fiskistofu á 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 664/2013 sé hvergi að finna í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem reglugerðin sé sett samkvæmt heimild í eða í frumvarpi til þeirra laga eða eldri lögum. Ekki sé hægt að skýra 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar þannig að byggðarlög með færri en 2.000 íbúum verði ekki lengur að liggja að sjó og vera háð veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla, og að nú séu byggðarlög ekki bundin við póstnúmer eða dreifbýli og geti verið hvar sem er þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar, sbr. a- og b-liði 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Verði að lesa 2. mgr. 1. gr. með tilliti til þess sem komi fram í 1. mgr. 1. gr. en þar séu a- og b-liðir mismunandi eftir því hvort um minni byggðarlög sé að ræða eða ekki. Það verði því að horfa á og lesa heildstætt 1. gr. reglugerðarinnar til að finna ástæðu fyrir byggðarlögum með færri íbúum en 2000. Hér sé munur á eftir því hvort a- eða b-liðir í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar eigi við, m.a. þar sem heimilt sé að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt b-lið til allt að þriggja ára o.s.frv. Sérstaklega sé tilgreint í a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar að um sé að ræða minni byggðarlög sem séu háð veiðum og/eða vinnslu á botnfiski. Hljóti því slík byggðarlög að liggja að sjó.
Með tölvubréfum frá 4. febrúar, 18. maí, 9. júlí, 3. september og 12. október 2015 óskaði lögmaður kæranda eftir upplýsingum um afgreiðslu málsins og svaraði ráðuneytið með tölvubréfum frá 4. febrúar, 18. maí, 13. júlí, 4. september og 12. október 2015.
Með bréfum, dags. 23. júlí 2015, sendi ráðuneytið ljósrit af stjórnsýslukæru, dags. 18. júní 2014, viðbótarrökstuðningi kæranda, dags. 20. júní 2014 og umsögn Fiskistofu, dags. 3. september 2014, til eftirtalinna aðila sem voru útgerðaraðilar viðkomandi báta á fiskveiðiárinu 2013/2014: Tryggva Aðal ehf., útgerðaraðila bátsins Rósu í Brún ÞH-50 (6347), Ester ehf., útgerðaraðila bátsins Blika ÞH-53 (6680), Helgu ÞH ehf., útgerðaraðila bátsins Helgu Sæm ÞH-78 (6945), Hraungarða sf., útgerðaraðila bátsins Kötluvíkur ÞH-31 (6047) og Æðarskers ehf., útgerðaraðila bátanna Margrétar ÞH-55 (2157) og Þorbjargar ÞH-25 (2588). Ráðuneytið veitti þessum aðilum kost á að gera athugasemdir við framangreind gögn, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með tölvubréfi frá 16. ágúst 2015 bárust ráðuneytinu athugasemdir frá Tryggva Aðal ehf. þar sem mótmælt var málsástæðum kæranda varðandi úthlutun byggðakvóta til bátsins Rósu í Brún ÞH-50 (6347) og beindust að því að útgerðaraðili bátsins yrði að hafa heimilisfang í þéttbýli, þ.e. 670 Kópasker. Ráðuneytinu bárust ekki svarbréf frá öðrum framangreindum útgerðaraðilum.
Með tölvubréfum frá 12. og 15. október 2015, bárust ráðuneytinu tiltekin viðbótargögn frá Fiskistofu.
Rökstuðningur
I. Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til ráðuneytisins, þ.e. nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Kæruheimild samkvæmt ákvæðinu byggir því að mati ráðuneytisins á því með sama hætti og gert er ráð fyrir í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið um úthlutun aflaheimilda eða höfnun umsókna um aflaheimildir í byggðarlögum til einstakra fiskiskipa til þess að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir m.a. að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna en einnig kemur þar fram að þau gildi þó ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla.
Það er mat ráðuneytisins að málsástæður í stjórnsýslukæru í máli þessu varði að hluta aðeins efni reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, þ.e. ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013.
