Ákvörðun Byggðastofnunar um að hafna beiðni um afhendingu matsblaðs vegna úthlutunar aflamarks.
Stjórnsýslukæra
Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 7. febrúar 2020, sem barst ráðuneytinu 11. sama mánaðar, frá [A hf.],[ B, lögmanni] f.h. [C ehf.], þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Byggðastofnunar, dags. 27. janúar 2020, um að hafna beiðni kæranda um afrit af gögnum sem stuðst var við þegar ákvörðun Byggðastofnunar var tekin um úthlutun aflamarks á Flateyri í Ísafjarðarbæ samkvæmt 10. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Kæruheimild er í 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann skuli tilkynnt málsaðila og rökstudd. Einnig kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að kæra megi synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.
Kröfur kæranda
Kærandi krefst þess að félaginu verði afhent afrit af þeim matsgögnum sem stuðst var við er ákvörðun var tekin 17. desember 2019 um úthlutun aflamarks Byggðastofnunar á Flateyri samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006, þ.e. matsblaði sem ekki hefur enn verið afhent kæranda.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 9. ágúst 2019, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 10. sama mánaðar, auglýsti stjórn Byggðastofnunar eftir umsóknum um úthlutun aflaheimilda á Flateyri í Ísafjarðarbæ samkvæmt 10. gr. a í lögum nr. 116/2006 en einnig var auglýsingin birt á heimasíðu Byggðastofnunar 9. ágúst 2019. Umsóknarfrestur var til kl. 12:00 föstudaginn 30. ágúst 2019.
Kærandi sótti ásamt fjórum öðrum félögum um úthlutun aflaheimilda með umsókn til Byggðastofnunar, dags. 30. ágúst 2019. Einnig barst Byggðastofnun umsókn frá fjórum öðrum útgerðaraðilum og samstarfsaðilum á Flateyri í Ísafjarðarbæ. Eftir matsferli innan Byggðastofnunar var tillaga um afgreiðslu umsókna send Ísafjarðarbæ til umsagnar.
Stjórn Byggðastofnunar samþykkti þann 17. desember 2019 að hafna umsókn [C ehf.] og samstarfsaðila en að ganga til samninga við tiltekinn umsækjanda og samstarfsaðila og var ákvörðunin tilkynnt kæranda með tölvubréfi sama dag.
Með tölvubréfi, dags. 29. desember 2019, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.
Með tölvubréfi, dags. 6. janúar 2020, svaraði Byggðastofnun beiðni kæranda um rökstuðning. Þar sagði m.a. að aflamark Byggðastofnunar byggi á 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og reglugerð nr. 643/2016, um meðferð og ráðstöfun aflaheimilda samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í lagagreininni segi m.a: „Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. til að styðja við byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður.“ Í 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016 komi fram að við mat umsókna frá einstökum byggðarlögum verði byggt á eftirfarandi atriðum: Trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi. Fjölda heilsársstarfa fyrir karla og konur sem skapast eða verður viðhaldið. Sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu. Öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina. Jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélag. Traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda. Að umsóknarfresti liðnum hafi verið fundað með umsækjendum, bæði símleiðis og beint og þeim boðið að skýra umsóknir sínar nánar eftir því sem þeir óskuðu. Í ferlinu hafi einnig verið kannaðir möguleikar til samstarfs milli umsækjenda og hvort til álita kæmi að skipta aflamarkinu á milli þeirra. Það hafi ekki skilað árangri. Stjórn Byggðastofnunar hafi fjallað um málið á tveimur fundum og tekið ákvörðun á fundi sínum þann 17. desember 2019 að höfðu samráði við Ísafjarðarbæ eins og mælt sé fyrir um í 6. gr. reglugerðarinnar. Byggðastofnun hafi metið allar umsóknir út frá áðurnefndum mælikvörðum þar sem styrkleikar og veikleikar allra umsækjenda í hverjum þætti hafi verið metnir sérstaklega og niðurstaða matsins hafi ráðið tillögu til stjórnar stofnunarinnar. Það hafi verið mat stjórnar Byggðastofnunar að umsókn tiltekins félags og samstarfsaðila þess væri best til þess fallin að ná fram þeim markmiðum sem að væri stefnt með úthlutuninni. Sú umsókn væri trúverðugust og líklegust til að skila flestum heilsársstörfum í byggðarlaginu Flateyri auk þess að efla vinnusóknarsvæðið í heild. Litið hafi verið til traustrar rekstrarsögu umsækjenda og fyrirsvarsmanna þeirra og þá ekki síst reynslu af rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi á Vestfjörðum um árabil. Það hafi verið eindregin niðurstaða stjórnar Byggðastofnunar að ganga til samninga við umrætt félag og samstarfsaðila þess. Það hafi verið mat Byggðastofnunar að þannig nýtist aflamarkið best og stuðli að mestri atvinnuuppbyggingu og stöðugleika á Flateyri og vinnusóknarsvæðinu í heild. Vegna umræðu um hæfi í kjölfar ákvörðunarinnar sé rétt að árétta að eignarhlutur Byggðastofnunar í [D hf.] sem aftur eigi hlut í einu af þeim fjórum fyrirtækjum sem stjórn Byggðastofnunar hafi lagt til að samið yrði við komi ekki í veg fyrir að stofnunin taki þessa ákvörðun sem henni sé falið að taka samkvæmt lögum. (D hf.) sé átthagafjárfestir og hafi þann tilgang samkvæmt samþykktum félagsins að taka þátt í stofnun og starfsemi annarra félaga sem starfrækt séu á grundvelli arðsemissjónarmiða og/eða séu mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum. (D hf.) greiði ekki arð til hluthafa sinna og þeim fjármunum sem kunni að verða til í rekstri [D hf.] sé ráðstafað til verkefna á svæðinu í samræmi við tilgang félagsins. Sambærileg félög séu starfandi í öðrum landshlutum. Það sé hlutverk Byggðastofnunar að stuðla að framgangi atvinnulífs á veikari svæðum þar sem skert aðgengi að lánsfé hafi hamlað rekstri. Þau tengsl sem vísað hafi verið til í umræðunni eigi að líkindum við um mikinn meirihluta þeirra sem komi að sjávarútvegi á svæðinu, m.a. um félög tengd öðrum umsækjendum um aflamarkið á Flateyri, þ.á.m. einn samstarfsaðila kæranda og hafi engin áhrif haft á þá ákvörðun sem hér hafi verið tekin. Hún sé tekin af stjórn Byggðastofnunar að vandlega athuguðu máli og byggi á þeim forsendum og viðmiðum sem reglugerð nr. 643/2016 kveði á um. Þá valdi það ekki vanhæfi stjórnar Byggðastofnunar að starfsmaður stofnunarinnar, sem hafi komið að undirbúningi ákvörðunar innan hennar, sitji í stjórn sama eignarhaldsfélags.
Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með tölvubréfi, dags. 17. janúar 2020, óskaði [A hf.,] [B], lögmaður eftir að fá send afrit af öllum gögnum málsins, þ.m.t. þeim matsgögnum sem stuðst hafi verið við er ákvörðun var tekin um úthlutun aflamarksins.
Með tölvubréfi, dags. 27. janúar 2020, svaraði Byggðastofnun beiðni lögmanns kæranda. Þar segir að meðfylgjandi séu þau gögn sem tengist ákvörðun Byggðastofnunar um úthlutun aflamarks á Flateyri sem Byggðastofnun telji sér heimilt að afhenda lögmanni kæranda. Um sé að ræða auglýsingar, umsóknir aðila, fundargerðir aflamarksnefndar og stjórnar Byggðastofnunar, auk rökstuðnings stofnunarinnar. Kröfu um afhendingu matsblaða sé hafnað og telji Byggðastofnun 14 daga frestinn til að bera þá ákvörðun undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með vísan til 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefjast 27. janúar 2020. Rökstuðningurinn sé sá að um sé að ræða vinnuskjöl í skilningi 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð
Með stjórnsýslukæru, dags. 7. febrúar 2020, sem barst ráðuneytinu 11. sama mánaðar, kærði [A hf.], [B], lögmaður f.h. [C ehf.] til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvörðun Byggðastofnunar, dags. 27. janúar 2020, um að hafna beiðni kæranda um afhendingu þeirra gagna sem Byggðastofnun taldi sér ekki heimilt að afhenda, þ.e. matsblaða sem stofnunin taldi vera vinnuskjöl í skilningi 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi krefjist þess að félaginu verði afhent afrit af matsgögnum sem stuðst hafi verið við er ákvörðun var tekin um úthlutun aflamarks Byggðastofnunar á Flateyri. Kærandi hafi sótt um úthlutun aflamarks Byggðastofnunar á Flateyri en ekki fengið úthlutað. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Byggðastofnunar þann 29. desember 2019. Í rökstuðningi Byggðastofnunar, dags. 6. janúar 2020, hafi verið vísað til 10. gr. a laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 643/2016. Einnig hafi komið þar fram að Byggðastofnun hafi metið allar umsóknir út frá þeim mælikvörðum sem komi fram í 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016 þar sem styrkleikar og veikleikar allra umsækjenda í hverjum þætti hafi verið metnir sérstaklega og niðurstaða matsins ráðið tillögu til stofnunarinnar. Af hálfu kæranda hafi verið óskað eftir gögnum málsins, þ.m.t. þeim matsgögnum sem stuðst hafi verið við er ákvörðun hafi verið tekin um úthlutun aflamarksins 17. desember 2019. Kærandi hafi fengið afhent gögn málsins 27. janúar 2020, að undanskildum umbeðnum matsblöðum. Afhendingu þeirra hafi verið synjað með vísan til 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun Byggðastofnunar sé kærð í því skyni að kærandi geti kynnt sér gögn sem réðu ákvörðun um úthlutun aflamarksins. Það sé meginregla stjórnsýsluréttar að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varði, sbr. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður Alþingis hafi fjallað um þennan rétt í tengslum við úthlutun byggðakvóta, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3848/2003. Í 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um gögn sem séu undanþegin upplýsingarétti málsaðila. Réttur aðila máls til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnuskjala sem stjórnvald hafi ritað til eigin afnota, sbr. 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gerð vinnuskjala sé liður í ákvörðunartöku um mál og hafi oft að geyma vangaveltur um mál eða uppkast að svari. Sérstaklega væri tekið fram í 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að aðili máls eigi þó rétt á vinnuskjölum ef þau hafi að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að eldri upplýsingalögum nr. 50/1996 sé hugtakið vinnuskjal skýrt nánar. Í athugasemdunum komi fram að vinnuskjöl verði ekki endilega að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Einkum sé átt við skjöl sem stjórnvald riti til eigin afnota og skjöl sem fari á milli deilda, skrifstofa eða að öðru leyti á milli starfsmanna hjá sama stjórnvaldi. Á hinn bóginn teljist gögn, sem fari á milli tveggja stjórnvalda ekki til vinnuskjala enda þótt bréfaskiptin séu liður í meðferð máls og stjórnvöldin standi í nánum tengslum hvort við annað. Þá geti þau skjöl ekki talist vinnuskjöl sem stafi frá öðrum en hlutaðeigandi stjórnvaldi enda þótt slík gögn hafi orðið til að frumkvæði stjórnvaldsins, t.d. álit eða skýrslur sérfræðinga o.s.frv. Ennfremur falli gögn, sem verði til við skráningu upplýsinga um málsatvik, sbr. 23. gr. upplýsingalaga, ekki undir undanþáguna. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3019). Í athugasemdunum komi einnig fram að ekki sé hægt að telja með tæmandi hætti hvaða gögn teljist til vinnuskjala en við nánari skýringu þess verði að líta sérstaklega til þess hvort upplýsingarnar varði atriði sem kunni að breytast eða hafi breyst við nánari skoðun eða umfjöllun. Þá komi fram í athugasemdunum að með orðalaginu „upplýsingum sem ekki verður aflað annars staðar frá“í ákvæðinu sé einkum átt við upplýsingar um staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum sé ekki að finna annars staðar en kunni að hafa vegið þungt við ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu séu einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3020.) Umboðsmaður Alþingis hafi við afmörkun á undanþágu 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 talið þessar athugasemdir hafa þýðingu, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6073/2010. Ljóst sé samkvæmt framansögðu að þau skjöl geti ein talist vinnuskjöl í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem ætla megi að kunni að breytast í meðförum stjórnvalds áður en endanleg ákvörðun verði tekin. Í rökstuðningi Byggðastofnunar komi fram að niðurstaða mats hafi ráðið ákvörðun um úthlutun aflamarks. Það sé því ljóst að umbeðin matsblöð geymi meginforsendu ákvörðunar Byggðastofnunar. Matsblöðin séu ómissandi til skýringar á ákvörðuninni og geymi í raun endanlega ákvörðun um afgreiðslu málsins. Ákvæði 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé undantekning frá upplýsingarétti málsaðila og beri því að túlka þröngt. Í rökstuðningi ákvörðunar beri að gera grein fyrir því hvernig sá umsækjandi, sem hafi orðið fyrir valinu, hafi fallið að þeim sjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar matinu, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Án umbeðinna gagna sé kæranda ófært að meta réttmæti ákvörðunar Byggðastofnunar. Í rökstuðningi Byggðastofnunar víki stofnunin sérstaklega að hæfi sínu vegna eignarhalds á einum umsækjanda. Með hliðsjón af þeirri staðreynd séu enn ríkari ástæður til að fá aðgang að umbeðnum matsblöðum. Engin gögn liggi fyrir um hvaða sjónarmið hafi ráðið einkunnagjöf, hver einkunn kæranda hafi verið og hverjar einkunnir annarra voru til samanburðar. Kærandi hafi hagsmuni af því að kynna sér umbeðin gögn og bera saman. Umsækjendur sem óski eftir fá ráðstafað opinberum gæðum verði að vera undir það búnir að stjórnsýslu- og upplýsingalög gildi um slíkar úthlutanir. Einkunnablöð eða matsblöð teljist ekki til vinnuskjala, sbr. 10. lið úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015 sem hafi verið staðfestur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. A-732/2015. Kærandi óski eftir upplýsingum er varði úrvinnslu Byggðastofnunar á umsókn félagsins. Það hafi ekki verið rökstutt að önnur ákvæði um takmörkun á upplýsingarétti geti átt við. Kærandi hafi ríka hagsmuni af því að fá aðgang að umræddum gögnum og því verði að tryggja honum aðgang að öllum gögnum málsins. Kæranda sé nauðsynlegt að afla umbeðinna matsblaða til að geta metið réttmæti ákvörðunar Byggðastofnunar og séð á hvaða grundvelli hún hafi verið tekin. Þá verði kærandi að geta ákveðið hvort kæra eigi ákvörðunina og rökstutt kæruna, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 4095/2004 og 5890/2010.
Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Rökstuðningur Byggðastofnunar vegna ákvörðunar um úthlutun aflamarks Byggðastofnunar á Flateyri, dags. 6. janúar 2020. 2) Beiðni um gögn málsins, dags. 17. janúar 2020. 3) Synjun Byggðastofnunar um afhendingu gagna, dags. 27. janúar 2020.
Með bréfi, dags. 19. febrúar 2020, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Byggðastofnunar um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem stjórn Byggðastofnunar kynni að hafa um málið. Þess var sérstaklega óskað að Byggðastofnun afhenti ráðuneytinu afrit af hinum umkröfðu gögnum til þess að ráðuneytið gæti metið réttmæti synjunar stofnunarinnar um afhendingu þeirra.
