Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um leyfi til sæbjúgnaveiða.

Stjórnarsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 10. september 2021, frá [A], þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, um að hafna umsókn hans um leyfi til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022 fyrir skipið [B].

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, um að hafna umsókn hans um leyfi til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022 fyrir skipið [B].

Einnig var þess krafist að ráðuneytið frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar en þar segir m.a. að kærandi fari því fram á við ráðuneytið að það endurskoði ákvörðun Fiskistofu um að hafna því að [B] fái leyfi og dragi til baka hið útgefna leyfi enda hafi hlutkestið sem haldið var verið ólögmætt þar sem [B] hafi uppfyllt kröfur reglugerðar um veitt magn sem veiti skipinu forgang umfram önnur skip sem voru í hlutkestinu. Þess sé því krafist að ráðuneytið frysti níunda leyfið til veiða á sæbjúgum nú þegar þar til afgreiðslu á stjórnsýslukærunni sé lokið og kærandi hafi að öðru leyti nýtt þá lagaramma sem hann hafi. Kærufrestur sé þrír mánuðir og óeðlilegt sé að veita leyfið svo seint á fiskveiðiárinu og sé vafasamt fyrir viðkomandi aðila sem fái úthlutað leyfinu að hefja veiðar áður en fyrirliggjandi sé úrlausn um hvort rétt ákvörðun hafi verið tekin. Kærandi telji úthlutunina ekki í samræmi við reglugerð nr. 741/2019, um veiðar á sæbjúgum og beri því að ógilda úthlutunina og endurúthluta níunda leyfinu á skipið [B].

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að Fiskistofa auglýsti eftir umsóknum um leyfi til sæbjúgnaveiða 13. ágúst 2021, á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is í samræmi við 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 741/2021, um veiðar á sæbjúgum. Umsóknarfrestur var til og með 22. ágúst 2021, sem var almennur frídagur þannig að fresturinn var til og með 23. ágúst 2021.

Kærandi sótti upphaflega um leyfi til veiða á sæbjúgum 20. ágúst 2021 en skilaði inn nýrri umsókn 23. ágúst 2021 að beiðni Fiskistofu vegna mistaka sem urðu hjá stofnuninni við skráningu málsins áður en kom að afgreiðslu umsókna. Alls bárust 16 umsóknir og þar af voru 8 skip sem höfðu leyfi til sæbjúgnaveiða samkvæmt reglugerð nr. 741/2019.

Með bréfi Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, var hafnað umsókn kæranda um leyfi til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022. Þar sagði m.a. að í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019 komi fram að Fiskistofa skuli úthluta leyfi til veiða á sæbjúgum að undangenginni umsókn til skipa er stundað hafa veiðar á sæbjúgun á síðustu þremur fiskveiðiárum og alls verði leyfin níu. Hafi færri en níu skip stundað veiðarnar skuli hlutkesti ráða hverjir fái úthlutað þeim leyfum sem ekki verði úthlutað samkvæmt 1. mgr. 3. gr. Alls hafi borist 16 umsóknir og þar af hafi verið átta skip sem njóti forgangs samkvæmt ofangreindu ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019. Leyfi til sæbjúgnaveiða hafi verið úthlutað á þau skip auk þess sem úthlutun eins leyfis hafi verið ákveðin með hlutkesti sem hafi farið fram hjá sýslumanninum á Norðurlandi. Á grundvelli framangreinds sé umsókn kæranda um leyfi til veiða á sæbjúgum til ofangreinds skips hafnað. Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til ráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að kæranda barst umrædd tilkynning.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni í samtali við starfsmenn Fiskistofu 2. september 2021.