Ekki er unnt að kæra með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. framangreint ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið mun því ekki taka afstöðu til málsástæðna í stjórnsýslukærunni sem byggðar eru á því að efni framangreindra ákvæða eigi að mati kæranda að vera með öðrum hætti. Stjórnsýslukæran beinist hins vegar jafnframt að tiltekinni ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til bátsins Fróða ÞH-81 (2438) en umrædd ákvörðun er kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt framangreindu ákvæði 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.
Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið ekki ástæðu til að vísa frá kæruefni samkvæmt framangreindri stjórnsýslukæru og verður stjórnsýslukæran tekin til efnismeðferðar.
II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.
Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að skipting þess aflamarks sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðarinnar, sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.
Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærileg ákvæði eru í 2. gr. reglugerðar nr. 665/2013.
Í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.
Í 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013 er sambærilegt ákvæði en þar kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2013 til 31. ágúst 2014. Aflinn skuli nema, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni. Úthlutun skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt. Miðað skal við allar botnfiskaflategundir sem gefinn hefur verið út þorskígildisstuðull fyrir. Þá koma fram í greininni tilteknar reglur um úthlutun aflamarks við tilteknar aðstæður. Ráðherra er heimilt, að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar, að víkja frá ákvæðum greinarinnar enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.
Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Kópaskeri í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 með auglýsingu (IX) nr. 462/2014, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Þar eru gerðar þær breytingar á reglugerð nr. 665/2013 m.a. að aflamarki sem úthlutað hefur verið til sveitarfélagsins skal skipt samkvæmt þeim reglum sem koma fram í 1. mgr. 4. gr. á þann veg að miðað skal við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Þá er breytt ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. en samkvæmt því er fiskiskipum skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlags, sé hins vegar ekki starfandi fiskvinnsla innan byggðarlagsins er skylt að landa aflanum til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2013 til 31. ágúst 2014.
Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Kópaskeri í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, reglugerð nr. 665/2013 og auglýsingu (IX) nr. 462/2014.
III. Í máli þessu eru kröfur kæranda byggðar á eftirtöldum forsendum vegna úthlutunar byggðakvóta á Kópaskeri í Norðurþingi fiskveiðiárið 2013/2014: 1) að tilteknir aðilar utan þéttbýlis á Kópaskeri í Norðurþingi hafi fengið úthlutað byggðakvóta, 2) að tilteknir aðilar sem skráðir hafi verið með heimilisfang á Kópaskeri í Norðurþingi en sem kærandi telur að hafi ekki verið með starfsemi þar hafi fengið úthlutað byggðakvóta á Kópaskeri í Norðurþingi og 3) að grásleppuafli hafi verið metinn sem landaður afli við úthlutun byggðakvóta umrætt fiskveiðiár samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014 og til að uppfylla skilyrði um löndun afla til vinnslu í byggðarlagi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013.
1) Í stjórnsýslukærunni, dags. 18. júní 2014, segir m.a. um Æðarsker ehf., Blikalóni, 671 Kópaskeri, útgerðaraðila bátsins Margrétar ÞH-55 (2157) að Blikalón liggi ekki að sjó og sé eyðibýli þar sem enginn búi. Einnig segir þar um Hraungarða sf., Kelduneskoti, 671 Kópaskeri, útgerðaraðila bátsins Kötluvíkur ÞH-31 (6047) að Kelduneskot sé lengst inni í sveit og liggi ekki að sjó. Þá kemur þar fram um Helgu ÞH ehf., Sigurðarstöðum, 671 Kópaskeri, útgerðaraðila bátsins Helgu Sæm ÞH-78 (6945) að um sé að ræða bóndabæ á Melrakkasléttu og víðsfjarri sjó.
Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 664/2013, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2013/2014, kemur fram skilgreining á hugtakinu byggðarlagi svohljóðandi:
"Byggðarlög samkvæmt 1. mgr. eru byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúm en 2.000, miðað við 1. desember 2012."