Með bréfi, dags. 24. febrúar 2020, barst ráðuneytinu umsögn stjórnar Byggðastofnunar. Þar segir m.a. að ákvörðun Byggðastofnunar um að synja kæranda um aðgang að einu skjali hafi grundvallast á því að um væri að ræða vinnuskjal í skilningi 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skjalið samanstandi af upplýsingum og mati starfsmanna Byggðastofnunar á umsækjendum um umrætt aflamark á Flateyri og sé tekið saman sem stuðningsgagn fyrir stjórn stofnunarinnar við töku ákvörðunar um úthlutun aflamarksins. Því sé sérstaklega mótmælt að skjalið ráði ákvörðun um úthlutun aflamarks. Samskipti lögmannsins og Byggðastofnunar hafi haldið áfram eftir að málið var kært til ráðuneytisins og hafi þau samskipti leitt til þess að lögmanninum og umbjóðanda hans hafi verið afhent rafrænt afrit matsblaðs Byggðastofnunar sem sent hafi verið Ísafjarðarbæ, en sveitarfélagið sé umsagnaraðili vegna ákvörðunar um úthlutun aflamarks samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006. Tölvubréf sem sýni umrædd samskipti og afrit matsblaðsins fylgi með umsögn Byggðastofnunar. Afhending matsblaðsins hafi grundvallast á því að það hafði þegar orðið opinbert gagn hjá sveitarfélaginu og því sé rétt og eðlilegt að félagið fái það afhent. Áður en matsblaðið var afhent Ísafjarðarbæ til umsagnar hafi m.a. verið fjarlægðar úr því fjárhaglegar upplýsingar um umsækjendur sem Byggðastofnun hafði aflað sér úr skrám Creditinfo og hafi ekki heimild til að láta frá sér. Í matsblaðinu sé farið yfir umsóknarferlið, gagnaöflun og mat starfsmanna Byggðastofnunar á einstökum umsóknum auk þess sem fram komi niðurstaða aflamarksnefndar Byggðastofnunar og tillaga hennar til stjórnar stofnunarinnar um úthlutun aflamarksins. Telja verði fullvíst að félagið geti á þeim grunni metið réttmæti ákvörðunar Byggðastofnunar og séð á hvaða grundvelli hún hafi verið tekin.
Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Byggðastofnunar í ljósritum: 1) Tölvubréf Byggðastofnunar, dags. 13. febrúar 2020. 2) Matsblað Byggðastofnunar til Ísafjarðarbæjar, dags. 3. desember 2019.
Með bréfi, dags. 5. mars 2020, sendi ráðuneytið [A hf.], [B,] lögmanni f.h. [C ehf.] ljósrit af umsögn Byggðastofnunar, dags. 24. febrúar 2020 og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina og senda ráðuneytinu frekari gögn.
Með bréfi, dags. 7. apríl 2020, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá [A hf.], [B], lögmanni f.h. [C ehf.] Þar segir m.a. að kærandi telji að enn eigi eftir að afhenda tiltekið matsskjal sem tekið hafi verið saman af Byggðastofnun. Samkvæmt gögnum sem kærandi hafi fengið aðgang að hafi verið útbúið sérstakt matsblað þar sem mismunandi þáttum í umsóknum umsækjenda hafi verið gefin einkunn. Virðist sem um sé að ræða excel-skjal þar sem mismunandi þáttum hafi verið gefið mismunandi vægi. Þetta sjáist víða í fundargerðum Byggðastofnunar. Í fundargerð stjórnar Byggðastofnunar frá 15. nóvember 2020, segi m.a.: „Fyrir fundinum liggur minnisblað forstjóra þar sem lagt er til að honum verði falið að ganga til samninga við [...] og samstarfsaðila vegna 400 þorskígildistonna til næstu sex fiskveiðiára á grundvelli umsóknar félaganna og öðrum umsóknum verði hafnað. Þá liggja fyrir matsblöð allra umsækjenda og samantekt á þeim.“Í fundargerð aflamarksnefndar Byggðastofnunar frá 29. nóvember 2019, segi m.a.: „Rætt var um matsskjal vegna umsókna um Aflamark á Flateyri. Setja þarf inn betri aðgreiningu í töflu v/störf, einnig bent á að setja inn 0 þar sem eyða er í töflu. Yfirfara og laga þarf texta í töflu þannig að hún verði skýrari.“ Í fundargerð stjórnar Byggðastofnunar frá 17. desember 2019 segi m.a.: „Fyrir fundinum liggur minnisblað [...] um umsóknir um Aflamark Byggðastofnunar á Flateyri auk matsblaða með nánari samanburði umsókna ásamt einkunnagjöf og nánari útskýringum á mati umsókna.“Niðurstaða þessa matsskjals hafi svo ráðið tillögu til stjórnar. Þá segi í rökstuðningi Byggðastofnunar: „Byggðastofnun mat allar umsóknir út frá áðurnefndum mælikvörðum þar sem styrkleikar og veikleikar allra umsækjenda í hverjum þætti voru metnir sérstaklega og niðurstaða matsins réði tillögu til stjórnar stofnunarinnar.“Í því minnisblaði sem afhent hafi verið og sent hafi verið Ísafjarðarbæ sé ekkert sem sé í samræmi við þá lýsingu sem fram komi í framangreindum fundargerðum um matsblöð og einkunnir. Af þeim sökum sé ljóst að kæranda hafi ekki verið afhent öll gögn málsins. Sé krafa um afhendingu umrædds matsskjals ítrekuð enda geymi matsblaðið meginforsendu ákvörðunar Byggðastofnunar. Matsblaðið sé ómissandi til skýringar á ákvörðuninni og geymi í raun endanlega ákvörðun um afgreiðslu málsins.
