Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta.
Stjórnsýslukæra
Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A, lögmanns] f.h. [B hf.], dags. 2. júní 2022, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].
Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Kröfur kæranda
Kærandi krefst þess að breytt verði auglýsingu nr. 505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um (1.) breytingu á þeirri auglýsingu, að því er varðar Tálknafjörð, til samræmis við tillögur Tálknafjarðarhrepps sem samþykktar voru á fundi sveitarstjórnar 20. janúar 2022 og sendar voru ráðuneytinu með bréfi, dags. sama dag. Í kröfunni felst efnislega að þess er krafist að fellt verði brott úr auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, ákvæði um að skylt sé að landa afla sem telja á til byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022 og að sett verði þar nýtt ákvæði um að fella brott vinnsluskyldu á Tálknafirði fyrir fiskveiðiárið 2021/2022. Einnig er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins á grundvelli breyttrar auglýsingar í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 4. maí 2022, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Umsóknarfrestur var til og með 18. maí 2022. Matvælaráðuneytið hafði þá úthlutað 300 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Tálknafjarðarhrepps samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, sem komu öll í hlut byggðarlagsins Tálknafjarðar. Úthlutunin var tilkynnt Tálknafjarðarhreppi með bréfi, dags. 21. desember 2021.
Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [C] með umsókn til Fiskistofu, dags. 18. maí 2022.
Hinn 20. maí 2022 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að úthlutað hefði verið tilteknu magni af byggðakvóta til bátsins [C]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022.
Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til matvælaráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina.
Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð
Með stjórnsýslukæru, dags. 2. júní 2022, kærði [A], lögmaður f.h. [B ehf.], til matvælaráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].
Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi vísi til þess hluta ákvörðunar Fiskistofu sem byggi á auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um breytingu þeirri auglýsingu, þar sem komi fram að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu, á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Að áliti kæranda skorti stoð í lögum nr. 116/2006 og reglugerð nr. 995/2021 til þess að ákvarða að kæranda sé skylt að landa afla í öðru byggðarlagi en hlutaðeigandi byggðarlagi. Tálknafjarðarhreppur sé sérstakt byggðarlag og sveitarfélag að lögum. Þá sé minnt á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Í Súðavíkurhreppi líkt og í Tálknafjarðarhreppi sé ekki starfandi fiskvinnsla. Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hafi lagt til líkt og sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps, að ráðherra felldi niður vinnsluskyldu afla í byggðarlaginu við úthlutun byggðakvóta. Í tilviki Súðavíkurhrepps hafi ráðherra samþykkt tillöguna en í tilviki Tálknafjarðarhrepps hafi tillögunni verið hafnað og rétthöfum til byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps gert að landa byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps í öðru byggðarlagi.
Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Bréf Fiskistofu, dags. 20. maí 2022.
Með bréfi, dags. 10. júní 2022, sendi lögmaður kæranda frekari athugasemdir með stjórnsýslukærunni. Þar er vísað til bréfs tiltekinnar fiskvinnslu á Patreksfirði, dags. 4. febrúar 2022, sem sent hafi verið ráðuneytinu þegar tillögur sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps, dags. 20. janúar 2022, voru auglýstar á vef ráðuneytisins, sbr. 4. málsl. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Í bréfinu sé vísað til bréfs sama fyrirtækis, dags. 11. febrúar 2021. Tekið sé fram að þetta sé sama bréf og sent hafi verið í fyrra en ekkert hafi breyst varðandi forsendur fyrir auglýsingu um sérreglur fyrir Tálknafjarðarhrepp. Kæranda sé ekki ljóst hvort og þá hvaða áhrif þetta bréf umræddrar fiskvinnslu hafi haft þegar ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um sérreglur fyrir Tálknafjarðarhrepp með auglýsingu, dags. 4. maí 2022. Ekki sé rétt að forsendur hafi ekki breyst (að því gefnu að verið sé að vísa til aflaverðmætis samanborið við markaðsverð og fjölda starfsmanna sem hafi lögheimili á Tálknafirði). Ef ráðuneytið hafi litið til bréfs umræddrar fiskvinnslu þegar það hafi gengið fram hjá afstöðu Tálknafjarðarhrepps sem kom fram í bréfi sveitarfélagsins, dags. 20. janúar 2022, hefði ráðuneytinu borið að rannsaka/afla upplýsinga um breytingar á forsendum milli tímabilsins febrúar 2021 og febrúar 2022. Einnig vísi kærandi til bréfs annars útgerðaraðila á Tálknafirði, dags. 3. febrúar 2022, þar sem komi fram að ekkert mæli gegn því að bátur umrædds aðila landi afla til byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps hjá umræddri vinnslu á Patreksfirði, þó ráðuneytið hefði samþykkt afstöðu sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps. Umræddur aðili hafi að lögum enga aðkomu að tillögugerð til ráðuneytisins um ráðstöfun byggðakvóta