Með tölvubréfi, dags. 3. september 2021, svaraði Fiskistofa beiðni kæranda um rökstuðning. Þar var vísað til ákvörðunar Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, þar sem tilkynnt var um ákvörðun stofnunarinnar um að hafna umsókn hans um leyfi til veiða á sæbjúgum. Einnig segir þar að um sæbjúgnaveiðar gildi reglugerð nr. 741/2019. Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar komi fram að veiðar á sæbjúgum í fiskveiðilandhelgi Íslands séu óheimilar en Fiskistofu sé þó heimilt að gefa út leyfi til veiða á ákveðnum svæðum sem skilgreind eru í 2. gr. reglugerðarinnar. Í 3. gr. sé mælt fyrir um reglur um úthlutun leyfanna. Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins komi fram þær forsendur og viðmið sem leggja skuli til grundvallar við úthlutun en þar segi m.a. að Fiskistofa skuli úthluta leyfi til veiða á sæbjúgum að fenginni umsókn. Veiðileyfum skuli úthluta til skipa sem stundað hafi veiðar á sæbjúgum á síðustu þremur fiskveiðiárum. Alls verði leyfin níu. Ef fleiri en níu aðilar hafi stundað veiðarnar, þá skuli þeir sem mestan afla hafi ganga fyrir öðrum við úthlutun. Fiskistofa auglýsi eftir umsóknum fyrir 15. ágúst ár hvert og skuli umsóknarfrestur vera ein vika. Ef færri en níu aðilar hafi stundað veiðarnar, skuli hlutkesti ráða hverjir fái úthlutað þeim leyfum sem ekki verði úthlutað á grundvelli 1. mgr. Skilyrði fyrir útgáfu leyfis til sæbjúgnaveiða sé að skip hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni. Ákvæði 1. mgr. um úthlutun sé ætlað að tryggja forgangsrétt skipa sem þegar stundi veiðarnar og vernda atvinnurétt þeirra sem þannig hafi skapað sér atvinnu með veiðunum. Í 2. mgr. sé mælt fyrir um hvernig skuli úthluta leyfum til skipa sem ekki hafi stundað veiðarnar og ekki hafi myndað rétt til veiðanna umfram aðra. Í þeim tilfellum skuli hlutkesti ráða úthlutun og sé það til að gæta jafnræðis við úthlutun leyfa. Við úthlutun leyfa til veiða á sæbjúgum fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 hafi verið litið til þess hvort skip höfðu stundað veiðarnar á síðustu þremur fiskveiðiárum, sbr. 1. mgr. 3. gr. Sá skilningur hafi verið lagður í hugtakið „að stunda veiðar“að skip hafi haft til þess tilskilin leyfi og landað afla sem veiddur hafi verið á grundvelli leyfanna. Átta skip hafi uppfyllt það skilyrði. Eitt leyfi hafi verið eftir til úthlutunar til skips sem ekki hafði stundað veiðarnar og hafi verið dregið um hvaða skip hafi fengið það leyfi hjá sýslumanninum á Norðurlandi. Öll skip sem ekki höfðu stundað veiðarnar hafi staðið jafnt gagnvart því þar sem ekki sé mælt fyrir um að litið skuli til aflamagns í þeim tilfellum. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 741/2019 sé óheimilt að veiða sæbjúgu án sérstaks leyfis. [B] sé með skráða löndun á einu kg af sæbjúgum á fiskveiðiárinu 2019/2020. Skipið hafi ekki haft leyfi til veiða á sæbjúgum það fiskveiðiár og hafi því veiðarnar verið án tilskilinna leyfa. Sæbjúgnaafli skipsins falli því undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, sbr. b-lið 1. mgr. ákvæðisins, en þar segi að ólögmætur sé sá afli sem fenginn sé án þess að tilskilin leyfi hafi verið fyrir hendi. Í ljósi þess að [B] hafi ekki verið með leyfi til veiða á sæbjúgum og hafi ekki landað afla á grundvelli leyfis hafi ekki verið talið að skipið hefði stundað veiðarnar á síðustu þremur fiskveiðiárum í skilningi reglugerðarinnar. Þá hafi afli skipsins verið óverulegur og veiddur án tilskilinna leyfa. [B] hafi því fallið undir úthlutun samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Hlutkesti hafi ráðið því hvaða skip hafi fengið úthlutað því leyfi sem í boði hafi verið að úthluta.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 10. september 2021, kærði [A] framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, til ráðuneytisins. Í stjórnsýslukæru er hinni kærðu ákvörðun mótmælt og farið fram á að því veiðileyfi sem hafi verið óráðstafað verði úthlutað til skipsins [B].