Eftirtalin gögn fylgdu bréfi lögmanns kæranda, dags. 7. apríl 2020: 1) Fundargerð 478. fundar stjórnar Byggðastofnunar, dags. 15. nóvember 2019. 2) Fundargerð aflamarksnefndar Byggðastofnunar, dags. 29. nóvember 2019. 3) Fundargerð 479. fundar stjórnar Byggðastofnunar, dags. 17. desember 2019. 4) Rökstuðningur Byggðastofnunar, dags. 6. janúar 2020.
Með tölvubréfi, dags. 8. apríl 2020, sendi ráðuneytið Byggðastofnun ljósrit af athugasemdum lögmanns kæranda og óskaði eftir tilteknum skýringum.
Með bréfi, dags. 15. apríl 2020, barst ráðuneytinu svar Byggðastofnunar en þar er ítrekað það sem kom fram í umsögn stofnunarinnar, dags. 24. febrúar 2020. Einnig kemur þar fram að umrætt skjal innihaldi ekki endanlega afgreiðslu málsins enda hvorki umrædd nefnd né starfsmenn til þess bærir að taka hana. Það matsblað sem hafi verið afhent lögmanni kæranda og Ísafjarðarbæ innihaldi allar sömu upplýsingar og umrætt excel-skjal utan þess að tölusettar einkunnir og fjárhagslegar upplýsingar um umsækjendur hafi verið fjarlægðar. Kærandi hafi því fengið aðgang að öllum gögnum sem hafi ráðið niðurstöðu umrædds máls og öllum röksemdum sem stjórn Byggðastofnunar hafi byggt ákvörðun sína á. Mat stjórnar Byggðastofnunar á þessum gögnum og röksemdum standi óhaggað og ákvörðunin hafi verið tekin eftir lögformlegu umsóknarferli þar sem vel hafi verið vandað til verka.
Með tölvubréfi, dags. 28. apríl 2020, sendi ráðuneytið lögmanni kæranda ljósrit af svari Byggðastofnunar og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við það.
Með tölvubréfi, dags. 28. apríl 2020, bárust ráðuneytinu athugasemdir lögmanns kæranda. Þar segir m.a. að ítrekuð sé krafa kæranda um afhendingu umrædds excel-skjals. Aðeins þannig sé félaginu fært að meta lögmæti ákvörðunar Byggðastofnunar. Því sé mótmælt að fjárhagsupplýsingar sem fram komi í excel-skjalinu réttlæti synjun á afhendingu þess í heild sinni. Auk þess sé því mótmælt að upplýsingar um fjárhagsstöðu umsækjenda teljist trúnaðarupplýsingar. Um sé að ræða upplýsingar sem starfsmenn Byggðastofnunar hafi sótt úr opinberum gögnum hjá Creditinfo. Þær upplýsingar séu kæranda sem og öllum öðrum aðgengilegar og geti því ekki undir nokkrum kringumstæðum talist til trúnaðarupplýsinga. Upplýsingarnar séu opinberar og ekki háðar nokkrum trúnaði. Með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins hafi fylgt m.a. ársreikningur þess félags sem fékk úthlutun aflamarks. Samkvæmt reikningnum hafi tap verið á rekstri fyrirtækisins undanfarin ár þrátt fyrir að félagið hafi haft afnotarétt af 500 tonna árlegu aflamarki Byggðastofnunar á Suðureyri. Eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um tiltekna fjárhæð samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins. Í ársreikningi fyrirtækisins komi fram að verði ekki viðsnúningur í rekstri félagsins sé vafi um rekstrarhæfi þess til framtíðar. Án excel-skjalsins sé kæranda ókleift að átta sig á því hvaða áhrif þessi staðreynd hafi haft á einkunnagjöf Byggðastofnunar. Kærandi ítreki að án einkunnablaðsins sé félaginu ókleift að meta lögmæti ákvörðunar Byggðastofnunar. Eigi það bæði við einkunn um fjárhagslega stöðu auk annarra atriða sem litið hafi verið til. Niðurstaða einkunna ásamt upplýsingum um sundurliðun mismunandi þátta sé forsenda þess að kærandi geti lagt mat á réttmæti ákvörðunar Byggðastofnunar. Sérstakt tilefni sé til að verða við kröfu kæranda um aðgang að einkunnablaðinu þar sem Byggðastofnun sé hluthafi í umræddu félagi, í gegnum (D hf.), eignarhaldsfélag, sem sé næst stærsti hluthafi í umræddu félagi. Byggðastofnun hafi því haft augljóslegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af því að forða félaginu frá gjaldþroti og tryggja viðsnúning í rekstri þess. Því sé hafnað að aðgangur að minnisblaði sem sent hafi verið Ísafjarðarbæ komi í stað aðgangs að einkunnaskjalinu. Í minnisblaðinu sé ekki unnt að ráða vægi mismunandi þátta á einkunnagjöf né heildareinkunn hvers umsækjanda. Upplýsinga sem fram komi í excel-skjalinu verði ekki aflað annars staðar frá. Í umsögn Byggðastofnunar sé afhendingu skjalsins hafnað með vísan til 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samhengisins vegna sé nauðsynlegt að taka upp orðalag ákvæðisins: „16. gr. Gögn undanþegin upplýsingarétti. Réttur aðila máls til aðgangs að gögnum tekur ekki til. [...] 3. Vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Þó á aðili aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá.“ Með vísan til 2. málsl. 3. tl. 1. mgr. 16. gr. laganna sé á því byggt af hálfu kæranda að óheimilt sé að synja um aðgang að skjalinu. Kærandi geti ekki aflað upplýsinga um einkunnagjöf Byggðastofnunar með öðrum hætti en með aðgangi að umræddu einkunnaskjali í heild eða a.m.k. að hluta. Samkvæmt því eigi undanþágan í 3. tl. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki við í málinu. Við túlkun umrædds ákvæðis beri að hafa í huga að um sé að ræða frávik frá meginreglunni sem komi fram í 15. gr. laganna um aðgang aðila að öllum gögnum máls og beri af þeim sökum að skýra undanþáguákvæðið þröngt.