Um skilgreiningu á byggðarlaginu Kópaskeri í Norðurþingi vísast m.a. til úrskurðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 25. nóvember 2009 í máli nr. SLR09090010, þar sem fjallað var um stjórnsýslukæru vegna umsóknar um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2008/2009 á Kópaskeri í Norðurþingi en skilgreiningin var m.a. byggð á samhljóða ákvæði í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 551/2009, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2008/2009. Þar var m.a. fjallað um bæinn Blikalón, 671 Kópaskeri sem er heimilisfang Æðarskers ehf., útgerðaraðila bátsins Margrétar ÞH-55 (2157) sem stjórnsýslukæra í máli þessu beinist að og einnig bæinn Núpskötlu. Þar kemur fram skilgreining á byggðarlaginu Kópaskeri og segir þar m.a. að sveitabæirnir Blikalón og Núpskatla liggi skammt norðan við Kópasker og tilheyri því samfélagi félagslega og þjónustulega. Byggðarlag sé skilgreint í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 551/2009 sem byggðakjarni sem liggi að sjó og sé háður veiðum og/eða vinnslu sjávarafla. Þótt Núpskatla sé utan þéttbýlis, hafi sá bær lengi verið háður sjósókn og hljóti að skoðast sem hluti af sama byggðarlagi og þéttbýlið á Kópaskeri í því samhengi sem þar var til umfjöllunar.
Einnig vísast til bréfs umboðsmanns Alþingis, dags. 31. október 2014, í máli nr. 7309/2012, vegna kvörtunar til umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7309/2012 en þar gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að telja tiltekin svæði innan dreifbýlis í 671 Kópaskeri til byggðarlagsins Kópaskers við úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2011/2012, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 1181/2011, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2011/2012. M.a. segir í framangreindu bréfi umboðsmanns Alþingis að ekki verði fortakslaust lagt til grundvallar að útgerðir með skráð heimilisfang í dreifbýli Kópaskers komi ekki til greina við úthlutun byggðakvóta heldur verði það að ráðast af mati hverju sinni hvaða svæði tilheyri byggðarlagi. Þar var til umfjöllunar m.a. báturinn Helga Sæm ÞH-78 (6945), útgerðaraðili Helga ÞH ehf., Sigurðarstöðum, 671 Kópaskeri og gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við að sá bær hafi verið talinn til byggðarlagsins Kópaskers við úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2011/2012.
Telja verður að sömu sjónarmið og koma fram í framangreindum úrskurði ráðuneytisins, dags. 25. nóvember 2009 og bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 31. október 2014, eigi við um heimilisfang útgerðaraðila þeirra báta sem fengu úthlutað af byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi fiskveiðiárið 2013/2014 og stjórnsýslukæran beinist að.
Það getur því ekki ráðið úrslitum við úrlausn þessa máls hvort viðkomandi útgerðaraðilar séu skráðir með heimilisfang í þéttbýli eða dreifbýli Kópaskers.
Tilgangur laga og stjórnvaldsreglna um úthlutun byggðakvóta er að styrkja atvinnusókn og búsetu í byggðarlögum landsins, m.a. dreifðari byggðarlögum.
Á Kópaskeri í Norðurþingi eru sérstakar aðstæður, þ.e. landfræðilegar aðstæður, m.a. er byggð þar dreifðari en í mörgum öðrum byggðarlögum landsins bæði með tilliti til atvinnusóknar og búsetu. Þeir sem búa í dreifbýlinu, m.a. útgerðaraðilar sækja atvinnu annars staðar í byggðarlaginu og í mörgum tilvikum inn í þéttbýlið og geta verið eins háðir sjósókn og aðrir sem búa í þéttbýlinu. Atvinnusóknarsvæði og búseta eru þar því dreifðari en annars staðar. Það leiðir til þess að ekki er hægt að takmarka úthlutun byggðakvóta við báta í eigu eða leigu aðila sem hafa heimilisfang í þéttbýli Kópaskers.
Byggðarlagið á Kópaskeri í Norðurþingi verður því að skoðast sem ein heild, bæði þéttbýli og dreifbýli en ekki er hægt að líta á það sem tvö aðskilin svæði þegar kemur að atvinnusókn og búsetu en því valda m.a. eins og áður segir landfræðilegar aðstæður.