til Tálknafjarðarhrepps. Ein fiskvinnsla sé í Vestur-Barðastrandarsýslu, það sé umrædd fiskvinnsla á Patreksfirði. Ráðuneytið hefði því allt eins getað tekið það fram í auglýsingu frá 4. maí 2022 að fiskiskipum, sem landi afla sem telja eigi til byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn sé skylt að landa þeim afla hjá umræddri vinnslu á Patreksfirði. Í skjali sem á vef ráðuneytisins sé nefnt „Sundurliðun á úthlutun byggðakvóta til einstakra byggðarlaga 2021/2022“komi fram tilgreining á 52 byggðarlögum sem fái úthlutað byggðakvóta. Sundurliðunin byggi á 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 en reglugerðarákvæðið sé sett með vísan til lagaheimildar 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 komi fram að skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta sé að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja eigi til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Í 3. gr. reglugerðar nr. 995/2021 komi fram að ráðuneytið skuli leita eftir afstöðu sveitarstjórna til þess hvort þær óski eftir að setja sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflamarksins innan einstakra byggðarlaga. Sveitarstjórnir skuli hafa fjögurra vikna frest til að senda ráðuneytinu tillögur sínar, á því formi sem ráðuneytið leggur til. Matvælaráðuneytið virðist hafa túlkað ofangreint ákvæði á þann veg að ráðuneytið geti veitt undanþágu frá þeirri skyldu að vinnsla afla sem falli undir byggðakvóta fari fram innan hlutaðeigandi byggðarlags, þó þannig að vinnsluskylda falli niður. Ekki verði séð hvar ráðuneytið sæki þá heimild að ákvarða að fiskafli, sem telja eigi til byggðakvóta Tálknafjarðar, skuli unninn í öðru byggðarlagi, sem sé með eina starfandi fiskvinnslu. Afstaða Tálknafjarðarhrepps hafi verið að óska eftir að ráðuneytið felldi niður vinnsluskyldu, líkt og ráðuneytið hafi iðulega gert þegar engin fiskvinnsla sé í byggðarlagi sem fái úthlutað byggðakvóta. Það sé því ákvörðun þeirra aðila sem fái úthlutað byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps hvort þeir landi afla hjá umræddri fiskvinnslu á Patreksfirði eða annarri fiskvinnslu sem mögulega greiði hærra verð en umrædd fiskvinnsla. Þess sé krafist að matvælaráðuneytið breyti auglýsingu sinni til samræmis við afstöðu Tálknafjarðarhrepps og geri Fiskistofu að breyta ákvörðun sinni, dags. 20. maí 2022, til samræmis við breytta auglýsingu matvælaráðuneytisins.
Með tölvubréfi, dags. 1. júní 2022, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
Í umsögn Fiskistofu, dags. 28. júní 2022, segir að af kærunni megi ráða að kærandi telji að ráðherra hafi skort stoð í lögum og reglugerð til að ákvarða að afla sem telja eigi sem mótframlag til byggðakvóta skuli landað í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu innan byggðarlaga Vestur-Barðastrandarsýslu með auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022. Einnig beinist efni kærunnar að því að ráðherra hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins með því að synja beiðni Tálknafjarðarhrepps um að afnema vinnsluskyldu í byggðarlaginu við úthlutun byggðakvóta en samþykkja slíka undanþágu í öðrum byggðarlögum. Auglýsing um sérreglur sveitarfélaga sé birt í B-deild Stjórnartíðinda og séu bindandi stjórnvaldsfyrirmæli sem ráðherra setji í samráði við viðeigandi sveitarfélag. Reglurnar skuli byggja á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og vera í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Fiskistofa komi ekki að undirbúningi slíkra stjórnvaldsfyrirmæla né sé forsagan birt með auglýsingunni eða þau málefnalegu sjónarmið sem liggi að baki sérreglunum. Fiskistofa telji sig ekki hafa forsendur til að kanna hvort ráðherra hafi farið út fyrir valdmörk sín með setningu auglýsingarinnar né hafi stofnunin lagt sérstakt mat á það hvort reglurnar standist meginreglur stjórnsýsluréttar, s.s. jafnræðisregluna enda séu aðstæður mismunandi í sveitarfélögum sem geti réttlætt mismunandi sérreglur. Þar sem stjórnsýslukæran beinist eingöngu að efni sérreglnanna og málsmeðferð ráðuneytisins við setningu þeirra en ekki ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta, muni stofnunin ekki fjalla frekar um kæruna.
Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022. 2) Yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fiskveiðiárið 2021/2022, dags. 20. maí 2022.
Með tölvubréfi, dags. 29. júní 2022, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til lögmanns kæranda og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 14. júlí 2022.
Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá lögmanni kæranda f.h. [B ehf.] við framangreinda umsögn Fiskistofu.
Rökstuðningur
I. Kæruheimild samkvæmt 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 gildir eingöngu um ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa og höfnun slíkra umsókna. Einnig er það meginregla í íslenskum rétti að ekki er hægt að kæra setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla með stjórnsýslukæru og ber að vísa frá kærum sem eingöngu varða það efni. M.a. gildir kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eingöngu um stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, þ.e. þegar teknar eru ákvarðanir um rétt eða skyldu manna en ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.