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 741/2019 og í forverum þeirrar reglugerðar hafi komið skýrt fram að úthlutun leyfa skuli fara fram eftir því magni sem landað hafi verið á síðustu þremur fiskveiðiárum. Hvergi komi fram að nauðsynlegt sé fyrir skip að hafa leyfi til veiða á sæbjúgum til að afli sé talinn með enda sé í 4. gr. reglugerðarinnar veitt heimild til að veiða sæbjúgu til tilrauna og sé þar þess ekki krafist að skip hafi virkt sæbjúgnaveiðileyfi. Meðafli sé hvergi skilgreindur sérstaklega né undanskilinn í reglugerðinni sem afli sem miðað geti verið við. Reglugerðin útiloki því ekki að meðafli sé talinn sem afli sem miða eigi við. Afla þeim sem [B] hafi komið með að landi hafi verið landað í samræmi við lög og reglur en um hafi verið að ræða afla sem hafi verið skaddaður og því skylda að koma með hann að landi. Aflinn hafi verið vigtaður og skráður í samræmi við gildandi reglur, eins og sjáist á meðfylgjandi útprentun af vefsíðu Fiskistofu. Þar komi fram að bátur kæranda hafi á tímabilinu 1. september 2018 - 31. ágúst 2021 veitt eitt kg af sæbjúgum. Því sé mótmælt að um ólögmætan sjávarafla sé að ræða enda séu sæbjúgu ekki í kvóta og eingöngu skilyrði að vera með sæbjúgnaveiðileyfi til að stunda sæbjúgnaveiðar sem aðalveiði, ekkert sé fjallað um skráningu meðafla með öðrum veiðum og ekkert sem bendi til þess að óheimilt sé að koma með sæbjúgu að landi sem meðafla. Það sé því rangt að um sé að ræða ólögmætan sjávarafla enda hafi ekkert bréf eða tilkynning komið frá Fiskistofu eftir að aflanum hafi verið réttilega landað og hann skráður. Ef meðafli eigi ekki að telja í aflatölum væri eðlilegt að það komi fram í reglugerð enda eigi að meta vafa borgurum landsins í hag. Samkvæmt reglugerð nr. 741/2019 beri að veita leyfi til veiða á sæbjúgum eftir því magni sem veitt hafi verið síðastliðin þrjú fiskveiðiár. [B] sé með skráðan afla upp á eitt kg og sé aflahæstur þeirra báta sem sótt hafi um fyrir utan átta aðra sem hafi þegar fengið leyfi. Samkvæmt því eigi [B] rétt á úthlutun níunda leyfisins miðað við forsendur reglugerðarinnar. Í rökstuðningi Fiskistofu hafi verið reynt að draga úr rétti kæranda með því að gera lítið úr veiðiskap kæranda og því verið haldið fram að aflinn sem kærandi kom með að landi væri óverulegur en það eigi ekki að skipta máli enda sé í reglugerð aðeins fjallað um að veita leyfin út frá magni en ekki sé þar fjallað um lágmarksmagn. Í skriflegu svari Fiskistofu hafi sá skilningur verið lagður í hugtakið að stunda veiðar að skip hafi haft til þess tilskilin leyfi og landað afla sem veiddur hafi verið á grundvelli leyfanna. Með þessu sé stofnunin að veitast gegn rétti kæranda enda sé þetta hugtak með þeim hætti að vafi sé um hvað nákvæmlega sé átt við, í því tilfelli sé eðlilegt að vafi sé skýrður umsækjanda í hag sem sannarlega hafði landað magni af sæbjúgum sem hafi verið skráð af hálfu Fiskistofu og uppfylli aðalskilyrði úthlutunar sem sé veitt magn. Ekkert bendi til þess að það að stunda veiðar geti ekki einnig átt við um veiði sæbjúgna sem meðafla. Grunnurinn sé sá að [B] hafi sannarlega veitt eitt kg af sæbjúgum sem hafi verið landað og skráð. Í reglugerð nr. 741/2019 sé hvergi fjallað um lágmark afla og því telji 1.000 gr. í níunda sæti jafn mikið og 1.000 kg. í níunda sæti. Niðurstaðan eigi að vera sú að úthluta sæbjúgnaveiðileyfi í samræmi við magn en þar sé [B] í níunda sæti af þeim bátum sem sótt hafi um sæbjúgnaveiðileyfi. Kærandi fari því fram á að ráðuneytið endurskoði ákvörðun Fiskistofu um að hafna því að [B] fái leyfi til sæbjúgnaveiða og dragi til baka hið útgefna leyfi enda hafi hlutkestið verið ólögmætt þar sem [B] hafi uppfyllt kröfur reglugerðar um veitt magn sem veiti skipinu forgang umfram önnur skip sem hafi verið í hlutkestinu. Til vara óski kærandi eftir því að ráðuneytið frysti hið níunda leyfi nú þegar á meðan kærandi geti nýtt þá lagaramma sem hann hafi. Óeðlilegt sé að veita leyfið svo seint á fiskveiðiárinu og leyfa aðila sem fái leyfið við vafasamar aðstæður að hefja veiðar áður en ljóst sé hvort rétt ákvörðun hafi verið tekin. Kærufrestur sé þrír mánuðir og óeðlilegt sé að hinn óréttmæti handhafi leyfisins geti byrjað að stunda veiðar áður en þessi mál séu til lykta leidd. Úthlutunin hafi ekki verið í samræmi við reglugerðina og beri því að ógilda úthlutunina sem framkvæmd hafi verið og endurúthluta níunda leyfinu á skipið [B].

Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.

Með tölvubréfi, dags. 14. september 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið og einnig staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með bréfi, dags. 1. október 2021, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um málið. Þar segir m.a. að í 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019 sé fjallað um úthlutun leyfa til veiða á sæbjúgum. Kæran lúti að því að Fiskistofa hafi ekki farið að umræddu ákvæði við úthlutun leyfa til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022. Einnig er þar gerð grein fyrir efni ákvæðisins og lagaheimild í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ennfremur kemur þar fram að Fiskistofa hafi auglýst eftir umsóknum um leyfi til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022 13. ágúst 2021 á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019. Umsóknarfrestur hafi verið til og með 22. ágúst 2021 sem hafi verið almennur frídagur þannig að fresturinn hafi verið til og með 23. ágúst 2021. Kærandi hafi upphaflega sótt um leyfi til veiða á sæbjúgum 20. ágúst 2021 en skilað inn nýrri umsókn 23. ágúst 2021 að beiðni Fiskistofu vegna mistaka sem urðu hjá stofnuninni við skráningu málsins áður en kom að afgreiðslu umsókna. Umsókn kæranda um leyfi til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022 hafi verið hafnað 30. ágúst 2021. Þá kemur þar fram að sæbjúgnaveiðar séu einungis heimilar þeim skipum sem hafi til þess sérstakt leyfi Fiskistofu á skilgreindum svæðum og einungis sé heimilt að veiða sæbjúgu með plóg, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Skip kæranda, [B], hafi verið á strandveiðum 21. júlí 2020 þegar skipið hafi landað einu kg af sæbjúga. Óumdeilt sé að skipið hafi ekki haft leyfi til veiða á sæbjúgum á umræddum tíma og skip kæranda hafi ekki verið við veiðar innan þeirra þriggja veiðisvæða sem kveðið sé á um í reglugerð nr. 741/2019. Auk þess sem á strandveiðum séu veiðar stundaðar með handfærum samkvæmt 2. gr. og 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 364/2020, um strandveiðar fiskveiðiárið 2019/2020. Þau skip sem áttu rétt til að fá úthlutað leyfi til veiða á sæbjúgum samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019 hafi verið þau skip sem höfðu stundað veiðar á sæbjúgum, þ.e. með leyfi, á þeim svæðum sem reglugerðin skilgreini og veiddu sæbjúgu með plóg. Fiskistofa telji að óheimilar veiðar á sæbjúgum, þ.e. veiðar án leyfis og ekki á þeim svæðum sem tilgreind séu í reglugerð nr. 741/2019, með öðrum veiðarfærum en reglugerðin geri ráð fyrir, geti talist fela í sér að stunda veiðar á sæbjúgum. Af þeirri ástæðu hafi kærandi ekki getað byggt rétt sinn til leyfis til veiða á sæbjúgum á 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019 til jafns við þau skip sem höfðu stundað veiðarnar á grundvelli tilskilins leyfis. Umsókn kæranda hafi því verið tekin til meðferðar á grundvelli 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Að öðru leyti sé vísað til rökstuðnings fyrir ákvörðun Fiskistofu sem sendur hafi verið kæranda með tölvubréfi, dags. 3. september 2021. Með hliðsjón af framangreindu telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Eftirtalin gögn fylgdu framangreindri umsögn Fiskistofu: 1) Auglýsing á vefsíðu Fiskistofu, dags. 13. ágúst 2021. 2) Umsókn [A] f.h. [B], dags. 23. ágúst 2021. 3) Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um leyfi til veiða á sæbjúgum, dags. 30. ágúst 2021. 4) Löndun á einu kg af sæbjúgum af bátnum [B], dags. 21. júlí 2020, upplýsingar af vefsíðu Fiskistofu. 5) Útprentun úr aflaskráningarkerfi Fiskistofu (GAFL), vegna löndunar skipsins [B] 21. júlí 2020. Hafnarsjóður Þorlákshafnar, vigtun á sæbjúga. 6) Útprentun úr aflaskráningarkerfi Fiskistofu (GAFL), vegna löndunar skipsins [B] 21. júlí 2020, Fiskmarkaður Íslands hf., sá afli veiðiferðarinnar sem fór á markað. 7) Ferill skipsins [B]), dags. 21. júlí 2020. 8) Rökstuðningur fyrir ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, sendur í tölvupósti til kæranda, dags. 3. september 2021.