Að mati ráðuneytisins gilda því öll sömu rök og sjónarmið um rétt báta í eigu framangreindra útgerðaraðila til úthlutunar byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. Það er niðurstaða ráðuneytisins að dreifbýlið jafnt sem þéttbýlið sé hluti byggðarlagsins Kópaskers í Norðurþingi við úthlutun byggðakvóta en íbúar þar eru jafn háðir veiðum og vinnslu sjávarafla. Það er andstætt skilningi á hugtakinu byggðakvóta að aðeins þeir sem búa í þéttbýli geti fengið úthlutað byggðakvóta en ekki þeir sem búa í dreifbýli og verður að meta hverju sinni hvort um sé að ræða aðila sem eru einnig háðir veiðum og/eða vinnslu sjávarafla.
Einnig skal upplýst að við framkvæmd laga og stjórnvaldsreglna um úthlutun byggðakvóta hefur frá því úthlutun byggðakvóta hófst á fiskveiðiárinu 2003/2004 á grundvelli aflaheimilda sem sjávarútvegsráðherra hafði þá til ráðstöfunar samkvæmt eldra ákvæði 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða og hefur síðar haft til ráðstöfunar árlega samkvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, verið miðað við að umrædd ákvæði gildi fyrir allt byggðarlagið Kópasker í Norðurþingi, bæði þéttbýli og dreifbýli. Engin rök eru í þessu máli til þess að takmarka skilgreiningu á hugtakinu byggðarlagi við úthlutun byggðakvóta við þrengra hugtak en gert hefur verið.
Ennfremur er rétt að líta til þess að bátarnir eru allir skráðir á Kópaskeri í Norðurþingi með heimahöfn þar og öllum afla er landað í sveitarfélaginu Norðurþingi.
Þá gilda ákvæði um að miðað skuli við allan botnfiskafla, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Vegna þess að í rökstuðningi kæranda er því ranglega haldið fram að grásleppa hafi ekki þorskígildisstuðul og því sé ekki hægt að ákvarða veiðigjald vegna hennar og geti hún því ekki talist til viðmiðunar við úthlutun byggðakvóta er rétt að ítreka það hér að grásleppa hefur eins og annar landaður afli haft útreiknaðan þorskígildisstuðul frá því að þorskígildi voru tekin upp og reiknuð.
Loks hefur vísun til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki gildi í málinu, sbr. bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 30. desember 2010, í máli nr. 6160/2010.
Ráðuneytið gerir samkvæmt framanrituðu ekki athugasemdir við að bátarnir Margrét ÞH-55 (2157), Þorbjörg ÞH-25 (2588), Kötluvík ÞH-31 (6047) og Helga Sæm ÞH-78 (6945) hafi fengið úthlutað af byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi fiskveiðiárið 2013/2014.
2) Í stjórnsýslukærunni, dags. 18. júní 2014, segir um Tryggva Aðal ehf., Þverárdal 18, 671 Kópaskeri, útgerðaraðila bátsins Rósu í Brún ÞH-50 (6347) að heimilisfang útgerðarinnar, Þverárdalur 18, 671 Kópaskeri liggi ekki að sjó og falli því ekki undir skilgreiningu á byggðarlagi, en um sé að ræða sumarbústað í sumarhúsahverfi. Einnig segir í rökstuðningi með stjórnsýslukærunni, dags. 20. júní 2014, m.a. að útgerðin Ester ehf., útgerðaraðili bátsins Blika ÞH-53 (6680) hafi verið með skráð heimilisfang að Klifagötu 6b, 670 Kópaskeri þann 1. júlí 2013, án þess að nokkur starfsemi félagsins hafi verið í húseigninni.
Um þau rök kæranda að heimilisfang Tryggva Aðal ehf., útgerðaraðila bátsins Rósu í Brún ÞH-50 (6347) sé í dreifbýli innan Kópaskers í Norðurþingi vísast til þess rökstuðnings sem kemur fram í 1) hér að framan þar sem niðurstaða ráðuneytisins er sú að dreifbýlið jafnt sem þéttbýlið sé hluti byggðarlagsins Kópaskers við úthlutun byggðakvóta en samkvæmt því verður ekki fallist á að heimilisfang Tryggva Aðal ehf. hafi ekki verið innan byggðarlagsins Kópaskers við úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014.
Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem vísað er til í c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 er starfrækt á grundvelli laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, með síðari breytingum. Í 1. gr. laganna kemur fram að fyrirtækjaskrá annast útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Í 4. gr. laganna segir m.a. að í fyrirtækjaskrá skuli skrá tilteknar upplýsingar um lögaðila eftir því sem við á, m.a. "...4. Heimilisfang."Með heimilisfangi lögaðila samkvæmt reglugerð nr. 665/2013 er átt við heimilisfang viðkomandi lögaðila í skilningi 4. gr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá. Við úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa er ferill mála hjá Fiskistofu með þeim hætti, að þegar umsóknir hafa borist um úthlutun byggðakvóta í viðkomandi byggðarlagi eða sveitarfélagi sendir starfsmaður Fiskistofu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra skrá á exelformi með m.a. nöfnum og heimilisföngum þeirra einstaklinga og lögaðila sem sótt hafa um byggðakvóta fyrir viðkomandi fiskveiðiár. Starfsmenn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra fylla síðan út á skjalið upplýsingar um heimilisfang viðkomandi lögaðila, sem byggðar eru á kennitölu þeirra í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, sbr. framangreint, og senda skjalið aftur til Fiskistofu.
Með tölvubréfi frá 17. september 2015 barst ráðuneytinu ljósrit af umræddu exelskjali sem var unnið vegna úthlutunar byggðakvóta í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. Þar kemur fram m.a. að heimilisfang Ester ehf., útgerðaraðila bátsins Blika ÞH-53 (6680) hafi verið að Klifagötu 6b, 670 Kópaskeri. Einnig kemur þar fram að heimilisfang Tryggva Aðal ehf., útgerðaraðila bátsins Rósu í Brún ÞH-50 (6347) hafi verið Þverárdalur 18, 671 Kópaskeri. Skráning í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra er opinber skráning sem fer fram samkvæmt lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá og er byggð á þeim gögnum sem embætti ríkisskattstjóra hefur í vörslum sínum um það efni. Það er ekki hlutverk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða Fiskistofu við framkvæmd laga og stjórnvaldsreglna um byggðakvóta að endurskoða eða gera athugasemdir við skráningu einstakra fyrirtækja í fyrirtækjaskrá.
Ráðuneytið gerir samkvæmt framanrituðu ekki athugasemdir við að bátarnir Rósa í Brún ÞH-50 (6347) og Bliki ÞH-53 (6680) og hafi fengið úthlutað af byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi fiskveiðiárið 2013/2014.
3) Um veiðar á grásleppu giltu ákvæði reglugerðar nr. 106/2013, um hrognkelsaveiðar, með síðari breytingum, sem sett var samkvæmt heimild í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að allar veiðar á grásleppu í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema með sérstöku leyfi Fiskistofu. Veiðum á grásleppu er samkvæmt því stjórnað með leyfum en ekki úthlutun aflamarks eða annarra aflaheimilda.
Það er mat ráðuneytisins að ákvæði 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, beri að skýra með hliðsjón af þeim tilgangi sem byggt er á í ákvæðum laga og stjórnvaldsreglna um úthlutun byggðakvóta, sbr. m.a. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og stjórnvaldsreglur sem settar eru með heimild í ákvæðinu, sem er að styðja við og efla byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna tilgreindra aðstæðna í sjávarútvegi. Ákvæðin eru sett í þeim tilgangi að tryggja eins og unnt er að afli sem veiðist á grundvelli aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt lögunum komi til löndunar og vinnslu til að efla atvinnulíf í byggðarlögunum.