Með tölvubréfi, dags. 21. september 2020, ítrekaði ráðuneytið beiðni um að því yrði sent afrit af umræddu matsblaði.
Með tölvubréfi, dags. 21. september 2020, barst ráðuneytinu ljósrit af umræddu matsblaði.
Með tölvubréfi, dags. 7. október 2020, til lögmanns kæranda vísaði ráðuneytið til þess máls sem hér er til umfjöllunar nr. ANR20020178. Einnig vísaði ráðuneytið til stjórnsýslukæru, dags. 8. apríl 2020, frá [A hf.], [B], lögmanni f.h. [C ehf.] og þriggja samstarfsaðila félagsins vegna umsóknar um úthlutun aflamarks Byggðastofnunar samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. mál í málaskrá ráðuneytisins nr. ANR20040033. Þá óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um hvort C ehf. væri eini málsaðilinn að beiðni um afhendingu þess matsblaðs sem krafist er afhendingar á fyrrnefndu stjórnsýslukærunni, sbr. mál nr. ANR20020178 eða hvort öll þau fjögur félög sem eru aðilar að síðarnefndu stjórnsýslukærunni, sbr. mál nr. ANR20040033 séu einnig aðilar að beiðni um afhendingu umrædds matsblaðs sem krafist er afhendingar á í máli nr. ANR20020178.
Með tölvubréfi, dags. 9. október 2020, svaraði lögmaður kæranda framangreindu erindi. Þar segir að C ehf. hafi einn óskað eftir gögnum málsins við Byggðastofnun á sínum tíma og fengið á grundvelli beiðni sinnar aðgang að hluta gagnanna. Undanskilið afhendingu hafi verið umrætt matsblað og hafi kæra í þessu máli því verið send ráðuneytinu í kjölfarið. Kærufrestur vegna synjunarinnar hafi verið tvær vikur samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærufrestur vegna ákvörðunar Byggðastofnunar um úthlutun aflamarks hafi verið þrír mánuðir skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Niðurstaða í fyrra kærumálinu hafi ekki verið fyrirliggjandi þegar sú kæra hafi verið lögð fram. Að þeirri kæru standi allir þeir sem voru aðilar að umsókninni með kæranda um aflamark til Byggðastofnunar. Einnig segir í framangreindu tölvubréfi að þrátt fyrir að C ehf. standi einn að kærumálinu vegna matsblaðsins þá sé kæran lögð fram í þágu allra umsækjenda um aflamark Byggðastofnunar. C ehf. eigi rétt til aðgangs að gögnum málsins óháð því hvort aðrir meðumsækjendur hafi verið formlegir aðilar að upphaflegri gagnabeiðni og kærumálinu. Hvergi í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sé áskilnaður um samaðild líkt og gildi í lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála fyrir dómstólum.
Með bréfum, dags. 23. nóvember 2020, veitti ráðuneytið þeim aðilum sem stóðu að umsókn með kæranda og þeim aðilum sem fengu úthlutað aflamarki samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006 með ákvörðunar stjórnar Byggðastofnunar, dags. 17. desember 2019, færi á að koma að sjónarmiðum sínum og skriflegum athugasemdum vegna framkominnar kröfu kæranda í þessu máli. Frestur til þess var veittur til og með föstudagsins 11. desember 2020.
Með tölvubréfi, dags. 23. nóvember 2020, sendi ráðuneytið einnig tilkynningu til lögmanns kæranda þar sem upplýst var um framangreind tölvubréf og stöðu málsins.
Með tölvubréfi, dags. 10. desember 2020, barst ráðuneytinu svar frá þeim aðilum sem fengu úthlutað umræddu aflamarki með ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar frá 17. desember 2019. Þar segir að sá hluti gagna sem hafi verið nauðsynlegt að afla sérstaks samþykkis þeirra fyrir til handa Byggðastofnun sem stofnunin hafi nýtt til að leggja mat á fjárhagsstöðu aðila hafi umrætt samþykki eingöngu verið veitt stofnuninni og hafi það verið og sé skilningur þeirra að þær yrðu ekki birtar. Að öðru leyti séu umræddir aðilar ekki mótfallnir því að upplýsingar um mat stofnunarinnar á umsóknum verði afhentar ef ráðuneytið telur æskilegt og ástæðu til.
Einnig barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 18. desember 2020, svar frá einu félagi sem stóð að umsókn með kæranda um aflamarkið en þar segir að félagið geri ekki athugasemdir við að umrætt matsblað verði afhent C ehf.
Ekki bárust skriflegar athugasemdir frá öðrum aðilum vegna umrædds tölvubréfs, dags. 23. nóvember 2020.