Með tölvubréfi, dags. 5. október 2021 sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu og veitti honum kost á að gera athugasemdir við hana. Frestur til þess var veittur til og með 25. október 2021.

Engar athugasemdir bárust frá kæranda við framangreinda umsögn Fiskistofu.

 

 

Rökstuðningur

I.  Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kærufrestur þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn kæranda um leyfi til veiða á sæbjúgum er dags. 30. ágúst 2021. Einnig var kæranda sendur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni með tölvubréfi, dags. 3. september 2021, en þá hófst kærufestur, sbr. 3. mgr. 27. gr. laganna. Kæra í máli þessu barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 10. september 2021. Kæran telst því komin fram innan tilskilins frests.

 

II. Í stjórnsýslukærunni er þess krafist að ráðuneytið endurskoði hina kærðu ákvörðun um að hafna umsókn kæranda um leyfi til veiða á sæbjúgum og að úthlutað verði leyfi til skips kæranda. Einnig var þess krafist að ráðuneytið frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, dragi til baka hið útgefna leyfi og frysti umrætt leyfi þar til málinu sé lokið.

Með tölvubréfi, dags. 30. september 2021, hafnaði ráðuneytið beiðni kæranda um að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Í svari ráðuneytisins kom fram að reglugerð nr. 741/2019, um veiðar á sæbjúgum, sé sett með heimild í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í framangreindum lögum sé engin heimild til að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar með þeim hætti sem krafist sé í kæru. Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða ráðuneytisins að hafna beiðni kæranda um að fresta réttaráhrifum í máli þessu.

 

III. Í 1. gr. laga nr. 116/2006 kemur fram að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að ráðherra skuli að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögunum miðast við það magn. Ef tekin er ákvörðun af hálfu ráðherra um að takmarka leyfilegan heildarafla íslenskra skipa úr tilteknum nytjastofni hefur löggjafinn sett viðmið um hvernig takmörkunum ráðherra skuli hagað. Við veiðar á tilteknum nytjastofnum er einstaklingum eða lögaðilum ákveðin hlutdeild í leyfilegum árlegum heildarafla tiltekinna tegunda, sem sæta aflatakmörkunum og helst sú hlutdeild óbreytt milli ára og er í meginatriðum framseljanleg, sbr. 8. gr. laga nr. 116/2006. Einnig kemur fram í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997 að sé talin þörf á að takmarka veiðar á tilteknum nytjastofnum sem ekki er stjórnað með skiptingu heildarafla milli einstakra skipa, sbr. 8. gr. laga nr. 116/2006, geti ráðherra ákveðið að veiðar á tilteknum nytjastofnum eða á tilteknu svæði séu háðar leyfi Fiskistofu. Ráðherra skal í reglugerð kveða á um skilyrði fyrir veitingu slíkra leyfa.