Landaður grásleppuafli, þar á meðal grásleppuhrogn, telst til landaðs botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 665/2013 en grásleppa telst vera botnfiskaflategund sem gefinn hefur verið út þorskígildisstuðull fyrir, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Í 2. gr. reglugerðar nr. 667/2013, um þorskígildisstuðla samkvæmt 19. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, fiskveiðiárið 2013/2014, kemur fram, að grásleppa hafi þorskígildisstuðul sem er 0,79. Grásleppuhrogn eru umreiknuð í heila grásleppu samkvæmt slægingarstuðli og verðmæti hrogna þannig umreiknuð í heila grásleppu sem aftur er hlutfall af verðmæti þorsks. Einnig er nú skylt að landa öllum hrognkelsum sem veiðast en ekki aðeins grásleppuhrognum, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 468/2013, um nýtingu afla og aukaafurða. Um grásleppuafla, þ.m.t. grásleppuhrogn, gilda sömu reglur og um annan afla sem landað er til vinnslu í byggðarlögum. M.a. er skylt að færa til vigtunar allan grásleppuafla, sbr. 1. og 6. gr. reglugerðar nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, en niðurstöður vigtunar eru skráðar í GAFL, aflaskráningarkerfi Fiskistofu og löndunarhafna. Þá er veiðigjald lagt á grásleppuafla, sbr. 7. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, með síðari breytingum.
Í ritinu Hafrannsóknir - Marine research in Iceland nr. 176 - Nytjastofnar sjávar 2013/2014 - Aflahorfur fiskveiðiárið 2014/2015 sem útgefið er af Hafrannsóknastofnun er í kafla 2.22 á bls. 64 m.a. fjallað um hrognkelsi. Í kafla 2.22.2 á bls. 64 segir m.a.: "2.22.2. Stofnmæling. Við mat á þróun stofnstærðar er stuðst við upplýsingar úr stofnmælingu botnfiska í mars (SMB) [...]"
Einnig er vísað til bréfs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 21. febrúar 2012, í máli nr. SLR12010123 til Fiskistofu en þar kemur fram að við val fisktegunda samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012, skuli miðað við að þar hafi gildi eftirtaldar fisktegundir sem koma fram í reglugerðum um veiðigjald og þorskígildi: "[...] Grásleppa".
Ennfremur skal áréttað að í ákvæði 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, kemur fram að með vinnslu skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar sé átt við flökun, flatningu, frystingu, söltun eða herslu en söltun og frysting eru vinnsluaðferðir sem eiga við um grásleppu.
Þá er vakin athygli á að með bréfi, dags. 31. október 2014, lauk umboðsmaður Alþingis umfjöllun sinni um mál nr. 7309/2012 sem vísað er til í stjórnsýslukæru í máli þessu. Þar kemur fram að umboðsmaður gerir ekki athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að grásleppa teljist með lönduðum botnfiskafla við úthlutun byggðakvóta og til að uppfylla skilyrði um vinnsluskyldu.
Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að við úthlutun byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi fiskveiðiárið 2013/2014 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, hafi verið rétt að reikna með lönduðum botnfiskafla samkvæmt tilvitnuðu ákvæði landaðan grásleppuafla, þ.m.t. grásleppuhrogn og einnig við mat á hvort uppfyllt hafi verið skilyrði um löndun afla til vinnslu innan byggðarlags eða sveitarfélags umrætt fiskveiðiár samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 665/2013, sbr. og auglýsing (IX) nr. 462/2014.
IV. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að breyta úthlutun af byggðakvóta Kópaskers í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Fróða ÞH-81 (2438) en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. júní 2014. Jafnframt staðfestir ráðuneytið ákvarðanir Fiskistofu, dags. 5. júní 2014, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátanna Margrétar ÞH-55 (2157), Þorbjargar ÞH-25 (2588), Kötluvíkur ÞH-31 (6047), Helgu Sæm ÞH-78 (6945), Rósu í Brún ÞH-50 (6347) og Blika ÞH-53 (6680).
Úrskurður þessi er kveðinn upp í 6 samritum, einu fyrir hvern málsaðila
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.
Úrskurður
Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. júní 2014, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Fróða ÞH-81, skipaskrárnúmer 2438.
Jafnframt staðfestir ráðuneytið ákvarðanir Fiskistofu, dags. 5. júní 2014, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátanna Margrétar ÞH-55, skipaskrárnúmer 2157, Þorbjargar ÞH-25, skipaskrárnúmer 2588, Kötluvíkur ÞH-31, skipaskrárnúmer 6047, Helgu Sæm ÞH-78, skipaskrárnúmer 6945, Rósu í Brún ÞH-50, skipaskrárnúmer 6347 og Blika ÞH-53, skipaskrárnúmer 6680.
Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Jóhann Guðmundsson
Sigríður Norðmann