Rökstuðningur
I. Ákvæði 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða er svohljóðandi:
„Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít, ufsa, löngu, keilu og gullkarfa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við þorskígildi og skulu þær dregnar frá með sama hætti og greinir í 3. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Byggðastofnunar, að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, svo sem efni samnings, skilyrði og tímalengd.“
Framangreint ákvæði var lögfest með lögum nr. 72/2016, um breytingu á lögum nr. 116/2006 en samkvæmt því er gert ráð fyrir að ráðherra ákvarði magn aflaheimildanna af því aflamarki sem dregið er frá heildaraflamarki samkvæmt 3. mgr., sbr. 5. mgr. 8. gr. laganna.
Ráðherra hefur sett reglugerð samkvæmt heimild í framangreindu ákvæði sem er reglugerð nr. 643/2016, um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006. Þar segir m.a. í 1. gr. að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflaheimildir, sem ráðherra ákvarði samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, sbr. 10. gr. a laga nr. 116/2006. Val á byggðarlögum sem komi til álita skuli byggja á tilteknum þáttum, þ.e. að byggðarlag sé í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, íbúar byggðarlags séu færri en 400, íbúum hafi fækkað sl. 10 ár, akstursfjarlægð frá byggðakjarna sem telji meira en 1.000 íbúa sé a.m.k. 20 km., byggðakjarninn tilheyri vinnusóknarsvæði sem telji færri en 10.000 íbúa, hlutfall starfa við veiðar og vinnslu í sjávarbyggðinni sé a.m.k. 20% allra starfa og að aflamark Byggðastofnunar skipti verulegu máli fyrir framtíð byggðarlagsins að mati stjórnar Byggðastofnunar. Einnig segir þar að stjórn Byggðastofnunar taki ákvörðun um endanlegt val byggðarlaga á grundvelli greiningar á stöðu byggðarlaga og innkominna umsókna um samstarf. Í 2. gr. eru ákvæði um skiptingu aflamarks en þar kemur fram að skipting þess aflamarks sem kemur í hlut byggðarlags samkvæmt reglugerðinni skuli fara fram á grundvelli samninga Byggðastofnunar, fiskvinnslu og útgerðaraðila. Við mat umsókna frá einstökum byggðarlögum verði byggt á mati á trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi, fjölda heilsársstarfa fyrir karla og konur sem skapist eða verði viðhaldið, sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir séu í byggðarlaginu, öflugri starfsemi til lengri tíma sem dragi sem mest úr óvissu um framtíðina, jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélag og traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda. Þá segir þar að Byggðastofnun ákveði tímalengd samninga um nýtingu aflaheimilda skv. reglunum sem skuli þó ekki vera lengri en til 6 ára.
II. Í máli þessu er til úrlausnar beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem telja verður að hafi almennt efnislega þýðingu og tengsl við úrlausnarefni málsins. Samkvæmt því er synjun Byggðastofnunar um að afhenda gögnin kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ráðuneytið fer með málefni samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
III. Um aðgang aðila máls að gögnum stjórnsýslumáls er fjallað í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem er svohljóðandi:
„Upplýsingaréttur. Aðili máls á rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. [...].“
Einnig er í 1. mgr. 16. gr. laganna svohljóðandi ákvæði:
„Gögn undanþegin upplýsingarétti. Réttur aðila máls til aðgangs að gögnum tekur ekki til [...]: 3. Vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Þó á aðili aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá.“
Ennfremur segir í 2. mgr. sömu greinar:
„Ef það sem greinir í 1. mgr. á aðeins við um hluta skjals skal veita aðila aðgang að öðru efni skjalsins.“
Þá er í 17. gr. laganna svohljóðandi ákvæði:
„Takmörkun á upplýsingarétti. Þegar sérstaklega stendur á er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum […]“
Í athugasemdum við 16. gr. segir m.a.: „Þótt gert sé ráð fyrir því sem meginreglu að aðili hafi aðgang að gögnum máls eru hér settar fram nokkrar mikilvægar undantekningar frá þeirri reglu. Í þessari grein er að finna tæmandi upptalningu á þeim gögnum sem undanskilin eru. Að auki geta stjórnvöld, undir vissum kringumstæðum, takmarkað aðgang aðila að gögnum máls, sbr. 17. gr. [...] Í þriðja lagi eru undanskilin vinnuskjöl sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota við meðferð máls. Þessi skjöl eru liður í ákvarðanatöku um mál og hafa oft að geyma vangaveltur um mál, uppkast að svari eða útskýringar á staðreyndum og kunna síðar að breytast við nánari skoðun. Hafi vinnuskjöl hins vegar að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar, sem ekki verður aflað annars staðar frá, á aðili aðgang að skjölunum eða hluta þeirra, sbr. 2. mgr. Ef sjónarmið um gagnaleynd eiga við um hluta skjals er kveðið á um það í 2. mgr. að veita skuli málsaðila aðgang að öðrum hlutum skjalsins.“