Það er mat ráðuneytisins að málsástæður í stjórnsýslukæru í máli þessu varði að hluta aðeins lögmæti ákvæða auglýsingar nr. 505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um (1.) breytingu á þeirri auglýsingu, að því er varðar Tálknafjörð. Kæran beinist hins vegar jafnframt að tiltekinni ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til bátsins [C] en umrædd ákvörðun er kæranleg til matvælaráðuneytisins samkvæmt framangreindu ákvæði 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Kæran barst innan lögboðsins kærufrests.
Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið ekki ástæðu til að vísa frá kæruefni í kærunni og verður hún tekin til efnismeðferðar.
II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 1. mgr. kemur fram að á hverju fiskveiðiári sé ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laganna sem hér segir: 1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. 2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig: a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.
Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022, sem eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
Þá koma fram í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi. Í lagaákvæðinu segir að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Í ákvæði reglugerðarinnar segir m.a. að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022.
Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Einnig kemur fram í 7. mgr. 10. gr. laganna að ráðherra sé heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá skilyrðum um löndun mótframlags enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Sambærileg ákvæði eru í 2. og 7. gr. reglugerðar nr. 995/2021.
Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu nr. 505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um (1.) breytingu á þeirri auglýsingu. Þar kemur fram m.a. að fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu en þau hafa að öðru leyti ekki áhrif á úrlausn þessa máls.
Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022.
III. Báturinn [C] hafði leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests og uppfyllt voru önnur skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021 fyrir úthlutun byggðakvóta til bátsins. Báturinn fékk úthlutað tilteknu magni af byggðakvóta á grundvelli þeirra viðmiðana sem koma fram í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022 og eru ekki gerðar athugasemdir í stjórnsýslukærunni við útreikning þess magns sem úthlutað var til bátsins. Kæruefnið er byggt á því að ráðuneytið féllst ekki á tillögu Tálknafjarðarhrepps að sérreglum til grundvallar úthlutun byggðakvóta um afnám vinnsluskyldu við löndun mótframlags byggðakvóta í byggðarlaginu samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps 20. janúar 2022 og tilkynnt var ráðuneytinu með bréfi, dags. sama dag. Þess í stað setti ráðuneytið nýtt ákvæði í auglýsingu nr. 505/2022 en þar kemur fram að ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: „Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu, á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022.“ Ráðuneytið taldi umrædda tillögu sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps ekki vera byggða á málefnalegum og staðbundnum ástæðum, sbr. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 7. gr. reglugerðar nr. 995/2021. Ráðuneytið samþykkti hins vegar aðrar tillögur sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem birtar voru með auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022 og gerð er grein fyrir hér að framan.
Kærandi telur að ákvæði auglýsingar nr. 505/2022, sbr. auglýsingar nr. 522/2022 um breytingu á þeirri auglýsingu um skyldu til löndunar mótframlags byggðakvóta innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu hafi ekki stoð í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Ráðuneytið byggði þetta ákvæði auglýsingarinnar á því að um væri að ræða sama vinnusóknarsvæði.
Úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi byggir á þeim reglum sem birtar voru með auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022.
Þær reglur sem gilda um úthlutun og taldar eru upp hér að framan eru þær reglur sem miða ber við þegar teknar eru ákvarðanir um úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði. Tillögur sveitarstjórnar sem hafa ekki verið samþykktar hafa ekki gildi sem stjórnvaldsfyrirmæli birt í B-deild Stjórnartíðinda. Bar Fiskistofu því við úthlutun að miða við almenn skilyrði í reglugerð nr. 995/2021 auk sérstakra skilyrða sem koma fram í auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022.
Úthlutun byggðakvóta byggir á því að um sé að ræða ráðstöfun aflaheimilda til að efla atvinnu- og búsetuskilyrði í byggðarlögum landsins.
Meginreglan er sú að afla skuli landað til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021.
Setning umrædds ákvæðis með auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022 er ekki kæranleg til ráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að ákvæði laganna gildi ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla.
Kröfu kæranda sem beinist að því að umræddu ákvæði auglýsingar nr. 505/2022, sbr. auglýsingar nr. 522/2022 verði breytt er því vísað frá.
Þar sem ákvæði auglýsingar nr. 505/2022, sbr. auglýsingar nr. 522/2022, varðar ekki hina kærðu ákvörðun, dags. 20. maí 2022, um úthlutun aflaheimilda til báts kæranda, heldur skilyrði sem kærandi verður að uppfylla til að fá úthlutaðar aflaheimildar afhentar og skráðar á bátinn [C], hefur það ekki áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar, dags. 20. maí 2022.
Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á úrlausn þessa máls.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] en samkvæmt því er hafnað kröfu kæranda um það efni.
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.
Úrskurður
Kröfu kæranda, [B ehf.], um að breytt verði auglýsingu nr. 505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022, um breytingu á þeirri auglýsingu, á þann veg að felld verði niður skylda til vinnslu afla sem telja á til byggðakvóta innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu, er vísað frá.
Kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C], er hafnað.
Þá er kröfu kæranda um að lagt verði fyrir Fiskistofu að taka málið aftur til meðferðar hafnað.