 

IV. Um veiðar á sæbjúgum gilda ákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Veiðum á sæbjúgum er stjórnað með leyfisveitingum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997. Þar kemur fram að sé talin þörf á að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum stofni, óeðlilegan meðafla af öðrum tegundum en veiði beinist að eða önnur óæskileg áhrif veiða geti ráðherra ákveðið að veiðar úr tilteknum nytjastofni eða á tilteknu svæði séu háðar leyfi Fiskistofu. Sama á við ef þörf er á að skipuleggja veiðar úr stofnum sem ekki er stjórnað með skiptingu heildarafla milli einstakra skipa, sbr. 8. gr. laga nr. 116/2006, t.d. vegna óvissu um veiðiþol viðkomandi stofns. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein. Getur ráðherra sett almennar og svæðisbundnar reglur og m.a. ákveðið að leyfin séu bundin við ákveðið svæði og að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði tiltekinn fjöldi skipa, skip sem skráð eru á því svæði, skip af ákveðinni stærð eða gerð eða skip sem áður hafa stundað tilteknar veiðar.

Einnig gildir um veiðarnar reglugerð nr. 741/2019, um veiðar á sæbjúgum, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir að allar veiðar á sæbjúgum í fiskveiðilandhelgi Íslands séu óheimilar. Fiskistofu sé þó heimilt að veita leyfi til veiða samkvæmt 3. gr. á þeim svæðum sem skilgreind eru í 2. gr. Leyfi til sæbjúgnaveiða skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til sæbjúgnaveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra. Í 1. mgr. 2. gr. kemur fram að eingöngu skipum sem fengið hafa leyfi til veiða á sæbjúgum sé heimilt að veiða á svæðum sem þar eru skilgreind og í 2. mgr. kemur fram að ekki sé heimilt að veiða með fleiri en tveimur plógum samstundis á veiðisvæðum sem skilgreind eru í ákvæðinu. Í 3. gr. kemur fram að Fiskistofa skuli úthluta leyfi til veiða á sæbjúgum að fenginni umsókn. Einnig er þar gerð grein fyrir hvaða skilyrði verði að uppfylla til að fá úthlutun og hvaða reglur gildi um framkvæmd úthlutunar. Í 4. gr. kemur fram að ráðherra sé heimilt að veita tímabundin leyfi til tilraunaveiða á sæbjúgum utan veiðisvæða sem skilgreind eru í 2. gr. í samræmi við 13. gr. laga nr. 79/1997. Í umsókn um tilraunaveiðar skuli umsækjandi tilgreina m.a. heiti skips, veiðitímabil og á hvaða tilkynningarskylda reit hann hyggist veiða. Leyfi til tilraunaveiða séu veitt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar. Sama skip geti einungis haft eitt virkt tilraunaveiðileyfi til að veiða sæbjúgu og skuli gildistími þess ekki vera lengri en þrír mánuðir. Sé sótt um nýtt tilraunaveiðileyfi fellur hið fyrra úr gildi við útgáfu þess nýja. Heimilt er að binda leyfi til tilraunaveiða tilteknum skilyrðum, svo sem um hámarksafla, eftirlit Hafrannsóknastofnunar eða Fiskistofu með veiðunum, gerð plógs, greiningu afla og skýrsluskil til Hafrannsóknastofnunar. Ráðherra er heimilt að afturkalla tímabundið leyfi til tilraunaveiða sé ekki farið að skilyrðum leyfisins. Í 5. gr. segir að á hrygningartíma sæbjúgna séu veiðar óheimilar á tilteknum svæðum sem þar eru tilgreind. Í 6. gr. eru ákvæði um plógstærð, lágmarksmöskvastærð netpoka, möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga. Ekki er heimilt að veiða á fleiri en einu veiðisvæði í hverri veiðiferð. Í 7. gr. kemur fram að við vigtun og skráningu á sæbjúgum gildi ákvæði reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla og skal skipstjóri gefa upp veiðisvæði, sbr. 2. og 3. gr., við vigtun afla á hafnarvog. Í 8. gr, eru ákvæði um sviptingu veiðileyfa í 9. gr. eru ákvæði um önnur viðurlög. Þá eru í 10. gr. reglugerðarinnar ákvæði um lagaheimild o.fl.

 

V. Í 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019, um veiðar á sæbjúgum er svohljóðandi ákvæði:

 

„3. gr. Úthlutun leyfa. Fiskistofa skal úthluta leyfi til veiða á sæbjúgum að fenginni umsókn. Veiðileyfum skal úthluta til skipa sem stundað hafa veiðar á sæbjúgum á síðustu þremur fiskveiðiárum. Alls verða leyfin níu. Ef fleiri en níu aðilar hafa stundað veiðarnar, þá skulu þeir sem mestan afla hafa ganga fyrir öðrum við úthlutun. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum fyrir 15. ágúst ár hvert og skal umsóknarfrestur vera ein vika.