Í athugasemdum við 17. gr. segir m.a.: „Í þessari grein er fjallað um heimild stjórnvalds til þess að takmarka aðgang málsaðila að gögnum máls vegna ríkra almannahagsmuna, einkahagsmuna eða með tilliti til aðila sjálfs, þar á meðal ef lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga standa í vegi fyrir aðgangi að gögnunum. Á það ber að leggja ríka áherslu að líta ber á þetta heimildarákvæði sem þrönga undantekningarreglu, sbr. orðalagið„“þegar sérstaklega stendur á“, því að meginreglan er sú að málsaðili hefur rétt á því að kynna sér málsgögn. Við mat á því hvort heimildinni skuli beitt þarf að vega það og meta hvort hagsmunir málsaðila af því að fá aðgang að gögnunum séu ríkari en þeir almanna- og einkahagsmunir sem kalla á að takmarka þann aðgang. Hér koma t.d. til skoðunar öryggis- og viðskiptahagmunir ríkisins, svo og samskipti þess við erlend ríki og alþjóða- og fjölþjóðastofnanir, einnig tillit til einstaklinga eða lögaðila sem hafa verulega hagsmuni af því að upplýsingar, er þá varða, fari leynt. Í greininni kemur einnig fram að reglan um aðgang að gögnum máls raskar ekki rétti manna samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989“ Sjá nú lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Eins og gerð er grein fyrir í framangreindum athugasemdum er regla 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þröng undantekningarregla frá meginreglu 1. mgr. 15. gr. laganna, sbr. orðalag fyrrnefnda ákvæðisins „Þegar sérstaklega stendur á [...]“og athugasemdir við það. Samkvæmt 17. gr. á aðili ekki rétt á gögnum „ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.“ Eigi takmörkun á upplýsingarétti samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 aðeins við um hluta gagns verður að taka til skoðunar hvort aðili eigi rétt á því að fá aðgang að öðrum hlutum skjalsins, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í þessu sambandi má einnig hafa hliðsjón af athugasemdum við 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þó minna þurfi til svo upplýsingaréttur sé takmarkaður samkvæmt því ákvæði en 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV. Ákvörðun Byggðastofnunar um synjun beiðni um afhendingu umkrafðra gagna var byggð á því að um væri að ræða vinnuskjöl í skilningi ákvæðis 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ráðuneytinu hefur verið afhent ljósrit af því matsblaði sem deilt er um í þessu máli. Umrætt matsblað hefur að geyma upplýsingar sem Byggðastofnun byggði á endanlega ákvörðun sína í málinu og verður ekki aflað annars staðar frá, sbr. 2. málsl. 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar litið er til þess er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé um að ræða vinnuskjal í skilningi 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem heimilt sé að synja um afhendingu á.
Einnig er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá upplýsingar um mat á umsókn sinni og umsóknum annarra aðila sem sóttu um aflamark Byggðastofnunar samkvæmt 10. gr. a laga nr 116/2006, m.a. til að geta lagt mat á það hvernig framkvæmd matsins var hagað. Áréttað skal að umsækjendur sem óska eftir að fá úthlutað opinberum gæðum verða að vera undir það búnir að stjórnsýslulög og eftir atvikum upplýsingalög gildi um slíkar úthlutanir. Umbeðin gögn hafa ekki að geyma upplýsingar um mikilvæga almanna- eða einkahagsmuni, þ.m.t. ekki mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra fyrirtækja og annarra lögaðila sem þar er fjallað um ef frá eru taldar upplýsingar um trausta rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda. Það er mat ráðuneytisins að hagsmunir kæranda til aðgangs að þeim upplýsingum í matsblaðinu að því er varðar kæranda sjálfan og þá aðila sem stóðu að umsókn um aflamarkið með kæranda og einnig þá aðila sem fengu úthlutað aflamarki Byggðastofnunar séu ríkari en hagsmunir Byggðastofnunar og þessara umsækjenda af því að umræddar upplýsingar í matsblaðinu fari leynt, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða er það mat ráðuneytisins að ekki séu fyrir hendi þau skilyrði sem koma fram í 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að undanþiggja umrætt skjal aðgangi málsaðila að öðru leyti en því að rétt þykir að afmá úr matsblaðinu upplýsingar um aðra en kæranda, þá aðila sem stóðu að umsókn með kæranda og þá aðila sem fengu úthlutað aflamarki Byggðastofnunar úr reitnum Traust rekstrarsaga forsvarsmanna umsækjenda og undirliðum.
V. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Byggðastofnunar, dags. 27. janúar 2020, um að hafna beiðni kæranda um að fá afhent það afrit af matsblaði sem deilt er um í þessu máli og leggja fyrir Byggðastofnun að afhenda kæranda umrætt afrit af matsblaði en þó þannig að Byggðastofnun er skylt að afmá úr umræddu skjali fjárhagsupplýsingar um aðra en kæranda, þá aðila sem stóðu að umsókn með kæranda og þá aðila sem fengu úthlutað aflamarki Byggðastofnunar úr reitnum Traust rekstrarsaga forsvarsmanna umsækjenda og undirliðum. Ennfremur er það niðurstaða ráðuneytisins að afmá skuli nöfn meðumsækjenda kæranda úr reitnum Traust rekstrarsaga forsvarsmanna umsækjenda og undirliðum.
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.
Úrskurður
Ákvörðun Byggðastofnunar, dags. 27. janúar 2020, um að hafna beiðni [C ehf.] um afhendingu afrits af matsblaði vegna umsóknar félagsins um úthlutun aflamarks samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er felld úr gildi.
Lagt er fyrir Byggðastofnun að afhenda kæranda, [C ehf.], umbeðið afrit af matsblaði en þó þannig að Byggðastofnun er skylt að afmá úr umræddu skjali fjárhagsupplýsingar um aðra en kæranda, þá aðila sem stóðu að umsókn með kæranda og þá aðila sem fengu úthlutað aflamarki Byggðastofnunar úr reitnum Traust rekstrarsaga forsvarsmanna umsækjenda og undirliðum. Afmá skal nöfn meðumsækjenda kæranda úr reitnum Traust rekstrarsaga forsvarsmanna umsækjenda og undirliðum.