Ef færri en níu aðilar hafa stundað veiðarnar, sbr. 1. mgr., þá skal hlutkesti ráða hverjir fá úthlutað þeim leyfum sem ekki verður úthlutað á grundvelli 1. mgr. Skilyrði fyrir útgáfu leyfis til sæbjúgnaveiða er að skip hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Þegar leyfum til veiða á sæbjúgum sem til ráðstöfunar eru hefur ekki verið úthlutað við upphaf fiskveiðiárs skal afstaða tekin til umsókna eftir því sem þær berast Fiskistofu. Berist tvær eða fleiri umsóknir sama dag skal byggja á veiðireynslu við úthlutun leyfa.

Krókaaflamarksbátum sem fá leyfi til veiða á sæbjúgum samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að veiða sæbjúgu með plóg.“

 

Ákvæði 1. mgr. 3. gr. um úthlutun leyfa til sæbjúgnaveiða er ætlað að tryggja forgangsrétt skipa sem þegar stunda veiðarnar og vernda atvinnurétt þeirra sem þannig hafa skapað sér atvinnu með veiðunum. Í 2. mgr. er mælt fyrir um hvernig skuli úthluta leyfum til skipa sem ekki hafa stundað veiðarnar og ekki hafa myndað rétt til veiði umfram aðra. Í þeim tilfellum skal hlutkesti ráða úthlutun og er það til að gæta jafnræðis við úthlutun leyfa.

Við úthlutun leyfa til veiða á sæbjúgum fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 var litið til þess hvort skip höfðu stundað veiðarnar á síðustu þremur fiskveiðiárum, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Sá skilningur var lagður í hugtakið „að stunda veiðar“að skip hafi haft til þess tilskilin leyfi og landað afla sem veiddur hafi verið á grundvelli leyfanna. Átta skip uppfylltu það skilyrði. Eitt leyfi varð eftir til úthlutunar til skips sem ekki hafði stundað veiðarnar og var dregið um hvaða skip fékk það leyfi hjá sýslumanninum á Norðurlandi. Öll skip sem ekki höfðu stundað veiðarnar stóðu jafnt gagnvart því þar sem ekki er mælt fyrir um að litið skuli til aflamagns í þeim tilfellum.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 741/2019, um veiðar á sæbjúgum, er óheimilt að veiða sæbjúgu án sérstaks leyfis. [B] er með skráða löndun á einu kg af sæbjúgum á fiskveiðiárinu 2019/2020. Skipið hafði ekki leyfi til veiða á sæbjúgum það fiskveiðiár og voru því veiðarnar án tilskilinna leyfa. Einnig var aflinn veiddur á öðru svæði en tilgreint er í 2. gr. reglugerðar nr. 741/2019. Sæbjúgnaafli skipsins féll því undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, sbr. b-lið 1. mgr. ákvæðisins, en þar segir að ólögmætur sé sá afli sem fenginn sé án þess að tilskilin leyfi hafi verið fyrir hendi.

Í ljósi þess að skip kæranda, [B], var ekki með leyfi til veiða á sæbjúgum og landaði afla án þess að hafa slíkt leyfi verður ekki talið að skipið hafi stundað veiðarnar á síðustu þremur fiskveiðiárum í skilningi reglugerðarinnar. Einnig var aflinn veiddur á öðru svæði en tilgreint er í 2. gr. reglugerðar nr. 741/2019. Þá var afli skipsins óverulegur og landað án tilskilinna leyfa.

Þegar litið er til þessa verður að telja að um úthlutun til skips kæranda gildi ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2019. Hlutkesti réð því hvaða skip fengu úthlutað því leyfi sem í boði var að úthluta samkvæmt umræddu ákvæði. Úthlutunin kom ekki í hlut skips kæranda. Samkvæmt því eru ekki skilyrði fyrir að fallast á kröfur kæranda í málinu.

Með vísan til ofangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, um að hafna umsókn kæranda, [A], um leyfi til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022 fyrir skipið [B] .

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. ágúst 2021, um að hafna umsókn [A], um leyfi til veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2021/2022 fyrir skipið [B].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta